Hæstiréttur íslands
Mál nr. 724/2009
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Tekjuskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Bókhald
- Fyrning
- Sekt
- Vararefsing
- Einkahlutafélag
- Ákæra
- Refsilágmark
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
|
|
Miðvikudaginn 1. júní 2011. |
|
Nr. 724/2009. |
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari) gegn Eysteini Gunnari Guðmundssyni (Jón Einar Jakobsson hrl.) |
Virðisaukaskattur. Tekjuskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Bókhald. Fyrning.
Sekt. Vararefsing. Einkahlutafélög. Ákæra. Refsilágmark. Mannréttindasáttmáli Evrópu.
E var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og almennum hegningarlögum í starfi sínu fyrir þrjú einkahlutafélög. Talið var sannað að E hefði í reynd farið með stjórn þessara félaga á þeim tímabilum er ákæra málsins tók til og hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefið að sök að undanskildum einum þætti ákæruliðar. Hafði E verið gefið að sök að hafa komið sér undan greiðslu tekjuskatts vegna einkahlutafélagsins A að fjárhæð 945.614 krónur vegna gjaldársins 2003, en þar sem ekki hefðu komið fram skýringar á þeim mismun sem var á úrskurði ríkisskattstjóra 30. mars 2007 og skattbreytingarseðli sama dag þar sem tekjuskattur félagsins hefði verið talinn 0 krónur var hann sýknaður. Talið var að það hefði verið ótvírætt undir E komið að annast skil vegna reksturs einkahlutafélaganna þriggja. Á þessu hefði E borið sjálfstæða refsiábyrgð að lögum. Þegar virt væru lagaákvæði sem kvæðu skýrt á um fésektarlágmark væru ekki efni til að líta til fullyrðinga E um ætlaða samábyrgð annars einstaklings vegna starfa hans í þágu félags. Slíkt kæmi eingöngu til greina ef fleiri menn hefðu verið ákærðir og sakfelldir fyrir sömu brot. Voru brot E talin stórfelld og yrði því að miða við þrefalda fjárhæð vanskila við ákvörðun sektar. Var E gert að sæta fangelsi í 15 mánuði og greiða 90.300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 12 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð.
I
Ákærði reisir kröfu sína um sýknu af fyrsta kafla ákæru málsins á því að þar sé hann ákærður fyrir brot í starfi sem framkvæmdastjóri A ehf. en ljóst megi vera að hann hafi aldrei verið framkvæmdastjóri félagsins.
Stofngerð, stofnskrá og samþykktir einkahlutafélagsins A eru dagsettar 20. mars 2002 og hlutafélagaskrá tilkynnt um stofnun þess degi síðar. Í gögnum málsins er samningur 9. ágúst 2002 á milli ákærða annars vegar og C og D hins vegar um að hin tvö síðarnefndu selji ákærða hlut sinn í A ehf. Var svo um samið að skuldbindingar félagsins væru frá og með undirritunardegi samningsins seljendum óviðkomandi og að seljendur segðu sig úr stjórn og skiluðu inn prókúruumboði frá og með sama tíma. Á samninginn er síðan handskrifað að C láti af störfum sem framkvæmdastjóri og við það skráðir stafirnir „[...]“. Ákærði sendi hlutafélagaskrá bréf 26. ágúst 2002 þar sem tilkynnt var að úr stjórn hefði gengið D, en ákærði hefði verið kosinn nýr stjórnarmaður með prókúru. Varamaður í stjórn væri C. Samkvæmt vottorði úr Fyrirtækjaskrá hefur ákærði einn skipað stjórn félagsins frá 8. ágúst 2002 og verður ráðið af vottorðinu að enginn framkvæmdastjóri hafi verið hjá félaginu frá sama tíma.
Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög fer félagsstjórn með málefni félagsins og skal annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fara félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins, sbr. 2. mgr. 41. gr. Þar sem enginn framkvæmdastjóri starfaði hjá A ehf. á því tímabili, sem fyrsti kafli ákærunnar lýtur að, er ljóst að eini stjórnarmaður félagsins, ákærði, fór einn með stjórn þess, þar á meðal daglegan rekstur sem að öðrum kosti hefði heyrt undir framkvæmdastjóra. Þótt ákærði sé í ákæru titlaður framkvæmdastjóri en ekki stjórnarmaður þykir mega leggja dóm á fyrsta kafla ákæru enda verður ekki séð að vörn hafi verið áfátt af þessum sökum, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest samkvæmt framansögðu um að ákærði hafi farið með stjórn A ehf. á því tímabili sem ákæra málsins tekur til.
Ákærði hefur borið fyrir sig að rannsókn málsins hafi verið áfátt. Þannig hefur hann meðal annars dregið í efa, með almennum orðum og án þess að vísa til dæma, að rétt sé að útgefnir reikningar hafi allir fengist greiddir nema einn. Í því sambandi telur hann skorta hreyfingalista, dagbókarlista og bankareikninga sem sýni fjármagnshreyfingar. Þá mótmælir hann því að á honum hafi hvílt skylda til að færa bókhald félagsins. Ennfremur telur ákærði að bókhaldið hafi ekki verið rétt fært um viðskipti A ehf. við G ehf. en á móti hefði átt að koma reikningur frá J ehf. en við það hefði skapast innskattur sem lækkað hefði fjárhæð hins vangoldna virðisaukaskatts.
Ákærða bar samkvæmt stöðu sinni sem stjórnarmanni A ehf. að sjá um að bókhald félagsins væri fært í samræmi við lög og venjur og það varðveitt, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994, svo og 1. og 2. töluliður 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 um bókhald. Hann getur ekki velt þessum skyldum á skattrannsóknarstjóra ríkisins eða aðra rannsóknaraðila, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. febrúar 2011 í máli nr. 77/2010. Ákærði hefur heldur ekki útskýrt grundvöll og forsendur viðskipta G ehf., A ehf. og J ehf. með þeim hætti að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort J ehf. hafi borið að gefa út umræddan reikning á hendur A ehf. svo sem hann heldur fram. Hefur hann því ekki sýnt fram á að forsendur séu til lækkunar á vangoldnum virðisaukaskatti félagsins við úrlausn málsins.
Rannsókn á sakarefnum þeim, sem fjallað er um í fyrsta kafla ákæru, hófst formlega hjá skattrannsóknarstjóra 12. maí 2005. Með bréfi 3. febrúar 2006 framsendi skattrannsóknarstjóri ríkisins ríkisskattstjóra skýrslu um rannsókn á bókhaldi og skattskilum A ehf. rekstrartímabilið mars 2002 til og með desember 2002. Ríkisskattstjóri úrskurðaði um endurákvörðun opinberra gjalda og virðisaukaskatts á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli A ehf. 30. mars 2007. Í þeim kafla úrskurðarins þar sem fjallað er um opinber gjöld segir að í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins komi fram að ekki hafi verið staðið skil á skattframtali og fylgigögnum af hálfu gjaldanda vegna gjaldársins 2003. Við álagningu opinberra gjalda það gjaldár hafi tekjuskattstofn gjaldanda verið áætlaður 3.450.000 krónur að meðtöldu álagi og eignarskattstofn 5.750.000 krónur að meðtöldu álagi. Í skýrslu sinni hafi skattrannsóknarstjóri komist að þeirri niðurstöðu að vanframtaldar rekstrartekjur næmu 18.133.129 krónum, þá næmu möguleg rekstrargjöld utan launa og launatengdra gjalda 9.409.686 krónum. Ríkisskattstjóri hækkaði tryggingagjald um 380.530 krónur og fram kom að miðað væri við að laun næmu 11.979.428 krónum í rekstri gjaldanda á rekstrarárinu 2002. Samkvæmt þessu taldi ríkisskattstjóri að tap hefði verið á rekstri gjaldanda á rekstrarárinu 2002 sem næmi 3.940.096 krónum. Að þessu virtu var tekjuskattstofn A ehf. gjaldárið 2003 endurákvarðaður af ríkisskattstjóra þannig að hann yrði 0 krónur og yfirfæranlegt tap yrði 3.940.096 krónur.
Í þriðja lið fyrsta kafla ákærunnar er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa komið sér undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð 945.614 krónur vegna gjaldársins 2003. Þrátt fyrir spurningar dómara um þetta atriði við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti komu ekki fram skýringar á þeim mismun sem er annars vegar á úrskurði ríkisskattstjóra 30. mars 2007 og skattbreytingarseðli sama dag þar sem tekjuskattur A ehf. er talinn 0 krónur og hins vegar, eins og segir í ákæru, þar sem vangoldin tekjuskattur fyrirtækisins er talinn 945.614 krónur. Verður ákærði því sýknaður af þessum þætti þriðja liðar I. kafla ákærunnar með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða vegna þeirrar háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt fyrsta kafla ákæru að undanskildum þeim þætti þriðja liðar I. kafla ákærunnar þar sem ákærða er gefið að sök að hafa komið sér undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð 945.614 krónur vegna gjaldársins 2003.
II
Ákærði reisir kröfu sína um sýknu af öðrum kafla ákæru einkum á því að þar sé hann ákærður fyrir brot í starfi sem framkvæmdastjóri J ehf. á árinu 2001 en ljóst megi vera að hann hafi aðeins verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins fyrstu 11 daga janúarmánaðar 2001.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest um það að ákærði hafi í reynd farið með stjórn einkahlutafélagsins J ehf. á því tímabili sem ákæra málsins tekur til svo og um sakfellingu ákærða fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök samkvæmt þessum kafla ákæru.
III
Ákærði reisir kröfu sína um sýknu af þriðja kafla ákæru á því að þar sé hann ákærður fyrir brot í starfi sem framkvæmdastjóri B ehf. á árinu 2004 en hann hafi aðeins verið skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins frá 27. ágúst 2004. Samkvæmt framburði F liggi fyrir að hún hafi sem eini eigandi félagsins ekki setið þann fund þar sem ákveðið var að skipa ákærða í stjórn og sem framkvæmdastjóra frá 27. ágúst 2004. Sé tilkynningin og skipun ákærða í þessi störf því markleysa.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest um að ákærði hafi í reynd farið með stjórn einkahlutafélagsins B á því tímabili sem ákæra málsins tekur til svo og um sakfellingu ákærða fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök samkvæmt þessum kafla ákæru.
IV
Ákærði byggir einnig kröfu sína um sýknu á því að jafnræðisreglur hafi verið brotnar þar sem lögregla og ákæruvaldið hafi látið undir höfuð leggjast að taka jafnframt skýrslur af og ákærða C framkvæmdastjóra A ehf. svo og aðra sem komu að stjórn og málefnum félagsins. Hið sama gildi um aðra stjórnendur J ehf.
Ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt kveða öll á um fésektarlágmark í tilvikum eins og þeim sem hér um ræðir, er nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin og vanrækt var að greiða, en heimilt er að ákveða refsingu allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of.
Samkvæmt framansögðu var það ótvírætt undir ákærða komið að annast þessi skil vegna reksturs einkahlutafélaganna A, J og B. Á þessu bar ákærði sjálfstæða refsiábyrgð að lögum. Þegar virt eru framangreind ákvæði sem kveða skýrt á um fésektarlágmark eru ekki efni til að líta til fullyrðinga ákærða um ætlaða samábyrgð annars einstaklings vegna starfa hans í þágu félags. Slíkt kæmi eingöngu til greina ef fleiri menn hafa verið ákærðir og sakfelldir fyrir sömu brot. Ekki kemur til álita að dómstóll fjalli um mögulega sakfellingu manns á slíkum grundvelli sem ekki hefur verið ákærður, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 3. mars 2011 í málum nr. 71/2010 og 78/2010.
V
Brot ákærða voru framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi J ehf. á árinu 2001, í starfsemi A ehf. á árinu 2002 og í starfsemi B ehf. á árinu 2004. Brot ákærða voru samkynja og eðlislík. Formlega hófst rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á máli A ehf. 12. maí 2005, á máli J ehf. 13. maí 2005 og á máli B ehf. 19. maí sama ár. Var fyrningarfrestur þá rofinn, sbr. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, 7. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, 4. mgr. 41. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald og 8. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áður 6. mgr. 108. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Skattrannsóknarstjóri ríkisins tilkynnti ákærða 20. apríl 2007 að mál fyrrnefndra þriggja einkahlutafélaga hefði verið vísa til opinberrar rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans. Nokkrar tafir urðu á rannsókn málanna hjá ríkislögreglustjóra, þó ekki slíkar að með þeim hafi fyrningarfrestur ekki rofnað eftir 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, enda ber til þess að líta að rannsókn málsins var nokkuð umfangsmikil og gagnaöflun tafsöm meðal annars vegna þess að mikið skorti á að hægt væri að ganga að bókhaldsgögnum vísum. Þá verður að taka tillit til þess að samkvæmt 143. gr. laga nr. 88/2008 bar að saksækja fyrir þessi brot í einu máli eftir því sem við varð komið. Háttsemi ákærða, sem hann er fundinn sekur um, samkvæmt 1., 2. og 3. tölulið kafla I og II í ákæru og 1. og 2. töluliðar kafla III varða við 1. mgr. 262. almennra hegningarlaga. Háttsemi ákærða samkvæmt 4. tölulið I. og II. kafla ákæru og 3. tölulið III. kafla varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Er fyrningarfrestur þeirra samkvæmt því 10 ár, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. sömu laga, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 10. apríl 2008 í máli nr. 132/2007. Eru brot ákærða samkvæmt þessu ófyrnd.
Með þeim athugasemdum, sem að framan greinir, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Staðfest er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ákvörðun fangelsisrefsingar. Jafnframt er staðfest niðurstaða hans um að brot ákærða sé stórfellt og að miða verði við þrefalda fjárhæð vanskila við ákvörðun sektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áður 2. og 6. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981. Verður ákærði dæmdur til að greiða 90.300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins. Vararefsing verður ákveðin í samræmi við almennar reglur eins og í dómsorði greinir, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 31. maí 2007 í máli nr. 392/2006 og 3. mars. 2011 í máli nr. 78/2010.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Eysteinn Gunnar Guðmundsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði 90.300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 467.355 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Einars Jakobssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2009.
Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, dagsettri 19. desember 2008, á hendur ákærðu Eysteini Gunnari Guðmundssyni, kt. 070253-4299, Engjaseli 86, Reykjavík, X, kt. [...], [...], [...] og Y, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin meiri háttar brot gegn skattalögum og almennum hegningarlögum:
I
Á hendur ákærða Eysteini Gunnari, fyrir brot í starfi sínu sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins A, kt. [...]:
1. Með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins árið 2002, í samræmi við fyrirmæli í IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 1.604.798, og sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil:
|
Vantalin skattskyld velta: |
Vangoldinn VSK: |
|
september-október nóvember-desember
|
kr. 4.387.567 kr. 5.587.185 kr. 9.974.752 |
kr. 521.136 kr. 1.083.662 kr. 1.604.798 |
|
|
|
|
2. Með því að hafa skilað röngum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins árið 2002, samtals að fjárhæð kr. 2.117.282, og sundurliðast sem hér greinir:
Greiðslutímabil: Vangoldin staðgreiðsla:
september kr. 100.300
október kr. 771.018
nóvember kr 1.245.964
Samtals: kr. 2.117.282
3. Með því að hafa ekki staðið skil á skattframtali félagsins gjaldárið 2003 vegna tekjuársins 2002 og þannig ekki talið fram til skatts fjármuni sem skattskyldir eru samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981, og með þessu komið sér undan greiðslu tekjuskatts samtals að fjárhæð kr. 945.614,- sem sundurliðast sem hér greinir:
Rekstrartekjur: kr. 18.113.129
Möguleg rekstrargjöld skv. gögnum: kr. 9.409.715
Vantalinn tekjuskattsstofn: kr. 8.703.414
Áætlaður tekjuskattsstofn ásamt álagi: kr. -3.450.000
Vantalinn tekjuskattsstofn: kr. 5.253.414
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 18% kr. 945.614
4. Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna rekstrar félagsins árið 2002.
II
Á hendur ákærðu X og Eysteini Gunnari fyrir brot framin í rekstri einkahlutafélagsins J, ákærða Eysteini Gunnari sem daglegum stjórnanda félagsins, eiganda og fyrirsvarsmanni og ákærða X sem skráðum framkvæmdastjóra þess:
1. Með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins árið 2001, í samræmi við fyrirmæli í IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 12.260.151, og sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil:
|
Vanframtalin skattskyld velta: |
Vangoldinn VSK: |
|
Vantalin skattskyld velta: |
|
Mars-apríl Maí-júní Júlí-ágúst September-október Nóvember-desember
|
kr. 8.234.449 kr. 8.312.246 kr. 11.766.246 kr. 16.380.662 kr 10.094.217 kr. 54.787.820 |
kr. 1.812.309 kr. 1.889.657 kr. 2.583.864 kr. 3.687.778 kr. 2.286.543 kr. 12.260.151
|
|
kr. 1.812.309 kr. 1.889.657 kr. 2.583.864 kr. 3.687.778 kr. 2.286.543 kr. 12.260.151 |
2. Með því að hafa ekki staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda öll tímabil ársins 2001, að undanskildu 4. tímabili, en hafa þá skilað efnislega rangri skilagrein, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna sömu tímabila, samtals að fjárhæð kr. 9.220.330, og sundurliðast sem hér greinir:
Greiðslutímabil: Vangoldin staðgreiðsla:
janúar kr. 317.212
febrúar kr. 160.615
mars kr. 709.101
apríl kr. 663.501
maí kr. 237.116
júní kr. 1.231.152
júlí kr. 495.511
ágúst kr. 1.597.320
september kr. 1.129.142
október kr. 1.365.002
nóvember kr 615.735
desember kr. 698.923
Samtals: kr. 9.220.330
3. Með því að hafa ekki staðið skil á skattframtali félagsins gjaldárið 2002 vegna tekjuársins 2001 og þannig ekki talið fram til skatts fjármuni sem skattskyldir eru samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981, og með þessu komið sér undan greiðslu tekjuskatts samtals að fjárhæð kr. 12.319.370,- sem sundurliðast sem hér greinir:
Rekstrartekjur: kr. 57.734.013
Möguleg rekstrargjöld skv. gögnum: kr. 5.169.444
Vantalinn tekjuskattsstofn: kr. 52.564.569
Áætlaður tekjuskattsstofn ásamt álagi: kr. -11.500.000
Vantalinn tekjuskattsstofn: kr. 41.064.569
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 30% kr. 12.319.370
4. Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna rekstrar félagsins árið 2001.
III
Á hendur ákærðu Y og Eysteini Gunnari fyrir brot framin í rekstri einkahlutafélagsins B, ákærða Eysteini Gunnari sem daglegum stjórnanda félagsins, eiganda og fyrirsvarsmanni og ákærða Y sem framkvæmdastjóra þess frá janúar og fram í maí 2004:
1. Með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins árið 2004, í samræmi við fyrirmæli í IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 5.830.896, og sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil:
|
Vanframtalin Skattskyld velta: |
Vangoldinn VSK: |
|
Vantalin skattskyld velta: |
|
Janúar-febrúar Mars-apríl Maí-júní Júlí-ágúst September-október Nóvember-desember
|
kr. 321.285 kr. 2.453.359 kr. 10.226.010 kr. 15.206.031 kr. 11.194.936 kr 5.766.624 kr. 45.168.245 |
kr. -172.903 kr. -1.493.036 kr. 1.429.078 kr. 2.960.961 kr. 1.882.277 kr. 1.224.519 kr. 5.830.896
|
|
kr. 1.812.309 kr. 1.889.657 kr. 2.583.864 kr. 3.687.778 kr. 2.286.543 kr. 12.260.151 |
2. Með því að hafa ekki staðið skil á skattframtali félagsins gjaldárið 2005 vegna tekjuársins 2004 og þannig ekki talið fram til skatts fjármuni sem skattskyldir eru samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981, og með þessu komið sér undan greiðslu tekjuskatts samtals að fjárhæð kr. 3.455.290,- sem sundurliðast sem hér greinir:
Rekstrartekjur: kr. 45.168.245
Möguleg rekstrargjöld skv. gögnum: kr. 21.372.188
Vantalinn tekjuskattsstofn: kr. 23.796.057
Áætlaður tekjuskattsstofn ásamt álagi: kr. -4.600.000
Vantalinn tekjuskattsstofn: kr. 19.196.057
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 18% kr. 3.455.290
3. Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna rekstrar félagsins árið 2004.
Framangreind brot ákærðu samkvæmt 1., 2. og 3. tölulið kafla I, II og 1. og 2. tölulið kafla III í ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið I., II. og III. kafla ákæru.
b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 2. tölulið I. og II. kafla ákæru.
c) 2. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90, 2003, sbr. áður 2. og 6. mgr. 107. gr. eldri laga nr. 75, 1981 um tekjuskatt- og eignarskatt, að því er varðar 3. tölulið I. og II. kafla ákæru og 2. tölulið III. kafla ákæru.
