Hæstiréttur íslands

Mál nr. 52/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir


Miðvikudaginn 9. mars 2011.

Nr. 52/2011.

Rammi hf.

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli R hf. á hendur Í var vísað frá dómi. Í málinu krafðist R hf. þess að viðurkennt yrði með dómi að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði verið óheimilt að ákveða ekki með reglugerð þann heildarafla sem veiða mætti af úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010 til 2011. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið að í viðurkenningarkröfu R hf. fælist krafa um að dómurinn léti í ljós álit sitt á lögfræðilegu ágreiningsefni án þess að leyst væri úr því hver réttarstaða R hf. væri í því samhengi og án þess að kveðið væri á um réttindi hans og hagsmuni sem hann hefði lýst að hann hefði af því að veiðar á úthafsrækju yrðu takmarkaðar á fiskveiðiárinu. Slík kröfugerð væri ekki tæk og fullnægði ekki því skilyrði að R hf. hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfuna. Þar með væru ekki uppfyllt skilyrði 1. og 2. mgr. 25 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sakarefnið ætti því ekki undir dómstóla og bæri með vísan til þess og 1. mgr. 24. gr. laganna að vísa málinu frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. janúar 2011. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Til vara krefst hann að málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaður verði látinn niður falla.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Rammi hf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. janúar síðastliðinn, var höfðað 24. nóvem­ber sl., af Ramma hf., Gránugötu 1-3, Siglufirði, gegn íslenska ríkinu. Dóm­stjóri féllst á beiðni stefnanda um að málið sætti flýtimeðferð 23. nóvember sl.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að Jóni Bjarnasyni, sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi verið óheimilt að ákveða ekki þann heildarafla sem veiða má af úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011 með reglugerð. Krafist er máls­kostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður, eins og í aðalkröfu. Til þrautavara er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.

Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfu stefnda. Af hálfu stefnda er þess krafist að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað. Til vara er þess krafist að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms. Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hafnað og að ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins verði látin bíða efnisdóms.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Tilefni málssóknar stefnanda er að rekja til þess að í skýrslu Hafrannsókna­stofnunarinnar 4. júní 2010 um nytjastofna sjávar 2009/2010 og aflahorfur fisk­veiðiárið 2010/2011 var lagt til að heildaraflamark á úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011 yrði 7.000 tonn, eins og verið hafði síðustu fjögur fiskveiðiár. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að tillögurnar hafi verið birtar í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða þar sem fram komi að sjávarútvegs­ráðherra skuli, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar, ákveða með reglugerð þann heildar­afla sem veiða megi á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstöku nytja­stofnum við Ísland sem nauðsynlegt sé talið að takmarka veiðar á. Í reglugerðum nr. 588/2010 frá 15. júní 2010 og nr. 662/2010 frá 18. ágúst s.á. sé ekki mælt fyrir um leyfilegan heildarafla í úthafsrækju eins og Hafrannsóknastofnun hafi lagt til að gert yrði. Ráðherra hafi verið óheimilt að ákveða ekki þann heildarafla sem veiða megi af úthafsrækju á fiskveiðiárinu með reglugerð. Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að ráðherranum hafi verið þetta óheimilt.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr viðurkenningarkröfunni með dómi. Enn fremur sé málið vanreifað af hálfu stefnanda. Samkvæmt þessu beri að vísa málinu frá dómi, eins og krafist sé af hálfu stefnda. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að sjávarútvegsráðherra hafi verið skylt samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um stjórn fiskveiða að ákveða heildarafla sem mætti veiða í úthafsrækju á fiskveiðiárinu 1. september 2010 til 31. ágúst 2011. Birt hafi verið skýrsla Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna sjávar 2009/2010 og aflahorfur fiskveiðiárið 2010/2011. Í ágripi af skýrslunni komi fram rökstuðningur fyrir því að Hafrannsóknastofnun leggi til að aflamark úthafsrækju fyrir fiskveiðiárið 2010/2011 verði 7.000 tonn. Af honum sé ljóst að stofnunin telji áfram nauðsynlegt að takmarka veiðar á úthafsrækju.

Ráðherra hafi undirritað reglugerð 15. júlí 2010 um leyfilegan heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár, sbr. reglugerð nr. 588/2010. Í 1. gr. hennar sé gerð grein fyrir leyfi­legum heildarafla í þeim tegundum sem sæti takmörkunum. Úthafsrækja sé ekki þar á meðal. Samkvæmt þessu hafi ráðherra ákveðið að mæla ekki fyrir um heildarafla í úthafsrækju þrátt fyrir tillögur Hafrannsóknastofnunar. Með reglugerð nr. 662/2010, sem undirrituð var 18. ágúst sl., um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2010/2011, hafi reglugerð nr. 588/2010 verið felld úr gildi. Þar sé heldur ekki mælt fyrir um leyfilegan heildarafla í úthafsrækju frekar en í reglugerð nr. 588/2010. 

