Hæstiréttur íslands
Mál nr. 424/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 3. nóvember 1999. |
|
Nr. 424/1999. |
Geir Hjartarson (Tómas Jónsson hrl.) gegn Bændasamtökum Íslands (Othar Örn Petersen hrl.) Bjargráðasjóði og(Jón Sveinsson hrl.) íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
G höfðaði mál gegn Bændasamtökum Íslands (BÍ), Bjargráðasjóði (B) og íslenska ríkinu. Krafðist hann þess að ákvörðun stjórnar BÍ, sem samþykkt var af stjórn B, um niðurfellingu á gjaldi af afurðum garðyrkju- og gróðurhúsa til B, og auglýsingar landbúnaðarráðuneytisins um niðurfellingu gjaldsins yrðu dæmdar ólögmætar. Þá krafðist hann bóta frá B vegna uppskerutjóns, endurgreiðslu tvítekinnar greiðslu frá B og skaðabóta og miskabóta úr hendi allra stefndu. Héraðsdómur taldi að ekki hefði þýðingu fyrir úrlausn málsins að dæma um gildi umræddra ákvarðana stjórna BÍ og B eða auglýsinga varðandi þær, þar sem að á þessum ákvörðunum hefði ekki verið byggt við afgreiðslu bóta til G og var kröfunum vísað frá dómi. Þá voru kröfur G um skaðabætur og miskabætur taldar svo óljósar og vanreifaðar að þeim yrði vísað frá dómi. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. október. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 1999, þar sem vísað var frá dómi nánar tilteknum liðum í stefnukröfu í máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast allir staðfestingar hins kærða úrskurðar og varnaraðilinn Bændasamtök Íslands auk þess kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðilanum Bændasamtökum Íslands kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Geir Hjartarson, greiði varnaraðilanum Bændasamtökum Íslands 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 1999.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda, Bændasamtaka Íslands, 14. september sl. er höfðað með stefnu birtri 10. og 11. desember 1998 og áritaðri um birtingu 16. s.m.
Stefnandi er Geir Hjartarson, kt. 241136-4699, Lækjarfit 2, Garðabæ.
Stefndu eru: Bændasamtök Íslands, kt. 631294-2279, Bjargráðasjóður, kt. 460169-6669, landbúnaðarráðuneytið, kt. 710169-0559, félagsmálaráðuneytið, kt. 540169-4119 og fjármálaráðuneytið, kt. 550169-2829. Allir stefndu eiga heimili í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru:
„1. að ákvörðun stjórnar Stéttarsambands bænda frá 29-30.11. 1991 og samþykki þeirrar ákvörðunar frá stjórn Bjargráðasjóðs frá 17.12. 1991, um niðurfellingu á gjaldi af afurðum garðyrkju- og gróðurhúsa til Bjargráðasjóðs með afturvirkri gildistöku frá 1.9. 1991 og 1.9. 1992 og áfram, verði í heild dæmd ólögmæt gagnvart stefnanda sem útiræktanda grænmetis og utan félags Sambands garðyrkjubænda.
2. að auglýsingar Landbúnaðarráðuneytisins nr. 573/1991 dags. 4.12. 1991, nr. 118/1993, dags. 19.03.1993 og nr 25/1994, dags. 11.01.1994, um niðurfellingu gjalds af afurðum garðyrkju- og gróðurhúsa til Bjargráðasjóðs verði dæmdar ólögmætar og ekki bindandi fyrir stefnanda.
3. að stefnanda verði bætt fjárhagslegt tjón sem hér segir:
3.1. að stefnda, Bjargráðasjóði Íslands, verði gert að bæta uppskerutjón stefnanda að fjárhæð kr. 3.001.709,- að frádregnum kr. 1.185.000,- skv. þeirri bótareglu sem beitt hafði verið gagnvart sambærilegum tjónum í útiræktun grænmetis, þar til kom að tjóni stefnanda sumarið 1992, þ.e. 50% styrkur og engin eigin áhætta auk dráttarvaxta frá 10.05.1993 skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.
3.2. að stefnda Bjargráðasjóði verði gert að endurgreiða stefnanda tvítekna greiðslu að fjárhæð kr. 13.000,- vegna ræktunarársins 1991 auk dráttarvaxta frá 10.05. 1993 skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.
