Hæstiréttur íslands
Mál nr. 53/2002
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
|
|
Miðvikudaginn 19. júní 2002. |
|
Nr. 53/2002. |
Anna Lilja Karlsdóttir(Björgvin Þorsteinsson hrl.) gegn Niðursuðuverksmiðjunni Ora - Kjöt/Rengi ehf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur.
A kvaðst hafa orðið fyrir meiðslum við vinnu sína í verksmiðju O ehf. Var O ehf. kunnugt um þessa staðhæfingu hennar, en lét undir höfuð leggjast að hlutast til um rannsókn á atvikum fyrr en vátryggingafélagið T hf. óskaði eftir því og var þá liðið á fjórða ár frá því þau gerðust. Af þessum sökum varð að leggja til grundvallar frásögn A um aðbúnað og verklag á vinnustaðnum, hvernig hún stóð að verki þegar hún meiddist og að meiðslin hafi hún hlotið við vinnu hjá O hf. Þrátt fyrir þetta þótti ekki verða fram hjá því litið að verk A var einfalt og að ekki hefði verið tilefni til að veita henni sérstakar leiðbeiningar um það. Þá þótti og sýnt að hún hefði getað borið sig öðru vísi að við verkið. Þótti A samkvæmt þessu ekki hafa sýnt nægilega fram á að O ehf. gæti borið skaðabótaábyrgð gagnvart henni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Hrafn Bragason og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2002. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.383.767 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1995 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt fyrir héraðsdómi.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
Tryggingamiðstöðinni hf. er stefnt til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi, sem er fædd 1976, kveðst hafa orðið fyrir meiðslum í lok janúar 1995 við vinnu í niðursuðuverksmiðju stefnda, en þar mun hún þá hafa starfað í tæpa þrjá mánuði. Fékkst hún í umrætt sinn við að skera niður gulrófur í vél. Úr vélinni féllu rófubitar ofan í kassa, en þegar hann fylltist hverju sinni bar áfrýjandi hann að sérstöku keri til að tæma hann. Eins og málið liggur fyrir virðist áfrýjandi hafa fengist við þetta á annan vinnudag þegar hún kvaðst hafa orðið fyrir því undir lok síðari dagsins að lyfta kassanum upp til að tæma úr honum, en við það hafi hún skyndilega fengið sáran verk í vinstri öxl og niður í handlegg. Hafi hún misst mátt í handleggnum og kassinn fallið niður. Hún hafi þó harkað af sér og unnið til loka dagsins án þess að greina yfirmönnum frá þessu atviki, enda fljótlega fengið aftur mátt í handlegginn. Kveðst hún hafa átt erfitt með svefn næstu nótt vegna sársauka í öxlinni, en mætt allt að einu til vinnu morguninn eftir. Henni hafi þá verið fengið léttara starf en endranær, en orðið að hverfa frá vinnu út af þrautum. Hafi hún sagt nafngreindum verkstjóra frá meiðslum sínum og hann bent henni á að leita til trúnaðarlæknis stefnda. Ekki hafi henni tekist að fá viðtal við þann lækni og hún því leitað til heimilislæknis síns, sem hún hafi fengið tíma hjá 3. febrúar 1995. Síðastnefndi læknirinn hafi látið henni í té vottorð vegna fjarvista frá vinnu. Það vottorð liggur fyrir í málinu og er þar staðfest að áfrýjandi hafi verið óvinnufær frá 1. til 3. febrúar 1995 vegna vinnuslyss. Áfrýjandi segist hafa skilað þessu vottorði til stefnda, en ekki náð sér á næstu dögum og því verið áfram frá vinnu. Verkstjóri hjá stefnda hafi skömmu síðar átt símtal við hana og sagt henni upp störfum.
Í gögnum málsins kemur fram að nokkur samskipti urðu milli heimilislæknis áfrýjanda og trúnaðarlæknis stefnda í framhaldi af vottorði þess fyrrnefnda 3. febrúar 1995. Meðal annars ritaði trúnaðarlæknirinn bréf til hans 17. febrúar 1995, þar sem fram kom að trúnaðarlæknirinn gæti ekki fallist á að áfrýjandi hafi orðið fyrir vinnuslysi. Greindi þar frá því að áfrýjandi hafi hringt til trúnaðarlæknisins 1. sama mánaðar og tilkynnt um veikindi, en hvorki „minnst á það einu orði né ýjað að því“ að um vinnuslys hafi verið að ræða.
Lögmaður áfrýjanda ritaði stefnda bréf 15. ágúst 1996, þar sem fram kom að hann gætti hagsmuna hennar vegna vinnuslyss hjá stefnda 30. janúar 1995. Áfrýjandi leitaði til örorkunefndar 14. maí 1998 til að fá metna varanlega örorku sína og varanlegan miska vegna þessa atviks. Virðist þetta hafa orðið tilefni þess að réttargæslustefndi hlutaðist til um að lögreglan tæki skýrslur síðari hluta árs 1998 af áfrýjanda, verkstjóra hennar hjá stefnda og tveimur samverkamönnum. Í álitsgerð örorkunefndar 29. júní 1999 var komist að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka áfrýjanda vegna meiðsla, sem hún rakti til vinnuslyss hjá stefnda, væri 10%, en varanlegur miski 12%. Eftir að álitsgerð þessi lá fyrir urðu nokkur bréfaskipti í ágúst og september 1999 milli lögmanns áfrýjanda og réttargæslustefnda, þar sem deilt var um skaðabótaskyldu vegna þessara meiðsla. Töluleg krafa um bætur virðist á hinn bóginn fyrst hafa verið sett fram af áfrýjanda þegar hún höfðaði mál þetta 12. júní 2001.
II.
