Hæstiréttur íslands

Mál nr. 155/2000


Lykilorð

  • Veiðileyfi
  • Kaupsamningur
  • Ógilding


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. desember 2000.

Nr. 155/2000.

SR-Mjöl hf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Fiskiðjunni Skagfirðingi hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Veiðileyfi. Kaupsamningur. Ógilding að hluta.

S og F gerðu með sér kaupsamning í nóvember 1998, þar sem S keypti af F veiðileyfi skips, en aflahlutdeild og aflamark fylgdu ekki með í kaupunum. Kaupverðið átti S að greiða með tveimur jafn háum greiðslum 1. desember 1998 og 1. mars 1999 og afhenda átti hið selda 1. apríl 1999. Samhliða fyrri greiðslunni var þinglýst yfirlýsingu á skipið um eignarrétt S á veiðileyfinu, en þegar síðari greiðslan færi fram átti að afhenda beiðni til Fiskistofu um varanlegan flutning veiðileyfisins. Vegna breytinga á lögum um stjórn fiskveiða, sem gerðar voru í ársbyrjun 1999 í kjölfar dóms Hæstaréttar 3. desember 1998, varð veiðileyfið verðlaust og engir hagsmunir tengdir afhendingu þess. S sendi bréf til F 10. desember þar sem fram kom að hann teldi forsendur fyrir viðskiptunum brostnar og að samningur S og F væri ógildur. Jafnframt krafðist hann endurgreiðslu á fyrri greiðslu samkvæmt samningnum. F hafnaði endurgreiðslukröfunni og höfðaði S þá mál þetta. Aðalkrafa S um staðfestingu riftunar á grundvelli bréfs frá 10. desember var ekki tekin til greina, en fallist var á niðurstöðu héraðsdóms um að umrætt bréf gæti ekki talist riftunarbréf. Þá var fallist á niðurstöðu héraðsdómara um að hafna varakröfu S um riftun samningsins með vísan til laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Hins vegar var, með vísan til 1. mgr., sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, talið að víkja ætti kaupsamningi S og F til hliðar að því er varðaði þann hluta hans, sem ekki hafði verið efndur, en með vísan til sanngirnissjónarmiða þótti rétt að S og F bæru sameiginlega halla af þeim ófyrirsjáanlegu breytingum, sem urðu eftir samningsgerðina og hvorugur aðila réði neinu um. Var F því sýknað af endurgreiðslukröfu S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. apríl 2000 og krefst þess aðallega að staðfest verði riftun hans 10. desember 1998 á kaupsamningi milli hans og stefnda 25. nóvember 1998. Til vara krefst hann þess að fyrrgreindum samningi verði rift með dómi, en til þrautavara að hann verði dæmdur ógildur og óskuldbindandi fyrir sig. Í öllum tilvikum krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða sér 60.165.000 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til 10. janúar 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi gerðu aðilar máls þessa með sér kaupsamning 25. nóvember 1998, en samkvæmt honum keypti áfrýjandi af stefnda, með vísan til laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, veiðileyfi Skagfirðings SK-4 ásamt endurnýjunarrétti þess og öllum réttindum, sem því fylgdu. Hvorki aflahlutdeild né aflamark fylgdu með í kaupunum og átti seljandi að njóta veiðireynslu í fiskitegundum, sem við samningsgerðina sættu ekki takmörkun á leyfilegum hámarksafla fram að flutningi veiðileyfisins frá skipinu. Kaupverðið, 120.330.000 krónur, átti kaupandi að greiða með tveimur jafnháum greiðslum, 60.165.000 krónum, 1. desember 1998 og 1. mars 1999. Hið selda átti að afhenda 1. apríl 1999, en samtímis því að fyrri hluti kaupverðsins greiddist, skyldi þinglýsa yfirlýsingu á skipið um eignarrétt áfrýjanda að veiðileyfinu. Þegar síðari greiðslan færi fram átti stefndi að afhenda áfrýjanda beiðni til Fiskistofu um varanlegan flutning veiðileyfisins til þess eða þeirra skipa, sem áfrýjandi kysi. Ef hann yrði ekki tilbúinn til að flytja veiðileyfið frá skipinu 1. apríl 1999 skyldi honum heimilt að hafa það á skipinu eins lengi og hann óskaði, enda greiddi hann kostnað, sem af því hlytist. Stefnda skyldi heimilt að nýta veiðileyfið án endurgjalds þar til áfrýjandi flytti það frá skipinu. Að lokum segir í samningnum að hann skoðist sem afsal fyrir hinu selda þegar kaupverðið hafi verið greitt .

Í samræmi við ákvæði kaupsamningsins undirritaði stjórn stefnda sama dag yfirlýsingu um eignarrétt á veiðileyfi umrædds skips. Segir þar að veiðileyfið og endurnýjunarréttur sé að öllu leyti eign áfrýjanda og óheimilt sé að veðsetja það eða binda nokkrum kvöðum nema með heimild hans. Við veðsetningu skipsins skyldi veiðileyfið sérstaklega undanskilið. Þá segir þar að verði skipið nýtt til veiða í atvinnuskyni meðan veiðileyfið verði á skipinu ábyrgist stefndi að það aflamark, sem skipið kynni að veiða, verði flutt til þess. Áfrýjanda eða öðrum þeim, sem kunni að eignast veiðileyfið, verði heimilt að óska þess við Fiskistofu að það verði flutt til þess skips, er félagið kjósi, hvenær sem er eftir 1. apríl 1999. Skyldi yfirlýsingu þessari þinglýst sem kvöð á skipið og hún gilda jafnt þótt eigendaskipti yrðu að því og skipt yrði um nafn þess og umdæmisnúmer.

Óumdeilt er í málinu að samhliða því sem áfrýjandi greiddi helming umsamins kaupverðs hinn 1. desember 1998 var framangreindri yfirlýsingu þinglýst á Skagfirðing SK-4.

Í héraðsdómi er sagt frá þeim reglum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, sem giltu um veiðileyfi þegar aðilar málsins gerðu samning sinn. Jafnframt er greint frá þeim breytingum á lögunum, sbr. lög nr. 1 og 9/1999, sem gerðar voru í kjölfar dóms Hæstaréttar 3. desember 1998, H.1998.4076. Er ekki um það deilt í málinu að með hinum breyttu lögum hafi veiðileyfi það, sem áfrýjandi keypti með samningnum 25. nóvember 1998 orðið verðlaust og eftir það hafi engir hagsmunir verið tengdir afhendingu leyfisins.

Í málinu eru ekki hafðar uppi gagnkröfur af hálfu stefnda en við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var því lýst yfir að yrði héraðsdómur staðfestur myndi hann krefja áfrýjanda um eftirstöðvar kaupverðs. Jafnframt kom fram af hans hálfu, að hann hefði áður boðið áfrýjanda til sátta að ljúka málinu með þeim hætti að áfrýjandi þyrfti ekki að greiða þennan hluta kaupverðs, en því hefði verið hafnað.

