Hæstiréttur íslands

Mál nr. 91/2014


Lykilorð

  • Viðskiptabréf
  • Skuldabréf
  • Fjármálafyrirtæki
  • Innstæða
  • Aðild


                                       

Fimmtudaginn 18. september 2014.

Nr. 91/2014.

Sigurjón Ragnarsson

(Tómas Hrafn Sveinsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

Viðskiptabréf. Skuldabréf. Fjármálafyrirtæki. Innstæða. Aðild.

S höfðaði mál á hendur A hf. til heimtu ætlaðrar skuldar vegna skuldabréfs sem S ráðstafaði 1988 til BÍ, en BÍ sameinaðist síðar K hf. Ágreiningur stóð meðal annars um hvort BÍ hefði keypt skuldabréfið af S, og S þar með eignast kröfu á hendur BÍ fyrir kaupverðinu, eða hvort BÍ hefði aðeins tekið skuldabréfið til innheimtu í þágu S, sem hafi við það eignast kröfu BÍ um greiðslu andvirðis þess þegar fullnustu á kröfu samkvæmt skuldabréfinu var endanlega lokið árið 1994. Talið var að hvernig sem liði því hvernig stofnast hefði til kröfu S á hendur BÍ gæti hún að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar aldrei talist innstæða í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, enda skorti það frumskilyrði að BÍ hefði veitt móttöku fé úr hendi S í formi láns. Skuldbinding vegna ætlaðrar kröfu S á hendur K hf. var af þeim sökum ekki talin hafa færst á herðar A hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins í október 2008. Var A hf. því sýknaður af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 13.500.000 krónur, aðallega með nánar tilteknum ársvöxtum samkvæmt 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af tilgreindum fjárhæðum frá 20. maí 1994 til 1. júlí 2001 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, en til vara með nánar tilteknum ársvöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 25/1987 af tilgreindum fjárhæðum frá 20. maí 1994 til 1. júlí 2001, vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 22. október 2010 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 23. sama mánaðar til greiðsludags. Í báðum tilvikum komi til frádráttar greiðsla stefnda 6. ágúst 1993 að fjárhæð 3.000.000 krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta á rætur að rekja til þess að áfrýjandi lýsti því yfir í bréfi 11. janúar 1988 að hann myndi að fullnægðum nánar tilteknum skilyrðum afhenda Búnaðarbanka Íslands „upp í gjaldfallnar skuldir tvö skuldabréf, samtals að fjárhæð kr. 7.000.000,00“. Annað þeirra, að fjárhæð 3.500.000 krónur, væri með gjalddaga í desember sama ár og tryggt með fyrsta veðrétti í fasteigninni Austurmörk 24 í Hveragerði. Í bréfinu áskildi áfrýjandi „að ofangreint gangi inn á skuldabréf nr. 4414 í aðalbanka.“ Þetta bréf var áritað af starfsmanni bankans um að skuldabréfið með veði í Austurmörk 24 hafi verið afhent honum 14. janúar 1988, en síðan í framhaldinu um að áfrýjandi hafi tekið skuldabréfið degi síðar til að bæta úr galla á framsali þess og myndi afhenda það aftur 19. sama mánaðar. Þetta mun hafa gengið eftir og var skuldabréfið áritað af áfrýjanda um framsal þess 15. janúar 1988 til Búnaðarbanka Íslands. Skuld samkvæmt skuldabréfinu, sem var að nafnverði 2.000.000 krónur og bundin lánskjaravísitölu frá útgáfudegi bréfsins 1. desember 1985, var ekki greidd á gjalddaga 1. desember 1988, en 12. ágúst 1991 gerði Búnaðarbanki Íslands samning við útgefanda bréfsins, Skemmtigarðinn sf., um breytingar á skilmálum þess. Ekki var heldur staðið við breytta greiðsluskilmála og krafðist bankinn nauðungarsölu á fasteigninni til fullnustu á skuldinni. Við uppboð, sem haldið var 1. október 1993 til nauðungarsölu á eigninni, gerðist bankinn hæstbjóðandi með boði að fjárhæð 7.000.000 krónur og fékk hann afsal fyrir henni 22. desember sama ár. Við nauðungarsöluna hafði bankinn lýst kröfu á grundvelli skuldabréfsins að fjárhæð samtals 11.162.005 krónur, en við úthlutun söluverðs eignarinnar þurfti hann að bera kostnað af gerðinni og greiða tvær lögveðkröfur, samtals 3.719.561 krónu, sem stefndi kveður hann hafa innt af hendi. Í framhaldi af þessu seldi bankinn fasteignina 20. maí 1994 fyrir 13.500.000 krónur. Áður en til þess kom hafði hann greitt áfrýjanda 3.000.000 krónur 6. ágúst 1993, sem samkvæmt kvittun var „hluti af andvirði skuldabréfs upphaflega útgefnu 1. desember 1985, af Skemmtigarðinum sf.“

Í máli þessu er deilt um hvort áfrýjandi hafi notið einhverra frekari greiðslna vegna skuldabréfsins úr hendi Búnaðarbanka Íslands, sem sameinaðist síðar öðru félagi undir heitinu Kaupþing banki hf. Áfrýjandi heldur því fram að bankinn hafi aðeins tekið skuldabréfið til innheimtu og ekki nýtt andvirði þess til uppgjörs á skuld áfrýjanda, sem getið var í bréfi hans 11. janúar 1988, eða annarra krafna vegna viðskipta þeirra, sem að öðru leyti virðast hafa verið nokkur að umfangi. Þegar upp hafi verið staðið hafi bankinn fengið fyrrgreindar 13.500.000 krónur við sölu fasteignarinnar, sem stóð að veði fyrir kröfu samkvæmt skuldabréfinu, og hafi myndast við það innstæða áfrýjanda hjá bankanum, sem flust hafi á herðar stefnda samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 eftir að það hafði neytt heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að Búnaðarbanki Íslands hafi keypt skuldabréfið af áfrýjanda í janúar 1988 og hafi andvirði þess verið nýtt til uppgjörs á skuldum hans við bankann. Hvað sem öðru líður andmælir stefndi því að áfrýjandi geti með réttu beint kröfu af þessu tilefni að sér, enda hafi aldrei á þennan hátt orðið til innstæða áfrýjanda hjá Búnaðarbanka Íslands og síðar Kaupþingi banka hf., sem stefndi geti borið ábyrgð á.

