Hæstiréttur íslands

Mál nr. 174/2002


Lykilorð

  • Sameign
  • Eignaskipting
  • Sveitarfélög
  • Hafnir
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. desember 2002.

Nr 174/2002.

Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

héraðsnefnd Mýrasýslu

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

og gagnsök

 

Sameign. Eignaskipting. Sveitarfélög. Hafnir. Sératkvæði.

Deilt var um það hvort komist hefði á samningur um skiptingu þess eignarhluta í höfninni að Grundartanga sem getið var í ákvæði ódagsetts sameignarsamnings um höfnina sem gerður var árið 1975 á grundvelli hafnarlaga nr. 45/1973 en sama ákvæði er í 2. gr. hafnarreglugerðar fyrir Grundartangahöfn nr. 214/1980. Tekið var fram að formlegur samningur um skiptingu eignarhlutans lægi ekki fyrir. Af ákvæði samningsins og reglugerðarinnar yrði ekki annað ráðið en að það væru sveitarfélögin sem ættu eignarhlutann en héraðsnefndirnar og áður sýslufélögin færu hins vegar með ráð hans í umboði þeirra. Sveitarfélögin væru því í bakábyrðum fyrir eignarhlutann og urðu að samþykkja aðildina. Tekið var fram að aðila greindi ekki á um að sveitarfélögin hefðu öll gerst aðilar að Grundartangahöfn og jafnframt tekist á hendur skuldbindingar samkvæmt samningnum um hafnarsjóðinn heldur greindi þá á í hvaða hlutföllum það hefði verið gert. Fyrir lá að eignarhlutföllin eins og oddvitafundurinn gekk frá þeim og sýslumaður tilkynnti til samgönguráðuneytis voru sem næst í samræmi við íbúatölu sveitarfélaganna og því ábyrgðin í samræmi við eignarhlutföllin þannig ákveðin en aðeins hluti sveitarfélaganna í Borgarfjarðarsýslu átti aðild að þessum eignarhluta þar sem hin voru beinir eignaraðilar að höfninni. Að þessu athuguðu yrði að telja þessa eignaskiptingu málefnalega. Við hana var engin athugasemd gerð fyrr en eftir að héraðsnefndir höfðu tekið við hlutverki sýslunefnda. Þótti nægjanlega fram komið að hún hefði verið samkvæmt sammæli hreppanna og sýslunefndanna þótt ekki væri sannað að gengið hefði verið frá henni á lögformlegan hátt. Þá hefði umrædd eignaskipting verið tilkynnt samgönguráðherra sem samþykkti stofnun hafnarsjóðs í þessu horfi, sbr. 1. tl. 6. gr. laga nr. 45/1973. Að lokum var bent á að skiptingin væri í góðu samræmi við núgildandi sveitarstjórnarlög sem gera ráð fyrir að sveitarsjóðir beri einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðarsamlags, sem þeir eiga aðild að, en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúatölu. Yrði að byggja á því að réttindi og skyldur fylgdust að. Með vísan til framangreinds var HM sýknað af kröfum HB.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

          Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 15. apríl 2002. Hann krefst þess að viðurkennt verði með dómi, að 25% sameiginlegur eignarhlutur hans vegna Borgarfjarðarsveitar og Skorradalshrepps og gagnáfrýjanda vegna Borgarbyggðar og Hvítársíðuhrepps í hafnarsjóði hafnarinnar að Grundartanga í Skilmannahreppi í Borgarfjarðarsýslu, samkvæmt 2. gr. sameignarsamnings um höfn við Grundartanga, sbr. 2. gr. hafnarreglugerðar fyrir Grundartangahöfn nr. 214/1980, skiptist jafnt, þannig að ofangreind sveitarfélög í Borgarfjarðarsýslu teljist eiga 12,5% og ofangreind sveitarfélög í Mýrasýslu 12,5%. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

          Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 26. júní 2002 og krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en um málskostnað. Ennfremur krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

          Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

          Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Ágreiningur aðila snýst um það, hvort komist hafi á samningur um skiptingu þess eignarhluta í höfninni að Grundartanga, sem um er getið í ákvæði ódagsetts sameignarsamnings um höfnina, sem gerður var árið 1975 á grundvelli hafnarlaga nr. 45/1973. Sama ákvæði er í 2. gr. hafnarreglugerðar fyrir Grundartangahöfn nr. 214/1980. Ákvæðið er eins á báðum stöðum og hljóðar svo: „Sýslunefndir Borgarfjarðar- og Mýrasýslna f.h. annarra hreppa sýslnanna en að ofan greinir samkvæmt sérstökum samningi þeirra um innbyrðis eignaraðild.” ... 25 af hundraði. Var hér verið að mæla fyrir um eign allra átta hreppa í Mýrasýslu og fimm hreppa Borgarfjarðarsýslu innan Skarðsheiðar í hafnarsjóði. Fyrr í ákvæðinu var ákveðin eignaraðild fjögurra hreppa Borgarfjarðarsýslu utan Skarðsheiðar, sem áttu að eiga 10 af hundraði hver, og Akraneskaupstaðar sem skyldi eiga 35 af hundraði. Sameigendur áttu að bera óskipta ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins gagnvart kröfuhöfum, en innbyrðis skyldi ábyrgð skiptast samkvæmt eignarhlutföllum.

          Áfrýjandi reisir málsókn sína á því að samningur hafi aldrei verið gerður um eignarhlutann samkvæmt ákvæðinu og því eigi að leysa ágreining þar um eftir almennum reglum um óskipta sameign, þar sem talið sé að eignarhlutar sameigenda skuli teljast jafnir ef ekki hefur sérstaklega verið samið um annað. Er þá einnig miðað við að ábyrgð sýslufélaganna á skuldbindingum vegna 25% hlutarins hafi verið jöfn.

          Gagnáfrýjandi heldur því aftur á móti fram að samkomulag hafi verið gert um skiptingu 25% eignarhluta Grundartangahafnar á þann hátt að sýslunefnd Mýrasýslu f.h. hreppa sýslunnar skyldi eiga 18% en sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu vegna hreppanna innan Skarðsheiðar 7%. Er um þetta vitnað til ályktunar fundar oddvita Mýra- og Borgarfjarðarsýslu 12. ágúst 1975. Samkvæmt fundargerð áttu sýslusjóðirnir að bera ábyrgð og njóta réttinda í réttum hlutföllum við þessa skiptingu sín í milli. Þá átti sérhvert sveitarfélag að bera bakábyrgð og njóta réttinda í hlutfalli við íbúatölu hvers þeirra um sig, eins og hún væri á hverjum tíma. Á fundi þessum voru auk sýslumanns, oddvita sýslunefndanna beggja, einungis mættir fjórir af átta oddvitum Mýrasýslu og enginn af fimm oddvitum hreppanna innan Skarðsheiðar í Borgarfjarðarsýslu. Þrír hinna síðarnefndu gengust hins vegar síðar með yfirlýsingu 24. ágúst 1975 við þessari eignaskiptingu. Jafnframt byggir gagnáfrýjandi á bréfi sýslumanns Mýra- og Borgarfjarðarsýsu 5. september 1975 til samgönguráðuneytis þar sem hann tilkynnir skiptingu þessa til ráðuneytisins. Skipting þessi lá þannig fyrir þegar samgönguráðherra gaf út hafnarreglugerðina fyrir Grundartangahöfn.

          Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 skyldu verkefni sem áður heyrðu undir sýslunefndir falla til sveitarfélaga. Mynda átti héraðsnefndir til að leysa verkefni sem sveitarfélögin fælu þeim. Áttu héraðsnefndirnar að taka við eignum og skuldum sýslufélaga við gildistöku laganna nema sveitarfélögin óskuðu eftir því að yfirtaka þær. Hafa aðilar máls þessa tekið við hlutverki sýslufélaga Mýra- og Borgarfjarðarsýslna samkvæmt samningi og reglugerð um Grundartangahöfn. Sveitarfélög þau sem sýslufélögin komu fram fyrir hafa að nokkru sameinast. Kemur hvor héraðsnefnd nú fram fyrir tvö sveitarfélög, aðaláfrýjandi fyrir Borgarfjarðarsveit og Skorradalshrepp og gagnáfrýjandi fyrir hönd Borgarbyggðar og Hvítársíðuhrepps.

II.

          Formlegur samningur um skiptingu eignahlutans liggur ekki fyrir. Af áður greindu ákvæði sameignarsamningsins um Grundarfjarðarhöfn og 2. gr. reglugerðar nr. 214/1980 um höfnina verður ekki annað ráðið en að það séu sveitarfélögin sem eigi eignarhlutann en héraðsnefndirnar og áður sýslufélögin fari hins vegar með ráð hans í umboði þeirra. Af þessu hlaut að leiða að sveitarfélögin væru í bakábyrgðum fyrir eignarhlutann og sýslufélögin hafi getað velt ábyrgð sinni yfir á þau hefði á hana reynt. Sést þetta af orðalagi ákvæðisins og samþykkt á fjórða fundi Grundartanganefndar en með henni var eignaraðild skipt milli Akraneskaupstaðar og hreppa sýslnanna. Jafnframt styðst þetta við lokaskýrslu nefndarinnar til samgönguráðherra 4. júní 1975 og þá staðreynd að fjögur sveitarfélög í Borgarfjarðarsýslu áttu beina eignaraðild að höfninni. Af þessu leiddi að sveitarfélögin urðu að samþykkja aðildina og var því nauðsynlegt að leita samþykkis þeirra, svo sem gögn málsins bera með sér að reynt var að gera.

          Aðila greinir ekki á um að sveitarfélögin hafi öll gerst aðilar að Grundartangahöfn og jafnframt tekist á hendur skuldbindingar samkvæmt samningnum um hafnarsjóðinn. Hins vegar eru þeir ekki á einu máli um í hvaða hlutföllum það var gert. Lýstu þrír af fimm oddvitum hreppanna innan Skarðsheiðar í Borgarfjarðarsýslu því yfir, svo sem áður greinir, að skiptingin skyldi vera svo sem gagnáfrýjandi heldur fram og allir oddvitar hreppanna í Mýrasýslu nema einn, en hann hefur nú gefið yfirlýsingu um að hann hafi verið þessu samþykkur. Samkvæmt bókun oddvitafundar 12. ágúst 1975 áttu sveitarfélögin að bera bakábyrgð í réttu hlutfalli við íbúatölu hvers þeirra um sig eins og hún væri á hverjum tíma. Eignarhlutföllin, eins og oddvitafundurinn gekk frá þeim og sýslumaður tilkynnti til samgönguráðuneytis, voru sem næst í samræmi við íbúatölu sveitarfélaganna og því ábyrgðin í samræmi við eignarhlutföllin þannig ákveðin. Það var, svo sem að framan segir, aðeins hluti sveitarfélaganna í Borgarfjarðarsýslu sem átti aðild að þessum eignarhluta þar sem hin voru beinir eignaraðilar að höfninni. Að þessu athuguðu verður að telja þessa eignaskiptingu málefnalega. Við hana var engin athugasemd gerð fyrr en eftir að héraðsnefndir höfðu tekið við hlutverki sýslunefnda. Þykir nægilega fram komið að hún hafi verið samkvæmt sammæli hreppanna og sýslunefndanna þótt ekki sé sannað að gengið hafi verið frá henni á lögformlega réttan hátt.

