Hæstiréttur íslands

Mál nr. 468/2017

Jón Viðar Stefánsson og Auður Kristín Þorgeirsdóttir (Finnur Magnússon hrl.)
gegn
Óshæð ehf. (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli J og A á hendur Ó ehf. var vísað frá dómi. Í málinu kröfðust J og A þess að Ó ehf. yrði gert að fjarlægja grjóthleðslu á lóðamörkum fasteigna þeirra að viðlögðum dagsektum. Með vísan til 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 taldi Hæstiréttur J og A vera heimilt að afmarka sakarefni málsins við aðfararhæfa kröfu með þeim hætti sem gert hafði verið og hefðu þau af því lögvarða hagsmuni að úr þeirri kröfu yrði leyst efnislega fyrir dómi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2017 þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í málinu gera sóknaraðilar kröfu um að varnaraðila verði gert að fjarlægja grjóthleðslu sem liggur á lóðarmörkum fasteigna aðila. Byggja sóknaraðilar á því að fyrirkomulag grjóthleðslunnar brjóti bæði gegn lögum og ákvæðum gildandi skipulags. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að kröfugerð sóknaraðila væri ekki svo ákveðin og skýr að hún gæti ein út af fyrir sig leitt til málaloka um sakarefnið.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að ekki beri nauðsyn til aðildar sveitarfélags að dómsmáli þar sem reynir á gildi byggingarleyfis eða brottflutning mannvirkis sem talið er fara í bága við skipulagsskilmála og lagaákvæði.

Sóknaraðilar fara með forræði málsins og ákveða samkvæmt því hvernig þau haga kröfugerð sinni. Í stefnu málsins hafa sóknaraðilar afmarkað sakarefnið við aðfararhæfa kröfu um að varnaraðili fjarlægi grjóthleðslu á lóðarmörkum fasteigna þeirra að viðlögðum dagsektum. Slík kröfugerð er sóknaraðilum heimil, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, og hafa þau af því lögvarða hagsmuni að úr þeirri kröfu verði  leyst efnislega fyrir dómi.

Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Óshæð ehf., greiði sóknaraðilum, Jóni Viðari Stefánssyni og Auði Kristínu Þorgeirsdóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 5. júlí 2017

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 2. desember 2016.

Stefnendur eru Jón Viðar Stefánsson, kt. [...] og Auður Kristín Þorgeirsdóttir, kt. [...], bæði til heimilis að Hálsaþingi 5, Kópavogi.

Stefndi er Óshæð ehf., kt. [...], Bergsmára 13, Kópavogi.

Stefnendur krefjast þess að stefnda verði gert að fjarlægja grjóthleðslu sem liggur meðfram lóðarmörkum Hafraþings 4 og 6, fastanúmer 231-3543 og 230-7850, að lóðarmörkum Hálsaþings 5, fastanúmer 229-4036, að viðlögðum 100.00 króna dagsektum sem stefndi greiði stefnendum óskipt frá dómsuppsögu og þar til umkrafinni skyldu er fullnægt.

Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnenda.

Til þrautavara krefst stefndi þess að sér verði ekki gert að fjarlægja í heild grjóthleðslu sem liggur innan lóðarmarka Hafraþings 4 og 6, fastanúmer 231-3543 og 230-7850, og meðfram lóðarmörkum Hálsaþings 5, fastanúmer 229-4036, heldur einungis það magn hlaðins grjóts ofan af hleðslunni sem dómur telur þurfa til að hleðslan uppfylli kröfur skipulagsskilmála og réttarreglna.

Hver sem úrslit málsins kunna að verða krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda.

Krafa stefndu um frávísun málsins er hér eingöngu til meðferðar.

Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess aðallega að málinu vísað frá dómi. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda.

Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms.

I.

