Hæstiréttur íslands
Mál nr. 255/2001
Lykilorð
- Gæsluvarðhald
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 14. febrúar 2002. |
|
Nr. 255/2001. |
Ólafur Már Jóhannesson(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) og gagnsök |
Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Gjafsókn.
Ó sætti gæsluvarðhaldi frá 16. júlí til 6. ágúst 1999 vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefna, en var síðar sýknaður af þeim sakargiftum og höfðaði í kjölfarið bótamál á hendur íslenska ríkinu (Í). Að öllum atvikum málsins heildstætt virtum var talið að nægilegt tilefni hefði verið til gæsluvarðhalds Ó fram að 28. júlí og jafnframt að nægilegt tilefni hafi verið til að framlengja gæslu Ó í stuttan tíma eftir það. Hins vegar var ekkert fram komið um að lögregla hefði fylgt eftir beiðni sinni um rannsókn málsins í Hollandi og báru skjöl málsins ekki með sér að frekari vísbendingar um meintan þátt Ó hefðu verið komnar fram að liðnum starfsdegi 3. ágúst 1999. Hafði Í ekki sýnt fram á að réttmætt hefði þá verið að halda Ó lengur. Átti Ó því rétt til bóta með vísan til 176. gr., sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Fjártjón hans var ósannað, en miskabætur þóttu hæfilega ákveðnar 250.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðalfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2001. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 7.900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Gagnáfrýjandi krefst sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar úr hans hendi í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að dæmdar kröfur verði lækkaðar, en til þrautavara, að stefnukröfur verði lækkaðar, og málskostnaður verði þá felldur niður.
I.
Aðaláfrýjandi kveðst með áfrýjun máls þessa freista þess að fá bætur hækkaðar vegna fjártjóns og miska, svo og vegna tapaðs hlutafjár. Hinn rökstuddi grunur, sem dómstólar hafi reist á úrskurði sína um gæsluvarðhaldið frá 16. júlí til 6. ágúst 1999, hafi ekki reynst vera haldbær, og hann hafi verið sýknaður með héraðsdómi af hinum alvarlegu sakargiftum, sem leitt hafi til handtöku hans og gæsluvarðhalds að ósekju, en þeim dómi hafi ekki verið áfrýjað. Frelsissviptingin hafi orðið til þess að hann hafi orðið að selja fyrirtækið, sem hann hafi verið framkvæmdastjóri fyrir, og við það hafi hann misst starf sitt. Sé krafa hans af þeim sökum miðuð við bætur vegna tekjutaps í 6 mánuði á 400.000 krónur fyrir hvern mánuð, sem hafi verið laun hans. Miskabætur séu alltof lágar hjá héraðsdómi, meðal annars með vísan til nýrra dómafordæma.
Gagnáfrýjandi vísar í atvik málsins, sem fram komi í héraðsdómi, og kveður gæsluvarðhald aðaláfrýjanda frá 16. til 28. júlí 1999 hafa verið í einu og öllu lögmætt og nauðsynlegt, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, enda hafi til grundvallar gæsluvarðhaldskröfunni legið framburður tveggja aðila, sem grunaðir hafi verið um aðild að málinu, þess efnis að aðaláfrýjandi væri og viðriðinn málið. Krafa lögreglu hinn 28. júlí 1999 um framhald gæsluvarðhalds aðaláfrýjanda hafi grundvallast á frekari framburðum og gögnum og að enn ætti eftir að yfirheyra þann nafngreinda mann í Hollandi, sem útvegað hafi fíkniefnin. Taldi lögreglan nauðsynlegt að aðaláfrýjandi sætti gæslu áfram til þess að komið væri í veg fyrir að hann hefði samband við Hollendinginn áður en hann yrði yfirheyrður og torveldaði þannig rannsókn málsins. Gæsluvarðhaldsvist sú er aðaláfrýjandi sætti til 6. ágúst hafi því einnig verið lögmæt og nauðsynleg. Um hádegisbil 6. ágúst hafi engin svör enn borist frá Hollandi um það hvort og þá hvenær unnt yrði að bregðast við réttarbeiðninni og því hafi lögregla ekki talið forsendur fyrir kröfu um frekari gæslu aðaláfrýjanda. Gæsluvarðhaldsvistin, sem hann hafi sætt á grundvelli lögmætra úrskurða, hafi því allan tímann helgast af rannsóknarhagsmunum.