          Eignaskiptingin, eins og henni er lýst hér að framan, var tilkynnt til samgönguráðuneytisins og samþykkti ráðherra stofnun hafnarsjóðs í þessu horfi, sbr. 1. tl. 6. gr. laga nr. 45/1973. Við það samþykki hlaut hann að ganga út frá tilkynntri eignaskiptingu. Loks þykir mega hafa í huga að skiptingin er í góðu samræmi við núgildandi sveitarstjórnarlöggjöf, sem gerir ráð fyrir að sveitarsjóðir beri einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðasamlags, sem þeir eiga aðild að, en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúatölu, sbr. VII. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, einkum 82. gr. Byggja verður á því að réttindi og skyldur fylgist að.

          Með framangreindum athugasemdum en annars með vísun til rökstuðnings héraðsdóms ber að staðfesta hann.

          Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu, greiði gagnáfrýjanda, héraðsnefnd Mýrasýslu, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Sératkvæði

Garðars Gíslasonar og

Markúsar Sigurbjörnssonar

I.

Svo sem rakið er í héraðsdómi var síðsumars 1975 gerður ódagsettur samningur milli Hvalfjarðarstrandarhrepps, Innri-Akraneshrepps, Leirár- og Melahrepps, Skilmannahrepps, Akraneskaupstaðar og sýslunefnda Borgarfjarðarsýslu og Mýrasýslu „f.h. annarra hreppa sýslnanna en að ofan greinir“ um sameign þeirra að höfn við Grundartanga. Í 2. gr. samningsins var greint þannig frá hlutdeild hvers þeirra í sameigninni að hrepparnir fjórir, sem fyrst voru nefndir, skyldu hver eiga 10% eignarhlut, Akraneskaupstaður 35%, en „sýslunefndir Borgarfjarðar- og Mýrasýslna f.h. annarra hreppa sýslnanna en að ofan greinir samkvæmt sérstökum samningi þeirra um innbyrðis eignaraðild“ væru eigendur að 25%. Málsaðilarnir hafa nú komið í stað sýslunefndanna, sem að framan er getið. Er enginn ágreiningur milli þeirra um að þeir séu í eigin nafni og án atbeina þeirra hreppa, sem vísað var til á áðurgreindan hátt í samningnum, bærir til að ráða hvor yfir sínum eignarhluta í óskiptri sameign þeirra, sem varð til með samningnum um 25% hlut í umræddri höfn.

II.

Af gögnum málsins er ljóst að í tengslum við undirbúning að gerð framangreinds samnings urðu umræður um hvernig skipta ætti þeim 25% hlut, sem þar um ræddi, milli Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Mýrasýslu hins vegar. Meðal annars kvaddi oddviti sýslunefnda Mýra- og Borgarfjarðarsýslna til fundar 12. ágúst 1975 oddvita þeirra hreppa, sem í sýslunum voru. Fundurinn var sóttur af oddvitum fjögurra hreppa í Mýrasýslu. Var þar ályktað að „eðlilegt sé, að þau 25% eignarhluta að væntanlegri höfn, sem komi í hlut sýslnanna skiptist þannig, að Mýrasýsla fái 18% eignarhlutans, en Borgarfjarðarsýslan 7%. Beri sýslusjóðir ábyrgð og njóti réttinda í réttum hlutföllum við þá skiptingu sín á milli. Þá telur fundurinn réttmætt, að sérhvert sveitarfélag í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu beri bakábyrgð og njóti réttinda í hlutfalli við íbúatölu hvers sveitarfélags um sig eins og hún er á hverjum tíma.“ Að fundinum afstöðnum árituðu oddvitar fjögurra hreppa til viðbótar fundargerð um samþykki sitt á efni hennar, en af þeim voru þrír úr Mýrasýslu og einn úr Borgarfjarðarsýslu. Oddvitar tveggja annarra hreppa í síðastnefndri sýslu rituðu 24. ágúst 1975 undir yfirlýsingu, þar sem þeir lýstu sig samþykka framangreindri skiptingu eignarhlutans milli sýslnanna. Fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi lagt fram yfirlýsingu, sem stafar meðal annars frá þáverandi oddvita enn eins hrepps í Mýrasýslu, um að hann hafi verið þessu samþykkur. Að þessu samanlögðu skortir þó enn afstöðu oddvita tveggja hreppa í Borgarfjarðarsýslu.

Ekki verður annað ráðið en að tillagan um framangreinda skiptingu eignarhlutans hafi upphaflega komið frá manni, sem þá átti sæti í sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu. Oddviti eins hrepps í sömu sýslu, sem hafði lýst sig samþykkan þessari skiptingu, átti einnig sæti í sýslunefnd. Þá áttu oddvitar þriggja hreppa í Mýrasýslu, sem þessu voru samþykkir, jafnframt sæti í sýslunefnd hennar. Um afstöðu annarra sýslunefndarmanna til þessarar skiptingar liggur ekkert ótvírætt fyrir í málinu.

Að gefnu því, sem áður greinir, að Borgarfjarðarsýsla og Mýrasýsla hafi sem slíkar verið sameigendur að þeim eignarhluta, sem kveðið var á um í fyrrnefndum samningi, en ekki hrepparnir, sem heyrðu til hvorrar sýslu, gat afstaða oddvita hreppanna ekki ráðið niðurstöðu um hvernig skipta ætti eignarhlutanum milli sýslnanna. Til þess má að auki líta að ekkert liggur fyrir um að oddvitarnir hafi þar stuðst við ályktanir hreppsnefnda, sem áttu í hlut.

Þáverandi sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslna ritaði sem oddviti sýslunefnda samgönguráðuneytinu bréf 5. september 1975, þar sem sagði að þær hafi „skipt með sér þeim 25% aðildar að Grundartangahöfn, sem kom í þeirra hlut. Fer sýslunefnd Mýrasýslu samkvæmt því með 18% aðildar, en Borgarfjarðarsýsla með 7%.“ Þá greindi jafnframt í bréfinu frá tilnefningu sýslunefndanna á aðalmanni og varamanni af þeirra hálfu til að taka sæti í hafnarnefnd. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing sýslumannsins og framburður hans fyrir héraðsdómi, þar sem fram kom að fyrir gerð þessa bréfs hafi verið haldinn sameiginlegur fundur sýslunefndanna og samþykkt ályktun um þau atriði, sem greint var frá í því. Fundargerð hafi verið færð, en hún glatast. Ekki hafa verið lögð fram í málinu frekari gögn, sem haldbær gætu verið til sönnunar um að fundur þessi hafi verið haldinn og hvað hafi þá verið ályktað þar. Gegn andmælum aðaláfrýjanda hefur gagnáfrýjandi af þessum sökum ekki fært viðhlítandi sönnun fyrir því að sýslunefndirnar hafi á þann formlega hátt, sem nauðsyn bar til, samið á þessum tíma um skiptingu eignarhluta Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu í Grundartangahöfn. Því er ekki haldið fram í málinu að slíkur samningur hafi síðar verið gerður.

III.

Með því að samningur telst samkvæmt framansögðu ekki hafa verið gerður um skiptingu eignarhlutans í Grundartangahöfn, sem nú heyrir undir aðila málsins, veltur niðurstaða þess á því, sem leitt verður af almennum reglum um óskipta sameign. Samkvæmt þeim verður að telja hlut eigenda í óskiptri sameign jafnan nema sá, sem frá því vill víkja, sanni að hlutdeildin sé á annan veg.

Af málatilbúnaði aðilanna verður að leggja til grundvallar að atvikum hafi verið þannig háttað að þeir, sem staðið hafa að höfninni við Grundartanga, hafi ekki látið af hendi fjárframlög til að reisa þar mannvirki eða standa undir rekstri hennar. Verða því ekki fengnar á þeim grunni vísbendingar um hver innbyrðis hlutur aðilanna hafi verið í þeim 25% eignarhluta í höfninni, sem þeir hafa sameiginlega farið með.

Þótt áðurgreind atvik veiti því stoð að umræður hafi verið uppi áður en stofnað var til þessarar sameignar um að skipta ætti henni þannig að 7% hlutur félli til Borgarfjarðarsýslu en 18% til Mýrasýslu, verður engan veginn horft fram hjá því að sannanlega komu að þeirri umræðu aðeins fáir úr röðum þeirra manna, sem sæti áttu í sýslunefndum og voru þannig bærir um að taka afstöðu til þessa efnis. Verður því engu slegið föstu um að einhugur hafi verið við stofnun sameignarinnar um að skipting hennar yrði á þann veg, sem að framan greinir. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að sýslunefndirnar eða aðilar þessa máls hafi í orði eða verki á síðari stigum viðurkennt þessa skiptingu hlutdeildar þeirra í sameigninni, svo bindandi geti talist.

Samkvæmt framangreindu hefur gagnáfrýjandi ekki sannað að stoð geti verið fyrir annarri skipan en þeirri að hann og aðaláfrýjandi teljist hvor um sig eigandi að helmingi þess 25% eignarhluta í Grundartangahöfn, sem er í óskiptri sameign þeirra. Því til samræmis teljum við að fallast verði á kröfu aðaláfrýjanda um viðurkenningu að þeirri skiptingu eignarhlutans, en rétt sé að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 15. mars 2002.

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 16. október 2001. Það var þingfest sama dag; tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 21. febrúar 2002.

Stefnandi málsins er Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu, kt. 610889-1669, vegna Borgarfjarðarsveitar og Skorradalshrepps. Stefnt er Héraðsnefnd Mýrasýslu, kt. 620889-1219, vegna Borgarbyggðar og Hvítársíðuhrepps.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi, að 25% eignarhlutur héraðsnefndanna vegna ofangreindra sveitarfélaga í hafnarsjóði hafnarinnar að Grundartanga, Skilmannahreppi í Borgarfjarðarsýslu, samkvæmt 2. gr. sameignarsamnings um höfn við Grundartanga, sbr. 2. gr. hafnarreglugerðar fyrir Grundartangahöfn nr. 214/1980, skiptist jafnt milli sveitarfélaganna í hvorri sýslu um sig, þannig að ofangreind sveitarfélög í Borgarfjarðarsýslu teljist eiga sameiginlega 12.5% og ofangreind sveitarfélög í Mýrasýslu 12,5%. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda skv. mati réttarins.    

