Hæstiréttur íslands

Mál nr. 416/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Frávísun frá héraðsdómi


           

Miðvikudaginn 29. ágúst 2007.

Nr. 416/2007

Fjarðaflug ehf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Flugskóla Helga Jónssonar ehf.

(Valgeir Kristinsson hrl.)

 

Kærumál. Bein aðfarargerð. Frávísun frá héraðsdómi.

FF ehf. krafðist þess að félaginu yrði með beinni aðfarargerð fenginn réttur til að koma upp aðstöðu fyrir flugafgreiðslu á nánar tilgreindum stað á Reykjavíkurflugvelli og að FHJ ehf. yrði gert skylt að fjarlægja bifreið, tvö stórgrýti og annað sem tilheyrði því félagi en kæmi í veg fyrir lögmæt afnot FF ehf. af umræddri spildu. Með þessum kröfum sínum leitaði FF ehf. annars vegar dómsviðurkenningar á rétti sem það taldi sig eiga og hins vegar dómsúrskurðar um skyldu FHJ ehf. til að fullnægja þeim rétti á tiltekinn hátt. Kröfur af þessu tagi verða ekki sóttar með aðfarargerð. Var þeim því vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að félaginu yrði með beinni aðfarargerð fenginn réttur til að koma upp aðstöðu fyrir flugafgreiðslu á nánar tilgreindum stað á norðausturhorni Reykjavíkurflugvallar og að varnaraðila yrði gert skylt að fjarlægja þaðan bifreiðina R-5053, tvö stórgrýti og annað sem tilheyrir varnaraðila en komi í veg fyrir lögmæt afnot sóknaraðila af umræddri spildu. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fallist verði á framangreindar kröfur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili lýsir kröfum sínum svo í kærunni að „staðfestur verði með beinni aðfarargerð/innsetningu réttur kæranda til að koma upp aðstöðu fyrir flugafgreiðslu á lóðarmörkum (airside/landside) austan við skýli 7 á norðausturhorni Reykjavíkurflugvallar.“ Jafnframt sé krafist „dómsúrskurðar um það, að Flugskóla Helga Jónssonar ehf. verði gert skylt að fjarlægja bifreiðina R 5053, auk tveggja stórgrýta“ og fleira af umræddri spildu.

Í máli þessu krefst sóknaraðili beinnar aðfarargerðar með heimild í 12. kafla laga nr. 90/1989, sbr. 13. kafla sömu laga. Svo sem skýrt er í ákvæðum laganna er aðför fullnustugerð sem hefur það markmið að fá atbeina sýslumanns við að fullnægja skyldu sem hvílir á gerðarþola en hann efnir ekki sjálfur. Með framangreindum kröfum leitar sóknaraðili annars vegar dómsviðurkenningar á rétti sem hann telur sig eiga og hins vegar dómsúrskurðar um skyldu varnaraðila til að fullnægja þeim rétti á tiltekinn hátt. Það er skilyrði fyrir dómsmeðferð máls samkvæmt 13. kafla laga nr. 90/1989 að í því séu gerðar kröfur sem unnt er að fallast á ef gerðarbeiðandi telst eiga þann rétt sem liggur kröfunum til grundvallar, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna, sem vísar um málsmeðferðina til almennra reglna um meðferð einkamála. Kröfur af því tagi sem sóknaraðili gerir í máli þessu verða ekki sóttar með aðfarargerð. Verður þeim því vísað frá héraðsdómi og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Sóknaraðili, Fjarðaflug ehf., greiði varnaraðila, Flugskóla Helga Jónssonar ehf., samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2007.

I.

Málið barst dóminum 21. maí sl. og var þingfest 8. júní sl. Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 4. júlí sl. 

Sóknaraðili er Fjarðaflug ehf., kt. 590106-2830, Blikastíg 18, Álftanesi.

Varnaraðili er Flugskóli Helga Jónssonar, kt. 650995-2289, Reykjavíkurflugvelli.

Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um innsetningu í rétt til þess að koma upp aðstöðu fyrir flugafgreiðslu á lóðarmörkum, (airside/landside) austan við skýli 7 á norðausturhorni Reykjavíkurflugvallar, með beinni aðfarargerð. Jafnframt er krafist úrskurðar um að varnaraðila verði gert skylt að fjarlægja bifreiðina R-5053, auk tveggja stórgrýta sem komið hafi verið fyrir á umræddri lóðarspildu, auk alls annars sem þar kunni að finnast á vegum gerðarþola, sem komi í veg fyrir lögmæt afnot gerðarbeiðanda af umræddri spildu, sömuleiðis með beinni aðfarargerð.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður.

