Hæstiréttur íslands

Mál nr. 133/2008


Lykilorð

  • Skuldajöfnuður
  • Gjafsókn
  • Sjálfskuldarábyrgð


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. janúar 2009.

Nr. 133/2008.

Byko hf.

(Ásgeir Jónsson hrl.)

gegn

Sigurdísi Björk Baldursdóttur

Páli Sigurjónssyni

Kristínu Gunnarsdóttur og

Sigurjóni Jónssyni

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

 

Sjálfskuldarábyrgð. Skuldajöfnuður. Gjafsókn.

 

Félagið E tók út vörur í reikning hjá B vegna starfsemi sinnar. Af hálfu E voru lagðar fram þrennar tryggingar fyrir greiðslu skulda sem stofnuðust við slíkar úttektir, þar á meðal yfirlýsing S, P, K og S um sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 3.000.000 krónur. Í mars 2006 tók E að sér, sem undirverktaki B, uppsetningu á innréttingum í 25 íbúðir í fjöleignarhúsi. Var samið um verklaun að fjárhæð 2.841.800 krónur. Virtust aðilar sammála um að gengið hefði verið út frá því að kröfur þeirra á hendur hvor öðrum mættust og var sá skilningur áréttaður fyrir dómi. B höfðaði tvö mál á hendur sjálfskuldarábyrgðarmönnunum til heimtu á skuld E vegna reikningsviðskiptanna. Annað á hendur M, þar sem hann krafðist 800.000 króna og hitt á hendur S, P, K og S, þar sem hann krafðist upphaflega 3.000.000 króna. Þann 17. apríl 2007 greiddi H, veðþoli samkvæmt tryggingabréfi sem einnig hafði verið sett sem trygging í reikningsviðskiptum E og B, inn á skuld E vegna úttekta hjá B. Eftir þá innborgun taldi B að eftirstöðvar skuldarinnar væru 2.417.201 króna. Breytti hann kröfu sinni í málinu gegn S, P, K og S í þá fjárhæð en hélt einnig til streitu kröfu sinni í málinu gegn M. Hann felldi það mál niður í lok munnlegs málflutnings fyrir Hæstarétti. Taldi Hæstiréttur að skilja yrði samkomulag E og B um skuldajöfnuð svo að upphaflega umsamin verklaun að fjárhæð 2.841.800 krónur hefðu átt að ganga til greiðslu á reikningsskuldinni. Þegar til þess væri litið og greiðslu H var ekki talið að B hefði fært sönnur fyrir því að hann ætti kröfur á hendur E sem ábyrgð S, P, K og S tæki til. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu S, P, K og S því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. mars 2008. Hann krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér óskipt 2.417.201 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. apríl 2007 til greiðsludags og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem stefndu Kristínu Gunnarsdóttur og Sigurdísi Björk Baldursdóttur hefur verið veitt.