Í málinu liggur fyrir bréfleg frásögn áfrýjanda, sem dagsett er 13. mars 1996, um atvik að fyrrgreindum meiðslum hennar, en ekki kemur þar fram að hverjum frásögninni var beint eða af hvaða tilefni hún var rituð. Segir þar að áfrýjandi hafi eftir hádegi 30. janúar 1995 orðið fyrir vinnuslysi í starfi hjá stefnda. Hafi þetta gerst þannig að hún hafi verið að losa úr kassa, sem í voru rófubitar, en hann hafi verið um 20 til 30 kg að þyngd. Við þetta „gerðist eitthvað í vinstri handlegg og öxl, sem leiddi til þess að ég varð alveg máttvana í handleggnum.“ Hún hafi samt haldið áfram að vinna þennan dag, en notið aðstoðar vinnufélaga við að lyfta kassanum eftir þetta.
Í bréfi, sem áfrýjandi ritaði 6. mars 1997 til lögmanns síns, sagði meðal annars eftirfarandi: „Slysið skeði um kl. 15:30. Þetta var þannig að ég tek rófur og hakka þær í vél og rófuteningar lenda ofan í gráan aflangan fiskikassa sem er ca. 10 cm fyrir ofan gólfhæð. Ég tók kassann og var að losa hann í kar sem var ca. 2 metra í burtu, ég lyfti kassanum upp og fékk þá skyndilegan verk frá öxl og niður í handlegg. Við þetta varð handleggurinn algjörlega máttlaus og ég missti þar af leiðandi kassann ofan í rófukarið. Þessi kassi hefur ábyggilega verið í kringum 20 kíló, og ég varð að losa hann í hvert skipti sem ég var búin að fylla hann. Ég tel að það hafi tekið um 5 mínútur að fylla kassann.“
Í lögregluskýrslu, sem tekin var af áfrýjanda 15. júlí 1998, kvaðst hún hafa meiðst við vinnu hjá stefnda á þriðjudegi í lok janúar 1995. Hún hafi þá unnið við að tæma plastkassa, sem í voru rófubitar. Hún hafi þurft að lyfta kössunum nánast frá gólfi og upp í „töluverða hæð“ til að tæma úr þeim í stórt ker. Hafi hún verið hafa meiðst við vinnu hjá stefnda á þriðjudegi í lok janúar 1995. Hún hafi þá búin að vinna við þetta frá mánudeginum á undan, en um kl. 15.30 á þriðjudeginum hafi vinstri handleggur hennar „fallið niður og orðið alveg máttlaus.“ Eftir smá stund hafi hún fengið máttinn aftur, en minni en áður var.
Í skýrslu, sem áfrýjandi gaf við aðalmeðferð málsins í héraði, lýsti hún aðstæðum við umrædda vinnu sína þannig að hún hafi sett gulrófur í vél, þar sem þær hafi verið skornar í teninga og þeir síðan fallið ofan í fiskkassa. Hann hafi verið 12 til 15 cm hár og um einn metri að lengd, en engar höldur á honum. Hafi 20 til 30 kg, jafnvel 35 kg af þessum teningum verið látin fara í kassann hverju sinni, sem hafi tekið um fimm mínútur, og hann síðan verið tæmdur. Sjálf hafi hún þó getað ráðið hversu mikið var látið í hann. Hann hafi staðið á bakka, sem hafi verið í um 20 cm hæð frá gólfi. Þaðan hafi hún tekið kassann þegar hann var orðinn fullur og borið um tvo til þrjá metra að 70 til 80 cm háu keri, þar sem hún hvolfdi úr honum. Sagðist hún hafa lyft öðrum enda kassans „alveg yfir höfuðið“ þegar hún losaði úr honum í kerið. Þetta hafi hún gert ein síns liðs og aldrei verið bent á að leita sér aðstoðar, en þegar hún sinnti ekki þessu verki sjálf hafi hún þó á fyrri stigum séð að stundum hafi tveir í sameiningu lyft kassanum upp til tæmingar. Áður en hún hófst handa við þetta verk hafi hún engar leiðbeiningar fengið eða tilsögn og engin hjálpartæki verið á vinnustaðnum. Vinnubrögð hennar hafi verið þau sömu og hún sá aðra beita á undan sér. Henni hafi ekki fundist of mikið á sig lagt með þessu verki, en það „var kannski ekki rétt farið að þessu.“
III.
Eins og áður greinir aflaði áfrýjandi sér vottorðs heimilislæknis 3. febrúar 1995 vegna fjarvista frá störfum hjá stefnda. Í því vottorði kom skýrlega fram að læknirinn teldi áfrýjanda með öllu óvinnufæra frá 1. til 3. þess mánaðar og væri það vegna vinnuslyss. Ljóst er að þetta vottorð barst stefnda, enda varð það tilefni til áðurgreinds bréfs trúnaðarlæknis hans 17. febrúar 1995 til heimilislæknisins. Þótt stefndi kunni að hafa verið ósammála því að áfrýjandi geti hafa meiðst í vinnuslysi, fær það engu breytt um að honum var kunnugt um staðhæfingu hennar þess efnis. Þrátt fyrir þetta lét stefndi undir höfuð leggjast að hlutast til um rannsókn á atvikum að meiðslum áfrýjanda og var ekkert hafst að í því efni fyrr en réttargæslustefndi óskaði eftir lögreglurannsókn þegar liðið var á fjórða ár frá því að þau gerðust. Með þessu var farið á mis við að afla haldbetri gagna en nú liggja fyrir um aðstæður á vinnustaðnum og vinnubrögð, sem þar var beitt, svo og að ganga úr skugga um hvort aðrir en þeir, sem áður er getið, gætu borið um atvik málsins. Af þessum sökum verður að leggja til grundvallar fyrrgreinda frásögn áfrýjanda um aðbúnað og verklag á vinnustaðnum, hvernig hún stóð að verki þegar hún varð fyrir meiðslum og að þau hafi hún hlotið við vinnu hjá stefnda.
