Hæstiréttur íslands
Mál nr. 69/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 5. febrúar 2014. |
|
Nr. 69/2014. |
A (Sigurður Jónsson hrl.) gegn Héraðsdómi
Austurlands (enginn) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var
úrskurður héraðsdóms þar sem synjað var kröfu A um að honum yrði veitt lögræði
að nýju.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2014, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 30. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 9. janúar 2014, þar sem synjað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði veitt lögræði að nýju. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann þess að kærumálskostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun talsmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknun er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að
felld verði úr gildi lögræðissvipting hans samkvæmt úrskurðum Héraðsdóms
Reykjavíkur 17. desember 1993 og 2. febrúar 2003.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila,
Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 9.
janúar 2014.
Mál þetta, sem tekið var til
úrskurðar 18. desember sl., barst Héraðsdómi Austurlands 24. maí 2013, eftir
framsendingu frá Héraðsdómi Reykjavíkur sem hinn 10. maí s.á. hafði móttekið
ódagsetta beiðni sóknaraðila.
Sóknaraðili, A, kt. [...], [...], krefst þess að felld verði niður lögræðissvipting hans, þ.e. bæði
fjárræðis- og sjálfræðissvipting sem hann hefur sætt ótímabundið samkvæmt
úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember 1993 og 21. febrúar 2003, þar
sem ekki séu lengur fyrir hendi ástæður til sviptingarinnar. Af hálfu skipaðs
talsmanns sóknaraðila er gerð krafa um hæfilega þóknun úr ríkissjóði.
Með greindum úrskurði Héraðsdóms
Reykjavíkur, uppkveðnum 17. desember 1993, var sóknaraðili, að kröfu móður
sinnar, sviptur sjálfræði ótímabundið á grundvelli a. og c. liða 3. gr.
þágildandi lögræðislaga nr. 68/1984, sbr. nú a. og b. liði 4. gr. lögræðislaga
nr. 71/1997, þar sem leitt þótti í ljós að hann væri ekki fær um að ráða
persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms og notkunar ávana- og fíkniefna.
Með greindum úrskurði Héraðsdóms
Reykjavíkur, uppkveðnum 21. febrúar 2003, var sóknaraðili, að eigin kröfu,
sviptur fjárræði ótímabundið, með vísan til a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr.
71/1997. Kemur m.a. fram í úrskurðinum að sóknaraðili hafi sjálfur vísað til
þess að hann hefði enga stjórn á fjármálum sínum vegna veikinda sinna og því
hafi honum aldrei haldist á húsnæði.
Enginn aðili er að máli þessu
til varnar, enda átti sóknaraðili einn aðild að máli því sem lyktaði með
úrskurði um fjárræðissviptingu á árinu 2003 og móðir sóknaraðila, sem aðild
átti að máli því sem lauk með úrskurði um sjálfræðissviptingu á árinu 1993, mun
nú vera látin.
Mál þetta var þingfest 4. júlí
sl. og tók skipaður talsmaður sóknaraðila þá af tvímæli um að krafa sóknaraðila
tæki bæði til niðurfellingar fjárræðissviptingar og sjálfræðissviptingar
samkvæmt báðum framangreindum úrskurðum, en ekki einungis til
fjárræðissviptingarinnar eins og skilja mátti beiðni sóknaraðila. Jafnframt
óskaði talsmaðurinn þess að aflað yrði annars læknisvottorðs en þess vottorðs
Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis, dags. 21. maí 2013, sem þá hafði þegar verið
aflað. Var orðið við þeirri ósk og fól
dómari Halldóru Ólafsdóttur, yfirlækni á ferlis- og bráðaþjónustu geðsviðs
Landspítala-Háskólasjúkrahúss, það verk. Barst vottorð hennar dóminum 9.
desember sl.
