Hæstiréttur íslands

Mál nr. 480/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Innsetning
  • Fjármögnunarleiga


                                     

Þriðjudaginn 18. ágúst 2015.

Nr. 480/2015.

Landsbankinn hf.

(Bjarni Lárusson hrl.)

gegn

Önnu Kristínu Garðarsdóttur 

(Tómas Jónsson hrl.)

Kærumál. Aðför. Innsetning. Fjármögnunarleiga.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að bifreið yrði tekin úr vörslum A og fengin honum með beinni aðfarargerð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bifreiðin JE 183 af gerðinni Peugeot 107 yrði tekin úr vörslum varnaraðila og fengin sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa sín verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi sent varnaraðila greiðsluáskoranir eða áskoranir um afhendingu bifreiðarinnar JE 183 líkt og sóknaraðili heldur fram. Þá telur varnaraðili sig hafa greitt meira samkvæmt samningnum en henni var skylt. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði verður ekki með glöggum hætti séð að varnaraðili hafi verið í slíkum vanskilum við sóknaraðila að honum hafi verið heimilt 13. maí 2014 að rifta umræddum samningi eftir skilmálum hans. Hefur sóknaraðili því ekki nægilega sýnt fram á að skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 séu fyrir hendi til að hin umbeðna aðfarargerð fari fram. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Landsbankinn hf., greiði varnaraðila, Önnu Kristínu Garðarsdóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2015.

I

            Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 28. maí sl., barst Héraðsdómi Reykjavíkur með aðfararbeiðni, sem móttekin var 8. september sl.

                Sóknaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

                Varnaraðili er Anna Kristín Garðarsdóttir, Skúlaskeiði 12, Hafnarfirði.

                Sóknaraðili krefst þess að bifreið af gerðinni Peugeot 107, fastanúmer JE 183 verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila og fengin sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að því verði hafnað að hin umkrafða aðfarargerð nái fram að ganga. Til vara krefst varnaraðili þess að málskot til æðri dóms fresti gerðinni. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar.

II

Málavextir

                Samkvæmt gögnum málsins gerðu SP-fjármögnun hf. sem leigusali og Íslenskar fjárfestingar ehf. sem leigutaki, samning 21. maí 2007 sem ber yfirskriftina ,,Bílasamningur-Kaupleiga“. Í lið I í samningnum var hinu leigða lýst en um er að ræða bifreið af gerðinni Peugeot 107, með fastanúmerið JE 183. Í lið II var kveðið á um leigutíma og kaupverð og í lið III um leigu sem taka átti mið af tiltekinni „myntkörfu“ og er samningurinn er sagður „100% gengistryggður“. Skyldi greiða „samningsverð“ bifreiðarinnar, 1.167.692 krónur, með 84 mánaðarlegum afborgunum fyrst 1. ágúst 2007. Þá kom fram að almennir skilmálar SP-fjármögnunar hf., sem fylgdu samningum væru hluti af honum en skilmálar þessir samanstanda af 19 stöðluðum greinum. Samkvæmt 1. gr. skilmálanna var eignarréttur bifreiðarinnar hjá SP-fjármögnun ehf. á samningstíma. Í 1. tl. 14. gr. skilmálanna var kveðið á um að fyrirtækinu væri heimilt að rifta samningnum ef leigutaki innti ekki af hendi greiðslur samkvæmt samningnum á umsömdum gjalddögum og vanskil væru orðin 45 daga gömul. Í 2. til 6. tl. sömu greinar var að finna heimild fyrirtækisins til að rifta samningum á grundvelli annarra ástæðna, t.d. ef leigutaki vanrækti viðhald á bifreiðinni eða borgaði ekki vátryggingar sem honum bar. Í 15. gr. skilmálanna var kveðið á um að væri samningnum sagt upp eða honum rift skyldi skila bifreiðinni á þann stað sem SP-fjármögnun hf. tiltæki. Í 18. gr. skilmálanna var kveðið á um að öllum ágreiningi sem rís samkvæmt samningnum skyldi ráðið til lykta eftir íslenskum lögum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

                Varnaraðili tók yfir réttindi og skyldur Íslenskrar fjárfestingar ehf. skv. samningnum 25. ágúst 2008. Eru eftirstöðvar samningsins þá sagðar jafngilda samtals 1.434.213 krónum.

