Hæstiréttur íslands
Mál nr. 761/2009
Lykilorð
- Bifreið
- Umferðarlög
- Skaðabótamál
- Vátrygging
|
|
Fimmtudaginn 30. september 2010. |
|
Nr. 761/2009.
|
Pálmi Ólafur Árnason (Helgi Birgisson hrl.) gegn Kristbjörgu Önnu Guðmundsdóttur og Sjóvá Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl.) |
Bifreiðir. Umferðalög. Skaðabótamál. Vátrygging.
P krafðist skaðabóta úr hendi K og S vegna tjóns sem hann varð fyrir er snjóflóð féll á bifreið K, sem var kyrrstæð, með þeim afleiðingum að hún færðist til hliðar þannig að P varð á milli hennar og annarrar bifreiðar. P höfðaði mál þetta á hendur K, eiganda bifreiðarinnar, og S, ábyrgðartryggjanda hennar. Talið var að eins og atvikum máls var háttað væru ekki skilyrði til þess að leggja hlutlæga bótaábyrgð á K og S á grundvelli umferðarlaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 2009. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða óskipt honum 9.098.625 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 5. apríl 2006 til 2. ágúst 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Óumdeilt er að bifreiðin UM 149 var kyrrstæð er snjóflóð féll á hana. Samkvæmt gögnum málsins, meðal annars ljósmyndum sem teknar voru á vettvangi, er ekki annað fram komið en að hún hafi vegna snjóflóðs kastast til hliðar á bifreiðina Í 5282 þannig að áfrýjandi varð á milli bifreiðanna með þeim afleiðingum sem lýst er í héraðsdómi. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Pálmi Ólafur Árnason, greiði stefndu Kristbjörgu Önnu Guðmundsdóttur og Sjóvá Almennum tryggingum hf. samtals 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2009.
Mál þetta var höfðað 19. mars 2009 og dómtekið 24. Þ.m.
Stefnandi er Pálmi Ólafur Árnason, Dalbraut 13, Hnífsdal.
Stefndu eru Kristbjörg Anna Guðmundsdóttir, Sunnuhlið 19 C, Akureyri og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmd til greiðslu á 9.098.625 krónum með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 5. apríl 2006 til 2. ágúst 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað en til vara krefjast þau verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Krafa stefnanda á rætur að rekja til slyss sem hann varð fyrir 5. apríl 2006 þegar hann var í útkalli með Björgunarfélagi Ísafjarðar. vegna snjóflóða sem höfðu fallið í Súðarvíkurhlíð. Þegar, eða kl. 15.46, var tilkynnt um slysið til björgunarfélagsins sem gerði lögreglunni á Ísafirði viðvart.
Í skýrslu lögreglu segir: „Björgunarsveitarmenn voru kallaðir út til að aðstoða fólk úr tveimur fólksbifreiðum sem sátu fastar á Súðavíkurhlíðinni milli snjóflóða, rétt innan við veggöngin í Arnarneshamri, milli snjóflóðaskilta 2 og 3. Fjórir björgunarsveitamenn lögðu af stað á björgunarsveitarbifreiðinni Jaki sem er með skráningarnúmerið Í-5282. Björgunarsveitarmennirnir í Í-5282 voru þeir Pálmi Árnason, Hafsteinn Sverrisson, Ari Jóhannsson og Guðjón Flosason. Bifreiðarnar sem voru fastar voru UZ-674 og UM-149. Sigríður Jónsdóttir var ökumaður UZ-674 og Noel Neis Orongan var ökumaður UM-149. Kristbjörg Anna Guðmundsdóttir og Ragna Heiðrún Guðmundsdóttir voru farþegar í UM-149. Á þessum tímapunkti var verið að loka Súðavíkurhlíð, Kirkjubólshlíð og Óshlíð vegna snjóflóðahættu og slæms veðurs þar sem nær ekkert skyggni var og mikil snjókoma. Þegar björgunarsveitarmenn komu að bifreiðunum mun Sigríður