II.

Fallist er á það með héraðsdómi að bréf áfrýjanda til stefnda 10. desember 1998 geti ekki talist riftunarbréf og verður aðalkröfu hans því hafnað.

Varakrafa áfrýjanda um að samningi aðilanna verði rift með dómi er rökstudd með vísan til laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Vísar hann einkum til 17. gr., 21. gr. , 42. gr. og 44. gr. laganna í því sambandi. Með hliðsjón af eðli hins selda, sem var opinbert leyfi, háð reglum laga um stjórn fiskveiða, verður framangreindum lagaákvæðum ekki beitt um viðskipti aðilanna. Verður fallist á það með héraðsdómara að hafna beri kröfu þessari.

III.

Þrautavarakröfu sinni til stuðnings vísar áfrýjandi til meginreglna samningaréttar um áhrif brostinna forsendna og til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 11/1986. Sé það bersýnilega ósanngjarnt að samningur aðilanna standi óbreyttur þannig að stefndi geti haldið honum upp á áfrýjanda án þess að greiða gagngjaldið á móti. Hafi hin síðar til komnu atvik hrundið öllum forsendum fyrir samningsgerðinni. Séu því skilyrði til þess að lýsa samninginn ógildan og óskuldbindandi fyrir hann og taka til greina kröfu hans um endurgreiðslu þess hluta kaupverðsins, sem hann hafði greitt.

Stefndi krefst sýknu af kröfum áfrýjanda, meðal annars á þeim grundvelli að hann hafi staðið við samning aðila að sínu leyti, þar sem hann hafi þegar undirritað skjöl er heimiluðu áfrýjanda að framselja hin seldu réttindi yfir á skip að eigin vali. Tímasetning framsals hafi verið algjörlega á valdi áfrýjanda, og því hafi áhætta flust að þessu leyti yfir til hans við undirritun kaupsamnings og yfirlýsingar 25. nóvember 1998. Verði stefnda ekki um það kennt þótt verðgildi hins selda hafi breyst og orðið að engu og áfrýjandi hafi ekki hagsmuni af því að fá hið selda afhent með formlegum hætti. Báðir samningsaðilar hafi mátt gera sér grein fyrir að hið selda gat verið breytingum háð, bæði að efni til og formi. Löggjafinn hafi getað breytt reglunum um úreldingarrétt og eins hefði markaðsverð getað hækkað eða lækkað. Áfrýjandi hafi sjálfur sóst eftir að kaupa veiðileyfið og vitað að hann tók áhættu með kaupunum.

Framangreind kaup voru miðuð við þær reglur laga nr. 38/1990, sem þá voru í gildi um veiðileyfi og vísað var til í kaupsamningi. Er ekki um það deilt að kaupverð veiðileyfisins var í samræmi við markaðsverð slíkra leyfa á þessum tíma. Að sögn áfrýjanda var tilgangur hans með kaupunum að stuðla að öruggri hráefnisöflun fyrir verksmiðjur sínar á komandi loðnu- og síldarvertíð, en stefndi var að ráðstafa réttindum vegna skips, sem hann ætlaði að hætta að gera út. Í málinu er því haldið fram að það hafi helst tíðkast í viðskiptum sem þessum að veiðileyfi væru afhent þegar við samningsgerð og að staðgreitt væri fyrir þau. Aðilar málsins deila um það hvers vegna sá háttur var á hafður að draga afhendingu leyfisins fram á næsta ár og að greiða fyrir það í tvennu lagi. Þótt ýmislegt bendi til að áfrýjandi hafi talið sér henta að hafa þennan hátt á verður ekki fullyrt að þar hafi eingöngu ráðið hagsmunir hans. Ber til þess að líta að stefndi hafði heimild til að nýta sér veiðileyfið fram að afhendingu og gerði það.

Þegar virt eru ákvæði kaupsamnings aðilanna og yfirlýsingar stefnda, sem samhliða var undirrituð, þykir ljóst að áfrýjandi hafi þá þegar öðlast eignarrétt yfir hinu selda. Var kvöð þar að lútandi þinglýst á skip það, sem veiðileyfið var skráð á. Á hinn bóginn liggur fyrir að endanleg afhending þess til áfrýjanda átti ekki að fara fram fyrr en 1. apríl 1999 og síðari hluta kaupverðs átti að inna af hendi 1. mars sama ár.

Samkvæmt þessu var staða málsins sú þegar framangreind breyting varð á lögum nr. 38/1990, að áfrýjandi hafði greitt helming kaupverðsins og veiðileyfið var formlega enn í vörslum stefnda. Afleiðing lagabreytingarinnar var óumdeilt sú að veiðileyfið varð í raun verðlaust og áfrýjandi hafði ekki lengur hagsmuni af því að fá það afhent. Þannig var grundvöllur samningsgerðarinnar brostinn áður en samningsskyldur hvors aðila um sig höfðu verið efndar að fullu. Þykja hér efni til skoðunar á því hvort skilyrði séu til þess að víkja samningnum til hliðar í heild eða að hluta samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, sem heimilar slíkt ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning fyrir sig. Við mat á þessu ber samkvæmt 2. mgr. greinarinnar að líta til efnis samningsins, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.

Telja verður að samningsaðilar hafi verið jafnsettir við samningsgerðina. Báðir þekktu til þeirra reglna, sem um veiðileyfi giltu, og báðum mátti vera ljóst að viðskiptum sem þessum fylgir áhætta. Hins vegar komu síðar til atvik, sem aðilar sáu ekki fyrir við samningsgerðina og leiddu eins og fyrr segir til þess að hið selda missti verðgildi sitt, áður en samningurinn var efndur að fullu. Réð hvorugur aðila neinu um þessa framvindu. Þegar litið er til stöðu málsins, þegar til þessa kom, þykja sanngirnissjónarmið mæla með því að aðilar beri hér sameiginlega halla af. Sé eðlilegt að látið verði við þá stöðu sitja, sem málið var í er framangreind atvik bar að höndum. Kröfugerð áfrýjanda þykir ekki standa því í vegi að dæmt verði á þann veg.

Með vísan til 1. mgr., sbr. 2. mgr. 36. gr laga nr. 7/1936 verður niðurstaða málsins samkvæmt framansögðu sú að kaupsamningi aðila 25. nóvember 1998 er vikið til hliðar að því er varðar þann hluta hans, sem ekki hefur verið efndur. Jafnframt verður stefndi sýknaður af endurgreiðslukröfu áfrýjanda.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest. Eftir atvikum þykir rétt að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Vikið er til hliðar kaupsamningi áfrýjanda, SR-Mjöls hf., og stefnda, Fiskiðjunnar Skagfirðings hf., 25. nóvember 1998, að því er varðar þann hluta hans, sem ekki hefur verið efndur.