Af fyrrgreindri beiðni sóknaraðila verður
ráðið að sóknaraðili telji skilyrði lögræðissviptingar sinnar ekki lengur fyrir
hendi. Sóknaraðili kom sjálfur fyrir dóminn, ásamt skipuðum talsmanni sínum og
gaf þar skýrslu. Kom fram að hann hafi sl. tvö ár dvalið á sambýlinu [...] og liðið vel þar. Kvaðst honum þó
mislíka mjög sú frelsissvipting sem felist í lögræðissviptingunni. Fengi hann
lögræði sitt á ný hefði hann hug á að dveljast um einhverja hríð áfram á [...] en flytja síðan til útlanda og e.t.v.
ráða sig til vinnu á skipasmíðastöð eða jafnvel lifa af uppfinningum sínum. Kom
fram að hann teldi sér ekki nauðsynlegt að taka öll þau lyf sem honum sé gert
að taka inn í dag og efaðist um sjúkdómsgreiningar geðlækna.
Fyrir dómi gaf einnig skýrslu B,
forstöðumaður sambýlisins að [...]. Í framburði hennar kom fram að sóknaraðili hafi ekki haft
mikla fjármuni milli handanna, eftir að af örorkubótum hans hafi verið dregin
greiðsla vegna uppihalds hans á [...], en auk framlags vistmanna renni
greiðsla fyrir uppihald þeirra á sambýlinu úr opinberum sjóðum. Því hafi lítið
reynt á hæfni sóknaraðila til að fara með fjármuni, en að því leyti sem á það
hafi reynt hafi vitninu þótt forgangsröðun sóknaraðila í meðferð fjármuna
fremur ábótavant. Regla hafi verið á lyfjagjöf sóknaraðila meðan hann hafi búið
á [...], en hann
hafi í einhverjum mæli reynt að komast undan því að taka inn lyf sín.
Sóknaraðili hafi afplánað samfélagsþjónustu meðan hann hafi dvalið á sambýlinu
og það hafi gengið vel. Það sé hins vegar allur gangur á því hvort hann taki
þátt í þeim ólaunuðu verkefnum sem vistmönnum á sambýlinu sé boðið upp á og
þeir hvattir til að sinna til að efla virkni sína og þjálfa þá til launaðrar
vinnu. Kvaðst vitnið ekki telja sóknaraðila færan um það, eins og sakir standa,
að sjá sjálfur um sig, fengi hann tækifæri til þess að standa á eigin fótum.
Í vottorði Halldóru Ólafsdóttur
geðlæknis, dags. 21. nóvember 2013, er
lýst geðsögu sóknaraðila og lyfjameðferð hans, sem og viðtali og skoðun
læknisins á sóknaraðila og viðtali við forstöðumann sambýlisins [...], sem þar fór fram 13. nóvember sl.
Í kafla vottorðsins um samantekt
og álit kemur fram að sóknaraðili sé 54 ára einhleypur karlmaður, öryrki til
margra ára vegna geðsjúkdóms. Eigi hann sér langa geðsögu að baki og
fjöldamargar geðdeildarinnlagnir allt frá árinu 1983 og síðast á
öryggisgeðdeild árið 2011. Hann hafi greinst með alvarlegan og langvinnan
geðsjúkdóm, [...], og með
alvarlega áfengisánetjun frá unga aldri og verið í nokkurri neyslu á öðrum
ávanabindandi efnum, einkum á árum áður. Hann sé með framheilaskaða, væntanlega
eftir höfuðáverka. Einkenni séu um ofvirkni og athyglisbrest en ekki sé vitað
hvort það tengist framheilaskaða eða sé viðbótavandi.
Flest öll þekkt úrræði hafi
verið reynd innan geðheilbrigðis- og félagskerfisins en ekki tekist að ná fram
neinum bata sem hald sé í með hefðbundnum aðferðum. Áfengisfíkn sé gífurlega
mikil og þegar sóknaraðili sé í neyslu komist alltaf óregla á lyfjagjafir og
hann veikist aftur á geði. Eftir langa legu á öryggisgeðdeild 2011 hafi
sóknaraðili vistast á [...], sambýli [...], og hafi þar átt sennilega sitt besta tímabil hvað lífsgæði
snerti frá því að hann var barn að aldri. Sé hann þar á stöðugri lyfjameðferð,
fái heimilislega aðhlynningu og félagsskap og tekist hafi að halda honum alfarið
frá áfengi og öðrum ávanabindandi efnum.
