Hæstiréttur íslands

Mál nr. 326/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samlagsaðild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 14. júní 2011.

Nr. 326/2011.

Hjördís Anna Ingvarsdóttir

Regína Berndsen

Árni Klemens Magnússon

Ólafur Friðsteinsson

Magnús Ágústsson

Smári Halldórsson

María Högnadóttir

Friðbjörn Björnsson

Guðrún Guðmundsdóttir og

Álnabær ehf.

(Einar Hugi Bjarnason hdl.)

gegn

Íslandssjóðum hf.

(Aðalsteinn Egill Jónasson hrl.)

Kærumál. Samlagsaðild. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

H o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem máli þeirra gegn Í hf. var vísað frá dómi. Í málinu gerðu H o.fl., með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sameiginlega kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu Í hf. gagnvart þeim hverjum fyrir sig vegna atvika í rekstri Í, sem þeir töldu að hefðu valdið sér fjártjóni. Í reisti frávísunarkröfu sína m.a. á því að H o.fl. væri ekki heimilt að sækja mál þetta í félagi þar sem kröfur þeirra ættu ekki sameiginlegan uppruna. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að mismunandi atvik, sem varði hvern og einn þeirra sérstaklega, kynnu að hafa  áhrif við mat á skaðabótaábyrgð Í. Athuga yrði réttarstöðu hvers aðila sjálfstætt við mat á hugsanlegri skaðabótaskyldu Í. Skilyrðum 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 væri því ekki fullnægt. Með því að Í hefði m.a. byggt frávísunarkröfu sína á þessum grundvelli bæri þegar af þeirri ástæðu að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jóns Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 16. maí 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2011, þar sem máli þeirra á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði reisir varnaraðili frávísunarkröfu sína meðal annars á því að sóknaraðilum sé ekki heimilt að sækja mál þetta í félagi þar sem kröfur þeirra eigi ekki sameiginlegan uppruna. Til þess að samlagsaðild sé heimil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 þurfi dómkröfur að eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Ella skuli vísa máli frá dómi að kröfu gagnaðila.

Sóknaraðilar voru allir eigendur hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 - peningamarkaðsbréf hjá Glitni banka hf., sem rekinn var af varnaraðila, þar til sjóðnum var slitið 30. október 2008. Í málinu gera þeir með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sameiginlega kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart þeim hverjum fyrir sig vegna atvika í rekstri framangreinds sjóðs, sem þeir telja að hafi valdið sér fjártjóni. Atvik að baki kröfu hvers þeirra eru hins vegar að öðru leyti mismunandi. Þannig munu hlutdeildarskírteini þeirra vera keypt á mismunandi tímum og þá eftir fyrirmælum hvers og eins þeirra. Kunna mismunandi atvik, sem varða hvern og einn þeirra sérstaklega, að hafa áhrif við mat á skaðabótaábyrgð varnaraðila á þeim  grundvelli sem sóknaraðilar miða kröfu sína við.

Af því sem að framan greinir er ljóst að athuga verður réttarstöðu hvers sóknaraðila sjálfstætt við mat á hugsanlegri skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart þeim og að skilyrðum 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um samlagsaðild er því ekki fullnægt. Með því að varnaraðili hefur meðal annars byggt frávísunarkröfu sína á þessum grundvelli ber þegar af þeirri ástæðu að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Hjördís Anna Ingvarsdóttir, Regína Berndsen, Árni Klemens Magnússon, Ólafur Friðsteinsson, Magnús Ágústsson, Smári Halldórsson, María Högnadóttir, Friðbjörn Björnsson, Guðrún Guðmundsdóttir og Álnabær ehf., greiði hvert um sig 30.000 krónur til varnaraðila, Íslandssjóða hf., í kærumálskostnað.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 4. apríl sl., var höfðað 24. júní 2010.

Stefnendur eru: Hjördís Anna Ingvarsdóttir, 46 Rue Scheiffeschgaard, L-5413 Canach, Lúxemborg, Regína Berndsen, Skólavörðustíg 6b, Reykjavík, Árni Klemens Magnússon, Smáratúni, Vogum, Ólafur Friðsteinsson, Helluvaði 13, Reykjavík, Magnús Ágústsson, Hafnargötu 9, Vogum, Smári Halldórsson, Stífluseli 2, Reykjavík, María Högnadóttir, Stífluseli 2, Reykjavík, Friðbjörn Björnsson, Sóleyjarhlíð 1, Hafnarfirði, Guðrún Guðmundsdóttir, Sóleyjargötu 35,  Reykjavík og Álnabær ehf., Síðumúla 32, Reykjavík. Stefndi er Íslandssjóðir hf.

Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær að viðurkenndur verði með dómi réttur þeirra til skaðabóta úr hendi stefnda vegna þeirrar rýrnunar sem varð á verðmæti eignarhluta þeirra í peningamarkaðssjóði stefnda, Sjóði 9 – peningamarkaðsbréfum, og rekja má til þess að mat stefnda á verðbréfum útgefnum af Baugi Group hf. endurspeglaði ekki raunverulegt virði þeirra frá 9. júlí 2008, að mat á verðbréfum útgefnum af Eimskipi hf. endurspeglaði ekki raunverulegt virði þeirra frá 10. september 2008 og að mat á verðbréfum útgefnum af FL Group hf./Stoðum hf. endurspeglaði ekki raunverulegt virði þeirra frá 19. september 2008.

Stefnendur krefjast þess enn fremur að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að mati réttarins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns stefnenda sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalmeðferð málsins ef til hennar kemur.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru aðallega að kröfum stefnenda verði vísað frá dómi en til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnenda in solidum.

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar frávísunarkrafa stefndu en stefnendur hafa krafist þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Stefnendur krefjast enn fremur málskostnaðar úr hendi stefnda vegna þessa þáttar málsins.

I. Málatilbúnaður stefnenda

Í stefnu er því lýst að stefnendur hafi öll verið eigendur hlutdeildarskírteina í Peningamarkaðssjóði Glitnis banka hf., Sjóði 9 – peningamarkaðsbréf, sem hafi verið rekinn af stefnda þar til honum hafi verið slitið þann 30. október 2008. Stefndi sé dótturfélags Íslandsbanka hf. Stefndi hafi tekið ákvarðanir um fjárfestingar sjóðsins og annast framkvæmd þeirra, en félagið hafi gert vörslusamning við Glitni banka hf. um vörslu fjármuna sjóðsins, markaðssetningu, þjónustu við viðskiptavini, umsýslu o.fl. Hlutdeildarskírteini í sjóðnum hafi verið skráð í Kauphöll Íslands hf. Sjóðurinn hafi frá árinu 2005 verið rekinn sem fjárfestingarsjóður samkvæmt lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði og byggt starfsheimildir sínar á III. kafla laganna. Einnig hafi sjóðurinn starfað eftir Reglum fyrir Fjárfestingasjóði Glitnis, dags. 31. ágúst 2007.

Fram kemur í stefnunni að Sjóði 9 hafi fyrst verið lokað fyrir innlausnir mánudaginn 29. september 2008, þ.e.a.s. ekki hafi verið opið fyrir innlausnir úr sjóðnum þennan dag. Þennan sama dag hafi verið gert samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og meirihluta hluthafa Glitnis banka hf. um að ríkissjóður myndi leggja bankanum til nýtt hlutafé. Þetta hafi verið gert með hliðsjón af þröngri lausafjárstöðu bankans og erfiðum aðstæðum á fjármálamörkuðum. Hlutafjárframlag ríkissjóðs hafi verið 600 milljónir evra og íslenska ríkið orðið eigandi að 75% eignarhlut í bankanum. Tilgangur þessarar aðgerðar hafi verið að tryggja áframhaldandi starfsemi Glitnis banka hf. Umrædd ráðstöfun hafi þó dugað skammt því bankinn hafi fallið rúmri viku síðar.

Þegar sjóðurinn hafi verið opnaður að nýju miðvikudaginn 1. október 2008 hafi verið tilkynnt að bankinn hefði keypt öll bréf Stoða hf. (áður FL Group hf.) út úr sjóðnum og að framkvæmd hefði verið niðurfærsla á eignum sjóðsins sem nam 6,92%. Stoðir hf. hafi þann 29. september 2008 farið fram á greiðslustöðvun hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, en félagið hafi verið stærsti einstaki eigandi Glitnis banka hf. þegar bankinn féll.

Peningamarkaðssjóðnum hafi síðan endanlega verið lokað mánudaginn 6. október 2008, þ.e.a.s. síðustu viðskipti hafi verið framkvæmd í lok föstudagsins 3. október s.á. og sjóðurinn ekki verið opnaður eftir það. Á tímabilinu frá morgni miðvikudagsins 1. október 2008 til og með 3. október s.á. hafi farið fram 7.047 innlausnir í sjóðnum. Eðli máls samkvæmt hafi sjóðurinn rýrnað verulega vegna fjölda innlausna. Í lok dags. 30. september 2008 hafi stærð sjóðsins verið 97.408.071.197 krónur en í lok dags. 3. október s.á. hafi stærð sjóðsins verið 78.097.745.175 krónur.

