Hæstiréttur íslands

Mál nr. 58/2001


Lykilorð

  • Húsaleigusamningur


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. júní 2001.

Nr. 58/2001.

Kjartan Ólafsson og

Magnea Guðmundsdóttir

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Gylfi Thorlacius hrl.)

 

Húsaleigusamningur.

R rifti leigusamningi um fasteign við K og M vegna vanefnda þeirra á greiðslu leigugjalds. Krafði R þau K og M um eftirstöðvar leigugjaldsins og bætur vegna skemmda á húsnæðinu. K og M kröfðust skuldajafnaðar vegna endurbóta sem þau höfðu gert á húsnæðinu. R fullnægði ekki þeirri skyldu sinni að gefa K og M kost á að vera viðstödd úttekt á íbúðinni og setti ekki fram bótakröfu fyrr en 8 mánuðum eftir að að íbúðinni var skilað. Vegna þessara annmarka á framgöngu R var bótakrafa hans ekki tekin til greina. Ekki var fallist á kröfu K og M um skuldajöfnuð þar sem ekki hafði verið samið sérstaklega um að R tæki þátt í kostnaði vegna endurbótanna að leigutíma loknum og óvíst var að endurbæturnar hefðu aukið verðgildi fasteignarinnar. Voru þau K og M dæmd til að greiða eftirstöðvar leigugjaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2001. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með samningi 8. september 1997 seldi húsnæðisnefnd stefnda áfrýjendum á leigu íbúð í fjöleignarhúsi að Veghúsum 31 í Reykjavík. Fyrirsögn samningsins er „Leigusamningur með kauprétti“ og kemur fram í 1. gr. hans að um sé að ræða félagslega kaupleiguíbúð. Þar er þess einnig getið að um samninginn gildi ákvæði laga um Húsnæðisstofnun ríkisins á hverjum tíma, reglugerðir, sem settar séu með heimild í þeim, og húsaleigulög nr. 36/1994. Kveðast áfrýjendur hafa búið í íbúðinni allt frá 1991 er þau gerðu fyrst leigusamning við húsnæðisnefnd stefnda. Nýr leigusamningur var gerður 1995 og skilmálum nokkuð breytt. Áfrýjendur vanefndu greiðslu leigugjalds, sem leiddi til þess að stefndi rifti samningnum og krafðist þess að þau yrðu borin út úr íbúðinni. Ágreiningur aðila í það sinn var jafnaður og í kjölfarið breytt leiguskilmálum með áðurnefndum samningi 8. september 1997.

Áfrýjendur greiddu hvorki húsaleigu né húsfélagsgjöld fyrir desember 1998 og janúar 1999. Kveðast þau hafa sagt upp leigusamningnum með bréfi 15. janúar 1999, sem stefndi kannast ekki við að hafa fengið. Óumdeilt er hins vegar að áfrýjendur sendu stefnda uppsagnarbréf 2. febrúar sama árs. Áfrýjendur greiddu húsaleigu og húsfélagsgjöld fyrir febrúar 1999 hinn 5. sama mánaðar, en hvorki greiddu þau fyrir mars né apríl. Vegna vanskila áfrýjenda rifti stefndi leigusamningnum með bréfi, sem hinum fyrrnefndu var birt 19. mars 1999. Skiluðu þau lyklum að íbúðinni í afgreiðslu stefnda 19. apríl sama árs. Málsatvikum, sem lúta að samskiptum aðilanna á þessum tíma, er nánar lýst í héraðsdómi.

Með héraðsdómsstefnu krafðist stefndi þess að áfrýjendur greiddu húsaleigu og húsfélagsgjöld fyrir desember 1998 til apríl 1999 að báðum mánuðum meðtöldum með 221.073 krónum. Áfrýjendur hafa sýnt fram á að þau greiddu fyrir febrúar 1999 með 44.075 krónum. Mismuninn, 176.998 krónur, ber þeim að greiða stefnda svo sem nánar verður gerð grein fyrir í IV. kafla hér á eftir.

II.

Stefndi krefur áfrýjendur í annan stað um greiðslu á kostnaði vegna viðgerða á hinni leigðu íbúð. Reisir hann kröfuna á úttekt, sem gerð var á hans vegum 3. maí 1999, en þá var við athugun á íbúðinni fært inn á staðlað eyðublað stefnda að viðgerða væri þörf í allmörgum nánar tilgreindum atriðum, samtals að fjárhæð 535.000 krónur. Eftir að viðgerðum var lokið var fyrri úttekt endurskoðuð og sama eyðublað fyllt út að nýju 3. nóvember 1999, þar sem heildarkostnaður var talinn vera 470.544 krónur. Krefur stefndi áfrýjendur um þá fjárhæð í málinu. Hin síðarnefndu mótmæla greiðsluskyldu með vísan til þess að þau hafi engan hlut átt að áðurnefndri úttekt og ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna. Krafa stefnda sé auk þess of seint fram borin, en samkvæmt 64. gr. húsaleigulaga verði leigusali að lýsa bótakröfu sinni á hendur leigutaka eða hafa uppi áskilnað um hana innan tveggja mánaða frá því húsnæði var skilað. Stefndi hafi engan reka gert að því að fylgja eftir kröfu sinni fyrr en við höfðun málsins tæpum átta mánuðum eftir að lyklum að íbúðinni var skilað.

Við aðalmeðferð málsins í héraði gaf skýrslu Rafn Guðmundsson, deildarstjóri hjá húsnæðisnefnd stefnda. Kom fram hjá honum að áfrýjendur hafi skilað lyklunum í afgreiðslu stefnda 19. apríl 1999 án þess að gera þar frekar vart við sig og án þess að skilja eftir nýtt heimilisfang. Var hann sérstaklega spurður um hvort venja sé hjá húsnæðisnefnd stefnda að hafa samband við leigjendur þegar þeir skila íbúð og úttekt fer fram. Svar hans var: „Venjan er sú að reyna að fá leigjendur til að vera með þegar íbúðirnar eru teknar út, en þegar leigjandi skilar lyklum þá höfum við litið þannig á að leigjandi sé búinn að gera það fyrir íbúðina sem hann ætlar sér að gera plús það að við höfum lent í vandræðum og yfirleitt verið vonlaust að ná sambandi við leigjendurna þar sem þeir hafa hvorki skilið eftir heimilisfang né símanúmer, þannig að það hefur ekki verið venja að kalla til leigjanda ef hann skilar lyklum“. Nánar aðspurt mundi vitnið ekki hvort reynt hafi verið í þessu tilviki að hafa samband við leigjendur vegna úttektar á íbúð, en taldi þó að það hafi ekki verið reynt þar eð lyklum hafði verið skilað.