Stefnendur eru sameigendur að fasteigninni að Hálsaþingi 5 á Vatnsendasvæðinu í Kópavogi. Um er að ræða íbúð í parhúsi, Hálsaþing 5 og 7, en húsið var byggt árið 2007. Lóð stefnenda að Hálsaþingi 5 liggur að lóðunum Hafraþingi 4 og 6. sem eru í eigu stefnda. Á síðarnefndu lóðunum standa parhús, sem nú eru á byggingarstigi og tengjast Hafraþingi 2 annars vegar og Hafraþingi 8 hins vegar. Lofthæð lóðar stefnenda er lægri en lóð stefnda sem nemur um 3-4 metrum að jafnaði. Stefnendur kveða að þegar svo standi á geri skipulagsskilmálar o.fl. ráð fyrir því að lóðir, sem hærri eru, séu stallaðar gagnvart aðliggjandi lægri lóðum, með nánar greindum hætti.

Tildrög málsins eru nánar tiltekið þau að 29. maí 2015 gaf byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar út byggingarleyfi til eiganda stefnda Óshæðar ehf., North Team Invest ehf., fyrir parhúsum að Hafraþingi 2, 4, 6 og 8. Stefndi kveður að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir tveggja hæða byggingu á lóðum stefnda. Síðar hafi verið afráðið að byggja hús á einni hæð á lóðinni. Hafi það haft í för með sér að byggingarreitur hafi stækkað, m.a um 1,5 til 2 metra til austurs, þ.e. í átt að umþrættum lóðarmörkum. Breyting þessi hafi verið kynnt lóðarhöfum Hálsaþings 5 og ekki sætt andmælum.

Samkvæmt byggingarleyfunum, sem gefin voru út á grundvelli 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, skyldu framkvæmdir við parhúsin unnar eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum, svo og gildandi lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingarmál, sbr. m.a. ákvæði laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Í kjölfar útgáfu leyfanna hófust framkvæmdir við byggingu parhúsa á lóðunum Hafraþing 2, 4, 6 og 8. Við upphaf framkvæmda lét stefndi Óshæð ehf. reisa grjóthleðslu, sem er að stórum hluta úr stórgrýti, á lóðarmörkum síðastgreindra lóða gagnvart Hálsaþingi. Sá hluti grjóthleðslunnar, sem liggur að eign stefnenda, Hálsaþingi 5, stendur á lóðarmörkum Hafraþings 4 og 6 og snýst sakarefni máls þessa um þá tilteknu hleðslu. Hæð grjóthleðslu þessarar nemur hæðarmuni lóða stefnenda og stefnda og hallar hún um u.þ.b. 80-90 gráður að jafnaði. Grjóthleðslan er u.þ.b. 2,3 til 3,6 metrar á hæð meðfram vesturmörkum Hafraþings 4 og u.þ.b. 1,2 metrar á hæð meðfram vesturmörkum Hafraþings 6 sé miðað við grasflöt stefnenda. Grjóthleðslan liggur jafnframt meðfram aðliggjandi lóðum, þ.e. Hafraþingi 2 og 8 annars vegar og Hálsaþingi 7 og hluta Hálsþings 9 hins vegar.

Stefndu benda á að nær allar nærliggjandi lóðir Hafraþings 4 og 6 séu í mjög ólíkum hæðum og sé því mikið notast við stöllun nærri lóðamörkum til að báðar aðliggjandi lóðir nýtist sem best. Lóðir Hafraþings 4 og 6 og aðstaðan gagnvart Hálsaþingi 5 sé þar engin undantekning, en stefnendur hafi ekki verið fáanlegir til að leggja neitt af mörkum við að koma lóðarmörkum í það horf sem þeir virðist gera kröfu um.

