Hæstiréttur íslands
Mál nr. 110/2001
Lykilorð
- Útboð
- Verksamningur
- Aðild
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
|
|
Fimmtudaginn 11. október 2001. |
|
Nr. 110/2001. |
Íslandsskip ehf. (Guðmundur Ágústsson hdl.) gegn Norðuráli hf. (Othar Örn Petersen hrl.) |
Útboð. Verksamningur.Aðild. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.
Deilt var um það, hvort bréf N hf. til Í ehf. og sex annarra fyrirtækja 26. nóvember 1999 hefði falið í sér lokað útboð um flutninga fyrir N hf. eða hvort aðeins hefði verið um verðfyrirspurn að ræða. Með hliðsjón af þeim samskiptum sem N hf. hafði átt við Í ehf. og önnur sambærileg fyrirtæki, fyrir og eftir ofangreint tímamark, var talið að um lokað útboð hefði verið að ræða, sbr. 1. og 2. gr. laga um framkvæmd útboða nr. 65/1993. Þá var talið að N hf. hefði að mestu sniðgengið meginreglur 6. og 8. gr. laganna og að framkvæmd útboðsins hefði verið háð stórfelldum annmörkum af hans hálfu. Á hinn bóginn þótti tilboð Í ehf., sem raunar virtist reist á vitneskju sem ekki var að finna í útboðsgögnum, vera í svo verulegum atriðum í ósamræmi við útboðsskilmála að það uppfyllti ekki skilyrði svo því mætti taka, sbr. 12. gr. fyrrgreindra laga. Að því virtu gat Í ehf. ekki átt aðild að kröfum um að útboð N hf. yrði dæmt ógilt með því að það hefði farið í bága við lög nr. 65/1993. Varð því ekki hjá því komist að sýkna N hf. af kröfu Í ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. mars 2001. Hann krefst þess að viðurkennt verði að um lokað útboð samkvæmt lögum nr. 65/1993 um framkvæmd útboða hafi verið að ræða, þegar stefndi óskaði eftir því við sjö nafngreind fyrirtæki, að þau legðu fram tilboð í sjóflutninga á afurðum og aðföngum til stefnda, sbr. bréf stefnda til þessara fyrirtækja 26. nóvember 1999. Þá krefst hann þess að dæmt verði, að útboðið sé ógilt og útboðið sem slíkt og úrvinnsla þess hafi verið andstæð lögum nr. 65/1993. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og lýst er í héraðsdómi krafðist stefndi þess, að fyrri hluta kröfugerðar áfrýjanda yrði vísað frá dómi, það er þeirri kröfu, að viðurkennt yrði að um lokað útboð hafi verið að ræða samkvæmt lögum nr. 65/1993 þegar stefndi óskaði eftir því við sjö nafngreind fyrirtæki, að þau legðu fram tilboð í sjóflutninga á afurðum og aðföngum til stefnda, sbr. bréf hans 26. nóvember 1999. Sú krafa var tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi hefur ekki borið þá niðurstöðu undir Hæstarétt með kæru samkvæmt ákvæðum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. þeirra laga. Þessi hluti héraðsdóms getur því ekki sætt endurskoðun Hæstaréttar og verður kröfunni samkvæmt því vísað frá Hæstarétti.
II.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram snýst ágreiningur aðila um það, hvort bréf stefnda 26. nóvember 1999 til áfrýjanda og sex annarra fyrirtækja feli í sér lokað útboð um flutninga fyrir stefnda eða hvort aðeins hafi verið um verðfyrirspurn að ræða.
Áfrýjandi heldur því fram, að um hafi verið að ræða lokað útboð en ekki verðkönnun. Viðræður hefðu átt sér stað við flest fyrirtækjanna áður en bréfið var sent og hafi stefnda verið fullkunnugt um gjaldskrár þeirra og hvað þau væru tilbúin að bjóða í afslátt. Telur áfrýjandi, að stefndi hafi nýtt sér útboðsfyrirkomulagið til þess að ná sem lægsta verði, án þess að fara eftir þeim reglum, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 65/1993. Hann heldur því fram, að stefnda hafi verið óheimilt að víkja frá þeim reglum, sem fram koma í lögunum.
Stefndi heldur því fram, að í framangreindu bréfi hafi eingöngu falist verðfyrirspurn eins og greinilega komi fram í fyrirsögn bréfsins. Skilningur áfrýjanda hafi verið á sama veg, því að hann hafi sent inn verðábendingar en ekki tilboð. Hann heldur því fram, að lög nr. 65/1993 banni ekki kaupendum að hagnýta sér þá aðferð að kalla eftir verðhugmyndum og gera fyrirspurnir og semja síðan á grundvelli þeirra hugmynda.
Í framangreindu bréfi stefnda til áfrýjanda og sex annarra nafngreindra fyrirtækja var óskað eftir upplýsingum um verð fyrir nánar tiltekna flutninga fyrir stefnda. Tekið var fram, að æskilegt væri, en þó ekki nauðsynlegt, að verð í einstaka þætti væri sundurliðað. Þá kom fram, að stefnt væri að því að gera samning til tveggja ára, sem stefndi gæti framlengt um eitt ár til viðbótar. Loks sagði í bréfinu: “Farið verður með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Ekki verður um formlega opnun á tilboðum að ræða, þar sem ólíklegt er að hægt verði að bera þau saman á einfaldan hátt. Ef bjóðendur óska þess mun Norðurál fá óháðan löggiltan endurskoðanda til að meta tilboðin. Þetta er gert til að bjóðendur geti verið vissir um að gengið verði til samninga við þann sem leggur fram hagstæðasta tilboðið fyrir Norðurál, og að heiðarlega sé að málum staðið. ... Tilboð þurfa að berast á skrifstofu Norðuráls á Grundartanga fyrir kl. 16.00 föstudaginn 10. desember n.k. Tilboð skulu gilda í a.m.k. 1 mánuð frá skiladegi.”
Í bréfi stefnda til áfrýjanda 8. desember 1999 með fyrirsögninni „Skil á tilboðum í flutninga Norðuráls“ sagði, að ósk hefði komið fram um, að löggiltur endurskoðandi yrði fenginn til að leggja mat á þau tilboð sem bærust í flutninga Norðuráls til að tryggja það, að gengið yrði til samninga við þann aðila, sem legði fram hagstæðasta tilboðið. Tilkynnt var, að Guðmundur Snorrason, varaformaður Félags löggiltra endurskoðenda, myndi framkvæma þetta mat. Bjóðendur yrðu því að skila inn tilboðum í tveimur eintökum, öðru fyrir Norðurál, en hinu merktu Guðmundi Snorrasyni.
Í 1. gr. laga nr. 65/1993 er kveðið á um það, að lögin gildi, þegar útboði er beitt til þess að koma á viðskiptum milli tveggja eða fleiri aðila um verk, vöru eða þjónustu. Lögin gilda þó ekki fyrir útboð á fjármagns- og verðbréfamarkaði. Samkvæmt 2. gr. laganna er um útboð að ræða, þegar kaupandi leitar skriflegra, bindandi tilboða í það verk, vöru eða þjónustu, sem verið er að bjóða út og tilboða aflað frá fleiri en einum aðila, samkvæmt sömu upplýsingum og innan sama frests. Samkvæmt sömu grein er um lokað útboð að ræða, þegar tilteknum aðilum er einum gefinn kostur á að gera tilboð.