II.
Réttur aðaláfrýjanda til bóta úr hendi gagnáfrýjanda ræðst af ákvæðum 176. gr. laga nr. 19/1991, ásamt þeim frekari skilyrðum fyrir bótarétti, sem fram koma í 175. gr. sömu laga, eins og þeim var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999.
Fram er komið, að til grundvallar kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir aðaláfrýjanda lá framburður konu og karls, sem grunuð voru um aðild að innflutningi fíkniefna og sakfelld voru síðar í dómi héraðsdóms 24. febrúar 2000, þess efnis að aðaláfrýjandi væri bendlaður við málið. Konan og karlinn störfuðu í veitingahúsi því sem aðaláfrýjandi rak, hún sem dansmey en hann dyravörður. Þau voru handtekin föstudaginn 9. júlí 1999 og úrskurðuð í gæsluvarðhald um kvöldið. Hinn 13. júlí bar konan hjá lögreglunni að hún hafi flutt inn fíkniefnin fyrir aðaláfrýjanda, og 15. júlí bar karlmaðurinn að hún hefði sagt sér að aðaláfrýjandi væri eigandi efnanna. Framburður þeirra var gefinn meðan þau sættu gæsluvarðhaldi og voru í þágu rannsóknarinnar látin sæta ýtrustu takmörkunum svo sem einangrun. Var því um sjálfstæðan framburð hvors um sig að ræða, en karlmaðurinn bar einungis um hvað konan hefði sagt sér.
Nauðsynlegt var að leita til lögregluyfirvalda í Hollandi til þess að yfirheyra þar mann, sem konan hafði bendlað við málið í skýrslugjöf 13. júlí, og annan mann. Beiðni þess efnis var fyrst send til hollenskra yfirvalda 23. júlí 1999. Aðaláfrýjandi var leystur úr haldi 6. ágúst, áður en þessar yfirheyrslur fóru fram í Hollandi, sem varð ekki fyrr en í september. Fyrir dómi héldu konan og karlmaðurinn bæði við þann framburð sinn að aðaláfrýjandi væri bendlaður við innflutninginn.
Gæsla aðaláfrýjanda helgaðist af rannsóknarhagsmunum. Þegar öll atvik málsins eru virt í heild verður að telja að nægilegt tilefni hafi verið til gæsluvarðhalds aðaláfrýjanda fram að 28. júlí. Hinn 25. júlí skýrði konan efni miða, sem hafði fundist hjá henni við húsleit og greint er frá í héraðsdómi, og var krafa um framhald gæsluvarðhalds meðal annars reist á þessum framburði. Má fallast á að nægilegt tilefni hafi verið til að framlengja gæslu aðaláfrýjanda 28. júlí, en þá aðeins í stuttan tíma til viðbótar. Hins vegar er ekkert fram komið um að beiðni lögreglu um yfirheyrsluna í Hollandi hafi verið fylgt eftir, en hún hafði ekki verið send héðan fyrr en tíu dögum eftir að konan skýrði frá þætti þess hollenska manns, sem hún sagði að hefði útvegað fíkniefnin þar í landi. Skjöl málsins bera ekki með sér að frekari vísbendingar um meintan þátt aðaláfrýjanda hafi verið fram komnar að liðnum starfsdegi þriðjudaginn 3. ágúst. Hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á að réttmætt hafi þá verið að halda honum lengur. Aðaláfrýjandi á því rétt til bóta með vísan til 176. gr., sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Fallist er á að ekki sé heimild til að dæma bætur fyrir útgáfu ákæru á hendur manni, sem hann er síðar sýknaður af, sbr. dóm Hæstaréttar 1. mars 2001 í máli nr. 269/2000.