Þrátt fyrir það, sem að framan segir, verður ekki litið fram hjá því að verkið, sem áfrýjandi fékkst við, var einfalt. Eins og hún hefur sjálf lýst framkvæmd verksins var ekki tilefni til að veita henni sérstakar leiðbeiningar umfram það, sem ætlast mátti til að henni væri ljóst af almennri starfsreynslu sinni hjá stefnda og af því að hafa fylgst með öðrum við umrædda vinnu. Áfrýjandi skýrði svo sem áður segir frá því fyrir dómi að henni hafi verið kunnugt um að aðrir, sem fengust við þetta verk á undan henni, hafi stundum leitað aðstoðar samstarfsmanna til að tæma úr fyrrnefndum kassa ofan í ker. Jafnframt kvaðst hún hafa sjálf getað nokkru ráðið um hversu mikið var látið safnast í kassann áður en losað var úr honumsem fengust við þetta verk á undan henni, hafi stundum leitað aðstoðar samstarfsmanna til að tæma úr fyrrnefndum kassa ofan í ker. Jafnframt kvaðst hún hafa sjálf getað nokkru ráðið um hversu mikið var látið s. Þegar þessa er gætt verður ekki fallist á með áfrýjanda að sýnt hafi verið nægilega fram á að stefndi geti borið skaðabótaábyrgð gagnvart henni vegna þeirra meiðsla, sem hún hlaut við störf hjá honum. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Rétt er að aðilar beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2001.
Mál þetta var höfðað 12. júní síðastliðinn og dómtekið 21. nóvember síðastliðinn. Stefnandi er Anna Lilja Karlsdóttir, Skólagerði 61, Kópavogi, en stefndu eru Niðursuðuverksmiðjan Ora-Kjöt/Rengi ehf. og Tryggingamiðstöðin hf., til réttargæslu.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni kr. 1.383.767 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1995 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar.
Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði látinn falla niður
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.
I.
Málavextir eru þeir að stefnandi var starfsmaður hjá stefndu og vann þar ýmis störf í verksmiðjunni. Þann 30. janúar 1995, eða næsta dag, um það liggja ekki fyrir óyggjandi upplýsingar var stefnandi, sem þá var 18 ára og hafði verið starfsmaður stefndu í tæplega þrjá mánuði, að hakka rófur. Atburður sá sem mál þetta snýst um gerðist um kl. 15:30 að sögn stefnanda. Stefnandi hakkaði rófur í kassa sem stóð á palli um það bil 20 cm hæð frá gólfi. Kassinn var um það bil 60 cm breiður og 12-15 cm djúpur. Þetta var plastfat sem gjarnan er notað í rækjuvinnslu. Eftir að hafa fyllt kassann bar stefnandi hann að plastkari, sem er um það bil 75 cm að hæð og hvolfdi rófubitunum í karið. Stefnandi kvaðst hafa unnið við þetta verk allan þennan dag, daginn áður og hálfan daginn þar áður. Það hafi tekið um það bil fimm mínútur að fylla kassann og hafi hann þá vegið á bilinu 20 til 35 kg. Hún kvaðst hafa lyft kassanum af pallinum, borið hann nokkra metra að karinu og hvolft rófubitunum í karið. Stefnandi kvaðst hafa haldið undir kassann með hægri hendi, undir annarri skammhliðinni, sveiflað honum upp með vinstri hendi og með þeim hætti hvolft innihaldinu í karið. Ekki er alveg skýrt hvort hún studdi rófukassann við brún karsins þegar hún var að tæma hann. Það mátti skilja framburð stefnanda fyrir dómi á þann veg að hún hefði getað gert það, en hún hafi almennt „skutlað” kassanum með sveiflu og á þann veg tæmt hann. Milli kl. 15:00 - 15:30 þennan umrædda dag var stefnandi að tæma fullan kassa, sveiflaði honum upp í átt að karinu og missti þá skyndilega allan mátt í handleggnum. Handleggurinn hafi verið máttlaus í nokkrar sekúndur og hafi hún svo aftur fengið mátt í hann. Hún hafi fundið til sársauka, en á þeirri stundu hafi hann ekki verið óbærilegur. Hún hafi því ákveðið að harka af sér og nefna þetta ekki við verkstjóra sinn, Stefán Rögnvaldsson, þar sem vinnudeginum var senn að ljúka. Hún kvaðst hafa leitað eftir aðstoð samstarfskvenna til þess að tæma þá tvo kassa, sem hún átti eftir að fylla fyrir vinnulok. Stefnandi kvaðst skömmu áður hafa verið frá vinnu vegna lasleika og hafi það aftrað henni frá að ræða þetta atvik við verkstjórann. Stefnandi kvaðst líka hafa vonast eftir því að verkurinn myndi líða frá. Hún kvaðst hafa sofið illa um nóttina og hafi því verið sett í léttari verk daginn eftir. Verkurinn hertist er hún hóf störf og um kl. 10:00 kvaðst stefnandi hafa farið til verkstjóra sína, Stefáns Rögnvaldssonar, og sagt honum frá líðan sinni. Hafi hann tjáð henni að ef eitthvað væri að henni skyldi hún leita til trúnaðarlæknis fyrirtækisins, Kjartans Magnússonar, læknis. Hún kvaðst hafa gert það, en hann hafi verið vant við látinn og henni bent á að leita til heimilislæknis síns, sem hún hafi gert. Björn Guðmundsson, heimilislæknir stefnanda, veitti henni viðtalstíma föstudaginn 3. febrúar 1995. Hann taldi að stefnandi hefði tognað og mat hana óvinnufæra 1.-3. febrúar. Stefnanda var gefið bólgueyðandi lyf og ráðlagt að hvíla sig í viku til tíu daga. Stefnandi leitaði aftur til heimilislæknis síns, föstudaginn 10. febrúar vegna mikilla verkja í öxl. Sprautaði læknirinn í öxl hennar sterum og deyfiefni. Stefnandi kom aftur til Björns þriðjudaginn 14. febrúar og var engu betri. Ákvað heimilislæknirinn að senda stefnanda í sjúkraþjálfun.