Sjóðnum hafi síðan verið slitið þann 30. október 2008 og öllum hlutdeildarskírteinishöfum greidd fjárhæð sem hafi numið 85,12% af andvirði eignar þeirra miðað við síðasta viðskiptagengi sem hafi verið í gildi við lokun sjóðsins. Með tilliti til fyrrnefndrar niðurfærslu hafi verið um að ræða 20,8% rýrnun á verðmæti eignarhluta sérhvers hlutdeildarskírteinishafa.

Stefndi hafi tekið ákvörðun um að loka endanlega fyrir innlausnir úr sjóðnum þann 6. október 2008 vegna þess umróts sem hafi verið á fjármálamörkuðum og þeirrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins (FME) að loka tímabundið fyrir öll viðskipti með verðbréf útgefin af Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf., SPRON, Exista hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. Sama dag hafi Alþingi samþykkti lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þann 7. október 2008 hafi FME ákveðið að nýta heimild í lögum nr. 125/2008 og skipa skilanefnd sem hafi tekið við öllum heimildum stjórnar Glitnis banka hf.

Þann 17. október 2008 hafi FME beint þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfa- og fjárfestingasjóða að grípa til aðgerða sem væru til þess fallnar að  peningamarkaðssjóðum félaganna yrði slitið og eigendum hlutdeildarskírteina greiddar út eignir í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins þannig að jafnræðis yrði gætt.

Stefndi hafi sent bréf til allra hlutdeildarskírteinishafa í Sjóði 9, dags. 30. október 2008, þ.m.t. til stefnenda. Þar komi meðal annars fram að harmað sé það fjárhagslega tjón og þau óþægindi sem viðskiptavinir hafa orðið fyrir síðustu vikur. Tekið er fram að útgreiðsluhlutfall Sjóðs 9 verði 85,12% miðað við síðasta viðskiptagengi sem var í gildi við lokun sjóðsins þann 6. október 2008.

Undir rekstri málsins féll stefnandi frá aðal, vara- og þrautavarakröfu og eru því endanlegar dómkröfur hans þrautaþrautavarakrafa samkvæmt stefnu. Dómkröfurnar eru reistar á því að stefnendum hafi verið mismunað gagnvart öðrum hlutdeildarskírteinishöfum sem hafi innleyst hlutdeild sína fyrir lokun markaða þann 3. október 2008. Tjón stefnenda verði rakið til þess að stefndi hafi ekki lækkað verðmatsgengi sjóðsins, í fyrsta lagi þann 9. júlí 2008 vegna atvika sem hafi leitt í ljós afar slæma stöðu Baugs Group hf., í öðru lagi 10. september s.á. vegna atvika varðandi Eimskip hf. og loks þann 19. september s.á. vegna slæmra frétta af FL Group hf./Stoða hf. Engin breyting hafi verið gerð á gengi sjóðsins þrátt fyrir framangreint og því hafi gengið ekki endurspeglað verðmæti eigna hans.

Stefnendur telja að þessi vanræksla stefnda feli í sér brot gegn 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 792/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Ljóst sé að þeir hlutdeildarskírteinishafar, sem hafi innleyst hlutdeild sína á tímabilinu frá 9. júlí 2008 og þar til sjóðnum var lokað fyrir innlausnir þann 3. október 2008, hafi fengið of hátt verð fyrir eignarhlut sinn í sjóðnum. Þegar af þeirri ástæðu hafi stefnendur orðið fyrir tjóni sem hafi komið fram við slit sjóðsins og uppgjör hans. Með þessu hafi stefndi ekki gætt jafnræðis hlutdeildar­skírteinishafa eins og félaginu hafi verið skylt, sbr. m.a. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003, og bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnendum.

