Hæstiréttur íslands

Mál nr. 502/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 31. ágúst 2011.

Nr. 502/2011

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms, um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. september 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og hann ekki látinn sæta frekari einangrun á gæsluvarðhaldstíma.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur sunnudaginn 28. ágúst  2011.

                Árið 2011, sunnudaginn 28. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Sigrúnu Guðmundsdóttur héraðs­dómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins  2. september  2011,  kl. 16:00. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhalsins verði samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að lögreglunni á höfuðborgar-svæðinu hafi borist tilkynning klukkan 10:28 um að fara að [...], íbúð [...] í [...],  en þaðan hafði brotaþoli A hringt í miklu uppnámi og tilkynnt um nauðgun af hálfu fyrrverandi sambýlismanns síns. Kvaðst A vera búin að læsa sig inni á baðherbergi íbúðar sinnar. Fram hafi komið að á vettvangi væru einnig tvær dætur A og frænka þeirra, en þær hafi verið inni í herbergi á meðan atvikið átti sér stað. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi B, frænka A tekið á móti lögreglu en hún búi í íbúð nr. [...] í sama húsi. Hafi hún vísað lögreglu að baðherberginu en þar hafi A enn verið læst inni. Kærði X hafi verið á nærbuxum einum fata og virst hissa á komu lögreglu. Hafi hann verið að sjá undir áhrifum áfengis og lagt áfengislykt frá vitum hans.

Brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi á vettvangi og mjög erfitt að ná sambandi við hana sökum ölvunar og geðshræringar. Hafi hún setið á gólfi baðherbergisins með fæturna dregna upp að maga, í miklu andlegu uppnámi, grátandi og skjálfandi. Hafi tekið þó nokkra stund að fá framburð hennar.  Kveðist hún hafa verið úti að skemmta sér með fyrrverandi kærasta sínum, X. Þau hafi tekið leigubíl saman heim til A.  Hafi hún setið í sófanum í stofunni er hann hafi skyndilega togað náttbuxur hennar niður um hana, haldið fyrir munn hennar og sagt við hana „haltu kjafti þá gengur þetta miklu betur“. Hann hafi haft mök við hana gegn hennar vilja en hún sagðist aðspurð ekki vita til þess hvort X hafi fengið sáðlát. 

Brotaþoli A hafi verið færð á Neyðarmóttöku fórnarlamba kynferðisbrota. Hafi hún verið í miklu uppnámi og virst gríðarlega hrædd við kærða X. Ekki hafi gengið að fá A til að lýsa atvikum nánar vegna þessa. Gagna vegna áverka brotaþola sé að vænta á næstu dögum frá Landspítalanum.

Lögregla hafi rætt við stúlkurnar sem voru á heimilinu, þær C og D dætur A og E frænku þeirra sem hafi verið í næturgistingu í íbúð frænku þeirra, B, sem býr í íbúð [...]. Árásin eigi að hafa átt sér stað í íbúð [...].

Stúlkurnar hafi sagst hafa verið sofandi í herbergi sínu, C og D deili herbergi í íbúð [...], þegar þær hafi vaknað við hávaða frá stofunni. Þær hafi sagst hafa heyrt móður þeirra (A) kalla "Hættu þessu, farðu af mér, Hættu, hættu". Þær hafi  einnig sagst hafa heyrt hana gráta en hljóðin frá henni hafi verið hálf kæfð eins og einhverju væri haldið fyrir munninn á henni.

Þær hafi sagst hafa orðið það hræddar að þær hafi skriðið út um gluggann á herberginu. Þegar út hafi verið komið hafi þær fyrst hringt í móður E, F, sem búi í [...]. C hafi sagt að hún hafi síðan farið aftur inn um gluggann til að reyna að finna númerið hjá B frænku þeirra sem búi í sama húsi. Þegar hún hafi komið inn í herbergið aftur hafi hún sagst hafa heyrt þegar einhver hafi farið inn í baðherbergið og læst á eftir sér. Hún hafi sagst hafa kíkt í gegnum skráargatið á hurðinni að herberginu hennar og þá séð hvar X stóð fyrir framan hurðina að baðherberginu og reynt að opna.  Hann hafi síðan sparkað í hurðina en ekki getað opnað.

C hafi sagst hafa farið síðan aftur út um gluggann og þær síðan náð sambandi við B sem hafi hleypt þeim inn til hennar en hún farið síðan sjálf yfir í íbúð [...] þar sem hún sé með lykil og þegar hún hafi komið þangað inn hafi A enn verið læst inni á baðherbergi og X staðið í holinu framan við svefnherbergin og baðherbergið í nærbuxum einum klæða. Þannig hafi aðstæður verið þegar fyrstu lögreglumennirnir hafi komið á vettvang. X hafi síðan verið handtekinn í kjölfarið.

Tekinn hafi verið framburður af X í dag kl.15:53. X hafi neitað sakargiftum og kveðist ekki hafa haft samfarir við A. Hann hafi reynt að fá hana til lags við sig en eftir að hún hafi sagt honum að láta sig í friði hafi hann hætt. A hafi sagst hafa komið til Reykjavíkur í gær til að fara á bæjarskemmtun í [...] með A  en þau hafi verið búin að ákveða að hittast og hafi verið búin að eiga samskipti gegnum símtöl og sms þar sem þau hafi rætt um að þau myndi eiga kynferðisleg samskipti þegar hann kæmi í bæinn. X hafi sagt þau hafa búið saman þar til í janúar sl. En eftir apríl hafi þau aftur byrjað að hittast og átt í kynferðislegu sambandi eftir það, þó hafi þau hafi ekki búið saman.

X hafi ekki getað útskýrt hvers vegna A hafi tilkynnt um að hann hafi nauðgað sér. X segist telja að dætur A hafi verið heima, en hann hafi ekki hitt þær.

Að mati lögreglu sé fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðar allt að 16 ára fangelsisrefsingu eins og rakið hefur verið. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en meðal annars eigi eftir að yfirheyra sakborning frekar, svo og vitni í málinu. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Framburður hans sé á annan veg en brotaþola um það sem gerðist.

Ætluð brot teljist varða við 1. mgr.  194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.  88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði og með vísan til umfangs málsins þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.  Þá er með sömu rökum fallist á að kærði verði látinn vera í einrúmi á meðan gæsluvarðhaldinu stendur skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurð þennan kveður upp Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði,  X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. september  nk. kl. 16.00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæslu stendur.