Hæstiréttur íslands

Mál nr. 346/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


Föstudaginn 3

Föstudaginn 3. september 1999.

Nr. 346/1999.

X

(Sigurður Eiríksson hdl.)

gegn

Y

(sjálfur)

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdómara um að hafna kröfu X um að fellt yrði úr gildi samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þess að hann yrði vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. ágúst 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. september sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. ágúst 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 26. sama mánaðar til þess að hann yrði vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr. , sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Auk þess krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sigurðar Eiríkssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sigurðar Eiríkssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. ágúst 1999.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar nú í dag, er til komið vegna kröfu Sigurðar Eiríkssonar, héraðsdómslögmanns, dags. 26. ágúst s.l., f.h. X um að úr gildi verði felld nauðungarvistun hans á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA), er Dómsmálaráðuneytið veitti samþykki fyrir þann sama dag.

Hin kærða ákvörðun um nauðungarvistun er reist á vottorði Kristins Eyjólfssonar, heilsugæslulæknis, dagsettu 25. ágúst s.l., sem ritað var að beiðni bróður sóknaraðila Y. Í nefndu vottorði kemur fram að sóknaraðili er 75% öryrki vegna geðklofasjúkdóms, schizoprenia paranoia. Veikindi hans hafi byrjað árið 1979 og hann verið óvinnufær frá haustdögum 1983. Í vottorðinu er tekið fram að heimilislæknirinn hafi haft með málefni sóknaraðila að gera allt frá árinu 1985 og þ.á.m. haft eftirlit með lyfjagjöf hans. Vísað er til þess að nokkur misbrestur hafi verið á lyfjainntöku sóknaraðila á undanförnum árum og algjörlega sigið á ógæfuhliðina í því efni nú í sumar. Vísað er til þess að sóknaraðili haldi einn heimili, en að forsenda þess sé sú að betra lag komist á lyfjameðferð hans. Hinn 24. þ.m. hafi sóknaraðili verið lagður inn á sjúkrahús af vaktlækni, og er í vottorðinu lýst ástandi sóknaraðila svofellt eftir skoðun að morgni 25. þ.m.: „… Undirr. heimsótti hann í morgun og var ekki að finna neina sjúkdómsinnsýn hjá honum og er hann ófáanlegur til að vistast á geðdeildinni af fúsum og frjálsum vilja. Undirr. hefur einu sinni áður óskað eftir nauðungarvistun á [...], þann 13.03.92 og telur nú, að það sé algjörlega nauðsynlegt að vista hann á geðdeild gegn vilja hans þar sem samvinna er engin við hann núna og mikil nauðsyn á að koma betra lagi á lyfjameðferð hans. Hann neitar hins vegar að leggjast inn til viðeigandi meðferðar og af þeim sökum tel ég nauðsyn á að vista hann gegn vilja sínum.“

Vegna ofangreindrar kröfu sóknaraðila var af hálfu dómsins óskað eftir athugasemdum frá geðlæknum geðdeildar FSA og liggur fyrir svofellt vottorð Brynjólfs Ingvarssonar, setts yfirlæknis á FSA: „Ofannefndur sjúklingur hefur alvarlegan geðsjúkdóm, sem nú hefur leitt til nauðungarvistunar hinn 26. ágúst 1999 vegna truflandi hegðunar og skorts á sjúkdómsinnsæi. Þörfin fyrir nauðungarvistun er óbreytt …“

Á dómþingi fyrr í dag gáfu skýrslur sóknaraðili og varnaraðili og er það álit dómsins að ekkert sé fram komið er hnekki mati áðurgreindra sérfræðinga um að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, schizoprenia paranoia, skorti sjúkdómsinnsæi og að sjúkrahúsvist sé brýn. Ber því að staðfesta ákvörðun Dómsmálaráðuneytisins frá 26. ágúst s.l. um að sóknaraðili, X, skuli vistast á sjúkrahúsi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun talsmanns sóknaraðila, Sigurðar Eiríkssonar, héraðsdómslögmanns, 25.000 krónur úr ríkissjóði.

Úrskurð þennan kvað upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Nauðungarvistun X samkvæmt ákvörðun Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 26. ágúst 1999 er óhögguð.

Málskostnaður talsmanns sóknaraðila, Sigurðar Eiríkssonar, hdl., kr. 25.000.- greiðist úr ríkissjóði.