Að sögn stefnenda hafði stefndi ekki samráð við þau um frágang framangreindrar grjóthleðslu. Fljótlega eftir að grjóthleðslan reis kveðast stefnendur, ásamt öðrum íbúum Hálsaþings, hafa gert alvarlegar athugasemdir við frágang stefnda á fyrrgreindum lóðum að Hafraþingi og þá einkum við umrædda grjóthleðslu. Hafi verið á það bent af hálfu stefnenda að ástand og frágangur grjóthleðslunnar samræmdist ekki gildandi reglum og skilmálum varðandi skipulag lóðanna. Einnig stafaði börnum slysahætta af hleðslunni þar sem hún væri óeðlilega brött, og ylli slælegur frágangur hennar jarðraski og tjóni á garði stefnenda. Kveðast stefnendur hafa beint því oftsinnis til stefnda og verktaka á hans vegum að grípa til viðeigandi aðgerða vegna ófullnægjandi frágangs á grjóthleðslunni, en án árangurs.

Í kjölfarið hafi stefnendur og nágrannar þeirra beint kvörtun til Kópavogsbæjar vegna frágangs á fyrrgreindum lóðum að Hafraþingi, þ.m.t. umræddri grjóthleðslu. Með bréfi til bæjarstjóra Kópavogsbæjar, dagsettu 6. október 2015, hafi stefnendur farið fram á að framkvæmdir við lóðirnar yrðu stöðvaðar og frágangi þeirra hagað í samræmi við skipulagsskilmála o.fl.. Í kjölfarið hafi starfsmaður bæjarins upplýst að byggingarfulltrúi hefði gert „lóðarhafa Hafraþing[s] 2-4 að stöðva framkvæmdir á lóð sinni þar sem hann varð ekki við ábendingum varðandi lóðarfrágang...“, sbr. tölvubréf frá 13. október 2015. Síðar í sama mánuði hafi stefnendur gert þá kröfu í tölvubréfi til Kópavogsbæjar að grjóthleðslan yrði fjarlægð í heild sinni, m.a. vegna slysahættu af henni. Ekki hafi verið brugðist við þeirri málaleitan og í febrúar 2016 hafi stefnendur orðið þess áskynja að framkvæmdir við umræddar lóðir að Hafraþingi væru að hefjast að nýju. Hafi stefnendur ítrekað fyrra erindi sitt til Kópavogsbæjar í framhaldinu, en ekki hafi verið brugðist við því af hálfu bæjarins.

Með bréfi lögmanns stefnenda og eigenda Hálsaþings 9, dagsettu 18. apríl 2016, hafi þess verið krafist að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar stöðvaði framkvæmdir að Hafraþingi 4, 6 og 8, og hlutaðist til um að framkvæmdum yrði hagað í samræmi við útgefin byggingarleyfi og skipulagsreglur. Byggingarfulltrúi hafi synjað kröfu stefnenda o.fl. um stöðvun framkvæmda með bréfi 25. apríl 2016, m.a. með þeim rökum að framkvæmdaraðili hefði „fallist á að gera lagfæringar á umræddum lóðum“ sem fælust í því að „grjóthleðsla á lóðarmörkum verði lækkuð“. Fyrir liggur að stefndi féllst á að lækka hleðsluna um a.m.k. 60 sm.

Sama dag og fyrrnefnd ákvörðun byggingarfulltrúa lá fyrir, þ.e. 25. apríl 2016, hafi lögmaður stefnenda o.fl. ritað bréf til stefnda þar sem krafist hafi verið tafarlausra úrbóta á umræddum lóðarfrágangi og grjóthleðslu á mörkum lóðanna. Í beinu framhaldi eða 28. apríl 2016 hafi stefnendur o.fl. kært ákvörðun byggingarfulltrúa frá 25. sama mánaðar, þ.e. synjun á stöðvunarkröfu stefnenda o.fl., til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefndin hafi staðfest ákvörðun byggingarfulltrúans með úrskurði 19. maí 2016.