Í álitsgerð örorkunefndar kemur fram að eftir fyrstu heimsókn stefnanda til Björns Guðmundssonar, heimilislæknis, föstudaginn 3. febrúar en áður en hún kemur til hans öðru sinni föstudaginn 10. febrúar hafði trúnaðarlæknir stefnda, Kjartan Magnússon, símasamband við stefnanda og innti hana eftir því, hvort hún hefði ekki áður lent í slysum, sem hún kvað ekki vera. Fyrir dómi bar stefnandi að Kjartan hefði verið aðgangsharður í spurningum og hafi ítrekað innt hana eftir því hvort hún hefði ekki áður lent í slysi til dæmis sem barn, sem hún kvað ekki vera.
Þann 17. febrúar 1995 ritar Kjartan Magnússon, trúnaðarlæknir stefnda, bréf til Björns Guðmundssonar, læknis, þar sem fram kemur að þeir hafi ræðst við deginum áður vegna máls stefnanda og fram kemur að Kjartan Magnússon geti ekki fallist á þá skoðun, sem fram kemur í læknisvottorði Björns frá 3. febrúar að stefnandi sé óvinnufær 1.- 3. febrúar vegna vinnuslyss. Byggir trúnaðarlæknirinn skoðun sína á eftirtöldum forsendum: Þegar stefnandi hafi hringt á læknastofu Kjartans 1. febrúar hafi hún ekki minnst á það að hún hafi orðið fyrir vinnuslysi. Ennfremur hafi Kjartani verið ókunnugt um, þegar hann hafi rætt við Björn deginum áður (16. febrúar), að á samskiptaseðli dagsins vegna stefnanda komi fram að hún hafi sagt að einkenni frá öxl komi annað slagið, og þau stæðu í sambandi við tognun fyrir 4-5 árum og hún hafi gengið til sjúkraþjálfara vegna þessa. Ennfremur hafi hvorki yfirmanni stefnanda né öðrum starfsmönnum fyrirtækisins borist tilkynning um það að stefnandi hafi meitt sig við vinnu. Að lokum hafnar Kjartan tillögu Björns að fá þriðja lækninn til að meta möguleika á „traumatískri” orsök einkenna, þar sem slík skoðun muni ekki skera úr um hvort mögulegur áverki hafi átt sér stað í vinnu eða utan hennar.
Stefnandi hafði hafið nám í tónlistarskóla FÍH 1992 og var að læra á trompet. Hún gat ekki haldið áfram námi vegna verkja í öxlinni og hætti því námi og fór heim til foreldra sinna á Húsavík. Hún vann í unglingavinnu um sumarið og réð sig sem tónlistarkennara á Fáskrúðsfirði og var þar næstu tvo vetur. Veturinn 1997-1998 réði hún sig sem tónlistarkennara á Hvolsvelli. Stefnandi hóf nám að nýju í tónlistarskóla FÍH haustið 1998 og réði sig jafnframt sem kynningarfulltrúa hjá Bókaforlaginu Iðunni.
Í læknisvottorði Guðmundar Óskarssonar, læknis, á Heilsugæslustöðinni á Húsavík, dagsettu 29. september 1996 er sjúkrasaga stefnanda rakin. Þar kemur fram að 22. júní 1995 er stefnandi skoðuð og voru eymsli við þreifingu yfir vinstri axlarlið. Skerðing var á hreyfingum í liðnum. Hún fékk bólgueyðandi lyf og ráðlögð áframhaldandi meðferð hjá sjúkraþjálfara. Stefnandi var aftur skoðuð 12. júlí vegna sömu verkja. Hún hafi verið í 13 skipti hjá sjúkraþjálfara án árangurs og hafi þurft að fá sér léttari vinnu vegna verkja. Læknisskoðun leiddi í ljós eymsli yfir liðnum framanverðum (biceps sin) og liðnum utanverðum. Sárt var að lyfta handlegg upp og til hliðar (abductio) og sömuleiðis var sárt að lyfta handleggnum fram og upp (flectio). Einnig kvartaði stefnandi um sársauka í framanverðum axlarlið, þegar hún setti hendi aftur fyrir bak. Sprautað var í vöðvafestur um utanverðan axlarlið og stefnanda ráðlögð áframhaldandi meðferð bólgueyðandi lyfja. Ennfremur var henni vísað til Þorvalds Ingvarssonar, sérfræðings í bæklunarlækningum á Akureyri. Þorvaldur skoðaði stefnanda 11. ágúst 1995. Hann fann eymsli yfir liðnum framanverðum. Röntgenmyndir voru teknar, sem sýndu hvorki slitgigt, brot né afrifu á beini. Þorvaldur áleit að einkennin væru vegna bólgu í sin tvíhöfðavöðva (biceps-tendinit) og belgbólgu neðan axlarhyrnu (acromial bursitis). Þorvaldur var í símasambandi við sjúkraþjálfara og stefnanda frá ágúst 1995 til desember 1995. Hann skoðaði stefnanda að nýju 5. janúar 1996 og voru einkenni mjög á sama veg og við fyrri skoðun í ágúst. Stefnandi var á ný sprautuð í öxlina. Stefnandi hringdi í Þorvald 23. janúar 1996 og kvaðst vera verri í öxlinni. Í framhaldi af símtalinu sendi Þorvaldur Ingvarsson beiðni til Ágústs Kárasonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum í Reykjavík, um speglun á vinstri axlarlið.
