Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2003


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. maí 2004.

Nr. 370/2003.

Raufarhafnarhreppur

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Reyni Þorsteinssyni

(Ástráður Haraldsson hrl.)

og gagnsök

 

Ráðningarsamningur.

R, sem starfað hafði sem sveitarstjóri hjá Rh, krafðist launa í uppsagnarfresti eftir að ráðningartíma hans lauk. Deilt var um hvernig skilja bæri ákvæði ráðningarsamnings aðila um þetta atriði. Ekki voru talin rök til annars en að skýra bæri hið umþrætta ákvæði samningsins eftir orðanna hljóðan. Uppsagnarákvæði samningsins var aldrei beitt heldur rann hann út samkvæmt efni sínu. Rh var því sýknaður af kröfu R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 2. desember 2003. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 3.422.933 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 570.489 krónum frá 1. júlí 2002 til 1. ágúst sama árs, af 1.140.978 krónum frá þeim degi til 1. september sama árs, af 1.711.467 krónum frá þeim degi til 1. október sama árs, af 2.281.956 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 2.852.445 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs og af 3.422.934 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Með héraðsdómi var hluta af kröfu gagnáfrýjanda vísað frá dómi. Til að koma fram endurskoðun á þeim þætti héraðsdómsins bar honum að kæra það ákvæði hans til Hæstaréttar samkvæmt reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kemur því þessi hluti kröfu gagnáfrýjanda ekki til álita fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi réðst gagnáfrýjandi til starfa sem sveitarstjóri hjá aðaláfrýjanda með ráðningarsamningi 23. júlí 1999. Deila málsaðilar um hvernig túlka beri ákvæði 2. gr. samningsins, sem er svofellt: „Ráðningartími er frá 25. júní 1999 til loka kjörtímabils núverandi hreppsnefndar, þ.e. til þess tíma er nýkjörin hreppsnefnd kemur saman til fyrsta fundar að afloknum sveitarstjórnarkosningum árið 2002. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er 6 mánuðir og miðast hann við mánaðamót.“

Báðir málsaðilar hafa kröfum sínum til stuðnings vísað til lögskipta aðaláfrýjanda við fyrri sveitarstjóra samkvæmt eldri ráðningarsamningum er lagðir hafa verið fram í málinu. Í hinum elstu þessara samninga við Júlíus Má Þórarinsson og Guðmund Guðmundsson var að finna sérstök ákvæði um biðlaun þeim til handa. Voru þeir samningar  ótímabundnir. Guðmundur mun að eigin ósk hafa hætt störfum hjá aðaláfrýjanda og fengið biðlaun, þrátt fyrir að hann hafi þá verið búinn að ráða sig í starf sveitarstjóra hjá öðru sveitarfélagi. Í ráðningarsamningi 9. september 1994 við Gunnlaug Auðun Júlíusson var hins vegar sambærilegt ákvæði við það sem um er deilt í máli þessu, að öðru leyti en því að uppsagnarfrestur var tilgreindur fjórir mánuðir. Gagnáfrýjandi var oddviti aðaláfrýjanda á þessum tíma og ritaði undir samninginn fyrir hönd hans. Fyrir dómi bar gagnáfrýjandi að þessi breyting hafi verið gerð til þess að koma í veg fyrir að sveitarstjórar, sem ráðið hefðu sig til annarra starfa, fengju sjálfkrafa biðlaun. Eðlilegt hafi þótt að um slíkt væri samið sérstaklega við starfslok. Með ráðningarsamningi 28. nóvember 1995 var stefndi ráðinn sveitarstjóri tímabundið til eins árs frá 1. nóvember sama árs vegna leyfis þáverandi sveitarstjóra. Í þeim samningi var hvorki kveðið á um uppsagnarfrest né biðlaun. Ráðning Gunnlaugs Auðuns Júlíussonar í starf sveitarstjóra var endurnýjuð með samningi 26. júní 1998. Var sá samningur að þessu leyti eins orðaður og sá sem deilt er um í þessu máli. Lét Gunnlaugur Auðunn af starfi sveitarstjóra í júní 1999 áður en fyrirfram ákveðnum ráðningartíma lauk. Var gerður sérstakur samningur um starfslok hans 10. júní það ár. Framburður Gunnlaugs Auðuns fyrir dómi var að sumu leyti óljós. Hann kvaðst hafa litið svo á að með samningsákvæðinu væri verið að setja „ákveðið öryggisnet“ ef leiðir myndu skilja innan fjögurra ára ráðningartímabilsins. Sérstaklega spurður af lögmanni stefnda kvaðst hann hafa litið svo á að hann „hefði átt einhvern rétt“ ef hann að loknu kjörtímabili hefði boðið sig fram til áframhaldandi starfa en það ekki verið þegið. Frekar spurður af héraðsdómara kvaðst hann þó ekki geta fullyrt nákvæmlega um hvort túlka bæri títtnefnt ákvæði á þann veg að hann hefði átt rétt til launa eftir lok ráðningartíma. Hann kvaðst þó minnast þess að ástæðan fyrir breyttu orðalagi þessa ákvæðis ráðningarsamningsins hafi verið sú að óeðlilegt hafi þótt að sveitarfélagið hefði þurft að greiða fyrrverandi sveitarstjóra biðlaun eftir að hann hafði ráðið sig til starfa annars staðar.