Málavextir

Í stefnu er þeim lýst. Stefnandi segir það upphaf þessa máls, að Hvalfjarðarstrandar-, Innri-Akraness-, Leirár- og Mela- og Skilmannahreppar, allir í Borgarfjarðarsýslu, Akraneskaupstaður og sýslunefndir Borgarfjarðar- og Mýrasýslna f. h. annarra hreppa sýslanna, hafi gert með sér sameignarsamning um höfn við Grundartanga. Samið hafi verið um að láta gera höfn við Grundartanga á landi, sem samningsaðilar höfðu keypt úr landi Klafastaða í Skilmannahreppi í Borgarfjarðarsýslu og að stofna hafnarsjóð til að eiga og reka höfnina og standa undir hafnarframkvæmdum. Samningurinn sé ódagsettur en muni hafa verið gerður snemma árs 1975. Fram komi í fundargerð sameiginlegs aukafundar sýslunefnda Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu 21. febrúar 1975, að til standi að gera slíkan samning. Í 2. gr. samningsins sé tilgreindur eignarhlutur hvers sameiganda fyrir sig. Eftir að þar hafi verið kveðið á um eignarhluta fimm fyrstu ofangreindra samningsaðila, samtals 75%, hafi verið sagt að þau 25% sem eftir voru skyldu eiga: „Sýslunefndir Borgarfjarðar- og Mýrasýslna f.h. annarra hreppa sýslnanna en að ofan greinir samkvæmt sérstökum samningi þeirra um innbyrðis eignaraðild.“

Þá segir stefnandi að þann 12. ágúst 1975 hafi verið haldinn sameiginlegur fundur oddvita í hreppum beggja sýslanna á Hótel Borgarnesi. Á fundinn hafi aðeins verið mættir oddvitar fjögurra hreppa í Mýrasýslu. Á honum hafi verið samþykkt samhljóða ályktun, þar sem talið hafi verið eðlilegt, að 25% eignarhlutinn í væntanlegri höfn, sem kæmi í hlut sýslanna, skiptist þannig, að Mýrasýsla fengi 18% en Borgarfjarðarsýsla 7%. Síðar muni oddvitar fleiri hreppa hafa lýst samþykki sínu við tillöguna, þ.m.t. einhverjir úr Borgarfjarðarsýslu, en þó ekki allir.

Þann 28. mars 1980, segir stefnandi, að samgönguráðherra hafi, með heimild í þágildandi hafnarlögum, sett hafnarreglugerð fyrir Grundartangahöfn, nr. 214/1980. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um eigendur hafnarsjóðs með sama texta og greinir í sameignarsamningnum, sem fyrr var nefndur.

Stefnandi segir að aldrei hafi orðið af því að sýslunefndirnar gerðu með sér þann sérstaka samning sem um ræði í sameignarsamningum og hafnarreglugerðinni. Hafi alla tíð verið uppi ágreiningur milli málsaðila um skiptinguna. Sýslunefnd Mýrasýslu hafi haft uppi þau sjónarmið að ályktun fundarins 12. ágúst 1975 ætti að ráða, þannig að í hennar hlut kæmu 18% en 7% í hlut sýslunefndar Borgarfjarðarsýslu. Sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu hafi á hinn bóginn talið, að þessi fundur hafi ekki haft neina heimild til að taka ákvörðun um þetta, þar sem gert hafi verið ráð fyrir að sýslunefndirnar gerðu sérstakan samning um þetta efni. Slíkur samningur hafi aldrei verið gerður. Verði því að líta svo á að hvor sýsla um sig eigi, fyrir hönd umræddra hreppa, jafnan hlut í hafnarsjóðnum, eða 12,5% hvor.

Með bréfi 23. október 1995 hafi Héraðsnefnd Mýrasýslu óskað eftir að félagsmálaráðuneytið úrskurðaði um það, hvort „framangreind ákvörðun“ oddvitafundarins 12. ágúst 1975 væri bindandi fyrir Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu. Hafi málsskotið til ráðuneytisins verið stutt við 119. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Eftir að hafa aflað gagna og gefið héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu kost á að gera athugasemdir við erindið, hafi ráðuneytið afgreitt það með bréfi 28. maí 1996. Í bréfinu telji ráðuneytið að fyrrgreindur oddvitafundur hafi ekki getað verið ígildi sýslunefndarfunda. Önnur atvik málsins verði ekki talin hafa „leitt til bindandi venju um skiptingu eignarhlutans“. Hafi ráðuneytið talið í ljósi 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, að það hefði ekki úrskurðarvald um með hvaða hætti skipt skyldi innbyrðis eignaraðild héraðsnefndanna. Um það yrðu nefndirnar að gera formlegt samkomulag en leita til dómstóla ella.

Þá segir stefnandi að Héraðsnefnd Mýrasýslu hafi á árinu 1997 leitað til Stefáns Pálssonar hrl. og óskað álits hans um ágreiningsefni héraðsnefndanna. Í bréfi 16. júlí 1997 hafi lögmaðurinn lýst því áliti, að á árinu 1975 hafi verið gengið frá skiptingu 25% eignaraðildar að Grundartangahöfn á milli Mýrasýslu annars vegar og 5 hreppa ofan Skarðsheiðar í Borgarfjarðarsýslu hins vegar. Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu hafi þá óskað eftir áliti frá Tryggva Gunnarssyni hrl. um málið. Í bréfi 25. febrúar 1998 hafi hann komist að þeirri niðurstöðu, að samningur um skiptingu umræddrar eignarhlutdeildar hafi ekki komist á með samþykkt oddvitafundar 12. ágúst 1975 og eftirfarandi uppáskrift hluta af oddvitum í sýslunum. Samþykktin geti heldur ekki lýst sameiginlegum vilja sveitarfélaganna, þar sem allir fulltrúar þeirra hafi ekki staðið að henni. Þar sem ekki hafi verið gerður samningur um skiptinguna, verði að leysa úr eignarskiptingunni á grundvelli reglna um slit á óskiptri sameign með þeirri niðurstöðu, að 25% eignarhlutinn skiptist jafnt á milli sýslanna. Sé það einnig í samræmi við þann hátt sem hafður hafi verið á síðari tíma skiptingu á sameiginlegum eignum þeirra og skuldum. Stefnandi hafi sent stefnda álitsgerð Tryggva Gunnarssonar hrl. með bréfi 3. mars 1998. Síðan hafi héraðsnefndirnar átt í bréfaskiptum um málið án þess að leitt hafi til samkomulags. Því sé nauðsynlegt að láta dómstóla skera úr málinu.

Stefnandi lætur þess getið að lögum samkvæmt skyldu héraðsnefndir myndaðar um lausn þeirra verkefna, sem sýslunefndir hefðu annast, svo og annarra verkefna sem sveitarfélögin fælu þeim eða þeim væru falin með lögum. Héraðsnefndir skyldu taka við eignum og skuldum sýslufélaga. Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu hafi verið stofnuð 17. desember 1988. Núgildandi samþykktir hennar séu frá 23. apríl 1998. Nefndin hafi frá upphafi farið með aðildir sveitarfélaganna innan Skarðsheiðar að hafnarsjóði Grundartangahafnar. Um hafi verið að ræða 5 sveitahreppa á þeim tíma, er sameignarsamningurinn um Grundartangahöfn var gerður. Fjórir þessara hreppa hafi sameinast í Borgarfjarðarsveit, sbr. nú reglugerð nr. 102/2001. Séu nú tvö sveitarfélög innan Skarðsheiðar með aðild að héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu, Skorradalshreppur og Borgarfjarðarsveit. Héraðsnefndin eigi aðild að þessu máli fyrir þeirra hönd. Héraðsnefnd Mýrasýslu fari á sama hátt með aðild að þessu máli fyrir sveitarfélögin í sýslunni. Eftir sameiningu séu þau nú aðeins tvö, Hvítársíðuhreppur og Borgarbyggð.

Í greinargerð stefndu er atvikum nánar lýst. Þar er sagt að upphaf þessa máls megi rekja til ársins 1975, en þá hafi verið gerður sameignarsamningur um höfn við Grundartanga í Skilmannahreppi. Samningurinn sé ódagsettur en samþykktur í Grundartanganefnd 4. júní 1975. Í 2. gr. samningsins hafi verið svohljóðandi ákvæði:

“Eignarhlutur hvers sameiganda um sig er svo sem hér greinir:

Hvalfjarðarstrandarhreppur                                   10 af hundraði

Innri-Akraneshreppur                                             10 af hundraði

Leirár- og Melahreppur                                          10 af hundraði

Skilmannahreppur                                                   10 af hundraði

Akranes                                                                    35 af hundraði

Sýslunefndir Borgarfjarðar og Mýrasýslu

f.h. annarra hreppa sýslnanna en að ofan

greinir skv. sérstökum samningi þeirra

um innbyrðis eignaraðild                                       25 af hundraði

Eignarhlutföllum verður ekki breytt og engum sameignarfélaga er heimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis allra sameigenda.”

Þessi grein, segir stefnda, að hafi verið tekin óbreytt upp í 2. gr. hafnarreglugerðar fyrir Grundartangahöfn, nr. 214/1980.

Þann 12. ágúst 1975 hafi verið haldinn fundur oddvita í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum innan Skarðsheiðar að Hótel Borgarnesi, sbr. dskj. nr. 7. Á þessum fundi hafi verið samþykkt svohljóðandi tillaga:

“Telur fundurinn að eðlilegt sé að þau 25% eignarhluta af væntanlegri höfn, sem komi í hlut sýslnanna, skiptist þannig að Mýrasýsla fái 18% eignarhlutans en Borgarfjarðarsýsla 7%. Beri sýslusjóðir ábyrgð og njóti réttinda í hlutföllum við þá skiptingu sín á milli.

 Þá telur fundurinn réttmætt að sérhvert sveitarfélag í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu beri bakábyrgð og njóti réttinda í hlutfalli við íbúatölu hvers sveitarfélags um sig eins og hún er á hverjum tíma.”

Undir fundargerð fundarins hafi ritað oddvitar fjögurra hreppa sem fundinn sóttu, en að auki hafi eftir á fulltrúar fjögurra hreppa ritað nöfn sín undir fundargerðina og sagst vera samþykkir framangreindu. Síðar hafi oddvitar þriggja hreppa gefið svofellda yfirlýsingu (á fram lögðu skjali):

“Undirritaðir hreppsnefndaroddvitar eru samþykkir aðild að Grundartangahöfn og að hlutur Mýrasýslu vegna hreppanna þar verði 18% en hlutur Borgarfjarðarsýslu vegna hreppanna ofan Skarðsheiðar verði 7%.