Stefndi er sýknaður af endurgreiðslukröfu áfrýjanda.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Áfrýjandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 

Dómur héraðsdóms Norðurlands vestra mánudaginn 20. mars 2000.

 

I.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 26. janúar sl., er höfðað af SR-mjöli hf., kt. 560793-2279, Kringlunni 7, Reykjavík á hendur Fiskiðjunni Skagfirðingi hf., kt. 461289-1269, Eyrarvegi 18, Sauðárkróki með stefnu birtri 20. október 1999 en þingfestri 26. sama mánaðar.

Dómkröfur stefnanda.

                Stefnandi krefst þess aðallega, að staðfest verði riftun stefnanda, dags. 10. desember 1998, á kaupsamningi milli aðila dagsettum 25. nóvember 1998.

                Til vara krefst stefnandi þess, að nefndum kaupsamningi verði rift með dómi.

                Til þrautavara krefst stefnandi þess, að nefndur kaupsamningur aðila verði dæmdur ógildur og óskuldbindandi fyrir stefnanda.

                Í öllum tilfellum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 60.165.000 krónur með vöxtum skv. 4. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til 10. janúar 1999 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.  Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins.

                Dómkröfur stefnda.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og þess jafnframt að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

 

II.

                Málavextir.

                Að sögn stefnda ákvað hann í september 1998 að hætta að gera út skip sitt Skagfirðing SK-4.  Skipið var því til sölu en mestar líkur fyrir því að það yrði selt úr landi og þá ætlaði stefndi að selja sérstaklega veiðileyfi og endurnýjunarrétt skipsins innanlands.  Forsvarsmenn stefnanda, sem sérhæfir sig í framleiðslu á mjöli og lýsi, vildu tryggja hráefnisöflun fyrir verksmiðjur sínar og ákváðu að tryggja sér veiðileyfi og endurnýjunarrétt að ákveðnu marki þó ekki hafi verið búið að taka  ákvörðun um að kaupa skip fyrir félagið.  Af því tilefni leituðu þeir til vitnisins Friðriks Jóns Arngrímssonar, lögmans og skipasala og báðu hann um að útvega þessi réttindi.  Vitninu var kunnugt um fyrirætlanir stefnda og gerði, f.h. stefnanda tilboð í veiðileyfi og endurnýjunarréttinn, 30.000 krónur fyrir hvern rúmmetra.  Stefndi gerði stefnanda gagntilboð, 35.000 krónur fyrir hvern rúmmetra og samþykkti stefnandi það.  Frá kaupunum var síðan gengið með kaupsamningi dagsettum 25. nóvember 1998.  Í kaupsamninginum sagði svo um hið selda;  ,,Seljandi selur kaupanda veiðileyfi Skagfirðings SK-4, skipaskrárnúmer 1265, hér eftir nefnt skipið, skv. lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða ásamt endurnýjunarrétti veiðileyfisins og öllum réttindum sem því fylgir og tilheyrir öðrum en þeim sem undanskilin eru í samningi þessum.  Rúmtala skipsins er 3438 rúmmetrar."  Síðan er fjallað um þau réttindi sem ekki falla undir samninginn.  Umsamið kaupverð var 120.330.000 krónur og var helmingur þess, 60.165.000 krónur, greiddur þann 1. desember 1998 en eftirstöðvar skyldu samkvæmt lið 2.2 í samninginum greiðast 1. mars 1999.  Samningurinn hefur svohljóðandi ákvæði um afhendingu;  ,,Hið selda skal afhent kaupanda þann 1.4.1999 en á sama tíma og kaupandi greiðir greiðslu skv. gr. 2.1. skal þinglýst á skipið yfirlýsingu um eignarrétt kaupanda að veiðileyfinu.  Þegar greiðsla skv. gr. 2.2. verður innt af hendi skal seljandi afhenda kaupanda beiðni til Fiskistofu um varanlegan flutning veiðileyfisins til þess eða þeirra skipa sem kaupandi kýs."  Þegar fyrri greiðslan, liður 2.1. í samningi var innt af hendi þann 1. desember 1998 var þinglýst kvöð á skipið um samning aðila.  Í henni kemur fram að veiðileyfi skipsins og endurnýjunarréttur þess sé eign stefnanda og að óheimilt sé að binda það nokkrum kvöðum nema með leyfi stefnanda.  Í kvöðinni kemur og fram að stefnanda eða öðrum sem kunni að eignast veiðileyfið sé heimilt að óska þess við Fiskistofu að veiðileyfið verði flutt til þess skips sem félagið kýs hvenær sem er eftir 1. apríl 1999.

                Kaupsamningurinn kveður á um það að þegar kaupverðið sé að fullu greitt skuli seljandi afhenda kaupanda beiðni til Fiskistofu um varnalegan flutning veiðileyfisins til þess eða þeirra skipa sem kaupandi kjósi.  Afhending veiðileyfisins átti að fara fram 1. apríl 1999 en stefnandi hafði heimild til að fresta flutningi veiðileyfisins fram yfir það tímamark gegn greiðslu kostnaðar.  Stefnda var heimilt að nýta veiðileyfið án endurgjalds þar til það yrði flutt af skipinu.

                Kaupsamningurinn grundvallist á þágildandi lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 sbr. lög nr. 87/1994 og nr. 83/1995 og reglugerð nr. 448/1998 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1998/1999.  Í 4. gr. laganna sagði að enginn mætti stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi.  Í 1. mgr. 5. gr. laganna var ákvæði þess efnis, að við veitingu veiðileyfa í atvinnuskyni kæmu þau skip ein til greina sem veiðileyfi fengu skv. 4. og 10. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða og ekki höfðu horfið varanlega úr rekstri.  Í 2. mgr. nefndrar 5. gr. voru ákvæði um heimildir til að flytja veiðileyfi, skv. 1. mgr., til annars jafnstórs skips, miðað við rúmtölu, enda hafi rétti til endurnýjunar ekki verið afsalað.  Í 12. til 18. gr. nefndrar reglugerðar nr. 448/1998 voru reglur um endurnýjun fiskiskipa nánar útfærðar. 