Af því sem að framan er rakið verður ekki dregin sú ályktun af lögskiptum aðaláfrýjanda við fyrri sveitarstjóra að skýra beri hið umþrætta samningsákvæði í ráðningarsamningi aðila öðruvísi en eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt ákvæðinu var ráðningarsamningurinn tímabundinn, en þó var aðilum heimilt að segja honum upp á samningstímanum með sex mánaða fyrirvara. Var samningi þessum aldrei sagt upp heldur rann hann út samkvæmt efni sínu. Er óumdeilt að 10. júní 2002, á fyrsta fundi aðaláfrýjanda að loknum sveitarstjórnarkosningum 2002, lá fyrir sú ákvörðun aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi yrði ekki endurráðinn sem sveitarstjóri.

Samkvæmt framanrituðu verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda. Verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Raufarhafnarhreppur, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Reynis Þorsteinssonar.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. júní 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 2. júní s.l., hefur Reynir Þorsteinsson, Ásgötu 16, Raufarhöfn, höfðað hér fyrir dómi gegn Raufarhafnarhreppi, með stefnu áritaðri um nægjanlega birtingu 11. desember 2002.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 3.422.933,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38, 2001, af kr. 570.489,- frá 1. júlí 2002 til 1. ágúst 2002, af kr. 1.140.978,- frá þeim degi til 1. september 2002, af kr. 1.711.467,- frá þeim degi til 1. október 2002, af kr. 2.281.956,- frá þeim degi til 1. nóvember 2002, af kr. 2.852.445,- frá þeim degi til 1. desember 2002 og loks af kr. 3.422.934,- frá þeim degi til greiðsludags.  Jafnframt krefst stefnandi þess að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. júlí 2003.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar.  Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

 

Í máli þessu er um það deilt hvort stefnandi eigi rétt til greiðslu launa í 6 mánuði frá þeim tíma er hann hætti störfum sem sveitarstjóri stefnda.

 

Málsatvik eru þau að stefnandi var ráðinn til starfa sem sveitarstjóri í Raufarhafnarhreppi með ráðningarsamningi dags. 23. júlí 1999.  Samkvæmt 2. gr. samningsins var ráðningartíminn frá 25. júní 1999 til loka kjörtímabils þáverandi hreppsnefndar, þ.e. til þess tíma er nýkjörin hreppsnefnd kæmi saman til fyrsta fundar að afloknum sveitastjórnarkosningum árið 2002.  Gagnkvæmur uppsagnarfrestur skv. samningnum var 6 mánuðir og skyldi hann miðast við mánaðarmót. 