Framangreind brot ákærðu samkvæmt 4. tölulið I. og II. kafla ákæru og 3. tölulið III. kafla ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.
Er þess af hálfu ákæruvalds krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot. Við flutning málsins fyrir dómi krafðist sækjandi þess jafnframt að ákærðu yrðu dæmdir til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Verjandi ákærða Eysteins Gunnars krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af ákæru og að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun fyrir héraðsdómi og þóknun verjanda við rannsókn málsins, en að öðrum kosti hljóti ákærði svo væga refsingu sem lög framast leyfa og sakarkostnaði verði skipt.
Verjandi ákærða X krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum ákæruatriðum, en til vara að refsing verði felld niður vegna þeirra ákæruatriða sem sakfellt er fyrir, ákvörðun um refsingu frestað eða refsing ákvörðuð eins væg og lög leyfa og verði þá jafnframt öll skilorðsbundin. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Y krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu, en til vara að ákærða verði gerð vægasta refsing lögum samkvæmt, sem jafnframt verði skilorðsbundin. Jafnframt að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun.
Ákærukafli I. A.
Málsatvik
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, dagsettu 20. apríl 2007, var máli ákærðu vísað til opinberrar rannsóknar á grundvelli gagna um rannsókn á bókhaldi og skattskilum A., J og B.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 9. september 2004 var A úrskurðað gjaldþrota.
Í kæru skattrannsóknarstjóra kemur fram að tilefni rannsóknar hafi verið ábending frá skattstjóranum í Reykjanesumdæmi, dagsett 7. mars 2005, þar sem kom m.a. fram að forráðamaður félagsins, ákærði Eysteinn Gunnar, stundaði einhvers konar starfsmannaleigu. Hefði hann haft Litháa í vinnu sem ýmist unnu fyrir félagið eða voru leigðir til annarra félaga fyrir tiltekna þóknun. Hvorki hefðu verið staðin skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda né tryggingargjaldi vegna starfa þessara manna. Formleg rannsókn hefði hafist 12. maí 2005 með því að starfsmenn skattrannsóknarstjóra afhentu ritara A tilkynningu þar um. Síðar hefði verið haft samband við skiptastjóra þrotabúsins og þess óskað að hann afhenti skattrannsóknarstjóra bókhaldsgögn vegna starfsemi félagsins. Hefði skiptastjóri sagst aldrei hafa náð sambandi við forráðamann félagsins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og hefði hann þar af leiðandi aldrei fengið bókhaldið í sínar hendur. Þann 19. maí 2005 hefði verið haft samband við fyrrum forráðamann félagsins, ákærða Eystein Gunnar, og þess óskað að hann afhenti skattrannsóknarstjóra bókhaldsgögnin. Þann 24. maí 2005 hefði ákærði afhent fimm bókhaldsmöppur félagsins vegna rekstrarársins 2002.
Meðal gagna málsins er tilkynning til hlutafélagskrár, dagsett 20. mars 2002, um stofnun A. Kemur þar fram að tilgangur félagsins sé rekstur trésmiðju og önnur tengd starfsemi, verktakastarfsemi, heildsala, smásala og tengdur rekstur. Var C skráður stjórnarformaður félagsins frá stofnun, en D skráð í varastjórn og með prókúru. Þá er í gögnum málsins tilkynning til hlutafélagaskrár, dagsett 26. ágúst 2002, undirrituð af ákærða Eysteini Gunnari, þar sem kemur fram að á hluthafafundi í félaginu sem haldinn hefði verið þann 8. sama mánaðar, hefðu verið samþykktar þær breytingar að úr stjórn gengi D. Hefði ákærði verið kosinn nýr stjórnarmaður með prókúru og C kosinn varamaður í stjórn. Þá liggur fyrir skjal, dagsett 9. ágúst 2002, þar sem kemur fram að samkomulag hafi tekist á milli C og D um að þau selji ákærða hlut sinn í félaginu og sé það nú þeim algjörlega óviðkomandi. Ber samkomulagið undirritun þeirra þriggja. Á skjalið hefur verið handrituð athugasemd um að C láti af starfi framkvæmdastjóra og er athugasemdin merkt upphafsstöfunum [...]. Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá, dagsettu 2. ágúst 2007, var stjórn félagsins frá 8. ágúst 2002 skipuð ákærða Eysteini Gunnari sem stjórnarmanni og prókúruhafa, en C sem varamanni. Ekki var skráður framkvæmdastjóri hjá félaginu.
Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra voru helstu niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum A þær að vanrækt hefði verið fyrir hönd skattaðila að standa skil á skattframtali ásamt lögboðnum fylgigögnum fyrir gjaldárið 2003 vegna rekstrarársins 2002. Rekstrartekjur væru vanframtaldar vegna rekstrarársins 2002. Þá hefði verið vanrækt fyrir hönd félagsins að standa skil á virðisaukaskattskýrslum. Skattskyld velta og útskattur væru vanframtalin. Skattaðili hefði ekki gert grein fyrir stórum hluta launagreiðslna í launauppgjöf til skattyfirvalda og staðið skil á röngum skilagreinum vegna launagreiðslna. Þá hefði varðveislu bókhaldsgagna verið ábótavant. Tölvufært bókhald hefði ekki verið afhent þrátt fyrir beiðni þar að lútandi.
Í kæru skattrannsóknarstjóra er m.a. rakið að rannsókn hefði leitt í ljós að ákærði Eysteinn Gunnar hefði fyrir hönd A staðið skattstjóranum í Reykjavík skil á röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingargjalds vegna launamanna félagsins, fyrir greiðslutímabilin ágúst til og með nóvember rekstrarárið 2002. Hefði verið upplýst við rannsóknina að félagið hefði ráðið til starfa erlenda einstaklinga og að launagreiðslur til þeirra hefðu ekki verið gefnar upp til skatts. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að aflað hefði verið gagna á tölvutæku formi á starfsstöð E í tengslum við rannsókn á bókhaldi og skattskilum þess félags. Á meðal þeirra gagna sem fundust hefðu verið tölvuskrár sem innihéldu tímaskýrslur og útreikning á launum erlendra starfsmanna hjá A. Fylgja þessi gögn skýrslu skattrannsóknarstjóra. Kemur fram að við skýrslutöku af F, starfsmanni A, þann 20. september 2005 hefði komið fram að hún vissi ekki til þess að gerð hefði verið grein fyrir launum sjö nafngreindra erlendra einstaklinga í skattskilum félagsins. Þetta hefðu verið einstaklingar með dönsk atvinnu- og dvalarleyfi. Henni hefði verið greint frá því á sínum tíma að þau leyfi ættu að gilda hér á landi samkvæmt Schengen sáttmálanum. Kjör hinna erlendu starfsmanna hefðu verið þannig að þeir hefðu átt að fá greiddar 700 til 800 krónur á tímann eftir skatta. Farið hefði verið með greiðslur til hinna erlendu starfsmanna í bókhaldi A á þann hátt að A hefði greitt starfsmönnunum en greiðslurnar hefðu verið bókaðar á bókhaldslykilinn „viðskiptamenn“ og þá auðkenndar í texta sem J.
Skýrslu skattrannsóknarstjóra fylgja afrit skýrslna sem teknar voru hjá sýslumanninum í Keflavík í október 2003 af ákærða Eysteini Gunnari og fjórum starfsmönnum A frá Litháen í tengslum við rannsókn máls vegna meints brots gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Í skýrslu ákærða, dagsettri 9. október 2003, er haft eftir ákærða að mennirnir væru á hans vegum og störfuðu fyrir fyrirtæki hans A. Sagðist hann greiða þessum starfsmönnum sínum laun sem væru hærri en kjarasamningar kvæðu á um. Kom fram hjá hinum erlendu starfsmönnum að þeir hefðu ekki þurft að sjá um að greiða opinber gjöld og hefðu kjör þeirra verið þannig að þeir áttu að fá greiddar 700 til 800 krónur fyrir hverja unna klukkustund eftir skatta. Kom fram í skýrslutökunum að þrír hinna erlendu starfsmanna hefðu starfað hjá félaginu frá því í september 2002, en einn frá því sumarið 2002. Af framburði starfsmannanna hefði ekki annað verið ráðið en að þeir hefðu starfað á Íslandi óslitið að undanskildum jóla- og sumarfríum, frá þeim tíma, er þeir réðu sig til starfa hjá félaginu og til þess tíma er þeir voru færðir til yfirheyrslu í október 2003. Þá kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra að við skoðun á sölureikningum, útgefnum af A á hendur G, sjáist að efni sölureikninga beri með sér útselda vinnu.
Með hliðsjón af skýrslum hinna erlendu starfsmanna hjá sýslumanninum í Keflavík, og skýrslu F hjá skattrannsóknarstjóra, var miðað við að útborguð laun hefðu verið 700 krónur fyrir hverja vinnustund og tímakaup því 1.138,95 krónur fyrir afdrátt staðgreiðslu. Í samantekt ríkislögreglustjóra um greidd laun, sem byggir á skýrslu skattrannsóknarstjóra, kemur fram að laun erlendra starfsmanna félagsins hefðu verið reiknuð út frá gögnum úr bókhaldi A, útsendum reikningum og launaseðlum erlendra starfsmanna félagsins. Samkvæmt yfirlitinu nam vangoldin staðgreiðsla fyrir tímabilið september til og með nóvember 2002, sem ákæra tekur til, 2.117.282 krónum.