II

Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að leggja yrði til grundvallar að Búnaðarbanki Íslands hafi með framsali frá áfrýjanda 15. janúar 1988 orðið eigandi að skuldabréfinu, sem um ræðir í málinu, og var það rökstutt með vísan til ýmissa annarra atvika, sem nánar voru rakin. Til þessa þarf þó í raun ekki að taka afstöðu, því hafi bankinn keypt skuldabréfið af áfrýjanda eignaðist hann kröfu á hendur bankanum fyrir kaupverðinu þegar samningur komst á um kaupin, en hafi bankinn aðeins tekið skuldabréfið til innheimtu í þágu áfrýjanda eignaðist hann kröfu á bankann um greiðslu andvirðis þess þegar fullnustu á kröfu samkvæmt skuldabréfinu var endanlega lokið 20. maí 1994. Krafa áfrýjanda, sem orðið hefði til af annarri hvorri þessara ástæðna, gæti aldrei talist innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, svo sem það hugtak hefur verið skilgreint í dómaframkvæmd Hæstaréttar með hliðsjón af 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB, sbr. meðal annars dóm réttarins 17. janúar 2013 í máli nr. 169/2011, enda skortir hér á það frumskilyrði að Búnaðarbanki Íslands hafi veitt móttöku fé úr hendi áfrýjanda í formi láns. Skuldbinding vegna hugsanlegrar kröfu áfrýjanda á hendur Kaupþingi banka hf. færðist því ekki á herðar stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008, en málsástæðu á þessum grunni bar stefndi skýrlega fyrir sig í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi eins og hann gerir jafnframt fyrir Hæstarétti. Þegar af þessari ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sigurjón Ragnarsson, greiði stefnda, Arion banka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 29. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurjóni Ragnarssyni, Norðurbrú 2, Garðabæ á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, með stefnu birtri 7. maí 2013.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér fjárhæð kr. 13.500.000 auk dráttarvaxta skv. 9. gr. laga nr. 25/1987, með 14% dráttarvöxtum frá 20. maí 1994 til 19. maí 1995, með 14% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 15.390.000 frá 20. maí 1995 til 31. maí. 1995, með 15% dráttarvöxtum frá 1. júní 1995 til 28. febrúar 1996, með 16% dráttarvöxtum frá 1. mars 1996 til 19. maí 1996, með 16% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 17.728.425 frá 20. maí 1996 til 19. maí 1997, með 16% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 20.564.973 frá 20. maí 1997 til 31. maí 1997, með 16,5% dráttarvöxtum frá 1. júní 1997 til 19. maí 1998, með 16,5% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 23.955.337 frá 20. maí 1998 til 19. maí 1999, með 16,5% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 27.907.968 frá 20. maí 1999 til 30. júní 1999, með 17% dráttarvöxtum frá 1. júlí 1999 til 31. ágúst 1999, með 18% dráttarvöxtum frá 1. september 1999 til 30. september 1999, með 18,6% dráttarvöxtum frá 1. október 1999 til 31. október 1999, með 19,0% dráttarvöxtum frá 1. nóvember 1999 til 30. nóvember 1999, með 19,5% dráttarvöxtum frá 1. desember 1999 til 31. janúar 2000, með 20,5% dráttarvöxtum frá 1. febrúar 2000 til 28. febrúar, með 21% dráttarvöxtum frá 1. mars 2000 til 31. mars 2000, með 21,5% dráttarvöxtum frá 1. apríl 2000 til 19. maí 2000, með 21,5% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 33.208.931 frá 20. maí 2000 til 31. maí 2000, með 22% dráttarvöxtum frá 1. júní 2000 til 30. júní 2000, með 22,5% dráttarvöxtum frá 1. júlí 2000 til 31. júlí 2000, með 23% dráttarvöxtum frá 1. ágúst 2000 til 30. nóvember 2000, með 24% dráttarvöxtum frá 1. desember 2000 til 30. apríl 2001, með 23,5% dráttarvöxtum frá 1. maí 2001 til 1. júlí 2001 en frá þeim tíma er krafist dráttarvaxta af fjárhæð kr. 41.372.808 skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 6. ágúst 1993 að fjárhæð kr. 3.000.000.

                Stefnandi krefst þess til vara að stefnda verði gert að greiða sér fjárhæð kr. 13.500.000 auk vaxta af fjárhæðinni skv. 4. gr. laga nr. 25/1987, með 2,61% vöxtum frá 20. maí 1994 til 19. maí 1995, með 2,47% vöxtum af kr. 13.851.699 frá 20. maí 1995 til 19. maí 1996, með 2,55% vöxtum af kr. 14.194.122 frá 20. maí 1996 til 19. maí 1997, með 2,84% vöxtum af kr. 14.555.986 frá 20. maí 1997 til 19. maí 1998, með 3,09% vöxtum af kr. 14.969.784 frá 20. maí 1998 til 19. maí 1999, með 5,16% vöxtum af kr. 15.431.623 frá 20. maí 1999 til 26. nóvember 1999, ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga, nr. 25/1987, með 19% dráttarvöxtum af kr. 15.758.480 frá 27. nóvember 1999 til 30. nóvember 1999, með 19,5% dráttarvöxtum frá 1. desember 1999 til 31. janúar 2000, með 20,5% dráttarvöxtum frá 1. febrúar 2000 til 29. febrúar 2000, með 21% dráttarvöxtum frá 1. mars 2000 til 31.mars 2000, með 21,5% dráttarvöxtum frá 1. apríl 2000 til 31. maí 2000, með 22% dráttarvöxtum frá 1. júní 2000 til 30. júní 2000, með 22,5% dráttarvöxtum frá 1. júlí 2000 til 31. júlí 2000, með 23% dráttarvöxtum frá 1. ágúst 2000 til 26. nóvember 2000, með 23% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 19.165.813 frá 27. nóvember 2000 til 30. nóvember 2000, með 24% dráttarvöxtum frá 1. desember 2000 til 30. apríl 2001, með 23,5% dráttarvöxtum frá 1. maí 2001 til 1. júlí 2001 en frá þeim tíma er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 6. ágúst 1993 að fjárhæð kr. 3.000.000.

                Í annarri varakröfu krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða sér fjárhæð kr. 13.500.000 auk vaxta af fjárhæðinni skv. 4. gr. laga nr. 25/1987, með 2,61% vöxtum frá 20. maí 1994 til 19. maí 1995, með 2,47% vöxtum af kr. 13.851.699 frá 20. maí 1995 til 19. maí 1996, með 2,55% vöxtum af kr. 14.194.122 frá 20. maí 1996 til 19. maí 1997, með 2,84% vöxtum af kr. 14.555.986 frá 20. maí 1997 til 19. maí 1998, með 3,09% vöxtum af kr. 14.969.784 frá 20. maí 1998 til 19. maí 1999, með 5,03% vöxtum af af fjárhæð kr. 15.431.623 frá 20. maí 1999 degi til 6. janúar 2000, ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga, nr. 25/1987, með 19,5% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 15.916.755 frá 7. janúar 2000 til 31. janúar 2000, með 20,5% dráttarvöxtum frá 1. febrúar 2000 til 29. febrúar 2000, með 21% dráttarvöxtum frá 1. mars 2000 til 31. mars 2000, með 21,5% dráttarvöxtum frá 1. apríl 2000 til 31. maí 2000, með 22% dráttarvöxtum frá 1. júní 2000 til 30. júní 2000, með 22,5% dráttarvöxtum frá 1. júlí 2000 til 31. júlí 2000, með 23% dráttarvöxtum frá 1. ágúst 2000 til 6. janúar 2001, með 24% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 19.447.622 frá 7. janúar 2001 til 30. apríl 2001, með 23,5% dráttarvöxtum frá 1. maí 2001 til 1. júlí 2001 en frá þeim tíma er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 6. ágúst 1993 að fjárhæð kr. 3.000.000.

                Í þriðju varakröfu krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða sér fjárhæð kr. 13.500.000 auk vaxta af fjárhæðinni skv. 4. gr. laga nr. 25/1987, með 2,61% vöxtum frá 20. maí 1994 til 19. maí 1995, með 2,47% vöxtum af kr. 13.851.699 frá 20. maí 1995 til 19. maí 1996, með 2,55% vöxtum af kr. 14.194.122 frá 20. maí 1996 til 19. maí 1997, með 2,84% vöxtum af kr. 14.555.986 frá 20. maí 1997 til 19. maí 1998, með 3,09% vöxtum af kr. 14.969.784 frá 20. maí 1998 til 19. maí 1999, með 4,59% vöxtum af fjárhæð kr. 15.431.623 frá 20. maí 1999 til 19. maí 2000, með 6,85% vöxtum af fjárhæð kr. 17.184.060 frá 20. maí 2000 til 3. nóvember 2000, ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga, nr. 25/1987, með 24% dráttarvöxtum af fjárhæð kr. 17.717.028 frá 3. nóvember 2000 til 30. apríl 2001, með 23,5% dráttarvöxtum frá 1. maí 2001 til 1. júlí 2001 en frá þeim tíma er óskað eftir dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 6. ágúst 1993 að fjárhæð kr. 3.000.000.

