Hæstiréttur íslands

Mál nr. 432/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


                                              

Miðvikudaginn 26. júní 2013.

Nr. 432/2013.

Ákæruvaldið

(Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Unnar Steinn Bjarndal hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Rússlands var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2013 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðherra 5. mars 2013 um að framselja varnaraðila til Rússlands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í ákvörðun innanríkisráðherra 5. mars 2013 er tekin rökstudd afstaða til þeirrar málsástæðu varnaraðila að mannúðarástæður eigi að leiða til þess að kröfu um framsal hans verði hafnað, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984. Í rökstuðningi ráðuneytisins er lagt mat á þau atriði, sem máli skipta, meðal annars þau að varnaraðili hefur verið dæmdur fyrir alvarlegt hegningarlagabrot af dómstól í Rússlandi. Með vísan til þessa og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2013.

I

Málið barst dóminum 19. apríl síðastliðinn og var þingfest 8. maí. Það var tekið til úrskurðar 5. júní síðastliðinn.

Sóknaraðili er ríkissaksóknari.

Varnaraðili er X, kennitala [...],[...],[...].

Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 5. mars síðastliðinn um að framselja varnaraðila til Rússlands.

Varnaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og þóknun réttargæslumanns síns verði greidd úr ríkissjóði.

II

Í greinargerð ríkissaksóknara er gerð svofelld grein fyrir málavöxtum og lagarökum fyrir því að orðið skuli við kröfu hans:  „Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 5. mars 2013 varðar beiðni rússneskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er rússneskur ríkisborgari, til Rússlands til fullnustu fangelsisrefsingar. Samkvæmt framsalsbeiðninni, dags. 13. ágúst 2012, og meðfylgjandi gögnum er um að ræða 4 ára langa refsingu. Segir í beiðninni að varnaraðili hafi með dómi  héraðsdómstóls í [...]-borg frá 26. september 2001 verið fundinn sekur um líkamsárás, skv. 1. mgr. 111. gr. rússneskra hegningarlaga, með því að hafa stungið mann með hnífi í hálsinn þann 2. júní 2001, með þeim afleiðingum að lífshættulegir áverkar hlutust af. Hafi varnaraðili verið dæmdur í 4 ára fangelsi, skilorðsbundið til 3 ára. Frestun fullnustu refsingarinnar hafi verið  bundin því skilorði að varnaraðili skipti ekki um dvalarstað og vinnu án samþykkis viðeigandi stjórnvalds, tilkynnti sig reglulega og gengist undir fíkniefnameðferð.

Þá kemur fram í beiðninni og fylgigögnum að varnaraðili hafi komið sér undan refsingu og flúið frá dvalarstað sínum. Hafi skilorðsbinding refsingarinnar því verið afturkölluð með ákvörðun héraðsdómstóls þann 30. júlí 2004 og varnaraðila verið gert að afplána refsinguna. Í rökstuðningi dómara fyrir ákvörðuninni segir að varnaraðili hafi yfirgefið dvalarstað sinn án heimildar og samþykkis fangelsismálayfirvalda, hafi ekki tilkynnt sig í meira en 5 mánuði og ekki væri vitað um verustað hans.

Tekið er fram að óafplánuð fangelsisrefsing varnaraðila sé 3 ár, 8 mánuðir og 29 dagar, en leiðrétting á refsingunni þar sem gæsluvarðhaldsvist varnaraðila var dregin frá heildarrefsingunni, hafi verið gerð með ákvörðun dómsins þann 12. maí 2012.

Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum þann 28. ágúst 2012. Aðspurður kvað hann beiðnina eiga við sig en mótmælti framsali. Meðal þess sem kom fram hjá varnaraðila var að hann taldi sig hafa afplánað refsinguna en hann hafi mætt í tvö ár, einu sinni í mánuði að tilkynna sig og þegar þrír mánuðir hafi verið eftir hafi honum verið tjáð að hann þyrfti ekki að mæta oftar. Kom einnig fram hjá honum varðandi málsatvikin að ekki hafi verið um líkamsárás að ræða heldur sjálfsvörn.

Einnig var tekin skýrsla af varnaraðila vegna eftirlýsingar rússneskra yfirvalda. Var það hinn 31. júlí 2012. Kom fram hið sama og að framan er rakið. Þá kvaðst varnaraðili hafa komið hingað til lands árið 2010, en frá Rússlandi hafi hann flutt til Spánar. Hann kvaðst eiga eiginkonu og barn hér á landi og reka hótel [...].

Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dags. 7. desember 2012. Voru skilyrði laga nr. 13/1984 talin uppfyllt, sbr. einkum ákvæði 1. og 3. mgr. 3. gr., varðandi tvöfalt refsinæmi og lágmarksrefsingu, og 9. gr. laganna, varðandi fyrningu, en upphaf fyrningarfrests yrði að teljast vera hinn 30. júlí 2004, þegar ákvörðun dómsins um fullnustu fangelsisrefsingarinnar vegna skilorðsrofa varnaraðila var tekin, sbr. 2. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Sem fyrr greinir tók innanríkisráðuneytið ákvörðun í máli þessu með bréfi til ríkissaksóknara dags. 5. mars 2013. Fram kemur í forsendum ráðuneytisins að heildstætt mat hafi verið lagt á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaga nr. 13/1984 og er þar umfjöllun um þær. Að mati ráðuneytisins þóttu ekki nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli umrædds ákvæðis. Leit ráðuneytið m. a. til þess að varnaraðili hafði hlotið refsidóm í Rússlandi fyrir alvarlegt hegningarlagabrot og rússnesk yfirvöld hafi metið það svo að þau hafi hagsmuni af því að fá hann framseldan til fullnustu refsingarinnar. Fullnustan hefði þær óhjákvæmilegu afleiðingar að varnaraðili hefði takmarkaða umgengni við barn sitt en hins vegar yrði ekki séð að eiginkona varnaraðila væri ófær um að annast barnið á meðan varnaraðili afplánaði refsinguna. Þá taldi ráðuneytið fjárhagsskuldbindingar varnaraðila og eiginkonu hans ekki geta leitt til synjunar á framsali.

Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila þann 26. mars 2013 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Daginn eftir barst ríkissaksóknara krafa varnaraðila  um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

                Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndar álitsgerðar ríkissaksóknara frá 7. desember 2012 og ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 5. mars 2013.“ 

III

Varnaraðili skýrir svo frá málavöxtum að hann hafi í júní 2001 lent í slagsmálum í Rússlandi og dregið þá upp vasahníf sér til varnar. Í slagsmálunum hefði hnífurinn lent í hálsi manns er hafi hlotið hættulega áverka. Varnaraðili kvaðst hafa játað brot sitt og bent á að það hefði verið óviljaverk. Hann hefði verið dæmdur í 4 ára fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár. Hann kvaðst hafa fengið rangar upplýsingar um hversu lengi hann ætti að mæta til skráningar vegna skilorðsins og því flutt til Spánar. Þar hefði hann kynnst íslenskri konu og þau gengið í hjónaband 2009. Þau hefðu svo flutt til Íslands árið eftir. Nú eigi þau eitt barn og eigi von á öðru. Hér á landi hafi varnaraðili lært tungumálið, unnið fyrir sér og ekki gerst brotlegur.

Varnaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að innanríkisráðuneytið hafi ekki metið með fullnægjandi hætti hvort ákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984 eigi við um hann. Tiltekur hann sérstaklega fjölskylduaðstæður sínar sem að framan var lýst. Þær hafi ekki verið metnar á réttan hátt og bornar saman við hagsmuni rússneska ríkisins af því að fá hann framseldan.

Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að refsing hans sé fyrnd og sé því óheimilt að framselja hann, sbr. 1. mgr. 9. gr. nefndra laga.

IV

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu. 

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot varnaraðila, sem hér um ræðir, varðar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing fyrir brot gegn henni getur orðið allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt. Þá liggur fyrir ákvörðun af hálfu dómstóls í Rússlandi um að varnaraðili skuli afplána refsinguna og er því einnig uppfyllt skilyrði 3. mgr. 3. gr. laganna. Þá er ekkert það komið fram sem gefur ástæðu til að ætla að einhver þeirra atriða sem um getur í 5. mgr. 3. gr. laganna eigi við. Eins og að framan var rakið, var ákærði dæmdur í skilorðsbundið fangelsi 26. september 2001. Skilorðsbindingin var afturkölluð með ákvörðun dómsins 30. júlí 2004 og hófst þá fyrningarfrestur dómsins, sbr. 2. og 3. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga, en fyrningarfrestur er 10 ár, sbr. 2. tl. 1. mgr. sömu greinar. Sök varnaraðila er því ófyrnd og framsal hans heimilt, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1984.

Varnaraðili byggir á því að það myndi raska stöðu hans verulega ef hann yrði framseldur, eins og rakið var. Hér að framan var komist að því að skilyrði 3. gr. laga nr. 13/1984 væru uppfyllt og verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað. Í framangreindri ákvörðun innanríkisráðuneytisins er tekin rökstudd afstaða til þess hvort mannúðarástæður eigi að leiða til þess að kröfu um framsal verði hafnað. Í ákvörðuninni er fjallað um þær ástæður, sem varnaraðili telur að við eigi og hvernig þær horfa við samkvæmt skýringu á 7. gr. Þetta mat ráðherra verður ekki endurskoðað, enda hafa ekki verið leiddar líkur að því að aðstæður varnaraðila hafi ekki verið metnar með réttum og málefnalegum hætti. Rétt er að geta þess hér að við upphaf málflutnings lagði sækjandi fram gögn um að varnaraðili væri nú skilinn að borði og sæng við eiginkonu sína.

Samkvæmt framansögðu er kröfum varnaraðila hafnað og staðfest ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 5. mars 2013 um að framselja hann til Rússlands. 

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá skal einnig greiða honum fyrir akstur eins og þar greinir.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 5. mars 2013 um að framselja varnaraðila, X, til Rússlands, er staðfest.

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Unnars Steinars Bjarndal hdl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greidd úr ríkissjóði svo og aksturspeningar, 65.490 krónur.