3.3. að stefndu, Bjargráðasjóði, Bændasamtökum Íslands (Stéttarsambandi bænda), Landbúnaðarráðuneytinu, Félagsmálaráðuneytinu og Fjármálaráðuneytinu verði in solidum gert að greiða stefnanda skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 11.918.749,- auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
4. að stefndu Bjargráðasjóði, Bændasamtökum Íslands (Stéttarsambandi bænda), Landbúnaðarráðuneytinu, Félagsmálaráðuneytinu og Fjármálaráðuneytinu verði in solidum gert að greiða stefnanda bætur fyrir ófjárhagslegt tjón (miskabætur) fyrir röskun á stöðu og högum að fjárhæð kr. 50.000.000,- auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
5. þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins/eða málskostnaðarreikningi sem verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til kemur auk virðisaukaskatts.“
Stefndi, Bændasamtök Íslands krefst aðallega frávísunar á þeim kröfum, sem beint er að honum, þ.e. liðum 1., 3.3 og 4., svo og málskostnaðar.
Af hálfu hinna stefndu ráðuneyta hefur verið vakin athygli á því að málatilbúnaður stefnanda kunni að varða sjálfkrafa frávísun málsins og enn fremur hafa stefndu tekið undir sjónarmið bændasamtakanna.
Af hálfu stefnda, Bjargráðasjóðs, er tekið undir sjónarmið ráðuneytanna svo og í meginatriðum undir sjónarmið bændasamtakanna.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í þessum þætti málsins.
II.
Málavextir eru þeir helstir, að stefnandi, sem stundaði útiræktun á grænmeti að Melavöllum á Kjalarnesi, varð fyrir miklu tjóni á uppskerunni sumarið 1992. Eyðilagðist hún nær öll og var það mat garðyrkjuráðunauts að tjón stefnanda hefði numið 6.003.418 krónum. Kveður stefnandi tjónið hafa verið sér mun þungbærara en ella vegna þess hversu lágt verð hafði fengist fyrir uppskeru ársins á undan.
Þegar stefnandi hugðist sækja um fjárhagsaðstoð til Bjargráðasjóðs kom í ljós, að Samband garðyrkjubænda hafði ákveðið að hætta greiðslum til Bjargráðasjóðs frá og með 1. janúar 1992 og því ætti stefnandi ekki rétt á fjárhagsaðstoð úr sjóðnum. Stefnandi hefur aldrei verið í þessu félagi og heldur hann því fram að ákvarðanir þess hafi ekki átt að hafa nein áhrif á stöðu hans gagnvart Bjargráðasjóði.
Í stefnu er í löngu máli gerð grein fyrir viðskiptum stefnanda við stefndu, alla nema fjármálaráðuneytið, vegna beiðni hans um aðstoð frá Bjargráðasjóði svo og fyrir kvörtun hans til umboðsmanns Alþingis. Ekki er þörf á að gera frekari grein fyrir þessum viðskiptum að öðru leyti en því að umboðsmaður Alþingis taldi ekki kvörtun stefnanda gefa sér tilefni til aðgerða eða athugasemda.
10. maí 1993 ákvað Bjargráðasjóður að greiða stefnanda styrk vegna uppskerubrestsins að fjárhæð 1.185.000 krónur. Stefnandi tók við styrknum með fyrirvara um ákvörðun fjárhæðar.
III.
Dómkröfur sínar samkvæmt 1. og 2. lið í stefnu byggir stefnandi aðallega á því að stefndi, Bændasamtökin (áður Stéttarsamband bænda), hafi með þeirri ákvörðun sinni haustið 1991 að hætta innheimtu á gjaldi til Bjargráðasjóðs af garðyrkjuafurðum ákveðið að koma einhliða til móts við sjónarmið inniræktenda grænmetis. Um leið hafi útiræktendur verið sviptir aðild að Bjargráðasjóði án þess að þeim stæði önnur tryggingavernd til boða. Þessa ákvörðun hafi stefndi tekið að beiðni Sambands garðyrkjubænda, sem stefnandi hafi aldrei átt aðild að. Ákvörðunin hafi verið afturvirk frá 1. september 1991 að telja en stefnandi hafi fyrst fengið um hana að vita þegar hann leitaði eftir aðstoð Bjargráðasjóðs. Telur stefnandi að með því að útiloka sig þannig frá tryggingavernd hafi 6. gr. laga um Búnaðarmálasjóð nr. 41/1990 verið brotin.
Stefnandi heldur því fram að stjórn stefnda, Bjargráðasjóðs, hafi átt að ganga úr skugga um það að beiðni Stéttarsambands bænda væri sett fram með réttum og lögmætum hætti og að reglugerðabundnir frestir væru virtir. Að þessu loknu hefði átt að tilkynna stefnda, landbúnaðarráðuneytinu, um breytingar á gjaldskyldu og ráðuneytið þá mátt auglýsa þær. Alls þessa hafi ekki verið gætt og því hafi ekki mátt breyta innheimtu gjalds til stefnda, Bjargráðasjóðs, með þeim hætti sem gert var.