                Hinn 26. janúar 2010 undirritaði varnaraðili umsókn um greiðslujöfnun sem fólst í því að reiknuð var út ný grunngreiðsla samningsins.

                Sóknaraðili tók frá og með 1. janúar 2011 yfir réttindi og skyldur SP- fjármögnunar hf. skv. samningum með samruna SP- fjármögnunar hf. og Avant hf. við sóknaraðila, sbr. auglýsingu Fjármálaeftirlitsins frá 14. júní 2011.

                Bú Íslenskrar fjárfestingar ehf. mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 2010. Skiptum er skv. gögnum málsins lokið en ekkert liggur fyrir um hvenær það var gert eða um skiptin að öðru leyti.

                Í málinu liggja fyrir endurútreikningar frá SP-fjármögnun hf. á bílasamningnum sem fóru fram í kjölfar Hæstaréttardóma sem féllu á árinu 2010, þar sem talið var að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Í útreikningnum var gengið út frá því að lánið hefði frá stofndegi borið vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Voru varnaraðila endurgreiddar 118.030 krónur hinn 18. mars 2011 sem hún var talin hafa ofgreitt eftir að hún tók við samningnum. Enn fremur reiknaði sama fyrirtæki samninginn út að nýju, að því er virðist, vegna þess tímabils er Íslenskar fjárfestingar ehf., var greiðandi að honum. Í ódagsettum endurútreikningi, sem sendur var nafngreindum manni sem var í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldir félagsins, kemur fram að „inneign til útgreiðslu“ sé 373.948 krónur.

                Hinn 1. desember 2013 sendi sóknaraðili varnaraðila annan endurútreikning sem tók mið af dómum Hæstaréttar varðandi gildi fullnaðarkvittana. Fram kemur í bréfi sem fylgdi endurútreikningnum að frá yfirtöku varnaraðila á láninu 25. ágúst 2008 fram að 1. júní 2010 væri nýr höfuðstóll reiknaður miðað við efni fullnaðarkvittana. Búið væri að leiðrétta eftirstöðvar lánsins vegna greiðslna frá endurútreikningsdegi eftir því sem við ætti. Staðan eftir leiðréttingu er sögð 773.083 krónur. Ekkert liggur fyrir í málinu um endurútreikning á samningnum fyrir 25. ágúst 2008, þ.e. er Íslenskar fjárfestingar ehf. var aðili að honum.

                Með bréfi til sóknaraðila, dagsettu 7. febrúar 2014, gerði varnaraðili athugsemdir við framangreindan endurútreikning sóknaraðila og vísaði m.a. til þess að ekki hefði verið tekið tillit til inneignar Íslenskrar fjárfestingar ehf. á grundvelli reglna um fullnaðarkvittanir. Í svari sóknaraðila 24. febrúar 2014 kemur fram að skv. 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 sé kveðið á um að hver skuldari skuli eiga sjálfstæðan rétt gagnavart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum sem þeir hafi innt af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og eins skuli miðast við þann tíma sem viðkomandi hafi verið skuldari lánasamningsins. Samkvæmt því sé endurútreikningur í höndum skiptastjóra nefnds félags, sem þá hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta, enda sé félagið réttur eigandi leiðréttingarinnar sé hún einhver.

                Í bréfi skiptastjóra til sóknaraðila frá 24. júlí 2014, kemur fram að skiptum á búi félagsins sé lokið. Lýsir skiptastjóri því yfir að mögulegri inneign verði ráðstafað til lækkunar á núverandi eftirstöðvum. Verði inneign hærri en sem nemi núverandi eftirstöðvum samþykki skiptastjóri að mismunurinn ásamt vöxtum verði greiddur varnaraðila. Í kjölfar þessa krafði varnaraðili sóknaraðila, með bréfi 28. sama mánaðar, um greiðslu á 735.229 krónum, með vöxtum, sem hann taldi sig eiga inni hjá varnaraðila skv. eigin útreikningum.