I

Þann 12. apríl 2007 voru þingfest tvö mál í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem áfrýjandi höfðaði, það er mál það sem hér er til meðferðar og mál áfrýjanda gegn Margréti Sigríði Jónsdóttur og Sigurjóni Jónssyni en fallið var frá kröfum á hendur honum við aðalmeðferð þess. Dómi í því máli var áfrýjað til Hæstaréttar og hefur verið rekið sem hæstaréttarmál nr. 132/2008. Í héraðsstefnu þess máls krafðist áfrýjandi þess að stefndu yrðu dæmd til að greiða honum óskipt 800.000 krónur með dráttarvöxtum auk málskostnaðar. Í því máli sem hér er til úrlausnar gerði áfrýjandi upphaflega kröfu fyrir héraðsdómi um að stefndu yrðu dæmd til að greiða honum óskipt 3.000.000 krónur með dráttarvöxtum af tilgreindum fjárhæðum auk þess sem hann krafðist málskostnaðar. Í báðum málunum voru kröfur reistar á ábyrgðaryfirlýsingum þar sem gengist var í ábyrgð fyrir reikningsviðskiptum Endurreisnar verktaka ehf. hjá áfrýjanda. Í fyrra málinu var byggt á yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 800.000 krónur 27. júní 2003 en í þessu máli var kröfu beint að stefndu á grundvelli yfirlýsingar þeirra 5. apríl 2004 um sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 3.000.000 krónur. Ágreiningslaust er að um ábyrgð á sömu kröfu var að ræða í báðum málunum að höfuðstól 4.565.024 krónur. Svo sem fram kemur í héraðsdómi fékk áfrýjandi greiðslu inn á kröfuna 17. apríl 2007 og taldi að eftir þá innborgun næmi höfuðstóll hennar 2.417.201 krónu. Við aðalmeðferð málanna tveggja fyrir héraðsdómi breytti áfrýjandi kröfum sínum og voru dómkröfur hans í fyrra málinu þær að Margrét Sigríður Jónsdóttir yrði dæmd til að greiða honum 800.000 krónur með dráttarvöxtum frá 17. apríl 2007 til greiðsludags auk málskostnaðar en í þessu máli að stefndu yrðu dæmd til að greiða honum óskipt 2.417.201 krónu auk sambærilegra dráttarvaxta og málskostnaðar. Hélt áfrýjandi þannig til streitu kröfum í tveimur málum sem samanlagt voru hærri fjárhæðar en hann sjálfur taldi að væru eftirstöðvar kröfu sinnar á hendur Endurreisn verktökum ehf. Voru málin dæmd í héraði á þann veg að stefndu voru sýknuð af kröfum áfrýjanda í þeim báðum. Hann áfrýjaði báðum dómunum til Hæstaréttar og fengu málin þar númerin 132/2008 og 133/2008. Í lok munnlegs málflutnings í fyrra málinu gerði áfrýjandi þá kröfu að málið yrði fellt niður og var því ekki andmælt af hálfu stefndu en krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Er því máli þannig lokið og eru þá ekki efni til að vísa þessu máli frá héraðsdómi.

II

Endurreisn verktakar ehf. tóku vörur út í reikning hjá áfrýjanda vegna starfsemi sinnar sem einkum fólst í viðhaldi og breytingum á fasteignum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Svo sem fyrr segir er ágreiningslaust að á tímabilinu frá desember 2005 til maí 2006 tók félagið út vörur í reikning hjá áfrýjanda og stofnaði þannig til skuldar að fjárhæð 4.565.024 krónur. Vegna reikningsviðskiptanna hafði Endurreisn verktakar ehf. áður haft milligöngu um að settar voru tryggingar fyrir greiðslu skuldar sem stofnaðist við slíkar úttektir hjá áfrýjanda. Á árinu 2006 höfðu verið lagðar fram þrennar tryggingar, í fyrsta lagi yfirlýsing Margrétar Sigríðar Jónsdóttur og Sigurjóns Jónssonar 27. júní 2003 um sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 800.000 krónur, í öðru lagi yfirlýsing stefndu í þessu máli 5. apríl 2004 um sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 3.000.000 krónur og í þriðja lagi tryggingarbréf 25. janúar 2005, með veði í íbúð í húsi að Brekkulæk 4, Reykjavík, að fjárhæð 3.000.000 krónur.

Í mars 2006 tók Endurreisn verktakar ehf. að sér, sem undirverktaki áfrýjanda, að setja upp innréttingar í 25 íbúðir í fjöleignarhúsinu að Eskivöllum 1 í Hafnarfirði. Áfrýjandi hafði áður samið við byggingaraðila hússins um sölu á tilteknum innréttingum í flestar íbúðir í húsinu og um að annast uppsetningu þeirra. Í málinu liggur fyrir skjal með útreikningi áfrýjanda á verklaunum miðað við umsamin einingaverð. Fjárhæð samningsins samkvæmt því skjali er 2.841.800 krónur. Samningsaðilar virðast hafa verið sammála um að í viðskiptum þeirra hafi verið gengið út frá að kröfur þeirra á hendur hvor öðrum mættust. Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi var gerð svofelld bókun: ,,Lögmenn eru sammála um að það hafi verið ætlunin við skuldauppgjör milli aðila að kröfurnar mættust, það er úttekt (4.565.024 kr.) Endurreisnar ehf. sem ábyrgð stefndu grundvallast á versus gagnkröfu hins gjaldþrota félags Endurreisnar vegna verks að Eskivöllum 1. Báðir aðilar ganga út frá því að ekki yrðu eftirmálar vegna ófullnægjandi efnda. Í ljósi þess telja lögmenn ekki nauðsyn á vitnaleiðslu.“ Lögmenn málsaðila áréttuðu þennan skilning í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti.