Meðal málsgagna er bréf stefnda til áfrýjanda og nokkurra annarra skipafélaga 6. júlí 1999. Samkvæmt fyrirsögn fjallaði bréfið um flutninga fyrir stefnda árin 2000 og 2001 og var tekið fram að í því kæmu fram grunngögn um það efni. Séu gögnin hugsuð til upplýsinga svo að þeir, sem áhuga hafi, geti byrjað að vinna að undirbúningi tilboðsgerðar. Með bréfum stefnda 26. nóvember og 8. desember 1999 var ekki verið að beina verðfyrirspurn til fyrirtækjanna heldur leita eftir tilboðum frá þeim á samkeppnisgrundvelli og skuldbatt stefndi sig til að ganga að hagstæðasta tilboðinu. Breytir fyrirsögn bréfsins 26. nóvember engu um það. Var hér um lokað útboð að ræða í merkingu laga nr. 65/1993.
Í 6. gr. áðurnefndra laga segir, að öll tilboð, sem gerð séu á grundvelli sama útboðsins, skuli opna samtímis, á þeim stað og tíma, sem kveðið var á um í auglýsingu eða sérstakri tilkynningu. Skuli bjóðendum eða fulltrúum þeirra heimilt að vera viðstaddir opnun tilboða. Í 8. gr. laganna er kveðið á um það að lesa skuli upp nöfn bjóðenda og heildarupphæð tilboðs. Einnig skuli lesa upp og skrá kostnaðaráætlun sé þess kostur. Gæta skuli þess að lesa alltaf samsvarandi tölur frá öllum bjóðendum. Kaupandi og allir viðstaddir bjóðendur eða fulltrúar þeirra skulu undirrita fundargerð og skal þeim afhent afrit hennar óski þeir þess.
Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 65/1993 segir um 6. gr., að þar sé lögfest sú meginregla að tilboð skuli öll opna samtímis á fyrirfram auglýstum tíma til þess að tryggja jafnræði aðila og að allar reglur séu í heiðri hafðar. Um 8. gr. segir, að sú regla sé sett að lesa skuli upp nöfn bjóðenda og að lesa skuli samsvarandi tölur frá öllum bjóðendum til þess að gera þeim auðvelt að átta sig á öðrum bjóðendum og tilboðum þeirra.
Með því að efna til útboðs, sem lög nr. 65/1993 taka til, bar stefnda að fylgja þeim fyrirmælum um framkvæmd þess, sem lögin kveða á um. Ekki var farið með tilboð sem bárust samkvæmt reglum 6. gr. og bjóðendur fengu ekki tækifæri til að kynna sér hvort önnur tilboð, sem stefndi fékk, hefðu verið hærri eða lægri en þeirra tilboð og gátu ekki borið þau saman. Ákvæði 6. gr. og 8. gr. hafa að geyma meginreglur um tilhögun útboðs, sem stefndi sniðgekk að mestu. Hann gat ekki bætt úr annmörkum með því að bjóðast til að láta löggiltan endurskoðanda meta tilboðin í trúnaði, auk þess sem endurskoðandinn mat þau ekki sjálfur þegar til kom, heldur fór fyrst og fremst yfir mat stefnda sjálfs á tilboðunum. Er framkvæmd útboðsins háð stórfelldum annmörkum af hálfu stefnda.
III.
Fram er komið í máli þessu, að framkvæmdastjóri og eigandi áfrýjanda var ráðgjafi hjá stefnda árin 1997 1999. Hann var ráðinn til að yfirfara flutningskerfi stefnda og gera flutningssamninga. Stefndi hafði gert samning við hollenskt fyrirtæki, Billiton, sem fólst í því, að Billiton flutti súrál til stefnda, sem framleiddi úr því ál og lestaði í skip. Virðist tilboð áfrýjanda reist á vitneskju, sem hann einn hafði um flutninga stefnda, og ekki var að finna í útboðsgögnum.
Í tilboði áfrýjanda, sem ber fyrirsögnina „Umbeðin verðábending fyrir frakt og flutning Norðuráls“, er tekið fram, að stefndi geti treyst því, fái áfrýjandi samninginn, að hann yrði þannig úr garði gerður, „að hann fullnægi Norðuráli og Billiton algerlega. Útreikningur okkar byggist á einstakri þekkingu okkar á þörfum Norðuráls og Billiton og með því að lágmarka óbeinan kostnað og utanaðkomandi verktaka sem eru þátttakendur nú.“ Í tilboðinu kemur fram, að áfrýjandi telji það henta stefnda best að fá heildarflutning frá seljanda til kaupanda á grunni heildarkostnaðar á hvert tonn, en þar sem kostirnir hefðu ekki verið ræddir til hlítar á fundum þeirra, „væri hægt að nota hvers konar breytta útgáfu af tilboði okkar eða hluta þess.“ Margir valkostir eru nefndir í tilboðinu, og var boð áfrýjanda um 250.000 bandaríkjadala viðbótarafslátt háð því, að aðilar semdu um það á grundvelli ætlaðs kostnaðar þeirrar þjónustu, sem stefndi veldi. Tekið er fram, að í „sanngjörnum og opnum samningaviðræðum gæti Norðurál náð fullum afslætti þ.e. $500.000, fimm hundruð þúsund bandaríkjadölum, af núverandi kostnaði við fyrrnefndan flutningspakka.“ Þá segir að „Tölurnar í dæminu hér fyrir neðan eru ekki raunverulegu tölurnar, þær eru til að skýra reikningsaðferðir sem stungið er upp á.“
Viðmiðun í tilboði áfrýjanda var að verulegu leyti það, sem nefnt var árlegur heildarkostnaður stefnda á þessum tíma. Verður ekki ráðið að aðrir hafi haft gögn um það efni eða að slíkar upplýsingar hafi verið að finna í því, sem kalla má útboðsgögn. Áfrýjandi skilaði ekki skýru tilboði, heldur var tilboð hans að miklu leyti ábending eða uppástunga, sem gat breyst í síðari viðræðum eins og verkast vildi. Verður tilboð hans um samningsgrundvöll að teljast í svo verulegum atriðum í ósamræmi við útboðsskilmála að það uppfylli ekki skilyrði svo því mætti taka, sbr. 12. gr. laga nr. 65/1993. Að því virtu getur áfrýjandi ekki átt aðild að kröfu um að útboð stefnda sé dæmt ógilt með því að það hafi farið í bága við lög nr. 65/1993. Verður samkvæmt því ekki komist hjá að sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Vísað er frá Hæstarétti kröfu áfrýjanda, Íslandsskipa ehf., um að viðurkennt verði að um lokað útboð samkvæmt lögum nr. 65/1993 um framkvæmd útboða hafi verið að ræða þegar stefndi, Norðurál hf., óskaði eftir því við sjö nafngreind fyrirtæki að þau legðu fram tilboð í sjóflutninga á afurðum og aðföngum til stefnda, sbr. bréf stefnda til þessara fyrirtækja 26. nóvember 1999.