Stefnandi fór til Ágústs Kárasonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum sem gerði liðspeglun og rýmkun á neðanaxlarhyrnubili, þann 16. apríl 1996 vegna gruns um neðanaxlarhyrnuþrengsli. Í læknisvottorði Ágústs Kárasonar, dagsettu 29. október 1996 kemur fram að hann hafi byrjað að spegla öxlina sjálfa, sem hafi reynst vera eðlileg hvað varðar brjósk og liðbönd, en hins vegar hafi komið fram að tvíhöfðasin hafi verið föst við liðpokann sem geti verið meðfæddur breytileiki. Hafi verið farið inn í neðanaxlarhyrnubilið sem hafi verið nokkuð eðlilegt nema við festu liðbands á axlarhyrnuna. Þar hafi verið merki um ertingu og því hafi verið heflað neðan af axlarhyrnunni og losað um liðbandið. Að áliti sérfræðingsins lagist yfirleitt verkir við aðgerðir sem þessar í um 80% tilvika. Áðurnefndur meðfæddur breytileiki stefnanda, þar sem tvíhöfðasinin er fastbundin við liðpokann geti hugsanlega gefið staðbundin óþægindi yfir framanverðum liðnum, sérstaklega við mikið álag. Um frekari meðferð við þessu er ekki að ræða. Ofangreindu vottorði lýkur á því að læknirinn kveðst ekki hafa séð stefnanda aftur frá aðgerð, en óskað hafi verið eftir því að heilsugæslulæknar á Fáskrúðsfirði tækju stefnanda í eftirlit eftir aðgerð.
Að beiðni stefnanda þann 14. maí 1998 fjallaði örorkunefnd um varanlega örorku og miskastig tjónþola vegna líkamstjóns er hún varð fyrir 31. janúar 1995. Í álitsgerð örorkunefndar í máli nr. 252/1998 dagsett 29. júní 1999 leiðir læknisskoðun eftirfarandi í ljós:
„Tjónþoli kemur vel fyrir. Svarar öllum spurningum greiðlega. Hreyfir sig að því er virðist eðlilega. Er að sjá all nokkuð yfir kjörþyngd. Það er að finna nokkur þreifieymsli yfir hálshryggjartindum og aðlægum vöðvum, mest vi. megin. Hálshreyfingar eru alfarið eðlilegar, en taka í í ytri mörkum. Óþægindin liggja vi. megin. Við hálshreyfingu fram á við vantar einn fingur upp á að haka nái bringubeini. Aftursveigja 50°. Virk snúningshreyfing til vi. 80°, til hæ. 80°. Virk vangavelta til vi. 50°, til hæ. 50°. Ekki er að finna nein sjalvöðvaeymsli hæ. megin, nokkur vi. megin. Ekki að finna nein eymsli yfir vi. eða hæ. viðbeinslið. Ekki nein óþægindi við þreifingu á hæ. axlarhyrnulið, en nokkur eymsli yfir vi. axlarhyrnulið. Á vi. öxl er að finna tvö vel gróin liðspeglunarör. Við mestu virku lyftu í vi. öxl virðist vanta um 5° upp á fulla hreyfigetu miðað við hæ. Óvirkur hreyfiferill í vi. öxl er sá sami og hæ. megin. Við óvirka hreyfingu virðist tjónþoli gæta axlarinnar. Styrkur axlavöðva virðist góður, en útsnúningskraftur virðist minni heldur en í hæ. öxl. Við fráfærslu gegn mótstöðu í 30° gefur vi. öxl mun fyrr eftir heldur en hæ. megin. Í 90° lyftu og 30° fráfærslu gegn álagi gefur vi. handleggur mun fyrr eftir en hæ. megin. Ekki að sjá neinskonar rýrnanir. Skoðun á vi. handlegg virðist að öðru leyti eðlileg með tilliti til slíks um olnboga og handlegg. Tilfinning í vi. handlegg virðist í lagi. Taugaviðbrögð beggja handleggja í lagi. Við skoðun virðist hæ. öxl og handleggur vera í lagi. Það er að finna þreifieymsli yfir herðablaðið vi. megin og niður brjóstvegg og bak vi. megin sem ekki er að finna hæ. megin. Engin sérstök eymsli yfir mjóbaki. Ekki eymsli yfir spjaldliðum að aftan. Hún getur við frambeygju sett fingur í gólf og rétt sig upp aftur án óþæginda. Taugaþansprófun ganglima virðist í lagi. Hefur ekki óbein mjóbaksóþægindi.”
Í niðurstöðu örorkunefndar kemur fram að nám stefnanda í trompetleik hafi tafist um þrjú ár. Hún geti ekki æft og spilað sem skyldi. Hún þurfi að nota sérsmíðaða spelku þegar hún leikur á hljóðfærið. Við skoðun telur nefndin sig finna einkenni eins og geta sést hjá sjúklingum með axlarhylkisheilkenni. Einnig finnast væg vöðvabólgulík einkenni í hálsi og álagseinkenni frá vinstra herðablaðssvæði. Örorkunefnd telur að eftir 1. september 1997 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum vinnuslyssins 31. janúar 1995. Telur örorkunefnd varanlegan miska tjónþola vegna afleiðinga vinnuslyssins 31. janúar 1995 vera hæfilega metinn 12%.
Þrátt fyrir að örorkunefnd telji stefnanda enn ekki hafa orðið fyrir tekjutapi vegna afleiðinga slyssins, telur nefndin engu að síður að geta tjónþola til öflunar vinnutekna í framtíðinni, einkum þegar lengra líður á starfsævina hafi skerst. Nefndin telur varanlega örorku tjónþola hæfilega metna sem 10%.