Samkvæmt 68. gr. húsaleigulaga ber leigjanda áður en hann flytur úr húsnæði að gefa leigusala upp heimilisfang, þar sem leigusali getur komið erindum og tilkynningum til leigutakans, þar með töldum tilkynningum samkvæmt 64. gr. sömu laga. Þessari skyldu brugðust áfrýjendur. Úttekt á íbúðinni varðaði hins vegar ríka hagsmuni þeirra, svo sem stefnda mátti vera fullljóst. Var honum þegar af þeirri ástæðu skylt að kanna hvort ná mætti sambandi við áfrýjendur, svo sem með því að leita í þjóðskrá, en áfrýjandinn Magnea staðhæfði í skýrslu sinni fyrir dómi að þau hafi tilkynnt um breytt lögheimili þegar eftir að þau fluttu frá Veghúsum 31 að Hjarðarhaga 44 í Reykjavík. Stefndi aðhafðist ekkert til að áfrýjendur mættu gæta hagsmuna sinna og lýsti síðan bótakröfu vegna viðgerðanna á hendur þeim löngu eftir að liðinn var frestur samkvæmt 64. gr. húsaleigulaga svo sem áður er getið. Að öllu þessu virtu getur það eitt ekki ráðið úrslitum að áfrýjendur gáfu ekki upp nýtt heimilisfang hjá stefnda, eins og þeim bar. Eru slíkir annmarkar á framgöngu stefnda í skiptum við áfrýjendur að því er varðar úttekt á íbúðinni að bótakafa, sem á þessum grunni er reist, verður ekki tekin til greina.

III.

Áfrýjendur krefjast þess að endurbætur, sem þau hafi gert á íbúðinni, komi til frádráttar skuld við stefnda. Hafi þau að fenginni heimild nafngreinds skrifstofustjóra stefnda ráðist í það 1995 að bæta við herbergi í íbúðinni með því að koma fyrir milliveggjum og þannig aukið verðgildi hennar í þágu stefnda. Á sama ári og hinu næsta hafi þau málað alla íbúðina og jafnframt þurft að standa straum af kostnaði við viðgerð á henni vegna vatnsleka frá efri hæð. Þetta hafi einnig aukið verðgildi íbúðarinnar og beri að taka tillit til alls þessa við uppgjör aðilanna við lok leigusamnings, en kostnaðurinn nemi samtals 272.800 krónum.

Samkvæmt 28. gr. húsaleigulaga er leigjanda óheimilt að gera breytingar eða endurbætur á hinu leigða húsnæði eða búnaði þess nema að fengnu samþykki leigusala og gerðu samkomulagi um skiptingu kostnaðar og hvernig með skuli fara að leigutíma loknum. Að öðrum kosti eignast leigusalinn endurbæturnar án sérstaks endurgjalds við lok leigutímans.

Í bréfi stefnda til áfrýjenda 7. janúar 2000 var staðfest að heimilað hefði verið að áfrýjendur breyttu íbúðinni á eigin kostnað með því að fjölga herbergjum. Engin fyrirheit hafi hins vegar verið gefin um að stefndi tæki þátt í þessum kostnaði við leigulok. Auk þess sé alls óvíst að verðmæti íbúðarinnar hafi aukist með herbergi til bráðabirgða, enda rýri herbergið stofurými íbúðarinnar.

Að virtu því, sem að framan er rakið, eru ekki fyrir hendi skilyrði samkvæmt húsaleigulögum til að taka kröfu áfrýjenda um skuldajöfnuð vegna kostnaðar við gerð aukaherbergis til greina. Þá hefur ekki verið stutt haldbærum rökum að gerð þess eða aðrar tilgreindar framkvæmdir áfrýjenda hafi verið til þess fallnar að auka verðmæti íbúðarinnar þegar kom að lokum samningssambands aðilanna 1999. Kröfu áfrýjenda um skuldajöfnuð, sem reist er á þessari ástæðu, er því hafnað.

IV.

Við gerð leigusamningsins 1997 lögðu áfrýjendur fram 118.650 krónur til tryggingar efndum þeirra á samningnum. Við meðferð málsins er fram komið af hálfu stefnda að hann hafi varðveitt féð á verðtryggðum bankareikningi. Tók hann alla innstæðuna til sín í nóvember 1999 upp í skuld áfrýjenda, en innstæðan nam þá 131.433 krónum.

Samkvæmt leigusamningi aðilanna átti stefndi þess kost að ganga að tryggingarfénu jafnharðan og vanskil urðu af hálfu viðsemjenda hans. Við úrlausn um skuldaskil milli þeirra verður því öll inneign áfrýjenda í nóvember 1999 látin ganga upp í skuld vegna húsaleigu og húsfélagsgjalda eftir því sem hún varð til, en ekki liggur fyrir hve hárri fjárhæð inneignin nam í byrjun árs 1999. Samkvæmt því telst skuld vegna desember 1998 og janúar 1999 að fullu greidd, en eftir stendur hluti skuldar fyrir mars 1999 að fjárhæð 1.226 krónur. Öll húsaleiga og húsfélagsgjöld fyrir apríl sama árs, 44.339 krónur, er ógreidd. Verður áfrýjendum samkvæmt því gert að greiða stefndu samtals 45.565 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar segir í dómsorði.

Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti, en ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Kjartan Ólafsson og Magnea Guðmundsdóttir, greiði óskipt stefnda, Reykjavíkurborg, 45.565 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.226 krónum frá 1. apríl 1999 til 1. maí sama árs, en af 45.565 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, vegna Húsnæðisnefndar Reykjavíkur, kt. 580475-0199, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík, á hendur Kjartani Ólafssyni, kt. 080749-3849, og Magneu Guðmundsdóttur, kt. 020951-2659, Hjarðarhaga 44, Reykjavík, með stefnu sem birt var 14. desember 1999.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða húsaleiguskuld að fjárhæð 647.542 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 44.198 krónum frá 1. desember 1998 til 1. janúar 1999, en þá af 88.273 krónum frá 1. janúar 1999 til 1. febrúar 1999, en þá af 132.555 krónum frá 1. febrúar 1999 til 5. febrúar 1999, en þá af 88.480 krónum frá 5. febrúar 1999 til 1. mars 1999, en þá af 132.659 krónum frá 1. mars 1999 til 1. apríl 1999, en þá af 176.998 krónum frá 1. apríl 1999 til 8. nóvember 1999, en þá af 647.542 krónum til greiðsludags.  Allt að frádregnu tryggingarfé sem stefnandi hefur haldið samkvæmt leigusamningi að upphæð 131.433 krónum miðað við 10. október 1999.  Þá er þess krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað, þ.m.t. útlagðan kostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

Stefndu krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda en til vara er þess krafist að dómkröfur verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndu verði tildæmdur málskostnaður eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en með bréfi dómsmálaráðherra 14. mars sl. var stefndu veitt gjafsókn við rekstur málsins fyrir héraðsdómi.

I.

Af hálfu stefnanda eru málavextir raktir með eftirgreindum hætti:  Stefndu leigðu íbúð 0306 í húsinu númer 31 við Veghús í Reykjavík með leigusamningi, dags. 1. september 1997.  Leigugjald var 39.550 krónur sem greiðast átti mánaðarlega til leigusala, sbr. 7. gr. leigusamningsins.  Samkvæmt 6. gr. leigusamningsins skyldi leigutaki greiða rekstrarkostnað af íbúðinni, þ.m.t. kostnað vegna húsfélags.  Stefndu greiddu ekki leigu fyrir desember 1998 og janúar, febrúar, mars og apríl 1999, né heldur húsfélagsgjöld á sama tímabili, en þau varð stefnandi að greiða fyrir stefndu.  Stefndu var sent innheimtubréf 22. febrúar 1999 þar sem þau voru krafin um greiðslu skulda og þau vöruð við þeim áhrifum sem frekari vanskil gætu haft.  Stefnandi rifti leigusamningi við stefndu í bréfi, dags. 8. mars 1999, sem þeim var birt með votti þann 19. mars s.á.  Stefndu skiluðu lyklum að íbúðinni til stefnanda þann 19. apríl 1999.  Þann 3. maí 1999 var íbúðin tekin út á vegum stefnanda og kom þá í ljós að íbúðin þarfnaðist verulegra viðgerða.  Viðgerðarkostnaður samkvæmt reikningum reyndist vera  470.544 krónur.

Þá kveðst stefnandi byggja á fimm reikningum á stefndu vegna leiguskuldar og húsfélagsgjalds:

1.Gjalddagi 1/12/1998kr.44.198,-

2.Gjalddagi 1/01/1999kr.44.075,-

3.Gjalddagi 1/02/1999kr.44.282,-

4.Gjalddagi 1/03/1999kr.44.179,-

5.Gjalddagi 1/04/1999kr.44.339,- 

Samtalskr.221.073,-

Stefndu segja að upphaf þessa máls megi rekja til þess að á árinu 1991 hafi þau tekið á leigu íbúð í húsinu nr. 31 við Veghús í Reykjavík (íbúð 0306) af Húsnæðisnefnd Reykjavíkur.  Upphaflega hafi íbúðin verið í almennri kaupleigu en frá ársbyrjun 1995 hafi skilmálum leigumálans verið breytt í félagslega kaupleigu.  Með samningi, dags. 8 september 1997, hafi aðilar gert með sér leigusamning með kauprétti um sömu íbúð.

Hinn 15. janúar 1999 segjast stefndu hafa sagt upp leigusamningi aðila frá l. apríl 1999 að telja.  Þegar uppsögn þessi hafi verið send hafi stefndu átt ógreidda leigu til stefnanda vegna desember 1998 og janúar 1999.  Þess beri að geta í þessu sambandi að stefndu höfðu haft leigusamning við stefnanda um leigu íbúðar, allt frá ársbyrjun 1995 og hafi allar greiðslur farið í gegnum greiðsluþjónustu hjá Landsbanka Íslands og hafi ávallt verið staðið við greiðslur á umsömdum tíma.

Í samtölum stefndu við fulltrúa stefnanda, eftir að stefndu höfðu sagt upp leigusamningnum, eins og vikið var að, segja stefndu að m.a. hefði komið fram að tryggingarfé 118.650 krónur, sem stefndu höfðu greitt stefnanda við undirritun/endurnýjun leigusamnings í september 1997, auk fjármuna, sem stefndu höfðu lagt í íbúðina m.a. vegna vinnu og efniskostnaðar við lagfæringar og endurbætur á íbúðinni þ. á m. allan kostnað stefndu við að útbúa aukaherbergi í íbúðinni, væri langt umfram það sem samsvaraði fjögurra mánaða leigu (þ.e. des. 1998 og jan. til mars 1999).

Í samtölum stefndu við fulltrúa stefnanda um mánaðamót jan./feb. 1999 segja stefndu að m.a. hefði komið fram að uppsagnarbréf stefndu frá því 15. janúar 1999 hafi glatast hjá stefnanda og hafi orðið að samkomulagi að stefndu sendu stefnanda annað/nýtt uppsagnarbréf, sama efnis, dags. 2. febrúar 1999.