Dómkröfur samkvæmt lið 3 í stefnu byggir stefnandi á því að stefndi, Bjargráðasjóður, hafi reiknað tjón hans út eftir svonefndri „kartöflumyglureglu“, er sett hafi verið sérstaklega vegna tjóns í sunnlenskri kartöflurækt af völdum kartöflumyglu, sem sé góðærissjúkdómur. Aðrar reglur hafi hins vegar gilt um tjón, sambærileg við sitt. Í gulróta- og kálrækt árin 1987 - 1990 hafi ekki verið nein eigin áhætta og styrkur verið 50% af útreiknuðu tjóni. Árið 1991 hafi ekkert tjón orðið á útiræktuðu grænmeti nema gulrófum. Stefndi, Bjargráðasjóður, hafi reiknað tjón hans sem hér segir:
Heildartjón (skv. matsgerð) kr. 6.003.418
Bjargráðasjóðsgjald-kr. 13.000
Eigin áhætta 40%-kr. 2.401.000
Styrkur úr búnaðardeild 33% kr. 1.185.000
Þennan útreikning telur stefnandi rangan og ekki eiga við í sínu tilfelli. Heldur hann því fram að með því að nota „kartöflumygluregluna“ hafi honum verið greiddar lægstar bætur miðað við aðrar bótareglur, er notaðar hafi verið á nefndu árabili. Af þessu leiði að jafnræðis hafi ekki verið gætt gagnvart honum.
Þá telur stefnandi að við afgreiðslu erindis síns til stefnda, Bjargráðasjóðs, hafi ýmsar meginreglur stjórsýslunnar, sbr. nú lög nr. 37/1993, verið brotnar. Þannig hafi þáverandi stjórnarformaður Stéttarsambands bænda átt sæti í stjórn stefnda, Bjargráðasjóðs, málið hafi ekki verið nægilega upplýst, jafnræðis hafi ekki verið gætt gagnvart stefnanda, meðalhófsreglan hafi verið brotin á honum o.s. frv.
Stefnandi telur ábyrgð stefnda, félagsmálaráðuneytisins, stafa af því að það beri stjórnarfarslega ábyrgð á stefnda, Bjargráðasjóði, og að stefndi, landbúnaðarráðuneytið, beri á sama hátt ábyrgð á stefnda, Bjargráðasjóði, og Sambandi garðyrkjubænda.
Kröfugerð sína samkvæmt þessum lið útlistar stefnandi svo:
„3.1. Að tjón stefnanda verði bætt eins og tvö önnur kálræktartjón á undan tjóni stefnanda og eins og þau voru bætt á árunum 1987-90. Ekkert tjón varð árið 1991.
Heildartjón skv. matsgerð kr. 6.003.418
Styrkur úr búnaðardeild 50% kr. 3.001.709
Samtals greitt til stefnanda kr. 3.001.709
Greiðsla þann 10.5. 1993-kr. 1.185.000
Samtals krafa kr. 1.816.709
auk dráttarvaxta frá 10.5. 1993
3.2. Stefnandi var látinn sæta því að Bjargráðasjóðsgjald fyrir árið 1991 áætlað kr. 13.000 væri dregið frá tjónabótum. Samkvæmt innleggsnótum stefnanda til Ágætis, dskj. nr. 129, var dregið af stefnanda Bjargráðasjóðsgjaldið fyrir 1991 en á innleggsnótunum stendur sjóðagjöld 2,125% og er Bjargráðasjóðsgjaldið 0,6% inni í þeirri prósentutölu. Virðist sem þessi sjóðagjöld hafi ekki skilað sér til Framleiðsluráðs landbúnaðarins, en alla vega er stefnandi búinn að greiða þau bæði fyrir árin 1991 og 1992.