                Samkvæmt því sem að framan er getið var réttur til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni bundinn við eignarhald á skipum sem höfðu fengið veiðileyfi eða skipum sem komið höfðu í stað skipa sem slíkt leyfi höfðu fengið.  Lög gerðu ráð fyrir að unnt væri að flytja veiðileyfi á milli skipa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Frá og með setningu laga 38/1990 um stjórn fiskveiða gátu nú skip ekki fengið almennt leyfi til fiskveiða nema annað eða önnur skip hyrfu úr rekstri í staðinn.  Þessar takmarkanir urðu til þess að eftirspurn skapaðist eftir veiðileyfum og endurnýjunarrétti skipa.  Viðskipti með veiðileyfi urðu allt tíð en verð fyrir hvern rúmmetra skips sveiflaðist nokkuð.  Til þess að heimild fengist til að flytja veiðileyfi á milli skipa varð eigandi skips sem lét það af hendi að óska skriflega eftir flutningi leyfisins til Fiskistofu.  Hjá Fiskistofu var unnt að fá sérstök eyðublöð sem almennt voru notuð í þessum tilgangi.  Í samræmi við þetta var ákvæði í kaupsamningi aðila þess efnis að stefndi átti að láta stefnanda í té beiðni um varanlegan flutning veiðileyfis Skagfirðings SK-4 til þess eða þeirra skipa sem stefnandi kysi.  Með þessu átti stefndi að tryggja stefnanda rétt til útgáfu veiðileyfis á grundvelli þágildandi laga. 

                Þann 3. desember 1998 gekk í Hæstarétti Íslands dómur í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu.  Í dóminum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að 5. gr. laga nr. 38/1990 væri í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskár Íslands og þeirra sjónarmiða um jafnræði, sem gæta þarf við takmörkun á atvinnufrelsi skv. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.  Í kjölfar dómsins voru gerðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem kollvörpuðu því kerfi sem notað hafði verið um veitingu veiðileyfa.  Eftir lagabreytinguna geta öll skip, sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingarstofnunar Íslands, eða á sérstaka skrá yfir báta undir 6 metrum, fengið veiðileyfi.  Um leið voru felld úr gildi ákvæði laga og reglugerðar um heimild til að flytja veiðileyfi á milli skipa.  Þó eru enn í gildi ákvæði um flutning leyfis á milli krókabáta. 

                Þann 10. desember 1998 ritaði stefnandi stefnda bréf þar sem hann vísar í nefndan dóm Hæstaréttar og hvaða afleiðingar hann hefði í för með sér að mati stefnanda.  Stefnandi taldi að þau verðmæti sem samningur aðila tæki til væru engin.  Stefnandi taldi því að forsendur fyrir viðskiptunum hefðu brostið og samningur aðilanna því ógildur með öllu.  Jafnframt var þess óskað að greiðsla sú sem stefnandi hafði innt af hendi yrði endurgreidd hið fyrsta.

                Stefndi svaraði með bréfum dagsettum 14. desember 1998 og 4. febrúar 1999 og hafnaði stefndi endurgreiðslukröfu stefnanda.

 

III.

                Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi byggir á því, að stefnda hafi borið að afhenda hið selda 1. apríl 1999.  Rúmlega viku eftir undirritun kaupsamningsins, en tæpum fjórum mánuðum fyrir afhendingardag gekk áðurnefndur dómur í Hæstarétti.  Í dóminum komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að 5. gr. laga um fiskveiðistjórnun stangist á við jafnræðis- og atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár Íslands.  Lögum hafi því verið breytt á þann veg að nú geti öll skip, sem haffærisskírteini hafa, fengið veiðileyfi. 

                Að gengnum þessum dómi og þeim laga og reglugerðarbreytingum sem fylgdu í kjölfarið hafi hið selda orðið verðlaust og í reynd ekki til í þeirri mynd sem samið var um og stefnandi áskildi í kaupsamningnum.  Fullyrðingar stefnda um að hann muni standa við sinn hluta samningsins breyti ekki þeirri staðreynd.

                Þegar ljóst varð að hið selda var farið forgörðum og ljóst að stefndi gat ekki efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamninginum hafi stefnanda verið rétt að rifta kaupunum og krefjast endurgreiðslu á því sem þegar hafði verið greitt.  Stefnandi byggir aðalkröfu sína um að réttmæti riftunaryfirlýsingar hans frá 10. desember verði staðfest á 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup en til hliðsjónar á 21. gr. er geymir meginsjónarmið um skilyrði riftunar í lausafjárkaupum.  Annars vísar hann til meginreglna kröfuréttar um vanefndaúrræði kaupanda vegna galla, gagnkvæma efndaskyldu aðila í lausafjárkaupum og dómafordæma.

                Stefnandi heldur því fram að áhættan af því að hið selda myndi farast hvíldi ótvírætt enn hjá stefnda, enda sé það meginregla í íslenskum kauparétti að hættan á því að seldur hlutur farist af tilviljun sé á ábyrgð seljanda þar til hann hefur skilað hlutnum af sér, sbr. einkum 1. mgr. 17. gr. kaupalaga.  Enn fremur sé rétt að hafa 44. gr. sömu laga til hliðsjónar.  Kaupsamningur aðila um þetta hafi verið skýr, hið selda hafi ekki átt að afhenda fyrr en 1. apríl 1999 og hafi stefnda verið heimilt að nýta hið selda allt fram til þess tíma.  Þar sem áðurnefndir atburðir, sem urðu til þess að veiðileyfið var ekki lengur til í þeirri mynd sem um var samið, áttu sér stað löngu áður en afhending veiðileyfisins átti að fara fram, hvíldi áhættan ótvírætt hjá stefnda. 

                Stefnandi setur fram til vara kröfu um að kaupsamningi aðila verði rift með dómi fari svo að dómurinn fallist ekki á að stefnandi hafi með yfirlýsingu sinni frá 10. desember 1998 rift kaupin þannig að bindandi sé fyrir stefnda.  Þessi krafa byggir á sömu sjónarmiðum og rakin hafa verið til stuðnings fyrir aðalkröfu.

                Til þrautavara byggir stefnandi á því, að forsendur fyrir samningsgerðinni og greiðslu stefnanda hafi brostið með dómi Hæstaréttar og þeim laga- og reglugerðarbreytingum sem fylgdu í kjölfarið.  Forsendubresturinn verði til þess að stefnanda sé rétt að krefjast þess, að samningsskyldur beggja falli niður og stefndi endurgreiði þá samningsgreiðslu sem þegar hefur átt sér stað.

                Verðmæti hins selda byggði á takmörkuðum aðgangi fiskiskipa að veiðileyfum.  Í kaupsamningi hafi skýrt verið tekið fram að hann byggði á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða.  Þá hafi hinu selda verið lýst sem veiðileyfi ásamt endurnýjunarrétti og öllum réttindum sem því fylgdu og tilheyrðu, nema þau væru sérstaklega undanskilin.