Hinn 1. apríl 1999 segjast stefndu hafa tilkynnt fulltrúa stefnanda að afhending íbúðarinnar tefðist til 15. apríl 1999, m.a. vegna viðgerða og endurbóta á íbúð, sem stefndu höfðu fest kaup á að Hjarðarhaga nr. 44 í Reykjavík og 19. s.m. hafi stefndi, Kjartan, mælt sér mót við starfsmann stefnanda kl. 12.00 á hádegi í íbúðinni nr. 31 við Veghús í Reykjavík (0306) m.a. með það fyrir augum að skoða og yfirfara íbúðina og afhenda/skila lyklum að íbúðinni. Enginn hafi mætti frá stefnanda og hafi stefndu skilað lyklum íbúðarinnar á skrifstofu stefnanda að Suðurlandsbraut nr. 30 í Reykjavík kl. 14.30 sama dag.  Eftir að stefndu höfðu í tvígang sagt upp leigusamningi aðila hafi stefnandi sent stefndu riftunarbréf dags. 8. mars 1999 en greiðsluáskorun, er þar sé getið, sé ekki að finna í gögnum málsins.

Eftir að lyklum íbúðarinnar hafi verið skilað 28. apríl 1999 segja stefndu að fulltrúi stefnanda hafi haft samband við þau og innt þau eftir því „hvort haldið hafi verið partý í íbúðinni" áður en íbúðin var afhent.  Stefndu segjast hins vegar hafa lagt metnað sinn í það ásamt ættingjum og vinum að þrífa íbúðina hátt og lágt áður en hún var afhent.  Hafi þau því farið að grennslast fyrir um það hjá fyrrum nágrönnum sínum að Veghúsum nr. 31 hverju þetta sætti.  Hafi þeim verið tjáð að altal væri, að brotist hefði verið inn í íbúðina eftir að stefndu höfðu afhent hana 19. apríl 1999.

Eftir að stefndu höfðu afhent lyklana að íbúðinni segja stefndu að það hafi jafnframt verið rætt milli stefndu og fulltrúa stefnanda, að stefnandi tæki það að sér að reikna út mismun á því, sem var ógreitt af leigunni annars vegar, og tryggingarfénu og þeim fjármunum, sem stefndu höfðu lagt í íbúðina hins vegar.  Komið hafi m.a. fram í þessum viðræðum að sennilegast stæðu málin þannig að stefnandi stæði í skuld við stefndu.  Því hafi það komið sem þruma úr heiðskíru lofti er stefndu móttóku stefnu vegna þessa máls og þau krafin um „húsaleiguskuld" að fjárhæð 691.617 krónur svo sem dómkröfur kveða á um.  Í þessu sambandi sé það áréttað að stefndu hafi ekkert heyrt frá stefndu frá því um mánaðamótin apríl/maí 1999, þar til þeim hafi verið birt stefnan í máli þessu - hvorki í formi símtals, greiðsluáskorunar né innheimtubréfs.

Í bréfi stefndu til Húsnæðisstofnunar ríkisins og Byggingarsjóðs ríkisins, dags. 22. nóvember 1998, sem er umsókn þeirra um sérstakt lán til einstaklinga með sérþarfir, komi glöggt fram að stefndu hafa mátt þola gífurlegan andbyr í lífinu, sem m.a. hefur gengið nærri andlegri og líkamlegri heilsu þeirra og leitt m.a. til þess að þau hafa mátt glíma við mikla fjárhagslega erfiðleika.  Margvíslegt mótlæti stefndu hefur sett sitt mark á þau en ekki bugað þau og því síður gert þau að vanskilafólki.

Í bréfi stefndu til Guðrúnar Erlu Geirsdóttur, skrifstofustjóra stefnanda, dags. 3. janúar 2000, segjast stefndu hafa skýrt sjónarmið sín í máli þessu og farið þess á leit að mál þetta yrði fellt niður í ljósi allra aðstæðna.  Með bréfi Arnalds M. Bjarnasonar, framkvæmdastjóra stefnanda, hafi málaleitan stefndu verið hafnað og þau hvött til þess að mæta við þingfestingu málsins.

II.

Af hálfu stefnanda er því lýst að málshöfðun sé byggð á því að stefndu hafi vanefnt leigusamning þann sem gerður var milli aðila.  Stefndu hafi verulega vanefnt samninginn og hafa ekki orðið við áskorunum um að greiða.  Vanefndir stefndu feli í sér skýrt brot á reglum laga um efndaskyldur og skuldbindingargildi samninga.  Innheimtutilraunir hafa reynst árangurslausar og hefði stefnandi því ekki haft um aðra kosti að velja en höfða mál á hendur stefndu til innheimtu skuldarinnar.  Af hálfu stefnanda er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5. gr, 6. gr., og 28. gr. laga nr. 39/1922.  Gjalddagi kröfunnar sé einkum byggður á meginreglu 12. gr. sömu laga.  Um kröfu til bóta vegna skemmda á íbúð vísist til XIII. og XIV. kafla húsaleigulaga nr. 36/1994.

Á því er byggt af hálfu stefndu að þau standi ekki í skuld við stefnanda.  Eins og leigusamningurinn ber með sér sé íbúðin sögð vera 3 - 4 herbergja.  Um hafi verið að ræða þriggja herbergja íbúð.  Vegna aðstæðna stefndu hafi þau þurft að hafa fjögur herbergi.  Að höfðu samráði og með samþykki Guðrúnar Árnadóttur, skrifstofustjóra stefnanda, hafi stefndu staðið straum af kostnaði við gerð milliveggja vegna fjórða herbergisins, samtals 157.800 krónur,- sbr. staðfestingu Þórhalls Aðalsteinssonar kt. 160244-3059.  Stefndu hafi þannig aukið verðgildi íbúðarinnar í þágu leigusala sem ber að taka fullt tillit til við fjárhagslegt uppgjör aðila.  Þá hafi stefndu málað íbúðina á árinu 1995.  Kostnaður við það hefði numið 75.000 krónum sem beri að taka tillit til við uppgjör aðila.  Þá hafi stefndu þurft að standa straum af kostnaði við viðgerð á íbúðinni ( í febr. 1996) vegna vatnsleka frá efri hæð.  Múrviðgerð, málun, efni og vinna hafi numið samtals röskum 40.000 krónum sem svari til mánaðarleigu sem ber að taka tillit til við uppgjör aðila.  Við undirritun leigusamnings hafi stefndu greitt stefnanda 118.650 krónur sem samsvaraði þriggja mánaða leigu við upphaf leigutímans, sem ber að taka fullt tillit til við uppgjörið.