Hinn 13. maí 2002 var gerður viðauki við ráðningarsamninginn sem fól í sér leiðréttingu á launum stefnanda til samræmis við þau laun sem fyrri sveitarstjóri hafði í júní 1999. 

Stefnandi hafði áður gegnt stöðu sveitarstjóra hjá stefnda, sbr. framlagðan ráðningarsamning dags. 28. nóvember 1995.  Í þeim samningi var ráðningartíminn afmarkaður frá 1. nóvember 1995 til 1. nóvember 1996.  Samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar þann 29. október 1996 fékk stefnandi tveggja mánaða biðlaun eftir að hann lét af starfi sveitarstjóra.

Á fundi nýrrar sveitarstjórnar stefnda þann 10. júní 2002 var fjallað um starfslok stefnanda og það álit hans að hann ætti rétt á launum skv. ráðningarsamningi í 6 mánuði eftir starfslok.  Niðurstaða sveitarstjórnar varð sú að stefnda bæri ekki að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti.  Með bréfi dags. 22. júlí 2002 tilkynnti stefndi stefnanda að sveitarstjórnin liti svo á að ráðningartíma hans væri lokið og að honum bæri að rýma sveitarstjórabústaðinn sem allra fyrst, eigi síðar en 1. ágúst 2002.  Mótmælti stefnandi þessum skilningi stefnda með bréfi dags. 25. júlí 2002.  Afstöðu stefnanda var síðan mótmælt með bréfi dags. 26. júlí 2002 þar sem áréttaður var sá skilningur stefnda að ráðningarsamningur hans hafi runnið út án uppsagnar.  Með bréfi dags. 24. september 2002 áréttaði stefnandi kröfur sínar um greiðslu launa í uppsagnarfresti.  Stefnda varð ekki við kröfum stefnanda og höfðaði hann því mál þetta.

 

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefnda beri að standa við gerðan ráðningarsamning aðila, dags. 23. júlí 1999.  Stefnandi segir að í 2. gr. samningsins sé kveðið á um sex mánaða gagnkvæman uppsagnarrétt samningsaðila en stefnanda hafi verið gert að hætta störfum þann 10. júní 2002 að afloknum sveitarstjórnarkosningum.  Stefnandi hafi því ekki fengið greidd laun í uppsagnarfresti í samræmi við ráðningarsamninginn.  Stefnandi kveðst mótmæla þeirri túlkun stefnda á samningnum að hann hafi verið tímabundinn og sjálfkrafa runnið út án uppsagnar að loknum kosningum enda hafi það aldrei verið vilji stefnanda að afsala sér á nokkurn hátt uppsagnarrétti með samningnum.

Stefnandi segir þess hvergi getið í samningnum að ákvæði um uppsagnarrétt eigi aðeins við ef til uppsagnar komi áður en kjörtímabili lýkur.  Þvert á móti megi draga þá ályktun við heildarskoðun ákvæðisins að uppsagnarrétturinn sé sjálfstæður án tillits til afstöðu hinnar nýkjörnu hreppsnefndar.  Túlkun stefnda samræmist þ.a.l. ekki skýru orðalagi ákvæðisins enda virðist sem stefndi telji einungis fyrri hluta ákvæðisins réttarskapandi fyrir málsaðila.

Uppsagnarákvæði segir stefnandi almennt ekki að finna í venjulegum tímabundnum samningum.  Í þessu sambandi kveðst hann vísa til ákvæðis 3. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45, 1998 þar sem kveðið sé á um að ráðningartími framkvæmdastjóra skuli að jafnaði vera sami og kjörtími sveitarstjórnar.  Þó sé heimilt að ráða framkvæmdarstjóra til óákveðins tíma en þá skuli uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir af beggja hálfu og miðast við mánaðarmót.  Ákvæðið geri þannig greinarmun annars vegar á tímabundnum samningum án uppsagnarréttar og hins vegar ótímabundnum samningum með gagnkvæmum uppsagnarrétti.  Ekki sé gert ráð fyrir hvoru tveggja.  Ráðningarsamningur stefnanda sé þannig óvenjuleg blanda af báðum samningstegundunum og óeðlilegt að stefndi geti einhliða túlkað samninginn á sem hagkvæmasta hátt fyrir sig án þess að bera nokkrar skyldur við slit ráðningar.