                Þar sem veiðileyfi er ekki lengur til í þeirri mynd sem um var samið og engum endurnýjunarrétti til að dreifa lengur er ljóst að forsendur fyrir samningsgerðinni og greiðslu stefnanda til stefnda með öllu brostnar.  Stefnda mátti vera ljóst að tilgangur stefnanda með samningsgerðinni var sá að hann myndi eignast þau verðmæti og réttindi sem veiðileyfinu átti að fylgja, enda hafi það verið beinlínis áskilið í kaupsamningi aðila.  Þetta hafi verið veruleg forsenda og um leið ákvörðunarástæða fyrir kaupunum.  Þar sem stefnda er nú ómögulegt að afhenda umrædd réttindi sé stefnanda heimilt að krefjast þess að kaupsamningurinn verði lýstur ógildur og óskuldbindandi fyrir sig.

                Stefnandi byggir málsástæðu þessa á meginreglum samningaréttar um áhrif brostinna forsenda og 36. gr. samningalaga.  Samkvæmt þeirri grein sé heimilt að víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta samningi, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Við það mat verði að horfa til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar komu til.

                Stefnandi byggir á því, að það sé bersýnilega ósanngjarnt að samningur aðila verði látinn standa óbreyttur og stefnda verði heimilt að heimta greiðslu af stefnanda án þess að láta neitt gagngjald af hendi sjálfur.  Allar forsendur fyrir samningsgerðinni séu nú brostnar og því eðlilegt og sanngjarnt að hann verið lýstur ógildur og óskuldbindandi.  Þá sé neitun stefnda á endurgreiðslu þess sem stefnandi hefur þegar greitt ósanngjörn að mati stefnanda og andstæð góðri viðskiptavenju.

                Stefnandi byggir kröfu sína um vexti og dráttarvexti á vaxtalögum nr. 25/1987 einkum 4. gr. og III. kafla laganna.  Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Málsástæður og lagarök stefnda.

                Stefndi mótmælir málsástæðum og lagarökum stefnanda í stærstu sem smæstu atriðum, sem röngum og málinu óviðkomandi.  Stefndi telur að engar forsendur hafi komið fram sem réttlæti riftunar eða ógildingarkröfu stefnanda.  Báðir aðilar hafi gert sér grein fyrir áhættu sem var um verðþróun hins selda á næstu misserum og árum og þeir hafi báðir verið tilbúir til að taka þá áhættu.  Hins vegar hafi engan órað fyrir þeirri kúvendingu sem átti sér stað í verðlagningu endurnýjunarréttar skipa nokkrum dögum eftir undirritun kaupsamningsins.  Telur stefndi að þessu megi líkja við markaðshrun af mannavöldum sem ekki leiði til þess að stefnandi geti neytt þeirra úrræða sem hann leitar eftir í máli þessu.  Rétturinn til að stunda veiðar í landhelginni hafi verið verðmætur allt þar til dómur Hæstaréttar gekk í málinu nr. 145/1998.  Skilningur stjórnvalda og eigenda fiskiskipa hafi verið eins hvað þetta varðaði.  Stjórnvöld og þegnar landsins hafi því verið í lögvillu um rétt sinn og með nefndum dómi Hæstaréttar hafi verðmæti réttindanna og þau sjálf gufað upp.  Af þessum sökum heldur stefndi því fram að kaupsamningi um kaup á veiðileyfi og endurnýjunarrétti gerðum áður en dómurinn gekk verði ekki rift eða breytt. 

                Stefndi mótmælir því að ákvæði kaupalaga nr. 39/1922 eigi við um viðskipti aðila.  Kaupsamningurinn hafi ekki tekið til lausafjár í skilningi kaupalaga heldur til framseljanlegra réttinda er höfðu verðgildi á sviði stjórnarfarsréttar.  Um slík viðskipti gildi kaupalögin ekki.  Ef um vanefndir er að ræða séu þær af hálfu stefnanda sem hafi látið undir höfuð leggjast að greiða kaupsamningsgreiðslu frá 1. mars 1999.  Aldrei hafi reynt á afhendingardrátt af hálfu stefnda enda hafi stefnandi ekki greitt kaupverðið að fullu.

                Stefndi byggir ennfremur á því að hið selda hafi ekki farist í skilningi kaupalaga þannig að ómöguleiki varni afhendingu þess.  Veiðileyfið sé enn til staðar og ekkert því til fyrirstöðu að framselja stefnanda það óski hann þess.  Öðru máli gegni hins vegar um að framsal þess þjónar engum tilgangi í dag þar sem það hefur ekkert fjárhagslegt verðmæti.  Hvað endurnýjunarréttinn varðar þá hafi ákvæði um hann verið felld brott úr lögum.

                Stefndi reisir kröfur sínar enn fremur á því að hið selda hafi í raun verið afhent með yfirlýsingu hans til stefnanda.  Orðalag yfirlýsingarinnar beri það með sér að stefnanda sé heimilt án aðstoðar stefnda að flytja hið selda yfir á hvert það skip er hann kýs.  Yfirlýsingin hafi verið ótímabundin og gat stefnandi hrundið henni í framkvæmd hvenær sem honum hentaði.  Af þessum sökum sé túlkun stefnanda á áhættuskiptingu aðila varðandi afhendingu hins selda fráleit.  Yfirlýsingin og kvöðin sem þinglýst var á skipið feli í sér óafturkallanlegt framsal á hinu selda til stefnanda.  Af þessum sökum hafi áhættan af tilvist og verðmæti hins selda fluttst til stefnanda við undirritun yfirlýsingarinnar.  Í þessu sambandi bendir stefndi á að samkvæmt viðskiptavenju hafi svona viðskipti farið fram gegn staðgreiðslu gegn framsali réttinda.  Í þessum viðskiptum hafi það ekki hentað stefnanda að fá réttindin til sín enda hafi hann ekki átt von á nýju skipi fyrr en eftir nokkra mánuði og þannig hafi hann ekki verið tilbúinn til að taka við réttindunum.  Hér bendi stefndi og á að samkvæmt kaupsamninginum mátti stefnandi láta hið selda veiðileyfi og endurnýjunarréttinn vera svo lengi sem hann vildi á skipi stefnda eftir 1. apríl 1999.  Af þessu ákvæði megi ráða að það voru hagsmunir stefnanda sem réðu því meintum afhendingartíma hins selda en raunveruleg afhending hafi farið fram við undirritun yfirlýsingar þeirra sem að framan er getið.  Af þessum sökum hafi öll áhætta af verðlagi og breyttri lagasetningu verið hjá stefnanda.  Þá bendir stefndi á að meint misfærsla og tjón stefnanda stafi ekki frá stefnda eða mönnum sem hann bar ábyrgð á og því var stefnandi hvorki betur né verr settur en ef endurnýjunarrétturinn hefði verið færður yfir til skips stefnanda í byrjun desember 1998.  Það eina óvenjulega af hendi stefnda í þessum viðskiptum hafi verið að lána stefnanda eftirstöðvar kaupverðsins í þrjá mánuði.