Til stuðnings þessu vísa stefnendur í fyrsta lagi til þess að skráð virði verðbréfa útgefinna af Baugi Group hf. í Sjóði 9 hafi ekki tekið mið af því að raunverulegt markaðsvirði þeirra væri mögulega mun lægra, þ.e.a.s. matsverð bréfa sem voru gefin út af Baugi Group hf. hafi ekki verið fært niður þrátt fyrir slæmar fréttir af félaginu og þá staðreynd að það hafi ekki getað staðið í skilum með greiðslur vegna annarra útgefinna bréfa. Starfsmönnum stefnda hafi verið kunnugt um greiðsluerfiðleika félagsins enda liggi fyrir að önnur bréf sem hafi verið á gjalddaga á árinu 2008 hafi verið velt áfram, sem og að Baugur Group hf. hafi ekki getað greitt bréf í eigu peningamarkaðssjóðs Kaupþings sem hafi verið á gjalddaga 19. mars 2008. Þann 9. júlí 2008 hafi verið gjalddagi á víxli útgefnum af Baugi Group hf., þ.e. BAUG 08 0709, en félagið hafi ekki getað staðið skil á honum. Fram komi í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (hefti 4, bls. 157) að sjóðsstjóri stefnda hafi talið þetta vera vísbendingu um slæma stöðu félagsins. Þrátt fyrir þetta hafi sjóðsstjóri hjá stefnda tekið í kjölfarið ákvörðun um að framlengja víxilinn. Þrátt fyrir að með vanskilum Baugs Group hf. hafi verið komnar fram alvarlegar vísbendingar um aukna skuldaraáhættu, hafi skráð virði bréfanna í sjóðnum ekki verið fært niður í samræmi við líklegt markaðsverð í ljósi framkominna upplýsinga. Í september sama ár hafi Sjóður 9 síðan haldið áfram að fjárfesta í víxlum, útgefnum af Baugi Group hf., þrátt fyrir að félagið hefði skömmu áður ekki getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar við sjóðinn.

Stefnendur vísa í öðru lagi til þess að virði verðbréfa í eignasafni Sjóðs 9, sem höfðu verið gefin út af Eimskipi hf., hafi ekki verið fært niður þrátt fyrir að forsvarsmönnum stefnda hafi verið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um gríðarlegt tap félagsins á öðrum ársfjórðungi 2008. Í Vegvísi Landsbankans, dags. 20. júní 2008, sé frétt um gífurlegt tap Eimskips á öðrum ársfjórðungi og í frétt frá Kauphöll Íslands 10. september 2008 segi að verulegar líkur séu á að 207 milljóna evra ábyrgð vegna XL Leisure Group muni falla á Eimskip. Stefndu hafi því borið að lækka verðmatsgengi sjóðsins þegar þessar fréttir hafi komið fram.

Stefnendur vísa í þriðja lagi til þess að þann 19. september 2008 hafi fjármálastjóri FL Group hf./Stoða hf. óskað eftir fundi með forsvarsmönnum stefnda til að fara yfir stöðu félagsins og kanna hugsanlega endurfjárfestingu vegna víxla sem hafi verið á gjalddaga í nóvember 2008. Stefnendur byggja á því að á þessum tímapunkti hafi forsvarsmönnum stefnda mátt vera kunnugt um slæma stöðu FL Group hf./Stoða hf., sér í lagi vegna erfiðra markaðsaðstæðna og lækkandi eiginfjárhlutfalls félagsins. Þá vísa stefnendur jafnframt til þess að sjóðurinn átti verulega stóran hlut í útgáfu félagsins FL 09 0709. Í reynd hafi sjóðir á vegum stefnda átt alla útgáfuna sem hafi verið að andvirði um 15 milljarðar króna. Sú fjárfesting hafi átt sér stað í ágúst 2007. Hvað þetta varði hafi fjárfesting Sjóðs 9 í umræddum bréfum FL Group hf./Stoða hf. verið óvenjuleg að því leyti að þau hafi verið til tveggja ára en samkvæmt útboðslýsingu sjóðsins hafi markmið hans verið að „skila jafnri og stöðugri hækkun eigna með fjárfestingu í víxlum, innlánum eða öðrum skammtímaverðbréfum.“ Í útboðslýsingu sjóðsins sé líftími verðbréfa sjóðsins skilgreindur á bilinu 0-1 ár og ávöxtunarviðmið sjóðsins hafi verið skuldabréfavísitala með þriggja mánaða líftíma. Fjárfesting í allri framangreindri útgáfu FL Group hf./Stoða hf. hafi því ekki verið í samræmi við skilmála útboðslýsingar Sjóðs 9. Loks vísa stefnendur til þess að fjárfesting í FL 09 0709 hafi verið sérstaklega ámælisverð í ljósi eftirfarandi staðreynda; a) fjárfestingin hafi verið mjög stór, b) útgefandinn hafi verið eignarhaldsfélag, c) útgefandinn hafi verið stærsti einstaki eigandinn í Glitni banka hf., d) móðurfélag stefnda hafi verið stór eignaraðili í útgefandanum, e) vikið hafi verið frá fjárfestingarstefnu um að fjárfesta í skammtímaverðbréfum og f) sjóðir á vegum stefnda hafi keypt alla útgáfuna.