Stefndi er að öðru leyti sýkn af kröfu áfrýjanda.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 20. desember 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 30. nóvember 2000, hefur Íslandsskip ehf., kt. 560999-2089, Ármúla 38 Reykjavík, höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 26. apríl 2000 á hendur Norðuráli hf., kt. 570297-2609, Grundartanga Skilmannahreppi, Borgarfjarðarsýslu, en fyrir hönd fyrirtækisins er stefnt framkvæmdastjóra þess Birni Svennig Högdahl, kt. 220234-2669, Suðurgötu 32 Akranesi.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að um lokað útboð samkvæmt lögum nr. 65/1993 hafi verið að ræða þegar stefndi óskaði eftir við sjö nafngreind fyrirtæki að þau legðu fram tilboð í sjóflutninga á afurðum og aðföngum til stefnda, sbr. bréf stefnda til þessara fyrirtækja, dags. 26. nóvember 1999. Þá er þess krafist að dæmt verði að útboðið sé ógilt og það sem slíkt og úrvinnsla þess hafi verið andstæð lögum um framkvæmd útboða nr. 65/1993. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær, að fyrri hluta kröfugerðar stefnanda verði vísað frá dómi, þ.e. þeirri kröfu að viðurkennt verði með dómi að um lokað útboð samkvæmt lögum nr. 65/1993 hafi verið að ræða þegar stefndi óskaði eftir við sjö nafngreind fyrirtæki að þau legðu fram tilboð í sjóflutninga á afurðum og aðföngum til stefnda sbr. bréf stefnda til þessara fyrirtækja dags. 26. nóvember 1999. Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öðrum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað eftir mati dómsins.
Munnlegur málflutningur um formhlið fór fram 12. október sl., og var þá m.a. bókað: “Dómari ákveður nú í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991 að ljúka þessum þætti máls með eftirfarandi bókun: Dómari ákveður að hafna frávísunarkröfu stefnda að svo stöddu. Ákvörðun um málskostnað í þessum þætti máls bíður endanlegrar niðurstöðu í málinu.”
II.
Stefnandi lýsir málsatvikum og málsástæðum svo, að hinn 26. nóvember 1999 hafi stefndi, er rekur álverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði, ritað sér og sex öðrum völdum fyrirtækjum bréf og boðið þeim að leggja fram tilboð í sjóflutninga á vegum stefnda á áli, ásamt því að flytja aðföng til verksmiðjunnar frá ýmsum stöðum, mest Rotterdam. Í fyrirsögn þessa bréfs komi fram að um verðfyrirspurn sé að ræða, en flutningsaðilunum engu að síður boðið að gera tilboð í flutningana á grundvelli þeirra upplýsinga um magn og fleira sem stefndi áætlaði að hann þyrfti að flytja á árinu 2000 og 2001. Samningi hafi verið heitið við þann sem byði lægst í þessa flutninga. Til að tryggja að fyllsta hlutleysis yrði gætt um meðferð tilboðanna og útreikning tilboða hvers bjóðanda hafi bjóðendum verið boðið upp á að fenginn yrði óháður löggiltur endurskoðandi til að leggja mat á tilboðin, í stað þess að opna þau með formlegum hætti. Fleiri en einn af þeim sjö aðilum sem var boðið hafði verið að gera tilboð hafi óskað eftir því að þessi aðili yrði tilnefndur. Með bréfi, dags. 8. desember 1999, hafi stefndi tilkynnt öllum bjóðendum að Guðmundur Snorrason löggiltur endurskoðandi hefði verið fenginn til framkvæma mat á því hver bjóðenda legði fram hagstæðasta tilboðið. Af því tilefni hafi bjóðendur verið beðnir um að leggja fram tilboð sín í tveim lokuðum umslögum á skrifstofu stefnda, öðru merktu Norðuráli en hinu Guðmundi Snorrasyni, fyrir kl. 16.00 föstudaginn 10. desember 1999.
Eins og aðrir bjóðendur hafi stefnandi lagt fram tilboð sitt með þeim hætti og á þeim stað sem óskað var eftir og fyrir þann tíma sem fram kom í bréfinu. Það hafi verið mat stefnanda á þeim tíma, að hans tilboð væri örugglega það hagstæðasta, enda hafi það verið mun lægra en sá samningur sem í gildi var við Samskip hf. og einnig aðrir flutningssamningar sem stóru flutningsfélögin höfðu gert við stór inn- og útflutningsfyrirtæki.
Það hafi komið stefnanda mjög á óvart, þegar hann fékk fregnir af því að stefndi hygðist ganga til samninga við Eimskipafélag Íslands hf. og honum tjáð af starfsmanni stefnda að það félag hefði boðið lægst í flutningana. Áður en stefndi gekk frá samningi við Eimskipafélag Íslands hf. kveðst stefnandi hafa óskað eftir því að fá að sjá útreikninga endurskoðandans á tilboði sínu. Eftir nokkrar ítrekanir hafi honum verið sendir útreikningar á tilboðinu. Þeir útreikningar hafi komið stefnanda mjög á óvart, enda útreikningar mun hærri en tilboðið sagði til um.
Með bréfi til Guðmundar Snorrasonar endurskoðanda, dags. 17. janúar 2000, hafi stefnandi farið formlega fram á að hinn hlutlausi aðili svaraði nokkrum spurningum um útreikningsaðferðina og gerði grein fyrir þeim gögnum sem lágu fyrir þegar hann lagði mat á tilboðin. Því bréfi hafi ekki verið svarað bréflega, en símleiðis hafi endurskoðandinn vísað öllum spurningum varðandi útboðið til stefnda. Með bréfi, dags. 25. janúar 2000, hafi stefnandi óskað eftir því við stefnda að hann svaraði sömu spurningum og stefnandi hafði beðið endurskoðandann að svara. Í bréfi stefnda dags. 2. febrúar 2000, komi fram að hinn hlutlausi aðili hafi aldrei reiknað út tilboðin heldur hafi útreikningurinn farið fram hjá stefnda og tölurnar verið sendar endurskoðandanum, sem farið hafi yfir þær og staðfest. ,,Að öðru leyti lagði hann ekki mat á tilboðin,” segi í bréfi stefnda. Þá komi fram í þessu sama bréfi að endurskoðandanum hafi ekki verið sýndur samningur stefnda og Billiton, eiganda álsins og hráefnisins. Stefnandi telur að þeim er mat tilboðin hefði verið nauðsynlegt að kynna sér efni hans til þess að geta með raunhæfum hætti metið hagkvæmni tilboðanna. Stefnandi telur að ekki sé hægt að túlka bréf stefnda frá 2. febrúar 2000, með öðrum hætti en að mat hins hlutlausa aðila hafi ekki falist í öðru en að staðfesta útreikning stefnda og ekki hafi verið farið fram á að hann legði faglegt mat á tilboðin.