Endurreisn verktakar ehf. luku verki sínu í lok júní eða byrjun júlí 2006. Fyrirsvarsmenn félagsins töldu íbúðir í húsinu ekki hafa verið tilbúnar til uppsetningar innréttinga, eins og um hafði verið samið, þær hefðu verið gallaðar, veggir hafi hallað, hurðaop verið of lítil og aflöguð auk þess sem iðnaðarmenn á vegum byggingaraðila hafi enn verið við störf í mörgum íbúðanna og því erfiðara og tímafrekara fyrir starfsmenn félagsins að vinna við uppsetningu innréttinga. Verkið hefði vegna þessara atriða orðið mun umfangsmeira og tímafrekara en ella og aukaverk slík að reikningur, sem félagið gaf út 26. júní 2006, hafi í heild orðið að fjárhæð 10.768.386 krónur. Áfrýjandi mótmælti reikningnum sem of háum. Hann heldur því einnig fram að verkið hafi verið stórlega gallað og að hann hafi haft mikinn kostnað af viðgerðum og endurbótum á því. Af þessum sökum telur hann sig eiga kröfu á hendur Endurreisn verktökum ehf. að fjárhæð 9.500.000 krónur. Þessari kröfu hefur verið mótmælt.

Bú Endurreisnar verktaka ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 27. september 2006. Áfrýjandi lýsti tveimur kröfum í þrotabúið annars vegar kröfu vegna vöruúttekta og hins vegar skaðabótakröfu vegna meintra galla á uppsetningarverkinu. Skiptum á búinu lauk 20. október 2008 og kom ekkert upp í kröfur áfrýjanda.

Þann 17. apríl 2007 greiddi Hekla Jósepsdóttir, veðþoli samkvæmt tryggingarbréfi því er tryggt var með veði í íbúð í húsinu að Brekkulæk 4 í Reykjavík, inn á skuldina. Samkvæmt kvittun Lögheimtunnar vegna innborgunarinnar voru að meðtöldum afslætti, sem áfrýjandi kveðst hafa veitt greiðanda, greiddar 4.303.582 krónur. Eins og fram er komið taldi áfrýjandi eftir þá innborgun að eftirstöðvar kröfu hans á hendur sjálfskuldarábyrgðarmönnum vegna úttektarskuldar Endurreisnar verktaka ehf. næmu  2.417.201 krónu. Mál þetta er rekið vegna ábyrgðar stefndu á þeirri skuld ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.

III

            Krafa áfrýjanda á hendur Endurreisn verktökum ehf., sem upphaflega var að fjárhæð 4.565.024 krónur, var óumdeild. Stefndu telja á hinn bóginn að krafa þessi sé að fullu greidd með skuldajöfnuði sem sé í samræmi við framangreint samkomulag áfrýjanda og Endurreisnar verktaka ehf. um að kröfur um verklaun vegna uppsetningar á innréttingum í íbúðir að Eskivöllum 1, Hafnarfirði, skyldu mæta skuld vegna reikningsúttekta svo og með greiðslu þeirri sem Hekla Jósepsdóttir innti af hendi 17. apríl 2007 eftir að málið var höfðað. Telja stefndu einnig að hið gjaldþrota félag hafi átt mun hærri kröfu á hendur áfrýjanda vegna aukaverka en upphaflegri samningsfjárhæð nam. Í máli þessu verður ekki tekin afstaða til réttmætis kröfu vegna aukaverka. Með sama hætti verður ekki tekin afstaða til kröfu sem áfrýjandi hafði uppi á hendur Endurreisn verktökum ehf. vegna meintra galla á verkinu. Verður að skilja framangreint samkomulag um skuldajöfnuð svo að hvað sem öðru líði felist í því samningur um að upphaflega umsamin verklaun að fjárhæð 2.841.800 krónur hafi átt að ganga til greiðslu á reikningsskuldinni. Þegar til þess er litið og greiðslu Heklu Jósepsdóttur, sem áður greinir, verður ekki talið að áfrýjandi hafi fært sönnur fyrir því að hann eigi kröfu á hendur Endurreisn verktökum ehf. sem ábyrgð stefndu tekur til. Verður því niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefndu staðfest svo og málskostnaðarákvörðun hans.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Byko hf., greiði í málskostnað fyrir Hæstarétti stefndu, Páli Sigurjónssyni og Sigurjóni Jónssyni, hvorum um sig 150.000 krónur og 300.000 krónur í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Kristínar Gunnarsdóttur og Sigurdísar Bjarkar Baldursdóttur, fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra 300.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2007.