Stefán Rögnvaldsson verkstjóri hjá stefndu bar fyrir dómi að stefnandi hafi unnið hjá stefndu í tæplega þrjá mánuði, þegar sá atburður gerðist sem mál þetta snýst um. Þegar hún hafi sótt um vinnu hjá stefndu hafi Stefán tjáð henni að hann vantaði ekki konur til starfa heldur karlmenn. Stefnandi hafi þá tjáð honum að hún væri hraust og gæti unnið hvaða karlmannsverk sem væri. Hún lét þess getið að hún væri búin að æfa kúluvarp og hefði keppt í þeirri íþróttagrein. Stefnandi staðfesti þetta fyrir dómi. Stefnandi er stór og sterkleg og hafi hún því verið ráðin. Stefán sagði fyrir dómi að þær reglur ríktu hjá stefndu að fólk ætti að hjálpast að í vinnslusal. Það ætti að hjálpast að við að bera þunga hluti. Í þessu tilviki hafi stefnandi verið að hakka rófur í svonefnda rækjukassa, sem taka 15-20 kg. Stefnanda hafi verið í sjálfsvald sett hvað hún setti mikið í kassann hverju sinni. Kassinn sem hún hafi hakkað í hafi staðið á öðrum kassa, sem hafi verið 20-30 cm hár. Sjálfur rófukassinn hafi verið um 20 cm djúpur. Stefán sagði að stefnandi hafi einungis þurft að lyfta kassanum upp og hvolfa svo úr honum í kar sem stóð við hlið hennar. Hún hafi ekki þurft að ganga með rófukassann að karinu, eins og stefnandi heldur fram. Karið hafi verið um 80 cm að hæð. Stefán sagði að stefnandi hafi aldrei tilkynnt honum um vinnuslys. Hann minnist þess ekki að stefnandi hafi komið til hans daginn eftir og beðið um að vera sett í léttari verk vegna verkja í öxl. Hann minnist þess heldur ekki að hún hafi komið til hans um morguninn, kvartað yfir verkjum og hann hafi bent henni á að leita til trúnaðarlæknis. Fyrir dómi neitaði Stefán ekki að hann myndi svara á þessa lund hefði stefnandi kvartað yfir verkjum. Hann sagði að stefnandi hafi beðið um frí og ekki gefið upp ástæðu beiðninnar. Stefán kvaðst hafa verið óánægður með stefnanda sem starfsmann. Hún hafi mætt illa til vinnu. Hún hafi ekki tilkynnt um fjarveru. Hann hafi því ítrekað reynt að ná símasambandi við hana. Þegar það hafi loks tekist hafi hann sagt henni upp störfum. Það hafi verið fjórum eða fimm dögum eftir að hún bað um leyfi. Stefán bar að verk stefnanda í umrætt sinn hafi verið einfalt og hefði ekki krafist sérfræðiþekkingar af hennar hálfu eða leiðbeiningar stefnda. Hann hafi engu að síður lagt á það áherslu að starfsmenn hjálpuðust að þegar þess þyrfti með og væru ekki að bera þunga hluti einir. Það kom fram fyrir dómi að Stefán kvaðst annað hvort hafa sýnt stefnanda hvernig hún ætti að nota hakkavélina eða fengið einhvern annan til þess.
Aðrir sem komu fyrir dóm og gáfu vitnaskýrslur voru Þórður Ingi Guðnason, fyrrum verkstjóri hjá stefndu og Kolbrún Karlsdóttir, starfsmaður hjá stefndu.
II.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni við framkvæmd vinnu sinnar fyrir stefndu, og að stefnda beri ábyrgð á því tjóni. Sé krafan reist á almennu skaðabótareglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð og ennfremur sé byggt á reglunni um aukna ábyrgð atvinnurekanda vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað.
Ennfremur byggir stefnandi á þeirri málsástæðu að stefndi hafi ekki gætt þess að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi eins og kveðið er á um í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Vísað er til 13., 14., 21., 23., 37. og 42. gr. laganna. Þá hafi stefnda ekki sinnt þeirri lögboðnu skyldu sinni að gæta fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Þá hafi stefnda ekki gert starfsmönnum sínum ljósa slysahættu sem bundin var við starf hennar. Stefnandi hafi ekki fengið nægar leiðbeiningar frá stefnda um framkvæmd starfa síns á þann hátt að tjón hlytist ekki af. Byggt er á þeirri málsástæðu að stefnda lét undir höfuð leggjast að gefa fyrirmæli um að einn starfsmaður mætti ekki lyfta umræddum 20-30 kg kössum einsamall. Það ættu alltaf a.m.k. tveir að hjálpast að. Markviss fyrirmæli voru ekki gefin um það að stefnandi leitaði aðstoðar við umrætt verk og iðulega hafði hún unnið verkið ein. Byggt er á 37. gr. laga nr. 46/1980, þar sem kveðið er á um það að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Ennfremur er vísað til 10. gr. reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar séu handleiknar. Ennfremur er byggt á reglum í I. og II. viðauka sömu reglna.
Að auki byggir stefnandi á þeirri málsástæðu að stefnda hafi ekki fylgt ákvæðum 3. gr. reglna nr. 499/1994 með því að gera ekki skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki til að komast hjá því að starfsmenn þyrftu að handleika byrðar. Þegar ekki er hægt að komast hjá því að starfsmenn handleiki byrðar á atvinnurekandi að skipuleggja vinnuaðstæður, nota viðeigandi búnað eða sjá starfsmönnum fyrir hjálpartækjum til að draga úr þeirri áhættu sem felst í starfinu. Það verði að teljast sérstaklega áhættusamt að láta starfsmenn sína lyfta 20-30 kg kössum upp frá gólfi og síðan upp fyrir sig til að sturta úr þeim. Kassarnir hafi fyllst á 5 mínútna fresti og því ljóst að lítill tími var til hvíldar milli þess sem byrðarnar voru bornar. Þetta verklag leiddi til mikils álags á bak og axlir þeirra starfsmanna sem unnu verkið. Samkvæmt 8. gr. reglna nr. 499/1994 skal hvíla starfsmenn, sem handleika byrðar í sífellu, með því að láta þá fá annað verkefni eða með því að koma fyrir hléum til að draga úr hættu á heilsutjóni.