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að hann og ýmsir aðrir útgerðaraðilar hafi lagt í umtalsverðar fjárfestingar vegna kaupa á aflahlutdeild í úthafsrækju frá því að henni var fyrst úthlutað í tegundinni árið 1988, en það hafi verið gert á grundvelli veiði­reynslu árin 1983 til 1987. Samhliða þeim fjárfestingum hafi útgerðarmenn keypt ný skip og tæki til nota við rækjuveiðar. Stefnandi starfi í Fjallabyggð og Þorlákshöfn og hafi frá árinu 1990 til ársins 2000 aukið aflahlutdeild sína í úthafsrækju úr 0,45% í 12,7%. Áætlað verðmæti þessara viðskipta væru 1.644.452.000 krónur, miðað við kaupverð á hverjum tíma, en framreiknað miðað við vísitölu neysluverðs í ágúst 2010 nemi verðmætið 3.337.975.000 krónum. Auk þess hafi stefnandi fjárfest í skipum og tækjum vegna veiðanna.

Frá árinu 1994 hafi framlegð af rækjuveiðum og vinnslu verið góð en verulega hafi dregið úr hagnaði eftir 1999 og frá 2004 hafi verið tap af rekstrinum. Því hafi veiðum verið hætt 2005 og vinnslu 2007. Hins vegar hafi veiðar á rækju og vinnsla hennar hafist aftur hjá stefnanda á árinu 2009 þegar byggð var ný verksmiðja til rækjuvinnslu. Rekstrar­tölur bendi til þess að veiðarnar muni nú standa undir sér. Veiðar á úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2009/2010 hafi verið talsvert meiri en undan­farin ár. Það sýni að efnahagslegar horfur rækjuveiða hafi batnað umtalsvert.

Vegna hinnar umdeildu ákvörðunar ráðherrans og sinnuleysis hans við að svara þeim röksemdum sem settar hafi verið fram um ólögmæti hennar hafi stefnanda verið nauðugur sá kostur að höfða mál þetta. Stefnandi hafi ótvírætt lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um dómkröfu sína.

Stefnandi hafi fjárfest í aflahlutdeild í úthafsrækju í þeirri trú að þær fjárfestingar myndu nýtast honum að óbreyttum lögum. Nú horfi svo við að lögum hafi ekki verið breytt. Þrátt fyrir það leiði af reglugerð að veiðar á úthafsrækju væru stjórnlausar. Með þessu hafi aflahlutdeildarkerfið í reynd verið afnumið hvað þennan stofn varði. Þetta sé í andstöðu við lög nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, meginreglur stjórnsýsluréttar og 72. gr. stjórnar­skrárinnar.

Með umræddri ákvörðun hafi aflahlutdeild, sem stefnandi hafi fjárfest í, verið gerð verðlaus á yfirstandandi fiskveiðiári, enda geti stefnandi ekki nýtt hana á árinu. Jafnframt hafi verðmæti aflahlutdeildarinnar verið rýrt til framtíðar. Þar komi til veiði annarra en handhafa aflahlutdeildar, hugsanleg ofveiði á rækju á yfirstandandi fisk­veiðiári og þar með minni rækjustofn á því næsta og eftirfarandi árum, svo og óvissa um hvert gildi aflahlutdeilda í rækju verði mögulega á síðari árum. Ætla megi að þessar óhag­stæðari framtíðarhorfur hafi nú þegar áhrif á markaðsverð aflahlut­deilda í úthafsrækju. Þar með muni það háttalag ráðherra, að ákveða ekki þann heildar­afla sem veiða megi af úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011, rýra eignastöðu stefnanda verulega til lengri og skemmri tíma.

Auk þess sé með umræddu háttalagi verið að afnema aflamark í rækju á yfirstandandi fiskveiðiári. Það hamli möguleikum stefnanda á að stunda viðskipti með aflamark með þeim hætti sem lög nr. 116/2006 geri ráð fyrir. Ákvörðun ráðherra leiði þannig til þess að verð­mæti, sem þessu tengdust, verði að engu sem feli í sér fjárhags­legt tjón fyrir stefnanda.