Sóknaraðili eigi sér sögu um
ofbeldi þegar hann sé í geðrofsástandi og/eða undir áhrifum vímuefna en ekki
þess utan. Hann gæti auðeldlega orðið öðrum eða sjálfum sér hættulegur þegar
hann sé veikur og í vímuástandi.
Við skoðun hafi komið í ljós að
sóknaraðili sé nú ekki í bráðu geðrofsástandi og við nokkuð góða líðan, enda
verið í nær tvö ár á samfelldri lyfjameðferð og búið við betri aðbúnað en hann
hafi þekkt í áratugi. Hins vegar sé hugsun hans enn mjög óraunsæ, hvatvísi komi
fram í hegðun, sjúkdómsinnsæi sé lítið og dómgreindin skert. Enn séu til staðar
nær stöðugar mikilmennskuhugmyndir um eigin getu. Fái hann lögræði sitt aftur
virðist framtíðaráform byggjast mikið til á slíkum hugmyndum. Þá sé innsæi í alvarlegan
áfengisvanda áratugum saman afar lítið.
Er niðurstaða geðlæknisins sú að
óhjákvæmilegt sé að sóknaraðili verði áfram sviptur lögræði (sjálfræði og
fjárræði). Sé þá tekið mið af langvinnum geðrofssjúkdómi, alvarlegri
áfengisfíkn, framheilaskaða, hvatvísi, fyrri sögu um ofbeldi, takmarkað innsæi
í eigin hag og skerta dómgreind.
Halldóra Ólafsdóttir geðlæknir
staðfesti fyrir dómi framangreint læknisvottorð sitt og áréttaði það álit sitt
sem þar kemur fram. Kvaðst hún telja yfirgnæfandi líkur á því að sóknaraðili
myndi missa tök á lífi sínu og leiðast út í áfengisneyslu yrði honum nú veitt
lögræði að nýju.
Í málinu liggur ennfremur fyrir
vottorð Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis, dags. 21. maí 2013. Kemur þar fram
að geðlæknirinn hafi nokkrum sinnum áður gefið umsagnir vegna sóknaraðila,
síðast í október 2011. Er þar rakið að áður en sóknaraðili flutti á sambýlið [...] hafi hann dvalið um 9 mánaða skeið á
öryggisgeðdeild (D15), þar sem minni hans og greind
hafi verið kortlögð og mat lagt á heilsufar hans. Sjúkdómsgreiningar hans og heilsufarssaga er
rakin í vottorðinu, sem og niðurstöður taugasálfræðiprófa.
Í samantekt í niðurlagi
vottorðsins segir að sóknaraðili hafi yfirleitt ekki einkenni sturlunar eða
ruglsástands, en sé með [...]sjúkdóm sem sé haldið vel niðri með lyfjum. Hann sé ekki
vangefinn en hafi lága greind og sé að upplagi hvatvís með ofvirkni og
athyglisbrest. Grunur sé nú um framheilaskaða. Hann sé með virka áfengissýki
sem geri hann á köflum erfiðan í hegðun og skapi. Talinn yfirleitt ekki nota
fíkniefni. Hann lofi ætíð að bæta ráð sitt en hafi aldrei náð neinum lengri
edrú tímabilum síðustu ár nema tengt vistun á lokuðum stofnunum. Hann hafi sýnt
sig að vera undirförull og siðblindur. Hann sé nú á [...] vegna þess að það virðist eini
staðurinn sem geti átt við hann til lengri tíma. Hann þurfi að vera í umhverfi
þar sem hann komist ekki í áfengi. Hann geti unnið mörg þarfaverk, vilji vinna
og sé vinnusamur í eðli sínu. Honum hafi liðið vel þar sem tryggt sé eftirlit,
rammi og aðhald. Honum hafi liðið vel á [...] sem sé gott sambýli í sveit talsvert
fyrir utan [...].
