Mál nr. 756/2013
- Sifskaparbrot
- Frelsissvipting
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
X var ákærður fyrir sifskapar- og frelsissviptingarbrot með því að hafa með ofbeldi veist að stúlkunni A, sem þá var tíu ára, og ekið með hana á afvikinn stað. Þá var hann einnig ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa meðan á framangreindri frelsissviptingu stóð meðal annars þuklað á líkama hennar, látið hana snerta getnaðarlim sinn og fróa sér, látið hana hafa við sig munnmök og sett fingur sinn í kynfæri hennar og endaþarm. X var sakfelldur fyrir brot gegn 193. gr., 1. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 202. gr., 1. mgr. 210. gr. a. og 1. mgr. 226. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot X þótti þaulskipulagt og brotavilji hans styrkur og einbeittur, auk þess sem það beindist að varnarlausu barni sem átti sér einskis ills von og varði í rúmar tvær klukkustundir. Var X dæmdur í 10 ára fangelsi jafnframt því sem honum var gert að greiða A 4.000.000 krónur í skaðabætur auk vaxta.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. nóvember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um miskabætur verði staðfest.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 6.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. maí 2013 til 5. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún þess að niðurstaða héraðsdóms um miskabætur verði staðfest.
Í skriflegri tilkynningu verjanda ákærða 14. nóvember 2013 til ríkissaksóknara um áfrýjun héraðsdóms var tekið fram að ákærði gerði kröfu um endurskoðun viðurlaga, sbr. a. lið 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Á hinn bóginn var í greinargerð verjandans hér fyrir dómi aðallega krafist sýknu vegna sakhæfisskorts, en til vara mildunar refsingar. Samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 skal í bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara tekið nákvæmlega fram í hverju skyni áfrýjað sé og hverjar dómkröfur ákærða séu. Þó getur Hæstiréttur eftir niðurlagsákvæði 1. mgr. 208. gr. laganna ávallt breytt dómi til hagsbóta ákærða þótt hann hafi ekki gert kröfu um það.
Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms óskaði ákærði eftir að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta sakhæfi sitt. Til starfans var kvaddur M geðlæknir. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar hans 15. apríl 2014 er ekkert sem bendir til þess að ákærði hafi á verknaðarstundu verið ófær um að stjórna gerðum sínum sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er að mati hins dómkvadda manns ekkert læknisfræðilegt sem kemur í veg fyrir að refsing beri árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Þessi niðurstaða er í samræmi við niðurstöðu rannsóknar K geðlæknis 28. júní 2013 á geðheilbrigði ákærða. Að þessu gættu er ákærði sakhæfur.
Ákvæði héraðsdóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæða eru staðfest með vísan til forsendna hans.
Fjölskipaður héraðsdómur mat framburð brotaþola skýran og trúverðugan. Hún skýrði svo frá að ákærði hafi 14. maí 2013, er hún var á leið heim til sín úr skóla, komið út úr bifreið, gripið í sig og fært inn í bifreiðina. Ákærði hafi sagst vera lögreglumaður sem hefði það verkefni með höndum að líkja eftir alvöru barnsráni og væri tilgangurinn að sýna fram á að það væri ekkert hættulegt að taka börn upp í bifreið. Ákærði leitaðist við að afla sér fjarvistarsönnunar með því að skýra tveimur vinnufélögum sínum frá því, er hann fór úr vinnu eftir hádegi umræddan dag, að hann hygðist skrifa undir pappíra hjá tryggingafélagi. Þá sendi hann öðrum þessara vinnufélaga sinna smáskilaboð síðdegis sama dag þess efnis að hann væri búinn að fara á milli þriggja stofnana út af tryggingum og skatti. Enn fremur reyndi ákærði að leyna brotunum með því að breiða föt yfir brotaþola og handklæði undir hana í bifreiðinni, aka henni á afvikinn stað, villa um fyrir henni hvert þau væru að fara og afmá verksummerki með því að þrífa bifreiðina eftir að hann hafði skilað brotaþola af sér. Þá tók ákærði ljósmyndir og hreyfimynd af brotaþola á brotavettvangi.