                Í fjórðu varakröfu krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða sér fjárhæð kr. 13.500.000 auk vaxta af fjárhæðinni skv. 4. gr. laga nr. 25/1987, með 2,61% vöxtum frá 20. maí 1994 til 19. maí 1995, með 2,47% vöxtum af kr. 13.851.699 frá 20. maí 1995 til 19. maí 1996, með 2,55% vöxtum af kr. 14.194.122 frá 20. maí 1996 til 19. maí 1997, með 2,84% vöxtum af kr. 14.555.986 frá 20. maí 1997 til 19. maí 1998, með 3,09% vöxtum af kr. 14.969.784 frá 20. maí 1998 til 19. maí 1999, með 4,59% vöxtum af fjárhæð kr. 15.431.623 frá 20. maí 1999 til 19. maí 2000, með 6,46% vöxtum af fjárhæð kr. 17.184.060 frá 20. maí 2000 til 19. maí 2001, með 6,7% vöxtum af fjárhæð kr. 18.294.150 frá 20. maí 2001 til 1. júlí 2001 en frá þeim tíma er óskað eftir vöxtum skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 til 11. október 2008, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. október 2008 til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 6. ágúst 1993 að fjárhæð kr. 3.000.000.

                Í fimmtu varakröfu krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða sér fjárhæð kr. 13.500.000 auk vaxta af fjárhæðinni skv. 4. gr. laga nr. 25/1987, með 2,61% vöxtum frá 20. maí 1994 til 19. maí 1995, með 2,47% vöxtum af kr. 13.851.699 frá 20. maí 1995 til 19. maí 1996, með 2,55% vöxtum af kr. 14.194.122 frá 20. maí 1996 til 19. maí 1997, með 2,84% vöxtum af kr. 14.555.986 frá 20. maí 1997 til 19. maí 1998, með 3,09% vöxtum af kr. 14.969.784 frá 20. maí 1998 til 19. maí 1999, með 4,59% vöxtum af fjárhæð kr. 15.431.623 frá 20. maí 1999 til 19. maí 2000, með 6,46% vöxtum af fjárhæð kr. 17.184.060 frá 20. maí 2000 til 19. maí 2001, með vöxtum af fjárhæð kr. 18.294.150 frá 20. maí 2001 til 1. júlí 2001 en frá þeim tíma er óskað eftir vöxtum skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 til 22. október 2010, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. október 2010 til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 6. ágúst 1993 að fjárhæð kr. 3.000.000.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

I

Þar sem verulegur ágreiningur er með málsaðilum um málsatvikin þykir rétt að rekja þau eins og þau liggja fyrir í gögnum málsins.

Hinn 1. desember 1985 var gefið út veðskuldabréf nr. 200176 að fjárhæð 2.000.000 kr. með lánskjaravísitölu 1301. Nafn útgefanda er ólæsilegt en það er útgefið f.h. Skemmtigarðsins sf. til Vinjar hf. Til tryggingar skilvísum greiðslum var eignin Austurmörk 24, Hveragerði veðsett með 1. veðrétti. Gjalddagi bréfsins var 1. desember 1988. Skuldabréfið ber með sé að hinn 15. janúar 1988 hafi stefnandi málsins, Sigurjón Ragnarsson, framselt Búnaðarbanka Íslands bréfið. Stefnandi heldur því fram að bankinn hafi neitað að kaupa bréfið. Bréfið hafi því verið í innheimtu hjá bankanum.

Hinn 11. janúar 1988 afhendir stefnandi Búnaðarbanka Íslands víxla samtals að höfuðstólsfjárhæð 4.400.000 kr. og tekur fram að ef bankinn tekur við víxlunum og greiði honum 1.500.000 kr. af andvirði þeirra þá samþykki hann að það sem eftir standi gangi inn á gjaldfallnar skuldir hans við bankann. Þá er tekið fram að hann muni einnig afhenda bankanum upp í gjaldfallnar skuldir tvö skuldabréf. Handskrifað er á bréfið að skuldabréf nr. 200176 með veði á 1. veðrétti í Austurmörk 24, Hveragerði hafi verið afhent B.I 14/1 1988. Undir þetta ritar lögfræðingur bankans. Síðan er vélritað neðst á blað þetta: „Tók við skuldabréfinu aftur þ. 15.1.1988, til þess að láta bæta úr galla á framsali þess. Mun afhenda bréfið aftur þ. 19.1.1988.“ Er þetta án undirritunar.

Hinn 12. ágúst 1991 var gerð skuldbreyting á eftirstöðvum lánsins. Nýr greiðandi var Ólafur Ragnarsson. Eftirstöðvar þá voru 7.573.330 kr. og skyldi greiða þær með 27 afborunum á fjögurra mánaða fresti, í fyrsta sinn hinn 20. júní 1992.

Hinn 25. janúar 1993 skrifar stefnandi Búnaðarbankanum bréf og óskar eftir upplýsingum vegna ábyrgða sinna á skuldbindingum Nesco hf. Þar kemur einnig fram að bankinn hafi keypt af honum skuldabréf með veði í lóð skemmtigarðsins í Hveragerði og hann óskar eftir því að bankinn afhendi honum andvirði þessi.

Hinn 6. ágúst 1993 viðurkennir stefnandi viðtöku 3.000.000 kr. sem hluta af andvirði skuldabréfs upphaflega útgefnu 1. desember 1985 af Skemmtigarðinum sl. Greiðandi er Búnaðarbankinn.

Hinn 19. ágúst 1993 var Ólafi Ragnarssyni send greiðsluáskorun þar sem skuld skv. veðskuldabréfi 9979, útg. 1. desember 1985 af Skemmtigarðinum sf., upphaflega að fjárhæð 2.000.000 kr. með veði í Austurmörk 24, Hveragerð, var fallin í gjalddaga.

Hinn 23. september 1993 var sýslumanninum á Selfossi send nauðungarsölubeiðni. Kröfulýsing Búnaðarbankans er dags. 29. september 1993 og er gerð krafa að fjárhæð 11.162.005 kr.

Hinn 1. október 1993 var Austurmörk 24 seld nauðungarsölu. Þinglýstur eigandi var Ólafur Ragnarsson. Kaupandi var Búnaðarbankinn og var eignin slegin á 7.000.000 kr.

Höfðað var ógildingarmál vegna skuldabréfs þessa og viðaukans þar sem skuldabréfið týndist í bankanum. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 2. desember 1993 var skuldabréfið ásamt viðaukanum ógilt.

Hinn 7. mars 1994 varð uppgjör milli stefnanda og Búnaðarbankans. Stefnandi heldur því fram að uppgjör þetta nái einungis til skuldbindinga stefnanda og Nesco. Stefndi byggir aðra málsástæðu sína á þessu uppgjöri og telur að stefnandi eigi engar kröfur á hendur stefnda.

Hinn 20. maí 1994 seldi Búnaðarbankinn Hveragerðisbæ eignina að Austurmörk 24 á 13.500.000 kr. og var afsal gefið út 15. desember 1994.

Hinn 28. október 1999 krefst stefnandi tafarlauss uppgjörs Búnaðarbankans vegna skuldabréfs sem hann framseldi bankanum 15. janúar 1988. Hinn 12. nóvember 1999 hafnar Búnaðarbankinn kröfu þessari.

Hann ítrekar kröfuna í bréfum dags. 7. desember 1999 og 3. október 2000. Með bréfi 12. desember 2000 hafnar Búnaðarbankinn kröfu stefnanda er fram kom í bréfi 3. október 2000 og tekur fram að stefnandi eigi enga kröfu.

