Hæstiréttur íslands
Mál nr. 233/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 15. júní 1999. |
|
Nr. 233/1999. |
Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Steini Stefánssyni (Hilmar Baldursson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. d. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að S skyldi sæta gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til d. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. júní 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. júlí 1999 kl. 16.15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili er fæddur 7. október 1966. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá var nafn hans Steinn Ármann Stefánsson, en hinn 21. febrúar 1997 fékk hann nafni sínu breytt í það horf, sem að framan greinir.
Með vísan til d. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á að skilyrði séu til að taka kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald til greina. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. júní 1999.
Ríkissaksóknari hefur í dag krafist þess, að Steini Stefánssyni, kt. 071066-5179, Þingholtsstræti 8, Reykjavík, dómfellda í málinu nr. S-167/1999, verði með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur, eða allt til þriðjudagsins 6. júlí n.k. kl. 16:15.
Af hálfu dómfellda er kröfunni mótmælt með vísan til þess að allan rökstuðning skorti fyrir henni.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum kl. 15:10 í dag í málinu nr. S-167/1999, var Steini Stefánssyni gert að sæta fangelsi í fjögur ár fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá kl. 13:00, laugardaginn 6. mars 1999 til dómsuppsögu. Kemur gæsluvarðhaldið til frádráttar refsingu hans. Gæsluvarðhald það sem dómfelldi sætti grundvallaðist á d lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Dómfelldi var ekki viðstaddur uppkvaðningu dómsins, en var birtur dómurinn kl. 16:15 eða áður en þinghald þetta hófst. Þá lýsti hann því yfir að hann tæki sér áfýjunarfrest.
Með vísan til ofanritaðs og 106. gr. laga nr. 19/1991 þykir rétt að úrskurða ákærða til að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur svo sem krafist er eða allt til þriðjudagsins 6. júlí n.k. kl. 16:15.
Þorgerður Erlendsdóttir settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Steinn Stefánsson, skal sæta gæsluvarðhaldi meðan á fresti stendur, skv. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Frestur þessi rennur út þriðjudaginn 6. júlí n.k. kl. 16:15.