Stefnandi segir ráðningarsamninginn gera ráð fyrir að ef til slita ráðningarinnar komi skuli greidd eins konar biðlaun í 6 mánuði sem sé sama regla og ef ráðningunni ljúki á miðju kjörtímabili.  Kveður stefnandi ráðningu sína ekki hafa verið venjulega tímabundna ráðningu þó form samningsins hafi verið í þá veru.  Í raun hafi verið um að ræða ráðningu sérstaks eðlis þar sem gert hafi verið ráð fyrir ríflegum aðlögunartíma við lok ráðningar, hvort sem væri að kjörtímabili loknu eða fyrr.

Þá telur stefnandi það ekki sjálfgefið að nýkjörin sveitarstjórn vilji breyta mannaráðningum fyrri sveitarstjórnar án umhugsunar um hagsmuni sveitarfélags enda starf sveitarstjóra ekki stjórnmálalegs eðlis heldur óháð því hvaða stjórnmálaöfl myndi sveitarstjórn hverju sinni.  Stefnandi hafi því allt eins átt von á því að ráðningarsamningur hans stæði óbreyttur þó það hafi verið á valdi nýkjörinnar sveitarstjórnar að ákveða hver gegndi embættinu.

Auk framangreinds kveðst stefnandi byggja á því í málinu að venja hafi skapast í samningum stefnda við sveitarstjóra og við framkvæmd starfsloka þeirra.  Hið umdeilda ákvæði ráðningarsamningsins sé ýmist samhljóða ákvæðum í eldri samningum  stefnda við fyrri sveitarstjóra sína eða mjög sambærilegt.  Túlkun stefnda nú sé því á skjön við þau fordæmi sem stefndi hafi sjálfur skapað.  Ef vilji stefnda hafi verið sá að breyta út af þeirri hefð sem skapast hafði í samningum milli sveitarfélagsins og sveitarstjóra þess hefði því verið í lófa lagið að hlutast til um skýrara orðalag ákvæðisins þannig að enginn vafi léki á um að gagnkvæmur uppsagnarréttur félli niður að kosningum loknum.

Stefnandi telur túlkun stefnda á þann veg að hann njóti einskis uppsagnarréttar afar íþyngjandi fyrir sig.  Þá telur stefnandi að engar sannanir séu fyrir því að ákvæðið eigi að túlka með þeim hætti sem stefndi telur.  Það sé ekki einungis á skjön við eldri framkvæmd heldur stríði einnig gegn eðli máls.

Til stuðnings kröfum sínum kveðst stefnandi vísa til meginreglna um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til samningsefnda.  Þá vísar stefnandi einnig til laga nr. 30, 1987 um orlof og  sveitarstjórnarlaga nr. 45, 1998.

 

Stefndi bendir á að í 1. gr. ráðningarsamningsins komi fram að samningurinn sé gerður samkvæmt 69., 70. og 71. gr. sveitarstjórarlaga nr. 8, 1986.  Ráðningarsamningurinn hafi hins vegar verið gerður 23. júní 1999 þannig að miða beri við sveitarstjórnarlög nr. 45, 1998, sem leyst hafi lögin frá 1986 af hólmi, en hliðstæðar reglur sé að finna í 2.-4. mgr. 54. gr. þeirra laga.