Mál þetta, sem var dómtekið 28. nóvember sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Byko hf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi gegn Sigurdísi Björk Baldursdóttur,  Miðkrika 1, Hvolsvelli, Páli Sigurjónssyni, Galtalæk, 851 Hellu, Kristínu Gunnarsdóttur, Kirkjuvegi 39, Vestmannaeyjum og Sigurjóni Jónssyni, Hólmgarði 54, Reykjavík, með stefnu birtri  22. 26. og 27. mars  2007.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.417.201 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 17. apríl 2007  til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Stefndu krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður. Til vara krefjast stefndu þess að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og stefndu dæmdur málskostnaður.

Stefnda, Sigurdís Björk Baldursdóttir, er með gjafsókn til varnar í málinu og krefst þess að málskostnaður verði tildæmdur henni eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.     

Málavextir.

Fyrirtækið Endurreisn verktakar ehf., hefur frá árinu 2003 verið í reikningi hjá Byko hf. Ágreiningslaust er í málinu að fyrirtækið tók út vörur og þjónustu hjá stefnanda frá desember 2005 til maí 2006 fyrir alls 4.565.024 kr.

Stefnandi hefur fengið þrjár tryggingar vegna úttekta Endurreisnar verktaka ehf. hjá stefnanda. Í fyrsta lagi var lögð fram ábyrgðaryfirlýsing, dagsett 27. júní 2003, þeirra Margrétar Sigríðar Jónsdóttur og stefnda, Sigurjóns Jónssonar, að fjárhæð 800.000 kr. Dómsmálið nr. E-2546/2007 er rekið vegna þeirrar yfirlýsingar. Í apríl 2004 var útbúin ábyrgðaryfirlýsing, er mál þetta fjallar um, að fjárhæð 3.000.000 kr. undirrituð af stefndu. Þá var útbúið tryggingabréf að fjárhæð 3.000.000 kr. en til tryggingar greiðslu var sett að veði, fasteignin að Brekkulæk 4 í Reykjavík, en veðsali er Hekla Jósepsdóttir, eiginkona Hallgríms Einars Hannessonar, annars eiganda Endurreisnar verktaka ehf. Framlagðar tryggingar vegna viðskipta Endurreisnar verktaka ehf. við stefnanda voru því að höfuðstóli 6.800.000 kr. Þann 17. apríl 2007 greiddi Hekla Jósepsdóttir 3.858.006 kr. inná kröfu stefnanda, en stefnandi veitti ennfremur afslátt af kröfunni að fjárhæð 445.576 kr. Af því tilefni var dómkrafa máls þessa lækkuð við upphaf aðalmeðferðar.

Í mars 2006 tók Endurreisn verktakar ehf. að sér, sem undirverktaki, að setja upp innréttingar í eldhús, baðherbergi og svefnherbergi í fjölbýlishúsinu að Eskivöllum 1 Hafnarfirði. Stefnandi hefur ekki greitt fyrir það verk en ágreiningur er með aðilum vegna galla á verkinu.

Hinn 28. apríl 2006 var stefndu sent innheimtubréf vegna skuldar samtals að fjárhæð 4.565.024 kr. auk vaxta og kostnaðar og tekið fram að til tryggingar skuldinni væru tryggingar samtals að fjárhæð 6.800.000 kr. Í ljósi þess að Endurreisn verktakar ehf. var með verk í vinnslu fyrir stefnanda urðu ekki frekari innheimtutilraunir að sinni.

Hinn 20. júní 2006 gerðu Endurreisn verktakar ehf. stefnanda reikning samtals að fjárhæð 10.768.386 kr. vegna uppsetninga á innréttingunum á Eskivöllum 1. Eindagi reikningsins var 30. júní 2006. Reikningurinn fór í athugun hjá stefnanda en var ekki greiddur en stefnandi telur að miklir gallar séu á verkinu. Reikningurinn var mun hærri en upphaflega var samið um og telja stefndu að það sé vegna þess að íbúðirnar hafi ekki verið í umsömdu ástandi og hafi það kallað á ýmis aukaverk.

Hinn 13. september 2006 var stefnanda síðan sent innheimtubréf.

Hinn 27. september 2006 var Endurreisn verktakar ehf. teknir til gjaldþrotaskipta.