Krafa stefnenda er reist á því að stefnda hafi borið að lækka gengi sjóðsins vegna versnandi stöðu FL Group hf./Stoða hf. á því tímabili sem sjóðurinn hafi átt umrædd verðbréf, og a.m.k. eigi síðar en 19. september 2008. Þar sem forsvarsmenn sjóðsins hafi verðmetið bréfin með röngum hætti hafi hlutdeildarskírteinishöfum í sjóðnum verið mismunað.

Varðandi aðild og ábyrgð stefnda segir í stefnu að þar sem Glitnir banki hf. sé nú í slitameðferð verði honum ekki stefnt í máli þessu, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þótt bankinn beri einnig ábyrgð með stefnda í þessu máli. Aðild Íslandssjóða hf. sem stefnda í þessu máli sé því réttmæt. Stefnendur vísa sérstaklega til þess að þótt stefndi hafi falið Glitni banka hf. einstök verkefni varðandi sjóðinn þá sé skýrt kveðið á um það í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2003 að slík útvistun hafi engin áhrif á ábyrgð rekstrarfélagsins, þ.e. Íslandssjóða hf., gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja og reglugerðar nr. 792/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þá vísa stefnendur einnig laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Auk þess vísa stefnendur til almennu skaðabótareglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og meginreglna kröfuréttarins. Vegna dráttarvaxtakröfu stefnenda vísast til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um heimild til samlagsaðildar vísar stefnandi til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um viðurkenningu á bótaskyldu er reist á 2. mgr. 25. gr. sömu laga.

II.  Málsástæður aðila varðandi frávísunarkröfu stefnda

Við flutning um frávísunarkröfu stefnda byggði stefndi aðallega á því vísa beri málinu frá sökum þess að krafa stefnanda fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, þ.e. skilyrðinu um lögvarða hagsmuni og enn fremur 80. gr. sömu laga, einkum d- og e-lið ákvæðisins vegna vanreifunar í málatilbúnaði stefnenda. Til vara er byggt á því að skilyrðum 19. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt og loks er, eins og fram kemur í greinargerð stefnda, byggt á því af hans hálfu að ekki hafi verið gætt að skyldu til samaðildar þar sem um óskipta aðild stefnda og Glitnis banka hf. sé að ræða í málinu, sbr. 1. mgr. 18. gr. sömu laga.

Stefndi heldur því í fyrsta lagi fram að verulega skorti á að stefnendur hafi hagað málatilbúnaði sínum þannig að unnt sé að leggja dóm á málið, sbr. e. – f. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Viðhlítandi grein hafi ekki verið gerð fyrir málsástæðum sem stefnendur byggi málssókn sína á og verulega skorti á að gerð sé grein fyrir öllum þeim atvikum sem nauðsynlegt sé að fjalla um til þess að samhengi málsástæðna sé ljóst. Þá hafi stefnendur kosið að leggja aðeins fram mjög takmörkuð og einhliða gögn. Enginn stefnenda hafi séð ástæðu til þess að leggja fram þá samninga sem þeir telja kröfur sínar grundvallaðar á. Krafa stefnenda sé ódómtæk þar sem hún gangi þvert gegn meginreglu íslensks réttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð, sem birtist m.a. í d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þegar um viðurkenningarkröfur sé að ræða skuli kröfugerðinni hagað með ákveðnum og ljósum hætti þannig að hægt sé að taka hana óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu. Svo sé ekki með kröfu stefnenda. Kröfugerðin leiði ekki til málaloka um sakarefnið heldur hafi aðeins í för með sér ágreining um hvernig eigi að reikna út hið meinta tjón. Stefnendur hafi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfunni eins og hún sé sett fram í stefnu.

Stefndi heldur því fram að undanþága 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, frá því að fjárhæð sé tilgreind í stefnu, eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar ekki sé hægt að tiltaka kröfufjárhæð í stefnu, þ.e. í tilvikum þar sem enn sé óvíst um hana. Stefnendur séu, samkvæmt ákvæði d.-liðar 1. mgr. 80. gr., bundnir af því að þurfa að greina í stefnu frá „fjárhæð kröfu í krónum“, en af því leiðir að kröfugerð verði ekki háttað með þeim hætti sem gert sé í kröfu stefnenda. Í þeim tilvikum þegar um viðurkenningarmál sé að ræða verði stefnendur að gera kröfu um „viðurkenningu á tilteknum réttindum“. Eðli máls samkvæmt þurfi þessi tilteknu réttindi að vera tilgreind með eins nákvæmum hætti og mögulegt sé í stefnu.