Eftir 2. mgr. 175. gr. laganna skal bæta fjártjón og miska. Aðaláfrýjandi hefur ekki skotið nægum stoðum undir kröfu sína um bætur fyrir fjártjón. Er það því ósannað og eru ekki efni til að dæma bætur að álitum. Miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Verða þær dæmdar með dráttarvöxtum eins og krafist er.
Ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað verður staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Ólafi Má Jóhannessyni, 250.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. september 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað er staðfest.
Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2001
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 23. mars sl., er höfðað með stefnu, sem árituð er um birtingu 22. ágúst sl.
Stefnandi er Ólafur Már Jóhannesson, kt. 020969-3779, Grundarstíg 11, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið og er dóms- og fjármálaráðherrum stefnt fyrir þess hönd.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér í skaðabætur 7.900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. september 2000 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi 12. september sl.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara lækkunar stefnukrafna og að málskostnaður verði látinn falla niður.
II
Stefnandi lýsir málavöxtum á þá lund að hann hafi verið handtekinn af lögreglunni í Reykjavík á vinnustað sínum 16. júlí 1999. Tilefnið var rannsókn lögreglunnar á innflutningi á 969 MDMA töflum (venjulegast nefndar e-töflur), sem tollgæslan hafði lagt hald á 7. júlí sama ár. Innflytjandi taflanna hafi verið fyrrum starfsmaður stefnanda, hollensk stúlka, og hafði hún borið hjá lögreglu að hún hefði verið að flytja töflurnar inn fyrir stefnanda. Í framhaldi af handtökunni hafi stefnandi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 16. júlí til 28. júlí og var úrskurðurinn staðfestur í Hæstarétti 20. júlí. Stefnandi kveðst hafa verið vistaður á Litla-Hrauni þar sem hann hafi sætt einangrun, heimsóknarbanni, bréfaskoðun, símabanni og fjölmiðlabanni. 28. júlí hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til 18. ágúst en með dómi Hæstaréttar 30. júlí hafi það verið stytt til 6. ágúst sama ár. Stefnandi hafi áfram sætt einangrun og framangreindum takmörkunum.
Þegar þetta gerðist kveðst stefnandi hafa rekið veitinga- og skemmtistaðinn Þórskaffi og hafa gert það frá 8. október 1998. Reksturinn var í nafni hlutafélagsins Þórskaffis ehf., sem stefnandi hafi verið 50% eigandi að sem eigandi hlutafélagsins Cargo ehf. að hálfu. Stefnandi kveðst hafa verið framkvæmdastjóri og hafi hann haft 300.000 krónur í mánaðarlaun auk þess sem hlutafélagið lagði honum til íbúð og bifreið. Heildarlaun hans hafi því verið um það bil 400.000 krónur á mánuði.
Stefnandi kveður að strax og frést hafi að hann hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna fíkniefnamáls hafi viðskiptabanki Þórskaffis ehf. lokað á öll viðskipti við félagið. Þetta hafi orðið til þess að reksturinn stöðvaðist með öllu og að lokum hafi orðið að selja hann, langt undir markaðsverði, í byrjun ágúst 1999 fyrir 17 milljónir króna. Með þessari sölu hafi stefnandi jafnframt misst atvinnu sína.
Eins og að framan sagði var stefnandi leystur úr gæsluvarðhaldinu 6. ágúst 1999 eftir að hafa setið í einangrun í samtals 22 daga. 4. janúar 2000 hafi ríkissaksóknari höfðað opinbert mál á hendur honum fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, sem hann taldi framin í ágóðaskyni á árinu 1999. Í ákærunni var stefnanda og framangreindri hollenskri stúlku gefið að sök að hafa staðið saman að innflutningi á 976 (svo) MDMA töflum. Segir í ákærunni að stefnandi hafi átt frumkvæðið að því að flytja fíkniefnið hingað til lands og fengið stúlkuna til þess að útvega það í Hollandi. Taldi ákæruvaldið meint brot stefnanda varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 24. febrúar 2000, hafi stefnandi síðan verið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins þar sem ekki þótt fram komin lögfull sönnun fyrir því að hann hafi gerst sekur um þann verknað sem hann var ákærður fyrir. Ákæruvaldið hafi þar við látið sitja og ekki áfrýjað dómnum.