II.

Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 9. nóvember 2006, var sóknaraðila tilkynnt að skipulagsráð Reykjavíkur gerði ekki athugasemdir við erindi hans þess efnis að hann fengi leyfi fyrir sérhannaðri gámaeiningu fyrir flugafgreiðslu sem staðsett yrði á lóðarmörkum (airside/landside) austan við Flugskóla varnaraðila á Reykjavíkurflugvelli gegn því skilyrði að um yrði að ræða bráðabirgðaaðstöðu til eins árs. Í framhaldi af því staðfesti Flugmálastjórn með bréfi sínu til sóknaraðila, dags. 14. nóvember 2006, að stofnunin heimilaði honum að reisa bráðabirgðaaðstöðu fyrir flugmenn og farþega á lóðamörkum austan við skýli nr. 7 á Reykjavíkurflugvelli. Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing, dags. 28. mars 2007, sem undirrituð er af hálfu byggingarfulltrúans í Reykjavík, sóknaraðila og Flugmálastjórn Íslands/Flugstoðum ohf. Kemur þar fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. mars 2007 hafi verið tekin fyrir umsókn um bráðabirgðaleyfi fyrir gámum, samtals þremur einingum á tveimur hæðum til notkunar fyrir flugmenn og farþega fyrirtækisins á Reykjavíkurflugvelli. Byggingarfulltrúi hafi afgreitt umsóknina með bókun um samþykki og því að þinglýsa skuli yfirlýsingu um að leyfið sé tímabundið í eitt ár, og gámar skuli fluttir brott að þeim tíma liðnum. Ber yfirlýsingin með sér að hún hafi verið innfærð í þinglýsingabækur 2. apríl 2007.

III.

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa haft aðstöðu í suðvesturhorni umræddrar lóðar án þess að hafa til þess leyfi. Í norðausturhorninu, sem hafi verið úthlutað gerðarbeiðanda, séu hins vegar engin mannvirki. Með bréfi, dags. 10. apríl sl., hafi Flugstoðir ohf. beint þeim tilmælum til varnaraðila að fjarlægja bifreið á hans vegum af því svæði þar sem koma hafi átt gámunum fyrir. Hafi varnaraðila verið veittur frestur í þessu skyni til 12. apríl 2007. Hafi varnaraðili  varnað sóknaraðila að neyta réttinda sinna til að reisa umrætt skýli þar sem á lóðinni sé fyrrgreind bifreið varnaraðila auk stórgrýta á hans vegum sem varnaraðili hafi ekki fengist til að fjarlægja. Þá kveðst sóknaraðili hafa flutt umræddar gámaeiningar á vettvang 12. apríl sl. og að auki leigt sérstakan krana til verksins þann dag. Helgi Jónsson, eigandi varnaraðila, hafi hins vegar komið í veg fyrir að gámarnir yrðu settir niður með því meðal annars að aka bifreiðum undir kranann þannig að kranamaðurinn hafi gefist upp á verkefni sínu. Hafi bæði menn og munir verið í stórhættu vegna ólögmætra aðgerða varnaraðila.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfur sínar á því að hann hafi aflað allra tilskilinna leyfa til að reisa umrætt skýli til bráðabirgða á lóðamörkum við flugskýli 7 og uppfyllt öll skilyrði fyrir leyfinu. Þá hafi fjármálaráðuneytið f.h. ríkisins veitt samþykki sitt fyrir staðsetningu hinnar færanlegu aðstöðu á lóðinni og jafnframt hafi það heimilað Flugstoðum ohf. ráðstöfun lóðarinnar. Um lagarök til stuðnings kröfu sinni kveðst sóknaraðili vísa til 78. gr., sbr. 72. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 .