Ákærði Eysteinn Gunnar gaf skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 23. september 2005 og var þá beðinn um að gera grein fyrir tengslum sínu við A, þ.á m. eignaraðild sinni og afskiptum af stjórnun og daglegum rekstri félagsins á árinu 2002. Er bókað eftir ákærða að „það sjáist hvenær hann verði stjórnarformaður og taki við stjórninni“. Það hefði verið tilkynnt til hlutafélagaskrár og á þeim tímapunkti hefði hann hafið afskipti af starfsemi félagsins. Sagðist ákærði hafa keypt félagið vegna þess að hann hefði talið það eiga hagstæða viðskiptasamninga. Þeir samningar hefðu ekki gengið eftir, jafnframt sem skuldir hefðu verið meiri en búið var að segja honum. Hefði hann af þessum sökum reynt að „skila félaginu til baka“, en fyrri eigandi hefði þá verið farinn til Danmerkur. Sagðist ákærði þá hafa hætt afskiptum af félaginu. Ákærði sagði að F hefði fært bókhald félagsins. Bókhaldsstofan H hefði átt að standa skil á skattframtali gjaldársins 2003, vegna rekstrarársins 2002, til skattyfirvalda. Sagðist ákærði telja að það hefði verið gert. Ákærði sagðist ekkert hafa komið að þessu bókhaldi sjálfur og ekki talið sig þurfa að ganga á eftir því að þetta yrði gert. Sagðist hann hafa talið að staðin hefðu verið skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda. Hefði það komið honum á óvart að þetta hefði ekki verið í lagi. Hann hefði verið með starfsmann sem átti að sjá um þessi mál. Hefði það verið F. Ákærði sagði sex útlendinga hafa verið tímabundið við störf hjá félaginu árið 2002, en þeir hefðu síðan verið reknir úr landi og ákærði kærður fyrir ólöglega starfsemi vegna vinnu þeirra. Sagðist ákærði telja að gerð hefði verið grein fyrir skilagreinum launa til skattyfirvalda og hefði það átt að vera hlutverk F að ganga frá því.
Ákærði gaf skýrslu hjá ríkislögreglustjóra þann 7. desember 2007. Sagðist ákærði engu geta svarað um bókhald og fjármál félagsins. Varðandi fyrrgreint samkomulag um kaup hans á félaginu af C og D sagðist ákærði ekki kannast við handritaða breytingu á skjalinu, sem merkt væri með upphafsstöfum C. Ákærði sagðist ekki hafa talið það vera á sínum vegum að skila skattframtali tekjuárið 2003 vegna rekstrarársins 2002 þar sem hann hefði ekki komið nálægt neinu bókhaldi. Þá hefði hann ekki haft neitt bókhald undir höndum og ekki fundið það þrátt fyrir eftirgrennslan eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst. Ákærði sagðist ekkert geta tjáð sig um tölulegar niðurstöður lögreglu um vangreiddan virðisaukaskatt. Sagðist ákærði ekkert vita um þetta og ekki muna hvernig þetta var. Ákærði mótmælti þeirri niðurstöðu skattrannsóknarstjóra að félagið hefði ráðið til starfa erlenda einstaklinga og að launagreiðslur til þeirra hefðu ekki verið gefnar upp til skatts. Sagði ákærði þessa erlendu starfsmenn aldrei hafa unnið fyrir A og vísaði til andmælabréfs lögmanns síns til skattrannsóknarstjóra, dagsetts 28. júní 2006, þar sem kom fram að mennirnir hefðu verið ráðnir og komið til landsins á vegum danska fyrirtækisins I.
Við aðalmeðferð málsins gerði ákærði grein fyrir aðkomu sinni að félaginu sem hann hefði keypt af C og D. Ákærði kannaðist við að hafa undirritað samkomulag um kaup á félaginu og að hafa tekist á hendur þær skuldbindingar sem þar greinir. Hann áréttaði þó að hann kannaðist ekki við handritaða breytingu á samkomulaginu um að C hefði látið af starfi framkvæmdastjóra. Hefði hann ekki undirritað skjalið eins og því hefði verið breytt. Ákærði sagði allt hafa verið öðruvísi en það átti að vera varðandi þetta fyrirtæki og því hefði hann „skilað því aftur“. Hann hefði skilað öllum vélum sem voru lán á til Vörslusviptingar sem hefði skilað þeim til banka og kaupleigufyrirtækja. Seljendurnir hefðu sagt honum ósatt um stöðu fyrirtækisins. Hann hefði ekki getað skilað þeim vélunum þar sem þau hefðu verið flúin úr landi vegna skulda. Spurður hver hefði borið ábyrgð á að færa bókhald og standa skil á sköttum og því um líkt sagði ákærði að „þau“ hefðu séð um það allan tímann. Hann hefði aldrei komið nálægt því.
Vitnið F sagðist hafa starfað hjá A við að skrá bókhald. Hefði ákærði Eysteinn Gunnar verið eigandi félagsins og gefið fyrirmæli um greiðslur á reikningum, skil á virðisaukaskattskýrslum, skilagreinum og opinberum gjöldum. F var spurð um það hver hefði borið ábyrgð á að skila inn skattframtali gjaldárið 2003 vegna rekstrarárs 2002. Í þessu sambandi sagði hún rétt það sem haft var eftir henni við skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra 27. desember 2007 þar sem kemur fram að gögn vegna þessa hefðu verið sett upp í hillu, en talað hefði verið um að það ætti að fara að vinna í þessu og láta endurskoðanda fá gögnin. Hún teldi að stjórnarmaður hefði ráðið því hvort skattframtal væri gert og því skilað, þ.e.a.s. ákærði Eysteinn Gunnar.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hefur hann við rannsókn málsins og fyrir dómi ýmist vísað á F, starfsmenn bókhaldsstofunnar H eða fyrri eigendur félagsins, C og D, sem ákærði segir að hafi borið ábyrgð á því að færa bókhald, annast skýrslugerð til skattyfirvalda og standa skil á sköttum vegna A.
Meðal gagna málsins er vottorð fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dagsett 2. ágúst 2007, þar sem kemur fram að frá 8. ágúst 2002 var stjórn A skipuð ákærða Eysteini Gunnari sem stjórnarmanni og prókúruhafa, en C sem varamanni. Samkvæmt þessu var ákærði eini stjórnarmaður og raunverulegur framkvæmdastjóri félagsins á því tímabili sem um ræðir. Samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 bar honum því skylda til að annast um að starfsemi félagsins væri í réttu horfi og jafnframt að fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi lögboðin gjöld og sjá um að bókhald væri fært í samræmi við lög og reglur.
Ákærði hefur hafnað því að A hafi ráðið til starfa erlenda einstaklinga, sem og að launagreiðslur erlendra starfsmanna hafi ekki verið gefnar upp til skatts. Í greinargerð verjanda ákærða, sem lögð hefur verið fram í málinu, kemur fram að mennirnir hefðu verið ráðnir og komið til landsins á vegum danska fyrirtækisins I. Hefði verið um verktakagreiðslur til þeirra að ræða.
Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra kannaðist ákærði við að sex útlendingar hefðu starfað hjá A á árinu 2002. Sagðist ákærði telja að gerð hefði verið grein fyrir skilagreinum launa til skattyfirvalda, en það hefði átt að vera hlutverk F að sjá um það. Breytti ákærði síðar framburði sínum að þessu leyti og bar við skýrslutöku hjá lögreglu að mennirnir hefðu ekki starfað fyrir A heldur félagið I. Af hálfu verjanda ákærða hefur jafnframt verið haldið fram að draga skuli þá fjárhæð sem nemur greiðslum til verktaka frá vantalinni skattskyldri veltu samkvæmt ákæru og eigi fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts samkvæmt ákæru að lækka sem því nemur.
Af skýrslu F hjá skattrannsóknarstjóra, skýrslum ákærða og fjögurra erlendra starfsmanna hjá lögreglu í október 2003 og gögnum sem skattrannsóknarstjóri aflaði við rannsókn málsins, sem að framan er getið, verður ráðið að mennirnir voru ráðnir til starfa hjá A og fengu greidd laun vegna starfa sinna þar. Var ákærði með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 21. september 2006, í málinu nr. 114/2006, sakfelldur fyrir brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa frá september 2002 haft sex litháíska ríkisborgara í vinnu hjá félaginu án atvinnuleyfis. Bar skattaðilanum A að draga staðgreiðslu opinberra gjalda af launum hinna erlendu starfsmanna, sbr. 15. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Ákæruvaldið hefur lagt til grundvallar útreikning skattrannsóknarstjóra við áætlun útborgaðra launa til starfsmannanna. Er á það fallist með ákæruvaldinu að vangoldin staðgreiðsla fyrir það tímabil sem ákæra lýtur að hafi numið 2.117.282 krónum, svo sem í ákæru greinir.
Varðandi fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts samkvæmt ákæru hefur verjandi einnig gert athugasemd við reikning, dagsettan 15. desember 2002, vegna sölu tölva og skrifstofubúnaðar til B fyrir 520.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. A hafi ekki haft þá starfsemi með höndum að selja búnað sem þarna ræðir um og hafi viðskiptin því ekki verið virðisaukaskattskyld. Beri að lækka fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts samkvæmt ákæru um 127.400 krónur, sem nemi virðisaukaskatti samkvæmt reikningnum. Ekki verður fallist á þetta með verjanda, þar sem ótvírætt er að um virðisaukaskattskyld viðskipti var að ræða og skiptir engu í því sambandi þótt þau hafi ekki verið liður í hefðbundinni starfsemi félagsins.
Samkvæmt framansögðu hefur ákærði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru að þessu leyti.
Ákærukafli II. J
Málsatvik
Í kæru skattrannsóknarstjóra til ríkislögreglustjóra kemur fram að tilefni rannsóknar á bókhaldi og skattskilum J vegna rekstrarársins 2001 megi rekja til ábendingar frá skattstjóranum í Reykjanesumdæmi, dagsettrar 30. september 2004, þar sem m.a. kom fram að virðisaukaskattskil félagsins hefðu verið áætluð árin 2001 og 2002, en ljóst væri að félagið hefði innheimt virðisaukaskatt af útseldri þjónustu án þess að standa skil á virðisaukaskattinum til ríkissjóðs. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 10. september 2004, var félagið J úrskurðað gjaldþrota. Kemur fram í kæru skattrannsóknarstjóra að þann 1. febrúar 2005 hafi borist bréf skiptastjóra þrotabús félagsins þar sem kom fram að hann hefði margsinnis boðað fyrirsvarsmann félagsins, ákærða Eystein Gunnar, til skýrslugjafar, en án árangurs. Efist skiptastjóri um að skattalögum hafi verið fylgt í rekstri félagsins, þannig hafi t.d. ekki verið staðin skil á skattframtölum og fylgigögnum. Í kæru skattrannsóknarstjóra er rakið að formleg rannsókn í málinu hefði hafist þann 13. maí 2005 með því að skiptastjóra hefði verið afhent tilkynning þar um.