Af hálfu stefnda eru ekki gerðar sérstakar athugasemdir við framangreinda málavaxtalýsingu en bent á málavaxtalýsingu í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem lagður hefur verið fram í málinu og grein verður gerð fyrir hér á eftir eftir því sem efni standa til.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi frá upphafi rannsóknar málsins haldið fram sakleysi sínu og í reynd hafi engin þau sönnunargögn komið fram í málinu, sem hafi réttlætt gæsluvarðhaldsvistina og ákæruna á hendur honum. Aðeins einn aðili, framangreind hollensk stúlka, hafi borið hann sökum og hafi framburður hennar verið ótrúverðugur um margt. Sérstaklega vekur stefnandi athygli á því að hún hafi rætt einslega við landa sinn í síma eftir að hún losnaði úr einangrun og sé ekki loku fyrir það skotið að þau hafi sammælst um framburð sinn fyrir dómi um þátt hennar og stefnanda í málinu.
Stefnandi kveður gæsluvarðhaldið hafa verið sér um margt þungbært. Hann hafi verið sviptur öllu sambandi við fjölskyldu sína í samtals 22 daga. Í kjölfar gæsluvarðhaldsins hafi hann orðið að selja fyrirtæki sitt og þar með misst starf sitt sem framkvæmdastjóri þess. Af þessum sökum hafi hann tapað miklum tekjum en einnig hafi orðið að leggja hlutafélagið niður og þar með hafi stefnandi tapað hlut sínum í því. Hann hafi átt 50% hlutafjár í hlutafélaginu, sem að nafnvirði var 1.000.000 króna, og hlutur stefnanda því 500.000 krónur. Þá sé ekki vafamál að gæsluvarðhaldið hafi haft í för með sér andlega þjáningu fyrir stefnanda sem og skaða á mannorði. Ákæran hafi einnig haft hið sama í för með sér, enda hafi málið verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum, bæði á rannsóknarstigi sem og við dómsmeðferðina.
Stefnandi sundurliðar kröfugerð sína þannig að bætur vegna tekjutaps í 6 mánuði er 2.400.000 krónur, eða 400.000 krónur á mánuði, miskabætur vegna gæsluvarðhalds og ákæru eru 5.000.000 króna og tapað hlutafé 500.000 krónur eða samtals 7.900.000 krónur.
Kröfu stefnanda vegna tekjutaps kveður hann miðaða við að hann hafi orðið af tekjum í allt að 6 mánuði. Miskabótakrafan sé áætluð og sé síst of há miðað við alvarleika sakargiftanna og þann miska og mannorðsskerðingu sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna málsins. Vegna sölu fyrirtækisins, sem hafi verið afleiðing gæsluvarðhaldsins, hafi tapast hluturinn í hlutafélaginu Þórskaffi ehf., sem var 500.000 krónur.
Stefnandi kveðst byggja málsókn sína á XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og vísar þar sérstaklega til 175. og 176. gr. laganna. Einnig vísar hann til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
IV
Af hálfu stefnda er sýknukrafan byggð á því að gæsluvarðhaldsvist stefnanda hafi í einu og öllu verið lögmæt og réttmæt. Ekki fái staðist að stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldsvist að ósekju. Gæsluvarðhaldsúrskurðirnir hafi verið kveðnir upp af þar til bærum dómstól, á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins og hafi þeir verið fyllilega lögmætir og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
Til grundvallar gæsluvarðhaldskröfunni hafi legið framburður tveggja aðila, sem grunaðir hafi verið um aðild að málinu. Framburður þeirra var þess efnis að stefnandi var bendlaður við málið og hafi þeir borið þetta á meðan þeir sættu gæsluvarðhaldi. Í gæsluvarðhaldinu hafi þeir verið látnir sæta ýtrustu einangrun og því telur stefndi einsýnt að um sjálfstæðan framburð hvors aðila hafi verið að ræða.