Með því að ráðherra hafi ekki ákveðið heildarafla í úthafsrækju glati stefnandi tryggingu fyrir því að geta veitt það aflamark sem stafi af þeirri aflahlutdeild sem hann hafi fjárfest í. Stefnandi hefði haft slíka tryggingu ef fyrir lægi ákvörðun ráðherra um leyfilegan heildar­afla. Það sé einmitt þessi trygging sem sé ástæða fyrir því að fyrir­tæki fjárfesti í aflahlutdeildum og sé jafnframt einn helsti tilgangur aflahlutdeildar­kerfisins. Vegna ákvörðunar ráðherra geti stefnandi ekki skipulagt veiðarnar með þeim hætti sem honum henti og sé hagkvæmastur fyrir hann, enda sé hætta á að hinar stjórnlausu veiðar leiði til ofveiði úthafsrækjustofnsins og ekki verði nóg af úthafs­rækju til veiða innan fiskveiðiársins. Það sé til þess fallið að valda honum tjóni. Fyrir­liggjandi gögn beri enn fremur með sér að ákvörðun ráðherra leiði til ofveiði á úthafs­rækjustofninum og að honum verði þar með stefnt í hættu. Tillaga Hafrannsókna­stofnunar um að takmarka veiðar við 7.000 tonn sé byggð á rannsóknum sem bendi til þess að nýliðun á rækju sé slök og að stofninn muni ekki aukast í bráð. Verði úthafsrækjustofninn ofveiddur vegna hinna stjórnlausu veiða verði stefnandi fyrir varan­legu fjárhagslegu tjóni þar sem hann geti ekki nýtt aflahlutdeild sína í stofninum til framtíðar með sama hætti og ella væri.

Með ákvörðun ráðherra hafi verið brotið gegn þeim markmiðum sem Ísland hafi sett sér um sjálfbæra og ábyrga nýtingu fiskistofna og alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hafi undirgengist. Af þessum sökum sé orðspor Íslands sem fiskveiðiþjóðar í hættu og komi það með beinum hætti niður á hagsmunum stefnanda þar sem það skipti hann miklu að geta sýnt fram á það á mörkuðum fyrir afurðir sínar að úthafs­rækju­veiðarnar séu stundaðar með ábyrgum hætti.

Samkvæmt framangreindu hafi stefnandi ríka og lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um dómkröfu sína, sbr. 24. og 25. gr. laga nr. 91/1991, en um kröfugerðina í málinu vísist til 2. mgr. 25. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að ágreiningsefni máls þessa séu sprottin af ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um stjórn fiskveiða varðandi leyfilegan heildarafla fiskveiðiárið 2010/2011 úr þeim ein­stökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt sé talið að takmarka veiðar á. Úthafs­rækja hafi ekki verið meðal þeirra stofna sem talið hafi verið nauðsyn­legt að tak­marka veiðar á og telji stefnandi þá ákvörðun ólögmæta.

Í lögum um stjórn fiskveiða sé gert ráð fyrir tilteknum sveigjanleika í kerfinu. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar og tillögum hennar vegna fiskveiðiársins 2010/2011 komi fram varðandi úthafsrækju að afli hafi verið minni undanfarin átta ár en leyfilegur hámarksafli. Afli á togtíma hafi aukist talsvert undanfarin ár en óvissa sé um hvort þar sé um að ræða áhrif stækkunar stofnsins eða áhrif minnkandi sóknar. Ráðherra hafi 15. júlí 2010 undirritað reglugerð nr. 588/2010 um leyfilegan heildar­afla fiskveiðiárið 2010/2011. Sú reglugerð hafi verið feld úr gildi með reglugerð nr. 662/2010 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2010/2011. Samkvæmt þeim reglu­gerðum hafi úthafsrækja ekki verið meðal þeirra tegunda sem takmörkun heildarafla taki til.

Í fréttatilkynningu ráðuneytisins um þá ákvörðun segi að gert sé ráð fyrir að úthafsrækjuveiðar verði gefnar frjálsar á fiskveiðiárinu 2010/11, þar sem ekki hafi á neinu fiskveiðiári frá 2000/01 verið aflað upp í útgefið aflamark. Þessi ákvörðun hafi verið tekin til eins árs og henni sé ætlað hvetja til betri nýtingar á úthafsrækju­stofninum og þannig verði sem mestum verðmætum náð. Í lok ársins verði staðan svo endurmetin. Gert sé jafnframt ráð fyrir að lagt verði fram frumvarp á haust­þingi um stýringu rækjuveiða fiskveiðiárið 2010/11.