Meðal gagna málsins er tilkynning til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dagsett 18. júlí 2000, um stofnun J og var formaður stjórnar þar sagður vera K, en ákærði Eysteinn Gunnar Guðmundsson meðstjórnandi og framkvæmdastjóri. Kemur fram að tilgangur félagsins sé innflutningur, heildsala og smásala byggingareininga, byggingarefnis og byggingarvara, innflutningur ökutækja og íhluta og varahluta fyrir þau, umboðssala, innflutningur og dreifing erlendra iðnaðarvara, fjárfestingar hérlendis sem erlendis, kaup og sala fasteigna, skipa, flugvéla, fyrirtækja og verðbréfa. Einnig rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyld starfsemi. Þá liggur fyrir tilkynning til hlutafélagaskrár, dagsett 29. desember 2000, um breytingar á samþykktum og stjórn félagsins, þar sem kemur fram að K hafi sagt sig úr stjórn félagsins, en við sæti hans í stjórn taki ákærði Eysteinn Gunnar Guðmundsson. Verði því eftirleiðis, eða þar til annað verði ákveðið, einn maður í stjórn félagsins, þar sem ákærði Eysteinn Gunnar hefði eignast allt hlutafé í félaginu. Önnur tilkynning til hlutafélagaskrár, um breytingu á samþykktum og stjórn félagsins, er dagsett 11. janúar 2001. Kemur þar fram að ákærði Eysteinn Gunnar hafi sagt sig úr stjórninni, en við sæti hans í stjórn taki L. Verði því eftirleiðis, eða þar til annað verði ákveðið, einn maður í stjórn félagsins þar sem L hefði eignast allt hlutafé í félaginu. Þá liggur fyrir tilkynning til hlutafélagaskrár, dagsett 15. janúar 2001, þar sem kemur fram að prókúra ákærða Eysteins Gunnars falli niður, en L taki við henni. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár, dagsettri 23. febrúar 2001, kemur svo fram að á fundi stjórnar félagsins þann 19. sama mánaðar hafi orðið þær breytingar að skráður framkvæmdastjóri, ákærði Eysteinn Gunnar, hefði látið af þeim starfa og við stöðunni hefði tekið ákærði X. Ákveðið hefði verið að fella niður prókúruumboð það sem K hefði haft með höndum og veita nýjum framkvæmdastjóra félagsins, X, fullt prókúruumboð í hans stað. Þá hefði verið ákveðið að flytja heimilisfang félagsins að [...], Reykjavík, en af fyrrgreindum tilkynningum verður ráðið að það hafi jafnframt verið heimilisfang ákærða Eysteins Gunnars og L. Bera ofangreindar tilkynningar undirritun Eysteins Gunnars og hefur L undirritað þrjár þær síðastnefndu með honum. Þá liggur fyrir vottorð úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, dagsett 2. ágúst 2007, þar sem kemur fram að samkvæmt fundi þann 31. desember 2002 sé stjórn félagsins skipuð ákærða Eysteini Gunnari sem varamanni, en ákærði X skráður framkvæmdastjóri.
Í kæru skattrannsóknarstjóra kemur fram að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefði ekki reynst unnt að ná sambandi við X vegna rannsóknar málsins og væri hún því ekki kærð í málinu.
Voru helstu niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra þær að varðveislu bókhaldsgagna hefði verið verulega ábótavant á rannsóknartímabilinu, vanrækt hefði verið fyrir hönd J að standa skil á skattframtali ásamt lögboðnum fylgigögnum þess gjaldárið 2002, vegna rekstrarársins 2001, vanrækt hefði verið fyrir hönd félagsins að standa skil á virðisaukaskattskýrslum, skattskyld velta og útskattur hefðu verið vanframtalin, vanrækt hefði verið fyrir hönd félagsins að gera grein fyrir launagreiðslum í launauppgjöf til skattyfirvalda og staðið hefði verið skil á rangri skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launagreiðslna félagsins.
Kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra að engin bókhaldsgögn hefðu verið afhent fyrir félagið og væri vafa undirorpið hvar þau væri að finna, séu þau yfirhöfuð til. Hefði ákærði Eysteinn Gunnar í fyrstu haldið því fram að skattstjórinn í Reykjavík hefði gögnin undir höndum. Þá hefði ákærði borið að hann teldi að í tengslum við rannsókn vegna erlendra starfsmanna hjá félaginu hefðu bókhaldsgögn verið afhent lögreglu. Þá vísaði ákærði á L, sem hann sagði geta vísað í gögnin. Loks kom fram hjá ákærða X að Eysteinn Gunnar hefði sagt honum að bókhaldsgögnin hefðu eyðilagst í bruna. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra voru rekstrartekjur og skattskyld velta og útskattur félagsins reiknuð samkvæmt sölureikningum og gögnum um innborganir á bankareikning félagsins. Rannsókn á launagreiðslum til erlendra launamanna og skilum á staðgreiðslu byggðist á einni skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, útseldum tímum samkvæmt sölureikningum félagsins, tímaskýrslum og útreikningum á launum, umsókn fyrrverandi starfsmanns skattaðila um leiðréttingu á afdreginni staðgreiðslu og skýrslutöku af ákærða X.
Meðal gagna málsins er afrit lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 15. desember 2001 vegna rannsóknar meints brots gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga í tengslum við störf erlendra verkamanna fyrir J. Í skýrslunni er haft eftir ákærða að hann sé eigandi og stjórnandi J. og sjái um daglegan rekstur félagsins. Sagði ákærði að skráning L og X, sem fyrirsvarsmanna félagsins, væri röng, þar sem hann hefði tekið sæti þeirra í apríl þetta ár, þó að hann myndi ekki hvort það hefði verið tilkynnt hlutafélagaskrá. Rannsókn lögreglu lyktaði með því að höfðað var opinbert mál á hendur ákærða fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa á tímabilinu 30. ágúst 2001 til 28. október 2001, sem fyrirsvarsmaður J, ráðið í vinnu til sín 9 litháíska ríkisborgara, þrátt fyrir að enginn þeirra væri með atvinnuréttindi á Íslandi. Við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjaness bar ákærði á annan veg um stöðu sína hjá félaginu en hann hafði gert við fyrrnefnda skýrslutöku hjá lögreglu. Sagðist ákærði hafa starfað hjá félaginu sem rafvirkjameistari, en ekki vita hver hefði verið framkvæmdastjóri félagsins né hver hefði stjórnað því. Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þegar horft væri til þess sem vitni hefðu borið um stöðu ákærða innan J og eins þess að skýringar hans á breyttum framburði sínum fyrir dómi yrðu að teljast ótrúverðugar, væri komin fram fullnægjandi sönnun þess að ákærði hefði, varðandi þá erlendu menn sem taldir voru upp í ákæru, komið fram sem fyrirsvarsmaður J. Var ákærði sakfelldur fyrir brot á 4. gr., sbr. 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, þó þannig að ekki var talið að fullyrt yrði hversu lengi mennirnir hefðu verið að störfum á vegum ákærða. Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 28. nóvember 2002, í málinu nr. 315/2002, var niðurstaða héraðsdóms staðfest með þeirri athugasemd að því er ákvörðun refsingar varðaði, að ekki yrði fullyrt hversu lengi hinir útlendu menn hefðu verið að störfum á vegum ákærða, þótt ljóst væri að mennirnir hefðu verið við störf í Kópavogi miðvikudaginn 7. nóvember 2001, er lögregla hafði afskipti af þeim.
Ákærði gaf skýrslu hjá ríkislögreglustjóra þann 7. desember 2007. Sagðist hann hafa starfað sem rafvirki hjá J og hefði hann „bara verið úti að vinna með köllunum“. Hann hefði aldrei komið nálægt fjármálum eða bókhaldi fyrir þetta fyrirtæki, enda kynni hann ekkert fyrir sér í því. Sagðist ákærði ekki vita hver hefði verið ábyrgur fyrir því hjá félaginu að færa bókhald og standa skil á skilaskyldum gögnum og greiðslum. Hann hefði aldrei komið nálægt peningum og pappírsmálum. L hefði séð um þessi mál. Hann sagðist ekkert vita um hver ábyrgð ákærða X hefði verið í fyrirtækinu. Hann sagðist ekki vita betur en að L hefði verið með bókhald fyrirtækisins. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra þann 23. september 2005 tjáði ákærði sig nánar um aðkomu L að félaginu. Sagðist hann ekkert hafa komið nálægt rekstri J frá áramótum 2000/2001, en formlega frá 11. janúar 2001 þegar hann sagði sig úr stjórn félagsins. Hefði L tekið við félaginu. Þau hefðu verið viðskiptafélagar á þessum tíma og búið í sama fjölbýlishúsi. Spurður um hvernig eignaraðild og stjórnun J hefði verið háttað rekstrarárið 2001 sagðist ákærði alfarið vísa á L. Vísaði ákærði sömuleiðis á L varðandi önnur þau atriði sem hann var spurður um og rannsókn beindist að.
Ákærði X gaf skýrslu hjá ríkislögreglustjóra þann 28. september 2007 og lýsti því sem fyrr að hann hefði verið titlaður framkvæmdastjóri J sem eins konar „leppur“ fyrir ákærða Eystein Gunnar, sem ekki hefði getað komið fram gagnvart bönkum og lánastofnunum. Hefði starfsemi félagsins í upphafi átt að snúast um innflutning á timbri frá Litháen, en fljótlega breyst í starfsmannaleigu. Hann hefði í raun aldrei verið virkur framkvæmdastjóri og ekki haft neina fjármálastjórn. Öll stjórn hefði verið í höndum Eysteins Gunnars og L. Hann hefði reynt að koma skipulagi á félagið, m.a. með því að fá þau til að halda utan um bókhald. Sagðist ákærði hafa farið til [...] vorið 2001 og verið þar við störf næstu árin, auk þess sem hann hefði verið í fríi í [...]. Hefði hann ekki komið til starfa á Íslandi aftur fyrr en árið 2005. Hann hefði því aðeins verið framkvæmdastjóri hjá félaginu í um tvo til tvo og hálfan mánuð. Það hefði verið á ábyrgð Eysteins Gunnars og L að færa bókhald hjá félaginu og standa skil á skilaskyldum gögnum og greiðslum. Hefði hann eftir bestu samvisku afhent þeim gögn um það sem hefði verið unnið. Þá hefði hann afhent þeim virðisaukaskattskýrslur sem þau áttu að koma til skila. Eysteinn Gunnar og L hefðu haft yfirsýn yfir rekstur fyrirtækisins, s.s. rekstrartekjur og rekstrargjöld. Þau hefðu haft aðgang að öllum bankareikningum félagsins og allur póstur þess hefði farið að [...], þar sem þau hefðu búið. Sagði ákærði að áður en hann fór úr landi hefði hann haft óljósan grun um að skattayfirvöldum hefði ekki verið gerð grein fyrir rekstrartekjum félagsins eða að ekki hefði verið staðið skil á innheimtum virðisaukaskatti. Þegar hann kom heim úr fríi hefði svo beðið hans póstur um þetta. Hefði Eysteinn Gunnar síðar sagt honum að hann hefði geymt bókhaldsgögn frá félaginu á skrifstofu sem hann var kominn með í [...], en þar hefði svo kviknað í. Ákærði sagðist ekki geta tjáð sig um tölur um áætlaðar rekstrartekjur félagsins eða ætlaðan vangreiddan virðisaukaskatt, þar sem hann hefði ekki verið við störf hjá fyrirtækinu á þeim tíma sem um ræðir. Þá gæti hann ekki sagt til um það nákvæmlega hvort samantekt lögreglu um áætluð laun starfsmanna á tímabilinu, áætlaða staðgreiðslu og tryggingargjald væri rétt, enda hefðu Eysteinn Gunnar og L haft yfirsýn yfir starfsmannamál. Það hefðu verið starfsmenn á launum hjá félaginu, en ekki vissi hann hversu margir það voru í hverjum mánuði. Ákærði kannaðist við að hafa undirritað skilagrein vegna staðgreiðslu og tryggingargjalds fyrir maímánuð 2001, en sagðist ekki hafa skýringar á því hvers vegna hún sýndi engin greidd laun.