Hinn 12. september 2008 fer lögmaður stefnanda fram á það við Kaupþing banka hf. að málið verði skoðað innan bankans og telur kröfuna vera að fjárhæð rúmlega 9.000.000 króna. Enn á ný, hinn 23. september 2010, senda lögmenn stefnanda kröfubréf vegna þessa og nú til bankastjóra stefnda. Ekki verður séð að bréfum þessum hafi verið svarað með formlegum hætti.

Hinn 21. október 2008 liggur fyrir ákvörðun FME um hvaða eignum og skuldum skuli ráðstafað frá Kaupþingi banka til stefnda.

Hinn 5. desember 2012 höfðaði stefnandi mál vegna þessa ágreinings fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en felldi málið niður 11. mars sl. Mál þetta er síðan höfðað með stefnu birtri 7. maí sl.

II

Helstu málsástæður stefnanda fyrir kröfum sínum eru þær að stefndi hafi fjármuni í vörslum sínum sem sé innstæða í eigu stefnanda. Innstæðan hafi myndast þegar bankinn leysti til sín og endurseldi veðandlag skuldabréfs nr. 200176, og tók við söluandvirði enda hafi stefndi séð um innheimtur á bréfinu fyrir hönd stefnanda. Telur stefnandi ljóst að fjármunirnir hljóti því að vera enn í vörslum stefnda þrátt fyrir síðari breytingar á eignarhaldi og nafni, en innstæða stefnanda var færð frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hinn 22. október 2008.

Dómkröfur stefnanda taka mið af því að stefndi hafi selt veðandlag sem stóð til tryggingar veðskuldabréfi í eigu stefnanda og fengið söluandvirðið greitt. Þegar bankinn tók við söluandvirði veðsins myndaðist innstæða í eigu stefnanda í bankanum, enda stefnandi eigandi hins umþrætta skuldabréfs. Stefnandi krefjist þess að stefndi endurgreiði þá innstæðu, auk vaxta en mismunandi vaxtakröfur séu gerðar í aðal- og varakröfum.

Í aðalkröfu krefjist stefnandi þess að dráttarvextir verði reiknaðir frá því að bankinn tók við greiðslu söluandvirðis veðandlags skuldabréfs nr. 200176. Mismunandi varakröfur stefnanda, frá fyrstu til fimmtu varakröfu, byggi á því að fyrst séu reiknaðir innstæðuvextir á höfuðstólsfjárhæðina og síðar dráttarvextir 30 dögum eftir að fyrst var krafist skriflega uppgjörs á kröfu stefnanda um afhendingu á innstæðu eða fullnaðaruppgjörs. Mismunur á fyrstu fimm varakröfum ræðst af ólíkum upphafsdögum dráttarvaxta.

Stefnandi telur ljóst að kaup Búnaðarbankans á umþrættu skuldabréfi áttu upphaflega að vera andlag lögskipta milli aðila, þannig að eignarréttur á bréfinu færðist yfir til stefnda. Fyrirhuguðum lögskiptum lauk þó aldrei þar sem kaupandi greiddi aldrei fullt kaupverð, aðeins hlutagreiðslu eða fyrirframgreiðslu löngu síðar, þrátt fyrir að hafa fengið bréfið áritað um framsal við afhendingu þess árið 1988. Stefndi eignaðist því aldrei skuldabréfið með lögmætum hætti og því var bankanum óheimil öll hagnýting á andvirði þess sem innheimtist á grundvelli bréfsins vegna sölu veðandlags. Með hliðsjón af framangreindu og samskiptum aðila í millum sé byggt á þeirri forsendu að bankinn hafi innheimt samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins fyrir hönd stefnanda. Sala veðandlagsins var liður í þeirri innheimtu. Sé það eina rökrétta forsendan sem hægt sé að leggja til grundvallar til skýringar á hegðun bankans.

Hinn 11. janúar 1988 afhenti stefnandi, eigandi hins umþrætta skuldabréfs, bankanum skuldabréfið og áritaði það í kjölfarið um framsal. Ráðstafanir þessar áttu að vera liður í lögskiptum milli aðilanna til yfirfærslu eignarréttar. Báðum var ljós sú forsenda þeirra að skuldabréfið ætti að vera andlag sölu og að á móti ráðstöfunum skyldi koma greiðsla af hálfu bankans. Ekki varð af kaupum á skuldabréfinu, þar sem þeim var hafnað af hálfu bankans. Þegar kaupum var hafnað brustu forsendur fyrir framsali með öllu og samhliða varð virk skylda bankans til að skila stefnanda eign sinni. Verði ekki betur séð af yfirlýsingu starfsmanns bankans en að bankinn hafi einmitt talið sér skylt í ljósi þessa að skila skuldabréfinu aftur til stefnanda sem eiganda bréfsins. Þá kveðst stefnandi hafa án tafar gert kröfu um skil reista á stjórnarskrárvörðum eignarrétti sínum. Ekki varð þó af skilum en stefnanda fengnar þær fregnir að eign hans hefði glatast í vörslum stefnda. Nýverið hafi komið í ljós, þar sem stefndi afhenti stefnanda dóm þar um, að stefndi greip síðar til þess ráðs að ógilda bréfið með dómi þar sem bréfið fannst ekki í fórum hans.

Á þeim tíma sem umþrætt skuldabréf glataðist í vörslum bankans var Búnaðarbankinn ríkisbanki og starfaði á grundvelli laga, nr. 89/1984, um Búnaðarbanka og laga, nr. 86/1985, um viðskiptabanka. Þá voru lög, nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun, jafnframt í gildi þegar afhendingin átti sér stað. Stefnandi telur ljóst af nefndum ákvæðum að stefndi hafi borið ríkar skyldur hvoru tveggja sem ríkisbanki og sem verðbréfamiðlari að lögum gagnvart meðferð skuldabréfsins og fjármuna þeirra er innheimtir voru á grundvelli þess.

Eftir að bankinn tók við greiðslu söluandvirðis á grundvelli hins umþrætta skuldabréfs virti bankinn að vettugi skilaskyldu sína og lét undir höfuð leggjast að tilkynna stefnanda um skuldbreytingu og síðar innlausn og sölu veðandlags bréfsins sem og að skrá skuldabréfið á nafn eiganda þess. Stefnandi gerir þó ekki athugasemdir við innheimtuaðgerðir forvera stefnda í málinu varðandi þann þátt málsins.

Stefnandi telur að öll hagnýting af hálfu bankans, þ.e. forvera stefnda, í eigin nafni á umþrættu skuldabréfi hafi verið brot gegn góðum og heiðarlegum viðskiptaháttum sem og lögum, þá hvoru tveggja áðurnefndum sérlögum um bankann og verðbréfamiðlun og almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að starfsmenn bankans hafi með hegðun sinni ætlað að brjóta gegn ákvæðum þessara laga á þann hátt, enda ekki á því byggt. Sömu sjónarmið gilda um allar ráðstafanir bankans á grundvelli skuldabréfsins, hvort sem um var að ræða skuldbreytingu, innlausn eða síðar sölu veðandlags. Þessar ráðstafanir hefðu líkt og innheimtur verið bankanum með öllu óheimilar nema þær væru framkvæmdar í umboði stefnanda á grundvelli vörslu bankans, í starfi sínu sem viðskiptabanki og verðbréfamiðlari, til að hámarka fjárheimtur stefnanda vegna skuldabréfsins.

