Hæstiréttur íslands

Mál nr. 352/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. september 2001.

Nr. 352/2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

                                              

Kærumál. Gæsluvarðhald. B liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. september 2001 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta farbanni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og fram kemur í úrskurði héraðsdóms er varnaraðili grunaður um að hafa ásamt öðrum manni átt aðild að fjársvikabrotum hér á landi, sem varðað geti fangelsisrefsingu. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að hafna kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn um rannsókn, sem fram fór hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli, á tveimur vegabréfum er fundust í fórum varnaraðila. Var þar komist að þeirri niðurstöðu að bæði vegabréfin væru fölsuð, meðal annars með þeim hætti að plastfilmu á þeim hefði verið lyft og í þau sett mynd af varnaraðila. Hefur ekki tekist að sannreyna hver varnaraðili er. Erlent fæðingarvottorð, sem varnaraðili hefur aflað að utan og lagt fyrir Hæstarétt, fær því ekki breytt. Varnaraðili er erlendur ríkisborgari og stundar hvorki atvinnu né á fjölskyldu hér á landi. Hefur ekkert komið fram sem styður að ekki megi ætla að hann muni hafa hug á að halda af landi brott gefist honum færi á því, en ekki verður fallist á að nægilegt sé til að koma í veg fyrir það að varnaraðili hafi ekki í höndum vegabréf eða hann verði látinn sæta banni við för úr landi. Með hliðsjón af þessu er nauðsynlegt að tryggja nærveru varnaraðila með áframhaldandi gæsluvarðhaldi og verður því að fallast á kröfu sóknaraðila á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2001.

 

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, sem kveðst vera fæddur í Kamerún […] og hafa þarlendan ríkisborgararétt, sem kom til landsins frá Frakklandi 7. þ.m. verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. september nk. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi komið til landsins frá Frakklandi 7. þ.m.  Hann sé grunaður um að hafa svikið út 180.000 kr. og 800 bandaríska dollara hjá gjaldkerum banka í Reykjavík og í Flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli 7. og 8. þ.m. í félagi við annan mann, sem einnig kom til landsins sama dag frá Spáni á fösluðu vegabréfi undir nafninu Y.  Þeir voru báðir handteknir að kvöldi 8. þ.m. og daginn eftir úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli a og b liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til kl. 16:00 í dag.

Lögreglan kveðst ekki hafa undir höndum upplýsingar um hverjir kærði og nefndur Y séu. Samkvæmt upplýsingum frá Interpol í Frakklandi sé kærði ekki á skrá þar en staðfesting hafi enn ekki borist við fyrirspurn alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra frá 10. þ.m. um hvort vegabréf það sem kærði framvísaði við komuna til landsins sé falsað.

Vegabréfið sem kærði framvísaði við komuna til landsins sé nú til frekari rannsóknar hjá lögreglu á Keflavíkurflugvelli og munu niðurstöður berast á næstu dögum.

Rannsókn vegna ætlaðra fjársvika kærða sé nú á lokastigi og sé fyrirhugað að höfða mál á hendur kærða nú á næstu dögum.  Nauðsynlegt sé að tryggja nærveru hans með gæsluvarðhaldi þar sem telja verður að kærði geti farið úr landi til lands innan Schengen svæðisins, gangi hann laus.

Lögreglan vísar, máli sínu til stuðnings til a og b liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 1. mgr. 15. gr. laga um eftirlit með útlendingum nr. 65/1965.

Samkvæmt þeim gögnum, sem lögð hafa verið fyrir dóminn má fallast á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsiverðan verknað sem fangelsisrefsing er lögð við.  Hins vegar verður ekki annað af gögnunum ráðið en að rannsókn málsins sé svo vel á veg komin að ástæða sé til að ætla að kærði muni torvelda rannsókn þess gangi hann laus.  Það er því ekki fallist á að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.  Hins vegar hefur kærði viðurkennt að hafa komið hingað til lands og haft undir höndum falsað vegabréf.  Þá er ljóst að ekki hefur tekist að fullu að sannreyna hver kærði í raun er.  Það er því fallist á það með lögreglu að skilyrði b liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi og verður því orðið við kröfu hennar og kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald eins og krafist er.  Tilvísun til laga nr. 45/1965 þykir hins vegar ekki eiga við.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. september 2001 kl. 16:00.