Allt framangreint ber skýran vott um að brot ákærða voru þaulskipulögð og lýsir styrkum og einbeittum brotavilja hans, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Einnig horfir til refsiþyngingar samkvæmt c. lið 195. gr. sömu laga varðandi kynferðisbrotið í 2. lið ákæru að brotið var framið á sérstaklega meiðandi hátt. Þar að auki verður það metið ákærða til þyngingar refsingar að brot hans beindust að varnarlausu barni, sem átti sér einskis ills von, svo og að frelsissvipting brotþola varði í rúmar tvær klukkustundir. Að lokum lýsir það hvötum ákærða, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, að fram er komið í málinu að hann hafði, áður en hann framdi brot sín, hlaðið niður í farsíma sinn stundatöflum nokkurra grunnskóla og æfingatöflum þriggja deilda íþróttafélags, auk þess sem í bifreið hans fundust miðar með nöfnum og símanúmerum þriggja ungra stúlkna. Að framansögðu virtu og að öðru leyti með vísan til refsiforsendna héraðsdóms er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 ár. Til frádráttar refsingunni skal koma óslitið gæsluvarðhald hans frá 15. maí 2013.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.
Við mat á miskabótum til handa brotaþola verður litið til þess að brot ákærða gagnvart henni voru sérlega gróf, hún var þá mjög ung og að þau eru til þess fallin að hafa í för með sér mikinn miska fyrir hana. Samkvæmt þessu eru miskabætur ákveðnar 4.000.000 krónur, sem beri vexti eins og krafist er og greinir í dómsorði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorðið segir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald hans frá 15. maí 2013.
Ákærði greiði A 4.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. maí 2013 til 5. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.124.123 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 753.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hildar Sólveigar Pétursdóttur hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2013
Árið 2013, miðvikudaginn 23. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af héraðsdómurunum Guðjóni St. Marteinssyni, sem dómsformanni, Halldóri Björnssyni og Kolbrúnu Sævarsdóttur, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-658/2013: Ákæruvaldið gegn X en málið var dómtekið 2. þ.m.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 5. júlí 2013, á hendur:
,,X, kennitala [...],
[...],
fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík þriðjudaginn 14. maí 2013:
1. Sifskapar- og frelsissviptingarbrot með því að hafa, um klukkan 14:30, með ofbeldi veist að telpunni A, kennitala [...], tíu ára, sem var á leið heim til sín úr skóla, og þrifið í hana þar sem hún var stödd við [...], skammt frá heimili sínu, tekið um munn hennar er hún öskraði á hjálp og fært hana í aftursæti bifreiðarinnar [...] þar sem hann lagði hana á gólfið og breiddi yfir hana fatnað. Ákærði ók síðan sem leið lá frá [...] upp í Heiðmörk þar sem hann stöðvaði bifreiðina við Heiðmerkurveg og braut gegn henni eins og lýst er í 2. ákærulið. Að því loknu ók ákærði aftur í [...] þar sem hann sleppti telpunni út skammt frá [...] um klukkan 16:40.
Telst þetta varða við 193. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Kynferðisbrot með því að hafa, meðan á framangreindri frelsissviptingu stóð, sest í aftursæti bifreiðarinnar þar sem telpan sat og skipað henni að gera eins og hann segði, m.a. klæða sig úr fötum, ella myndi hann meiða hana og foreldra hennar. Er telpan var komin úr öllu nema nærbol þuklaði ákærði á líkama hennar, kyssti hana á hné, lét hana snerta getnaðarlim sinn og fróa sér, lét hana hafa við sig munnmök og setti fingur sína í kynfæri hennar og endaþarm. Hlaut telpan marbletti á hægra læri og rispu við leggangsop. Meðan á þessu stóð tók ákærði 1 hreyfimynd og 14 ljósmyndir af athæfinu á farsíma sinn af gerðinni Samsung Galaxy SII, en ákærði hafði myndirnar í vörslum sínum er lögreglan handtók hann og haldlagði símann að kvöldi sama dags.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga.