Stefndi vísar til þess að í 2. mgr. 54. gr. segi að sveitarstjórn skuli gera skriflegan ráðningarsamning við framkvæmdarstjóra þar sem starfskjör hans séu ákveðin.  Varðandi túlkun á ráðningarsamningi við stefnanda verði að hafa hliðsjón af 3. og 4. mgr. 54. gr. laganna að því er varði tímalengd ráðningarinnar þar sem vísað sé til sveitarstjórnarlaga sem samningsgrundvallar.  Í 3. mgr. 54. gr. segi að ráðningartími framkvæmdarstjóra skuli að jafnaði vera sá sami og kjörtími sveitarstjórnar.  Þetta sé því meginreglan samkvæmt lögunum.  Síðan segi í 4. mgr. 54. gr. að taka skuli fram í ráðningarsamningi hvort ráðning miðist við kjörtíma sveitarstjórnar eða gildi um óákveðinn tíma.

Stefndi telur að túlka beri ráðningarsamninginn samkvæmt orðanna hljóðan þannig að um tímabundna ráðningu hafi verið að ræða, sbr. 2. gr. samningsins.  Í tilvitnaðri grein sé í samræmi við ákvæði 3. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45, 1998 skýrt tekið fram hver sé upphafstími ráðningarsambandsins og hvenær því ljúki.  Stefndi kveður þá meginreglu gilda um tímabundna samninga að þeim verði ekki sagt upp á gildistíma þeirra og því hafi uppsagnarákvæðið verið sett í samninginn.  Stefndi segist ekki geta fallist á það sjónarmið að túlka beri ákvæðið með þeim hætti að það veiti stefnanda rétt á „biðlaunum” (sic) í sex mánuði eftir lok ráðningarsambandsins enda slík túlkun ekki í samræmi við 3. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45, 1998.

Stefndi mótmælir því að nokkur venja hafi skapast um að greiða sveitarstjóra eitthvað sem kallist biðlaun.  Það skapi ekki venju þó sveitarstjórn hafi í einhverjum tilvikum samið við fráfarandi sveitarstjóra um laun eftir að þeir létu af störfum.  Fyrir liggi samningur milli aðila og réttarstaða aðila ráðist af túlkun þess samnings.

Stefndi mótmælir því jafnframt að það geti verið íþyngjandi að gera ráðningarsamning í samræmi við þá meginreglu sem sveitarstjórnarlögin geri ráð fyrir.  Telur stefndi að líta beri til þess verði talið að ráðningarsamningurinn sé óskýr að stefnandi hafi átt sæti í sveitarstjórn stefnda á umræddum tíma og verið leiðtogi þess meirihluta sem þá var í sveitarstjórninni.  Hann hafi þannig verið fyrirsvarsmaður þess aðila sem hann var að ráða sig hjá.

Stefndi kveður ekki ljóst hvernig stefnukrafa stefnanda sé sundurliðuð en þó sé ljóst að miðað sé við mánaðarlaun að fjárhæð kr. 570.489,- með orlofi.  Samkvæmt 7. gr. ráðningarsamningsins hafi stefnandi átt að hafa kr. 416.000,- í laun á mánuði miðað við launavísitölu júnímánaðar 1999.  Þau mánaðarlaun sem krafa stefnanda byggi á virðist hins vegar ekki byggð á þessum forsendum.  Mótmælir stefndi því að framlagður viðauki við ráðningarsamning stefnanda geti haft áhrif í málinu en hann hafi ekki verið borinn undir sveitarstjórn stefnda.

 

Í 2. gr. ráðningarsamnings stefnanda sagði eftirfarandi:  „Ráðningartími er frá 25. júní 1999 til loka kjörtímabils núverandi hreppsnefndar, þ.e. til þess tíma sem nýkjörin hreppsnefnd kemur saman til fyrsta funda (sic) að afloknum sveitarstjórnarkosningum árið 2002.  Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er 6 mánuðir og miðast hann við mánaðarmót.“