hafa verið búin að færa sig yfir í bifreiðina UM-149 og var þar ásamt Noel, Kristbjörgu og Rögnu. Að sögn björgunarsveitarmanna var atburðarásin eftirfarandi: Björgunarsveitarbifreiðin Í-5282 lagði við vinstri hlið UM-149 og fóru Pálmi Árnason og Hafsteinn Sverrisson út um hliðarhurð sem er á hægri hlið Í-5282. Pálmi fór fyrstur út og svo Hafsteinn. Þegar Hafsteinn var nýfarinn út sá hann grjót og snjó falla í átt til þeirra og hann stökk aftur inn í Í-5282. Á sama tíma féll snjóflóð á hægri hlið bifreiðarinnar UM-149 með þeim afleiðingum að hún kastaðist á Í-5282. Pálmi varð á milli bifreiðanna og klemmdi vinstri fót á milli stigbrettis á Í-5282, sem notað er til að stíga upp og inn í bifreiðina, og vinstri hliðar UM-149. Síðar kom í ljós við nánari skoðun að Pálmi hafði lærbrotnað á vinstri fæti, rétt ofan við hné. Pálmi var einnig aumur og marinn á hægri fæti. Pálmi var fastur á milli bifreiðanna og eina leiðin til að losa hann var að bakka Í-5282 og farþegarnir í UM-149 voru einnig færðir í björgunarsveitarbifreiðina. Þá var haldið strax af stað áleiðis til Ísafjarðar og bifreiðarnar UM-149 og UZ-674 skildar eftir . . .“ Frammi liggja ljósmyndir lögreglu af bifreiðinni UM-149 sem sýna skemmdir á vinstra fram- og afturhurð auk afturbrettis og á hægri framhurð; einnig var hægri afturhurð rispuð.
Við skýrslutöku lögreglu er eftirfarandi haft eftir stefnanda: „ . . . Pálmi segir að Jaka hafi verið lagt við vinstri hlið aftari bílsins til að það yrði styttra að ferja fólkið yfir í Jaka. Hann segir að hann hafi farið út úr bifreiðinni og gengið meðfram hlið hennar og haldið í bifreiðina. Pálmi segir að mikill hávaði hafi verið í veðrinu. Hann segir að hann hafi verið kominn við framhurð Jaka þegar ýtt var á hann og bíllinn, sem hafði verið stopp vegna snjóflóðsins, var kominn alveg upp að honum. Pálmi segir að hann hafi lamið í bílinn, hann hafi haldið að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekið afturábak. Hann segir að hann hafi síðan klemmst á milli bifreiðanna, hann segir að þrýstingurinn hafi síðan aukist og snjór hafi komið yfir allt. Pálmi segir að hann hafi þá áttað sig á því að þetta væri snjóflóð að falla þarna niður hlíðina. Pálmi segir að hann hafi verið klemmdur á milli bifreiðanna á báðum fótum. Hann segir að hann hafi fundið bein bresta í vinstra læri og fundið fyrir miklum sársauka. Hann segir að hann hafi klemmst á milli fótstigs neðan við framhurð Jaka 2 og aftan við afturhjól bifreiðarinnar sem þeir höfðu stöðvað við hlið. Hann segir aðspurður að hann hafi verið uppréttur á milli bifreiðanna og hafi snúið að björgunarsveitarbílnum.“
Stefnandi var fluttur á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði þar sem brot á vinstri lærlegg með mikilli tilfærslu var fest til bráðabirgða með ytri festingu en síðan var hann fluttur til aðgerðar á Landsspítalanum þar sem brotið var fest með svokallaðri innri festingu.
Lögmaður stefnanda fékk Sigurð Ásgeir Kristinsson bæklunarlækni til að framkvæma örorkumat samkvæmt skaðabótalögum varðandi slysið. Matsgerð er dagsett 2. júlí 2008 og eru helstu niðurstöður hennar þær að stefnandi hafi við slysið hlotið 15 stiga varanlegan miska og 15% varanlega örorku. Stöðugleikapunktur teljist vera 15. október 2006, tímabundið atvinnutjón frá 5. apríl til 15. október 2006 og þjáningatími hinn sami.