Leiða verður líkur að því að mati stefndu að stefnukröfur séu í raun tvíþættar.  Annars vegar sé um að ræða kröfur um „leiguskuld og húsfélagsgjald" samtals að fjárhæð 221.073 krónur og hins vegar bótakrafa vegna skemmda á íbúðinni, að fjárhæð 470.544 krónur eða samtals 691.617 krónur sem sé stefnufjárhæðin.  Segir síðan í greinargerð stefndu:

Bótakrafan byggir á mati á viðgerðarkostnaði dags. 3. maí 1999, (sic) sbr. skrá á dskj. nr. 2.  Tilvitnað mat liggur ekki fyrir í sóknargögnum en fylgir hjál. greinargerð þessari, sbr. dskj. nr. 19.  Skv. matinu er viðgerðarkostnaður kr. 535.000.-.

Á dskj. þetta, sem er form frá stefnanda ( nr. 99.070 ) dags. 3.5.1999 er íbúðin nr. 0306 í húsinu nr. 31 við Veghús tilgreind sem 3 herb.  Þar segir m.a.:

"Undirritaðir fulltrúar seljanda og kaupanda hafa náð samkomulagi um eftirfarandi greiðslur fyrir endurbætur sem gerðar hafa verið á íbúðinni eða nauðsynlegt er að framkvæma til að íbúðin geti talist í góðu ástandi."

Síðar segir :

"EFTIRTALDAR VIÐGERÐIR VERÐA FRAMKVÆMDAR:"

Málning              Allt, þ.m.t. gluggar (tilboð)115.000.-

Gólfefni              Bónleysa, bóna+viðgerðir  80.000.-

Innihurðir 160.000.-

Húnar og skrár   10.000.-

Eldhúsinnrétting  Laga innréttingu   20.000.-

Fataskápar            Körfur, lamir, yfirborð   20.000.-

Hreinlætistæki  Handlaug brotin   25.000.-

Blöndunartæki   15.000.-

Raflögn               Lok, tenglar, tengja   30.000.-

Akstur/rif og þrif   30.000.-

frystikista o.fl. drasl á svölum   30.000.-

Samtals kr.   535.000.-

Skv. dskj. 6, sem er sambærilegt form og að framan greinir (reyndar vantaði baksíðu formsins) en dags. 3.11.1999, eru boðaðar viðgerðir eftirfarandi:

Málning               Allt, þ.m.t. gluggar (tilboð)113.000.-

Gólfefni               Bónleysa, bóna +viðgerðir  79.191.-

Innihurðir160.000.-

Húnar og skrár  15.735.-

Eldhúsinnrétting   Laga innréttingu  20.000.-

Fataskápar            Körfur, lamir,yfirborð  19.000.-

Hreinlætistæki Handlaug brotin  25.000.-

Blöndunartæki  12.691.-

Raflögn                Lok, tenglar, tengja  11.532.-

Akstur/rif og þrif  14.395.-

Samtals kr.470.544.-

Við samanburð á dskj. nr. 6, sem er samantekt reikninga (sic) og dskj. nr. 17, sem er áætlun á viðgerðarkostnaði, kemur m.a. fram að fjárhæðir eftirgreindra liða eru þeir sömu ! Innihurðir, eldhúsinnrétting og hreinlætistæki þ.e. samtals að fjárhæð 205.000.- ­sem staðfestir að a.m.k. eru þessir kostnaðarliðir byggðir á áætlun (stefnanda).

Svo sem áður er vikið að voru stefndu ekki boðuð til þess að vera við úttekt á íbúðinni.  Bótakrafa stefnanda sem stefndu mótmæla ákveðið, er byggð á einhliða mati framkvæmdu af stefnanda eða aðilum sem stefnandi fékk til þess að framkvæma matið og er því ekki haldbær grundvöllur fyrir bótakröfum í málinu.

Leiða má að því líkur að í raun hafi verið unnar skemmdir á íbúðinni, eftir að stefndu höfðu afhent stefnanda lykla að íbúðinni þ.e. á þeim tíma sem stefnandi sjálfur bar ábyrgð á íbúðinni, þar sem viðgerðir og endurbætur á íbúðinni eru svo miklar sem stefnandi vill vera láta, en eru í engu rökrænu samhengi við íbúðina í því ásigkomulagi eins og stefndu skiluðu henni af sér.

Á því er byggt af hálfu stefndu að þær skemmdir sem voru á íbúðinni og stefnandi lét gera við og endurbæta voru ekki stefndu að kenna og verða ekki raktar til stefndu né aðila sem stefndu bera eða kunna að bera ábyrgð á.  M.ö.o. þá eru stefndu ekki bótaskyld vegna téðra skemmda þar sem þau hafa ekki valdið tjóni því sem stefnandi krefur stefndu fyrir í máli þessu þar sem þau hafa hvorki valdið því tjóni af ásetningi eða gáleysi né á ólögmætan hátt svo bótaskylt verði talið.

Á því er byggt af hálfu stefndu að stefnandi skuldi stefndu eftirfarandi

a.Kostnað við gerð fjórða herb.kr.157.800.-

b.Kostnað við málun íbúðarkr.75.000.-

c.Kostnað vegna viðgerðar á íb.kr.40.000.-

d.Tryggingarfékr.118.650.-

Samtals kr. 391.145.-

Stefndu gera þær dómkröfur að stefnandi greiði stefndu ofangreinda fjárhæð auk vaxta og krafa þessi höfð uppi til skuldajafnaðar í málinu, sbr. m.a. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Þórhallur Aðalsteinsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann staðfesti að hafa gefið þá yfirlýsingu sem fram kemur á dskj. nr. 15 í málinu og sagði m.a., að hann hefði unnið við gerð veggja, raflögn og málun fyrir stefndu í íbúð þeirri, sem hér um ræðir, en væri að vísu búinn að gleyma hvenær nákvæmlega hann stóð að þessu verki.  Hann sagði að við þetta verk hefði rými milli eldhúss og svalaglugga verið notað til að mynda nýtt herbergi.