Varnaraðili kveður félagið hafa haft öll tilskilin leyfi til að vera með aðstöðu sína við flugskýli 7. Vísar hann í því sambandi meðal annars til bréfs hans til borgarráðs Reykjavíkur, dags. 13. september 2001, þar sem varnaraðili hafi farið fram á að fá að setja niður afgreiðsluhús austan við flugskýli sitt. Í svarbréfi Borgarskipulags Reykjavíkur 9. október 2001 komi fram eftirfarandi útskrift úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsstjóra: „Jákvætt gagnvart erindinu. Samþykki flugmálastjórnar og lóðarhafa þarf að fylgja erindinu. Brottflutningskvöð verði þinglýst á húsi um að það verði fjarlægt þegar borgin krefst þess henni að kostnaðarlausu.“ Í bréfi fjármálaráðuneytisins til varnaraðila, dags. 26. október 2001, komi fram að af hálfu ráðuneytisins séu engar athugasemdir gerðar við jákvæða afgreiðslu erindisins. Þá megi sjá af bréfi Flugmálastjórnar frá 31. janúar 2002 að gert hafi verið ráð fyrir að flugskólinn gæti komið sér upp bráðabirgðaaðstöðu við skýli 7 utan flugvallargirðingarinnar þar til svæði við flugskýli 3 væri tilbúið.

Varnaraðili kveðst mótmæla því að umkrafin gerð nái fram að ganga með þeim rökum að fyrirhugaðar aðgerðir sóknaraðila séu ólögmætar en sóknaraðili ætli að setja hús sitt á bílastæði sem varnaraðili hafi full umráð yfir. Telji varnaraðili að borgaryfirvöld hafi veitt sér rétt til að vera með afgreiðsluhúsnæði við flugskýli sitt eins og hann hafi sótt um á sínum tíma. Þar sem hugmyndir Flugmálastjórnar við flugskýli nr. 3 hafi ekki komist í framkvæmd sé enn í gildi sú bindandi ráðstöfun sem gerð hafi verið um áramót 2001/2002 er borgaryfirvöld hafi veitt varnaraðila rétt til að setja niður bráðabirgðahús. Hafi efnisleg ákvörðun og ráðstöfun á lóðinni allri átt sér stað þótt kvöðinni um brottflutning hafi ekki verið þinglýst, en kenna megi skipulagsyfirvöldum borgarinnar um þessi mistök. Telji varnaraðili að í ljósi bindandi ráðstafana yfirvalda á árunum 2001 til 2002, sem aldrei hafi verið rift, sé hann einn rétthafi að lóðinni. Taki réttur hans til þess svæðis þar sem skrifstofu- og afgreiðsluhúsnæðið standi, ásamt bílastæði sem því fylgi, og sé lóðin fullnýtt af honum.  

Varnaraðili kveður ráðstöfun á umræddri lóð til sóknaraðila aldrei hafa verið kynnta fyrir sér og hafi hún verið kærð stjórnsýslukæru til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar og til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Sé afgreiðslu á kærunum ekki lokið.

Varnaraðili bendir einnig á, máli sínu til stuðnings, að reiturinn sé í eigu íslenska ríkisins. Sóknaraðili hafi ekki aflað sér leyfis eiganda landsins til að setja niður umrædda gáma og sé úthlutun skipulagsyfirvalda án heimildar landeiganda markleysa. Flugstoðir ohf. hafi engan ráðstöfunarrétt á landinu sem kröfur sóknaraðila beinist að. Ráðstöfunarrétturinn á landinu sé í höndum ríkisins en skipulagsþátturinn í höndum sveitarfélagsins. Varnaraðili hafi á sínum tíma fengið heimild fjármálaráðuneytisins, sem hafi forræði á eignum ríkisins, til nýtingar á lóðinni.

Varnaraðili kveður sóknaraðila þegar hafa fengið aðstöðu annars staðar á Reykjavíkurflugvelli fyrir rekstur sinn þannig að honum sé hvorki þörf né nauðsyn að knýja á um innsetningu þá sem krafist sé.

Telji varnaraðili rétt sóknaraðila ekki vera nógu ljósan til þess að unnt sé að verða við kröfum hans.

IV.

Eins og rakið hefur verið lýtur krafa sóknaraðila að því að úrskurðað verði að honum verði með beinni aðfarargerð annars vegar veitt innsetning í rétt til þess að koma upp aðstöðu fyrir flugafgreiðslu á lóðarmörkum austan við skýli 7 á norðausturhorni Reykjavíkurflugvallar og hins vegar að varnaraðila verði gert að fjarlægja muni á hans vegum af lóðarspildunni  sem komi í veg fyrir lögmæt afnot sóknaraðila að henni.

