Hæstiréttur íslands
Mál nr. 147/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit
- Heimvísun
|
|
Þriðjudaginn 3. apríl 2007. |
|
Nr. 147/2007. |
M(Guðmundur Kristjánsson hrl.) gegn K (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjárslit. Heimvísun.
Úrskurður héraðsdóms var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju, þar sem í honum hafði engin afstaða verið tekin til hluta af kröfugerð M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. febrúar 2007, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega „að aðalkrafa hans í héraði verði að fullu og öllu tekin til greina“ en til vara að „hið úrskurðaða eignarhlutfall verði staðfest og þá jafnframt kveðið á um það, að varnaraðili greiði sóknaraðila 5.400.000 krónur auk dráttarvaxta frá 29. apríl 2005 til greiðsludags.“ Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega sýknu af aðalkröfu sóknaraðila en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Koma kröfur hennar því ekki til álita að því marki sem þær ganga lengra en samkvæmt hinum kærða úrskurði.
Mál þetta kom til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 122. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 112. gr. sömu laga, með því að skiptastjóri lagði ágreiningsefni málsaðila í þremur liðum undir dóminn með bréfi 15. desember 2005. Í bréfinu er því lýst að ágreiningur þeirra lúti að skiptingu söluandvirðis fasteignarinnar að [...] í Hafnarfirði, að skiptingu hlutabréfa í KB banka hf. og að kröfu sóknaraðila um að varnaraðili endurgreiði honum helminginn í kaupverði nánar tilgreindra heimilistækja. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila í héraði var kröfugerð hans skipt í þrjá töluliði í samræmi við framangreinda afmörkun á ágreiningsefnum aðila, auk þess sem hann krafðist málskostnaðar. Fyrsti töluliður kröfugerðarinnar laut einungis að ágreiningi aðila um skiptingu söluandvirðis áðurnefndrar fasteignar. Krafðist hann þar aðallega að staðfest yrði að hann hefði átt fasteignina til jafns við varnaraðila og að hann ætti því helming af hreinu söluandvirði hennar „við sölu hennar 29. apríl 2005 miðað við stöðu áhvílandi skulda þann 15. júní 2004“ og að varnaraðila yrði „samkvæmt því gert skylt að greiða honum kr. 6.750.000 með dráttarvöxtum frá 29. apríl 2005 til greiðsludags.“ Varakrafa hans var svohljóðandi: „Til vara undir þessum lið krefst sóknaraðili kr. 4.000.000 auk dráttarvaxta frá 29. apríl 2005 til greiðsludags.“ Til þrautavara krafðist hann á sama hátt „greiðslu kr. 2.505.600“ með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Annar töluliður kröfugerðarinnar laut að skiptingu verðbréfa í Kaupþingi banka hf. og var þar krafist að hann „eigi og fái helming“ umræddra bréfa og helming söluandvirðis þeirra hafi þau verið seld. Í þriðja tölulið kröfugerðarinnar krafðist hann að varnaraðili endurgreiddi sér 148.500 krónur með nánar tilteknum dráttarvöxtum, sem hann taldi vera helming kaupverðs áðurnefndra heimilistækja.
Með úrskurði héraðsdóms 5. maí 2006 var vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila í fyrsta tölulið kröfugerðarinnar vísað frá dómi með þeim rökum að þessar kröfur rúmuðust ekki innan þess ágreiningsefnis, sem skiptastjóri hafði borið undir héraðsdóm. Í dómi Hæstaréttar 6. júní 2006 í málinu nr. 283/2006 var þessum röksemdum hafnað, úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið að fullu til efnismeðferðar.
Í hinum kærða úrskurði var fallist á að íbúðin að [...] svo og önnur íbúð við [...], hafi orðið sameign málsaðila þó að þær hafi báðar verið þinglýstar sem eign varnaraðila. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að eignarhlutdeild sóknaraðila í [...] hafi verið 40%. Í úrskurðinum segir svo að fallist sé á með sóknaraðila að uppgjör aðila miðist við söluandvirði íbúðarinnar 29. apríl 2005 og uppgjör skulda við sama tímamark. Hins vegar sé ekki unnt að taka afstöðu til „fjárkröfu sóknaraðila í aðalkröfu“ þar sem útreikningar á afborgunum og vöxtum á áhvílandi lánum og lausaskuldum liggi ekki fyrir. Í úrskurðinum er hins vegar ekkert vikið að kröfum sóknaraðila í öðrum og þriðja tölulið kröfugerðar hans.
Áður hefur verið gerð grein fyrir kröfugerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti. Í umfjöllun hans um kröfugerð sína í greinargerð til Hæstaréttar er vakin sérstök athygli á því að héraðsdómari virðist í engu hafa tekið afstöðu til annars og þriðja töluliðar í aðalkröfu hans. Er því ljóst að sóknaraðili lítur á þessa töluliði kröfugerðarinnar sem hluta af aðalkröfu sinni þó að þeir séu í raun óháðir skiptingu fyrsta töluliðar kröfugerðarinnar í aðal- og varakröfur. Samkvæmt þessu verður ekki ráðið af málatilbúnaði sóknaraðila, hvorki í héraði né fyrir Hæstarétti, að hann hafi fallið frá þessum kröfum heldur virðist hann krefjast þess að Hæstiréttur taki allar kröfur hans í héraði til greina.
Samkvæmt f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber í dómi að taka rökstudda afstöðu til kröfugerðar aðila og málsástæðna fyrir þeim. Á það einnig við um úrskurði af því tagi sem hér um ræðir, sbr. 4. mgr. 112. gr. sömu laga og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991. Þar sem engin afstaða var tekin til hluta af kröfugerð sóknaraðila í héraði verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. febrúar 2007.
Mál þetta var þingfest 20. janúar 2006 og tekið til úrskurðar 24. janúar sl. Sóknaraðili er M [heimilisfang] en varnaraðili er K [heimilisfang].
Dómkröfur sóknaraðila eru aðallega þær að staðfest verði að sóknaraðili hafi átti íbúðina [...] Hafnarfirði til jafns við varnaraðila og eigi því helming af hreinu söluandvirði íbúðarinnar við sölu hennar 29. apríl 2005 miðað við stöðu áhvílandi skulda þann 15. júní 2004 og að varnaraðila verði samkvæmt því gert skylt að greiða sóknaraðila 6.750.000 krónur með dráttarvöxtum frá 29. apríl 2005 til greiðsludags.
Til vara krefst sóknaraðili þess að varnaraðili greiði sóknaraðila 4.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 29. apríl 2005 til greiðsludags.
Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að varnaraðili greiði 2.505.600 krónur auk dráttarvaxta af 2.100.000 krónum frá 15. júní 2004 til 1. júlí sama ár, af 2.277.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 2.377.600 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár og af 2.505.600 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst sóknaraðili þess að fá helming hlutafjár eða verðbréf þess í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. sem var á nafni varnaraðila við sambúðarslit 15. júní 2004. Hafi þessi eign verið seld krefst hann helmings söluandvirðis auk dráttarvaxta frá söludeginum til greiðsludags. Að auki krefst sóknaraðili þess að honum verði endurgreiddar 148.500 krónur auk dráttarvaxta frá 15. júní 2004 til greiðsludags.
Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili krefst þess að varakröfu og þrautavarakröfu verði vísað frá dómi en að öðru leyti að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Með úrskurði dómsins 5. maí 2006 var vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila vísað frá dómi en með dómi Hæstaréttar 6. júní 2006 í máli númer 283/2006 var frávísunarúrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið að fullu til efnismeðferðar.
I.