Hæstiréttur íslands

Mál nr. 176/2006


Lykilorð

  • Fiskveiðibrot
  • Lagaskil


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. janúar 2007.

Nr. 176/2006.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Guðjóni Einarssyni og

Páli Hlífari Bragasyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Fiskveiðibrot. Lagaskil.

G og P voru sakfelldir fyrir brot gegn lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og nánar tilgreindum stjórnvaldsfyrirmælum. Í ákæru var þess krafist að G og P yrði gerð refsing samkvæmt 23. gr. laganna, eins og henni hafði verið breytt með 225. gr. laga nr. 82/1998. Samkvæmt ákvæðinu, sem þannig var vísað til, vörðuðu þau brot sem ákært var fyrir sektum, en fangelsi allt að sex árum ef brot var stórfellt eða ítrekað. Var jafnframt kveðið á um að sekt skyldi minnst vera 400.000 krónur og mest 4.000.000 krónur nema brot væri ítrekað. Með 1. gr. laga nr. 22/2005, sem tóku gildi eftir að brot G og P voru framin en áður en dómur gekk í héraði, var ákvæðinu breytt á þann hátt að fyrirmæli um 400.000 króna lágmarkssekt gilti því aðeins að brot væri ítrekað. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þessu ákvæði með áorðnum breytingum, sem hvorki hefði verið vísað til í ákæru né héraðsdómi, yrði að beita við ákvörðun refsingar á hendur G og P. Að virtu þessu en jafnframt þeirri aðferð, sem beitt var við brotin, þótti hæfilegt að dæma hvorn um sig til greiðslu 300.000 króna sektar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu, en til vara að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi höfðaði sýslumaðurinn í Keflavík mál þetta með ákæru 12. september 2005. Í henni var ákærða Guðjóni Einarssyni gefið að sök að hafa sem skipstjóri á fiskiskipinu Grímsnesi GK 555 vanrækt að færa í afladagbók afla þess í veiðiferð, sem lauk í Grindavík 4. maí 2005, svo og að hafa ekki sinnt þeirri skyldu að tryggja að hluti aflans, 431 kg af löngu, yrði vigtaður á hafnarvog. Var þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar ásamt nánar tilgreindum stjórnvaldsfyrirmælum, þar á meðal ákvæði reglugerðar nr. 522/1998 um vigtun sjávarafla, en eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms hefur sú reglugerð verið leyst af hólmi með reglugerð nr. 224/2006, sem er efnislega eins og sú eldri um atriði, sem málið varðar. Þá var ákærða Páli Hlífari Bragasyni gefið að sök að hafa sem ökumaður tiltekinnar flutningabifreiðar vanrækt við sama tækifæri að aka með aflann á hafnarvog og farið með hann þess í stað að fiskverkuninni Tjaldanesi ehf. í Grindavík, en með þessu hafi hann brotið gegn 10. gr. fyrrnefndra laga ásamt nánar tilgreindum reglugerðarákvæðum.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu beggja ákærðu fyrir þá háttsemi, sem í ákæru greindi, en með henni brutu þeir gegn þeim ákvæðum laga og reglugerða, sem áður er vísað til. Í ákæru var þess krafist að ákærðu yrði gerð refsing samkvæmt 23. gr. laga nr. 57/1996, eins og henni hafði verið breytt með 225. gr. laga nr. 82/1998. Samkvæmt ákvæðinu, sem þannig var vísað til, vörðuðu brot sem þessi sektum, en fangelsi allt að sex árum ef brot var stórfellt eða ítrekað. Í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 57/1996 var jafnframt kveðið á um að sekt skyldi minnst vera 400.000 krónur og mest 4.000.000 krónur nema brot væri ítrekað, en þegar svo stóð á var bæði lágmark og hámark sektarfjárhæðar tvöfalt hærra. Með 1. gr. laga nr. 22/2005, sem tóku gildi 25. maí 2005, var umræddri 2. mgr. 23. gr. laga nr. 57/1996 breytt á þann hátt að fyrirmæli um 400.000 króna lágmarkssekt gilda því aðeins að brot sé ítrekað, en fyrrgreindar reglur um hámark sektar eru óbreyttar. Þessu ákvæði með áorðnum breytingum, sem hvorki var vísað til í ákæru né hinum áfrýjaða dómi, verður að beita við ákvörðun refsingar á hendur ákærðu, sbr. 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að virtu þessu en jafnframt þeirri aðferð, sem beitt var við brot ákærðu, er hæfilegt að dæma þá hvorn um sig til greiðslu sektar að fjárhæð 300.000 krónur, en um vararefsingu fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest. Rétt er á hinn bóginn að allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, Guðjón Einarsson og Páll Hlífar Bragason, greiði hvor um sig 300.000 krónur í sekt, sem renni í ríkissjóð, innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 22 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. desember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember, er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Keflavík 12. september 2005 á hendur Guðjóni Einarssyni, kt. 110447-3889, Arnarhrauni 21, Grindavík og Páli Hlífari Bragasyni, kt. 150875-3829, Faxabraut 36a, Keflavík, „fyrir brot á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, reglugerð um afladagbækur og reglugerð um vigtun sjávarafla svo sem hér greinir:

Gegn ákærða Guðjóni, með því að hafa sem skipstjóri á fiskiskipinu Grímsnesi GK 555, skipaskrárnúmer 89, vanrækt að færa í afladagbók afla skipsins í veiðiferð sem farin var 4. maí 2005 frá Grindavík og komið að landi sama dag kl. 15:15 í Grindavík.  Þá er hann ákærður fyrir að hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni að tryggja að afli í veiðiferðinni, 431 kg af löngu, yrði vigtaður með öðrum afla skipsins á hafnarvigt, en með því móti reiknaðist sá afli skipsins ekki með réttum hætti til aflamarks.