 24. ágúst 1975

 F.h. Andakílshrepps Jakob Jónsson, f.h. Reykhólsdalshrepps Jón Þórisson, f.h. Hálsahrepps Magnús Kolbeinsson.”

Ásgeir Pétursson, sýslumaður og oddviti beggja sýslunefndanna, hafi einnig ritað undir fundargerðina. Þá hafi einungis vantað undirskrift eins oddvita úr Mýrarsýslu og tveggja úr Borgarfjarðarsýslu, en stefnda segir að gera verði þó ráð fyrir að haft hafi verið samband við oddvita allra hreppanna og að þeir hafi verið samþykkir ofangreindri tillögu. Vísar stefnda í því sambandi til fram lagðs bréfs Ingimundar Ásgeirssonar á Hæli, sýslunefndarmanns fyrir Reykholtsdalshrepp, til sýslumanns, dags. 24. ágúst 1975. Þar segir Ingimundur að ver hafi gengið að ná til oddvitanna en hann hafði búist við. Einn hafði hann þó náð í og tveir voru væntanlegir heim til hans (hinir sömu þrír og getið er hér að ofan, þ.e. Jakob á Varmalæk, Jón Þórisson og Magnús Kolbeinsson). Í bréfinu segir Ingimundur: ,,Tel alveg nauðsynlegt að ná til allra oddvita á svæðinu (Skarðsheiði-Hítará)”

Stefnda vitnar til þess að þann 5. september 1975 hafi Ásgeir Pétursson, oddviti sýslunefnda Mýra- og Borgarfjarðarsýslna, ritað samgönguráðuneytinu svohljóðandi bréf:

“Sýslunefndir Mýra- og Borgarfjarðarsýslna hafa skipt með sér þeim 25% aðildar að Grundartangahöfn sem kom í þeirra hlut. Fer sýslunefnd Mýrasýslu skv. því með 18% aðildar en Borgarfjarðarsýsla með 7%. Þá hafa sýslunefndirnar tilnefnt eftirgreinda menn í hafnarstjórn:

Aðalmaður Ásgeir Pétursson, sýslumaður, Borgarnesi.

Varamaður Ólafur Sverrisson, kaupfélagsstjóri, Borgarnesi.

Þetta tilkynnist ráðuneytinu hér með.”

Stefnda vitnar til skriflegrar frásagnar Ásgeirs Péturssonar, en þar segir að haldinn hafi verið sýslunefndarfundur í seint í ágúst eða byrjun september 1975, áður en ofangreint bréf hafi verið sent samgönguráðuneytinu. Á þeim fundi hafi einungis tvö mál verið á dagskrá, annars vegar skipting eignarhluta sýslnanna í höfninni og hins vegar að kjósa fulltrúa í hafnarstjórn. Niðurstaða fundarins hafi verið í samræmi við ofangreint bréf Ásgeirs til samgönguráðuneytisins frá 5. september 1975. Ásgeir veki í frásögn sinni sérstaka athygli á tillögu Ingimundar Ásgeirssonar, dags. 24. ágúst 1975, um kosningu í hafnarstjórn, og segi Ásgeir að á sýslunefndarfundinum hefðu tveir sýslunefndarmenn ritað samþykki sitt á tillöguna og þar með orðið meðflutningsmenn um að Ásgeir og Ólafur yrðu kosnir í hafnarstjórn.

Þá segir í greinargerð stefndu að skv. upplýsingum sem Ásgeir hafi veitt lögmanni stefndu, hafi sýslunefndirnar haldið þennan fund áður en hann sendi bréf sitt til samgönguráðuneytisins enda hefði hann að öðrum kosti aldrei sent slíkt bréf. Oddvitafundurinn hafi hins vegar verið haldinn til þess fyrst og fremst að tryggja það að bakábyrgðum hreppanna yrði hagað í samræmi við þessa skiptingu, þ.e. í hlutfalli við íbúatölu hvers sveitarfélags. Oddvitar allra hreppa sýslanna, að þremur undanskildum, hafi einnig lýst því yfir að þeir teldu eðlilegt að 25% eignarhlutdeildin í Grundartangahöfn skiptist á milli sýslunefndanna í hlutföllunum 18 á móti 7. Oddvitafundurinn hafi því verið undanfari sýslunefndarfundarins sem síðan hafi staðfest skiptinguna.

Á fundi sýslunefnda Mýra- og Borgarfjarðarsýslna þann 29. september 1979 hafi svo aftur verið kosið í hafnarstjórn Grundartangahafnar vegna brottflutnings Ásgeirs Péturssonar, og þá voru kjörnir Ólafur Sverrisson aðalmaður og Ragnar Olgeirsson varamaður. Ragnar hafi komið úr Borgarfjarðarsýslu og hafi sú skipan haldist, að aðalmaður væri úr Mýrasýslu en varamaður úr Borgarfjarðarsýslu, til ársins 1994 er aðalmaður var kosinn úr Borgarfjarðarsýslu og varamaður úr Mýrasýslu.

Af hálfu stefndu er því sérstaklega mótmælt sem fram kemur í stefnu að alla tíð hafi verið uppi ágreiningur milli málsaðila um skiptingu eignarhluta. Þetta sé rangt. Enginn ágreiningur hafi verið um eignarskiptinguna, a.m.k. ekki meðan sýslunefndirnar störfuðu, en þær hafi verið aflagðar í árslok 1988, og svo virðist sem ekki hafi verið gerð formleg athugasemd við eignarskiptinguna fyrr en á árinu 1995, eða 20 árum eftir að skiptingin hafi verið ákveðin. Hins vegar virðist hafa komið upp ágreiningur um skiptingu fulltrúa í hafnarstjórn eitthvað fyrr án þess að deilt væri um eignarskiptinguna sjálfa.. Það hafi leitt til þess að Borgarfjarðarsýsla hafi fengið aðalmann í hafnarstjórn 1994-1998 en Mýrarsýsla aftur aðalmanninn 1998.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að aldrei hafi komist á sá sérstaki samningur um innbyrðis eignaraðild stefnanda og stefnda að 25% hafnarsjóðs Grundartangahafnar, sem sameignarsamningurinn gerði ráð fyrir og raunar einnig 2. gr. hafnarreglugerðarinnar nr. 214/1980. Sýslunefndirnar hafi átt að gera þennan samning fyrir hönd hreppanna. Slíkur samningur hafi aldrei verið gerður. Samþykkt fundar oddvitanna fjögurra 12. ágúst 1975 geti ekki talist fela í sér samning af því tagi, sem hér hafi verið áskilið, og skipti þá ekki heldur máli þó að aflað hafi verið áritunar nokkurra fjarstaddra oddvita á samþykktina síðar. Hér komi margt til. Oddvitar hreppanna hafi ekki sjálfkrafa átt sæti í sýslunefndum, sbr. 1. mgr. 94. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 58/1961. Fæstir þeirra sem mættu á fundinn eða lýstu samþykki síðar hafi verið sýslunefndarmenn. Yfirlýsingar þeirra um málið hafi því ekkert gildi haft. Sýslunefndir hafi verið fjölskipuð stjórnvöld, sem ekki hafi mátt framselja vald sitt. Ekkert slíkt valdframsal liggi reyndar fyrir í málinu. Sýslunefndir hafi starfað á fundum. Málið hafi aldrei, svo vitað sé, verið til meðferðar á fundi sýslunefndar Borgarfjarðarsýslu, og vísast ekki heldur sýslunefndar Mýrasýslu. Í samþykkt fundarins 12. ágúst 1975 felist ekki einu sinni efnisleg ákvörðun um málefnið, því aðeins var bókað, að fundurinn „telji eðlilegt“, að 25% eignarhluturinn skiptist í 18% og 7% hluti. Loks sé málinu svo háttað, að ekki nokkur fulltrúi tveggja af þáverandi hreppum Borgarfjarðarsýslu, Lundarreykjadalshrepps og Skorradalshrepps, hvorki oddvitar, sýslunefndarmenn né hreppsnefndir, hafi nokkurn tíma samþykkt þá hugmynd um skiptingu eignarhlutans, sem fundurinn 12. ágúst 1975 taldi eðlilega. Hið sama sé að segja um fulltrúa hreppanna sunnan Skarðsheiðar, engin fulltrúi þeirra hafi lagt nokkurt samþykki við hugmyndinni. Þessir hreppar hafi að sjálfsögðu einnig átt aðild að sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu (nú héraðsnefnd).

Stefnandi segir að það styðji enn sjónarmið hans í þessu efni, að reglugerð nr. 214/1980 um Grundartangahöfn hafi verið sett fimm árum eftir að stefnda telji að bindandi samningur hafi verið gerður um skiptingu eignarhlutans. Samt sé í 2. gr. reglugerðarinnar gert ráð fyrir að ósamið sé um þetta. Hafi samningur þá verið talinn kominn á, hafi auðvitað verið eðlilegt, að efni hans um skiptinguna yrði tekið í reglugerðina. Svo hafi ekki verið gert, einfaldlega vegna þess að um þetta hefði ekki verið gerður neinn gildur samningur.

Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á að 25% eignarhlutinn skuli skiptast jafnt milli stefnanda og stefndu á almennum reglum um óskipta sameign, þar sem talið sé að eignarhlutar sameigenda skuli teljast jafnir ef ekki hefur sérstaklega verið samið um annað og ekki er í lögskiptum aðila til að dreifa vísbendingum um annað, svo sem vera myndi ef upphafleg framlög til sameignarinnar væru misjöfn. Í samskiptum málsaðila hafi eignum og skuldbindingum verið skipt að jöfnu. Sem dæmi um það nefnir stefnandi, að síðla árs 1993 hafi hann sent erindi til stefndu varðandi skiptingu ábyrgða vegna gjaldþrots Fiskiræktarstöðvar Vesturlands og óskaði eftir að stefnda tæki á sig nokkru stærri hluta þeirra en stefnandi. Um þetta var fjallað á fundi hjá stefndu 29. október 1993 og gerð svofelld bókun: „Beiðni Héraðsnefndar Borgarfjarðarsýslu er hafnað enda hefur sameiginlegum eignum sýslanna verið skipt til helminga.“

Af hálfu stefnanda er að öðru leyti vísað til álitsgerðar Tryggva Gunnarssonar hrl. frá 25. febrúar 1998, og beri að skoða hana sem hluta málflutnings hans.

Auk þeirra lagastaða sem stefnandi hefur vísað til hér að framan, nefnir hann að viðurkenningarkrafa stefnanda hafi heimild í d-lið 1. mgr. 80 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnaðarkröfu er vísað til ákvæða í XXI. kafla sömu laga.

