Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-173

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Tómasi Helga Tómassyni (Gizur Bergsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamsárás
  • Handtaka
  • Brot í opinberu starfi
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 10. júní 2021 leitar Tómas Helgi Tómasson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. maí sama ár í málinu nr. 179/2020: Ákæruvaldið gegn Tómasi Helga Tómssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 132. og 217. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa, er brotaþoli lá handjárnaður á maganum í lögreglubifreið, að þarflausu þrýst hné sínu á háls og höfuð hans, slegið hann tvisvar sinnum í andlitið og þvingað handjárnaða handleggi hans ítrekað í sársaukastöðu fyrir aftan bak. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í 45 daga en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem rétturinn hafi lagt rangt mat á myndbandsupptöku úr lögreglubifreið sem varð til þess að leyfisbeiðandi var talinn hafa gerst sekur um háttsemi sem hafi ekki átt sér stað. Þá telur leyfisbeiðandi að úrlausn Hæstaréttar muni hafa verulega almenna þýðingu í ljósi þeirra aðstæðna sem leyfisbeiðandi stóð frammi fyrir á verknaðarstundu en í því sambandi reyni á beitingu 14. gr., sbr. 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að það sé mjög mikilvægt fyrir hann að fá úrlausn Hæstaréttar um háttsemina þar sem fangelsirefsing hafi í för með sér að hann uppfylli ekki lagaskilyrði til að starfa sem lögreglumaður.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. eða 4. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.