Hinn 15. desember 2006 sendi stefnandi kröfulýsingu vegna höfuðstólsins að fjárhæð 4.565.024 kr. og hinn 18. desember sama ár var send kröfulýsing vegna bótakröfu sem stefnandi telur sig eiga vegna tjóns er hann hafi orðið fyrir af hálfu Endurreisnar verktaka ehf. vegna verkefnisins að Eskivöllum.

Hinn 12. apríl 2007 var stefna málsins lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hinn 17. apríl 2007 greiddi Hekla Jósepsdóttir stefnanda samtals 4.303.582 kr. vegna tryggingar sinnar.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að stefndu hafi tekist á hendur sjálfskuldaábyrgð á öllum láns- og reikningsviðskiptum Endurreisnar verktakar ehf., alls að fjárhæð 3.000.000 kr. auk dráttarvaxta og alls innheimtukostnaðar, skv. ábyrgðaryfirlýsingu, dags. 5. apríl 2004. Þeim sé stefnt á grundvelli þessarar ábyrgðaryfirlýsingar þar sem skuld  við stefnanda hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.

Stefnandi viðurkennir að hann hafi í mars 2006 samið við Endurreisn verktaka ehf. um uppsetningu á innréttingum í húsi við Eskivelli 1 í Hafnarfirði.  Umsamið verð fyrir verkið hafi verið um það bil 2.900.000 kr. Vegna þessa verks hafi ekkert verið greitt, þar sem það hafi verið haldið verulegum göllum. 

Stefnandi hafnar þeirri málsástæðu stefndu að til geti komið skuldajöfnun vegna hins ógreidda verks og þeirrar kröfu er hann hefur uppi í málinu, þar sem þrotabúið eigi kröfuna, en ekki stefndu. Því sé um aðildarskort að ræða.

Um lagarök vísar stefnandi meðal annars til laga um gjaldþrotaskipti og fleira nr. 21/1991, þ.e. 60. gr. 100. gr. 103.-105. gr., 116. gr. 122. gr. 124. gr. og 130. gr. Einnig er vísað til laga um meðferð einkamál nr. 91/1991 þ.e. 16. gr. 21. gr. 129-130. gr. 

Málsástæða og lagarök stefndu.

Stefndu byggja á því að stefnandi eigi ekki kröfu á hendur stefndu. Krafa stefnanda vegna úttektanna sé greidd. Er það bæði með reikningi þeim er Endurreisn verktakar ehf. sendu stefnanda svo og greiðslu Heklu Jósefsdóttur hinn 17. apríl 2007.  Í raun sé það stefnandi sem skuldi stefndu.

Stefndu telja að heimilt hafi verið að skuldajafna reikningi einkahlutafélagsins við úttektir einkahlutafélagsins og stefndu ábyrgjast með ábyrgðaryfirlýsingunni. Stefndu telja að samið hafi verið um skuldajöfnuðinn og munnlegt samkomulag sé skuldbindandi fyrir stefnanda. Þá hafi fyrirsvarsmenn einkahlutafélagsins margoft einhliða lýst yfir skuldajöfnuði frá útgáfu reikningsins og þar til bú félagsins hafi verið til gjaldþrotaskipta. Stefndu telja að einkahlutafélagið hafi fengið verkið á Eskivöllum hjá stefnanda til að vinna upp í skuld sína hjá stefnanda.

Stefndu halda því fram að öll skilyrði skuldajafnaðar sé uppfyllt. Kröfurnar séu báðar um greiðslu peninga, þær séu gildar og hæfar til að mætast. Þá hafi Hekla Jósefsdóttir greitt stefnanda samtals 4.303.582 kr. Því telja stefndu ljóst að sú skuld sem ábyrgðaryfirlýsingin tekur til sé að fullu greidd. Ber því að sýkna stefndu af kröfu stefnanda.

Til vara krefjast stefndu þess að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og er byggt á sömu málsástæðu og fyrir sýknukröfunni. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu er vaxtakröfu stefnanda einnig mótmælt. Samkvæmt orðalagi ábyrgðaryfirlýsingarinnar tekur hún til skuldar allt að fjárhæð 3.000.000 kr. Þá tekur hún einnig til lögleyfðra vaxta og dráttarvaxta af þeirri fjárhæð ef til innheimtu kemur. Í kröfu stefnanda er vöxtum bætt ofan á viðskiptaskuld félagsins við stefnanda og stöðu þeirrar skuldar. Kröfu stefnanda um að bæta megi ofan á ábyrgðarfjárhæðina greiðslu vaxta og dráttarvaxta af viðskiptareikningnum fram að þeim tíma er ábyrgðaryfirlýsingin fór í innheimtu er mótmælt. Verður einungis gerð krafa um lögleyfða dráttarvexti af ábyrgðarfjárhæð að því leyti sem dómstóllinn fellst á þá kröfu frá þeim tíma sem ábyrgðin fór í innheimtu. 