3.3. Krafa stefnanda skv. þessum lið er í tvennu lagi Annars vegar mismunur á fasteignamatsverði eignar stefnda að Melavöllum, Kjalarnesi kr. 23.185.000,- þann 22.9. 1995 og söluverði skv. kaupsamningi dag. 22.9. 1995, kr. 17.900.000,- samtals kr. 5.285.000,- en stefnandi neyddist til að selja eignirnar fyrir þetta lága verð þar sem uppboð á eigninni átti að fara fram 21.09. 1995. Ennfremur neyddist stefnandi til að selja eignirnar án rekstrar og fyrir annan rekstur og því verðið enn lægra fyrir vikið. Hins vegar mismunur í aukningu skulda stefnanda skv. skattskýrslum þ.e. skuldir stefnanda skv. framtali 1992 vegna ársins 1991 voru kr. 9.504.688,-. Við sölu eignarinnar Melavellir, Kjalarnesi var skuldastaðan orðin kr. 16.138.439,-. Mismunur á skuldastöðu milli áranna 1991 og 1995 er því kr. 6.633.751,- eða samtals 11.918.749,- Telur stefnandi fjárhagslegt tjón skv. þessum lið vera á ábyrgð allra stefndu og vera bein afleiðing af ólögmætinu í máli þessu.“
Miskabótakröfu sína samkvæmt 4. lið í stefnu byggir stefnandi á því að hinar ólögmætu ákvarðanir stefndu, sem lýst hefur verið, hafi valdið skilnaði hans og konu hans. Heimili þeirra hafi leyst upp og jörðin og búreksturinn tapast. Enn fremur sé krafan um miskabætur m.a. fyrir alla þá vinnu, kostnað og fyrirhöfn sem fylgt hafi 8 mánaða baráttu og bið við að afla viðurkenningar á bótarétti úr Bjargráðasjóði. Þá hafi tekið við bið eftir áliti umboðsmanns Alþingis og er það lá fyrir hafi baráttan haldið áfram „fyrir því að lögmætinu yrði náð með bréfaskriftum og athugasemdum en án árangurs.“
Meðan stefnandi var að berjast fyrir rétti sínum hjá Bjargráðasjóði hafi hann ekkert gert annað og því líti hann svo á að hann hafi í raun engar bætur fengið. Hann hafi nú háð 6 ára baráttu fyrir því að fá ólögmætan verknað felldan úr gildi eða koma honum í lögmætt horf en án árangurs.
IV.
Stefndi, Bændasamtök Íslands, byggir kröfu sína um frávísun í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda samkvæmt 1. tl. í stefnu sé ekki dómtæk þar sem þess sé krafist að tilteknar ákvarðanir verði „í heild dæmdar ólögmætar gagnvart stefnanda sem útiræktanda grænmetis og utan félags Sambands garðyrkjubænda“. Kröfugerð þessi fari í bága við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar eð hún lúti eingöngu að því að fá lögfræðilegt álit dómsins um að ákvörðun stefnda hafi verið ólögmæt en haggi í engu gildi ákvörðunarinnar þar sem ekki sé gerð krafa um ógildingu hennar. Kröfugerðin uppfylli ekki skilyrði þau sem 2. mgr. nefndrar lagagreinar setji fyrir viðurkenningardómi, enda sé ekki verið að skera úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands heldur aðeins krafist álits dómsins um að ákvörðun stefnda hafi verið ólögmæt.
Í öðru lagi heldur stefndi því fram að þessi kröfuliður sé óljós og feli í sér málsástæðu. Uppfylli hann því ekki skilyrði d liðar 1. mgr. 80. gr. einkamálalaganna.
Í þriðja lagi liggi fyrir að stefnandi hafi fengið tjón sitt bætt eftir gildandi reglum og því hafi ekki reynt á gildi ákvörðunar stefnda og ákvörðun stefnda, Bjargráðsjóðs, er tekin var í framhaldi af því. Síðarnefndu ákvörðuninni hafi auk þess verið breytt og þar með hafi ekki reynt á hina fyrri, sem hafi verið felld úr gildi. Af þessu leiði að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um gildi ákvörðunar stefnda og fyrri ákvörðunar stefnda, Bjargráðasjóðs.
Stefndi heldur því fram að kröfur stefnanda um miska- og skaðabætur séu vanreifaðar og órökstuddar. Ekki sé rökstutt hvers vegna kröfum sé beint sjálfstætt að stefnda og því engin leið fyrir hann að átta sig á því hvers vegna slíkar kröfur séu hafðar uppi á hendur honum.
Hin stefndu ráðuneyti gera ekki kröfu um frávísun málsins en í greinargerð þeirra er vakin athygli á því varðandi formhlið málsins, að bótakröfur samkvæmt liðum 3.3 og 4. í stefnu séu órökstuddar og vanreifaðar. Engin tilraun sé gerð til þess að rökstyðja hvernig ætlað fjártjón og atvik tengist eða með hvaða hætti hinir ýmsu stefndu hafi valdið stefnanda tjóni. Þá sé heldur ekki rökstutt af hverju ábyrgð þeirra á ætluðu fjártjóni stefnanda eigi að vera óskipt. Af málsreifun stefnanda verði ekki annað ráðið en að í kröfugerð samkvæmt 1. og 2. lið í dómkröfum felist þær málsástæður, sem byggt sé á til stuðnings bótakröfum í 3. og 4. lið í dómkröfunum, en málsástæður verði ekki gerðar að sjálfstæðum kröfum. Engu uppskerutjóni hafi verið til að dreifa hjá stefnanda eftir 1. september 1992 og geti auglýsingar stefnda, landbúnaðarráðuneytisins, því engin áhrif hafa haft á hann. Hann hafi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkennt með dómi að þær séu óskuldbindandi fyrir hann. Stefndu telja þannig að þeir annmarkar séu á málatilbúnaði stefnanda gagnvart sér að varða eigi sjálfkrafa frávísun málsins.