Gegn ákærða Páli Hlífari, fyrir að hafa, í umrætt sinn við löndun aflans, í stað þess að aka rakleiðis að hafnarvigt í Grindavíkurhöfn og láta vigta aflann, ekið með hann í bifreiðinni ZS-642 að fiskverkuninni Tjaldanes ehf., Hafnargötu 31, Grindavík.

Brot ákærða Guðjóns teljast varða við 1. mgr. 6. gr., 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um umgengni við nytjastofna sjávar nr. 57/1996, 2. gr. og 4. mgr. 6. gr. reglugerðar um afladagbækur nr. 303/1999, sbr. reglugerð nr. 463/2004 og 1. mgr. 2. gr., 3. gr. og 43. gr. reglugerðar um vigtun sjávarafla nr. 522/1998.

Brot ákærða Páls Hlífars teljast varða við 10. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og 3. gr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um vigtun sjávarafla nr. 522/1998 sbr. rgl. nr. 178/2001.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar sbr. 23. gr. laga um umgengni við nytjastofna sjávar, sbr. 225. gr. laga nr. 82/1998.“

Af hálfu ákærðu er  aðallega krafist sýknu en til vara vægustu refsingar. Málsvarnarlauna er krafist.

I.

Þann 4. maí 2005 voru veiðieftirlitsmenn frá Fiskistofu staddir í Grindavík og fylgdust með löndun úr fiskibátnum Grímsnesi GK-555.  Löndun hófst kl. 15:15 þennan dag.  Annar veiðieftirlitsmaðurinn kom sér fyrir á hafnarskrifstofunni við Grindavíkurhöfn með myndbandsupptökuvél og tók hann upp umrædda löndun.  Hinn veiðieftirlitsmaðurinn sat í bifreið ekki langt frá og fylgdist með á bryggjunni.  Löndun hófst fljótlega eftir að báturinn lagðist við bryggju.  Lyftari frá Lyftaraþjónustu Grindavíkur var notaður við löndun.  Fljótlega kom sendiferðabifreið í eigu Tjaldaness ehf. í Grindavík og ók ákærði Páll Hlífar Bragason bifreiðinni.  Fyrir liggur í málinu að Tjaldanes ehf. keypti aflann af útgerð Grímsness GK-555. 

Vitnið A, eigandi B, setti sjö kör af þorski í bílinn og að því búnu fór ákærði Páll á bílnum á hafnarvogina skammt frá og lét vigta körin.  Eftir það fór hann með aflann í fiskverkun Tjaldaness ehf.  Að því búnu kom ákærði aftur niður á bryggju og þá setti A sex kör í bílinn. Ákærði fór með þau kör á hafnarvogina og fór síðan strax aftur niður á bryggju. Á meðan hafði A sett kar með ónýtum netum ofan á annað kar sem var fullt af fiski.  Þegar ákærði Páll kom aftur á bílnum steig hann út úr bílnum og fylgdist með er A setti bæði körin upp í bifreið ákærða.  Í framhaldi af því ók ákærði Páll bifreiðinni upp í fiskverkun Tjaldaness ehf. sem staðsett er við Hafnargötu 31 í Grindavík og er í um hálfs kílómeters fjarlægð frá bryggjunni þar sem landað var.  Hann kom ekki við á hafnarvoginni í þetta skiptið.  Veiðieftirlitsmenn fylgdu ákærða eftir upp í fiskverkun Tjaldaness ehf. og kom þá í ljós að karið, sem var undir netakarinu, var fullt af löngu.  Var þá hringt í lögregluna og kom hún á vettvang kl. 16:15.  Aðspurður á vettvangi kvaðst ákærði Páll hafa gert mistök með því að fara ekki með lönguna beint á fiskmarkaðinn í Grindavík.

Ákærði Páll sagði að hann hafi verið starfsmaður Tjaldaness ehf. og verið falið það starf að sækja aflann í umrætt sinn.  Hafi hann unnið hjá Tjaldanesi ehf. frá því í september 2004.  Hann hafi fyllt bílinn í fyrra skiptið og farið með aflann á vigtina og að því búnu í fiskverkun Tjaldaness ehf.  Í seinni ferðinni hafi verið sett sex kör í bifreiðina og hann farið að því búnu á hafnarvogina.  Hafi hann farið til baka til að sækja eitt kar með netum í.  Starfsmaður lyftaraþjónustunnar hafi hins vegar sett tvö kör í bifreiðina og hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að annað karið hafi verið fullt af fiski en ekki netum. 