Stefndi bendir á að við yfirheyrslu hjá lögreglu 13. júlí 1999 hafi framangreind hollensk stúlka borið að stefnandi hafi beðið hana að útvega sér fíkniefni. Kvaðst hún því hafa leitað til hollensks vinar sínar og beðið hann um að senda sér efni og fengið nafngreindan Íslending til þess að útvega sér heimilisfang. Fullyrti stúlkan að hún hafi greint hinum hollenska vini sínum frá því að sendingin væri fyrir stefnanda. Þá fullyrti hún að stefnandi og þessi maður hefðu talað saman í síma hennar um innflutninginn þar sem hún og stefnandi hafi verið stödd í tilteknu húsi í Reykjavík.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 15. júlí 1999 bar framangreindur Íslendingur að hollenska stúlkan hefði tjáð honum að stefnandi væri eigandi fíkniefnanna en í framburði mannsins, svo og stefnanda, hjá lögreglu kom fram að þeir tveir voru vinir.
Samkvæmt framansögðu telur stefndi að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að stefnandi skyldi sæta gæsluvarðhaldi allt til 28. júlí og gæsluvarðhaldið, sem hann sætti á grundvelli úrskurðarins, hafi þannig í einu og öllu verið lögmæt og nauðsynleg, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Krafa lögreglu um framlengingu gæsluvarðhaldsvistar stefnanda hafi verið reist við rökstuddar grunsemdir um að hann hefði framið brot á lögum um ávana- og fíkniefni, er varðað gætu fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Var það jafnframt mat lögreglu að stefnandi gæti torveldað rannsókn málsins ef hann fengi að ganga laus. Til grundvallar þessu lá framburður framangreinds fólks. Sérstaklega vísar stefndi til framburðar hollensku stúlkunnar 25. júlí 1999 þar sem hún hafi gefið skýringu á minnismiða, sem er meðal gagna málsins og fannst við húsleit á heimili hennar er hún var handtekin. Á miðanum er um að ræða útreikning á gróða hvers og eins þátttakanda við innflutning á fíkniefnum. Á miðanum séu nafngreindir þrír aðilar, þ.e. hollenska stúlkan og hollenskur kunningi hennar svo og Olli sem að mati stefnda er stefnandi. Á þessum tíma hafi rannsókn málsins verið enn í gangi og réttarbeiðni verið send til hollenskra yfirvalda þar sem m.a. hafi verið farið fram á það að þau yfirheyrðu hinn hollenska kunningja stúlkunnar og fleiri. Taldi lögreglan nauðsynlegt að stefnandi sætti gæslu áfram þannig að komið yrði í veg fyrir að hann hefði samband við Hollendinginn áður en hann yrði yfirheyrður af lögreglunni ytra og torveldaði þannig rannsókn málsins. Hollenska stúlkan var enn í gæslu á þeirri forsendu að ekki væri búið að yfirheyra Hollendinginn. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 1999 um að stefnandi skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, sem staðfestur var af Hæstarétti með þeirri breytingu að gæsluvarðhaldsvistin var stytt til 6. ágúst, hafi þannig í einu og öllu verið lögmæt og nauðsynleg samanber framangreind ákvæði laganna um meðferð opinberra mála.