Þegar ofangreint bréf stefnda lá fyrir kveðst stefnandi hafa óskað eftir því í bréfi til stefnda, dags. 24. febrúar 2000, að hann veitti upplýsingar um tiltekin atriði. Í bréfinu hafi stefndi m.a. verið spurður um tvö atriði. Annars vegar um flutningsmagn og hins vegar um losunarkostnað í Rotterdam, en um hið fyrrnefnda taldi stefnandi að stefndi hefði við útreikninga sína miðað við allt annað magn en raunverulegt. Hvað síðara atriðið varðaði þá kveður stefnandi fram hafa komið í útreikningi stefnda á tilboði sínu $ 270.000 losunarkostnað í Rotterdam, sem stefnandi kannast ekki við, enda hafi stefnanda verið kunnugt um að stefndi greiddi engan losunarkostnað í Rotterdam. Stefndi hafi svarað því til um flutningsmagnið í bréfi, sem hann ritaði 1. mars 2000, að miðað hefði verið við flutningana á árinu 1999 þegar tilboðin voru metin, án þess að draga frá þann hluta sem var ekki á vegum stefnda. Um losunarkostnaðinn hafi hann svarað því einu, að forsvarsmaður stefnanda hafi samið á sínum tíma við Samskip hf. um ákveðinn losunarkostnað í Rotterdam, tvo Bandaríkjadali. Þetta síðargreinda kveður stefnandi alls ótengt losunarkostnaðinum, ,,enda var verið að semja við Samskip hf. á þeim tíma þegar þetta gjald kom á um þátttöku stefnda í sérstökum kostnaðarauka Samskipa hf. við losun á annarri höfn en áður hafði verið ákveðið.”, eins og segir orðrétt í stefnu. Að öðru leyti hafi stefndi ekki gefið skýringu á ástæðum þess að bætt hafi verið við tilboð stefnanda $ 270.000 losunarkostnaði.
Í framhaldi þessa bréf kveðst stefnandi hafa óskað eftir að fá að sjá tilboð lægstbjóðanda, enda hafi hann talið á grundvelli þess að stefndi hefði ekki staðið rétt að málum við mat á tilboðunum, að hann sem aðrir bjóðendur ættu rétt á því að fá uppgefið tilboð Eimskipafélags Íslands hf. Í því efni hafi stefnandi vísað til þess að í ljós hafi komið að stefndi hefði brugðist því hlutleysi sem hann hefði lofað um meðferð tilboðanna og útreikningurinn farið fram með öðrum hætti en stefndi hefði hátíðlega lofað í bréfi til bjóðenda. Stefnandi hafi talið þegar svo væri komið, sbr. bréf hans dags. 17. mars 2000, þá bæri stefnda með vísan til laga um framkvæmd útboða að gefa öllum bjóðendum upplýsingar um fjárhæð þess tilboðs sem var tekið svo á því léki enginn vafi að stefndi hafi tekið hagkvæmasta tilboðinu.
Í þessu bréfi hafi stefnda jafnframt verið gefinn kostur á því að sameiginlega yrði fundinn óvilhallur aðili til að meta tilboðin til að eyða þessum vafa. Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 10. apríl 2000, hafi verið fallist á að tilnefna óvilhallan aðila gegn því skilyrði að stefnandi greiddi allan kostnað af því mati auk lögfræðikostnaðar stefnda, ef niðurstaðan yrði sú að tilboð stefnanda hefði ekki verið lægst. Á þetta hafi stefnandi ekki getað fallist, enda hafi hann í sjálfu sér ekki getað útilokað að lægsta tilboðinu hefði verið tekið því hann hefði aldrei séð það. Í bréfi stefnanda til stefnda hinn 14. apríl 2000, hafi stefnandi vísað til þess að í ljós hefði komið að tilboð hans hefði ekki verið reiknað rétt út og stefndi ekki staðið rétt að málum við útboðið. Á þeim forsendum hafi hann talið sig eigi skilyrðislausan rétt á að fá það staðfest með óyggjandi hætti að tilboð hans hefði ekki verið lægst þrátt fyrir þær leiðréttingar. Í bréfi stefnda dags. 14. apríl sl., hafi verið dregið í land með kostnaðinn, en neitað að mat hins hlutlausa aðila færi fram á öðrum forsendum en þeim að hann bæri saman tilboð stefnanda og Eimskipafélagsins án þess að hann fengi aðgang að öðrum samningum eða gögnum. Á þetta hafi stefnandi ekki getað fallist og í bréfi til stefnda hafi hann tilkynnt að hann gæti ekki séð að samkomulag gæti tekist á milli aðila.
Stefnandi byggir á því í málinu að hann ásamt sex öðrum fyrirtækjum hafi tekið þátt í lokuðu útboði á vegum stefnda um sjóflutninga á áli og aðföngum til verksmiðju stefnda á Grundartanga. Telur stefnandi að stefnda hafi borið skylda til þess við framkvæmd útboðsins að fara í einu og öllu eftir lögum um framkvæmd útboða nr. 65/1993. Telur stefnandi að á því hafi orðið verulegur misbrestur sem leiða eigi til ógildingar á útboðinu.
Það er skilningur stefnanda á lögunum um framkvæmd útboða að þau séu fortakslaus og mæli fyrir um skyldu til þess sem stendur að útboðinu og þeirra sem taka þátt í því að fara í einu og öllu eftir því sem lögin mæla fyrir um. Stefndi geti því ekki fyrirfram ákveðið að tiltekin ákvæði laganna eigi ekki að gilda um útboðið. Þá sé það grundvallaratriði í lögunum að bjóðendur fái að vita um boð hinna og hver þeirra hafi gert verkkaupa hagstæðasta tilboðið. Telur stefnandi að án þess að kunngera fjárhæð tilboðanna þá sé ekki hægt að sannreyna að gengið hafi verið að lægsta eða hagstæðasta tilboðinu.
Stefnandi telur engan vafa á því leika að um lokað útboð hafi verið að ræða þegar stefndi óskaði eftir tilboðum í sjóflutninganna, en ekki verðfyrirspurn eins og segir í fyrirsögn bréfs stefnda til bjóðenda. Það sem skipti máli sé hverju er verið að leita eftir, en ekki hvað stóð í fyrirsögn bréfsins. Með bréfinu sé ekki verið að kanna verðskrá einstakra aðila heldur verið að láta sjö aðila gera tilboð hvern á móti öðrum á samkeppnisgrundvelli í þeim tilgangi að þeir lækkuðu auglýst verð sín og í því falist skuldbinding af hálfu stefnda til að ganga að hagstæðasta tilboðinu. Með því að kalla útboðið verðfyrirspurn telur stefnandi að stefndi hafi verið að reyna að sniðganga lögin um framkvæmd útboða. Stefndi sé alvanur útboðum og hafi gert sér fulla grein fyrir því að hann hafi verið að fara í kringum lögin um framkvæmd útboða þegar hann leitaði eftir tilboðum í sjóflutningana.