                Stefnandi telur að hann hafi ítrekað farið fram á að fá greiðslu upp í kröfu sína á grundvelli umþrætts skuldabréfs. Kom stefnandi kröfum sínum á framfæri beint við starfsmenn í bankanum á fundum, en einnig símleiðis, auk þess sem hann skrifaði fjölda kröfubréfa. Í kjölfar eins slíks bréfs barst stefnanda loks hlutagreiðsla að fjárhæð 3.000.000 kr. með ávísun dags. 6. ágúst 1993. Stefnanda var gert að undirrita viðurkenningu vegna móttöku ávísunarinnar. Á móttökukvittunina sem er á bréfsefni bankans og gefin út af bankanum en undirrituð af stefnanda segir, að fjárhæðin sé „hluti af andvirði skuldabréfsins“. Með þessari greiðslu til stefnanda viðurkenndi bankinn tilvist kröfu stefnanda vegna ætlaðra kaupa hans á bréfinu og að hún væri ekki frágengin. Eins og mál þetta hefur þróast, þar sem bankinn gekk aldrei frá kaupum á bréfinu, sé því eðlilegast að líta svo á að umrædd greiðsla bankans vegna ætlaðra kaupa á bréfinu sem aldrei gengu eftir, hafi í reynd verið innborgun upp í kröfu stefnanda á hendur stefnda, og því sé í kröfugerð gert ráð fyrir því að fjárhæðin dragist frá endanlegri uppgjörsfjárhæð.

Við skuldbreytingu skuldabréfsins hinn 12. ágúst 1991 stóð fjárhæð eftirstöðva veðskuldabréfsins í 7.573.330 kr. Þá liggur fyrir að 13.500.000 kr. fengust við sölu veðandlagsins árið 1994. Kröfur stefnanda miði við að eftirstöðvar söluandvirðis veðandlagsins, ásamt vöxtum frá kaupsamningsdegi, hafi verið lögð inn á sérstakan reikning í nafni hans hjá stefnda ásamt vöxtum, að frádreginni hlutagreiðslunni frá 1993.

Stefnandi tekur fram að hann hafi einnig átt í samskiptum við bankann vegna málefna Nesco framleiðslufélags hf., en hann var í ábyrgðum og hafði sett tilteknar eignir sínar til tryggingar fyrir tilteknum skuldum félagsins. Hinn 7. mars 1994 var gengið frá öllum málefnum félagsins sem og ábyrgðum sem stefnandi var í fyrir félagið með fullnaðaruppgjöri, sbr. orðalagið í samkomulaginu lýkur málinu öllu og eru aðilar sammála um að eftirmál verði engin“. Fullnaðaruppgjör þetta fól í sér þá niðurstöðu að bankinn greiddi stefnanda 1.500.0000 kr. vegna uppgjörs á kröfum sem samkomulagið laut að. Greiðsla bankans til stefnanda að fjárhæð 1.500.000 kr. sé ekki skýrð nánar í samkomulaginu. Líklegast sé þó, með hliðsjón af forsendum uppgjörsins, að greiðslan stafi af því að tryggingar stefnanda, þ.e. tryggingar hans í formi fasteigna og handveðsettra innstæðna vegna skuldbindinga Nesco framleiðslufélags hf., hafi falið í sér meiri verðmæti en sem nam ábyrgðarskuldbindingum stefnanda við bankanum. Útilokað megi telja að bankinn hafi greitt út þessa fjármuni af öðrum ástæðum. Greiðslan staðfestir því að stefnandi hafi ekki verið með neina útistandandi skuld við bankann á þeim tíma sem innheimtur á grundvelli skuldabréfs nr. 200176 fóru fram, þ.e. rúmlega tveimur mánuðum fyrir sölu veðandlagsins til þriðja aðila, því ella hefði bankinn aldrei greitt umrædda fjármuni. Auk þess sem stefnandi stofnaði ekki til neinna frekari fjárskuldbindinga við bankann eftir að gengið var frá fullnaðaruppgjörinu. Þá staðfesti síðari samskipta aðila að báðir hafi litið svo á að fullnaðaruppgjör vegna þeirra þriggja krafna sem voru tilteknar í samkomulaginu frá 7. mars 1994, hefði farið fram.

Þá sé rétt að benda á að jafnvel þótt stefnandi hefði verið í skuld við bankann, sem engar upplýsingar liggja þó fyrir um, á þeim tíma sem hinir umþrættu fjármunir voru innheimtir hefði bankanum engu að síður verið óheimilt að ráðstafa þeim upp í skuldir stefnanda án sérstaks samþykkis hans.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka til Nýja Kaupþings banka fór fram flutningur á innstæðum, sbr. „Innistæður flytjast miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals“. Verður því ekki annað séð en að innstæða stefnanda hafi verið flutt yfir til stefnda á grundvelli þessarar ákvörðunar og stefndi sé því réttur aðili að málinu. Þá liggur fyrir að samkvæmt umræddri ákvörðun átti Nýi Kaupþing banki hf. jafnframt að yfirtaka skuldbindingar í útibúum Kaupþings banka hf. á Íslandi vegna innlána frá viðskiptavinum.

Þá sé rétt að árétta ólíka stöðu aðila þessa máls til öflunar og aðgangs að gögnum. Bankinn var sérfræðingur á sviði fjármála og selur sérþekkingu sína á því sviði en stefnandi er einstaklingur.

Að lokum áréttar stefnandi að krafa hans fyrnist skv. 2. gr. laga nr. 14/1905, (fyrningarlög) um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. og 4. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, á 20 árum frá þeim degi er verðmæti voru lögð inn. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 14/1905, fyrnist krafa um vexti á fjórum árum. Meginreglan um upphaf fyrningarfrests kemur fram í 5. gr. fyrningarlaganna. Þá telur stefndi að vanræksla bankans hafi verið þess eðlis að hún hafi falli undir 7. gr. fyrningarlaganna varðandi kröfu þá er stefnandi byggir á.

Þá eiga sjónarmið um tómlæti ekki við í málinu enda hafi stefnandi haldið kröfu sinni á lofti með ítrekuðum kröfum og sáttaboðum sem send hafa verið stefnda, hvort tveggja munnlega og skriflega, eins og kemur víða fram í gögnum málsins, allt frá þeim tíma er hið umþrætta skuldabréf var afhent til dagsins í dag, án þess að nokkurt hlé yrði þar á.

III

                Helstu málsástæður stefndu fyrir sýknu eru í fyrsta lagi þær að stefnandi hafi framselt skuldabréf nr. 200176 til Búnaðarbankans til eignar og hafi verið greitt fyrir skuldabréfið; í öðru lagi að stefnandi hafi samið um fullnaðaruppgjör við Búnaðarbankann þar sem hann samþykkti að fella allar kröfur sínar gegn bankanum niður; í þriðja lagi að stefnandi hafi ekki gefið sig fram þegar Búnaðarbankinn krafðist ógildingar vegna skuldabréfs nr. 200176 með þeim réttaráhrifum að tilkall stefnanda til skuldabréfsins, og þ.m. allar kröfur stefnanda sem byggðu á því, falli niður; í fjórða lagi að ætluð krafa stefnanda hafi fallið niður vegna verulegs tómlætis stefnanda; í fimmta lagi að ætluð krafa stefnanda hafi aldrei talist „innstæða“ og aldrei verið „framseld“ frá Kaupþingi banka til stefnda; og í sjötta lagi hafi ætluð innstæðukrafa stefnanda fallið niður vegna fyrn­ingar. Auk þess gerir stefndi kröfu um lækkun tildæmdrar kröfu og mótmælir öllum kröfum stefnanda um vexti og dráttarvexti af kröfum sínum.