Ákærði Guðjón kvaðst ekki hafa fylgst með löndun og hafi hann því ekki átt neinn þátt í því að afli var ekki færður á vigt.  Hann kvaðst hafa gefið áhöfninni almenn fyrirmæli um það að ætíð skyldi fara með afla á vigt.  Aðspurður um ástæðu þess að afli hafi ekki verið færður inn í afladagbók skipsins svaraði ákærði því til að vera kynni að það hafi gleymst í þetta skiptið.

A var á lyftaranum. Hann kvaðst hafa verið að vinna við löndun úr nokkrum bátum í umrætt sinn.  Algengt sé að fugl sæki í kör með fiski og af þeim sökum hafi hann sett kar með netum ofan á annað kar sem fiskur hafi verið í.  Hann hafi gert það eingöngu til að hlífa fiskinum við fuglinum.  Önnur ástæða hafi ekki verið fyrir því.  Aðspurður um hvort hann hafi sagt ákærða Páli frá því að það væri fiskur í neðra karinu svaraði A því til að hann hafi látið ákærða vita af því. Aðspurður um hvernig ákærði Páll hafi átt að vigta aflann með þessum hætti svaraði vitnið því til að hann hafi ekki hugsað út í það.

Framburður veiðieftirlitsmannanna, þeirra Sigurpáls Sigurbjörnssonar og Ingólfs H. Kristjánssonar, var í samræmi við það sem fram hefur komið í málinu.

Fram hefur verið lagt í málinu myndband sem sýnir framangreinda löndun.  Við aðalmeðferð var myndbandið sýnt ákærðu og vitnum og þeir spurðir um efni þess. 

II.

Samkvæmt framansögðu er ekki deilt um málavexti.  Ákærði Páll fór tvær ferðir niður á bryggju að sækja afla.  Í fyrri ferðinni tók hann sjö kör og fór rakleiðis á vigt eins og lög gera ráð fyrir.  Að því búnu fór hann með aflann í fiskverkun Tjaldaness ehf. þar sem hann vann.  Í seinni ferðinni voru sett sex kör af fiski í bifreiðina.  Ákærði Páll fór með þau á vigt en síðan aftur niður á bryggju þar sem einu kari af löngu og kari fullu af netum var bætt í bifreiðina.  Að því búnu ók ákærði í fiskverkunina.

Fram hefur komið að vitnið A, sem stjórnaði lyftaranum, hafði sett kar fullt af netum ofan á fiskikarið.  Á myndbandi því sem veiðieftirlitsmenn tóku sést að ákærði Páll fór út úr bifreiðinni og fylgdist með í lítilli fjarlægð er tveimur síðustu körunum var lyft upp í bifreiðina.  Fyrir dómi sagði ákærði Páll að hæð karanna væri um 70 sentimetrar og hafi hann því horft ofan á efra karið er hann fylgdist með fermingu bifreiðarinnar.  Hann hafi hins vegar ekkert verið að velta því fyrir sér hvort fiskur gæti verið í neðra karinu. 

Ákærði Guðjón hefur aftur á móti sagt að honum hafi ekki verið kunnugt um að farið hafi verið framhjá vigt í umrætt sinn enda fylgist hann ekki daglega með því.  Varðandi færslu í afladagbók kvaðst ákærði Guðjón hafa gleymt því í umrætt sinn. 

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996 skal allur afli veginn á hafnarvog þegar við löndun aflans.  Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. er skipstjóra skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega og ber jafnframt að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann berist til vigtarmanns.  Samkvæmt 10. gr. laganna er ökumanni skylt að flytja óveginn afla rakleiðis frá skipshlið að hafnarvog nema undanþága hafi verið veitt.  Með háttsemi sinni braut ákærði Guðjón gegn 1. mgr. 6. gr., 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um umgengni við nytjastofn sjávar nr. 57/1996 og gegn ákvæðum 2. gr. og 4. mgr. 6. gr. reglugerðar um afladagbækur nr. 303/1999, sbr. reglugerð nr. 463/2004, svo og 1. mgr. 2. gr., 3. gr. og 43. gr. reglugerðar um vigtun sjávarafla nr. 522/1998.

Brot ákærða Páls telst varða við 10. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og 3. gr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um vigtun sjávarafla nr. 522/1998, sbr. reglugerð nr. 178/2001.

Hvorugur ákærða hefur áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.  Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 57/1996 skal refsing fyrir fyrsta brot gegn lögunum ekki vera vægari en 400.000 króna sekt.  Ber að dæma hvorn ákærðu um sig til þess að greiða 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu.

Dæma ber ákærðu til þess að greiða óskipt allan sakarkostnað sem er málsvarnarlaun verjanda þeirra, Sigmundar Hannessonar hrl., 149.400 krónur, og er þá meðtalinn virðisaukaskattur. 

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærðu, Guðjón Einarsson og Páll Hlífar Bragason, greiði hvor um sig 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu.

Ákærðu greiði óskipt allan sakarkostnað sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Sigmundar Hannessonar hrl., 149.400 krónur.