Við aðalmeðferð málsins fullyrti ákærði Eysteinn Gunnar að L hefði borið ábyrgð á því hjá J að færa bókhald og standa skil á skilaskildum gögnum og greiðslum, sköttum og skyldum. Sjálfur væri hann [...] og hefði unnið mest sjálfstætt hjá félaginu. Hann hefði ekkert komið að stjórn þess. Hann hefði að vísu stofnað þetta fyrirtæki og átt það upphaflega, en síðan hefði L tekið það yfir. Sagði ákærði það vera rangt sem kæmi fram í skýrslu sem L hefði gefið hjá sýslumanninum í Kópavogi vegna rannsóknar fyrrgreinds refsimáls, þar sem hún sagðist ekki hafa tekið þátt í stjórnarstörfum hjá félaginu. Ákærði sagðist hafa borið ábyrgð á allri rafmagnsvinnu á vegum félagsins. Hann hefði ekki annast mannaráðningar, en þó þurft að samþykkja þá menn sem voru í rafmagnsvinnu með honum.
Ákærði var spurður um aðdraganda þess að X hefði tekið að sér að vera framkvæmdastjóri J og hvort hann kannaðist við að hafa beðið X um þetta. Sagðist ákærði ekki muna hvernig þetta hefði borið að. Hann sagði þá X hafa verið félaga og verið að vinna saman á þessum tíma, en ekki muna hver var titlaður hvað. Ákærði sagði vera rétt eftir sér haft í skýrslu hans hjá skattrannsóknarstjóra þar sem hann sagðist ekki vita hver ábyrgð X hefði verið hjá félaginu. Ekki sagðist ákærði muna hvað X starfaði lengi hjá félaginu. Þá sagðist hann ekki vita hvort X hefði fengið greidd laun sem framkvæmdastjóri, en hann hefði þó verið með greiðslukort á reikning félagsins og séð um að kaupa efni og annað.
Ákærði X bar fyrir dóminum að það hefðu verið Eysteinn Gunnar og L sem hefðu borið ábyrgð á því hjá félaginu að færa bókhald og standa skil á skilaskildum gögnum og greiðslum varðandi skatta og skuldir. Hefði hann reynt eftir bestu getu að útbúa gögn fyrir bókhaldið og komið í hendurnar á þeim. Hann hefði komið að þessu fyrirtæki og tekið að sér framkvæmdastjórn þar sem þeir Eysteinn Gunnar hefðu verið að vinna saman að öðrum verkefnum. Hefði tekist kunningsskapur með þeim og eitt leitt af öðru. Ástæðan fyrir því að hann tók þetta að sér hefði fyrst og fremst verið sú að Eysteinn hefði ekki verið með „hreint nafn“ og því beðið hann um að taka þetta að sér. Þetta hefði aðeins verið að nafninu til. Hann hefði fengið einhverjar greiðslu fyrir almenn störf hjá fyrirtækinu, en ekki laun sem framkvæmdastjóri. Ákærði sagðist ekki muna betur en að hann hefði verið kominn til starfa í [...] um mánaðamót maí/júní þetta sama ár. Hann hefði hætt störfum hjá félaginu vegna samdráttar og vegna þess að hann hefði haft óljósan grun um að hlutirnir væru ekki eins og þeir ættu að vera. Þetta hefði verið á vormánuðum 2001 og hefði Eysteinn Gunnar sagst myndu biðja lögmann félagsins að ganga frá afskráningu hans sem framkvæmdastjóra. Hann hefði að beiðni Eysteins Gunnars og L undirritað skilagrein fyrir aprílmánuð þetta ár, þótt hann hefði ekki lengur gegnt starfi framkvæmdastjóra. Á þeim tíma sem hann gegndi starfi framkvæmdastjóra félagsins hefði hann ekki haft frumkvæði að því að skuldbinda félagið, borga skatta eða taka ákvörðun um að borga ekki skatta. Þessi mál hefðu alfarið verið í höndum L og Eysteins Gunnars. Hefði hann verið í þeirri trú að hann hefði verið afskráður sem framkvæmdastjóri félagsins vorið 2001, en síðan komist að því um haustið að svo var ekki. Þá hefði hafist lögreglurannsókn vegna meintra brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga í starfsemi félagsins.
Vitnið L, áður [...], gaf skýrslu fyrir dóminum. Sagði hún þau X hafa séð um J á árinu 2001. Hefði hún séð um að taka saman og varðveita reikninga fyrir bókhaldið, en X séð um að færa bókhaldið. Þá hefði X séð um greiðslur á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda og annast skil á skýrslum til skattyfirvalda. X hefði farið með stjórn félagsins frá degi til dags. Það væri ekki rétt að raunveruleg framkvæmdastjórn hefði verið í höndum hennar og Eysteins Gunnars. Hennar starf hefði verið fólgið í því að aðstoða X í „pappírsmálum“, en Eysteinn Gunnar hefði verið að sýsla við að leggja rafmagn. L sagðist ekki muna eftir að hafa gefið skýrslu hjá sýslumanninum í Kópavogi í tengslum við rannsókn máls vegna atvinnuréttinda erlendra starfsmanna og ekki muna til þess að Eysteinn Gunnar hefði hlotið refsidóm í slíku máli. Hins vegar hefðu menn frá Litháen verið að vinna hjá þeim, en þeir hefðu allir verið með atvinnuleyfi. Hún sagðist þess fullviss að X hefði ekki verið á [...] á þeim tíma sem um ræðir.
Niðurstaða
Ákærðu hafa ekki gert athugasemdir við brotalýsingar í ákæru. Samkvæmt því, og með vísan til gagna málsins sem að framan greinir, telst sannað að þau brot sem rakin eru í ákæru hafi verið framin í rekstri J. Ákærðu neita hins vegar sök og hafa hver um sig borið fyrir sig að þeir hafi ekki komið að stjórn félagsins á þeim tíma sem um ræðir og beri þeir því ekki refsiábyrgð vegna greindra brota.
Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra sem liggur fyrir í málinu var stjórn J þann 31. desember 2002 skipuð ákærða Eysteini Gunnari sem varamanni, en ákærði X var skráður framkvæmdastjóri. Var ákærði Eysteinn Gunnar annar tveggja stofnenda félagsins árið 2000 og starfaði hjá því síðan. Samkvæmt tilkynningum til fyrirtækjaskrár sat ákærði í stjórn félagsins frá stofnun þess til 11. janúar 2001. Hann var jafnframt skráður framkvæmdastjóri þar til ákærði X tók við þeim starfa 19. janúar 2001. Við lögreglurannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi hefur X borið að Eysteinn Gunnar og L hafi verið raunverulegir stjórnendur félagsins. Eysteinn Gunnar hefur vísað á L, sem aftur hefur vísað á X. Í skýrslu sem ákærði Eysteinn Gunnar gaf hjá lögreglu, 15. desember 2001, vegna rannsóknar máls vegna meints brots gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga, viðurkenndi hann að vera eigandi og stjórnandi félagsins og sagðist sjá um daglegan rekstur þess. Hefur ákærði síðar breytt framburði sínum að þessu leyti, svo sem rakið hefur verið, en ekki hafa komið fram trúverðugar skýringar á breyttum framburði hans. Á hinn bóginn hefur framburður X um stöðu ákærða Eysteins Gunnars og aðkomu sína að félaginu verið staðfastur frá upphafi og er hann trúverðugur að mati dómsins. Við mat á framburði L fyrir dóminum verður að hafa í huga að fram er komið í málinu að þau Eysteinn Gunnar voru nánir viðskiptafélagar og að rannsókn skattrannsóknarstjóra beindist jafnframt að henni sem raunverulegum fyrirsvarsmanni félagsins, en hún hvarf úr landi áður en náðist að taka af henni skýrslu vegna rannsóknar málsins. Þegar gögn málsins eru virt að öðru leyti þykir dóminum sýnt að L hafi í vitnisburði sínum fyrir dóminum leitast við að gera lítið úr stöðu þeirra Eysteins Gunnars hjá félaginu og þar með draga úr ábyrgð þeirra á því sem miður fór í rekstri þess. Samkvæmt framansögðu, og með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 315/2002, þykir ótvírætt sannað að ákærði Eysteinn Gunnar hafi verið raunverulegur stjórnandi og fyrirsvarsmaður félagsins á þeim tíma sem um ræðir, auk þess að vera eigandi þess hluta tímabilsins. Bar ákærði sem slíkur ábyrgð á starfsemi félagsins, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög.
Ákærði X var skráður framkvæmdastjóri félagsins frá 19. janúar 2001 og bar samkvæmt því að annast daglegan rekstur þess, sbr. 2. og 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög. Í því felst m.a. að ákærða bar að sjá til þess að staðin væru skil á opinberum gjöldum og að bókhald væri fært og varðveitt lögum samkvæmt. Breytir þar engu um þótt ráðning ákærða í stöðu framkvæmdastjóra hafi verið til málamynda, eins og hann hefur borið um.
Samkvæmt framansögðu báru ákærðu sameiginlega ábyrgð á þeim brotum sem lýst er í ákæru, þó þannig að ákærði X bar ekki ábyrgð á skilum á skilagrein og staðgreiðslu opinberra gjalda vegna janúarmánaðar 2001, sbr. ákærulið II.2. Hafa ákærðu gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærukafli III. B.