Í fyrsta lagi byggi stefndi á því að stefnandi hafi hinn 15. janúar 1988 framselt skulda­bréf nr. 200176, sbr. dskj. nr. 3, til Búnaðarbankans, sbr. áritun á skuldabréfið sjálft, gegn endurgjaldi. Þar með hafi Búnaðarbankinn eignast skuldabréfið og getað innheimt afborganir sem eigandi skuldabréfsins og, eftir atvikum, gengið á veðtryggðar eignir skuldabréfsins, sem hann og gerði síðar. Af þessu leiðir að stefnandi átti enga heimtingu á því að fá greitt söluandvirði Austurmarkar 24 þegar Búnaðarbankinn seldi hana með kaupsamningi dags. 20. maí 1994. Varðandi þetta vísar stefndi til reglna viðskiptabréfaréttarins.

Stefndi áréttar jafnframt að öll gögn málsins bendi til þess að framsal skuldabréfsins hafi verið til eignar, þ.m.t. áritun á skuldabréfið sjálft, enda sé áritunin án allra fyrirvara. Auk þess komi fram í gögnum málsins að Búnaðarbankinn hafi verið eigandi skuldabréfsins, s.s. við skuldbreytingu skuldabréfsins, og öllum gögnum varðandi nauðungarsölu á fasteigninni Austurmörk 24. Sjá einnig yfirlýsingu stefnanda frá 11. janúar 1988, þar sem stefnandi kveðst „afhenda bankanum“ tvö skuldabréf, þ.m.t. skuldabréf nr. 200176, upp í gjaldfallnar skuldir sínar við bankann. Í yfirlýsingunni komi jafnframt fram að stefnandi geri það að skilyrði sínu að „ofangreint gangi inn á skuldabréf nr. 4414 í aðalbanka“. Auk þessa virðist stefnandi sjálfur hafa verið á þeirri skoðun að hann hafi framselt skuldabréfið til Búnaðarbankans, sbr. til dæmis bréf stefnanda til Búnaðarbankans dags. 25. janúar 1993 og 28. október 1999, sem verða ekki skilin öðruvísi en að stefnandi telji sig hafa framselt skuldabréfið Búnaðarbankanum til eignar. Af þessum gögnum virðist ljóst að báðir aðilar, þ.e. stefnandi og Búnaðarbankinn, hafi litið svo á að stefnandi hafi framselt skuldabréf nr. 200176 Búnaðarbankanum til eignar 15. janúar 1988.

Stefndi áréttar sérstaklega að skuldabréf nr. 200176 var skv. áritun á bakhlið þess framselt Búnaðarbankanum til eignar. Skuldabréfið var ekki framselt Búnaðarbankanum „til innheimtu“, til umsýslu eða með neinum skilyrðum (öðrum en þeim sem koma fram í yfirlýsingu stefnanda dags. 11. janúar 1988), enda hefði slíkt þá þurft að koma fram í áritun á skulda­bréfið. Varðandi þetta vísar stefndi til viðskiptabréfareglnanna um að framsalshafi skuldabréfs fái þann rétt sem komi fram í skuldabréfinu sjálfu. Fullyrðingum stefnanda, um að Búnaðar­bankinn hafi hafnað kaupum á skuldabréfinu og að Búnaðarbankinn hafi innheimt bréfið fyrir hönd og í nafni stefnanda, sé mótmælt, enda ekki studdar neinum gögnum og raunar bendi gögn málsins eindregið til hins gagnstæða. Stefndi bendi jafnframt á að engin gögn hafi verið lögð fram í málinu sem styðji þá fullyrðingu stefnanda að hann hafi afhent Búnaðarbanka Íslands umrætt skuldabréf til innheimtu.

Stefndi byggi jafnframt á því að stefnandi hafi þegar við framsalið, en í síðasti lagi við uppgjör skv. samkomulagi dags. 7. mars 1994 fengið greitt fyrir skuldabréfið og eigi þar með enga kröfu á hendur Búnaðarbankanum, og þaðan af síðar á hendur stefnda.

Varðandi yfirlýsingu stefnanda dags. 11. janúar 1988, áréttar stefndi að tvisvar sinnum hafi stefnandi tekið við greiðslum frá Búnaðarbankanum, sem var ráðstafað, með samþykki stefnanda, í skýrri andstöðu við fyrrgreinda yfirlýsingu, þ.e.a.s. greiðslu að fjárhæð 3.000.000 kr. hinn 6. ágúst 1993, og 1.767.445 kr. hinn 2. nóvember 1999, sem stefnandi segist hafa tekið við úr hendi Búnaðarbankans (en stefndi hefur engar upplýsingar um), sbr. umfjöllun í bréfi stefnanda dags. 3. október 2000. Stefndi byggir þ.a.l. á því að stefnandi geti ekki byggt á yfir­lýsingunni, enda samþykkti stefnandi að vikið væri frá efni hennar.

                Til viðbótar kveðst stefndi benda á nokkur atriði sem koma fram í gögnum málsins og styðja ofangreindar röksemdir stefnda, um að stefnandi hafi hinn 15. janúar 1988 framselt Búnaðarbankanum skuldabréf nr. 200176 til eignar, en jafnframt sýni þessi atriði hversu mikið ósamræmi sé milli gagna málsins og málatilbúnaðar stefnanda. Í fyrsta lagi liggi ekkert því til grundvallar í málinu að stefnandi hafi gert samning við Búnaðarbankann, munnlegan eða skriflegan, um að bankinn innheimti skuldabréfið fyrir hans hönd. Í öðru lagi virðast Búnaðarbankinn og stefnandi ekki hafa átt í neinum samskiptum vegna innheimtu skuldabréfsins. Í þriðja lagi innheimti Búnaðarbankinn aldrei þóknanir úr hendi stefnanda fyrir innheimtuna. Í fjórða lagi krafði Búnaðarbankinn stefnanda aldrei um þá greiðslu sem hann innti af hendi í kostnað og vegna lögveða við nauðungarsölu undirliggjandi veðs skuldabréfsins, Austurmarkar 24, samtals 3.719.561 kr. Í fimmta lagi stemma ekki greiðslur sem Búnaðarbankinn tók við vegna skuldabréfsins við þær greiðslur er bankinn greiddi stefnanda.

                Að lokum sé bent á það að í stefnu viðurkennir stefnandi að hann hafi komist að því „fyrir tilviljun“ í byrjun árs 1993 að skuldskeyting hafi verið gerð á skuldabréfinu. Þrátt fyrir það virðist stefnandi ekki hafa komið athugasemdum á framfæri við Búnaðarbankann varðandi það, enda þótt þetta, þ.e.a.s. að annar skuldari komi í stað fyrri, hljóti að teljast verulegt hagsmunamál fyrir stefnanda, hafi hann raunverulega verið eigandi skuldabréfsins á þessum tíma.

Fallist dómurinn ekki á ofangreindar röksemdir fyrir sýknu, byggi stefndi sýknukröfu sína í öðru lagi á því að með fullnaðaruppgjöri stefnanda og Búnaðarbankans dags. 7. mars 1994, hafi aðilar gert með sér fullnaðarsamkomulag um allar kröfur sín á milli, þ.m.t. þá kröfu sem stefnandi, eftir atvikum, átti á hendur Búnaðarbankanum vegna kaupa á skuldabréfi nr. 200176. Stefndi byggi jafnframt á því að Búnaðarbankinn hafi staðið við allar sínar skuldbindingar skv. samkomulaginu og því sé það bindandi fyrir aðila. Með þessu samkomulagi hafi stefnandi lýst því yfir að hann ætti enga kröfu á hendur Búnaðarbankanum vegna skuldabréfs nr. 200176, eða a.m.k. hafi hann samþykkt að hún félli niður þá þegar, sbr. síðustu málsgrein samkomulagsins: „Með þessu lýkur málinu öllu og eru aðilar sammála um að eftirmál verða engin, þ.m.t. verður ekki um neinar kröfur að ræða af hálfu Sigurjóns á hendur ríkissjóði vegna Útvegsbankans.“ Stefndi mótmæli því harðlega að „þögn“ fullnaðaruppgjörsins um umþrætta „innstæðu“ stefnanda hjá Búnaðarbankanum eigi að túlka þannig að ætlun aðila samkomulagsins hafi verið sú að halda „innstæðunni“ fyrir utan uppgjörið, enda sé engin rökræn skýring á því af hverju aðilar myndu gera slíkt í þessu tilviki og myndi það auk þess ganga gegn tilgangi fullnaðaruppgjörs, sem sé að aðilar geri upp þær kröfur sem þeir telja sig eiga hvor á annan.