Málsástæður stefndu og lagarök

Sýknukrafa stefndu byggist á því að sýslunefndirnar hafi gert samkomulag um að skipta 25% eignarhluta sýslunefndanna í hafnarsjóði Grundartangahafnar milli nefndanna þannig að Mýrasýsla ætti 18% en Borgarfjarðarsýsla ætti 7%. Það hafi verið ákveðið á sýslunefndarfundi sem haldinn hafi verið seint í ágúst eða byrjun september 1975, sbr. skriflega, fram lagða frásögn Ásgeirs Péturssonar sýslumanns og oddvita beggja sýslunefndanna á þeim tíma. Þessi ákvörðun sýslunefndar hafi verið staðfest í bréfi Ásgeirs til Samgönguráðuneytisins, dags. 5. september 1975. Með þessari samþykkt hafi verið kominn á sá samningur sem kveðið sé á um í 2. gr. hafnarreglugerðar fyrir Grundartangahöfn nr. 214/1980 og sameignarsamningi frá 1975.

 Í þessu sambandi vekur stefnda athygli á bréfaskiptum sem áttu sér stað milli Ásgeirs Péturssonar og Ingimundar Ásgeirssonar. Ingimundur, segir stefnda, að hafi á þeim tíma verið einn helsti forvígismaður sýslunefndar Borgarfjarðarsýslu, sýslunefndarmaður fyrir Reykholtshrepp og endurskoðandi reikninga sýslunnar.

Hann hafi lagt til í bréfi, dags. 5. maí 1975, að hlutur Borgarfjarðarsýslu í Grundartangahöfn yrði 7 eða 8% en hlutur Mýrasýslu 17 eða 18%. Í handritaðri tillögu hans til sýslunefndanna, dags. 24. ágúst 1975, hafi hann lagt til að aðalfulltrúi í hafnarstjórn yrði Ásgeir Pétursson, sýslumaður, en varafulltrúi Ólafur Sverrisson, kaupfélagsstjóri í Borgarnesi. Þetta sé í samræmi við bréf Ásgeirs frá því 5. september s.á. Skv. frásögn Ásgeirs hafi tveir sýslunefndarmenn úr Mýrasýslu ritað samþykki sitt á tillöguna á fundinum og gerst þannig meðflutningsmenn. Megi af þessu gera ráð fyrir að sýslunefndarfundurinn þar sem þetta hafi verið ákveðið hafi verið haldinn einhvern tíma á tímabilinu frá 24. ágúst til 4. september 1975, þótt fundargerð fundarins hafi ekki fundist enn þá.

Á fundi sýslunefndanna þann 29. september 1979 hafi aftur verið kosið í hafnarstjórn, þegar Ásgeir Pétursson lét af störfum. Þá hafi aðalmaðurinn verið kosinn úr Mýrasýslu, en varamaðurinn úr Borgarfjarðarsýslu. Þessi sýslunefndarfundur 1979 sé einnig staðfesting á því að sýslunefndarfundurinn 1975 hafi verið haldinn, en óumdeilt sé að Ásgeir og Ólafur hafi verið kosnir í hafnarstjórn á sýslunefndarfundinum 1975. Engin önnur fundargerð sé til þar sem þessi kosning hafi farið fram. Ásgeir hefði ekki sent tilkynningu til ráðuneytisins um þessa kosningu ef hún hefði aldrei farið fram. Þá hefðu sýslunefndirnar varla farið að kjósa fulltrúa í hafnarstjórn í stað þeirra sem kosnir voru 1975 ef einhver vafi hefði verið á því að þeir hefðu verið kosnir. Þetta styðji frásögn Ásgeirs um það að fundurinn hafi verið haldinn og rétt hafi verið greint frá niðurstöðu hans í bréfi Ásgeirs til Samgönguráðuneytisins þann 5. september 1975.

Stefnda segir að engin bréfleg athugasemd hafi verið gerð við eignarskiptinguna af hálfu stefnanda fyrr en, að því er virðist, með bréfi stefnanda, dags. 28. apríl 1995. Þau 20 ár sem liðið hafi þar til farið væri að halda öðru fram styrki einnig málstað stefndu um að sýslunefndirnar hafi samið um skiptingu eignaraðildarinnar með þeim hætti sem stefnda heldur fram.

Stefnda vekur athygli á fundargerðum hinnar svokölluðu Grundartanganefndar, en í henni hafi setið bæði Ingimundur og Ásgeir. Formaður nefndarinnar hafi verið Ólafur S. Valdimarsson, skrifstofustjóri í Samgönguráðuneytinu. Í fundargerð 3. fundar frá 13. mars 1975 komi fram hugmyndir um að Mýrasýsla ætti 25% og Borgarfjarðarsýsla norðan Skarðsheiðar 10%. Um það hafi ekki náðst samstaða og niðurstaðan orðið sú sem rakin hefur verið hér að framan. Það sé hins vegar athyglisvert að hlutfallið sem hreppum Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar hafi verið ætlað hafi verið það sama, þ.e. annars vegar 10% af 35% og hins vegar 7% af 25%. Af þessu megi ráða að það hafi aldrei verið ætlunin að hreppar í Borgarfjarðarsýslu fengju meirihluta eignaraðildar að höfninni eins og raunin yrði ef dómkröfur stefnanda yrðu teknar til greina og eignaraðildinni yrði skipt jafnt.

Stefnda segist hafa óskað eftir því með bréfi, dags. 23. október 1995, að Félagsmálaráðuneytið úrskurðaði um það hvort ákvörðun oddvitafundarins frá 12. ágúst 1975 hefði verið bindandi fyrir stefnanda varðandi eignaraðild að Grundartangahöfn, eins og stefnandi hafi lýst í stefnu. Félagsmálaráðuneytið hafi látið í té álit sitt með bréfi, dags. 28. maí 1996. Meginniðurstaða ráðuneytisins hafi verið sú að sýslunefndirnar hefðu ekki haft heimild til að framselja vald sitt til oddvitanna, oddvitafundurinn hefði ekki getað verið ígildi sýslunefndarfundar og ekki væri komin á bindandi venja um skiptingu eignarhlutans. Hafi ráðuneytið því talið að ekki hefði komist á sá samningur sem kveðið væri á um í 2. gr. reglugerðar nr. 214/1980. Stefnda segir að ekki verði annað séð en að málið hafi verið lagt með röngum hætti fyrir ráðuneytið og það því komist að rangri niðurstöðu. Aldrei hafi verið ætlunin að framselja vald sýslunefndanna til oddvitanna. Oddvitafundurinn hafi verið hugsaður aðallega til að staðfesta að bakábyrgðir hreppanna vegna Grundartanga skiptust milli hreppanna í hlutfalli við íbúatölu, en jafnframt hafi oddvitarnir lýst því yfir að eðlilegt væri að 25% eignarhluti sýslanna í hafnarsjóði Grundartangahafnar skiptist 18 á móti 7. Í bréfi ráðuneytisins sé ekkert vikið að bréfi Ásgeirs Péturssonar til samgönguráðuneytisins frá 5. september 1975 og ekki virðist heldur neitt hafa verið leitað til Ásgeirs vegna málsins þrátt fyrir að hann hefði á þessum tíma bæði verið sýslumaður og oddviti beggja sýslunefndanna. Álit ráðuneytisins hafi því enga þýðingu í þessu máli.

Stefnda bendir á að ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 214/1980 sé tekið orðrétt upp úr 2. gr. sameignarsamningsins um höfnina. Þar segi m.a. “Eigendur hafnarsjóðs eru: “Sýslunefndir Borgarfjarðar- og Mýrasýslu f.h. annarra hreppa sýslnanna en að ofan greinir skv. sérstökum samningi þeirra um innbyrðis eignarhald.” Orðalagið “skv. sérstökum samningi þeirra innbyrðis” megi skilja með tvennum hætti. Annars vegar að verið sé að vísa til samþykktar sýslunefndanna sem gerð var í lok ágúst eða byrjun september 1975 og Ásgeir Pétursson tilkynnti ráðuneytinu um þann 5. september s.á. Orðið “þeirra” vísi í því sambandi til sýslunefndanna. Verði hins vegar ekki talið sannað að sýslunefndirnar hafi samþykkt ofangreinda eignarskiptingu, byggi stefnda á því að setningin í sameignarsamningnum og reglugerðinni “skv. sérstökum samningi þeirra innbyrðis” vísi til oddvitafundarins og orðið “þeirra” vísi í því sambandi til hreppanna. Yfirlýsing oddvitafundarins verði því að teljast bindandi samningur milli hreppanna sem mynda sýslunefndirnar og þær verði með þeim hætti bundnar af þeirri skiptingu. Enda hafi það í raun verið hrepparnir sem áttu að bera ábyrgðina og njóta réttindanna. Sýslunefndirnar hafi einungis verið samband sveitarfélaga í sýslunum en hafi litlar sem engar tekjur haft. Hefði einhver kostnaður fallið til vegna hafnarinnar hefðu hrepparnir orðið að bera hann.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að skiptingin 18 á móti 7 hafi verið samþykkt af öllum oddvitum sýslnanna, eða a.m.k. yfirgnæfandi meirihluta þeirra, og fulltrúar þeirra þriggja hreppa, sem ekki skrifuðu undir fundargerðina eða yfirlýsinguna, hljóti að hafa verið kunnugt um niðurstöðu allra hinna oddvitanna, en að öðrum kosti hafi þeir átt fulla möguleika á að koma á framfæri mótmælum síðar, væru þeir ekki sáttir við þá skiptingu sem þar var ákveðin.

Þegar allt er lagt saman, segir stefnda, þ.e. frásögn Ásgeirs Péturssonar, bréf hans til samgönguráðuneytisins, fundargerðir Grundartanganefndar, bréfaskipti hans við Ingimund Ásgeirsson, tillaga Ingimundar um kjör í hafnarstjórn, samþykkt oddvitafundarins og 20 ára samfelld framkvæmd í samræmi við skiptinguna 18 á móti 7, að þá verði að teljast fram komin fullnægjandi sönnun þess að komist hafi á “sá sérstaki samningur” um eignaskiptingu sem kveðið er á um í 2. gr. reglugerðar nr. 214/1980.

 Sýknukrafan er einnig á því byggð að skipting skv. íbúatölu hafi verið eðlileg, rökrétt og málefnaleg og venju samkvæmt. Íbúafjöldi þeirra hreppa sem hér eiga hlut að máli hafi verið þannig árið 1975, að í hreppum Mýrasýslu hafi verið 2.336 íbúar en í hreppum Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar 877 íbúar. Samanlagður íbúafjöldi hafi því verið 3.213 íbúar. Af heildaríbúafjöldanum hafi 73% verið í Mýrasýslu og 27% í fimm hreppum Borgarfjarðarsýslu. Sé þetta hlutfall yfirfært á margnefnda 25% eignarhlutdeild í hafnarsjóði Grundartangahafnar þá koma 18% í hlut Mýrasýslu og 7% í hlut hreppanna fimm. Virðist augljóst að þarna er kominn grundvöllur þeirrar skiptingar sem sýslunefndirnar hafi náð samkomulagi um. Ef til samanburðar sé litið á íbúafjöldann 1. desember 2000, þá hafi samanlagður íbúafjöldi í Mýrasýslu verið 2.551, en í hreppunum tveimur norðan Skarðsheiðar í Borgarfjarðarsýslu 735. Samanlagður íbúafjöldi hafi þá verið 3.286, 77,6% í Mýrasýslu en 22,4% í Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar. Sé þetta hlutfall yfirfært á 25% eignaraðildina í hafnarsjóði þá komi 19,4% í hlut Mýrasýslu en 5,6% í hlut hreppanna tveggja í Borgarfjarðarsýslu eða 19 á móti 6.