Málsatvik
Í kæru skattrannsóknarstjóra til ríkislögreglustjóra kemur fram að skattrannsóknarstjóri tók að eigin frumkvæði ákvörðun um að hefja rannsókn á bókhaldi og skattskilum B vegna rekstraráranna 2002 til 2004, en síðar var rannsóknin afmörkuð við rekstrartímabilið janúar til og með desember 2004. Hefði rannsókn í málinu hafist 19. maí 2005 með því að þáverandi forráðamanni félagsins, ákærða Eysteini Gunnari, var tilkynnt að rannsókn væri hafin á bókhaldi og skattskilum félagsins.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2005 var B úrskurðuð gjaldþrota.
Meðal gagna málsins er samningur, dagsettur 4. nóvember 2002, um kaup F á öllum hlutabréfum B af þáverandi eigendum. Þá liggur fyrir tilkynning um kaupin til hlutafélagaskrár, dagsett sama dag. Í þeirri tilkynningu kemur fram að tilgangur B sé rekstur trésmiðju og tengdur rekstur, inn- og útflutningur, heildsala og smásala og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Segir að F sé stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins með prókúru. Varamaður í stjórn sé ákærði Eysteinn. Eru kaupsamningurinn og tilkynningin undirrituð af F. Þá liggur fyrir tilkynning til hlutafélagaskrár, dagsett 21. janúar 2004, þar sem kemur fram að haldinn hefði verið hluthafafundur í B þann 20. sama mánaðar og hefði verið mætt fyrir alla hluti í félaginu. Hefði farið fram kosning í stjórn og í hana skipuð Y og L. Jafnframt hefði verið ákveðið að Y yrði framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi. Væri prókúra F afturkölluð. Undir tilkynninguna rita ákærði Y og L. Í tilkynningu sem barst fyrirtækjaskrá 27. ágúst 2004 kemur svo fram að samkvæmt fundi, sem haldinn hefði verið í félaginu þann 4. sama mánaðar, skyldi stjórn þess skipuð ákærða Eysteini Gunnari í eins manns stjórn, en ákærða Y sem varamanni. Þá væri ákærði Eysteinn Gunnar framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Er tilkynningin undirrituð af ákærða Eysteini Gunnari. Loks liggur fyrir tilkynning til fyrirtækjaskrár, dagsett 15. desember 2004, undirrituð af ákærða Y, þar sem kemur fram að hann segi sig úr stjórn félagsins.
Samkvæmt kæru skattrannsóknarstjóra leiddi rannsókn í ljós að bókhald B hefði ekki verið fært og að bókhaldsgögn hefðu ekki verið afhent þrátt fyrir beiðni þar að lútandi, tekjuskráning og varðveisla tekjuskráningargagna hefði verið ófullnægjandi, vanrækt hefði verið fyrir hönd félagsins að standa skil á skattframtali ásamt lögboðnum fylgigögnum þess fyrir gjaldárið 2005, vegna rekstarársins 2004, rekstrartekjur hefðu verið vanframtaldar fyrir rekstrarárið 2004, vanrækt hefði verið fyrir hönd félagsins að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og skattskyld velta og útskattur hefðu verið vanframtalin.
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra er rakið að við upphaf rannsóknar hefði verið óskað eftir því við ákærða Eystein Gunnar að hann afhenti bókhaldsgögn fyrir það tímabil sem væri til rannsóknar. Hefði komið fram hjá ákærða að bókhaldsgögn hefðu skemmst eftir að sprungið hefði rör í húsnæði þar sem þau voru geymd. Væri þó að fara af stað vinna við að færa bókhaldið hjá tilteknu bókhaldsfyrirtæki og yrði það tilbúið innan tíðar. Hefði verið gengið eftir því við ákærða í tvígang á næstu mánuðum að afhenda bókhaldsgögnin, en þau ekki skilað sér. Hefði m.a. verið haft samband við þann starfsmann bókhaldsstofunnar sem ákærði hafði sagt vera að vinna við að færa bókhaldið, en sá hefði ekki kannast við það. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra þann 8. september 2006 hefði ákærði borið að hann hefði afhent skiptastjóra þrotabús B bókhaldsgögnin. Nokkru síðar hefði skiptastjórinn haft samband við skattrannsóknarstjóra í því skyni að nálgast bókhaldsgögnin, sem hann sagði ákærða hafa sagt sér að hann hefði afhent skattrannsóknarstjóra. Hefðu engin bókhaldsgögn borist skattrannsóknarstjóra. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra voru rekstrartekjur og skattskyld velta og útskattur félagsins reiknuð samkvæmt sölureikningum og gögnum um innborganir á bankareikning félagsins.
Ákærði Y gaf skýrslu hjá ríkislögreglustjóra þann 9. október 2007. Sagði hann samstarf þeirra Eysteins Gunnars hafa hafist í janúar 2004, en þeir hefðu fengið úthlutað lóðum uppi í [...] til að byggja sumarbústaði. Hefði hann átt að annast framkvæmdir við byggingu húsanna. Hefði hann verið skráður í stjórn félagsins til að tryggja fjármagn frá banka. Áætlanir hefðu ekki gengið eftir og hefði hann í aprílmánuði ákveðið að slíta samstarfinu við Eystein Gunnar. Hefðu þeir Eysteinn Gunnar fyllt út beiðni þess efnis að hann hætti sem framkvæmdastjóri og færi úr stjórn. Eysteinn Gunnar hefði ætlað að skila tilkynningunni til hlutafélagaskrár, en það hefði hann hins vegar ekki gert fyrr en í ágúst og þá jafnframt skráð Y í varastjórn að honum forspurðum. Hefði hann orðið þessa áskynja þegar honum fóru að berast rukkanir vegna félagsins og því gengið í það sjálfur í desember að skrá sig endanlega úr stjórn þess. Sagðist hann hafa haft orð Eysteins Gunnars fyrir því að F væri að færa bókhaldið og færi sú vinna fram á heimili hennar, en hún hefði áður unnið við slíkt á skrifstofunni. Sagðist hann hafa skilað nótum á skrifstofuna þar sem þær hefðu farið í möppu. Hefði hann jafnframt haft milligöngu um að Eysteinn Gunnar fundaði með endurskoðanda í því skyni að sjá um bókhald félagsins, en vissi ekki hvað hefði orðið úr því.
Ákærði Eysteinn Gunnar gaf skýrslu hjá ríkislögreglustjóra 7. desember 2007. Kom fram hjá honum að hann hefði í raun tekið við sem framkvæmdastjóri félagsins í apríl 2004. Hefði Y aldrei verið raunverulegur framkvæmdastjóri félagsins, heldur hefðu þeir verið að vinna saman, en F hefði séð um bókhald og greiðslu reikninga. Fullyrti ákærði að fært hefði verið bókhald hjá félaginu fyrir árið 2004. Hefði F borið ábyrgð á því hjá félaginu að færa bókhald og standa skil á skilaskyldum gögnum og greiðslum. Sagðist ákærði ekki hafa vitað að skattayfirvöldum hefði ekki verið gerð grein fyrir rekstrartekjum félagsins eða að ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskatti. Hann hefði haldið að þetta væri allt í mjög góðu lagi og hefði hann greitt F fé til þess að klára þessi mál, en hún hefði áður starfað hjá félaginu sem bókhaldari og skrifstofumaður.
Við aðalmeðferð málsins ítrekaði ákærði Y að hann hefði ekki komið að eiginlegum rekstri B. Hefði hann farið í þetta samstarf til að byggja sumarbústaði og hefði hans hlutverk verið að stjórna byggingaframkvæmdum. Hann hefði séð um efnisinnkaup að hluta og skilað öllum nótum inn á skrifstofu félagsins. Hefði ákærði Eysteinn alfarið séð um rekstur fyrirtækisins og sagt honum að bókhaldið væri fært úti í bæ. Eysteinn hefði borið ábyrgð á því að bókhald væri fært og hefði hann fullvissað Y um að F væri að sjá um það. Hann hefði ekki verið hjá félaginu nema í u.þ.b. 3 mánuði. Hefði það verið að tilmælum KB-banka, sem sá um fjármögnun félagsins, að hann fór í stjórn þess og varð framkvæmdastjóri. Eysteinn Gunnar hefði ekki viljað að hann væri meðeigandi, en það hefði verið rætt í upphafi. Í apríl hefði hann tekið þá ákvörðun að hann vildi ekki vera í þessu samstarfi og hefði hann sagt Eysteini það. Hann áréttaði jafnframt að hann hefði óskað eftir því við Eystein Gunnar að fengin yrði góð endurskoðunarskrifstofa til að bókhaldið yrði almennilega endurskoðað. Hefði hann komið á fundi með Eysteini Gunnari og endurskoðunarskrifstofu í þessu skyni og sjálfur setið þann fund.
Fyrir dómi sagðist ákærði Eysteinn Gunnar aldrei hafa komið nálægt neinum pappírs- eða peningamálum og ekki vita hver hefði t.d. gefið fyrirmæli um greiðslu t.d. á sköttum eða skuldum. Sjálfur hefði hann aðeins „verið í [...]“ þarna. Allt sem varðaði bókhald og fjármál hefði verið í höndum F. Er borin var undir ákærða fyrrnefnd tilkynning til hlutafélagskrár, dagsett 4. ágúst 2004, um breytingar á stjórn félagsins, þar sem kom fram að hann tæki sæti í stjórn og yrði jafnframt framkvæmdastjóri félagsins, sagði ákærði að félagið hefði verið að hætta á þessum tíma og hefði hann tekið þetta að sér að beiðni L þar sem enginn annar fékkst til þess. Aðspurður sagðist ákærði hafa beðið F um að koma bókhaldinu í lag og borgað henni fyrir það, en hún hefði hins vegar ekki lokið því verki. Sagði ákærði það rangt, sem kom fram hjá F við skýrslutöku hjá lögreglu, að ákærði hefði aldrei komið bókhaldinu til hennar og staðhæfði að hún hefði haft það undir höndum.
Ákærði sagðist ekki vita hverjir hefðu verið eigendur B árið 2004.
Borin var undir ákærða fyrrnefnd tilkynning til hlutafélagaskrár þar sem kom fram að F hefði keypt félagið. Sagðist ákærði ekki vita hvort hún hefði verið eini eigandi félagsins uns það var úrskurðað gjaldþrota. Spurður um það hvernig þau L hefðu komið að félaginu ítrekaði ákærði að hann hefði aðeins séð um rafmagnið.
