Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-47
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Vinnuslys
- Vinnuveitendaábyrgð
- Viðurkenningarkrafa
- Sönnun
- Sönnunarbyrði
- Ábyrgðartrygging
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 29. mars 2023 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. mars 2023 í máli nr. 158/2022: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í starfi hjá vátryggingartaka 25. janúar 2019.
4. Héraðsdómur hafnaði kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu. Landsréttur tók kröfuna til greina og taldi að vátryggingartaki yrði að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlitsins í samræmi við 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Aðstæður á slysstað voru ekki rannsakaðar af Vinnueftirlitinu og gólflisti á stigabrún sem gagnaðili féll um var fjarlægður fljótlega eftir slysið. Auðvelt hefði verið fyrir vátryggingartaka að gera sér grein fyrir því að laus listi á efsta stigaþrepi sem skagaði upp fyrir parket við gólf efri hæðar fæli í sér mikla hættu á tjóni enda stiginn brattur. Að þessu virtu taldi rétturinn að vátryggingartaki hefði brotið gegn þeim almennu skyldum sem mælt væri fyrir um í 13., 37. og 42. gr. laga nr. 46/1980, sbr. 6. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi í tilvikum þar sem reynir á inntak tilkynningarskyldu atvinnurekenda samkvæmt lögum nr. 46/1980. Þá telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til að því er varðar sakarmat réttarins að baki niðurstöðu um bótaskyldu leyfisbeiðanda. Standi niðurstaðan óhögguð leiði það til þess að gríðarlegar skyldur verði lagðar á atvinnurekendur til að fylgjast með minnstu frávikum í aðbúnaði í atvinnustarfsemi þeirra.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.