Haustið 2016 hafi stefnendur falið Hallgrími Magnússyni byggingartæknifræðingi að mæla upp lóð stefnenda og lóðarmörk gagnvart Hafraþingi 4 og 6 með tilliti til þess hvort ástand og frágangur margnefndrar grjóthleðslu, þ.m.t. hæð, halli og fjarlægð hennar frá lóðarmörkum, væri í samræmi við gildandi lög og reglur varðandi skipulag o.fl. Í kjölfar mælinga hafi Hallgrímur ritað minnisblað, dagsett 21. september 2016, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að umrædd grjóthleðsla sé of há, of brött og of nálægt lóðarmörkum að Hálsaþingi 5 miðað við deiliskipulagsuppdrátt og byggingarreglugerð o.fl. Með bréfi 12. júlí 2016 hafi lögmaður stefnenda sent minnisblað Hallgríms til Kópavogsbæjar sem ekki hafi brugðist sérstaklega við því.

Stefnendur benda á að fyrrnefndur verktaki og eigandi stefnda, North Team Invest ehf., hafi afsalað lóðunum að Hafraþingi 2, 4, 6 og 8 til stefnda með afsali 19. nóvember 2015, sem afhent hafi verið til þinglýsingar 4. apríl 2016.

Samhliða málsókn þessari höfði eigendur Hálsaþings 9 sjálfstætt mál á hendur stefnda vegna grjóthleðslu sem standi við mörk þeirrar lóðar og aðliggjandi lóða að Hafraþingi 8.

II

Stefndi bendir á að málatilbúnaður stefnenda sé óljós og gagnaframlagning ófullnægjandi. Þá séu dómkröfur ekki til þess fallnar að ná því markmiði sem að sé stefnt og í reynd ekki dómtækar, auk þess sem aðild sé ábótavant. Af þeim sökum beri að vísa málinu frá dómi, sbr. meðal annars d- og e- lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Markmið stefnenda með málsókn virðist vera það að lóðarmörkum verði komið í það sem þeir telja lögmætt horf. Dómkrafa stefnenda miði þó eingöngu að því að grjóthleðsla verði fjarlægð, en lúti í engu að frágangi lóðarmarka að öðru leyti, þ.e. að þau verði útfærð með tilteknum hætti eða komið í það horf sem stefnendur telja lögmætt. Í því sambandi benda stefndu á að eini annmarki lóðarmarkanna núna lúti að frágangi á lóð stefnenda, sem hafi ekki tekið lóð sína í rétta hæð og lögmætt horf. Málsóknin geti því ekki veitt úrlausn um þau réttindi eða skyldur sem að sé stefnt. Það sé enda ljóst að með því að fjarlægja hleðsluna verði sá hluti lóðar stefndu, sem að lóðarmörkum liggur, ennþá jafn hár og raunar verði ekki annað séð en að brottfall hleðslunnar væri í beinni andstöðu við kröfur sem lúti að lóðarfrágangi.  Brottflutningur hleðslunnar myndi jafnframt óhjákvæmilega leiða til þess að jarðvegur gæti runnið niður og inn á lóð stefnenda. Ólíkt því sem nú sé myndi brottfall hleðslunnar því geta valdið óþrifnaði eða spjöllum á lóð stefnenda. Hleðslan feli ekki í sér neina hættu og brottfall hennar sé ekki heldur til þess fallið að auka öryggi, hvorki þeirra sem fari um lóð stefnenda né stefnda. Dómkröfur stefnenda séu því ekki aðeins í andstöðu við skipulagsskilmála og réttarreglur heldur líka í andstöðu við markmið málsóknarinnar.