Þá bendir stefnda á að eftir gildistöku sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 hafi verið sett reglugerð nr. 268/1988 um flutning verkefna og önnur skil frá sýslunefndum til sveitarfélaga og héraðsnefnda. Í 7. gr. þessarar reglugerðar sé kveðið á um það, að óski sveitarfélög, sem aðild áttu að sýslufélagi, að yfirtaka eignir og skuldir sýslufélags, skuli þeim skipt upp á hlutaðeigandi sveitarfélög með þeim hætti að nettóhluti hvers sveitarfélags verði jafn hlutfallslegri þátttöku þess í greiðslu sýslusjóðsgjalda miðað við meðaltal áranna 1985 til 1988. Skipting í samræmi við skiptingu sýslusjóðsgjalda hefði leitt til svipaðrar niðurstöðu..

 Í 9. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1962 [Svo í greinargerð stefndu. Mun eiga að vera laga nr. 8/1986. Innskot dómara] sé einnig fjallað um varanleg samvinnuverkefni og byggðasamlög. Í 5. mgr. 98. gr. laganna segi að sveitarstjórn beri einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðasamlags sem þeir eru aðilar að, en innbyrðis skiptist ábyrgð í hlutfalli við íbúatölu. Þá segi í 2. mgr. 103. gr. að sé ákveðið að hætta starfsemi byggðasamlags skuli nettóafgangi eigna eða eftirstöðvum skuldajafnað á viðkomandi sveitarsjóði í hlutfalli við íbúatölu.

Ef ekkert samkomulag verður talið vera í gildi um eignarskiptinguna þá verði að telja að skipta eigi eignarhlutnum í Grundartangahöfn í hlutfalli við íbúatölu hreppanna árið 1975, en ekki jafnt eins og krafist er í stefnu. Um rökstuðning fyrir því vísar stefnda til þess sem rakið hefur verið hér að ofan og sérstaklega til vilja mikils meirihluta oddvitanna á fundinum 12. ágúst 1975. Þá verður það einnig að teljast sanngjarnt þar sem skipting skv. íbúafjölda nú hefði það í för með sér að hlutföllin yrðu 19 á móti 6.

Af hálfu stefndu er því mótmælt að skipting sjálfskuldarábyrgðar sýslnanna vegna Fiskiræktarstöðvar Vesturlands hafi nokkra þýðingu í þessu máli. Þar hafi sýslunefndirnar tekið á sig einfalda sjálfskuldarábyrgð á lánum hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins og Byggðasjóði og því eðlilegt að ábyrgðin skiptist jafnt enda ekki um aðra skiptingu samið gagnstætt því sem gert var á oddvitafundinum. Það hafi því verið eðlilegt að héraðsnefnd Mýrasýslu vildi ekki greiða meira en hún þurfti og hafði samið um. Sú röksemd sem kemur fram í bréfi stefndu til stefnanda þann 6. desember 1993, um að sameiginlegum eignum sýslnanna hefði verið skipt til helminga, virðist byggð á misskilningi og hafi ekkert gildi við úrlausn þessa máls.

Um málsástæður og lagarök stefndu vísast einnig til álitsgerðar Stefáns Pálssonar hrl., eftir því sem við getur átt, en hún liggur frammi í málinu.

Kröfu um málskostnað styður stefnda við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Skýrslur fyrir dómi

Vitni báru við aðalmeðferð Ásgeir Pétursson fyrrv. sýslumaður og bæjarfógeti, Eyjólfur Torfi Geirsson fyrrv. formaður stefndu, Jóhannes Gestsson fyrrv. sýslunefndarmaður í sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu og Anton Guðjón Ottesen bóndi, nefndarmaður í Grundartanganefnd.

Vitnið Ásgeir Pétursson, f. 1922, staðfesti skjal, sem lagt hefur verið fram í málinu og hann hefur ritað. Skjalið ber yfirskriftina Frásögn og er dagsett 26. nóvember 2001. Þar segir fyrst: ,,Ég undirritaður get staðfest það, eftir því, sem ég man best, að seint í ágúst eða byrjun september 1975 var haldinn fundur sýslunefnda Mýra- og Borgarfjarðarsýslna. Tvö mál voru á dagskrá. Annarsvegar að skipta 25% eignarhlut sýslnanna í væntanlegri Grundartangahöfn og hinsvegar að kjósa menn í hafnarstjórn.

Var ákveðið að í hlut sýslunefndar Borgarfjarðarsýslu kæmu 7% eignarhlutans, en 18% í hlut Mýrasýslu.”

Þá segir að á fundinum hafi verið lögð fram skrifleg tillaga Ingimundar Ásgeirssonar um að Ásgeir Pétursson yrði kosinn aðalmaður í hafnarstjórn Grundartangahafnar og Ólafur Sverrisson varamaður. Á fundinum hafi tveir sýslunefndarmenn úr Mýrasýslu gerst meðflutningsmenn tillögunnar, sem hafi verið samþykkt. ,,Ég greindi samgönguráðuneyti frá þessari samþykkt 5. sept. 1975,” segir í skjalinu.

Vitnið staðfesti fram lagt bréf sitt til Samgönguráðuneytisins, dags. 5. september 1975, þar sem greint er frá framangreindri eignarskiptingu og tilnefningu sýslunefndanna í hafnarstjórn.

Vitnið sagði að samþykkt sýslunefndanna, sem hér um ræðir, hefði verið gerð á sameiginlegum aukafundi beggja sýslunefnda. Fundargerðir slíkra funda hefði oft verið ritaðar á laus blöð. Fundargerðarbækur hefðu verið haldnar fyrir sýslurnar, sérbók fyrir hvora sýslu um sig. Þegar aukafundir hefðu verið haldnir hefðu fundargerðir oft verið teknar á laus blöð, og þá hefðu þær verið látnar liggja frammi, þannig að þeir sem ekki komust á fund gætu síðar komið og skrifað nafn sitt á þær. Vitnið kvaðst geta fullyrt að það hefði verið algild regla að færa fundargerðir funda hvorrar sýslu um sig inn í fundargerðarbók sýslunnar. En fundargerðir funda sameiginlegra beggja sýslna hefðu verið teknar á laus blöð og geymdar í möppu á sýsluskrifstofu. Erfiðlega hefði gengið að finna skjöl sýslunefnda, eftir það þær voru lagaðar niður, t.d. hefðu fundargerðarbækurnar ekki fundist í fyrstu, og bréf sýslumanns til Ingimundar Ásgeirssonar hefðu ekki fundist.

Þegar bréfið til Samgönguráðuneytisins hefði verið samið hefði legið fyrir full og endanleg vissa um að allur meirihluti sýslunefndarmanna í báðum sýslum hefði komið sér saman um það, bæði í viðtölum við oddvita sinn og aðra sýslunefndarmenn, að samþykkja þessa skiptingu eignarhlutans. Áður hefði verið samþykkt á fundum sýslunefnda að gerast eignaraðili að Grundartangahöfn.

Vilji manna til að skipta eignarhlutanum í þessum hlutföllum, sagði vitnið að fyrst hefði komið fram í Grundartanganefnd. Þar hefði verið gert ráð fyrir að skipta 35% hluta milli sýslnanna, þar af Mýrasýsla 25% og Borgarfjarðarsýsla innan Skarðsheiðar 10%. Talið hefði veri eðlilegt að hrepparnir fjórir sunnan Skarðsheiðar, sem næstir liggja höfninni, fengju 40%. Akurnesingar hefðu snúist hart gegn því að sýslurnar fengju 35%. Þeir hefði sjálfir viljað fá það hlutfall. En þeir hefðu ekki haft neitt að athuga við skiptinguna milli sýslnanna. Niðurstaðan hefði orðið að sýslurnar fengju 25%, en Akranes 35%.

Vitnið Ásgeir sagði að eftir því sem hann best myndi hefði umræddur aukafundur beggja sýslunefnda verið haldinn síðla dags. Það hefði verið hringt til hans úr stjórnarráðinu og minnt á að það vantaði ákvörðun um þau efni sem samþykktir fundarins væru um. Þessi fundur hefði ekki fyrst og fremst verið haldinn til að staðfesta skiptinguna, þótt það hefði að vísu verið gert; hann hefði framar öðru verið haldinn til að tilnefna mann í hafnarstjórnina.

Ásgeir sagði að það hefði verið ákveðið á sýslunefndarfundum fyrr á árinu að halda þennan sýslunefndafund, og kæmi það fram í fundargerðum funda sýslunefnda.

Höfuðsönnun fyrir því að umræddur fundur hefði verið haldinn, ef menn drægju það í efa, væri sú, að á þessum fundi hefðu tveir sýslunefndarmenn úr Mýrasýslu gerst meðflutningsmenn að tillögu Ingimundar Ásgeirssonar. Vitnið kvaðst hafa lýst tillögunni á fundinum og lýst yfir að rétt væri að fulltrúar úr Mýrasýslu rituðu á hana stuðning sinn.

Vitnið Ásgeir sagði að eignarhlutföllin hefðu verið miðuð við íbúatölu sýslnanna. Hann hefði talið á þessum tíma að eindreginn stuðningur væri við að skipta eignarhlutanum miðað við íbúafjölda. Annað hefði ekki komið til greina.

 Ásgeir var spurður hvers vegna hann hefði boðað til oddvitafundarins 12. ágúst 1975. Hann sagði að mikilvægt hefði verið skv. lögum að hafa samráð um fjármál. Hann hefði kallað oddvitana saman til að láta þá vita að til stæði að takast á hendur nokkra ábyrgð með því að gerast eignaraðilar að hluta að Grundartangahöfn. Einu tekjur sýslunefndanna hefðu verið hreppagjöldin. Það hefði því verið bæði rétt og skylt að oddviti sýslunefnda léti oddvita hreppana vita hvað væri verið að gera, þar sem hér hefði verið um að ræða ábyrgðir meiri en venjulegar. Tilgangurinn með oddvitafundinum hafi verið að leita eftir bakábyrgðum þannig að menn stæðu saman í þessu máli. Vitnið sagði, aðspurður, að sér væri ekki kunnugt um hvort afstaða oddvitanna hefði verið samþykkt í hreppsnefndum þeirra. Hann hefði litið svo á að það sem oddvitar samþykktu á slíkum fundi væri vilji meirihluta hreppsnefndanna. Þá var vitnið Ásgeir spurður hvers vegna ekki hefði verið vikið að því í fundargerð oddvitafundarins að leggja málið fyrir sýslunefndirnar. Hann svaraði að það lægi í hlutarins eðli (væri ,,commonsense”). Enginn hefði velkst í vafa um að ákvörðunarvaldið væri hjá sýslunefndunum. Og þegar hefði verið boðað að málinu yrði tekið fyrir í sýslunefndum.