Jóhann Guðmundsson kom fyrir dóm til skýrslugjafar.  Hann staðfesti nafnritun sína undir yfirlýsingu sem fram kemur á dskj. nr. 28 í málinu og sagði m.a., að hann hefði aðstoðað stefnda, Kjartan, við að mála íbúð Kjartans í ágúst 1995, og fleiri hefðu komið til að þrífa íbúðina á sama tíma.  Sjálfur hefði hann unnið við að mála og spartla alla íbúðina í hólf og gólf.  Hefði hann komið þangað nokkrum sinnum til að vinna að þessu.  Hann kvaðst aðspurður ekki muna hvaða litir voru notaðir.

Reynir Þór Friðþjófsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann staðfesti nafnritun sína undir yfirlýsingu sem fram kemur á dskj. nr. 27 í málinu og sagði m.a., að leki hefði komið í loft íbúðar stefndu, sem hann hefði aðstoðað stefndu við viðgerð á.  Hefði verið um að ræða skemmd á máluðum fleti í loftinu.  Þá hefði hann varið miklum tíma, hugsanlega milli 20 til 40 tímum, til að aðstoða stefndu við málun á íbúðinni í ágúst 1995.  Á þessum tíma hefði öll íbúðin verið máluð.  Hann sagði aðspurður að margir litir hefðu verið notaðir, þar hefði ríkt litagleði, eitt herbergið blátt, rauður veggur í stofunni, annað hefði verið hvítt og loftin hvít, gangurinn gulur og baðið grátt.  Rönd úr veggfóðri hefði verið sett í eldhúsi í hæð við stólbök.

Jens Hilmarsson kom fyrir dóminn sem vitni í málinu.  Hann staðfesti nafnritun sína 3. maí 1999, sem fram kemur á dskj. nr. 19, og sagði m.a. að hann hefði unnið þessa skýrslu og skoðað umrædda íbúð við annan mann, þegar hann vann skýrsluna [f.h. Húsnæðisnefndar Reykjavíkur].  Hann sagði að hluti af starfi hans hefði á þessum tíma verið að skoða íbúðir „sem komu inn".  Hann kvaðst aðspurður ekki hafa séð merki um innbrot í íbúðina þegar hann skoðaði hana og taldi, að hinar sérstöku læsingar er þar eru, tvílæstar með lykli, hafi gert það að verkum að það hefðu verið mjög litlar líkur á því að innbrot hefði farið fram hjá þeim báðum sem skoðuðu íbúðina.  Hann kvaðst aðspurður ekki vita hvenær lyklum af umræddri íbúð hafi verið skilað til stefnanda.  Hann sagði að skýrslan hafi verið unnin sem matsgerð, reikningar hafi ekki legið henni að baki.  Hann sagði að skýrslan tjái viðgerðir, sem þurfi að gera á íbúðinni áður enn nýir íbúar taki við henni, hér hljóti að vera um svokallaða úttekt á leiguhúsnæði að ræða.

Hann sagði að venja væri að kalla til fulltrúa leigusala annars vegar og hins vegar fulltrúa fyrrverandi og núverandi leigutaka þegar úttekt færi fram.  Hann kvaðst ekki vita í þessu tilviki, hvort stefndu hefðu verið kölluð til eða fulltrúar þeirra, og sagði, að hann hefði ekki haft það verkefni að boða aðila til að vera viðstadda úttekt.  Kvaðst hann einungis hafa fengið afhenta lykla af húsnæði sem honum hefði borið að skoða.  Hann kvaðst muna eftir að í þessu tilviki hafi - eins og oft hefði verið gert til að lækka áætlaðan viðgerðarkostnað íbúða - verið leitað tilboðs í að mála íbúðina.  Aðspurður, hvað af ætluðum kostnaði hafi verið til lagfæringar á íbúðinni og hvað til endurnýjunar, svaraði hann, að hurðir hefði ekki verið hægt að laga í þessu tilviki en alltaf væri reynt að laga hluti ef mögulegt væri.  Hann sagði að verklagið hefði verið að fá iðnaðarmenn á staðinn til að athuga hvort unnt væri að laga hlutina eða hvort þyrfti að skipta þeim út. 

Rafn Guðmundsson, deildarstjóri hjá endursöludeild Húsnæðisnefndar Reykjavíkur,  kom fyrir dóm til skýrslugjafar.  Lagt var fyrir Rafn dskj. nr. 5.  Staðfesti hann að hafa ritað nafn sitt undir skjalið.  Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa tekið við lyklum af íbúð þeirri, er hér um ræðir, úr hendi stefndu.  Kvaðst hann hafa fengið lyklana í hendur í gegnum „afgreiðsluna".  Hann sagði að ástæða þess að svo langur tími leið frá því að lyklum er skilað 19. apríl 1999 og þar til umrætt skjal er dagsett 3. nóvember sama ár væri sú, að þá er lyklum væri skilað, væri farið í að skoða og meta þær viðgerðir, sem þyrfti að gera á íbúðunum.  Síðan væru viðgerðir framkvæmdar.  Þetta tæki allt sinn tíma.  Síðan, sagði hann, að viðgerðum loknum og þegar nákvæmlega væri búið að fara yfir reikninga fyrir viðgerðinni og bera þá saman við áætlaðan kostnað, væri útbúið nýtt blað um viðgerðarkostnaðinn.