Í máli þessu geri stefnandi þá dómkröfu að viður­kennt verði með dómi að sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra hafi verið óheimilt að ákveða ekki þann heildar­afla sem veiða megi af úthafsrækju á fiskveiði­árinu 2010/2011 með reglugerð. Stefnandi reisi kröfu sína í fyrsta lagi á því að sú ákvörðun ráðherra að mæla ekki fyrir um heildarafla í úthafsrækju á fiskveiðiárinu sé í andstöðu við þá skyldu sem á honum hvíli samkvæmt 3. gr. laga um stjórn fiskveiða. Ákvæðið heimili ráðherra hvorki að ákveða að veiðar á ákveðnum stofnum skuli vera stjórnlausar né feli það í sér heimild honum til handa til að ákveða hvaða nytjastofnar það séu sem nauðsynlegt sé að takmarka veiðar á. Þá vísi stefnandi til þess að venjuhelguð framkvæmd sé að hið sérfróða stjórnvald, Hafrann­sókna­stofnun, ákveði úr hvaða stofnum heildarafli skuli tak­markaður þó að ráðherra sé heimilt að mæla fyrir um meira eða minna magn en magn­tillögur stofnunarinnar gangi út á. Hafrannsóknastofnun hafi talið áfram nauð­syn­legt að takmarka veiðar á úthafsrækju. Ákvörðun ráðherra sé því, að áliti stefnanda, í andstöðu við lög nr. 116/2006 svo og lög­mætis­regluna. Í öðru lagi byggi stefnandi á því að ákvörðun ráðherra brjóti gegn megin­­reglum stjórnsýsluréttar um rannsókn máls og að ákvarðanir skuli byggjast á málefna­legum sjónarmiðum og sé af þeim ástæðum ólög­mæt. Ráðherra hafi hunsað tillögur Hafrannsóknastofnunar um tak­mörkun heildar­afla í úthafsrækju og styðjist ekki við neinar marktækar rannsóknir sem styðji að ekki sé lengur nauðsynlegt að tak­marka veiðar á úthafsrækju. Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að með hinni umdeildu ákvörðun sé brotið gegn 72. gr. stjórnar­skrárinnar sem verndi aflahlutdeild og afla­heimildir sem atvinnuréttindi. Með ákvörðun ráðherra um að taka úthafsrækju undan því aflahlutdeildarkerfi sem lög um stjórn fiskveiða grund­vallast á, hafi kerfið í reynd verið afnumið án þess að lögum hafi verið breytt. Aflahlutdeild, sem stefnandi hafi fjárfest umtalsvert í, hafi því verið gerð verðlaus á yfirstandandi fiskveiðiári og mögulega til frambúðar. Jafnframt hefði ákvörðun ráðherra í för með sér umtalsverða rýrnun á veðhæfni eigna stefnanda þ.á m. skipa hans. Stefndi vísi þessum sjónar­miðum stefnanda eindregið á bug.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verði dómstólar ekki krafðir álits um lögfræðilegt efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar geti sóknaraðili máls leitað viðurkenningardóms hafi hann lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Í máli þessu geri stefnandi þá dómkröfu að viðurkennt verði með dómi að sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra hafi verið óheimilt að ákveða ekki þann heildarafla sem veiða megi af úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011 með reglugerð.

Dómkrafa stefnanda, eins og hún sé úr garði gerð, lúti hvorki að því að fá skorið úr um tilvist eða efni réttinda né réttarsambands sem hann varði. Dómkrafan geti ekki, jafnvel þótt á hana yrði fallist, breytt neinu um það að samkvæmt gildandi reglugerð um fiskveiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2010/2011 sé ekki í gildi ákvörðun um hámarksafla hvað varði úthafsrækjustofninn. Með kröfugerð stefnanda sé því almennt leitað álits dómstóla um það hvort ráðherra hafi borið að takmarka hámarksafla úthafsrækju á fiskveiðiárinu. Beri þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá dómi

Einnig verði að líta til þess að þótt stefnandi tiltaki í löngu máli ætlaða lögvarða hagsmuni sína af málssókninni og í umfjöllun sinni, um að atvinnuréttindi hans hafi vegna ákvörðunar ráðherra verið skert varðandi aflahlutdeild og aflamark, þá sé málatilbúnaður stefnanda hvað það varði vanreifaður. Stefnandi hafi ekki gert neina grein fyrir því í stefnu né með framlögðum gögnum hvaða skip í eigu hans sé um að ræða né heldur þeim viðskiptum með aflamark sem hann hafi stundað undangengin fiskveiðiár og hefði að óbreyttri kvótasetningu tegundarinnar getað stundað á þessu fiskveiðiári samkvæmt lögum nr. 116/2006.

 Niðurstaða

Til þess að viðurkenningarkrafa stefnanda verði talin uppfylla skilyrði réttarfars­laga fyrir því að unnt sé að fá úrlausn dómstóla um hana verður stefnandi að sýna fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að leyst verði úr kröfunni með dómi í málinu.