Ásgeir var þá spurður, með vísan til málskjala, hvort verið gæti að hann hefði látið nægja að afla samþykkis oddvita hreppsnefnd við skiptinguna, en sýslunefndafundur hefði ekki verið haldinn. Vitnið sagði að það hefði aldrei komið til álita að sýslunefndir afsöluðu valdi til oddvita.

Í fundargerð oddvitafundarins er bókað í lokin: ,,Oddviti sýslunefndanna lýsti því yfir, að haft yrði samband við þá oddvita sýslnanna er eigi gáru komið til þessa fundar, um afstöðu þeirra til ofangreindrar tillögu.” Vitnið sagði að þetta hefði verið gert samviskusamlega.

Ásgeir sagðist aldrei hafa orðið var við neina athugasemd við eignarhlutaskiptinguna 18:7, eftir að hann sendi bréfið til Samgönguráðuneytisins 5. september 1975, hvorki þau ár sem hann átti eftir í sýslumannsembætti né nokkurn tíma síðar. Hann kvaðst hafa rætt við sýslumanninn, sem tekið hefði við af honum, nú sýslumann í Reykjavík, um þessi efni. Hann hefði innt hann eftir því hvort hann hefði orðið var við að menn hefðu verið andvígir þessari skiptingu. Hann hefði tjáð sér að hann hefði aldrei heyrt þess getið. Nánar spurður um þetta sagði Ásgeir að bréf hans til ráðuneytis hefði ekki verið lagt fram eftir á á sýslunefndarfundum, enda hefði þess ekki þurft. Þar væri lýst samþykktum sem gerðar hefðu verið.

Vitnið Ásgeir var spurður hvers vegna eignarhlutaskiptingin hefði ekki verið lögð fyrir aðalfundi sýslunefnanna í júní 1975 til samþykktar. Hann kvaðst gera ráð fyrir því að svarið við þessu hlyti að vera það að búið hefði verið að slá því föstu að Grundartangamál yrðu tekin fyrir síðar. Vitninu var þá bent á að ráðagerð um þetta væri ekki bókuð í fundargerð aðalfundar Borgarfjarðarsýslu. Vitnið sagði að það hefði verið almenn regla að samstarf sýslnanna hefði verið svo náið, að ef önnur sýslnanna samþykkti eitthvað, þá hefði verið nokkurn veginn víst að hin sýslan hefði verið sammála.

Ásgeir var spurður hvers vegna Mýrasýslu hefði yfir höfðuð verið blandað í eignaraðild að Grundartangahöfn, þar sem hún væri staðsett alllangt frá sýslunni. Hann kvaðst hafa verið einn aðalmaðurinn að berjast fyrir þessu. Hann kvaðst hafa séð að enginn aðili hefði eins mikinn hag að eignaraðild og Mýrasýsla, og þó einkum Borgarnes. Akraborgin hefði verið hætt að ganga í Borgarnes og höfnin þar að verða ónothæf. Í Borgarnesi væri aðalverslunarmiðstöð alls héraðsins, ekki bara Mýrasýslu, heldur og Borgarfjarðarsýslu. Hingað hefði verið flutt mikil þungavara. Menn hefðu vitað að Borgarfjarðarbrúin væri að koma, og þá hefði orðið örstutt suður á Grundartanga.

Eyjólfur Torfi Geirsson, f. 1949, kvaðst hafa verið formaður stefndu frá 1989, þegar héraðsnefndin var stofnuð, til 1994. Í málinu liggur frammi bréf stefnanda, dags. 16. september 1993, vegna gjaldþrots Fiskiræktarstöðvar Vesturlands. Í því bréfi kemur fram að sýslusjóðir beggja sýslna hafi staðið að ábyrgðum fyrir það fyrirtæki. Segir í bréfinu að ætla megi ,,að ábyrgðin hafi átt að skiptast í sömu hlutföllum og sýslusjóðsgjöld á þeim tíma er til ábyrgðanna var stofnað,” en þau hafi verið 38% hjá Borgarfjarðarsýslu og 62% hjá Mýrasýslu. Svarbréf liggur einnig frammi, dags. 6. desember, 1993, undirritað af vitninu Eyjólfi Torfa. Er þar vitnað í samþykkt stefndu, þar sem segir: ,,Beiðni Héraðsnefndar Borgarfjarðarsýslu er hafnað enda hefur sameiginlegum eignum sýslnanna verið skipt til helminga.” Vitnið sagði að þarna væri vísað til skiptingar á Andakílsárvirkjun, sem hefði verið eina eignin sem sýslurnar tvær hefðu átt saman. Virkjunina hefðu reyndar átt þrír aðilar, Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýsla og Akraneskaupstaður. Þeir hefðu skipt eigninni milli sín þannig að 1/3 hefði komið í hlut hvers. Ekki hefði verið samkomulag um annað. Akurnesingar hefðu upphaflega verið með hugmynd um að skipta í samræmi við íbúafjölda en því hefði verið hafnað. Stefnda hefði talið rétt að þar sem einu eign sýslnanna hefði verið skipt jafnt þá skyldi það einnig gert með skuldir.

Vitnið sagði að skipting eignaraðildar sýslnanna í Grundartangahöfn hefði aldrei komið til umfjöllunar í Héraðsnefnd Mýrasýslu meðan hann var formaður. Sér virtist sem svo hefði verið litið á að þeirri eign væri búið að skipta.

Jóhannes Gestsson, bóndi á Giljum í Hálsasveit, f. 1928, kvaðst hafa verið fulltrúi fyrir Hálsahrepp í sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu árið 1975. Hann var spurður hvort hann myndi hvort komið hefði til umræðu í sýslunefndinni hvernig ætti að skipta 25% eignarhlut Borgarfjarðar- og Mýrasýslu í Grundartangahöfn. Hann kvaðst ekkert muna um þetta. Hann kvaðst þó muna að höfnin og eitthvað um skiptinguna hefði eitthvað aðeins komið til umræðu á tveimur fundum þetta ár. En ekki hefði verið nefnd nein ákveðin prósenta. Vitnið sagði að tveir fundir hefðu verið haldnir í sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu þetta ár, aðalfundur í júní og aukafundur beggja sýslna í febrúar. Hann minntist þess ekki, aðspurður, að þriðji fundurinn hefði verið haldinn í september.

Jóhannes kvaðst ekki minnast þess, aðspurður, að hafa rætt eignarskiptinguna við Magnús Kolbeinsson oddvita eða Ingimund Ásgeirsson á Hæli.

Anton Guðjón Ottesen, bóndi á Ytra-Hólmi, f. 1943, kvaðst hafa verið oddviti í Innra-Akraneshreppi árið 1975. Hann hefði þá átt sæti í svokallaðri Grundartanganefnd, sem hann sagði að skipuð hefði verið af ráðherra. Nefnd þessi hefði undirbúið samninginn um Grundartangahöfn. Hann sagði aðspurður að ekki hefði í nefndinni verið rætt um hvernig 25% hlutur Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu vegna hreppanna innan Skarðsheiðar skyldi skiptast. Hann sagði að menn hefðu í fyrstu verið að tala um að hrepparnir fjórir sunnan Skarðsheiðar ættu 60%, en Akraneskaupstaður 40%, en svo hefði orðið úr fyrir atbeina samgönguráðherra og Ásgeirs Péturssonar sýslumanns að hrepparnir fyrir ofan heiði yrðu eignaraðilar. Eftir fjölmarga fundi hefði náðst um þetta samkomulag, en lengi hefði verið deilt um hvort Akranesi skyldi eiga 25% og sýslurnar ofna heiði 35%, eða öfugt. En um skiptinguna ofan heiði hefði ekki verið rætt.

Undir vitnið var borin fundargerð Grundartanganefndar 13. mars 1975. Hann kannaðist við það sem þar er bókað, að Ásgeir Pétursson hefði skýrt ,,frá viðræðum sínum við allmarga hreppsnefndaroddvita og sýslunefndarmenn af svæðinu milli Skarðsheiðar og Hvítár [svo í fundargerðinni. Rétt mundi vera Hítarár. Aths. dómara]. Í þeim viðræðum hefði komið fram það álit, að eðlilegt væri að Mýrasýsla ætti 25%, Borgarfjarðarsýsla 10%, hrepparnir sunnan Skarðsheiðar 40% og Akraneskaupstaður 25%.” Vitnið sagði að hann og annar fulltrúi í nefndinni, Sigurður í Lambhaga, hefðu ekki skipt sér mikið af deilum Ásgeirs og Akurnesinga í nefndinni.

Forsendur og niðurstöður

Dómari fellst á það með stefnanda að sýslunefndarfundir Borgarfjarðar- og Mýrasýslu hafi verið sá vettvangur sem bær var til að taka ákvörðun um skiptingu eignarhlutans í Grundartangahöfn. Áhöld eru um hvort haldinn var fundur í sýslunefndunum haustið 1975, þar sem slík ákvörðun hafi verið tekin. Til þess bendir eindregið bréf Ásgeirs Péturssonar sýslumanns, oddvita beggja sýslunefnda, til Samgönguráðuneytisins, dags. 5. september 1975, þar sem segir: ,,Sýslunefndir Mýra- og Borgarfjarðarsýslna hafa skipt með sér þeim 25% aðildar að Grundartangahöfn, sem kom í þeirra hlut. Fer sýslunefnd Mýrasýslu samkvæmt því með 18% aðildar, en Borgarfjarðarsýsla með 7%.” Á sama veg féll vætti Ásgeirs fyrir dóminum. Í sama bréfi er frá því greint að sýslunefndirnar hafi tilnefnt aðalmann og varamann í hafnarstjórn. Í fundargerð aðalfundar sýslunefndar Mýrasýslu 1975, sem haldinn var 23. júní, er bókuð ráðagerð um að halda aukafund um Grundartangamál, þar sem segir: ,,Oddviti gerði grein fyrir störfum Grundartanganefndar. Ákveðið var að halda aukafund um málið á næstunni.” Samsvarandi bókun er ekki í fundargerð aðalfundar Borgarfjarðarsýslu þetta ár, sem haldinn var 19. júní. Það styður enn að haldinn hafi verið fundur sýslunefndanna, svo sem vitnið Ásgeir greinir, að fram hefur verið lagt bréf Ingimundar Ásgeirssonar á Hæli til sýslunefnda Mýra-og Borgarfjarðarsýslu, dags. 24. ágúst 1975, þar sem hann leggur til að Ásgeir Pétursson sýslumaður verði kosinn aðalmaður í hafnarstjórn Grundartangahafnar og Ólafur Sverrisson kaupfélagsstjóri Borgarnesi varamaður.