Stefndi kveðst jafnframt byggja kröfu sína um frávísun á því að stefnendur hafi ekki stefnt þeim aðilum sem nauðsyn krefji. Ekki verði annað séð en að kröfur stefnenda byggist á því að umrædd hleðsla stefnda sé í ósamræmi við skipulagsskilmála Kópavogsbæjar og lagareglur, en sveitarfélagið sem fari með skipulagsvaldið telji hleðsluna þó samræmast öllum kröfum. Því fái stefndi ekki séð hvernig unnt sé að leysa úr málinu án aðildar Kópavogsbæjar. Í tengslum við þetta kveðst stefndi jafnframt benda á að ef ágreiningur komi upp um frágang á sameiginlegum lóðarmörkum skuli hlíta úrskurði byggingarnefndar eins og fram komi í almennum ákvæðum skipulagsskilmála fyrir svæðið, sbr. c- lið 3. gr., en því hlutverki gegni byggingarfulltrúi. Stefnendur hafi lagt ágreining sem að þessu lúti fyrir byggingarfulltrúa. Hafi stefnendur farið fram á stöðvun framkvæmda og haldið því fram að hleðslan samræmdist ekki skipulagsskilmálum og réttarreglum.

Niðurstaða byggingarfulltrúa hafi ekki verið stefnendum þóknanleg og hafi þeir því beint kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hafi m.a. verið gerð sú krafa að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til „Óshæð ehf. hefur komið framkvæmdum á lóðunum í það horf sem samrýmist byggingarleyfum og gildandi deiliskipulagi, þ. á m. með því að fjarlægja grjóthleðslu sem Óshæð ehf hefur komið fyrir á lóðarmörkum umræddra lóða gagnvart Hafraþingi 5 og 9.“  Úrskurðarnefndin hafi sömuleiðis hafnað kröfum stefnenda, en það athugist að framkvæmdir standi enn yfir vegna húsbyggingar og lóðar. Með vísan til þessa telji stefndu að sveitarfélagið verði að eiga aðild að þessu máli, enda megi með vísan til framangreinds líta svo á að farið sé fram á að stjórnvaldsákvörðun verði, að minnsta kosti að hluta til, felld úr gildi.

Loks kveðast stefndu benda á að röng gögn hafi verið lögð fram af hálfu stefnenda og því séu í reynd verulegir annmarkar á málatilbúnaði. Í ljósi þessa telji stefndi ekki efni til annars en að vísa málinu frá dómi.

III

Stefnendur mótmæla frávísunarkröfu stefndu og krefjast þess að henni verði hafnað. Engir annmarkar séu á formhlið málins þannig að frávísun varði. Kröfugerð og málatilbúnaðar stefnenda sé skýr og í samræmi við 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá geti markmið málatilbúnaðarins ekki valdið vafa. Stefnendur krefjist þess að tilgreint mannvirki, sem stefnendur telji að brjóti gegn lögum og skipulagsreglum, verði fjarlægt að viðlögðum dagsektum. Fjölmörg fordæmi séu fyrir kröfugerð af þessum toga, þ.e. um brottnám ólögmætra mannvirkja, sbr. dóma Hæstaréttar 6. nóvember 2008 í máli nr. 32/2008, 7. apríl 2009 í máli nr. 444/2008, 24. mars 2011 í máli nr. 406/2010 og 22. nóvember 2012 í máli nr. 138/2012. Stefnendur hafi afmarkað málið með þeim hætti sem fram komi í stefnu og þeir hafi forræði á málinu og kröfugerð sinni.

Mótbárur stefndu um að málsókn stefnenda „sýnist“ stefna að öðru markmiði en framansögðu ekki sér ekki stoð. Þá sé því hafnað að lóðafrágangurinn sé á ábyrgð stefnenda eða að brottfall hleðslunnar andstætt kröfum um lóðafrágang. Hvað sem öðru lýði varði allar mótbárur stefndu efnishlið málsins, en ekki formhlið þess.

