Hæstiréttur íslands

Mál nr. 779/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Flýtimeðferð


Dómsatkvæði

                                     

Þriðjudaginn 17. desember 2013.

Nr. 779/2013.

John Ernest Benedikz

(Bergþóra Ingólfsdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(enginn)

Kærumál. Flýtimeðferð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu J um flýtimeðferð á máli sem hann hugðist höfða á hendur landlækni og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2013 sem barst héraðsdómi tveimur dögum síðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2013 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð á máli sem hann hyggst höfða til ógildingar á ákvörðun landlæknis. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um flýtimeðferð málsins.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín fyrir dómstóli innan hæfilegs tíma. Þau fyrirmæli verða ekki skýrð á þann hátt að við vissar aðstæður skuli máli sérstaklega flýtt, umfram önnur, þótt unnt sé að kveða svo á með lögum. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2013.

Með bréfi Bergþóru Ingólfsdóttur hrl., dagsettu 25. nóvember sl., mótteknu 26. s.m., fór lögmaðurinn þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðandi lögmannsins, John Ernest Benedikz, hugðist höfða á hendur embætti landlæknis sætti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í bréfinu kemur fram að tilgangur málshöfðunarinnar sé að fá hnekkt ákvörðun landlæknis frá 6. júní 2013 um synjun á leyfi umbjóðanda lögmannsins til þess að reka eigin læknastofu. Sem rökstuðning fyrir kröfu um flýtimeðferð málsins bendir lögmaðurinn á að ákvörðun landlæknis varði stórfellda hagsmuni umbjóðanda hans, þar sem með henni sé loku skotið fyrir möguleika hans til að reka þá starfsemi sem hann hafi sinnt um áratuga skeið. Ekki einasta sé honum þar með fyrirgert að afla sér tekna á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu, heldur séu sjúklingar hans einnig settir í verulegan vanda. Þá er þar tekið fram að lagaákvæði það er málið hverfist um, 26. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, hafi sætt gagnrýni annarra lækna sem líkt sé farið á með og umbjóðanda lögmannsins. Bréfi lögmannsins fylgdi stefna og skjalaskrá, ásamt gögnum, merkt 3-10.

Dómurinn hafnaði beiðni um flýtimeðferð málsins með bréfi 27. nóvember sl. Með bréfi 4. desember sl. krafðist fyrrnefndur lögmaður úrskurðar dómsins um synjunina, og vísaði í því efni til 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Áréttaði lögmaðurinn sérstaklega að umrætt mál lyti að stjórnarskrárvörðum mannréttindum umbjóðanda hans og því brýnt að það fengi úrlausn dómsins.

 Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er það skilyrði fyrir flýtimeðferð einkamála samkvæmt XIX. kafla laganna að málshöfðun sé vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga. Enn fremur er það skilyrði að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila.

Óumdeilt er að fyrirhuguð málshöfðun stefnanda lýtur að ákvörðun stjórnvalds, í þessu tilviki landlæknis, og yrði málið rekið eftir almennum reglum einkamálalaga, féllist dómurinn ekki á að málið sætti flýtimeðferð. Dómurinn fellst hins vegar ekki á að uppfyllt séu önnur skilyrði tilvitnaðs ákvæðis. Er þá einkum til þess horft að tæpir sex mánuðir liðu frá ákvörðun landlæknis 6. júní 2013, um að synja umbjóðanda lögmannsins um áframhaldandi rekstur á eigin læknastofu, þar til beiðni um flýtimeð­ferð málsins var borin fram við dóminn. Af gögnum málsins má einnig ráða að ákvörðun landlæknis átti sér nokkurn aðdraganda, allt frá desembermánuði 2012, en þá var umbjóðanda lögmannsins bæði gerð grein fyrir þágildandi reglum um heimild til reksturs eigin læknastofu eftir 75 ára aldur, svo og gildistöku nýrra laga um heilbrigðisstarfsmenn og áhrifum þeirra á rekstur hans. Verður ekki séð að nein atvik hafi staðið því í vegi að málið yrði höfðað mun fyrr og það þá rekið eftir almennum reglum einkamálalaga. Loks telur dómurinn að hvorki atvik málsins né fyrirliggjandi gögn renni nægum stoðum undir þá fullyrðingu lögmannsins að úrlausn málsins kunni að hafa almenna þýðingu í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eða að hún varði slíka hagsmuni umbjóðanda lögmannsins að rétt þyki að verða við beiðninni. Samkvæmt því er það niðurstaða dómsins að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði til flýtimeðferðar þessa máls. Beiðni um flýtimeðferð er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhugðu máli John Ernest Benedkiz gegn landlækni og synjað um útgáfu stefnu í málinu.