Framangreindur Hollendingur var yfirheyrður ytra í júlí 1999 og er haft eftir honum að hollenska stúlkan hafi haft samband við hann fyrir hönd vinnuveitanda síns og spurt hvort hann gæti útvegað 1000 e-töflur. Hann kveðst hafa sagt við vinnuveitandann í umræddu símtali að hann vildi tala við stúlkuna strax þar sem hann vildi ekki ræða við vinnuveitandann. Við símayfirheyrslu fyrir dómi bar Hollendingurinn hins vegar að hann hafi ekki rætt við stúlkuna um hvaða fíkniefni ætti að senda og hversu mikið magn heldur hafi hann rætt þetta við vinnuveitanda hennar. Framburður hans var metinn með hliðsjón af því að hann hafði verið reikull og til þess var litið að hann kom ekki fyrir dóminn til skýrslugjafar. Fyrir dómi hélt framangreindur Íslendingur við þann framburð sinn að hollenska stúlkan hafi sagt honum að stefnandi væri eigandi efnisins. Hollenska stúlkan hélt því staðfastlega fram, bæði við rannsókn málsins og fyrir dómi, að stefnandi hefði komið að máli við sig og spurt hvort hún kannaðist ekki við einhvern í Hollandi sem gæti sent fíkniefni til Íslands. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í sakamálinu kemur fram að framburður hennar þótti í meginatriðum trúverðugur. Hins vegar hafi ekki legið fyrir í málinu staðfestur framburður annarra en hennar um þátt stefnanda í innflutningi fíkniefnanna og ekki hafi heldur verið gögnum til að dreifa, er styddu sakfellingu hans að undanskildum framangreindum minnismiða. Þótti framburður stefnanda ótrúverðugur en gegn staðfastri neitun hans þótti ekki fram komin lögfull sönnun þess að hann hefði gerst sekur um þann verknað sem hann var ákærður fyrir.
Stefndi telur ljóst að þær þvingunaraðgerðir sem stefnandi sætti á meðan á lögreglurannsókn málsins stóð hafi verið fyllilega lögmætar og í samræmi við réttarframkvæmd hér á landi. Úrskurðir um gæsluvarðhald hafi verið kveðnir upp af þar til bærum dómstól á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins. Engan veginn fái staðist sú staðhæfing í stefnu að engin sönnunargögn hafi komið fram í málinu, sem réttlætt hafi gæsluvarðhald eða ákæru á hendur stefnanda. Fyrirliggjandi framburður, gögn og sönnunarmat dómstólsins í málinu vitna skýrlega um það að stefnandi var ekki sviptur frelsi að ósekju. Lögmælt skilyrði til að beita stefnanda gæsluvarðhaldi hafi verið uppfyllt og til þeirra aðgerða hafi verið nægilegt tilefni. Samkvæmt þessu kveðst stefndi ekki fá séð að lagaskilyrði séu fyrir því að taka bótakröfu stefnanda til greina.
Varakröfu sína styður stefndi í fyrsta lagi við það að hvorki í XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála né í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála séu ákvæði sem veiti bótarétt vegna ákæru. Þá sé miskabótakrafa stefnanda vegna gæsluvarðhaldsvistar í 22 daga allt of há og í engu samræmi við dómvenju.
Stefndi vísar því á bug að hann verði gerður ábyrgur fyrir umfjöllun fjölmiðla um mál stefnanda. Stefnandi hafi sjálfur, af fúsum og frjálsum vilja, komið fram í viðtölum við fjölmiðla undir fullu nafni og lýst því yfir að hann ætlaði sér í skaðabótamál. Aldrei áður hafi hann verið nafngreindur í fjölmiðlum. Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann beri ekki ábyrgð á andlegum þjáningum stefnanda vegna mikillar umfjöllunar í fjölmiðlum.