                Hinn 13. maí 2014 sendi sóknaraðili varnaraðila skjal er ber yfirskriftina „RIFTUN SAMNINGS OG GREIÐSLUÁSKORUN og áskorun um upplýsingar um greiðslu kröfunnar, sbr. 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991“.  Þar kom fram að vanskil varnaraðila næmu samtals 933.201 krónu að meðtöldum vöxtum og kostnaði, þar af var höfuðstóll kröfunnar sagður 735.832 krónur. Hefði skuldin verið í vanskilum síðan 1. desember 2013. Var því lýst yfir að samningnum væri rift vegna verulegra vanefnda og þess krafist að varnaraðili afhenti bifreiðina þegar í stað.

                Í aðfararbeiðni sóknaraðila, sem dagsett er 2. september 2014, kemur fram að skuld varnaraðila nemi þann dag 649.479 krónum. Í fylgiskjali kemur fram að þar af séu gjaldfallnar afborganir 434.051 króna. Að auki nemi ógjaldfallnar eftirstöðvar samtals 301.838 krónum. Kröfu sóknaraðila fylgdu sömu endurútreikningar hans og að framan er getið frá 1. desember 2013, þar sem tekið er tillit til gildi fullnaðarkvittana.

                Undir rekstri málsins lagði varnaraðili fram fjölda eigin endurútreikninga á eftirstöðvum hins umþrætta bílasamnings sem hann telur að sýni fram á að hann eigi inneign hjá sóknaraðila.

III

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að hann hafi rift samningi sínum við varnaraðila sökum vanefnda varnaraðila á samningnum. Varnaraðili hafi þannig misst heimild sína til umráða yfir hinu leigða. Hann hafi ekki afhent sóknaraðila bifreiðina þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þar um. Sé sóknaraðila því nauðsynlegt að fá heimild til að taka umráð leigumunarins með aðfarargerð. Að mati sóknaraðila fullnægi aðfararbeiðni hans skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. 

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili byggir á því að enga útlistun sé að finna í aðfararbeiðni né í framlögðu riftunarskjali á því á hvaða ákvæðum bílasamningsins riftunin byggist á. Þá telur varnaraðili að ef skuld er til staðar við sóknaraðila þá byggist hún á láni sem hafi verið talið ólögmætt skv. dómum Hæstaréttar. Af því leiði að ákvæði upphaflegs bílasamnings, m.a. um riftun o.fl., gildi ekki lengur enda geti slík ákvæði ekki verið gild lengur skv. láni því sem ólögmætur bílasamningur breyttist í.

                Varnaraðili byggir á því að allir útreikningar sóknaraðila séu rangir. Því hafi varnaraðili lagt fram ýmsa endurútreikninga sem sýni að hann eigi frekar inni hjá sóknaraðila en öfugt. Varnaraðili vísar sérstaklega til þess að skuld sem tilgreind sé í riftunarskjali sé ekki rétt þar sem ekki sé tekið tillit til inneignar Íslenskra fagfjárfestinga ehf., þrátt fyrir að skiptastjóri félagsins hafi samþykkt að hún færi inn á lánið, sbr. 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá miði varnaraðili endurútreikninga sína við upphaflega greiðsluáætlun og 6,72% árlega hlutfallstölu kostnaðar sem þar var getið um. Samkvæmt þágildandi ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán sé sóknaraðila óheimilt að krefjast hærri lántökukostnaðar sem gefi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar ef hún er of lágt reiknuð skv. 5. tl. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Varnaraðili vísar jafnframt til þess að í framlögðum útreikningi hans sé miðað við stöðu samningsins við yfirtöku skv. því sem fram komi á yfirtökuskjölum. Þá sé tekið tillit til inneignar nefnds félags. Vegna þess mismunar komi til skuldajöfnunar í lokin, þ.e.a.s. miðað við fyrirtöku málsins í héraðsdómi 8. desember sl. Staða samningsins þann dag sé sú að varnaraðili eigi inni hjá sóknaraðila.