                Af hálfu stefnda er á því byggt, að stefnandi hafi ekki rift kaupsamningi aðila með bréfi dagsettu 10. desember 1998.  Orðalag bréfsins ,,að svo stöddu" taki af allan vafa í því efni.  Riftunarkrafa stefnanda sé því fyrst sett fram í stefnu og því geti hún ekki af tæknilegum ástæðum komið til framkvæmda fyrr en við þingfestingu málsins.

                Stefndi mótmælir einnig sjónarmiðum stefnanda um brostnar forsendur sem leiða skuli til ógildingar samningsins.  Sem fyrr hafi báðum aðilum mátt vera ljóst að viðskiptum þeirra gat fylgt áhætta, annarsvegar þannig að verðmæti endurnýjunarréttarins gat lækkað eða hækkað en hins vegar að löggjafinn gat breytt reglum að þessu leyti.  Stefndi tekur sem dæmi það sem hefði getað gerst við fasteignakaup í Vestmannaeyjum rétt fyrir gos.  Ljóst sé að fasteignaverð lækkaði verulega við eldsumbrotin og jafnframt ljóst að kaupandi gat ekki nýtt sér fasteignina.  Þessar aðstæður hafi ekki leitt til þess að kaupanda hafi verið heimilt að neita að greiða eftirstöðvar kaupverðsins, þá hafi honum ekki heldur verið heimilt að rifta kaupunum.  Að sjálfsögðu hafi forsendur hans fyrir kaupunum brostið en þær væru ekki lögmætar þ.a. heimilt væri að beita vanefndaúrræðum kaupalaga með lögjöfnun eða ákvæðum þeirra um brostnar forsendur.  Sama sjónarmið eigi við í þessu máli nema hvað náttúruhamfarirnar í tilbúna dæminu séu í þessu tilfelli af mannavöldum þó afleiðingarnar séu svipaðar í lögfræðilegum skilningi.  Einfaldlega hafi ekki verið um að ræða lögmæta ákvörðunarforsendu af hálfu stefnanda enda hún algjörlega ófyrirséð og þar með geti hann ekki borið hana fyrir sig.

                Stefndi segir að í málinu séu engar lögmætar forsendur fyrir kröfugerð stefnanda.  Hið selda hafi tapað verðgildi sínu fyrir atbeina dómstóla en fram að því að hinn umdeildi dómur gekk hafi verið um gild lög í stjórnskipulegri merkingu að ræða.  Ljóst sé að annað hvort stefndi eða stefnandi verði fyrir tjóni af þessum völdum. Tjónið sé jafn ósanngjarnt fyrir báða aðila og hér gildi sama regla og í öðrum viðskiptum að samningsaðilar tryggja sig ekki eftirá.  Með vísan til þeirrar venju sem gilti um viðskipti sem þessi, þinglýstrar yfirlýsingar stefnda sem áður er getið og þess að dráttur á formlegri yfirfærslu veiðileyfisins stafaði frá stefnanda, þá teljist annað óeðlilegt en stefnandi beri áhættu af þeirri verðrýrnun sem hið selda varð fyrir eftir að kaupsamningurinn var undirritaður.  Stefndi telur jafnframt víst að hefði markaðsverð hins selda hækkað verulega eftir samningsgerðina þá teldi stefnandi sig eiga þann ávinning þó hann hefði komið fram fyrir 1. apríl 1999.  Rök stefnda að þessu leyti byggja á sömu lagasjónarmiðum.  Með því að ljá máls á kröfugerð stefnanda sé verið að setja í loft upp öll viðskipti á sama grundvelli undanfarin 10 ár.  Hér sé því um milljarða hagsmuni að ræða en ekki einungis þá fjárhæð sem kaupsamningur aðila segir til um.

                Loks bendir stefndi á, að ef kröfugerð stefnanda um riftun vegna meints afhendingardráttar með vísan til ákvæða kaupalaga sé skoðuð þá sé augljóst ef litið er á málið út frá þessu sjónarmiði stefnanda að efndum in natura verði ekki beitt.  Hins vegar er ekki sjálfgefið að stefnandi eigi jafnframt riftunarrétt vegna hins meinta afhendingardráttar.  Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. kaupalaga getur kaupandi ekki rift kaupum ef afhendingardráttur hefur ,,lítil áhrif eða óveruleg á hagsmuni kaupanda"  með tilliti til þess hvernig verðlag þróaðist á veiðileyfum og rúmlestum til úreldingar, eftir að samningsaðilar undirrituðu kaupsamninginn, þá megi halda því fram að stefnandi hafi nú engra hagsmuna að gæta að fá fram efndir.  Meint skaðabótaskylda stefnda að þessu leyti, ef málið er skoðað út frá sjónarhorni stefnanda, hlýtur að miðast við raunverulegt tjón hans þegar krafan er sett fram.  Í dag sé markaðsverð hins selda ekkert.  Með vísan til þessara lögfræðilegu vangaveltna telur stefndi að jafnvel út frá sjónarmiðum stefnanda sjálfs eigi hann ekki rétt til að rifta kaupsamningi aðila og meint skaðabótakrafa stefnanda á hendur stefnda geti ekki tekið til endurgreiðslu á þegar greiddum hluta kaupverðsins, heldur markaðsverði hins selda þegar krafan er sett fram að öðrum kosti auðgist stefnandi óeðlilega með kröfugerð sinni.

                Hvað varðar lagarök fyrir aðalkröfu sinni vísar stefndi til meginreglna samningaréttarins, eðlilegrar túlkunar á samkomulagi aðila og að öðru leyti séu ekki lögmætar forsendur fyrir kröfugerð stefnanda.  Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

IV.

Framburður fyrir dómi.

Fyrir dóminum gaf Hlynur Jónsson Arndal skýrslu af hálfu stefnanda.  Hann kvað stefnanda hafa ákveðið að ráðast í kaup á úreldingarrétti þegar fyrir lá að einn af þeirra stærstu viðskiptavinum hugðist láta smíða nýtt skip.  Þeir hafi talið fyrirsjáanlegt að verð á þessum rétti myndi hækka og af þeim sökum hafi þeir viljað tryggja sér þennan rétt annað hvort til eigin nota eða til að láta einhvern af viðskiptavinum sínum nýta hann.  Á þessum tíma hafi ekki legið fyrir hvort stefnandi myndi sjálfur kaupa skip eða ekki og þá heldur ekki hversu stórt skip yrði keypt.  Síðan hafi dómur Hæstaréttar gengið og þar með hafi allar forsendur breyst.  Hann segir að afhendingartíminn 1. apríl 1999 hafi einfaldlega verið kynntur fyrir þeim við samningsgerðina en hann hafi ekki verið ákveðinn af þeirra frumkvæði en þeir hafi samþykkt þetta. 