Vitnið F sagði störf sín fyrir B hafa falist í því að hún hefði skráð bókhald og haldið utan um skuldir og gjöld. Hún hefði innt þessi verk af hendi sem starfsmaður félagins. Hún hefði skráð bókhald eftir þeim gögnum sem hún hafði undir höndum, tekið saman skattskýrslur og lagt þær inn til skattstjóra. Hún hefði ekki starfað hjá félaginu árið 2004.
Vitnið neitaði því alfarið að hafa átt hlutabréf í félaginu og sagðist aldrei hafa keypt félagið. Hún lýsti aðdraganda fyrrnefnds samnings um kaup hennar á öllu hlutafé þannig að ákærða Eysteini Gunnari hefði staðið til boða að kaupa fyrirtækið. Hann hefði verið staddur erlendis þegar kaupin hefðu átt að ganga í gegn. Það hefði því orðið úr að hún hefði verið skráð kaupandi að hans beiðni. Eysteinn Gunnar hefði verið hinn raunverulegi kaupandi. Nánar aðspurð hvers vegna hún hefði ekki gert þetta í umboði Eysteins sagðist hún ekki vita það. Hefði hún gert þetta af greiðasemi við Eystein Gunnar.
Vitnið sagði Eystein Gunnar hafa verið stjórnanda B. Hann hefði tekið allar ákvarðanir, svo sem um greiðslu skatta á því tímabili sem hún starfaði hjá félaginu. Hefði hann haft samband við hana í apríl 2004 og beðið hana um að koma bókhaldi félagsins í lag. Hún hefði sagst þurfa að fá þau gögn sem til þyrfti, en ekkert hefði orðið af því. Hún hefði ekkert fengið greitt fyrir þetta. Hins vegar hefði hún fengið greiðslu um þetta leyti vegna einhvers sem hún átti inni hjá fyrirtækinu.
Vitnið sagðist aldrei hafa séð fyrrnefnda tilkynningu til hlutafélagaskrár, dagsetta 21. janúar 2004, þar sem kom fram að Y og L hefðu verið skipuð í stjórn félagsins og jafnframt ákveðið að Y yrði framkvæmdastjóri félagsins. Sagðist hún ekki vita hvaða störfum Y hefði gegnt hjá félaginu.
Nánar spurð um kaup á B sagðist vitnið hafa afsalað sér öllu hlutafé bæði munnlega og skriflega. Hefði skrifleg yfirlýsing þar um verið unnin af endurskoðanda og átt að leggja hana inn til fyrirtækjaskrár. Hún hefði hins vegar ekki fylgt því eftir að það væri gert. Sagðist hún ekki hafa setið hluthafafund sem haldinn hefði verið 20. janúar 2004 og hefði hún ekki verið boðuð til fundarins.
Vitnið L sagðist hafa unnið hjá B og hefði starf hennar falist í því að annast pantanir á byggingarefni og vörum frá Litháen. Spurð um tilkynninguna til hlutafélagskrár frá 21. janúar 2004 sagðist hún ekki muna eftir að hafa setið hluthafafund svo sem þar kæmi fram. Hún hefði ekki verið hluthafi í félaginu. F hefði verið eigandi félagsins.
Niðurstaða
Ákærðu neita sök og segjast ekki hafa komið að stjórn B. Samkvæmt því sem að framan er rakið var ákærði Eysteinn Gunnar skráður sem varamaður í stjórn félagsins 4. nóvember 2002 til 21. janúar 2004 og sem stjórnarmaður frá 27. ágúst 2004. Við skýrslutöku hjá lögreglu 7. desember 2007 bar ákærði Eysteinn Gunnar að hann hefði í raun tekið við sem framkvæmdastjóri félagsins í apríl 2004. F og ákærði Y báru að ákærði hefði verið raunverulegur eigandi og stjórnandi félagsins. Sagði F að undirritun hennar undir kaupsamning um allt hlutafé félagsins hefði verið til málamynda. Með hliðsjón af framburði F og ákærða Y, sem að hluta til fær stoð í skýrslu ákærða Eysteins Gunnars hjá lögreglu, þykir ótvírætt sannað að ákærði Eysteinn Gunnar hafi verið daglegur stjórnandi, eigandi og fyrirsvarsmaður félagsins svo sem í ákæru greinir. Bar hann sem slíkur ábyrgð á starfsemi félagsins, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög.
Þótt niðurstaða dómsins sé sú að ákærði hafi verið raunverulegur eigandi B breytir það því ekki að F var skráð fyrir öllu hlutafé félagsins. Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár var haldinn hluthafafundur hjá félaginu þann 20. janúar 2004 þar sem samþykkt var að Y og L skyldu skipa stjórn félagsins og jafnframt ákveðið að Y yrði framkvæmdastjóri þess. Fram er komið að F, sem formlega séð var eini hluthafi félagsins, sat ekki fundinn. Var því ekki um löglegan hluthafafund að ræða, sbr. X. kafla laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Ákvarðanir sem teknar voru um breytingar á stjórn félagsins á fundinum voru því ólögmætar. Var ákvörðun um ráðningu ákærða Y sem framkvæmdastjóra því marklaus, sem og eftirfarandi skráning samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár. Bar ákærði Y því ekki ábyrgð stöðu sinnar vegna á brotum sem framin voru í starfsemi B og verður hann sýknaður af ákæru.
Ákærði Eysteinn Gunnar hefur ekki borið brigður á að þau brot sem í ákæru greinir hafi verið framin við rekstur B. Af hálfu verjanda hefur því þó verið haldið fram í greinargerð að sölureikningar hafi ekki greiðst að öllu leyti og beri að reikna ógreidda reikninga til frádráttar tekjum og innskatti. Þá sé augljóst að möguleg rekstrargjöld og mögulegur innskattur séu vantalin, enda hafi aðeins takmarkaðar upplýsingar legið fyrir í því efni. Af hálfu ákærða hefur ekki verið vísað á tiltekin viðskipti eða sölureikninga í þessu sambandi. Þá hefur ekki verið bent á nein gögn því til stuðnings að möguleg gjöld og mögulegur innskattur hafi verið vantalin. Verður mótbárum ákærða á þessum grundvelli hafnað, enda órökstuddar með öllu. Samkvæmt því, og með vísan til gagna málsins að öðru leyti, telst sannað að þau brot sem rakin eru í ákæru hafi verið framin í rekstri B. Hefur ákærði samkvæmt framansögðu gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærði Eysteinn Gunnar Guðmundsson er sakfelldur fyrir mörg brot og nemur brotaandlag verulegum fjárhæðum. Samkvæmt sakavottorði var ákærði þann 28. nóvember 2002 dæmdur í Hæstarétti til að greiða 300.000 króna sekt fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Þann 21. september 2006 var ákærði svo í Hæstarétti dæmdur til að greiða 500.000 króna sekt fyrir sams konar brot. Þann 26. mars 2009 var ákærði í Hæstarétti dæmdur til að sæta 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir skilasvik, en þar var um hegningarauka að ræða. Þann 28. maí 2009 var ákærði svo dæmdur af þýskum dómstól til greiðslu sektar vegna ölvunaraksturs. Refsing ákærða fyrir þau brot sem hann er nú sakfelldur fyrir telst hegningarauki við þrjá síðastnefnda refsidóma. Með hliðsjón af 60. gr., sbr. 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, verður skilorðsdómurinn frá 26. mars 2009 tekinn upp og ákærða dæmd refsing í einu lagi fyrir bæði málin. Ákærði hefur sýnt af sér einbeittan brotavilja, en samkvæmt því sem rakið hefur verið var hann raunverulegur eigandi og stjórnandi allra þeirra félaga sem í hlut eiga, en fékk aðra til að taka að sér eignarhald og framkvæmdastjórn til málamynda. Hann er í máli þessu sakfelldur fyrir stórfelld skatta- og bókhaldsbrot vegna reksturs þriggja einkahlutafélaga og er eðli brotastarfseminnar hið sama í öllum tilvikum. Verður að telja að um sé að ræða kerfisbundin skattsvik þar sem bókhaldsgögn ýmist hverfa eða bókhaldi er verulega ábótavant. Verður þetta virt ákærða til refsiþyngingar, sbr. og 6. og 7. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því, og með vísan til framanskráðs, er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Ekki er ástæða til að skilorðsbinda refsinguna.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og 2. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt varða brot gegn ákvæðunum sekt, sem skal aldrei vera lægri en nemur tvöfaldri fjárhæð vanskilanna og ekki hærri en tífaldri fjárhæðinni. Brot ákærða var stórfellt og því ekki fært að mati dómsins að miða við fésektarlágmark samkvæmt framangreindum ákvæðum, heldur verður miðað við þrefalda fjárhæð vanskila. Verður ákærði samkvæmt þessu dæmdur til að greiða 93.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.
Við ákvörðun refsingar ákærða X verður litið til þess að ákærði hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Jafnframt verður litið til þess að ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir mörg brot, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga og brotaandlag nemur verulegum fjárhæðum. Ákærði hefur borið að ráðning hans í stöðu framkvæmdastjóra hafi verið til málamynda og hefur þeim framburði ekki verið hnekkt að mati dómsins. Þótt þetta atriði leysi ákærða ekki undan refsingu þykir mega horfa til þess til mildunar refsingar hans að hann var ekki raunverulegur stjórnandi félagsins. Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í 7 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og 2. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt verður ákærða jafnframt gerð sektarrefsing, sem ákveðin verður með hliðsjón af refsilágmarki svo að nemi tvöfaldri vanskilafjárhæð. Verður ákærði dæmdur til að greiða 34.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði Eysteinn Gunnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Einars Jakobssonar hæstaréttarlögmanns, vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 1.319.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 20.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjanda við öflun læknisvottorðs.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, 1.002.225 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar, 76.176 krónur.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun verjanda ákærða á rannsóknarstigi og við dómsmeðferð, Jóns Einars Jakobssonar hæstaréttarlögmanns, 323.700 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Er þóknun verjenda í báðum tilvikum ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Einar Tryggvason saksóknarfulltrúi flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Eysteinn Gunnar Guðmundsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 7 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði, Y, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, Eysteinn Gunnar, greiði 93.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði, X, greiði 34.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði, Eysteinn Gunnar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Einars Jakobssonar hæstaréttarlögmanns, 1.319.700 krónur, og 20.000 krónur í annan sakarkostnað.
Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, 1.002.225 krónur, auk aksturskostnaðar, 76.176 krónur.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun verjanda ákærða á rannsóknarstigi og við dómsmeðferð, Jóns Einars Jakobssonar hæstaréttarlögmanns, 323.700 krónur, greiðist úr ríkissjóði.