Að bjóðendum skuli hafa verið heitið trúnaði komi ekki í veg fyrir að hægt sé að ganga að stefnukröfum stefnanda í máli þessu, enda beinist stefnukröfurnar ekki að því að stefndi upplýsi um tilboð Eimskipafélags Íslands hf., heldur sýni fram á að hann hafi uppfyllt skilyrði laganna um framkvæmd útboða. Hvað varði annars trúnaðinn, þá hafi þeim, sem talinn sé hafa boðið lægsta verðið í flutningana miðað við umfang þess félags á skipamarkaði, mátt vera ljóst, að um lokað útboð væri að ræða og lög um framkvæmd útboða giltu um útboðið. Jafnframt hafi hann sem og aðrir bjóðendur mátt gera sér grein fyrir að stefnda væri óheimilt að standa að málum með öðrum hætti en lögin mæltu fyrir um og að trúnaðurinn aldrei getað verið lögunum yfirsterkari. Bjóðendur hafi því tekið ákveðna áhættu um það að stefndi gæti haldið þann trúnað sem boðaður var í útboðinu.
Stefnandi telur að á því leiki enginn vafi að stefndi hafi ekki staðið að málum eins og hann sjálfur hafði skuldbundið sig til. Við mat á tilboðunum hafi hann lýst því yfir í sérstöku bréfi að hlutlaus og óháður aðili yrði fenginn til að meta tilboðin. Þrátt fyrir þessi beinu loforð til allra bjóðenda hafi hann metið tilboðin sjálfur og fengið staðfestingu hins hlutlausa aðila á réttmæti útreikninga sinna. Í ljós hafi komið síðar að forsendur útreiknings stefnda hafi verið rangar og staðfesting hins hlutlausa aðila lítils virði þegar tillit sé tekið til þess að hann hafi ekki haft önnur gögn til að byggja á en útreikning stefnda.
Stefnandi byggir jafnframt á því að stefnda hafi verið óheimilt að semja við Eimskipafélag Íslands hf. fyrr en hann hefði gert öðum bjóðendum grein fyrir útreikningi á tilboðum sínum og gefið þeim kost á að koma að athugasemdum við útreikninga stefnda eða hins hlutlausa aðila. Á það hafi verulega skort. Það hafi ekki verið fyrr en verið var að skrifa undir samning við Eimskipafélag Íslands hf. sem stefnandi hafi fengið útreikning stefnda á tilboði sínu. Stefnandi hafi þá strax gert alvarlegar athugasemdir, sem hafðar hafi verið að engu.
Áskilnaður er gerður af hálfu stefnanda um að gera bótakröfu á hendur stefnda í sérstöku máli sem síðar yrði höfðað á grundvelli niðurstöðu þessa máls.
Um lagarök vísar stefnandi til laga um framkvæmd útboða nr. 65/1993, einkum 2. gr., 4. gr., 6. - 8. gr., 14. gr., 17. gr., 18.gr. og 20. gr. laganna. Þá er vísað til meginreglna samkeppnislaga, sbr. lög nr. 8/1993, og um málskostnaðarkröfu til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um skiptingu sakarefnis er vísað til 31. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Stefndi vísar til bréfs síns, dags. 26. nóvember 1999, þar sem hann hafi óskað eftir upplýsingum um verð fyrir flutninga á öllum aðföngum fyrir verksmiðju sína á Grundartanga að undanskildum tilteknum flutningum. Þar sem ekki hafi verið mögulegt að tilgreina magn flutninga nákvæmlega hafi verið skýrt frá magni fyrir stækkun og áætluðu magni eftir stækkun. Í bréfinu komi fram að hugsanlegt sé að flutningar með gjall leggist niður. Ennfremur að stefnt sé að því að gera samning til tveggja ára með heimild til þess að framlengja hann um eitt ár. Í bréfinu segi síðan orðrétt: "Farið verður með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Ekki verður um formlega opnun á tilboðum að ræða, þar sem ólíklegt er að hægt verði að bera þau saman á einfaldan hátt. Ef bjóðendur óska þess mun Norðurál fá óháðan löggiltan endurskoðanda til að meta tilboðin. Þetta er gert til að bjóðendur geti verið vissir um að gengið verði til samninga við þann sem leggur fram hagstæðasta tilboðið fyrir Norðurál, og að heiðarlega sé að málum staðið. Norðurál áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðunum."
Stefnandi hafi kosið, einn allra bjóðenda, að skila verðhugmyndum sínum á ensku. Stefnandi hafi kosið að nefna bréf sitt, sem hann sjálfur hafi nefnt tilboð, "Requested Price Indication for Nordural Freight and Logistics" sem samkvæmt framlagðri þýðingu löggilts skjalaþýðanda er á íslensku: ,,Umbeðin verðábending fyrir frakt og flutning Norðuráls". Þá segi í skjalinu að útreikningar hafi verið gerðir á grundvelli einstakrar þekkingar á kröfum Norðuráls og Billitons og tilgangur stefnanda sé að gera boðið þannig úr garði að það henti aðstæðum Norðuráls. Vísað sé í samning Norðuráls við Billiton og tekið mið af honum. Engir aðrir sem kynntu verð, hafi haft þann samning undir höndum svo vitað sé, enda hafi hann ekki verið hluti útboðsgagna.
Í skjalinu sé fjallað um verð undir fyrirsögninni "Cost indication" sem hinn löggilti skjalaþýðandi þýðir með orðinu “verðábending”. Í upphafi sé tekið fram að hugmyndapakkinn sé reistur á árlegum kostnaði stefnda við sambærilega flutninga. Ekki sé vitað til þess að aðrir hafi haft upplýsingar um kostnaðartölu stefnda að þessu leyti. Ekki verði annað séð af skjalinu en stefnandi geri ráð fyrir samningaviðræðum ("needs to be negotiated") eftir að hann hafi lagt fram verðhugmundir sínar. Miðað við útreikninga stefnanda virðist hann telja tilboð sitt vera USD 2.700.000.- með fullum afsláttum.
Í lok bréfs síns taki stefnandi fram að hann sé í sérstakri aðstöðu til að gera tilboð því hann hafi verið í miklum mæli viðriðinn þróun og framkvæmd flutningsþarfa stefnda.
Í heild sé skjalið óskýrt um verð og telur stefndi að það væri ekki talið gilt tilboð í formlegu útboði.
Sigurður Ernir Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnanda, hafi áður starfað fyrir stefnda og aðallega unnið að skipulagi flutningsmála.
Fleiri en einn þeirra aðila sem létu í té verðhugmundir sínar hafi óskað eftir því að stefndi fengi óháðan löggiltan endurskoðanda til að meta tilboðin. Hafi Guðmundur Snorrason, löggiltur endurskoðandi og varaformaður Félags löggiltra endurskoðenda, verið tilnefndur af Félagi löggiltra endurskoðenda til þess starfs. Það hafi ekki síst verið vegna vilja skipafélaganna sem sá háttur var hafður á að fara með allar upplýsingar sem trúnaðarmál og hafa ekki formlega opnun, enda er hér um mjög viðkvæmar upplýsingar að ræða.
Það sé staðreynd að öllum verðhugmyndum hafi verið skilað fyrir kl. 16:00 föstudaginn 10. desember 1999 og ekkert skipafélaganna hafi fengið upplýsingar um verð þau sem aðrir höfðu gefið upp.