Stefndi telur það ósannað og rangt að stefnandi hafi orðið að selja fyrirtæki sitt í kjölfar gæsluvarðhaldsins og misst þar með starf sitt sem framkvæmdastjóri þess og orðið fyrir tekjutapi. Fyrir liggi að stefnandi var ekki eini starfsmaður fyrirtækisins sem sætti gæsluvarðhaldi vegna málsins. Fatafella og annar starfsmaður hafi einnig verið í gæslu. Það sé þannig ósannað að gæsluvarðhaldsvist stefnanda hafi haft þau áhrif á viðskipti fyrirtækisins, sem stefnandi vilji vera láta. Þá hafi engin gögn verið lögð um það hver fjárhagsstaða fyrirtækisins hafi verið áður en málið kom upp. Í sakamálinu í héraðsdómi komi skýrt fram að stefnandi hafi verið skuldum vafinn og peningalítill og m.a. hafi unnusta hans þurft að lána fyrirtækinu fé til launagreiðslna. Þá sést á kaupsamningi félagsins við annað hlutafélag að félagið var skuldum vafið og vekur stefndi sérstaka athygli á því að það var selt 5. ágúst 1999 eða degi áður en stefnandi losnaði úr gæsluvarðhaldinu. Kveður stefndi þetta benda til þess að ákveðið hafi verið að selja fyrirtækið áður en stefnandi var hnepptur í gæsluvarðhald. Staðhæfingar stefnanda um að hann hafi misst vinnu sína við sölu fyrirtækisins og tekjutap hans í því sambandi eigi því ekki við nein rök að styðjast. Þá bendir stefndi á að af stefnanda hálfu hafi ekki verið lagður fram neinn samningur er styðji fullyrðingar hans um það hver laun hans hafi verið hjá fyrirtækinu. Staðhæfingar stefnanda um atvinnuleysi í kjölfar sölunnar eða að það sé að rekja til gæsluvarðhaldsvistarinnar sé heldur engum gögnum stutt fremur en staðhæfingarnar um að sala fyrirtækisins verði rakin til gæsluvarðhaldsvistarinnar. Þá hafi stefnandi heldur ekki lagt fram nein gögn, sem styðji það að hlutaféð, sem hann staðhæfir að hann hafi tapað við að félagið var lagt niður, hafi á sínum tíma verið greitt. Á sama hátt hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn þess að leggja félagið niður.
V
Stefnandi byggir málsókn sína á XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og vísar þar sérstaklega til 175. og 176. gr. laganna. Samkvæmt síðari greininni má dæma bætur m.a. vegna gæsluvarðhalds ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Eins og að framan var rakið var stefnandi úrskurðaður í gæsluvarðhald 16. júlí 1999. Var því markaður tími til 28. júlí, sem var styttri tími en lögreglan hafði krafist, sem var til 6. ágúst. Í forsendum úrskurðarins segir að tveir aðilar, framangreind hollensk stúlka og vinur stefnanda, hafi bendlað hann við framangreint fíkniefnasmygl. Úrskurður héraðsdóms vær kærður til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með vísun til forsendna hans.
Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir dóminn, hafði hollenska stúlkan borið hjá lögreglu að stefnandi ætti aðild að fíkniefnainnflutningnum. Á sama hátt bar hún síðar við meðferð sakamálsins. Vinur stefnanda bar hins vegar að hafa vitneskju sína um ætlaðan þátt stefnanda frá stúlkunni. Hann taldi sig hins vegar hafa orðið varan við ýmislegt í fari stefnanda og samskiptum hans við aðra menn, er hann tengdi fíkniefnamisferli.
Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir stefnanda var byggður á heimild í a-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Samkvæmt þeirri grein verður maður því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að kominn sé fram rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað, sem fangelsisrefsing sé lögð við og ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins á þann hátt, sem nánar greinir í ákvæðinu.
Með vísun til framanritaðs er fallist á það með stefnda að 16. júlí hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að stefnandi hefði framið refsiverðan verknað og því hafi bæði verið fyrir hendi lögmæt skilyrði og nægilegt tilefni til að úrskurða hann í gæsluvarðhald.
Hins vegar er á það að líta að ekki verður séð af gögnum málsins að rannsókn lögreglunnar hafi bætt miklu við það, sem þegar lá fyrir þegar stefnandi hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Allir þeir, sem síðar voru ákærðir, höfðu þá verið handteknir og yfirheyrðir nema maður nokkur í Hollandi, sem fyrst var beðið um yfirheyrslu yfir 23. júlí. Hann var hins vegar ekki yfirheyrður fyrr en 21. september.