Lagt var fyrir Rafn dskj. nr. 19.  Hann var spurður hvort ekki væri venja að kalla leigjendur til þegar þeir skila íbúð og úttekt fer fram.  Hann sagði að venjan væri sú að fá leigjendur til að vera með þegar íbúðirnar eru „teknar út".  En þegar leigjandi skilar lyklum, þá hafi verið litið svo á, að leigjandinn væri búinn að gera það fyrir íbúðina, sem hann ætlaði sér að gera.  Þar að auki, sagði hann, að þeir hefðu lent í vandræðum að ná sambandi við leigjendurna þegar þeir hvorki skiluðu heimilisfangi né símanúmeri og yfirleitt væri það vonlaust.  Það hefði því ekki verið venja að kalla til leigjanda ef hann skilaði lyklum [án þess að gefa upp símanúmer eða heimilisfang]. 

Aðspurður kvaðst Rafn ekki muna, hvort reynt hefði verið að hafa samband við stefndu til að vera viðstödd, þegar mat var lagt á hvað gera þyrfti fyrir umrædda íbúð, eftir að leigutíma stefndu lauk.  Kvaðst hann halda að svo hafi ekki verið þar sem lyklum hafi verið skilað af stefndu í afgreiðsluna með þeim orðum, að hérna væru lyklarnir.  Þá hefði ekki verið leitað eftir návist þeirra við skoðun á íbúðinni.

Rafn kvaðst líta svo á að gerð sú, sem fram fór 3. maí 1999, sbr. dskj. nr. 19, hafi verið úttekt á viðkomandi íbúð skv. húsaleigulögum og venju, sem ríkti hjá Húsnæðisnefnd Reykjavíkur.  Rafn kvaðst aðspurður ekki vita hvenær bótakröfu í þessu máli var komið á framfæri við stefndu.

Magnea Guðmundsdóttir gaf aðilaskýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að Kjartan, meðstefndi í málinu, hafi alfarið tekið að sér að skila lyklum að íbúðinni um miðjan apríl 1999.  Hún sagði að þau hefðu ekki verið kvödd til þess að vera viðstödd úttekt á íbúðinni en beðið eftir að það væri gert.  Hún sagði að þau hefðu staðið að  gerð aukaherbergis í íbúðinni í rými svokallaðrar borðstofu, þá að mála alla íbúðina.  Hún kvaðst ekki muna hvað þetta kostaði en þetta hefði verið gert þegar hún og dóttir hennar voru erlendis.  Þær hefðu komið heim í íbúðina fulltilbúna.  Þær hefðu komið heim 19. ágúst 1995.  Hún sagði að Kjartan og Reynir hefðu síðar lagað loftið í baðherberginu vegna leka úr íbúð á hæðinni fyrir ofan.  Hún kvaðst ekki vita hvað það hefði kostað í peningum. 

Magnea sagði að þau hefðu ekki verið rukkuð um ógreidda húsaleigu áður en þau skiluðu lyklum að íbúðinni.  Á þeim tíma hefðu þau álitið að þau ættu frekar inni hjá húsnæðisnefndinni.  Þau hefðu greitt fyrir febrúarmánuð og ætlast til þess að það sem þau höfðu gert fyrir íbúðina yrði metið.  Þau hefðu síðan ekkert heyrt frá húsnæðisnefndinni fyrr en í byrjun ársins 2000 en þá hafi þau fengið bréf, sem sé stefnan í þessu máli.  Þau hefðu allan þennan tíma verið í Reykjavík, flutt beint úr íbúðinni að Veghúsum niður á Hjarðarhaga, flutt símann og skráð lögheimili þar.

Magnea sagði aðspurð að lyklum íbúðarinnar að Veghúsum hafi verið skilað beint í afgreiðslu hjá leigusala.  Hún sagði að tilefni þess að ráðist var í framkvæmdir við íbúðina í ágúst 1995 hafi verið að þau hefðu verið búin að vera utan lands með dóttur sína en hún hefði þurft að fá sérstakt herbergi út af sínum sjúkdómi.  Þá hefði þurft að þrífa íbúðina vel og vandlega þannig að allt væri „sterilíserað" þegar hún kæmi heim, því hún hefði verið svo „ónæmisbæld".  Allt hefði þurft að vera í góðu lagi.  Hefði þótt best að mála íbúðina og þrífa hana þannig.

Magnea sagði að upphaflega hafi þeim verið leigð fjögurra herbergja íbúð að Veghúsum en þegar þau fengu íbúðina afhenta þá hafi hún reynst vera þriggja herbergja.  Þeim hafi verið tilkynnt að þau mættu bæta við herbergi.  Gerð herbergisins hefði ekki verið tilkynnt af hálfu stefndu sérstaklega til leigusala.  Hún sagði að þessar framkvæmdir hefðu verið gerðar á tímabili eldri leigusamnings þeirra.  Hún sagði að eftir að þau hefðu skilað lyklum íbúðarinnar hefðu þau álitið sig í góðum málum varðandi viðskipti við stefnanda og hafi þau ákveðið, ef ekkert heyrðist frá stefnanda, að þá væri allt í lagi, og þó að þau ættu einhverjar krónur inni hjá húsnæðisnefndinni þá hafi þau verið svo fegin að vera laus við húsnæðisnefndina að þau hefðu talið að nefndin mætti hirða þessar krónur.  Hún sagði að Kjartan hefði skilað lyklunum og ekki geta sagt hvaða orð fóru þá í milli aðila.

Magnea sagði að þau hefðu upphaflega fengið íbúðina að Veghúsum til kaupleigu 1990 og hafi þau síðan verið leigutakar hjá stefnanda.  Hafi þau farið í  að leigja sömu íbúð 1997 en viðsemjandi þeirra hafi allan tímann verið sá sami. Aðspurð hvort uppgjör hafi farið fram milli aðila þegar leigusamningi var breytt 1997 sagði Magnea, að samningi hafi verið breytt 1997, úr kaupleigu yfir í félagslega kaupleigu, eftir að gengið hafi verið frá kröfum vegna eldri samnings.  Hún sagði að stefnandi hafi ekki á því tímabili sem stefndu leigðu íbúðina látið framkvæma viðgerðir eða málun á íbúðinni.

IV.

