Hæstiréttur íslands

Mál nr. 824/2016

A (Erling Daði Emilsson hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun

Reifun

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2016 þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 2. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr., sbr. fyrsta málslið 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, til að sóknaraðili verði vistaður nauðugur á sjúkrahúsi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Erlings Daða Emilssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.        

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2016.

I

Með kröfu, sem dagsett er 3. desember sl. og barst réttinum 5. desember s.l., hefur sóknaraðili, A, kt. [...], til heimilis að [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 2. desember sl., um að sóknaraðili skyldi vistaður á sjúkrahúsi á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Til vara er þess krafist að nauðungarvistun verði markaður skemmri tími en til 21 dags. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga. Málið var þingfest 9. desember og tekið samdægurs til úrskurðar.

Varnaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun sýslumanns um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest. Um aðild varnaraðila er vísað til 20. gr. laga nr. 71/1997, sbr. og d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

II

Í beiðni varnaraðila, dags. 2. desember 2016 til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að sóknaraðili sé með framheilaskaða eftir slys sem hann hafi orðið fyrir í maí 2016. Sóknaraðili hafi verið í endurhæfingu á Grensásdeild þangað til fyrir u.þ.b. mánuði og sé nú að bíða eftir öðru endurhæfingarúrræði. Framheilaskaði sóknaraðila hafi leitt til mikilla persónuleikabreytinga hjá honum. Í kjölfar ofbeldis á heimili sóknaraðila 22. nóvember sl., þar sem lögregla hafi verið kvödd til, hafi sóknaraðili lagst inn á geðdeild þar sem hann vilji ekki þiggja meðferð. Það sé mat starfsmanna geðsviðs Landspítala að sóknaraðili sé í afneitun um aðdraganda innlagnar sinnar. Ástand hans sé svo að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms þar sem heilaskaði hans hafi alvarleg áhrif á hvatastjórnun, hömlur og dómgreind hans, auk þess sem hann valdi innsæisskerðingu. Vegna ofangreindra atriða og skorts á samstarfi sé talið nauðsynlegt að sóknaraðili verði vistaður nauðugur á sjúkrahúsi svo hægt sé að veita honum viðeigandi meðferð og tryggja öryggi hans og annarra. Að öðru leyti er þar vísað til fyrirliggjandi læknisvottorðs B geðlæknis, dags. 2. desember sl.

Í greindu læknisvottorði B geðlæknis, er m.a. tekið fram að sóknaraðili sé [...] árs gamall, háskólamenntaður, giftur og faðir tveggja barna. Hann hafi orðið fyrir skaða á framheila eftir slys vorið 2016, þegar hann datt niður stiga og höfuðkúpubrotnaði. Líkamstjón hans hafi leitt til mikilla breytinga á persónuleika hans. Hann hafi verið á endurhæfingardeild síðasta sumar og hafði verið í bráðaeftirfylgd hjá C sérfræðingi í geðlækningum þegar hann var lagður hinn þann 23 nóvember sl. Er því lýst að drykkjuvandi hans hafi verið vaxandi. Í vottorðinu er greint frá því að heilaskaði sóknaraðila hafi verið metinn þegar hann var í innlögn á Grensáss þar sem fram hafi komið „Gott mállegt minni, veikleikar í stýrifærni sem tengjast hvatvísi, einbeitingarvanda og ónákvæmni í vinnubrögðum. Orðaflæði hans sé einnig veikt og tal óskýrt. Innsæisleysi og tilhneiging til þrálætis í hugsun.“ Í vottorðinu er einnig lýst ástandi sóknaraðila við komu hans á geðdeild þann 23. nóvember sl., þannig að hann hafi verið þvoglumæltur og tal hafi verið samhengislaust á köflum. Hann hafi gefið stutta en ruglingslega frásögn af atburðum kvöldið áður.

Í vottorðinu 2. desember 2016 sem er byggð á skoðun sama dag segir að í innlögn hafi verið „innleidd“ lyfjameðferð sem vonast væri til að gæti hjálpað við hvatastjórnun. Áfram hafi þó borið á innsæisleysi og hvatvísi. Sóknaraðili sjái engan tilgang í veru sinni á geðdeild skilji ekki hvers vegna hann væri lagður inn og nauðungarvistun hafin.

