Hæstiréttur íslands

Mál nr. 668/2006


Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot


         

Fimmtudaginn 14. júní 2007.

Nr. 668/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Arnari Theódórssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Fíkniefnalagabrot.

A var sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 691,88 grömmum af kókaíni til Íslands ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Fíkniefnin hafði A falið í tölvu sem hann flutti frá Orlando í Bandaríkjunum sem flugfarþegi en efnin fundust við leit í farangri hans á Keflavíkurflugvelli. A játaði brot sitt skýlaust. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.  

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst refsiþyngingar.

Ákærði krefst mildunar refsingar.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 26. mars 2006 til 7. apríl sama ár verður dregin frá refsingu hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en frádrátt gæsluvarðhaldsvistar ákærða, Arnars Theódórssonar, frá refsingu hans. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 26. mars 2006 til 7. apríl sama ár skal draga frá refsingu hans.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 261.777 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. október sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 22. maí 2006 á hendur Arnari Theódórssyni, kt. 300457-4369, Fellsmúla 17, Reykjavík, fyrir stórfellt fíkniefnabrot, með því að hafa sunnudaginn 26. mars 2006 staðið að ólögmætum innflutningi á 691,88 g af kókaíni til Íslands, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Fíkniefnin, sem ákærði hafði komið fyrir í járnkassa og falið í tölvu, flutti hann frá Orlando, sem farþegi með flugi FI-688 og fundu tollverðir efnin í tölvunni við leit í farangri ákærða við komu hans til Keflavíkurflugvallar.

Ákæruvaldið telur háttsemi þessa varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. lög nr. 32/2001.

Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og að ofangreint kókaín verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og einnig krefst verjandi ákærða þess að gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá frá 26. mars 2006 til 10. apríl 2006 komi til frádráttar refsingu. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málsatvik.

Samkvæmt skýrslu tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli frá 26. mars 2006 kom ákærði til landsins 26. mars 2006 um kl. 07.15. Farangur hans var gegnumlýstur og kom í ljós að í tösku hans var meðal annars turntölva. Við gegnumlýsingu tölvunnar kom ekkert athugavert í ljós, en við ítarlega skoðun á tölvukassanum kom í ljós límmiði. Þegar límmiðinn var losaður frá og tölvukassinn var opnaður kom í ljós einkennilegur frágangur á hörðum diski tölvunnar. Þegar ákærði var spurður að því hvers vegna frágangi væri svona háttað, kvaðst hann ekki vita það. Við gegnumlýsingu á harða diskinum kom í ljós að hann virtist innihalda tvær pakkningar. Þegar hér var komið sögu var haft samband við fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og kom lögregla þá á staðinn og handtók ákærða. Kvað þá ákærði að í harða diskinum væru um 500 g af kókaíni. Í frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 26. mars 2006 kemur fram að ákærði hafi sagt lögreglu að hann ætti efnið sjálfur. Efnið reyndist vera í 4 pakkningum, samtals 691,88 g af kókaíni, og reyndist vera um sterkt efni að ræða, þar sem magn kókaíns í efninu var á bilinu 80% til 83%, sem samsvaraði kókaínklóríðí á bilinu 90% til 93%.

Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald og  sat í gæsluvarðhaldi frá 26. mars 2006 til 10. apríl 2006.

Ákærði játaði sök við þingfestingu máls þessa. Hann bar fyrir dómi að tildrög þess að hann flutti efnin til landsins hefðu verið þau að á þeim tíma hefði hann búið í Orlando og þekkt þar Íslending. Ákærði hefði verið hjá þessum Íslendingi kvöld eitt og hafi komið þangað maður sem hafi spurt ákærða að því hvort ákærði gæti fundið einhverja aðila sem gætu komið manninum í tengsl við einhvern sem gæti selt honum fíkniefni. Ákærði kvaðst hafa vitað af mönnum þarna úti sem gætu það og hafi maðurinn sagt ákærða síðar að hann hefði komist í samband við menn þessa og greitt þeim 50.000 dollara fyrir fíkniefni sem hann aldrei fékk. Maðurinn hafi staðið í þeirri trú að ákærði hefði staðið á bak við það að hann fékk aldrei fíkniefnin í hendur og hafi ákærði í kjölfarið sætt hótunum, meðal annars varðandi börnin sín. Síðar hefði komið til hans maður sem hefði sagt að til þess að losna út úr þessu máli þyrfti ákærði að ná í fíkniefni til Miami og koma þeim heim. Maðurinn hefði látið ákærða fá peninga. Ákærði kvaðst ekki hafa átt að fá neitt greitt fyrir að flytja efnin, en kvaðst hafa gert ráð fyrir að þau væru ætluð til söludreifingar hérlendis.

Ákærði kvaðst vera bifvélavirkjameistari og reka verkstæði í dag. Þá kvaðst ákærði hvorki neyta áfengis né fíkniefna. Hann kvaðst eiga eiginkonu og börn sem hann umgangist mikið.

Niðurstaða.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með gögnum málsins að ákærði hefur gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og er brot ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann á árinu 1999 undir greiðslu 100.000 króna sektar með viðurlagaákvörðun, vegna brots gegn 1. mgr. 123., sbr. 124. gr. tollalaga, en önnur brot hefur ákærði ekki gerst sekur um, svo vitað sé.

Ákærði flutti hingað til lands verulegt magn kókaíns sem ákærði vissi að ætlað var til söludreifingar hérlendis. Beindist brot ákærða þannig að mikilsverðum hagsmunum og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var styrkleiki efnisins mikill. Horfir þetta allt til refsiþyngingar, sbr. 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Til refsilækkunar ber að horfa til þess að ákærði játaði brot sitt hreinskilnislega og hefur ekki annað komið fram í málinu en að þáttur ákærða hafi einungis lotið að því að búa um efnið ytra og flytja það til landsins. 

Þegar framangreint er virt og með hliðsjón af dómvenju í sambærilegum málum er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en vegna alvarleika brotsins þykja ekki skilyrði til skilorðsbindingar að neinu leyti. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsingunni með fullri dagatölu gæsluvarðhald, sem ákærði hefur sætt vegna málsins frá 26. mars 2006 til 10. apríl 2006.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 skal ákærði sæta upptöku á 691,88 g af kókaíni.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað, 724.575 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns, 70.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Daði Kristjánsson flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Arnar Theódórsson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en frá refsingu ákærða dregst gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 26. mars 2006 til 10. apríl 2006 með fullri dagatölu.

Ákærði sæti upptöku á 691,88 g af kókaíni.

Ákærði greiði sakarkostnað málsins, 724.575 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns, 70.400 krónur.