Bifreiðarnar Í-5282 og UM-149 voru ábyrgðartryggðar hjá hinu stefnda tryggingafélagi. Stefnandi leitaði eftir afstöðu félagsins með bréfum 8. ágúst 2006 og 9. júlí 2008 sem var svarað með bréfi 21. ágúst 2006 og tölvupósti 23. júlí 2008 á þá leið að bótaskyldu var hafnað á þeim grundvelli að ekki væru orsakatengsl milli tjóns stefnanda og notkunar ökutækisins og var athygli vakin á rétti stefnanda til að skjóta málinu til tjónanefndar vátryggingafélaganna eða til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum. Viðurkennt var að stefnandi ætti bótarétt úr frjálsri slysatryggingu Landsbjargar.
Bótakrafa stefnanda er reist á niðurstöðum framangreindrar matsgerðar og er þannig sundurliðuð: Bætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga 256.740 krónur, bætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga 1.183.500 krónur og bætur samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga 7.658.385 krónur.
Stefnandi byggir á því að slysið sé að rekja til notkunar ökutækisins UM-149. Bifreiðin hafi verið í notkun þegar slysið átti sér stað og snjóflóðið hafi orðið til þess að hún fór af stað og ók á stefnanda og klemmdi á milli hennar og bifreiðarinnar Í-5282. Hinir sérstöku hættueiginleikar ökutækisins, þyngd þess og hreyfing, hafi þannig valdið slysinu. Stefnandi telur sig eiga bótarétt vegna þess líkamstjóns sem hann varð fyrir með vísun til 1. mgr. 88. gr., sbr. 90. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Líkamstjón stefnanda, sem rakið verði til slyssins, hafi hlotist af notkun bifreiðarinnar UM-149. Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., beri ábyrgð sem vátryggjandi bifreiðarinnar, sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga og sé honum stefnt vegna fyrirmæla 97. gr. umferðarlaga.
Aðalkrafa stefndu um sýknu er reist á því að slys stefnanda hafi orðið fyrir óhappatilvik sem falli utan gildissviðs 88. gr. umferðarlaga. Tjón stefnanda verði ekki rakið til notkunar bifreiðarinnar UM-149 sem hafi verið kyrrstæð þegar snjóflóði féll. Það sé í raun ágreiningslaust að orsök slyssins sé að snjóflóð féll á bifreiðina og ýtti henni, til vinstri en ekki í eðlilega akstursstefnu bifreiðar, að björgunarbifreiðinni með þeim afleiðingum að stefnandi klemmdist á milli. Það hafi því ekki verið hinir sérstöku eiginleikar bifreiðarinnar, svo sem vélarafl, hreyfiorka og hraði, sem ollu slysinu heldur hafi snjóflóðið verið eina orsökin.
Varakrafa stefndu er reist á því að stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi þegar greitt stefnanda 1.749.195 krónur vegna varanlegrar örorku og 872.562 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns. Samkvæmt tryggingarskilmálum slysatryggingarinnar séu bætur ekki greiddar vegna slys þar sem fyrir hendi sé bótaréttur úr slysatryggingu ökumanns eða lögboðinni ábyrgðartryggingu skráningarskylds ökutækis. Því beri að draga umræddar fjárhæðir frá verði fallist á bótarétt samkvæmt 88. gr. umferðarlaga. Þá er því mótmælt að reikna beri dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögudegi.
Umrætt slys varð fyrir það að snjóflóð féll á bifreiðina UM-149, sem var kyrrstæð, með þeim afleiðingum að hún færðist til hliðar þannig að stefnandi klemmdist milli hennar og bifreiðarinnar Í-5282 og vinstri lærleggur hans brotnaði. Slysið varð ekki fyrir notkun bifreiðarinnar og verður á engan hátt rakið til hættueiginleika vélknúinna ökutækja sem liggja til grundvallar hinni hlutlægu ábyrgðarreglu 1. mgr. 88. umferðarlaga nr. 50/1987.
Samkvæmt þessu ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Kristbjörg Anna Guðmundsdóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Pálma Ólafs Árnasonar.
Málskostnaður fellur niður.