Sóknaraðili sé með heilaskaða „með alvarlegum áhrifum á hvatastjórnun, hömlur  og dómgreind auk innsæisskerðingar í vandann.“ Þá sé fyrir hendi alvarleg áfengisfíkn eða ofnautn ávana- og fíkniefna. Í vottorði læknisins er talið óhjákvæmilegt að nauðungarvista sóknaraðila vegna þeirrar skerðingar sem heilaskaði hans hafi haft í för með sér. Það megi jafna ástandi sóknaraðila til alvarlegs geðsjúkdóms. Það sé mat læknisins að það hafi verið samhengi milli þeirrar skerðingar og þess ofbeldis sem komið hafi upp á heimilinu stefnanda og brýnt sé að láta reyna á það hvort meðhöndlun geti „lækkað hættuna.“

Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann mótmælir því að hann sé haldinn geðsjúkdómi. Hann hafi ákveðið sjálfur að leggjast inn á geðdeild þann 23. nóvember sl. og að honum hafi ekki liðið vel þar. Þegar hann hafi viljað útskrifast þann 2. desember sl., þá hafi eiginkona hans ekki treyst sér til að fá hann heim. Hann telur sig hvorki hættulegan gagnvart sjálfum sér né öðrum.

B geðlæknir gaf skýrslu fyrir dóminum um síma og staðfesti vottorð sitt. Telur hann nauðsynlegt að sóknaraðili verði nauðungarvistaður. Hann segir að líklegt sé að framheilaskaði sóknaraðila hafi haft alvarleg áhrif á hvatastjórnun, hömlur og dómgreind sóknaraðila. Tók hann fram að sóknaraðili hefði ekki innsæi í veikindi sín. Þá væri hann ekki með geðrof en ástand hans mætti jafna til slíks ástands.  Markmið meðferðar sé að reyna að efla hvatastjórnun sóknaraðila með lyfjameðferð þannig að hann missi ekki stjórn á skapi sínu og tryggja þar með öryggi hans og annarra.

D geðlæknir gaf skýrslu fyrir dóminum. Telur hann nauðsynlegt að sóknaraðili verði nauðungarvistaður og að jafna mætti ástandi sóknaraðila til alvarlegs geðsjúkdóms. Þá taldi hann að ástand sóknaraðila væri óbreytt í dag frá því sem var þegar krafist var nauðungarvistunar. Hann fái nú nýja tegund lyfja til að öðlast betri hvatastjórnun. Hann sé almennt samvinnufús á deild nema þegar læknir vilji ræða við hann. Sóknaraðili sé hvatvís sem geri það að verkum að hann geti gripið til einhvers, en hann hafi ekki látið í ljós ofbeldi á deild en það hafi hann á hinn bóginn sýnt gagnvart fjölskyldu sinni. Þá hafi sóknaraðili samþykkt meðferð upp að vissu marki. Tók vitnið fram að ekki væri enn ljóst hvort þau lyf sem sóknaraðili fengi nú virki á hann. Þá taldi hann erfitt að meðferð færi fram utan deildar og að hún nái ekki tilætluðum árangri nema með vistun.

III

Skipaður talsmaður sóknaraðila mótmælir kröfu varnaraðila um nauðungarvistun sóknaraðila. Vísaði hann m.a. til 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrár og telur að ekki séu uppfyllt skilyrði 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga til þess að verða við kröfunni. Ósannað sé að sóknaraðili sé í ástandi sem jafna megi við alvarlegan geðsjúkdóm. Þá sé hann reiðubúinn til samstarfs við lækna um viðeigandi meðferð. 

IV

Með vísan til gagna málsins og vættis B  geðlæknis og D geðlæknis fyrir dómi þykir nægilega í ljós leitt að nauðsynlegt sé að sóknaraðili verði nauðungarvistaður á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi aðstoð og meðferð við sjúkdómi sínum. Þar sem önnur eða vægari úrræði þykja ekki duga til að tryggja heilsu og batahorfur hans telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 fyrir nauðungarvistun sóknaraðila í allt að 21 sólarhring. Verður ákvörðun sýslumanns um nauðungarvistun sóknaraðila því staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Erlings Daða Emilssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 160.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 2. desember sl. um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi.

Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Erlings Daða Emilssonar hdl., 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.