Stefndi hafi strax hafið athugun á verðum þeim er honum höfðu borist. Samkvæmt útreikningum hans hafi Eimskipafélag Íslands hf. sett fram lægsta verðið og þar með það hagkvæmasta fyrir stefnda. Útreikningar stefnda hafi verið sendir Guðmundi Snorrasyni, löggiltum endurskoðanda, sem hafi farið yfir útreikningana og staðfesti þá að öllu leyti.
Í málflutningi sínum leggi stefnandi mikið upp úr því að sá sem skoðar verðin verði að hafa samning stefnda við Billiton til hliðsjónar og leggi að öðru leyti mikla áherslu á þann samning. Hvort sem um sé að ræða verðkönnun eða útboð sé það staðreynd að samningur við Billiton sé ekki hluti þessa máls og sé stefnandi að blanda öðrum atvikum í mál þetta en þar eigi heima. Aðrir aðilar hafi ekki haft samning stefnda við Billiton undir höndum. Sá samningur sé á ábyrgð og áhættu stefnda og komi máli þessu ekki við að þessu leyti.
Stefndi telur að ekki verði betur séð en fyrri krafa stefnanda sé krafa um viðurkenningu á því að tiltekin málsástæða eigi við. Samkvæmt d-lið 1. tl. 80. gr. laga nr. 91/1991 sé einungis hægt að gera kröfu um viðurkenningu á tilteknum réttindum, en ekki viðurkenningu á því að tilteknar lagareglur skuli gilda um ágreiningsefni aðila á milli. Verði ekki séð að 2. tl. 25. gr. eml eigi við málsefnið, einkum síðari hluta kröfugerðar stefnanda.
Stefndi heldur því fram að um verðfyrirspurn hafi verið að ræða eins og fram komi í fyrirsögn skjalsins. Í þessu sambandi skipti miklu máli hvernig móttakandi hafi skilið gögnin sem lágu fyrir. Í svari stefnanda komi fram sá skilningur hans að um fyrirspurn um verðhugmyndir hafi verið ræða. Þá komi skilningur stefnanda skýrt fram í lok skjalsins, þar sem hann fjalli um "Cost indications" eða kostnaðarviðmiðanir eða hugmyndir. Stefnandi geti ekki haldið því fram nú að hann hafi verið að gera tilboð, þegar hann hafi augsýnilega verið að gera allt annað. Stefnandi hafi þannig sjálfur viðurkennt að aðeins væri um verðfyrirspurn að ræða sem stefndi hugðist hagnýta sér í viðskiptum sínum.
Lög nr. 65/1993 um framkvæmd útboða, útboðslög, banni ekki að kaupendur geti hagnýtt sér þá aðferð að kalla eftir verðhugmyndum og gera fyrirspurnir og semja síðan á grundvelli þeirra hugmynda.
Það sé deginum ljósara að þó skipafélögin hafi verðskrá, þá sé hægt að semja við þau um verulegan afslátt frá verðskrá, þó ekki komi til formlegt útboð skv. útboðslögum, sérstaklega þegar um jafn viðamikla flutninga sé að ræða sem hér sé raunin. Þar sem kröfur stefnanda séu einungis reistar á útboðslögunum hljóti þetta að leiða til sýknu.
Þó svo að stefndi haldi því fram að útboðslögin eigi ekki við um atvik máls þessa, krefst hann sýknu þó svo talið yrði að útboðslögin eigi við og að um útboð hafi verið að ræða. Hvernig sem á málið væri litið þá hefði stefnandi ekki fengið flutningana, þótt útboðslögin giltu um málið. Rétt eins og við útboð hafi verið samið við þann aðila sem sendi inn hagkvæmasta verðið. Verð Eimskipafélags Íslands hf. hafi verið lægst hvernig sem á málið sé litið og skipti það mestu máli. Þá sé það grundvallaratriði að stefnandi hafi, þrátt fyrir allt, tekið þátt í framkvæmdinni með þeim hætti sem raun bar vitni. Sumir bjóðendur hafi óskað sérstaklega eftir því að hafa þann hátt á sem var viðhafður og lagt á það mikla áherslu að verð þau sem fram voru lögð yrðu ekki sýnd öðrum bjóðendum eða óviðkomandi.
Við skýringu á útboðslögunum sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir tilurð þeirra. Stefndi heldur því fram að lögin hafi einkum verið sett til þess að gæta hagsmuna verktaka eða seljenda þjónustu og þó einkum til að gæta hagsmuna undirverktaka. Þetta sjáist best þegar litið sé til þess að nánast allt efni laganna sé sótt beint í IST-30, almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir. Með hliðsjón af þessu verði sá skilningur varla lagður í ákvæði útboðslaga að sérhvert frávik skuli leiða til ógildingar skv. 20. gr. útboðslaga, einkum ef aðilar hafi komið sér saman um aðra aðferð. Þá er því haldið fram að útboðslögin séu einstök í hinum vestræna heimi. Það hafi tæplega verið ætlun löggjafans að hafa allt annan hátt á en viðgengst í nágrannaríkjunum og koma þannig í veg fyrir nauðsynlega þróun á framkvæmdamarkaðnum. Stefnandi hafi ekki óskað eftir því að fá að vita um tilboð annarra eða aðrar upplýsingar fyrr en löngu síðar. Miðað við trúnaðarheit sem lá fyrir í upphafi geti stefnandi ekki nú krafist upplýsinga á grundvelli útboðslaga, en þau lög banni ekki slíkan trúnað. Hlutlaus aðili hafi farið yfir útreikningana og samanburðinn og ekkert haft við þá að athuga. Samanburðurinn eða matið sé í grunn gert af stefnda, en löggilti endurskoðandinn hafi haft tækifæri til þess að gera athugasemdir við það. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við tilnefningu hins löggilta endurskoðanda í upphafi og athugasemdir um hæfni hans ekki komið fram fyrr en síðar.
Stefndi telur að það skipti sköpum í útboðsmálum hvernig seljendur eða bjóðendur máttu líta á málið. Í þessu máli hafi sérstaklega verið tekið fram að ólíklegt væri að hægt væri að bera verðin saman á auðveldan hátt. Þetta mál sé því marki brennt að það hafi legið fyrir í upphafi að um mat yrði að ræða og það ekki einfalt. Í mörgum tilvikum séu allar aðstæður nákvæmari og auðveldari. Þetta hafi stefnandi vitað þegar hann kaus að taka þátt í verðfyrirspurn stefnda. Ekki verði séð hvaðan sú regla sé fengin að stefnda hafi verið skylt að gera öðrum aðilum grein fyrir útreikningi áður en hann samdi við þann aðila sem lagt hafði fram hagstæðasta verðið. Ekki sé verjandi að telja útboðið, eins og stefnandi kýs að nefna það, ógilt. Telja verði að ógildingarákvæðið eigi einungis við þegar kostur gefst á því að bjóða verk út aftur, en slíkt sé alls ekki uppi á teningnum hér og stefnukrafan lúti ekki að þeirri aðferð. Stefndi hafi gætt jafnræðis með aðilum og öll skipafélögin hafi setið við sama borð.