Fyrir liggur að á afgreiðslufundi sínum hinn 27. mars 2007 veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík sóknaraðila bráðabirgðaleyfi fyrir gámum, samtals þremur einingum á tveimur hæðum, til notkunar fyrir flugmenn og farþega fyrirtækisins á Reykjavíkurflugvelli. Óumdeilt er að íslenska ríkið er eigandi lóðarinnar þar sem sóknaraðili hyggst koma upp umræddri flugafgreiðslu. Byggir varnaraðili dómkröfu sína um að kröfum sóknaraðila verði hafnað meðal annars á því að sóknaraðili hafi ekki haft neinn lögformlegan rétt til umræddrar lóðar. Sóknaraðili heldur því hins vegar fram að þegar bráðabirgðaleyfi byggingarfulltrúa hafi verið veitt hafi legið fyrir samþykki Flugmálastjórnar Íslands, dags. 14. nóvember 2006, en sú stofnun hafi haft yfirumsjón með allri flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli. Af hálfu Flugstoða ohf., sem tekið hafi við allri starfsemi Flugmálastjórnar um áramótin 2006/2007, hafi samþykki þetta svo verið staðfest með undirritun yfirlýsingarinnar hinn 28. mars sl. um bráðabirgðaleyfi til handa sóknaraðila. Loks hafi fjármálaráðuneytið f.h. ríkisins samþykkt þessa ráðstöfun með bréfi dags. 3. júlí sl.

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um hið tímabundna leyfi til sóknaraðila sem hér um ræðir, svokallað stöðuleyfi, er tekin með heimild í gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sbr. og samþykkt nr. 161 frá 24. janúar 2005 um embættisafgreiðslur byggingarfulltrúans í Reykjavík. Er þar ekki að finna skýran áskilnað um að samþykki eiganda viðkomandi lóðar eða fasteignar sé skilyrði fyrir því að slíkt leyfi verði veitt. Verður þó að telja að nauðsyn á samþykki lóðareiganda leiði af eðli máls og jafnframt ákvæði 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem áskilur að samþykki meðeigandi verði að fylgja umsókn um byggingarleyfi svo ákvörðun þar að lútandi verði tekin með löglegum hætti.

Um síðustu áramót tóku Flugstoðir ohf. við þeim hluta starfsemi Flugmálastjórnar sem lýtur að flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstri á grundvelli laga nr. 102/2006. Í 2. kafla laga um loftferðir nr. 60/1998, þar sem fjallað var um stjórn flugmála, var allt til sama tíma kveðið á um starfsemi og heimildir Flugmálastjórnar Íslands, en þessi kafli laganna var felldur úr gildi 1. janúar sl. með gildistöku laga nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands.Verður hvorki af lögum nr. 60/1998 né lögum nr. 100/2006 eða 102/2006 ráðið að Flugmálastjórn eða Flugstoðum ohf. hafi verið veittar heimildir til ráðstöfunar á lóðum í eigu ríkisins á flugvallarsvæðinu. Virðist enda mega ráða af fyrirliggjandi bréfum fjármálaráðuneytisins, dags. 3. júlí 2007 og 26. október 2001, að það hafi verið skilningur þess að samþykki ráðuneytisins þyrfti að liggja fyrir til slíkrar ráðstöfunar á notkun umræddrar lóðar eins og hér um ræðir. Að þessu virtu verður ekki séð að við töku framangreindrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík hafi legið fyrir samþykki eiganda lóðarinnar, fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd íslenska ríkisins. Getur samþykki ráðuneytisins, sem veitt var með bréfi hinn 3. júlí sl., eða eftir að ákvörðun byggingarfulltrúans var tekin og eftir þingfestingu máls þessa, engu breytt í þessu sambandi. Telur dómurinn því, gegn andmælum varnaraðila, að slíkur vafi sé uppi um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík sem kröfugerð sóknaraðila byggist á að varhugavert sé að láta umbeðna aðfarargerð ná fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Verður því að hafna öllum kröfum sóknaraðila í málinu.

Að fenginni þessari niðurstöðu verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila, Fjarðarflugs ehf., er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Flugskóla Helga Jónssonar ehf., 120.000 krónur í málskostnað.