Heimildin komi fram í d.-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um að krefjast megi bóta fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana sé undanþága sem skýra verður þröngt. Tilgangur reglunnar sé fyrst og fremst að gera þeim sem telji sig eiga skaðabótakröfu án þess að honum sé enn fært að finna endanlega fjárhæð hennar kleift að höfða mál. Allar forsendur sem stefnendur vísa til séu komnar fram. Stefnendum hafi því ekkert verið að vanbúnaði og í lófa lagið að haga kröfugerð sinni með þeim hætti að kröfugerðin væri í samræmi við lög og að krafist væri ákveðinnar fjárhæðar. Almennar tilvísanir til almennu sakarreglunnar, vinnuveitendaábyrgðar og sérfræðiábyrgðar geti ekki talist fullnægjandi grundvöllur bótakröfu, án nokkurrar umfjöllunar um að orsakatengsl séu á milli hins meinta tjóns og háttsemi stefnda og án þess að sýnt hafi verið fram á, eða líkum leitt að því, að hið meinta tjón sé sennileg afleiðing af meintri saknæmri háttsemi stefnda.

Í öðru lagi byggir stefndi á því að stefnendum sé ekki heimilt að sækja mál þetta í félagi þar sem dómkröfur þeirra eigi ekki sameiginlegan uppruna. Til þess að aðilasamlag sé heimilt samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991  þurfi dómkröfur stefnenda að eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings að öðrum kosti beri að vísa máli frá eftir kröfu stefnda. Í málatilbúnaði stefnenda felist mikil einföldun, en svo virðist sem stefnendur treysti á að „bankahrunið“ sé hin sameiginlega rót allra krafna þeirra. Vissulega séu málsatvik um margt lík þar sem stefnendur hafi allir verið eigendur hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 sem hafi verið rekinn af stefnda. Hins vegar sé ljóst að atvik að baki meintri kröfu hvers stefnenda séu mismunandi, hlutdeildarskírteini hafi verið keypt á mismunandi tímum eftir viðskiptafyrirmælum hvers og eins þeirra, stefnendur hafi hver um sig mismikla reynslu af fjárfestingum, auk þess sem kröfur hvers stefnenda séu ekki byggðar á sama löggerningnum, heldur sé sjálfstætt samningssamband á milli hvers og eins af stefnendum og Glitnis banka hf. sem vörsluaðila stefnda. Það fylgir m.a. ekki sögunni að stefnendur hafi allir fjárfest á mismunandi tíma, til að mynda hafi einn stefnenda fyrst fjárfest í Sjóði 9 árið 1999, en annar fyrst í september 2008.

Í þriðja lagi er í greinargerð stefnda byggt á því að vísa beri málinu frá ex officio þar sem ekki hafi verið gætt skyldu til samaðildar sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 en stefndi telur að um óskipta aðild sína og Glitnis banka hf. sé að ræða í málinu. Með heimild í 1. mgr. 18. gr. laga  nr. 30/2003 um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði hafi verið gerður útvistunarsamningur milli stefnda og Glitnis banka hf. Samkvæmt þeim samningi hafi Glitnir banki hf. m.a. haft með höndum sölu og markaðssetningu hlutdeildarskírteina Sjóðs 9. Þá hafi Glitnir banki hf. jafnframt verið vörslufyrirtæki fyrir stefnda í skilningi 22. gr. fyrrgreindra laga, auk þess sem Glitnir banki hf. hafi haft ýmis önnur verkefni með höndum fyrir stefnda. Til grundvallar viðskiptum stefnenda við stefnda sé samningur sem þeir höfðu gert við Glitni banka hf., en ekki stefnda. Glitnir banki hf. hafi síðan annast milligöngu um kaup á hlutum þeirra í Sjóði 9. Af þessu megi ráða mikilvægi þess að Glitnir banki hf. eigi aðild að málinu en stefndi hafi ekki aðgang að samningum stefnenda við bankann vegna reglna um hagsmunaárekstra og þeirrar staðreyndar að um tvö sjálfstæð fjármálafyrirtæki sé að ræða. Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 30/2009 komi fram að vörslufyrirtæki beri ábyrgð gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina vegna tjóns sem þessir aðilar kunni að verða fyrir og rekja megi til ásetnings eða gáleysis starfsmanna vörslufyrirtækisins. Því telur stefndi að tilvísun stefnenda til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2003, hafi enga þýðingu í þessu sambandi.

Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefnda var m.a. á það bent  af hálfu stefnenda að þeir hefðu allir lýst kröfum á hendur Glitni banka hf. og lagt fram afrit af kröfulýsingunum 14. desember sl. með vísan til áskorunar stefnda. Ágreiningur stefnenda og bankans fari því eftir lögum um gjaldþrotaskipti. Ekki sé um óskipta hagsmuni stefnda og bankans að ræða í skilningi 18. gr. laga nr. 91/1991, sbr. enn fremur 2. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2003 um ábyrgð rekstrarfélags.

Þá var því mótmælt af hálfu stefnenda að ekki væru skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991. Vissulega væri um að ræða ólíka löggerninga sem stefnendur hefðu gert við stefnda en hér væri fyrir hendi sama atvik eða aðstaða, enda stefnendur allir eigendur hlutdeildarskírteina í sjóði 9. Atvikin sem leitt hefðu til tjóns væru þau sömu, þ.e. að ekki hefðu verið framkvæmdar niðurfærslur á verðbréfum sem hafi verið gefin út af umræddum þremur hlutafélögum, þ.e. Baugi Group hf., Eimskipi hf. og Exista hf. Atvikin sem hafi leitt til tjóns hafi verið þau sömu og stefnendur því fengið lægra verð fyrir eignarhluti sína en þeir sem hafi leyst út eignir sínar fyrir þau tímamörk sem tilgreind séu í kröfugerðinni.

Fram kom í máli lögmanns stefnenda að ekki væru enn komin gögn um það í málinu hvenær stefnendur hefðu orðið eigendur í sjóðnum en samkvæmt hans upplýsingum hefðu allir stefnendur verið orðnir eigendur í sjóðnum 9. júlí 2008. Engin gögn væru um annað í málinu heldur aðeins fullyrðing í greinargerð stefnda. Miðað væri við að allir stefnendur hefðu verið orðnir eigendur í sjóðnum fyrir ársbyrjun 2008. Aflað yrði gagna um þetta við efnismeðferð málsins. Ef á daginn kæmi að einhver stefnenda hefði ekki eignast hlutdeildarskírteini fyrr en seinna og jafnvel ekki fyrr en í september 2008 gæti það leitt til sýknu en varðaði ekki frávísun. Fyrir lægju kvittanir um að öllum stefnendum hefði verið greitt út úr sjóðnum  og kröfulýsingar.

Þá var því mótmælt af hálfu stefnenda að krafa þeirra væri vanreifuð og að skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 væri ekki fullnægt. Ljóst væri af greinargerð stefnda að sakarefnið væri ljóst. Þá lægi fyrir að stefnendur hefðu með yfirlýsingu 8. mars sl., sem lögð hefði verið fram í réttinum 15. mars sl., veitt Glitni banka hf. heimild til að afhenda öll gögn er varði samskipti þeirra við stefnda. Við efnismeðferð málsins yrðu þessi gögn því lögð fram, sem og öll gögn sem skipt gætu máli varðandi viðskiptasöguna. Ekki væri búið að loka fyrir frekari gagnaöflun og ekki loku fyrir það skotið að óskað yrði dómkvaðningar matsmanna. Krafa stefnenda væri hvorki óljós né vanreifuð. Ekkert væri því til fyrirstöðu að taka dómkröfuna upp sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu. Þá væri skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 fullnægt. Fyrir lægju lögvarðir hagsmunir stefnenda, eins og ákvæðið hefði verið skýrt í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Ekki væri nauðsynlegt að sýna nákvæmlega fram á umfang tjónsins heldur nægi að sýna fram á að tjón hafi orðið til að taka viðurkenningarkröfu til greina. Þá sé í stefnu vísað til ítarlegrar umfjöllunar rannsóknarnefndar Alþingis sem sé mjög afdráttarlaus, einkum hvað varði þessi þrjú mál en ljóst væri að ef málið færi áfram þyrftu að koma fram skýrari sönnunargögn. Skýrslan sýndi hins vegar nægilega vel að tjón hefði orðið en umfangið lægi ekki ljóst fyrir á þessu stigi. Varðandi orsakatengslin þá lægi enn fremur fyrir að stefnendur hefðu öll verið eigendur hlutdeildarskírteina og þurft að þola rýrnun vegna þess að aðrir sjóðsmeðlimir hefðu leyst út á undan þeim og þar með hagnast á þeirra kostnað.

III. Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í fjölda dóma Hæstaréttar verið skýrður svo, eins og segir m.a. í dómi Hæstaréttar í máli nr. 189/2011, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk.