                Í þriðja lagi byggir stefndi á því að öll réttindi, sem stefnandi telur sig hafa átt vegna skuldabréfs nr. 200176 hafi fallið niður við ógildingardóm yfir skuldabréfinu. Þá hafi réttindi Búnaðarbankans yfir bréfinu verið staðfest með dóminum og réttindi, sem aðrir gætu hafa haft til bréfsins, fallið niður. Að mati stefnda horfir þetta til réttarspjalla fyrir stefnanda, hafi hann á annað borð átt einhvern rétt til skuldabréfsins, og eigi þetta að leiða til sýknu stefnda í málinu.

                Í fjórða lagi byggir stefndi á því að krafa stefnanda hafi fallið niður vegna verulegs tómlætis stefnanda við að halda henni til haga. Ekki sé um það deilt að stefnandi átti í nokkrum samskiptum við Búnaðarbankann um viðskipti sín við bankann, sbr. framlögð bréf í málinu. Aftur á móti átelur stefndi stefnanda fyrir að hafa ekki borið mál sitt fyrr undir dómstóla og þannig reynt að leysa ágreining sinn við bankann, sbr. neðangreinda umfjöllun.

                Stefnandi fullyrðir í stefnu að eftir að hann framseldi bankanum skuldabréf nr. 200176 15. janúar 1988 hafi starfsmenn bankans sagt honum að bankinn hefði hafnað því að kaupa skuldabréfið af honum og jafnframt hafi hann ítrekað fengið fengið þau svör frá starfsmönnum bankans að bréfið hefði týnst í fórum bankans. Samt sem áður virðist stefnandi, á þessum tíma, ekki hafa hlutast til um að þessi staða yrði leyst og réttar­staða aðila skýrð, s.s. með því að bera málið undir dómstóla. Heil fimm ár líða frá framsali skuldabréfsins þangað til nokkuð gerist í málum stefnanda gagnvart Búnaðarbank­anum, þegar stefnandi og Búnaðarbankinn gerðu með sér fullnaðaruppgjör 7. mars 1993. Með því uppgjöri gerðu aðilar upp allar kröfur sín á milli. Stefnandi heldur því þó fram í málinu að hann hafi samt sem áður átt umþrætta kröfu á hendur Búnaðarbankanum, en þrátt fyrir það beið hann í sex ár frá því uppgjörið fór fram þangað til hann kom kröfu sinni á framfæri við Búnaðarbankann, sbr. bréf stefnanda dags. 28. október 1999. Þegar stefnandi sendi það bréf voru liðin rúmlega 11 ár frá því atvik málsins gerðust. Hinn 12. nóvember 1999, kom bankinn því skýrt á framfæri við stefnanda að hann teldi stefnanda ekki eiga kröfu á hendur sér. Þá þegar hefði stefnandi átt að bera ágreining sinn við Búnaðarbankann undir dómstóla. Stefnandi gerði það ekki þá og beið með það í rúm 13 ár þangað til hann hóf málsókn gegn stefnda með stefnu birtri 5. desember 2012 (í máli sem var síðar fellt niður), eða rúmum 24 árum eftir að atvik málsins gerðust. Í ljósi framangreinds, og einnig þess að krafa stefnanda sé um töluvert fé og þess að sérstaklega mikilvægt var fyrir stefnanda að bera mál sitt undir dómstóla tímanlega m.t.t. sönnunaratriða, telur stefndi að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti við að halda kröfu sinni til haga.

                Í fimmta lagi byggir stefndi á því að ætluð krafa stefnanda geti ekki talist innstæða og hafi ekki verið framseld stefnda með ákvörðun FME frá 21. október 2008 Því eigi stefnandi enga kröfu á hendur stefnda.

                Verði ekki fallist á ofangreindar röksemdir fyrir sýknu krefst stefndi lækkunar tildæmdrar fjárhæðar, til viðbótar við greiðslu á 3.000.000 kr., sem komi fyrir í kröfugerð stefnanda. Í bréfi sínu til Búnaðarbankans dags. 3. október 2000, fullyrðir stefnandi að Búnaðarbankinn hafi greitt 1.767.445 kr. hinn 2. nóv. 1999 vegna skuldabréfs nr. 200176. Stefndi krefjist þess að sú greiðsla, hvernig sem til hennar kom, komi til frádráttar dæmdri fjárhæð. Auk þess krefjist stefndi þess að sú fjárhæð, sem Búnaðarbankinn (sem kaupandi fasteignarinnar Austurmörk 24) greiddi ríkissjóði og lögveðshöfum vegna fasteignarinnar, samtals 3.719.561 kr. komi til frádráttar tildæmdri kröfu.

Verði ekki fallist á ofangreindar röksemdir og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda eina af þeim kröfum sem tilgreindar eru í stefnu, krefst stefndi sýknu af öllum dráttar­vaxtakröfum stefnanda, enda sé byggt á því í málinu að um kröfu vegna „innstæðu“ sé að ræða og því ekki eðlilegt að slík krafa beri dráttarvexti, heldur ætti hún með réttu að bera innlánsvexti. Jafnframt er því hafnað að stefnandi hafi sent Búnaðarbankanum kröfubréf eða „greiðsluáskoranir“, eins og stefnandi nefnir það í stefnu, vegna „innlánsins“, a.m.k. ekki svo skýrar að réttlætanlegt sé að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti eins og hann gerir kröfu um í aðal- og varakröfum sínum. Auk þessa krefjist stefnandi sýknu af öllum kröfum um greiðslu vaxta, hvort sem um er að ræða almenna vexti, innlánsvexti eða dráttar­vexti, af dæmdri fjárhæð, sem urðu gjaldkræfar fyrir 5. desember 2008. Mál þetta hófst með stefnu birtri 5. desember 2012 og þar sem vextir fyrnist á fjórum árum skv. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda séu allar vaxtakröfur stefnanda á hendur stefnda, sem urðu gjaldkræfar fyrir 5. desember 2008, fyrndar. Verði talið að lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda taki til vaxtakrafna stefnanda, byggir stefndi á því að ákvæði þeirra laga leiði til sömu niðurstöðu, þ.e. að vextir, sem urðu gjaldkræfir fyrir 5. desember 2012, séu fyrndir.

IV

Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um kröfu stefnanda til útgreiðslu ætlaðrar innstæðu sem hann telur vera í sinni eigu. Í málinu liggur fyrir að forveri stefnda, Búnaðarbanki Íslands, tók við greiðslu fjármuna á grundvelli skuldabréfs nr. 200176 við sölu á veðandlagi bréfsins í maí 1994. Stefnandi telur sig eiga tilkall til umræddra fjármuna þar sem hann hafi verið eigandi skuldabréfsins og bankinn einvörðungu séð um innheimtu þess fyrir hans hönd. Stefndi telur aftur á móti að Búnaðarbanki Íslands hafi fengið nefnt skuldabréf framselt og andvirði hins selda veðandlags sé hans eign. Þá telur stefnandi að umræddir fjármunir hljóti að vera enn í vörslu stefnda, enda hafi útborgun til hans hvorki farið fram af hálfu stefnda né forvera hans auk þess sem ráðstöfunarheimildir stefnanda og forvera hans sættu að öðru leyti verulegum takmörkunum. Þessu hafnar stefndi, enda hafi Búnaðarbanki Íslands verið eigandi bréfsins. Öðru fremur er ágreiningur málsins sá hvort eignarréttur að skuldabréfi nr. 200176 hafi flust frá stefnanda til Búnaðarbanka Íslands og hafi eignarrétturinn ekki flust frá stefnanda þá er ágreiningur um hvernig hinum innheimtu fjármunum hafi verið ráðstafað og um lögmæti þeirra ráðstafana. Með því að stefndi hefur ekki gert kröfu um sýknu með vísan til 16. gr. laga um meðferð einkamála, telur hann sig eiga aðild að máli þessu.