Það er mat dómara að því verði ekki slegið föstu að fundur sýslunefndanna, eða sameiginlegur fundur þeirra beggja, hafi verið haldinn í lok ágúst eða byrjun september 1975, þrátt fyrir að margt bendi til þess. Kemur þar tvennt til. Annað er það að fundargerð fundarins liggur ekki fyrir, og er sagt að hún hafi ekki fundist þrátt fyrir mikla leit. Hitt er að um þennan fund hefur enginn vitnað nema fyrrverandi sýslumaður, Ásgeir Pétursson, sem reyndar ætti gerst um hann að vita. Af þáverandi sýslunefndarmönnum hefur aðeins einn verið leiddur sem vitni í þessu máli, Jóhannes Gestsson, bóndi á Giljum í Hálsasveit, sem sat í sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu. Hann kvaðst muna að höfnin og eitthvað um skiptinguna hefði eitthvað aðeins komið til umræðu á tveimur fundum þetta ár. En ekki hefði verið nefnd nein ákveðin prósenta. Vitnið sagði að tveir fundir hefðu verið haldnir í sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu þetta ár, aðalfundur í júní og aukafundur beggja sýslna í febrúar. Hann minntist þess ekki, aðspurður, að þriðji fundurinn hefði verið haldinn í september. Samkvæmt þessu leikur vafa á að sá sérstaki samningur sýslnanna, sem getið er í ódagsettum samningi eigenda Grundartangahafnar frá árinu 1975 og í 2. gr. hafnarreglugerðar fyrir höfnina nr. 214/1980, hafi verið gerður. En á það má fallast með stefndu að orðalagið í reglugerðinni útiloki ekki að þar sé vísað til samnings sem gerður hafi verið.

Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á, að 25% eignarhlutinn skuli skiptast jafnt milli stefnanda og stefndu, á almennum reglum um óskipta sameign, þar sem talið sé að eignarhlutar sameigenda skuli teljast jafnir ef ekki hefur sérstaklega verið samið um annað og ekki er í lögskiptum aðila til að dreifa vísbendingum um annað, svo sem vera myndi ef upphafleg framlög til sameignarinnar væru misjöfn.

Þótt ekki sé fram komin lögfull sönnun um að fundur eða fundir sýslunefnda hafi tekið ákvörðun um skiptingu eignarhluta sýslnanna; Mýrasýslu fyrir hönd allra hreppa sýslunnar og Borgarfjarðarsýslu fyrir hönd 5 hreppa innan (þ.e. norðan) Skarðsheiðar, eru þó fram komnar ýmsar vísbendingar um að skiptingin skyldi verða sú sem stefnda heldur fram.

Er þá fyrst að nefna að vant er að sjá að sýslumaður, Ásgeir Pétursson, hefði samið og sent bréf það, sem fyrr er getið, til Samgönguráðuneytisins, dags. 5. september 1975, ef hann hefði ekki haft að baki samþykkt sýslunefnda eða a.m.k. fullvissu fyrir slíku samþykki. Ásgeir sagði í vætti sínu m.a., að þegar bréfið til Samgönguráðuneytisins hefði verið samið hefði legið fyrir full og endanleg vissa um að allur meirihluti sýslunefndarmanna í báðum sýslum hefði komið sér saman um það, bæði í viðtölum við oddvita sinn og aðra sýslunefndarmenn, að samþykkja þessa skiptingu eignarhlutans, þ.e. skiptingu í hlutföllunum 18:7.

Víst er að þegar í mars 1975 eru komnar í gang einhverjar viðræður manna millum um skiptingu sem er mjög nærri því að vera hina sama og 18:7. Þetta kemur fram í fundargerð fundar svokallaðrar Grundartanganefndar, sem haldinn var 13. mars. Þar er bókað að Ásgeir Pétursson hafi skýrt ,,frá viðræðum sínum við allmarga hreppsnefndaroddvita og sýslunefndarmenn af svæðinu milli Skarðsheiðar og Hvítár [Rétt mun vera Hítarár. Aths. dómara]. Í þeim viðræðum hefði komið fram það álit, að eðlilegt væri að Mýrasýsla ætti 25%, Borgarfjarðarsýslu 10% . . .”

Niðurstaða samninga eignaraðila Grundartangahafnar varð sú að Mýrasýslu f.h. hreppa hennar og Borgarfjarðarsýsla f.h. hreppanna innan Skarðsheiðar skyldu eiga 25% í höfninni skv. sérstökum samningi þeirra á milli. Á oddvitafundinum 12. ágúst 1975 voru einungis fjórir oddvitar hreppsnefnda, allir úr Mýrasýslu. Þeir töldu ,,eðlilegt” að 25 prósentin skiptust í hlutföllunum 18:7. Aftan við fundargerðina hafa fjórir oddvitar ritað samþykki sitt við þessa skiptingu, þrír úr Mýrasýslu og einn úr Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar, þ.e. Jakob Jónsson oddviti Andakílshrepps. Þá liggur frammi í málinu ljósrit handritaðs skjals, svohljóðandi: ,, Undirritaðir hreppsnefndar oddvitar eru samþykkir aðild að Grundartangahöfn og að hlutur Mýrasýslu vegna hreppanna þar verði 18%, en hlutur Borgarfjarðarsýslu vegna hreppanna ofan Skarðsheiðar verði 7%. 24. ágúst 1975 F.h. Andakílshrepps Jakob Jónsson F.h. Reykholtsdalshrepps Jón Þórisson F.h. Hálsahrepps Magnús Kolbeinsson” Þannig hafa 7 oddvitar af 8 í Mýrasýslu lýst samþykki við nefnda skiptingu og þrír af 5 í oddvitum Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar. Af oddvitunum sjö úr Mýrasýslu voru fjórir jafnframt sýslunefndarmenn, og einn hinna þriggja úr Borgarfjarðarsýslu. Við þetta er því að bæta frammi liggur í málinu bréf Ingimundar Ásgeirssonar á Hæli til Ásgeirs Péturssonar sýslumanns, dags. 5. maí 1975. Ingimundur var sýslunefndarmaður fyrir Reykholtsdalshrepp. Í bréfinu kemur fram hugmynd hans um eignarskiptinguna Borgarfjarðarsýsla 7 eða 8% og Mýrasýsla 17 eða 18%. Ingimundur tekur fram að hann telji sig alls ekki geta greitt atkvæði um skiptingu eignaraðildar nema fyrir liggi upplýsingar frá hreppsnefndaroddvitum og sýslunefndarmönnum, a.m.k. meirihluta þeirra, um það hvort þeir vilji að sýslurnar gerist aðilar að Grundartangahöfn.

Í ljós er leitt í þessu máli að skiptingin 18:7 átti sér ákveðnar efnislegar forsendur. Hún var miðuð við íbúatölu hreppanna. Í vætti Ásgeirs Péturssonar kemur fram að á oddvitafundinum 12. ágúst 1975 hafi menn framar öðru verið að hugsa um bakábyrgðir hreppanna vegna eignaraðildar að höfninni. Fellst dómari á það með stefndu að skiptingin 18:7 megi teljast rökrétt og málefnaleg.

Dómari fellst ekki á að skipting sjálfsskuldarábyrgðar Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu vegna Fiskiræktarstöðvar Vesturlands geti haft áhrif á niðurstöðu í þessu máli.

Í málinu er ekki fram komið að uppi hafi verið í öndverðu aðrar hugmyndir um skiptingu eignaraðildar en sú sem stefnda heldur fram, þ.e. hlutfallið 18:7. Verður að telja að rétt sé það sem haldið er fram í greinargerð stefndu að engin bréfleg athugasemd hafi af hálfu stefnanda verið gerð við eignarskiptinguna fyrr en með bréfi hans til stefndu, dags. 28. apríl 1995. Þar segir m.a.: ,,Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu hefur frá upphafi litið svo á að eignarhlutur sýslnanna sé jafn þ.e. 12,5% komi í hlut hvorrar héraðsnefndar, enda verður ekki séð annað en að sýslunefndirnar hafi verið gerðar ábyrgar í heild sinni á sínum tíma.” Þessu áliti stefnanda hefur ekki verið fundinn staður.  Athuga ber í þessu sambandi að um var að ræða skiptingu á 25% eignarhluta í Grundartangahöfn milli Mýrasýslu vegna 8 hreppa og Borgarfjarðarsýslu vegna 5 hreppa norðan Skarðsheiðar. Fjórir hreppar Borgarfjarðarsýslu sunnan Skarðsheiðar fengu í sinn hlut 40% eignarinnar, 10% hver. Vitnið Eyjólfur Torfi Geirsson var formaður stefndu frá stofnun 1989 til 1994. Hann bar að skipting eignaraðildar sýslnanna í Grundartangahöfn hefði aldrei komið til umfjöllunar í Héraðsnefnd Mýrasýslu meðan hann var formaður. Sér virtist sem svo hefði verið litið á að þeirri eign væri búið að skipta.

Þegar dómari virðir í heild atvik máls eins og þau hafa verið upplýst í þessu máli, virðist honum að fram séu komnar veigamiklar vísbendingar um að skipting sameiginlegs eignarhluta aðila í Grundartangahöfn hafi átt að vera sú sem stefnda heldur fram. Í ljós er leitt að á árinu 1975 hefur farið fram víðtæk umræða og samráð forystumanna hreppanna í Mýrasýslu og í Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar um það að skipting 25% eignarhluta sýslnanna vegna þessara hreppa í Grundartangahöfn skyldi vera Mýrasýsla 18% og Borgafjarðarsýsla 7%. Hinni óskiptu sameign verður því ekki að mati dómara skipt til helminga á grundvelli þess að engar vísbendingar séu um það hvernig skiptingin hafi átt að vera. Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í þessu máli.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Mál þetta sótti af hálfu stefnanda Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., en Sigurbjörn Magnússon hrl. hélt uppi vörnum fyrir stefndu.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefnda, Héraðsnefnd Mýrasýslu vegna Borgarbyggðar og Hvítársíðuhrepps, á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Héraðsnefndar Borgarfjarðarsýslu vegna Borgarfjarðarsveitar og Skorradalshrepps, í þessu máli.

Málskostnaður fellur niður.