Ef ráðningarsamningur stefnanda er túlkaður skv. orðanna hljóðan er að mati dómsins ljóst að í honum er bæði kveðið á um upphaf og lok ráðningartíma stefnanda. Samningurinn er m.ö.o. tímabundinn.  Það er ein meginreglna samningaréttar að ekki er hægt að segja tímabundnum samningum upp á samningstímanum.  Þessi meginregla stendur því þó ekki í vegi að samið sé um annað fyrirkomulag líkt og aðilar gerðu í því tilviki sem hér um ræðir, sbr. ákvæði 2. ml. 2. gr. ráðningarsamningins þar sem kveðið er á um 6 mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest. Ráðningarsamningi stefnanda var hins vegar aldrei sagt upp heldur rann samningstíminn einfaldlega út.  Ráðningarsamningurinn var því að fullu efndur af báðum aðilum eftir orðanna hljóðan.  Var þetta í góðu samræmi við ákvæði 3. og 4. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45, 1998.

Það er niðurstaða dómsins í samræmi við framangreint að hinn umdeildi ráðningarsamningur, túlkaður skv. orðanna hljóðan, veiti stefnanda ekki þann rétt til 6 mánaða launa eftir starfslok sem hann krefur um í málinu.  Af þessu leiðir að stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að hann eigi umræddan rétt til launa þrátt fyrir orðalag samningsins, þ.e. að vilji samningsaðila hafi staðið til slíkrar niðurstöðu en þeim ekki lánast við samningsgerðina að færa þann vilja í orð.

Þau skriflegu gögn sem lögð hafa verið fram í málinu eru ekki til stuðnings þeim skilningi sem stefnandi vill leggja í 2. gr. ráðningarsamningsins.  Þau bera hins vegar með sér að biðlaunaákvæði hvarf úr ráðningarsamningi sveitarstjóra stefnda árið 1994 er Gunnlaugur Júlíusson var ráðinn til starfa.

Stefnanda, Þór Friðrikssyni og Gunnlaugi Júlíussyni bar saman um það fyrir dómi að ástæðan fyrir því að tekin hafi verið ákvörðun um að hafa ekki biðlaunaákvæði í ráðningarsamningi sem gerður var við Gunnlaug Júlíusson árið 1994 hafi verið sú aðstaða sem upp kom þegar Guðmundur Guðmundsson hætti sem sveitarstjóri stefnda árið 1994.  Guðmundur hafi tilkynnt á fyrsta fundi eftir að ný sveitarstjórn tók við að honum hefði boðist sveitarstjórastaða á Hvammstanga og að hann hygðist hverfa til þeirra starfa þegar í stað.  Vegna biðlaunaákvæðis sem var í ráðningarsamningi Guðmundar fékk hann greidd biðlaun í 6 mánuði eftir að hann hætti störfum fyrir stefnda og var hann því á tvöföldum launum á umræddu tímabili.  Hin nýja sveitarstjórn hafi í kjölfarið ákveðið að taka biðlaunaákvæðið út og hafa einungis ákvæði um uppsagnarfrest.

Óumdeilt er í málinu að ráðningarsamningur stefnanda hafi á allan hátt verið sá sami og sá sem gerður var við Gunnlaug Júlíusson þess utan að stefnandi fékk ekki greitt fyrir afnot af heimasíma.

Gunnlaugur Júlíusson bar m.a. fyrir dómi að ákvæði um uppsagnarrétt í samningum hans við stefnda, sem gerðir voru 1994 og 1998, hafi verið eins konar öryggisnet ef ekki væri óskað eftir áframhaldandi starfi sveitarstjóra eftir kosningar.  Taldi hann ákvæðið eðlilegt vegna hins sérstaka eðlis starfsins.