Hvað aðild varðar kveðast stefnendur beina kröfum sínum að stefnda sem þinglýstum eiganda mannvirkisins, en samkvæmt 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki beri eigandi þess ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra. Stefndi beri þá skyldu sem dómkrafa stefnenda lúti að. Stefnendur benda á að engin tiltekin stjórnvaldsákvörðun liggi fyrir í málinu og engin þörf hafi verið á aðild sveitarfélagsins samkvæmt gagnályktun frá 15. gr. áðurgreindra laga. Í dómaframkvæmda hafi kröfum um brottnám mannvirkja ætíð verið beint að eiganda mannvirkis/lóðar, en ekki að sveitarfélagi. Í málinu sé ekki krafist ógildingar á „ákvörðun“ Kópavogsbæjar. Benda stefnendur á að ákvörðun byggingarfulltrúa í málinu varði annað atriði, þ.e. kröfu stefnenda um stöðvun framkvæmda við Hafraþing, sbr. 55. gr. laga nr. 160/2010. Bærinn hafi að öðru leyti ekki brugðist við ítrekuðum kvörtunum stefnenda vegna umþrættra mannvirkja. Þrátt fyrir að Kópavogsbæ hafi verið stefnt til réttargæslu af hálfu stefndu hafi bærinn ekki látið málið til sín taka.

Stefnendur benda á að jafnvel þótt Kópavogsbær hefði tekið ákvörðun vegna sakarefnisins þá hefði það ekki girt fyrir málshöfðun þessa. Málshöfðun um brottnám mannvirkis sé sjálfstætt réttarúrræði sem snúi að einkaréttarlegum hagsmunum stefnenda, þ.e. sem fasteignareigenda. Valdheimildir sveitarfélags á grundvelli skipulags- eða mannvirkjalaga séu reistar á annars konar sjónarmiðum, sbr. dóm Hæstaréttar 7. apríl 2009 í máli nr. 444/2008. Hvað sem öðru líði takmarki úrræði innan stjórnsýslunnar ekki málshöfðunarrétt stefnenda, sbr. dóm Hæstaréttar 24. maí 2011 í máli nr. 406/2010. Jafnframt sé það meginregla að aðildar sveitarfélags sé ekki þörf í málum er varði gildi byggingarleyfa og þess háttar, t.d. milli tveggja einkaaðila, sbr. dóm Hæstaréttar 19. janúar 2006 í máli nr. 326/2005.

IV

Með hliðsjón af dómaframkvæmd verður ekki gerð krafa um það að sveitarfélag eigi aðild að dómsmáli þar sem fjallað er um gildi byggingarleyfis eða brottflutning mannvirkis, sem talið er fara í bága við skipulagsskilmála og lagareglur, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 22. nóvember 2012 í máli nr. 138/2012, 7. apríl 2009 í máli nr. 444/2008 og 19. janúar 2006 í máli nr. 326/2005.

Stefnendur byggja á því að umþrætt grjóthleðsla stefndu brjóti í veigamiklum atriðum gegn settum lagareglum og ákvæðum gildandi skipulags, þ.m.t. lögum nr. 160/2010 um mannvirki, ákvæðum byggingarreglugerðar, skipulagsskilmálum Vatnsendaþings, svo og samþykktum uppdráttum fyrir Hafraþing 4 og 6. Nánar tiltekið byggja stefnendur á því að grjóthleðslan sé í senn of brött, of há og of nálægt lóðarmörkum fasteignar þeirra að Hálsaþingi 5.

Stefnendur benda á að í skipulagsskilmálum vegna Vatnsendaþings komi fram að öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar í beinni línu milli uppgefinna hæðartalna nema annað sé tekið fram eða um annað semjist við aðliggjandi lóðarhafa. Komi upp ágreiningur um frágang á sameiginlegum lóðarmörkum skuli hlíta úrskurði byggingarnefndar um lausn málsins. Flái við lóðarmörk skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:2. Einnig vísa stefnendur til uppdrátta vegna Hafraþings 4 og 6, en af þeim verði ljóslega ráðið að stöllun lóðanna til vesturs skuli vera aflíðandi, þ.e. með halla upp á 1:2.

