Hæstiréttur íslands
Mál nr. 307/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 8. maí 2012. |
|
Nr. 307/2012. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 2012 sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. maí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. maí 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí 2012, kl. 16:00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan rannsaki nú tilraun til manndráps en kærði, X, liggi undir sterkum grun um að hafa reynt að bana A aðfaranótt sunnudagsins 1. apríl sl.
Upphaf málsins megi reka til þess að A hafi leitað á lögreglustöðina við [...] í [...] laust eftir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 1. apríl sl. eftir að kærði, sem sé sonur eiginmanns hennar, hafði lagt á hana hendur og hún í framhaldi af því flúið íbúð sína að [...] í [...] (sjá frumskýrslu máls nr. 007-2012-[...]). Hafi hún óskað eftir því að lögregla vísaði kærða út af heimilinu. Kærða hafi verið vísað út úr íbúðinni en í kjölfarið hafi A skýrt lögreglu frá því að kærði hafi ráðist á hana eftir að hann hafi ásakað hana um að hafa stolið frá sér 1.500 krónum. Hann hafi ráðist á hana þar sem hún hafi setið í sófa í stofunni og tekið hana kverkataki og kýlt hana í síðu, hendur og andlit. Þá hafi hann reynt að kæfa hana með því að halda kodda fyrir andliti hennar. Fyrir þetta hafi kærði sagt við hana að hún yrði að fara úr lífi föður síns annars myndi hann drepa hana.
Klukkan 5:15 hafi lögreglu borist tilkynning um að kona væri fyrir framan [...] að hrópa eftir hjálp. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi þar verið hópur fólks sama kominn á stétt fyrir framan [...] og hafi kærða verið haldið þar í tökum af þremur karlmönnum en A legið meðvitundarlaus í jörðinni um tveimur metrum frá og augljóst að á hana hefði verið ráðist. Á vettvangi hafi fundist stór kertastjaki sem reynst hafi vera barefli sem notaði hafi verið til að berja A.
Kærði hafi verið blóðugur og með djúpan skurð á höndum þegar hann hafi verið handtekinn. Á vettvangi hafi hann viðurkennt að hafa skorist á höndum þegar hann hafi brotið sér leið inn um svalahurð á íbúð A. Hafi kærði ætlað að segja lögreglu frá öllu en hann hafi ekkert að fela og hafi viðurkennt að hafa ætlað að drepa A en hún væri búin að eyðileggja líf hans og föður hans.
Fjöldi vitna hafi verið að árásinni en þau lýsi því að hafa heyrt brothljóð frá íbúð A og einhverjir hafi orðið varir við hana hlaupa um stigaganginn og þaðan út. Vitni segjast hafa heyrt mikil öskur og læti. Út um gluggann hafi vitnin síðan séð kærða ofan á A. Fyrst hafi kærði slegið A ítrekað í höfuðið með áhaldi en síðan hafi hann gert sig líklegan til að kyrkja hana. Vitni segjast hafa heyrt kærða segja “ég er að reyna að drepa hana”. Þá hafi einnig verið á vettvangi lítið barn, sem reyndist vera 6 ára gamall sonur A, sem einn nágranninn hafi tekið inn í íbúð til sín til að hlúa að honum en hann hafi óttast það mjög að móðir hans væri dáin.
Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 1. apríl sl. hafi kærði viðurkennt að hafa klifrað upp á svalir íbúðarinnar sem sé á annarri hæð og talað við brotaþola. Hún hafi ekki viljað hleypa honum inn svo hann hafi rifið upp glugga og náð í kertastjaka sem hann hafi notað til að brjóta glugga á svalahurðinni. A hafi þá hlaupið út úr íbúðinni og kærði á eftir henni. Hann hafi náð henni á bílastæðinu og slegið hana með kertastjakanum nokkrum höggum. Síðan hafi hann tekið hana kverkataki. Þegar kærði hafi verið spurður að því hvað hefði gerst ef enginn hefði stöðvað hann þá kaus kærði að tjá sig ekki um það.