Af hálfu stefnda gaf skýrslu Jón E. Friðriksson, framkvæmdastjóri.  Mætti skýrði frá því að hjá stefnda væri rekstrarár sama tímabil og kvótaár.  Félagið hafi tekið þá ákvörðun í lok ágústmánaðar 1998 að hætta rekstri Skagfirðings og færa allan kvóta af honum og reyna síðan að selja skipið.  Í reikningum félagsins hafi verið látið standa hugsanlegt verð fyrir rúmmetrana og skrokk skipsins.  Síðan hafi það gerst að Friðrik Jón Arngrímsson, skipasali hringdi í hann og kvaðst hafa kaupanda að rúmmetrunum, á 30.000 krónur fyrir hvern rúmmetra, og að þeir ættu að afhendast vorið eftir og þá skyldu greiðsla fara fram.  Hann hafi svarað tilboðinu með gagntilboði upp á 35.000 krónur fyrir rúmmetrann og að greiðslunni yrði þá skipt í tvennt 1. desember 1998 og afgangurinn 1. mars 1999.  Síðan hafi verið gengið frá öllum skjölum varðandi þessa sölu í stjórn félagsins og frá og með þeim tíma hafi þeir litið svo á að búið væri að ganga endanlega frá sölunni.  Þeir hafi ekki haft áhyggjur af því að greiða ætti hluta kaupverðsins síðar þar sem um traustan samningsaðila hafi verið að ræða.  Mætti segir að Friðrik Jón hafi alfarið séð um milligöngu málsins og aðilar hafi aldrei hittst til að ræða málið eða skrifa undir samninga.  Mætti segir að ákvæðið um afhendingu þann 1. apríl 1999 sé ekki frá þeim komin því þeir hafi getað afhent strax og telur hann því þetta ákvæði komið inn í samninginn að tilstuðlan stefnanda.  Mætti ber að Hraðfrystihúsið í Hnífsdal hafi leigt skipið frá 1. september 1998.  Sá samningur hafi verið þess efnis að það félag notaði skipið í stað þess að það væri í höfninni á Sauðárkróki og leigan hafi verið greidd með greiðslu trygginga og viðhalds.  Í leigusamninginum hafi verið ákvæði um að honum væri hægt að segja upp með 15 daga fyrirvara.  Raunar hafi legið fyrir að þann uppsagnarfrest þyrfti ekki að uppfylla.  Skipið hafi síðan verið í leigu þessari allt fram í júlí en alltaf lá fyrir að það var unnt að afhenda hvenær sem var. 

Vitnið Friðrik Jón Arngrímsson, héraðsdómslögmaður og löggiltur skipasali, kannaðist við að hafa gert skjal sem sýndi þróun verðs á endurnýjunarrétti.  Hann kveðst byggja þetta línurit á raunverulegum viðskiptum sem hann hafi sjálfur komið að en hann viti til þess að það var meirihluti þess sem selt var á þessum tíma.  Vitnið kveðst ekki muna sérstaklega eftir þessum viðskiptum og hann hafi ekki fundið nein gögn varðandi þau í sínum fórum.  Hann kveðst þó muna eftir því að forsvarsmaður eða forsvarsmenn stefnanda hafi haft samband við hann og beðið hann um að finna ákveðið magn af rúmmetrum ef hann sé kallaður það endurnýjunarrétturinn.  Í framhaldi af því hafi hann haft samband við Jón E. Friðriksson þar sem honum hafi verið kunnugt um að endurnýjunarréttur og veiðileyfi Skagfirðings var til sölu.  Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvernig salan gekk fyrir sig en telur að hún hafi gengið í gegn á frekar skömmum tíma. Þá segir hann það strax hafa komið fram hjá stefnanda að honum lægi ekki á að fá réttindin afhent enda hafi hann sjálfsagt ekki verið í stakk búinn til að taka við réttindunum á því tímamarki sem kaupsamningurinn var gerður.  Vitnið kveðst ekki muna hvernig dagsetningin 1. apríl var til komin ekki nema hvað stefnanda hafi ekki legið á að fá afhent og þá sennilega ekki endilega 1. apríl.  Vitnið kveður það hafa verið meginlínu í viðskiptum sem þessum að greiðsla hafi farið fram við afhendingu sem þá hafi farið fram fljótlega eftir samningsgerðina.  Í þessum einstöku viðskiptum hafi verið samið á annan veg og eins og alltaf vilji seljandi fá greitt eins fljótt og kostur er en kaupandi vill frekar draga greiðslu.  Vitnið telur að báðir aðilar máls þess hafi verið sáttir við sinn hlut að lokinni samningsgerðinni. 

 

V.

Niðurstaða.

Atvik máls þessa eru sérsök hvað það varðar að það sem almennt var talið mikil verðmæti og samið var um kaup á höfðu í raun aldrei verið til sbr. margnefndan dóm.  Stjórnvöldum var óheimilt að setja þær skorður við veiðum í landhelginni sem gert hafði verið og varð til þess að ,,réttindi" eins og þau sem samið var um í máli þessu öðluðust verðgildi.  Þannig urðu mjög sérstakar aðstæður til þess að endurnýjunarréttur og veiðileyfi skipa, sem á þeim tíma sem samningurinn var gerður, voru talin mikils virði urðu í einni svipan verðlaus.

Aðalkrafa stefnanda er á þá lund að riftun hans á samningi aðila, gerð með bréfi til stefnda dagsettu 10. desember 1999, verði staðfest.  Ekki verður fallist á með stefnanda að með bréfinu hafi hann rift samningi aðila.  Ætli samningsaðili að rifta samningi verður það að gerast með skýrri og vafalausri yfirlýsingu sem beint er til samningsaðilans.  Í nefndu bréfi segir:  ,,Að svo stöddu lítur SR-mjöl því svo á að um algeran forsendubrest sé að ræða fyrir þeim viðskiptum sem samningurinn tekur til og  sé hann því ógildur með öllu."  Með orðalaginu ,,að svo stöddu" kemur ekki ótvírætt fram að ætlun stefnanda hafi verið að rifta kaupin eða að hann ætli alls ekki að virða samninginn.  Verður aðalkrafa stefnanda um að samningi aðila verði rift frá og með dagsetningu bréfs þessa því ekki tekin til greina.

                Varakrafa stefnanda lítur að því að samningi aðila verði rift með dómi. 

Sú regla kaupalaga að seljandi eignar beri ábyrgð á henni þar til hún hefur verið afhent byggist á þeirri hugsun að eðlilegt sé að sá sem hefur vöruna undir höndum beri ábyrgð á því að hún farist ekki og því beri seljandi ábyrgð á eigninni þar til hann hefur afhent hana.  Rakið hefur verið um hvernig réttindi þau voru sem samningur aðila tók til og hverning þau urðu til.  Tilgangur laga um fiskveiðistjórnun var m.a. að takmarka stærð fiskiskipaflotans og ná fram hagræðingu í sjávarútvegi.  Stjórnvöld settu reglur um hverjir ættu að fá þessi réttindi og á hvaða grunni þeim skyldi úthlutað.  Jafnframt töldu stjórnvöld sig hafa heimild til að breyta reglum varðandi þessi réttindi, ýmist þrengja eða rýmka.  Af þessum sökum fellst dómurinn ekki á að réttindin falli skilyrðislaust undir lög um lausafjárkaup.  Hins vegar er ljóst að meginreglur samninga og kröfuréttar eiga við í málinu. 

Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á því að hið selda hafi farist í vörslu stefnda og því sé honum heimilt að rifta samninginum.  Stefndi hafi ekki verið búinn að afhenda réttindi samkvæmt samningi aðila en samningurinn hafi kveðið á um að afhending skyldi fara fram 1. apríl 1999.  Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að afhending hafi átt sér stað með útgáfu yfirlýsingar sem þinglýst var á skipið áður en títtnefndur dómur Hæstaréttar gekk.

                Í málinu liggur fyrir að kaupsamningur aðila gerir ráð fyrir að hið selda skuli afhent kaupanda þann 1. apríl 1999.  Í samninginum er gert ráð fyrir að seinni greiðsla kaupverðsins verði innt af hendi þann 1. mars 1999.  Þann dag gerir samningurinn og ráð fyrir að stefndi afhendi stefnanda beiðni til Fiskistofu um varanlegan flutning veiðileyfisins til þess eða þeirra skipa sem kaupandi kýs.  Þannig er samningurinn sjálfur misvísandi um afhendingartíma. 

                Að framan er rakinn framburður Hlyns Jónssonar Árdal, þess efnis að stefnandi hafi viljað tryggja sér endurnýjunarrétt þar sem einn af þeirra stærstu viðskiptavinum hygðist láta smíða fyrir sig skip.  Auk þess hafi stefnandi sjálfur verið að hugsa um að kaupa skip.  Jafnframt hafi þeir talið að verð þessara réttinda ætti eftir að hækka.  Á þeim tíma sem samningurinn var gerður hafi hins vegar ekki legið fyrir til hvaða skipa réttindunum yrði ráðstafað.  Framkvæmdastjóri stefnda bar að af þeirra hálfu hafi ekkert staðið í vegi fyrir því að afhenda réttindin strax við gerð samningsins og afhendingardagsetningin því að hans mati komin frá stefnanda.  Stefndi hafi ákveðið að leggja Skagfirðingi SK-4 og ekki ætlað sér að nota skipið.  Vitnið Friðrik Jón bar að stefnandi hafi leitað til hans í þeim tilgangi að hann útvegaði þeim ákveðið magn af endurnýjunarrétti.  Hann bar einnig að fram hafi komið hjá stefnanda að honum lægi ekki á að fá réttindin afhent enda hafi hann sennilega ekki verið í stakk búinn til að taka við þeim.  Jafnframt bar vitnið að hafi verið meginlína í viðskiptum sem þessum að greiðsla og afhending réttinda færi fram fljótlega eftir gerð samningsins.

                Af þessum má ráða að stefnanda hafi ekki legið á að fá réttindin afhent og jafnframt hafi hann ekki verið tilbúinn til að taka við þeim á sama tíma og samningurinn var gerður þar sem hann hafði ekki skip til að flytja réttindin á.  Má því fallast á með stefnda að raunveruleg afhending réttindanna hafi farið fram með útgáfu yfirlýsingar hans þess efnis að stefnandi væri eigandi réttindanna.  Til frekari stuðning þessari skoðun má benda á ákvæði samningsins þess efnis að stefnanda væri heimilt að láta veiðileyfið vera áfram á skipinu ef hann væri ekki tilbúinn til að taka við því þann 1. apríl 1999.  (Prentvilla í samninginum segir 1. apríl 1998)  Áður er rakið að kaupsamningur aðila er misvísandi varðandi afhendingardag og bendir það til þess að ekki hafi verið lögð sérstök áhersla á ákveðna dagsetingu hvað þetta varðar.  Með vísan til þessa má ætla að stefnandi hafi í raun einungis geymt réttindi sín á skipi stefnda.  Þar með verður stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir því að hafa ekki afhent réttindin áður en þau urðu verðlaus.  Er því ekki ástæða til að fjalla um hvort réttindin hafi farist í skilningi kaupalaga og að stefndi beri ábyrgð á því að geta ekki afhent réttindin.

Til þrautavara byggir stefnandi kröfu sína á því að forsendur samningsins hafi brostið og því beri að lýsa hann ógildan og óskuldbindandi fyrir aðila.  Fallast verður á með stefnanda að tilgangur hans með samningsgerðinni hafi verið að eignast þau verðmæti sem samningur aðila tekur til.  Þetta hafi verið ákvörðunarástæða af hans hálfu.  Hins vegar er jafnframt ljóst að báðum aðilum mátti vera ljóst að um áhættusöm viðskipti var að ræða og að alltaf hafi mátt búast við að ytri aðstæður, sem gætu haft áhrif á verðmæti þessi, breyttust verulega.  Það er því mat dómsins að þrátt fyrir ófyrirséða kúvendingu á lögum um stjórn fiskveiða verði hvor aðili um sig að bera þá áhættu sem var til staðar í viðskiptum þeirra.  Aðilar máls þessa eru báðir stór fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi og var staða þeirra við samningsgerðina því jöfn þannig að á hvorugan hallaði.  Báðum aðilum var kunnugt um að lög um stjórn fiskveiða hafa tekið breytingum frá því að þau voru fyrst sett árið 1983.  Hins vegar má fallast á með stefnanda að sennilega hafi enginn séð fyrir þær miklu breytinga sem raunin varð á.  Þó má benda á að á þeim tíma sem samningurinn var gerður var búið að flytja hið margnefnda mál fyrir Hæstarétti.  Ætla verður að stefndi hefði þurft að sætta sig við að verðmæti hins selda hefði margfaldast í verði strax að lokinni samningsgerðinni af óvæntum ástæðum.  Jafnframt heldur stefndi því réttilega fram að ósanngjarnt sé í hans garð að fá ekki greitt fyrir hluta af þeim verðmætum sem hér var samið um.  Hann hafi greitt fyrir þau til þriðja aðila og verði því fyrir tjóni ef samningurinn verður felldur úr gildi vegna aðstæðna sem síðar komu til.  Annar aðila málsins verður fyrir miklu tjóni og er það því mat dómsins að ekki komi til greina að ógilda samning aðila með vísan til 36. gr. samningalaga.

                Eins og máli þessu er háttað þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans en fyrir liggja yfirlýsingar lögmanna aðila þess efnis að þeir telji ekki þörf á að málið verði endurflutt. 

Dómsorð:

                Stefndi, Fiskiðjan Skagfirðingur hf. er sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.

                Málskostnaður fellur niður.