Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Miðvikudaginn 25. mars 2015 |
|
Nr. 230/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni í sex mánuði á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Í dómi Hæstaréttar kom fram að brotaþoli hefði 2. mars 2015 farið fram á að varnaraðili sætti nálgunarbanni, en í þinghaldi 23. sama mánaðar hefði verið bókað eftir réttargæslumanni hennar að hún hefði fallið frá þeirri kröfu og óskað eftir að X „kæmi til sín.“ Af þeirri ástæðu og eins og atvikum málsins var háttað var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2015, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 17. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011 getur sá maður sem misgert er við, brotaþoli, fjölskylda hans eða annar honum nákominn, borið fram beiðni um að maður, sakborningur, sem brotið hefur gegn honum eða raskað friði hans á annan hátt, sæti nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili. Brotaþoli fór 2. mars 2015 fram á að varnaraðili sætti nálgunarbanni, en í þinghaldi 23. sama mánaðar var bókað eftir réttargæslumanni brotaþola að hún hafi fallið frá þeirri kröfu og óskað eftir að varnaraðili „kæmi til sín.“ Af þeirri ástæðu og eins og atvikum málsins er háttað verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 17. mars 2015 þess efnis að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að að undaförnu hafi A ítrekað þurft að leita eftir aðstoð lögreglu vegna ofbeldis og ógnandi hegðunar X, m.a. í eftirfarandi málum:
Í máli nr. 007-2015-[...] hafi lögregla verið kölluð til þann 16. mars sl. um kl. 23 að [...] vegna ætlaðrar líkamsárásar/heimilisofbeldis, A hefði sjálf hringt á lögreglu en samband rofnað þegar X hafi veist að henni. Samkvæmt framburði A hefði X dvalist hjá henni undanfarna daga en þau verið sundur og saman til margra ára. Segði A að X hefði verið mjög erfiður undanfarna tvo daga, hún hafi viljað hann út úr íbúðinni og hann orðið við þeirri beiðni. Hann hafi hins vegar gleymt lyfjunum sínum og hafi því aftur ruðst inn með látum svo að hurðin hafi skolið í innihurð og skilið eftir sig gat á innihurðinni. Því næst hefði X rifið í A og fleygt henni til hliðar, tekið lyfin sín og farið út.
Í máli nr. 007-2015-[...] hafi lögregla verið kölluð til vegna mikilla láta og öskurs frá íbúð [...] að [...] þann 1. mars sl. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi A verið þar og segði hún X unnusta sinn hafa ráðist á sig. Nokkur óreiða hafi verið í íbúðinni sem borið hefði því vitni að eitthvað hefði gengið á. Á hnakka A hafi sést bæði skurður og blóð. Segði A að X hefði kastað sér milli veggja í íbúðinni með þeim afleiðingum að hún hafi fengið gat á hnakkann. Við skýrslutöku hafi A jafnframt lýst því að X hefði hótað að kála henni. Brotaþoli hafi leitað til læknis daginn eftir atburðinn. Við skoðun hefði hún haft glóðarauga hægra megin og roða í augnslímhúð. Einnig talsvert blátt mar á augnlokum, upp á augabrún og aðeins niður á kinn, grunnt sár á hvirfli hægra megin, eymsli yfir höfuðkúpu, aðallega hægramegin og á gagnauga. Þá hafi hún verið aum undir báðum kjálkabörðum sem hún segði eftir kverkatak. Hún sé aum í kringum hægri öxl, hafi stóran bláan marblett ofan við hægri mjaðmakamb og verk vinstra megin í brjóstkassa.
Í máli nr. 007-2014-[...] hafi A, þann 27. desember 2014, tilkynnt um innbrot þar sem brotin hefði verið upp hurð. Hurðarkarmur hafi verið skemmdur og hurðarlæsing brotin af. Þar hefði X verið á ferðinni og hafi hann viðurkennt það hjá lögreglu.
Í máli nr. 007-2014-[...] hafi A, þann 25. janúar 2014, óskað eftir aðstoð þar sem sambýlismaður hennar gengi í skrokk á henni. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi verið ljóst að átök ættu sér stað. X hafi þá haldið um upphaldlegg A og reynt að ná af henni poka sem hún hafi haldið á. A hafi þá lýst því að hún vildi X út úr íbúð sinni en hann hefði beitt sig ofbeldi með höggum og spörkum víðs vegar um líkamann.
Einnig kemur fram í greinargerð lögreglustjóra að í málaskrárkerfi lögreglu sé auk þess að finna fjölda mála frá árunum 2012 og 2013, þar sem brotaþoli, A, hafi leitað aðstoðar lögreglu vegna X vegna ofbeldis og ógnandi hegðunar (Mál nr. 007-2012-[...], -[...], -[...], -[...] og 007-2013-[...]). Þá beri einnig að líta til alvarlegs dóms Héraðsdómi Norðurlands eystra í máli nr. [...].
Lögreglustjóri áréttar að með beiðni þolanda, dags. 2. mars 2015, kl. 15.48, hafi þess verið þess að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni. Það hafi verið mat lögreglu á þeim tíma að ekki væri tilefni til nálgunarbanns, enda hefðu vægari úrræði þá ekki verið reynd. X hafi verið gerð grein fyrir ákvörðuninni og jafnframt brýnt fyrir honum að láta A vera því eitt tilvik til viðbótar yrði nóg til þess að sú ákvörðun lögreglustjóra yrði endurskoðuð. Ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann hafi síðan verið birt fyrir varnaraðil þann 17. mars sl., kl. 14:50, sbr. gögn málsins.
Af öllu framangreindu telji lögregla ljóst að A stafi ógn af X og ljóst sé að hún hafi undanfarið orðið að þola ofbeldi af hans hálfu og ógnandi hegðan. Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að X hafi brotið gegn A og að hætta sé á að hann haldi áfram ofbeldi með því að ganga í skrokk á henni og raska friði hennar í skilningi 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé það mat lögreglustjóra að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili séu uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola.
Fyrir dóminn hafa verið lögð fram afrit rannsóknargagna lögreglu, sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra frá 17. mars sl. um að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni. Fallist er á það með lögreglustjóra að gögn þessi beri með sér að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa raskað friði brotaþola á þann hátt að heimilt sé, til að vernda friðhelgi hennar, að banna honum að nálgast hana. Þrátt fyrir að brotaþoli hafi í dag í samtali við lögmann sinn viljað falla frá kröfu um að varnaraðila verði bannað að nálgast hana, sýna gögn málsins að hætta sé á að varnaraðili haldi áfram að brjóta gegn brotaþola. Jafnframt er tekið undir það mat lögreglustjóra að ekki þyki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði verndað með öðrum hætti en að varnaraðili sæti nálgunarbanni. Þykja því uppfyllt skilyrði 4. laga nr. 85/2011 til þess að staðfesta ákvörðun lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykja efni til að marka nálgunarbanni skemmri tíma er þar er ákveðið.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl. sem ákveðst 100.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Einnig greiðist úr ríkissjóði, samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Egilssonar hrl. 80.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 17. mars 2015 um að varnaraðili, X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Þóknun verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 100.000 kr. og réttargæslumanns brotaþola, Jóns Egilssonar hrl., 80.000 krónur skal greidd úr ríkissjóði.