Niðurstaða geðlæknisins er sú að
sóknaraðili þurfi reglulega eftirfylgd, eftirlit og meðferð sem ekki sé hægt að
tryggja nema hann sé áfram lögræðissviptur. Forsendur lögræðissviptingar eigi
því enn við. Hann sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna
andlegs vanþroska eða geðsjúkdóms og sömuleiðis sökum ofdrykkju. Fjármál sín
ráði sóknaraðili ekki við vegna hvatvísi sinnar en sérstaklega ekki þegar hann
sé drukkinn (áratuga vandi). Mörg einkenni framheilaskaða séu nú til staðar.
Mikilvægt sé að tryggja að sóknaraðili sé áfram vistaður þar sem tryggt sé að
hann nái ekki í áfengi og vímugjafa. Horfur hans á næstu árum séu slakar. Viðhald
bata liggi í aðhaldi og eftirliti samfélagsins.
Niðurstaða:
Eins og rakið hefur verið hér að
framan hefur sóknaraðili verið sviptur sjálfræði í ríflega tvo áratugi og auk
þess sviptur fjárræði að eigin ósk síðast liðinn áratug, af ástæðum sem varða bæði
geðheilsu hans og vímuefnavanda og byggðust úrskurðir um sjálfræðis- og
fjárræðissviptingu hans á a. og b. liðum 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 eða
samsvarandi ákvæðum eldri laga. Samkvæmt 15. gr. sömu laga getur sá sem aðild
getur átt að lögræðissviptingarmáli krafist niðurfellingar lögræðissviptingar
telji hann að ástæður sviptingar séu ekki lengur fyrir hendi og skal slík krafa
studd rökum og gögnum um breyttar aðstæður hins lögræðissvipta ef unnt er, sbr.
1. og 3. mgr. greinarinnar.
Af því sem fram er komið í
málinu verður ráðið að margt hafi breyst til betri vegar í lífi sóknaraðila
eftir að hann fluttist á sambýlið [...]. Af vottorðum geðlæknanna tveggja
sem gáfu vottorð um heilsufar sóknaraðila og lögðu mat á það hvort ástæður
lögræðissviptingar séu enn fyrir hendi, verður hins vegar ráðið að óbreyttar
séu að mestu þær forsendur sem úrskurðir um sjálfræðis- og fjárræðissviptingu
hans byggðust á. Er álit beggja geðlæknanna eindregið á þann veg að ekki séu
skilyrði til þess að fella niður lögræðissviptingu sóknaraðila. Kemur það álit
heim og saman við það sem fram kom í framburði forstöðumanns sambýlisins fyrir dómi, sem og framgöngu og skýrslugjöf
sóknaraðila fyrir dómi.
Með vísan til alls framanritaðs
og til a. og b. liða 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sem og að teknu tilliti
til þeirra grundvallarsjónarmiða ákvæða laganna að lögræðissvipting skuli vera
hinum svipta til farsældar og verndar hagsmuna hans, enda þótt aldrei skuli
lengra gengið en nauðsyn beri til, er það álit dómsins að ekki séu efni að svo
komnu til að veita sóknaraðila lögræði sitt að nýju. Ber því að synja beiðni
sóknaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr.
lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði. Er þar um að ræða þóknun
skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sigurðar Jónssonar hrl., sem þykir hæfilega
ákveðin að teknu tilliti til tímayfirlits hans 294.925 krónur, að meðtöldum
virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar talsmannsins að fjárhæð 44.300 krónur.
Einnig féll til kostnaður af öflun læknisvottorða, samtals 349.000 krónur.
Hildur Briem héraðsdómari kveður
upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Synjað er beiðni sóknaraðila, A, um að
honum verði veitt lögræði sitt (sjálfræði og fjárræði) að nýju.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila,
Sigurðar Jónssonar hrl., 294.925 krónur og ferðakostnaður talsmannsins, 44.300
krónur, greiðist úr ríkissjóði, svo og annar kostnaður af málinu, 349.000
krónur.