Eins og fram hefur komið er krafa stefnenda reist á því að stefnendum hafi verið mismunað gagnvart öðrum hlutdeildarskírteinishöfum í Sjóði 9 sem hafi innleyst hlutdeild sína fyrir lokun markaða 3. október 2008. Á því er byggt að hin saknæma háttsemi af hálfu stefnda felist í því að stefndi hafi ekki lækkað verðmatsgengi Sjóðs 9 á þremur ólíkum tímamörkum vegna aðstæðna þriggja hlutafélaga, sem höfðu gefið út verðbréf og sjóðurinn hafði fjárfest í, nánar tiltekið þann 9. júlí 2008 í Baugi Group hf., þann 10. september s.á. í Eimskipi hf. og 19. september s.á. í F.L. Group/Stoðum hf. Þar sem engin breyting hafi verið gerð á gengi sjóðsins þrátt fyrir þetta hafi gengið ekki endurspeglað verðmæti eigna hans. Fyrir vikið hafi hlutdeildarskírteinishafar, sem hafi innleyst eignir sínar í sjóðnum á tímabilinu frá 9. júlí 2008 og þar til sjóðnum hafi verið lokað fyrir innlausnir 3. október 2008, fengið of hátt verð fyrir eignarhlut sinn á kostnað stefnenda. Með þessari háttsemi hafi stefndi brotið gegn þeirri skyldu að gæta jafnræðis hlutdeildarskírteinishafa m.a. samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003 og því bakað sér bótaskyldu.

Hvað varðar virði verðbréfa gefin út af Baugi Group hf. eru málsástæður stefnenda til stuðnings kröfum sínum þær, að skráð virði verðbréfanna hafi ekki tekið mið af því að raunverulegt markaðsvirði þeirra væri „mögulega mun lægra,“ þ.e. matsverð bréfanna hafi ekki verið fært niður þrátt fyrir slæmar fréttir af félaginu og þá staðreynd að félagið hafi ekki getað staðið í skilum með greiðslur vegna annarra útgefinna verðbréfa. Eina sönnunargagnið sem stefnandi vísar í þessu til stuðnings er skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis. Um atvik er varða Eimskip hf. er vísað til þess að forsvarsmönnum stefnda hafi mátt vera kunnugt um gríðarlegt tap félagsins árið 2008 vegna frétta í Vegvísi Landsbankans 28. júní 2008 og frá Kauphöllinni 10. september 2008. Af þeim sökum hafi stefndu borið að lækka verðmatsgengi sjóðsins. Þá er loks byggt á því að 19. september 2008 hafi forsvarsmönnum stefnda mátt vera kunnugt um slæma stöðu FL Group hf./Stoða hf. sér í lagi vegna erfiðra markaðsaðstæðna og lækkandi eiginfjárhlutfalls félagsins en þann dag hafi fjármálastjóri FL Group hf./Stoða hf. óskað eftir fundi með forsvarsmönnum stefnda til að ræða stöðu félagsins og hugsanlega endurfjárfestingu vegna víxla sem voru á gjalddaga í nóvember 2008. Eigi síðar en þennan dag, þ.e. 19. september 2008, hafi stefnda því borið að lækka gengi sjóðsins vegna versnandi stöðu FL Group hf./Stoða hf.

Eins og áður sagði er gerð sú krafa samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að stefnandi leiði nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilteknu tilefni og geri grein fyrir í hverju tjónið felist. Með framangreindum málatilbúnaði þykja stefnendur hvorki hafa afmarkað og skýrt nægilega hvert tjón þeirra gæti talist vera né forsendur þeirra staðhæfingar að mat stefnda á verðbréfunum er um getur í dómkröfum málsins hafi ekki endurspeglað „raunverulegt virði“ þeirra á þeim tímamörkum er þar um ræðir.

Málatilbúnaður stefnanda um ætlaða lögvarða hagsmuni og önnur atriði sem lúta að skýringu á kröfu hans um viðurkenningu á skaðabótaskyldu og heimild til að höfða viðurkenningarmál fullnægir því ekki skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og brýtur enn fremur gegn d- og e-lið 80. gr. sömu laga. Málinu er því vísað frá dómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnendum gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

Áslaug Björgvinsdóttir, héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnendur Hjördís Anna Ingvarsdóttir, Regína Berndsen, Árni Klemens Magnússon, Ólafur Friðsteinsson, Magnús Ágústsson,  Smári Halldórsson,  María Högnadóttir, Friðbjörn Björnsson, Guðrún Guðmundsdóttir, og Álnabær ehf.  greiði stefnda Íslandssjóðum hf.  in solidum 350.000 krónur í málskostnað.