Niðurstaða:

Aðilar þessa máls gerðu með sér leigusamning með kauprétti um 119,19 fermetra íbúð, með þremur til fjórum herbergjum, að Veghúsum 31 hér í borg þann 8. september 1997.  Í fyrstu grein samningsins segir að hann sé leigusamningur um félagslega kaupleiguíbúð og um hann gildi ákvæði laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, eins og þau séu á hverjum tíma, og reglugerðir, sem settar séu á grunni þeirra, svo og húsaleigulög, nr. 36/1994, eftir því sem við eigi.  Ekki er þess getið í samningi þessum að stefndu hefðu áður verið leigjendur sömu íbúðar, búið þar í nokkur ár, aukið herbergi við með ákveðnum hætti, málað hana og „vegna vatnsleka frá efri hæð" lagfært íbúðina.  Enginn fyrirvari er í samningnum um að stefndu eigi inni hjá stefnanda vegna þessa.  Aðeins segir um ástand íbúðarinnar á þessum tíma, sbr. 4. gr. leigusamningsins, að leiguhúsnæðið skuli, þegar það er afhent leigjanda, vera í sambærilegu ástandi og gert sé ráð fyrir í leiðbeiningum um gæðalýsingu á félagslegu íbúðarhúsnæði, útgefnu af Húsnæðisstofnun ríkisins, og húsnæðinu skuli fylgja það fylgifé sem var til staðar við sýningu þess, sé ekki sérstaklega um annað samið.

Verður að ætla að hér eigi við það sem segir í 28. gr. húsaleigulaga: „Leigjanda er óheimilt að framkvæma breytingar eða endurbætur á hinu leigða húsnæði eða búnaði þess, nema að fengnu samþykki leigusala og gerðu samkomulagi um skiptingu kostnaðar og hvernig með skuli fara að leigutíma loknum.  Að öðrum kosti eignast leigusalinn endurbæturnar án sérstaks endurgjalds við lok leigutímans nema hann kjósi þá eða áður að krefjast þess að leigjandi komi hinu leigða í upphaflegt horf, ..." 

Samningurinn frá 8. september 1997 slær þannig striki yfir fyrri skipti aðila um íbúðina að Veghúsum 31.

Aðilar eru sammála um að stefndu hafi afhent stefnanda lykla að íbúðinni að Veghúsum 31 þann 19. apríl 1999.  Samkvæmt leigusamningi skyldi leigugjaldið innt af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum til leigusala 1. dag hvers mánaðar og greiða skyldi gjaldið fyrir fram, fyrir hvern mánuð fyrir sig.  Samkvæmt gögnum málsins greiddu stefndu ekki leigugjald fyrir desember 1998 og janúar 1999.  Leiga vegna febrúar 1999 var greidd 5. febrúar það ár.  Þá greiddu stefndu ekki leigugjald fyrir mars 1999 og apríl 1999.

Í 68. gr. húsaleigulaga segir að áður en leigjandi flytur úr húsnæðinu skuli hann gefa leigusala upp nýtt heimilisfang fyrir erindi og tilkynningar, er leigusali geti þurft að koma til hans, þ.m.t. tilkynning skv. 64. gr. sömu laga.  Af hálfu stefnanda er haldið fram að stefndu hafi ekki tilkynnt honum heimilisfang svo sem hér er mælt fyrir um.  Af hálfu stefndu er hins vegar byggt á því að stefnanda hafi verið kunnugt um nýtt heimilisfang þeirra.  Þau hefðu tilkynnt nýtt heimilisfang til Hagstofu Íslands.  Og þótt þau hefðu að vísu ekki bréflega tjáð stefnanda hvar þau væru búsett, þá hefði hann sannarlega mátt vita um það.

Álykta verður, skv. ótvíræðum orðum 68. gr. húsaleigulaga, að stefndu hafi ekki verið stætt á því að láta þess ekki getið beint við stefnanda, hvert hann ætti að leita til að koma tilkynningum til þeirra.  Hafi stefnandi því mátt láta ógert að kalla stefndu til að vera viðstödd úttekt á íbúðinni eftir að leigutíma stefndu lauk án þess að bótakrafa fyrndist innan tveggja mánaða frá skilum húsnæðisins né gildi úttektargerðar yrði vefengt þess vegna.  Þá hafa stefndu ekki sýnt fram á að kostnaður stefnanda við endurbætur á íbúðinni til að hún gæti talist í góðu ástandi, samtals að fjárhæð 470.544 krónur, sé úr hófi.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfu stefnanda um að stefndu greiði honum húsaleiguskuld ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 44.198 krónum frá 1. desember 1998 til 1. janúar 1999, en þá af 88.273 krónum frá 1. janúar 1999 til 1. febrúar 1999, en þá af 132.555 krónum frá 1. febrúar 1999 til 5. febrúar 1999, en þá af 88.480 krónum frá 5. febrúar 1999 til 1. mars 1999, en þá af 132.659 krónum frá 1. mars 1999 til 1. apríl 1999, en þá af 176.998 krónum frá 1. apríl 1999 til 14. desember 1999 en þá að viðbættri bótafjárhæð 470.544 krónum - samtals 647.542 krónum til greiðsludags, allt að frádregnum 131.433 krónum 10. október 1999.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin þóknun lögmanns stefndu, Sigmundar Hannessonar hrl., 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Kjartan Ólafsson og Magnea Guðmundsdóttir, greiði óskipt stefnanda, Reykjavíkurborg vegna Húsnæðisnefnda Reykjavíkur, 647.542 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 44.198 krónum frá 1. desember 1998 til 1. janúar 1999, en þá af 88.273 krónum frá 1. janúar 1999 til 1. febrúar 1999, en þá af 132.555 krónum frá 1. febrúar 1999 til 5. febrúar 1999, en þá af 88.480 krónum frá 5. febrúar 1999 til 1. mars 1999, en þá af 132.659 krónum frá 1. mars 1999 til 1. apríl 1999, en þá af 176.998 krónum frá 1. apríl 1999 til 14. desember 1999 en þá af 647.542 krónum frá 14. desember 1999 til greiðsludags, allt að frádregnum 131.433 krónum 10. október 1999.

 Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin þóknun lögmanns stefndu, Sigmundar Hannessonar hrl., 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.