Hæstiréttur íslands

Mál nr. 320/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 12

 

Föstudaginn 12. júlí 2002.

Nr. 320/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Guðjón Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(enginn)

                                                   

 Kærumál. Gæsluvarðhald. C liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 10. september nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hæstarétti hefur ekki borist greinargerð frá varnaraðila. Verður að ætla að hann kæri úrskurð héraðsdómara í því skyni að fá hann felldan úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómara að skilyrði séu til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt c. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Í úrskurðinum kemur fram að sóknaraðili gaf út ákæru á hendur ákærða 10. maí 2002 og var málið þingfest 27. sama mánaðar. Mun héraðsdómarinn, sem fer með málið, hafa ákveðið í þinghaldi 11. júní sl. að aðalmeðferð færi fram 20. ágúst nk. Samkvæmt 1. mgr. 129. gr. áðurgreindra laga ákveður dómari í þinghaldi hvenær aðalmeðferð máls skuli háð, en þá skulu að jafnaði fara fram í einni lotu skýrslutökur og munnlegur málflutningur. Þess skal þó gæta að hraða meðferð máls eftir föngum, sbr. 133. gr. laga nr. 19/1991 og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Þá skal maður samkvæmt 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995, aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur. Varnaraðili hefur setið óslitið í gæsluvarðhaldi frá 14. apríl sl. og er ekki fram komið að sérstakar ástæður séu fyrir því að aðalmeðferð skuli ekki vera fyrr. Verður varnaraðili því ekki látinn sæta gæsluvarðhaldi lengur en til 16.00 föstudaginn 23. ágúst nk.

Dómsorð:

Varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 23. ágúst 2002.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2002

Ár 2002, miðvikudaginn 10. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Sigurði Halli Stefánssyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X, kt. […], heimilislausum manni, verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í héraði en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 10. september nk. kl. 16.00, vegna brota sem talin eru varða við 1. mgr. 155. gr., 247. gr., 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, 73. gr. tékkalaga nr. 94,1933 og  44. og 45 gr. umferðarlaga nr. 50,1987.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að ákærði sitji nú í gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 27. maí sl. sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar 30. s.m.

Þann 10. maí sl. hafi lögreglustjórinn í Reykjavík höfðað mál á hendur X fyrir dóminum vegna ætlaðra brota hans sem lögð hafi verið til grundvallar í kröfugerð lögreglustjórans fyrir gæsluvarðhaldinu 14. apríl sl.  Málið hafi verið þingfest 27. maí sl. en aðalmeðferð í málinu sé fyrirhuguð 20. ágúst nk.

Í ákæru sé höfðað mál á hendur X fyrir 13 brot sem framin hafi verið á tímabilinu frá nóvember 2001 fram í apríl 2002 og sé honum meðal annars gefið að sök að hafa með auðgunarbrotum og skjalafalsi náð, og reynt að ná til sín,  verðmætum að andvirði um 2.350.000 kr.

Sé að öðru leyti vísað til kröfugerðar þessa embættis fyrir dóminum 14. apríl og 27. maí sl. og forsendna nefndra úrskurða héraðsdómsins, sem staðfestir hafi verið í Hæstarétti 22. apríl og 30. maí.

Ákærða var veitt reynslulausn af tæplega sex ára eftirstöðvum 17 ára fangelsisdóms í júní 2001.  Þingfest hefur verið opinbert mál á hendur ákærða þar sem honum voru gefin að sök 13 brot, framin á tímabilinu nóvember 2001 og fram í apríl 2002.  Aðalmeðferð hefur verið ákveðin 20. ágúst nk.  Meðal þessara brota eru skjalafals og allmörg auðgunarbrot.  Ákærði játaði aðild að flestum þessara brota. Fram er komið að ákærði hefur lengi átt við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða og að brotin voru framin til að fjármagna fíkniefnakaup. Í málinu liggur fyrir bréf frá meðferðarstofnuninni Byrginu þar sem því er lýst að meðferðarúrræði verði haldið opnu ef kröfu um gæsluvarðhald verður hafnað.

Með vísan til framanritaðs og rannsóknargagna málsins má ætla að ákærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið.  Er því fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald ákærða samkvæmt c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt.  Krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að ákærði sæti gæsluvarðhaldi verður tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 10. september nk. kl.16.00.

 

                                                   Sigurður Hallur Stefánsson.