Með vísan til framburða Gunnlaugs Júlíussonar og Þórs Friðrikssonar þykir dóminum sannað að tilgangur þeirra breytinga á ráðningarsamningi sveitarstjóra sem gerðar voru 1994 hafi verið að koma í veg fyrir að fráfarandi sveitarstjóri fengi sjálfkrafa greidd biðlaun, ákveddi hann að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa hjá stefnda.  Ekkert hefur hins vegar komið fram um að tilgangurinn hafi verið sá að fella niður greiðslur eftir starfslok til fráfarandi sveitarstjóra sem ekki væri gefinn kostur á áframhaldandi starfi.  Hafi stefndi við ráðningu stefnanda viljað fella þann rétt niður bar honum að taka það sérstaklega fram við samningsgerðina enda mátti stefnandi ætla vegna þáttöku hans í ráðningu sveitarstjóra stefnda 1994, 1998 og 1999 að forsendur samnings hans væru þær sömu og forsendur ráðningarsamninga Gunnlaugs Júlíussonar.  Ekkert hefur komið fram um að þetta hafi stefndi gert.  Að öllu þessu athuguðu þykir stefnanda hafa nægjanlega tekist að sanna að eins og atvikum að starfslokum hans var háttað felist í ákvæði 2. gr. ráðningarsamnings hans réttur til launa í 6 mánuði eftir starfslok. 

Samkvæmt 7. gr. ráðningarsamnings stefnanda átti hann að hafa kr. 416.000,- heildarlaun á mánuði.  Stefnandi hefur lagt fram viðauka við ráðningarsamning, dags. 13. maí 2002, en í honum segir að í 7. gr. ráðningarsamningsins hafi verið við það miðað að stefnandi hefði sömu laun og fráfarandi sveitarstjóri, Gunnlaugur Júlíusson, hafði í júnímánuði 1999.  Gögn málsins bera hins vegar ekki með sér hver laun Gunnlaugs voru í nefndum mánuði.  Þegar af þeirri ástæðu verður ekki byggt á viðaukanum við úrlausn málsins.  Þá liggja ekki fyrir í málinu nægjanlegar upplýsingar um launavísitölu og dóminum því ógerlegt að taka tillit til vísitölubindingar launanna í niðurstöðu sinni.  Af öllu þessu leiðir að við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar þau mánaðarlaun sem fram koma í ráðningarsamningi stefnanda, þ.e. kr. 416.000,- á mánuði auk orlofs, en stefndi hefur ekki gert ágreining um þann þátt kröfugerðar stefnanda.  Þeim hluta stefnukröfunnar er byggir á áðurnefndum viðauka og ákvæði ráðningarsamningsins um vísitölutengingu launanna er hins vegar vísað frá dómi ex officio vegna vanreifunar.

Í samræmi við allt framangreint dæmist stefndi til að greiða stefnanda kr. 2.749.842,- ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001, af kr. 458.307,- frá 1. júlí 2002 til 1. ágúst 2002, af kr. 916.614,- frá þeim degi til 1. september 2002, af kr. 1.374.921,- frá þeim degi til 1. október 2002, af kr. 1.833.228,- frá þeim degi til 1. nóvember 2002, af kr. 2.291.535,- frá þeim degi til 1. desember 2002 og loks af kr. 2.749.842,- frá þeim degi til greiðsludags.  Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. júlí 2003.

Að atvikum málsins athuguðum þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð:

Þeim hluta kröfugerðar stefnanda, Reynis Þorsteinssonar, er byggir á viðauka við ráðningarsamning, dags. 13. maí 2002, og ákvæði 7. gr. ráðningarsamningsins um vísitölutengingu launa er vísað frá dómi ex officio.

Stefndi, Raufarhafnarhreppur, greiði stefnanda kr. 2.749.842,- ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001, af kr. 458.307,- frá 1. júlí 2002 til 1. ágúst 2002, af kr. 916.614,- frá þeim degi til 1. september 2002, af kr. 1.374.921,- frá þeim degi til 1. október 2002, af kr. 1.833.228,- frá þeim degi til 1. nóvember 2002, af kr. 2.291.535,- frá þeim degi til 1. desember 2002 og loks af kr. 2.749.842,- frá þeim degi til greiðsludags.  Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. júlí 2003.

Málskostnaður fellur niður.