A hafi skýrt frá því í skýrslutöku mánudaginn 2. apríl að kærði hafi fyrr um kvöldið ásakað sig um að hafa stolið af henni 1.500 krónum. Hann hafi verið æstur í skapi og gengið um gólf og ásakað hana. Þau hafi fundið peninginn en hann hafi þrátt fyrir það farið að ógna henni og tekið um háls hennar og lamið hana í bak og handlegg. Hún hafi orðið mjög hrædd en síðar fengið leyfi hans til að fara út í göngutúr og þá farið á lögreglustöðina við [...] og fengið aðstoð lögreglu við að vísa kærða út. A hafi ekki þorað að sofna eftir þetta af hræðslu við að kærði kæmi aftur en um klukkan 04:00 hafi hún orðið vör við hann á svölum íbúðarinnar. Hún hafi neitað að opna fyrir honum en hann þá reiðst og brotið stormjárn á svalaglugga og náð þar í kertastjaka. Með kertastjakanum hafi hann brotið rúðu í svalahurð. A segst hafa orðið mjög hrædd og hlaupið út úr íbúðinni meðan hún hafi öskrað á hjálp. Kærði hafi náð henni á bílastæðinu og byrjað að lemja hana með kertastjakanum. Hún hafi fallið í jörðina og kærði þá tekið með annarri hendinni um háls hennar og þrýst að en haldið áfram að slá hana í höfuðið með kertastjakanum. Hún hafi síðan rankað við sér á slysadeild Landspítalans.
Fyrirliggjandi sé bráðabirgðalæknisvottorð Jóns Örvars Kristinssonar sérfræðilæknis um ástand og áverka A. Það komi fram að við komu á slysadeild hafi hún verið meðvitundarskert, hafi illa svarað áreiti og verið óróleg. Höfuð hennar og andlit hafi verið alsett blóði. Hún hafi verið með þrjá djúpa skurði á höfði og þann fjórða á enni. Hún hafi einnig verið marin á höfði. Þá hafi hún verið með stórt mar á sitt hvorum upphandleggnum. Einnig með stórt mar aftan á hægri öxl og á hálsi með byrjandi mar og eymsli sem samrýmast því að hún hafi verið tekin hálstaki. Fram komi í áliti Jóns Örvars að skurðirnir á höfðu A séu eftir þung högg sem miðað við sögu lögreglu hafi geta valdið lífshættulegum áverkum.
Rannsókn málsins miði vel en beðið sé niðurstöðu endanlegs áverkavottorðs. Málið verði því sent Ríkissaksóknara á næstu dögum.
Samkvæmt framansögðu sé upplýst að lögregla hafi haft afskipti af kærða fyrr þessa sömu nótt eftir að hann réðst á A. Þrátt fyrir afskipti lögreglu og augljósan vilja A um að hann kæmi ekki aftur á heimili hennar hafi kærði komið hins vegar á ný að heimili hennar og hafi brotið sér leið um svalahurð og elt síðan A út þar sem kærði hafi ráðist á hana með því að slá hana með kertastjaka í höfðið og reynt síðan í framhaldinu að kyrkja hana þar til atlaga hans hafi verið stöðvuð af fólki sem varð vitni að árásinni. Kærði hafi neitað að tjá sig um hvað hefði gerst ef hann hefði ekki verið stoppaður af umrætt sinn en vitni að árásinni bera um að hann hafi sagt á vettvangi að hann ætlaði að drepa hana. Af þessu öllu er ljóst að kærði hafði ásetning til að verða A að bana.
Kærða hafi þann 1. apríl sl., með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. 177/2012, verið gert að sæta gæsluvarðhaldi skv. 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 til miðvikudagsins 4. apríl og þá hafi honum einnig verið gert að gangast undir geðrannsókn með úrskurði nr. 178/2012. Kærði hafi síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 4 apríl sl., á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag.
Kærði, X, liggi nú undir sterkum grun um að hafa ráðist með framangreindum hætti á A. Um mjög alvarlega atlögu sé að ræða og tilviljun ein réð því hverjar afleiðingar hennar urðu. Brot kærða sé talið varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga og kunni því að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu.
Af öllu framangreindu er ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu en samkvæmt framburði A og föður kærða óttist þau mjög að kærði muni reyna að drepa A verði hann látinn laus. Þá sé ljóst af framburði vitna að atlögunni að þau óttist kærða. Sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Myndi það jafnframt særa réttarvitund almennings yrði kærði látinn laus.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til alls þess sem rakið er að framan er fallist á að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað allt að 10 ára fangelsi. Enn fremur er fallist á það að brot það sem kærði er grunaður um að hafa framið sé mjög alvarlegt þannig að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett. Verður kærða gert að sæta gæsluvaðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí nk., kl. 16:00.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí 2012, kl. 16:00.