Af hálfu stefnda, Bjargráðasjóðs, var við munnlegan flutning um frávísunarkröfuna tekið undir sjónarmið hinna stefndu ráðuneyta svo og í meginatriðum undir framangreind sjónarmið stefnda, Bændasamtaka Íslands.
V.
Málatilbúnaður stefnanda verður ekki skilinn öðru vísi en að með kröfugerð sinni freisti hann þess að fá bætur fyrir það tjón sem beið vegna uppskerubrestsins sumarið 1992 og afleiðinga hans. Bótakröfu beindi hann í upphafi að stefnda, Bjargráðasjóði, og var henni í fyrstu hafnað svo sem að framan var rakið. Síðar endurskoðaði stefndi þessa ákvörðun sína og breytti henni. Voru stefnanda greiddar bætur í samræmi við reglur stefnda, að því er stefndi heldur fram. Að svo vöxnu máli hefur ekki þýðingu fyrir úrlausn þessa dómsmáls að dæma um gildi þeirra ákvarðana, sem tilgreindar eru í 1. lið stefnunnar þar sem ekkert var á þeim byggt við afgreiðslu bóta til stefnanda. Auglýsingar þær, sem greinir í 2. lið stefnunnar, byggðu á ákvörðunum þeim, sem í 1. lið getur, og hefur því af sömu ástæðum enga þýðingu lengur að dæma um gildi þeirra. Samkvæmt þessu hefur stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um gildi þeirra ákvarðana og auglýsinga, sem 1. og 2. liður í stefnu fjalla um og er þessum liðum báðum vísað frá dómi.
Ekki er krafist frávísunar á liðum 3.1 og 3.2 í stefnu og að mati dómsins er ekki ástæða til að vísa þessum liðum frá dómi.
Stefnandi varð fyrir uppskerutjóninu 1992. Hann kveðst hafa neyðst til að selja jörð sína árið 1995 fyrir lágt verð vegna þess að uppboð á henni stóð fyrir dyrum eins og að framan er rakið. Þá telur hann skuldir sínar hafa hækkað frá árinu 1991 til ársins 1995 eins og grein hefur verið gerð fyrir og hefur hann lagt fram skattframtöl sín þessu til stuðnings. Telur stefnandi að fjárhagslegt tjón sitt sem tilgreint er í lið 3.3 í stefnu "vera á ábyrgð allra stefndu og vera bein afleiðing af ólögmætinu í máli þessu." Frekari útlistun eða rökstuðning er ekki að finna á þessum kröfulið og verður að fallast á að hann sé svo vanreifaður og óljós að ekki sé hægt að taka til varna í málinu varðandi hann og því síður dæma um hann. Verður honum vísað frá dómi.
Af rökstuðningi stefnanda fyrir kröfunni um miskabætur má ráða að þar sé hann m.a. að krefjast bóta fyrir fjárhagslegt tjón, svo sem vegna vinnu við að afla viðurkenningar á bótarétti hjá stefnda, Bjargráðasjóði. Þá hafi hinar meintu ólögmætu ákvarðanir stefndu valdið því að hjónabandi hans hafi lokið með skilnaði, heimili hans leyst upp og hann misst jörðina. Ekki frekar en í fyrrgreindum lið stefnunnar gerir hann skýra grein fyrir hverjir þessir ólögmætu verknaðir séu og hvernig þeir tengist þeim miska, sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir. Þá er heldur ekki ljóst af málatilbúnaði hans hvað það sé sem gerir ábyrgð stefndu óskipta á meintum miska stefnanda. Er kröfuliður þessi óljós og vanreifaður og verður honum því einnig vísað frá dómi.
Samkvæmt þessum málsúrslitum skal stefnandi greiða stefnda, Bændasamtökum Íslands, 200.000 krónur í málskostnað. Aðrir stefndu hafa ekki haft uppi kröfur í þessum þætti málsins.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Liðum 1., 2., 3.3 og 4. í stefnu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Geir Hjartarson, greiði stefnda, Bændasamtökum Íslands, 200.000 krónur í málskostnað.