Ef svar stefnanda sé talið vera tilboð, þá sé ljóst að það hefði ekki staðist almennar formreglur sem gera verði til tilboða. Svarið sé einmitt mjög í líkingu við verðhugmyndir og stefnandi hafi kosið að koma á framfæri alls konar sjónarmiðum sem ekki hafi verið beðið um, að því er virðist til að hafa áhrif á fyrirhugaðar samningaviðræður um verð.
Þá sé stefnukrafan í sjálfu sér óskýr. Ógildingarkrafan sé ekki skýrð nánar eða hvaða þýðingu eða til hvers það skuli leiða ef þess háttar ógildingarkröfu væri veitt brautargengi. Ef stefnandi hafi ætlað að óska ógildingar skv. 20. gr. útboðslaga þá hefði honum verið skylt að taka það fram vegna þess að um sérstaka reglu sé að ræða sem ekki geti átt við nema hægt sé að bjóða út aftur.
Stefndi vísar til grundvallarreglu samningaréttar um að samningafrelsi skuli gilda og sérhverjar takmarkanir á því skuli túlka þröngt. Þá er vísað til grunnsjónarmiða kröfuréttar og laga um framkvæmd útboða nr. 65/1993.
IV.
Framkvæmdastjóri stefnanda, Sigurður Ernir Sigurðsson, gaf aðilaskýrslu fyrir dóminum. Málavaxtalýsing sóknaraðila sem að framan er rakin er studd framburði hans. Hann starfaði sem ráðgjafi hjá eiganda Norðuráls hf., Columbia Ventures, frá 1997 þar til í september 1999, einkum við að skipuleggja og koma á fót flutningakerfi Norðuráls ehf. Hann ítrekaði að hann hefði frá upphafi litið svo á að um útboð væri að ræða og að stefndi hefði skuldbundið sig til þess að semja við lægstbjóðanda. Hann mat tilboð stefnanda svo að boðið hefði verið um 8 dollara flutningsgjald á tonnið af áli og vefengdi að Eimskipafélag Íslands hf. hefði boðið svo lágt. Hann kvað fyrri samning við Samskip hf. hafa verið um 15,75 dollara á tonnið. Hann kvaðst ekki hafa verið í vafa um að tilboðin yrðu að vera trúnaðarmál, Eimskip gæti ekki boðið í þetta öðruvísi, en treyst því að hinn löggilti endurskoðandi mundi leggja sjálfstætt og hlutlaust mat á tilboðin. Þegar hann var spurður að því hvaða enska orð hann notaði um tilboð svaraði hann að hann notaði orðin offering, bid eða request for proposal. Hann sagði að í sínu tilboði hefðu verið innifaldir tilteknir kostnaðarliðir sem hann hefði ekki vitað um, t.d. við að losa gámana hjá stefnda og taka skautin inn á gólf í skautsmiðjunni. Það hefðu verið fáeinir þættir sem hann hefði ekki vitað nægilega vel um til þess að geta gefið upp ákveðið verð, sagðist t.d. ekki hafa vitað hvað stóri lyftarinn kostaði þá. Hann hefði ætlað að taka yfir öll tækin sem stefndi var með í verkefninu. Hann hafi ætlað að taka álið af færibandinu og setja það í gámana. Til þess að bera saman tilboðin hefði ekki þurft að nota þennan part. “Það var alveg á hreinu hvað ég bauð sjófraktina á”. Hann orðaði það svo að í tilboði sínu hefði hann gefið upp verðsvæði. Hann hefði því notað fyrirsögnina Cost Indication eða verðábending yfir þeim kafla tilboðs síns þar sem fjallað er um verð, og bætti við: ,,Ég var búinn að bjóða í september eiginlega þetta sama, mismunurinn á septembertilboðinu mínu og þessu tilboði voru 250 þúsund dollarar, ég hækkaði afsláttinn. Númerin voru vituð bæði af mér og Norðuráli, við visssum alveg hvað við vorum að tala um og höfðum gert það síðustu tvo mánuði. Auk þess höfðum við Ragnar, Axel og ég sjálfur átt fund þar sem við fórum yfir það.”
Guðmundur Snorrason, löggiltur endurskoðandi, gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann sagði að stefndi hefði leitað til Símonar Gunnarssonar formanns Félags löggiltra endurskoðenda um að yfirfara þau tilboð sem kynnu að berast. Hann hefði ekki haft tök á að vinna verkið og vísað á sig. Hann kvaðst hafa tekið við tilboðunum í lokuðum umslögum. Aksel Jansen, innkaupastjóri stefnda, hefði fengið annað samrit og útbúið yfirlitsblað með útreikningum á tilboðunum. Út frá þeim kvaðst vitnið hafa reynt að leggja mat á það hvort við þá útreikninga væri gengið út frá eðlilegum forsendum, svo sem um magn, og í samræmi við þau gögn sem bjóðendur höfðu fengið. Niðurstaða sín hefði verið sú að þarna væri um eðlilegar forsendur að ræða og sömu forsendur gagnvart öllum bjóðendum. Að því fengnu hefði hann farið yfir útreikninga innkaupastjórans og borið þá saman við tilboðin, þar á meðal hvort einingaverðum bæri saman. Vitnið minntist þess að hafa gert athugasemd við eina tölu, losunarkostnað, 270 þúsund dollara, í útreikningum Aksels á tilboði Íslandsskipa hf., og í ljós hafi komið að sú athugasemd hefði átt við rök að styðjast að sínu mati, það hefði ekki verið minnst á þennan kostnað í tilboði eða verðhugmyndum Íslandsskipa. Vitnið fullyrti að þessi tala hefði ekki ráðið úrslitum um það hvort tilboð stefnanda teldist lægst, munurinn á tilboði Íslandsskipa og lægsta tilboði hefði verið það mikill að það hefði engu breytt þótt þessi tala væri tekin út. Vinna sín hefði fyrst og fremst verið að yfirfara útreikninga Aksels Jansen, bera saman einingaverð og tryggja það að það væri heiðarlega að málum staðið. Vitnið sagði að tilboðin hefðu verið sett upp með nokkuð ólíkum hætti. Aðspurt sagði vitnið að tilboð Eimskips hefði verið mjög skýrt framsett og auðvelt að lesa úr því tölur. Aðspurt sagði vitnið: “Eimskip var með lægsta tilboðið, það var alveg klárt mál.”