Í málatilbúnaði stefnanda er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um stjórn fiskveiða skuli sjávarútvegsráðherra, að fengnum tillögum Hafrannsókna­stofnunar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða megi á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstöku nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að tak­marka veiðar á. Ráðherra hafi samkvæmt tillögum Hafrannsóknarstofu borið að takmarka veiðar á úthafsrækju við 7.000 tonn fiskveiðiárið 2010/2011 en það hafi hann ekki gert. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að viðurkennt verði með dómi að óheimilt hafi verið af hálfu sjávarútvegsráðherra að ákveða ekki með reglugerð þann heildar­afla sem veiða megi af úthafsrækju á fiskveiðiárinu. Röksemdir stefnanda fyrir þessu verður að skilja þannig að hann telji að verði fallist á viðurkenn­ingar­kröfu hans í málinu muni það leiða til þess að réttarstaða hans verði eins og hún var á þeim tíma þegar ákveðinn var heildarafli í úthafsrækju með reglugerð.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi fjárfest með umtalsverðum hætti í afla­hlutdeild í úthafsrækju í þeirri trú að þær fjár­festingar myndu nýtast honum að óbreyttum lögum. Hann hafi aukið aflahlutdeild sína í úthafsrækju á ákveðnu tímabili og í henni séu veruleg fjárhagsleg verðmæti. Með því að aflahlut­deildar­kerfið hafi með ákvörðun ráðherra verið afnumið hvað varði út­hafs­rækju hafi aflahlutdeild stefnanda verið gerð verðlaus á yfirstandandi fiskveiðiári. Jafnframt hafi verðmæti aflahlutdeildar stefnanda verið rýrð í framtíðinni. Með þessu hafi eignastaða stefnanda verið rýrð verulega til lengri og skemmri tíma. Hann geti heldur ekki skipu­lagt veiðarnar og sé það til þess fallið að valda honum tjóni. Fari svo að úthafsrækju­stofninn verði ofveiddur vegna hinna stjórnlausu veiða sé ljóst að stefnandi verði fyrir varanlegu fjárhagslegu tjóni. Með stjórn­lausum úthafsrækjuveiðum sé brotið gegn markmiðum um sjálfbærar veiðar, sem leiði til þess að orðspor Íslands sem fiskveiði­þjóðar verði í hættu, sem komi með beinum hætti niður á hagsmunum stefnanda.

 Við úrlausn á því hvort stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu dómsins um viðurkenningarkröfuna, sem hann gerir í málinu, veður að líta til þess að með dómi um kröfuna fæst ekki niðurstaða um réttarstöðu stefnanda hvað varðar þá hagsmuni sem hann lýsir og telur vera í húfi fyrir sig í málinu. Kröfugerðin fjallar ekki um rétt stefnanda í ákveðnu tilviki heldur felst í henni krafa um að almennt verði viðurkennt að ráðherranum hafi verið óheimilt að ákveða ekki með reglugerð heildarafla sem veiða megi af úthafsrækju á fiskveiðiárinu. Megin­reglan, sem gildir við skilgreiningu á því hvenær málsaðili teljist hafa lögvarða hags­muni af því að leyst verði úr kröfu með dómi, er sú að dómstólar geta ekki kveðið upp dóma þar sem niðurstaðan verður aðeins sú að eitthvað sé almennt ólögmætt. Í viðurkenningar­kröfu stefnanda felist krafa um að dómurinn láti í ljós álit á því lögfræðilega ágreiningsefni hvort ráðherranum hafi verið óheimilt að ákveða ekki heildar­afla, sem veiða megi af úthafsrækju á fiskveiðiárinu með reglugerð, án þess að leyst verði úr því hver réttarstaða stefnanda er í því samhengi sem hér um ræðir og án þess að kveðið verði á um réttindi hans og hagsmuni sem hann hefur lýst að hann hafi af því að veiðar á úthafsrækju verði takmarkaðar á fiskveiðiárinu. Slík kröfugerð er ekki tæk og full­nægir ekki því skilyrði að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfuna. Þar með eru ekki uppfyllt skilyrði 1. og 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála til að viðurkenn­ingar­krafa stefnanda njóti dómstólaverndar. Sakarefnið á því ekki undir dómstóla og ber með vísan til þess og til 1. mgr. 24. gr. sömu laga að vísa málinu frá dómi. 

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. sömu laga ber stefnanda að greiða stefnda máls­kostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.    

Úrskurðinn kveður upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

      Máli þessu er vísað frá dómi.

      Stefnandi, Rammi hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 400.000 krónur í máls­kostnað.