Um lagarök fyrir sýknu er vísað til  meginreglna verktakaréttar, kröfuréttar og gjaldþrotaréttar um rétt til skuldajöfnunar. Þá vísast til samningalaga nr. 7/1936 um réttar samningsefndir. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningslaust er í málinu að Endurreisn verktakar ehf. tók út vörur og þjónustu hjá stefnanda fyrir alls 4.565.024 kr. á tímabilinu desember 2005 til maí 2006.  Vegna viðskiptanna tókust stefndu á hendur sjálfskuldaábyrgð að fjárhæð 3.000.000 kr. Endurreisn verktakar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 27. september 2006. Þá er ágreiningslaust að í mars 2006 samdi stefnandi við einkahlutafélagið um uppsetningu á innréttingum í íbúðir að Eskivöllum 1, Hafnarfirði. Ágreiningur er um endurgjald fyrir verkið en stefnandi taldi í upphafi að það hafi átt að vera um það bil 2.900.000 kr. (en nú 3.170.889) en stefndu telja að endurgjaldið hafi átt að vera rúmlega 3.800.000 kr. Fyrir liggur að stefnandi telur að verkið hafi verið gallað og hefur því sent skiptastjóra bótakröfu. Stefndu telja að íbúðirnar að Eskivöllum hafi ekki verið í umsömdu ástandi og hafi verkið því orðið mun dýrara. Eins og grundvöllur málsins er lagður í stefnu, þá er allur ágreiningur um ætlaða galla varðandi verkið að Eskivöllum 1 fyrir utan mál þetta. Þá er ágreiningslaust að stefnandi fékk reikning vegna vinnunnar að Eskivöllum í júní 2006.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort skilyrði séu fyrir skuldajöfnuði svo sem stefndu halda fram. Eins og að framan greinir greiddi Hekla Jósepsdóttir hluta kröfunnar hinn 17. apríl sl.  Við aðalmeðferð voru dómkröfur stefnanda því lækkaðar og er höfuðstóll kröfunnar nú 2.417.201 kr. miðað við 17. apríl sl. Vegna verksins að Eskivöllum 1 telur stefnandi að honum hafi borið að greiða um það bil 2.900.000 kr. Það hefur ekki verið greitt þrátt fyrir að reikningur hafi verið sendur 20. júní 2006 og innheimtubréf 13. september 2006. Fyrir liggur að með verki þessu fyrir stefnanda myndi félagið vinna upp í skuld sína.  Eins og mál þetta liggur fyrir er það mat dómsins að skilyrðum skuldajafnaðar sé fullnægt.  Skuldajöfnuðurinn átti sér stað áður en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta. Þótt fyrir liggi að ágreiningur sé um hvort gallar séu á verkinu þá kemur það að mati dómsins ekki í veg fyrir það að kröfur stefnanda og Endurreisnar verktaka ehf. mættust. Með vísan til þessa var krafa stefnanda að höfuðstól 4.565.024 kr. að fullu greidd með því að Hekla Jósepsdóttir innti greiðslu sína af hendi 17. apríl sl. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Með vísan til 1. gr. 130. gr. sömu laga ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákvarðaður 600.000 kr. Þar af greiðist 150.000 kr. í ríkissjóð. Ekki hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Sigurdísar Bjarkar Baldursdóttur, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Herdísar Hallmarsdóttur hdl., sem er hæfilega ákveðin 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ásgeir Jónsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Herdís Hallmarsdóttir hdl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndu,  Sigurdís Björk Baldursdóttir, Páll Sigurjónsson, Kristín Gunnarsdóttir  og Sigurjón Jónsson skulu sýkn af kröfu stefnanda, Byko hf.

Stefnandi greiði stefndu 600.000 kr. í málskostnað. Þar af greiðist 150.000 kr. í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Sigurdísar Bjarkar Baldursdóttur, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Herdísar Hallmarsdóttur hdl., 150.000 krónur kr. greiðist úr ríkissjóði.