Stefnandi byggir að auki á þeirri málsástæðu að stefnda hafi brotið gegn ákvæðum 4. gr. reglna nr. 499/1994 með því að hafa ekki skipulagt vinnusvæði á þann hátt að öryggi og hollusta væri sem allra mest þegar ekki væri hægt að komast hjá því að starfsmenn handleiki byrðar. Stefnda sinnti ekki þeirri skyldu sinni að forðast eða draga úr hættu á að starfsmenn verði fyrir bakmeiðslum með því að gera viðeigandi ráðstafanir, einkum með tilliti til vinnuumhverfis.
Stefnandi vísar til þeirrar skyldu atvinnurekenda eða fulltrúa þeirra á vinnustað, að tilkynna slys á vinnustað til lögreglustjóra og Vinnueftirlits ríkisins svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en innan sólarhrings. Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndu hafi borið að tilkynna um slysið um leið og stefndu var um það kunnugt. Telja verði að stefnda verði að bera hallann af því að tæp fjögur ár liðu frá slysdegi þar til réttargæslustefndi tilkynnti það til lögreglu og að vinnueftirlitinu hafi aldrei verið tilkynnt um slysið.
Fjárhæð kröfu sinnar og útreikning á henni styður stefnandi við hrd. 1998:2233 og 4. gr. og 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og laga nr. 38/2001.
Af hálfu stefndu er sýknukrafa byggð á þeirri málsástæðu að stefnandi hafi ekki orðið fyrir vinnuslysi þann 30. janúar 1995. Lýsing á málsatvikum sé alfarið byggð á frásögn stefnanda einnar. Fyrirsvarsmenn stefndu, verkstjórar eða aðrir yfirmenn, hafi ekki verið látnir vita um hið meinta slys sem stefnandi segist hafa orðið fyrir þann 30. janúar 1995. Samstarfsfólk stefnanda kannist heldur ekki við að stefnandi hafi orðið fyrir hinu meinta vinnuslysi. Af þessum sökum hafi verið ógerlegt af hálfu stefndu að láta rannsaka hvort yfir höfuð einhverjir tjónsatburður hafi átt sér stað og með hvaða hætti hann hafi gerst.
Af þeim ástæðum sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir einhverju slysi, þegar hún var við störf hjá stefndu. Ennfremur sé ósannað að stefnandi hafi slasast með þeim hætti að stefnda beri fébótaábyrgð á líkamstjóni hennar.
Verði talið að einhver slysaatburður hafi orðið í umrætt sinn þá er á því byggt að ekkert liggi fyrir um það sem bendi til þess að það hafi gerst vegna skorts á leiðbeiningum eða verkstjórnar af hálfu yfirmanna stefndu eða annarra sem hann beri ábyrgð á. Verk það sem stefnandi vann í umrætt sinn hafi verið einfalt og krafðist ekki neinnar sérþekkingar eða þjálfunar. Þegar stefnandi hóf störf hjá stefndu hafi samstarfsmenn stefnanda með langa starfsreynslu hjá stefndu leiðbeint henni auk þess sem Stefán Rögnvaldsson verkstjóri stefndu hafi leiðbeint henni. Fyrirsvarsmenn stefndu áttu því að geta treyst því að stefnandi myndi standa þannig að verki að ekki skapaðist slysahætta. Á því er byggt sérstaklega að starfsmönnum stefndu var uppálagt að lyfta ekki rófukössunum einir heldur hjálpast að við það verk. Umræddir rófukassar hafi verið um það bil 15-20 kg á þyngd. Rófukassa hafi þurft að hvolfa í kar sem stóð við hlið hakkavélarinnar og var brún karsins 75-80 cm hæð. Ennfremur er á því byggt að stefnandi hafi lagt á það áherslu er hún réð sig til vinnu hjá stefndu að hún væri sterk og vel á sig komin líkamlega. Það hafi því verið eðlilegt að fela stefnanda störf, sem reynt gátu nokkuð á líkamlegt atgerfi hennar.
Ennfremur var af hálfu stefndu mótmælt sem röngum og ósönnuðum staðhæfingum að eitthvað hafi verið athugavert við þær vinnuaðferðir eða vinnuaðstöðu sem starfsfólki stefndu var búið. Verði ekki betur séð en að stefnandi hafi sjálf valið hvernig hún vann verkið og hafi talið það vinnulag hættulaust, enda hafi henni verið í lófa lagið að fá aðstoð vinnufélaga við að lyfta rófukössum eins og stefnda hafði tekið fram við stefnanda að hún ætti að gera. Ef svo illa hafi tekist til að slys hafi hlotist af verklagi stefnanda, þá sé við hana eina að sakast.
Stefnda byggir ennfremur sýknukröfu á þeirri málsástæðu að hafi stefnandi talið þau störf, sem henni voru falin hættuleg eða vinnubrögð hættuleg heilsu manna, hafi henni borið að kvarta við yfirmenn sína. Stefnandi hafi ekki gert það.
Sýknukrafa er jafnframt byggð á þeirri málsástæðu að fyrirsvarsmenn stefndu hafi enga vitneskju haft um hið meinta slys. Af þeirri ástæðu gátu þeir ekki tilkynnt atvikið til Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt fyrirmælum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustu á vinnustöðum eða reglum nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa eða hlutast til um rannsókn atviksins með öðrum hætti. Þá er því mótmælt að stefnda hafi brotið gegn lögum nr. 46/1980 eða fyrirmælum regla nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar.