Þegar er fram komið að stefnandi neitaði staðfastlega sökum, bæði hjá lögreglu og síðar fyrir dómi. Engin frekari sönnunargögn voru færð fram fyrir ætlaðri sekt hans önnur en framburður þeirra tveggja, sem að framan getur. Með vísun til þessa er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið nægilegt tilefni til að úrskurða stefnanda í eins langt gæsluvarðhald og gert var 16. júlí 1999.
Lögreglan krafðist þess 28. júlí að gæsluvarðhald stefnanda yrði framlengt til 18. ágúst og féllst héraðsdómur á það og var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti, þó þannig að gæsluvarðhaldstíminn var styttur til 6. ágúst. Var úrskurðurinn sem fyrr byggður á heimild í a-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Samkvæmt úrskurðinum virðist sem meginröksemd lögreglunnar fyrir kröfu sinni hafi verið að ekki væri búið að yfirheyra Hollendinginn. Gögn málsins bera þó með sér að um hann hafi verið vitað allt frá því að hollenska stúlkan gaf skýrslu hjá lögreglu 9. júlí. Það var hins vegar fyrst beðið um yfirheyrslu yfir honum 23. júlí og hann yfirheyrður 21. september eins og áður sagði.
Með vísun til framanritaðs er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til að krefjast framlengingar á gæsluvarðhaldsúrskurði yfir stefnanda svo sem gert var 28. júlí 1999.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2000 var stefnandi sýknaður af ákærunni. Að mati dómsins var framburður stefnanda ótrúverðugur. Hins vegar liggi ekki fyrir í málinu staðfastur framburður annarra en hollensku stúlkunnar um þátt hans í innflutningi fíkniefnanna og ekki sé heldur gögnum til að dreifa er styðji sakfellingu hans, að undanskildum miða með verðútreikningi, er fannst í fórum stúlkunnar, en til þess beri þó að líta að hún hafi ritað miðann. Gegn staðfastri neitun stefnanda þótti því ekki komin fram lögfull sönnun þess að hann hefði gerst sekur um þann verknað sem hann var ákærður fyrir.
Samkvæmt 175. gr. laga um meðferð opinberra mála má taka til greina kröfur um bætur ef sakborningur hefur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum dómi vegna þess að sönnun hafi ekki fengist um þá háttsemi, sem sakborningur var borinn. Þannig stendur á í þessu máli, enda var því ekki áfrýjað af hálfu ríkissaksóknara. Samkvæmt 176. gr. sömu laga má m.a. dæma bætur vegna gæsluvarðhalds ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til að beita því. Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að 16. júlí 1999 var ekki nægilegt tilefni til að beita jafnlöngu gæsluvarðhaldi og gert var og ekki var nægilegt tilefni til að framlengja það 28. júlí, eins og gert var. Það er því niðurstaðan að stefnanda beri bætur úr hendi stefnda vegna gæsluvarðhaldsvistarinnar en í XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála er ekki heimild til að dæma bætur fyrir útgáfu ákæru á hendur manni, sem hann er síðan sýknaður af. Er því hafnað að dæma stefnanda bætur á grundvelli þessa.
Samkvæmt 2. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála skal bæta fjártjón og miska. Í III. kafla var gerð grein fyrir bótakröfu stefnanda. Ljóst má vera að stefnandi hefur orðið af tekjum þann tíma, er hann sat í gæsluvarðhaldinu. Hins vegar verður að hafna kröfu hans um laun í 6 mánuði, enda hefur hann engin gögn lagt fram, sem styðja þá kröfugerð. Honum verða dæmdar bætur að álitum fyrir tekjutap og eru þær hæfilega metnar 200.000 krónur. Miskabætur til stefnanda þykja hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Engin gögn hafa verið lögð fyrir dóminn er sanna, gegn mótmælum stefnda, að stefnandi hafi tapað fé á sölu framangreinds hlutafélags og verður að hafna kröfu hans um bætur vegna þessa.
Stefndi verður því dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og er þar af leiðandi ástæðulaust að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Ólafi Má Jóhannessyni, 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. september 2000 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.