                Ágreining málsins er að rekja til veðskuldabréfs nr. 200176 sem gefið var út 1. desember 1985, að fjárhæð 2.000.000 kr. með lánskjaravísitölu 1301. Nafn útgefanda er ólæsilegt en það er útgefið f.h. Skemmtigarðsins sf. til Vinjar hf. Til tryggingar skilvísum greiðslum var fasteignin Austurmörk 24, Hveragerði veðsett með 1. veðrétti. Skuldabréfið ber með sé að hinn 15. janúar 1988 hafi stefnandi málsins, Sigurjón Ragnarsson framselt Búnaðarbanka Íslands bréfið. Stefnandi málsins byggir hins vegar á því að bankinn hafi ekki viljað kaupa bréfið og bankinn hafi haft bréfið til innheimtu en hann sé eigandi þess.

                Sú málsástæða stefnanda að hann sé eigandi bréfsins og Búnaðarbankinn hafi haft bréfið til innheimtu byggist fyrst og fremst á yfirlýsingu stefnanda sjálfs. Hann telur að Búnaðarbankinn hafi hafnað kaupunum á bréfinu og ekki skilað sér bréfinu. Síðan hafi bréfið týnst þannig að ekki sé hægt að sýna fram á framsalsröðina á frumriti bréfsins. Þá bendir stefnandi á að hvorki hafi kaupnótu vegna bréfsins verið framvísað, en sú málsástæða kom fram við aðalmeðferð málsins og var henni ekki mótmælt af hálfu stefnda, né hafi verið sýnt fram á hvenær andvirði bréfsins hafi verið greitt stefnanda.

                Í gögnum málsins er víða að finna vísbendingar um hvort bréfið hafi verið framselt Búnaðarbankanum til eignar eða ekki. Í fyrsta lagi ber að líta til þess hvernig framsalið er á skuldabréfinu sjálfu en ljósrit þess liggur fyrir í málinu. Framsalið er án alls fyrirvara. Á bréf frá stefnanda til Búnaðarbankans dags. 11. janúar 1988 viðurkennir lögfræðingur bankans móttöku skuldabréfsins hinn 14. janúar 1988. Síðan er vélritað á nefnt bréf: „Tók við skuldabréfinu aftur þ. 15.1.1988, til þess að láta bæta úr galla á framsali þess. Mun afhenda bréfið aftur þ. 19.1.1988.“ Undirritun skortir á ljósrit bréfs þessa er liggur fyrir í málinu. Hins vegar liggur fyrir í málinu annað ljósrit af skuldabréfinu með rofinni framsalsröð. Dómurinn telur eðlilegast að skýra þessa áritun á bréfið frá 11. janúar 1988 þannig að stefnandi hafi fengið bréfið aftur til að laga framsalsröðina og síðan afhent bankanum bréfið á ný 19. janúar 1988. Það er ágreiningslaust í málinu að Búnaðarbankinn fékk skuldabréfið og hafði það í sínum vörslum. Þegar framsalið er skoðað eitt og sér bendir það til þess að skuldabréfið hafi verið framselt Búnaðarbankanum til eignar en ekki innheimtu svo sem stefnandi heldur fram.

                Við skuldbreytinguna sem fram fór 12. ágúst 1991 er Búnaðarbanki Íslands tilgreindur eigandi skuldabréfsins. Sama er að segja í öllum gögnum varðandi nauðungarsölu hinnar veðsettu eignar að Austurmörk 24 í Hveragerði en afsalið gaf Búnaðarbankinn út 15. desember 1994.

                Þá hefur stefnandi í bréfi sínu dags. 25. janúar 1993 til bankastjóra Búnaðarbankans tilgreint, að bankinn hafi keypt af honum skuldabréfið, en þar segir: „Eins og kunnugt er keypti bankinn af mér skuldabréf á árinu 1991 með veði í lóð skemmtigarðsins í Hveragerði...“ Í öðru bréfi stefnanda til Búnaðarbanka Íslands frá 28. október 1999 kemur fram að stefnandi framseldi bankanum bréfið 15. janúar 1988. Síðan rekur stefnandi atvik málsins frá hans sjónarhóli og segir síðan að í upphafi árs 1993 hafi hann komist að því að bankinn hafi keypt bréfið. Í bréfinu krefst stefnandi þess að fá andvirði þess greitt.

                Þá liggur fyrir að hinn 6. ágúst 1993 greiddi bankinn stefnanda 3.000.000 kr. „sem hluta af andvirði skuldabréfs upphaflega útgefnu 1. desember 1985, af Skemmtigarðinum“. Síðan hefur stefnandi upplýst í bréfi sínu til bankastjóra Búnaðarbankans frá 3. október 2000 að hann hafi fengið greiddar 1.767.445 kr. hinn 2. nóvember 1999 inn á bréfið.

                Í málinu er verið að deila um atvik er áttu sér stað fyrir tæplega 26 árum síðan. Ljóst er að munnlegar skýrslur verða ekki lagðar til grundvallar því er gerðist fyrir svo löngu síðan og telur dómurinn þær ekki hafa sönnunargildi. Málsatvik eru um margt óljós. Þó liggur ágreiningslaust fyrir að bankinn var með skuldabréfið og að það týndist í meðförum bankans. Ekki liggur fyrir kaupnóta vegna kaupa bankans á bréfinu. Því er óupplýst hvað stefnandi átti að fá í sinn hlut vegna bréfsins en hann hefur þó fengið samtals 4.767.445 kr. greitt inn á bréfið. Framlögð bréf frá stefnanda eru misvísandi um það hvort hann hafi framselt bankanum skuldabréfið eða ekki, en eldri bréfin tilgreina þó að stefnandi hafi framselt bankanum bréfið. Með því að stefnandi hófst ekki handa fyrr með málarekstur sinn hefur hann sýnt af sér verulegt tómlæti og ber hann hallann af því að málsatvikin eru óljós. Hafi stefnandi ekki framselt bankanum skuldabréfið til eignar hinn 15. janúar 1988 heldur falið bankanum það til innheimtu svo sem hann heldur fram, þá hefði hefði verið eðlilegt að hann hefði kannað greiðslustöðu bréfsins, en eini gjalddagi þess var 1. desember 1988. Fyrir liggur að ekki var greitt þann dag. Þá sýndi stefnandi einnig tómlæti þegar hann kveðst í byrjun árs 1993 hafa komist að því að skuldbreyting hafi átt sér stað 12. ágúst 1991. Ekki er að sjá af gögnum málsins að hann hafi hreyft athugasemdum fyrr en í október 1999.

                Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi hinn 15. janúar 1988 framselt Búnaðarbanka Íslands skuldabréfið. Búnaðarbankinn hafi því orðið eigandi að því. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna stefnda, Arion banka hf., af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Arion banki hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Sigurjóns Ragnarssonar.

Stefnandi, Sigurjón Ragnarsson, greiði stefnda, Arion banka hf. 750.000 kr. í málskostnað.