IV

Niðurstaða

                Sóknaraðili krefst í máli þessu innsetningar í bifreiðina JE 183 sem er í vörslum varnaraðila. Samkvæmt útprentun úr ökutækjaskrá er sóknaraðili skráður eigandi bifreiðarinnar, en varnaraðili er skráður umráðamaður. Er þessi skráning í samræmi við 1 gr. almennra skilmála SP-fjármögnunar hf. sem voru hluti af bílasamningi fyrirtækisins og Íslenskrar fjárfestingar ehf. frá 21. maí 2007. Eins og rakið er í málavöxtum hafa orðið aðilaskipti að samningnum þannig að málsaðilar hafa tekið við réttindum og skyldum samkvæmt honum.

Aðfararbeiðni sóknaraðila, sem dagsett er 2. september 2014, byggir á því að hann hafi rift samningi aðila þar sem varnaraðili hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt honum. Ekki er vísað til þess hvaða skyldur varnaraðili hafi vanefnt en af riftunaryfirlýsingu, sem sóknaraðili sendi varnaraðila 13. maí 2014, má ráða að það hafi verið vegna vanefnda á afborgunum af samningnum, en tekið skal fram að ekki er vísað til samningsins sem slíks, heldur til endurútreiknings sóknaraðila frá 1. desember 2013. Í riftunaryfirlýsingu kemur ekki fram hvaða afborganir séu í vanskilum heldur er einungis vísað til þess að vanskil hafi verið frá 1. desember 2013. Er gjaldfelldur höfuðstóll sagður 735.832 krónur, en heildarskuld 933.201 króna með vöxtum og kostnaði. Í aðfararbeiðni frá 2. september 2014 er hins vegar vísað til þess að skuld varnaraðila nemi þann sama dag 649.479 krónum. Með aðfararbeiðni fylgdi yfirlit, dagsett sama dag, þar sem heildarskuld varnaraðila við sóknaraðila er sögð sú sama, þ.e. 649.479 krónur, þar af séu gjaldfallnar afborganir 434.051. Í yfirlitinu er jafnframt tekið fram að ógjaldfallnar eftirstöðvar séu 301.838 krónur. Með því að tiltaka ógjaldfallnar greiðslur, í fylgiskjali með aðfararbeiðni, verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi, þrátt fyrir riftunaryfirlýsinguna, litið svo á að samningurinn væri í fullu gildi er hann afhenti dóminum aðfararbeiðni sína. Þá er óupplýst af hverju enn séu fyrir hendi ógjaldfallnar eftirstöðvar á þessum degi en síðasta greiðslan samkvæmt samningnum hefði átt að vera 1. júlí 2014. Enn fremur er til þess að líta að í aðfararbeiðninni er ekki á nokkurn hátt reynt að varpa ljósi á þá endurútreikninga sem sóknaraðili byggir fjárkröfu sína á eða gera grein fyrir aðilaskiptum að samningnum, sem urðu er varnaraðili yfirtók réttindi og skyldur samkvæmt honum af Íslenskri fjárfestingu ehf. hinn 28. ágúst 2008, og áhrifa þess á endurútreikning kröfunnar. Skortir þannig á skýringar af hálfu sóknaraðila á kröfum sínum og var ekki bætt úr því undir rekstri málsins með fullnægjandi hætti. 

Með hliðsjón af því að gögn þau sem sóknaraðili byggir kröfu sína á ganga hvert á annars horn og eru ekki nægilega skýr er það mat dómsins að ekki sé fullnægt skilyrðum beinnar aðfarargerðar á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989 og þykir varhugavert að láta gerðina ná fram að ganga, sbr. síðari málslið 3. mgr. 83. gr. sömu laga. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um beina aðfarargerð á hendur varnaraðila.

                Með vísan til þessara málsúrslita verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

                Af hálfu sóknaraðila flutti málið Bjarni Lárusson hrl. vegna Bjarna Þórs Óskarsonar hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Þórður Heimir Sveinsson hdl.

                Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Kröfu sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., um að bifreið af gerðinni Peugeot 107, fastanúmer JE 183, verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila, Önnu Kristínar Garðarsdóttur, og fengin sóknaraðila er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í málskostnað.