Að lokum er á því byggt að stefnandi hafi ekki sýnt fram á saknæma háttsemi af hálfu fyrirsvarsmanna stefndu eða fébótaábyrgð stefndu að öðru leyti.
Verði ekki fallist á aðalkröfu um sýknu er varakrafa um lækkun á stefnukröfum byggð á eftirfarandi málsástæðum. Stefnda telur að engum vafa sé undirorpið að slysið verði fyrst og fremst rakið til gáleysis stefnanda sjálfs. Stefnandi beri því sjálf verulega eigin sök þannig að bótaábyrgð stefndu geti einungis komið til álita að mjög litlum hluta.
Af hálfu stefndu er vaxtakröfu mótmælt á þeirri forsendu að stefnandi gerði fyrst sundurliðaða bótakröfu á hendur stefndu með stefnu og þingfestingu málsins þann 20. júní síðastliðinn. Verði því ekki á það fallist að bótakrafa stefnanda beri dráttarvexti frá 31. janúar 1995. Stefnda telur rétt, ef um áfellisdóm verði að ræða, að krafan beri 2% ársvexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá hinum meinta slysdegi 1995 til endanlegs dómsuppsögudags. Frá þeim tíma beri krafan hins vegar dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38/2001. Þá sé á það bent að ekki sé lagaheimild til að reikna vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á bætur fyrir tímabundið atvinnutjón.
Krafa um málskostnað stefndu, bæði í aðalkröfu og varakröfu, sé reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Réttargæslustefndi, Tryggingamiðstöðin hf., sem greiða mun allan kostnað stefndu vegna málareksturs þessa, hefur ekki virðisaukaskattskylda starfsemi með höndum. Því sé nauðsyn að tekið verði tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar.
III.
Í máli þessu liggja ekki fyrir öruggar upplýsingar um það hvaða dag í síðustu viku janúar 1995 atburður sá gerðist sem mál þetta snýst um. Þar sem sú óvissa hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins verður ekki fjallað um það frekar hér.
Stefnandi var að hakka rófur í hakkavél og fóru rófubitarnir í kassa, svonefndan rækjukassa. Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram að starfsmaðurinn sem sinnti þessu verki hverju sinni réð því hversu mikið hann setti í kassann hverju sinni. Þegar nægilegt magn var komið í kassann var tæmt úr honum í kar, fiskikar 75-80 cm á hæð. Ágreiningur er um það hvort karið stóð við hlið kassans sem hakkað var í eða hvort stefnandi hafi þurft að ganga að honum 2-3 metra. Þar sem þetta misræmi í frásögn aðila hefur heldur ekki áhrif á niðurstöðu málsins verður það látið liggja á milli hluta.
Stefnandi var að tæma úr kassanum í karið síðari hluta dags milli kl. 15:00-15:30, þegar hún missti skyndilega mátt í vinstri handlegg og fann til sársauka, sem hún lýsti fyrir dómi sem ekki óbærilegum í fyrstu en varð síðar til þess að hún leitar til læknis.
Nægilega er í ljós leitt, að til þess var ætlast af verkstjóra á vinnustaðnum, að starfsfólk rétti hvert öðru hjálparhönd við að lyfta þungum hlutum. Ennfremur var stefnanda alveg í sjálfsvald sett hversu mikið hún setti í kassann. Þá hefur stefnandi ekki haldið því fram að henni hafi verið meinað um aðstoð að bera kassann í umrætt sinn. Ennfremur bar stefnandi fyrir dómi að verk þetta hafi ekki verið henni ofviða, hún hafi hins vegar ekki borið sig rétt að við að tæma úr kassanum.
Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er að finna almennar leiðbeiningarreglur um starfsumhverfi í atvinnurekstri. Heilsutjón stefnanda verður hvorki rakið til hættulegra véla né að öryggisbúnaði hafi verið áfátt. Verður því skaðabótaábyrgð hvorki byggð á hættulegum atvinnurekstri né að öryggisbúnaði hafi verið ábótavant.
Stefnandi byggir bótakröfur sínar á því að skort hafi á leiðbeiningar frá verkstjóra. Af hálfu verkstjóra er því mótmælt. Hann bar fyrir dómi að annað hvort hann eða annar starfsmaður stefndu hafi sýnt stefnanda hvernig ætti að nota hakkavélina.
Verk það, sem hér um ræðir, hefur verið unnið með sama hætti síðastliðin fjörutíu ár, samkvæmt upplýsingum frá verkstjóra stefndu, og hafa slys ekki hlotist af. Dómurinn lítur svo á að verknaðurinn að tæma úr einum kassa í annan krefjist ekki þeirrar sérfræðiþekkingar að skortur á leiðbeiningum valdi skaðabótaskyldu, enda starfið einfalt og hættulaust.
Niðurstaðan er því sú að stefnda verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, enda telst málið nægilega upplýst, þó stefnda hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um atburðinn, sem hún hafði skýlausa lagaskyldu til samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Dómurinn telur sannað að stefndu hafi verið kunnugt um það að læknar fjölluðu um málið sem hugsanlegt vinnuslys með vísan til bréfs trúnaðarlæknis stefnda, dagsett 17. febrúar 1995 og hefði stefndu þá borið að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um atvikið.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu með bréfi útgefnu af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hinn 21. nóvember 2001.
Gjafsóknarlaun talsmanns stefnanda Sigurðar G. Guðjónssonar, hæstaréttarlögmanns 350.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.
Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri og meðdómsmennirnir Yngvi Ólafsson og Sveinbjörn Brandsson, báðir sérfræðingar í bæklunarskurðlækningum, kváðu upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefnda, Niðursuðuverksmiðjan Ora-Kjöt/Rengi ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda Önnu Lilju Karlsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarlaun talsmanns stefnanda, Sigurðar G. Guðjónssonar, hrl., að fjárhæð 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.