Stefnendur telja að umþrætt grjóthleðsla milli fasteigna málsaðila að Hafraþingi 4 og 6 og Hálsaþingi 5 teljist ótvírætt til „stöllunar“ og „fláa“ í skilningi framangreindra skipulagsskilmála. Á hinn bóginn liggi fyrir að grjóthleðslan sé miklum mun brattari en nemi hallanum 1:2, en það hlutfall svari u.þ.b. til 45 gráðu halla. Grjóthleðslan sé þverhnípt, þ.e. halli um u.þ.b. 80-90 gráður að jafnaði og sé því augljóslega í miklu ósamræmi við framangreint ákvæði skipulagsskilmálanna um halla upp á 1:2. Auk þess sé grjóthleðslan u.þ.b. 2,3 til 3,6 metrar á hæð meðfram vesturmörkum Hafraþings 4 og u.þ.b. 1,2 metrar á hæð meðfram vesturmörkum Hafraþings 6 og stafi börnum því sérstök slysahætta af hleðslunni af sömu ástæðum.

Samkvæmt framangreindu virðist markmið stefnenda með málsókninni vera það að mörkum á milli lóða málsaðila verði komið í lögmætt horf, þ.e. að stöllun á lóð stefndu sé gerð innan hennar í beinni línu milli uppgefinna hæðartalna og að flái við lóðarmörk sé að jafnaði ekki brattari en 1:2. Dómkröfur stefnenda miða þó eingöngu að því að grjóthleðslan verði fjarlægð, en lúta í engu að frágangi lóðarmarka að öðru leyti, þ.e. að þau verði útfærð með tilteknum hætti eða komið í það horf sem stefnendur telja vera lögmætt.

Af framlögðum ljósmyndum af umræddum lóðarmörkum og grjóthleðslu þykir ljóst að þrátt fyrir að grjóthleðslan yrði fjarlægð væri sá hluti lóðar stefndu sem að lóðarmörkum liggur enn jafn hár og brattur og áður. Jafnframt myndi brottflutningur hleðslunnar óhjákvæmilega leiða til þess að jarðvegur gæti færst úr stað og runnið inn á lóð stefnenda, sem gæti valdið þeim sem þar ættu leið um hættu. Þrátt fyrir að hleðslan yrði fjarlægð verður því ekki annað séð en að frágangur á lóðarmörkunum  yrði eftir sem áður í andstöðu við þær reglur sem stefnendur telja að um hann gildi og að auki yrði öryggi þeirra sem ættu leið um lóðir málsaðila stefnt í hættu vegna lauss jarðvegs.

Sú meginregla er talin gilda að kröfugerð stefnanda verði að vera það ákveðin og skýr að hún leiði ein út af fyrir sig til málaloka um sakarefnið. Þótt með dómi yrði tekin til greina krafa stefnenda um brottflutning grjóthleðslunnar yrði með þeim dómi ekki ráðið til lykta því ágreiningsatriði málsaðila hvernig haga skuli frágangi lóðarmarkanna að öðru leyti. Málatilbúnaður stefnenda eru því ekki til þess fallinn að leiða ágreining aðila um frágang á lóðarmörkunum til lykta.

Ekki verður ráðið af málatilbúnaði stefnenda hvaða lögvörðu hagsmuni stefendur gætu haft af því að afla dóms sem ekki hefði önnur áhrif en þau sem að framan greinir, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framangreindu þykir á skorta að kröfugerð stefnanda sé það ákveðin og skýr að hún leiði ein út af fyrir sig til málaloka um sakarefnið. Með vísan til framangreinds þykir kröfugerð stefnanda og málatilbúnaður að öðru leyti ekki samrýmast meginreglunni um ákveðna og ljósa kröfugerð, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er stefnendum gert að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar er höfð hliðsjón af samkynja máli, nr. E-1150/2016, sem rekið var samhliða þessu máli.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnendur, Jón Viðar Stefánsson og Auður Kristín Þorgeirsdóttir, greiði stefnda, Óshæð ehf. 200.000 krónur í málskostnað.