Aksel Jansen, innkaupastjóri hjá stefnda, Norðuráli hf., bar vitni fyrir dóminum. Hann kvaðst ásamt Ragnari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs stefnda, hafa gengið frá samningnum við Eimskip. Hann kvað óskir hafa komið fram um að ekki yrði um formlega opnun á tilboðunum að ræða, trúnaðar yrði gætt og að óháður löggiltur endurskoðandi yrði fenginn til þess að meta tilboðin. Hann kvaðst hafa rætt þetta sérstaklega í síma við Sigurð framkvæmdastjóra stefnanda. Hann hefði verið á allan hátt sáttur við þessa meðferð málsins. Aðspurður sagði innkaupastjórinn að í tilboði stefnanda hefðu verið boðnir tilteknir hlutir, svo sem að losa og lesta gáma og koma vörum inn á verksmiðjugólf og inn á lagera, sem stefndi hefði ekki getað samið um, samningar við verkalýðsfélög hafi staðið því í vegi. Stefnda sé samkvæmt þeim óheimilt að vera með undirverktaka í því sem fellur undir daglega starfsemi verksmiðjunnar. Ýmislegt annað sem stefnandi bauð hefði verið hægt að samþykkja. Innkaupastjórinn kvaðst í yfirlitstöflu yfir tilboðin sem hann afhenti hinum löggilta endurskoðanda hafa bætt einni tölu inn í tilboð Íslandsskipa hf. og skáletrað hana, það er losunarkostnaði í Rotterdam 270 þúsund dollara. Í verðfyrirspurn stefnda sé óskað eftir tilboði í þennan lið. Það hefði ekki komið fram í tilboði stefnanda hvort þessi kostnaður væri innifalinn eða ekki. Hann kvaðst einnig hafa þurft að bæta liðum inn í önnur tilboð til þess að hægt væri að bera tilboðin saman á jafnréttisgrunni. Hann kvaðst hafa gert endurskoðandanum grein fyrir því að þær tölur sem voru skáletraðar væru ekki úr tilboðunum heldur frá sér komnar. Þótt þessi tala hefði verið tekin út hefði það ekki breytt útkomunni í samanburðinum. Innkaupastjórinn kvað Eimskipafélag Íslands hf. hafa verið með lægsta tilboðið. Það hefði verið miklu lægra en verðið í samningnum við Samskip sem var að renna út. Tilboð Eimskipafélagsins hefði verið mjög skýrt, verð gefin upp lið fyrir lið og vel skilgreint hvað væri innifalið í verðunum. Tilboð stefnanda hefði verið mun óljósara, boðið upp á ýmis frávik og tekið fram að semja mætti um eitt og annað síðar. Framsetning tilboðsins hafi ekki verið í samræmi við óskir í gögnum sem send voru út. Aðspurður sagði innkaupastjórinn að hann hefði litið á tilboðin sem verðhugmyndir, hann taldi þetta spurningu um hvaða orðalag væri notað eða málvenju. Hann kvaðst ekki hafa litið svo á að stefnandi væri í formlegu útboði. Hann benti á að í verðfyrirspurninni sem stefndi sendi skipafélögunum sjö væri tekið fram að Norðurál áskildi sér rétt til þess að hafna öllum tilboðunum. Hann taldi að útboðið eða verðfyrirspurnin hefði ekki byggt á samningnum við Billiton. Fram kom hjá innkaupastjóranum að endurskoðun og breytingar á samningnum við Billiton hefðu staðið yfir þegar verðfyrirspurnin var gerð.
V.
Niðurstöður.
Dómurinn álítur að við úrlausn á ágreiningi málsaðila eigi ekki að skipta máli, hvort í bréfi stefnda til stefnanda og 6 annarra fyrirtækja, dags. 26. nóvember 1999, felist útboð samkvæmt lögum um framkvæmd útboða nr. 65/1993 (útboðslögum). Stefndi hafði yfirskriftina Verðfyrirspurn vegna flutninga fyrir Norðurál á bréfi sínu. Augljóst er að stefndi kaus að hafa annan hátt á opnun tilboða en útboðslög mæla fyrir um, sbr. 6., 7., og 8. gr. laganna. Hér skiptir máli að mati dómenda, að stefnandi samþykkti að hafa þann hátt á sem stefndi bauð upp á, enda kallar stefnandi ,,tilboð” sitt ,,Price Indication” eða ,,Cost Indication”, sem löggiltur skjalaþýðandi þýðir hvort tveggja með íslenska orðinu verðábendingu.
Það er álit dómsins að skjal það, ódagsett, sem stefnandi hefur í máli þessu nefnt tilboð, en ber fyrirsögnina ,,Price Indication” eða verðábending, verði að telja tillögu um samningsgrundvöll en ekki bindandi tilboð. Sá kafli skjalsins sem fjallar um verð ber fyrirsögnina ,,Cost Indication” eða verðábending, og kafli sá þar sem einingaverð eru sundurliðuð hefst á setningunni: ,,Tölurnar í dæminu hér fyrir neðan eru ekki raunverulegu tölurnar, þær eru til að skýra reikningsaðferðirnar sem stungið er upp á.” Þá er samningsgrundvöllur sá sem lýst er í skjalinu í verulegum atriðum í ósamræmi við skilmála þá sem lýst er í bréfi stefnda, dagsettu 26. nóvember 1999, sem skjalið er svar við og stefnandi nefnir útboðsskilmála, en í 12. gr. laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða er kveðið svo á, að tilboði sem er í verulegum atriðum í ósamræmi við útboðsskilmála skuli eigi tekið.
Stefnandi sætti sig við það að óvilhöllum löggiltum endurskoðanda yrði falið að opna og bera saman tilboð þau er bærust sem trúnaðarmanni beggja aðila. Dómurinn fellst ekki á að tilhögun stefnda á opnun og útreikningi ,,tilboða”, hafi verið andstæð því sem hann hafði fyrirfram lofað bjóðendum. Endurskoðandinn hefur fyrir dóminum borið að tilboð Eimskipafélags Íslands hf., sem stefndi tók, hafi verið lægst. Samkvæmt 14. gr laga nr. 65/1993 er kaupanda einungis heimilt að taka hagstæðasta tilboði sé um lokað útboð að ræða eða hafna þeim öllum.
Að öllu þessu athuguðu verður ekki talið að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið með dómi, hvort um lokað útboð samkvæmt lögum nr. 65/1993 hafi verið að ræða, þegar stefndi óskaði eftir við sjö nafngreind fyrirtæki að þau legðu fram tilboð í sjóflutninga á afurðum og aðföngum til stefnda, sbr. bréf stefnda til þessara fyrirtækja, dags. 26. nóvember 1999. Ber því að vísa frá dómi kröfu stefnanda um að þetta verði viðurkennt með dómi, sbr. 2. mgr. 25. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 með gagnályktun. Af þessu leiðir að sýkna ber stefnda af öðrum kröfum stefnanda.
Rétt er að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Stanley Pálssyni byggingaverkfræðingi og Stefáni Svavarssyni dósent og löggiltum endurskoðanda.
D Ó M S O R Ð
Vísað er frá dómi kröfu stefnanda, Íslandsskipa ehf., um að viðurkennt verði með dómi að um lokað útboð samkvæmt lögum nr. 65/1993 hafi verið að ræða, þegar stefndi óskaði eftir við sjö nafngreind fyrirtæki að þau legðu fram tilboð í sjóflutninga á afurðum og aðföngum til stefnda, Norðuráls hf., sbr. bréf stefnda til þessara fyrirtækja, dags. 26. nóvember 1999.
Stefndi á að vera sýkn af öðrum kröfum stefnanda í máli þessu.
Hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.