3. Fíkniefnalagabrot með því að hafa, í bifreiðinni [...] sem ákærði hafði afnot af, haft í vörslum sínum 0,06 g af amfetamíni, 0,78 g af MDMA, 0,67 g af maríhúana og 0,06 g af tóbaksblönduðu kannabis sem lögregla fann við leit í bifreiðinni þann 16. maí 2013.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga að því er varðar MDMA og kannabisefni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ennfremur að framangreind fíkniefni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Loks að ákærði sæti upptöku samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga á farsíma sem getið er í 2. ákærulið.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu B, kt. [...] og C, kt. [...], vegna ólögráða dóttur þeirra, A, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 6.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. maí 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Bótaskylda er viðurkennd. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar var farið að heimili A hinn 14. maí 2013 eftir að tilkynning barst um atburðinn sem í ákæru greinir. Í skýrslunni er því lýst er rætt var við foreldra A. Höfðu þau eftir A að hún hefði verið á leið heim til sín þennan dag úr skóla sem lauk klukkan 14:20. Sagði hún að bifreið hefði verið lagt við hlið sér og út kom maður sem þreif hana og tók með valdi og setti aftur í bifreiðina þar sem hann breiddi úlpu og annan fatnað yfir hana í því skyni að fela hana. Maðurinn hefði síðan kynnt sig sem nafngreindan „leynilögreglumann“ sem væri að vinna rannsóknarverkefni. Síðan er í skýrslunni endursögn af því sem A greindi frá og koma þar fram lýsingar á allri háttseminni sem eru í ákæruliðum 1 og 2.
Í skýrslunni er lýst rannsóknarvinnu í framhaldinu.
A greindi frá bílnúmeri bifreiðarinnar sem maðurinn ók. Leiddu þær upplýsingar til handtöku ákærða daginn eftir, 15. maí. Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan.
Nú verður rakinn framburður ákærða fyrir dómi og vitnisburður.
Ákæruliðir 1 og 2
Ákærði hefur játað sök en man ekki atburði. Af þeim sökum, og til að varpa ljósi á málavexti, brotavilja ákærða og ásetningsstig og til að varpa ljósi á afleiðingar brota hans samkvæmt ákæruliðum 1 og 2, verða reifaðir málavextir og vitnisburður eins og ástæða er til.
Ákærði neitaði í fyrstu sök á þeim forsendum að hann myndi ekki atburði frá þessum degi sökum langvarandi fíkniefnaneyslu. Undir aðalmeðferð málsins játaði hann sök. Undir rannsókninni var lagt hald á síma ákærða. Á símanum eru ljósmyndir og hreyfimynd af ákærða og A. Þar sést að ákærði viðhafði þá háttsemi gagnvart barninu sem lýst er í ákærulið 2. Undir aðalmeðferðinni staðfesti ákærði að hann ætti símann sem um ræðir og að umræddar myndir væru af honum og A. Hann kvaðst hafa kynnt sér ítarlega frásögn A af atburðum og kveðst ekki draga vitnisburð hennar í efa eða hafa neinar athugasemdir fram að færa varðandi hann þótt hann myndi atburði ekki. Ákærði var ítrekað spurður um ferðir sínar þennan dag. Hann lýsti nánast algjöru minnisleysi um flest. Hann kvað fíkniefnaneyslu sína hafa verið mikla frá febrúar/mars á þessu ári. Hann hafi verið dagneyslumaður og minnisleysið megi rekja til þessa. Þá lýsti hann svefnleysi sínu af þessum sökum, sex nætur á undan atburðunum sem í ákæru greinir. Ekki þykir ástæða til að rekja framburð ákærða frekar.
Tekin var vitnaskýrsla af A fyrir dómi 17. maí síðast liðinn. Greindi hún svo frá að hún hefði verið á heimleið úr skóla og verið stödd nærri [...] er maður stöðvaði bifreið við hlið hennar. Maður kom út úr bílnum, gekk að henni og bauð góðan daginn. Síðan greip maðurinn í hana og setti inn í bílinn. Lýsti hún atburðum svo: „Hann spurði ekkert eða neitt. Hann bara tók mig“. Fram kom hjá henni að maðurinn hefði komið henni fyrir á gólfinu, aftur í bifreiðinni, og breitt þar yfir hana úlpu og annan fatnað. Hún lýsti því að í framhaldinu hefði maðurinn sagst heita Einar og vera lögreglumaður og þau væru á leiðinni upp á lögreglustöð en hann væri að líkja eftir alvöru barnsráni. Þetta væri lögregluverkefni. Hún lýsti því að maðurinn hefði rætt um yfirmann sinn og fleira og að hún hefði í fyrstu trúað að maðurinn væri lögreglumaður en hann hefði sagt að hann ætlaði ekki að meiða hana eða snerta. Hann hefði sagt að lögreglan væri að „sýna fram á að það sé ekkert hættulegt að taka börn upp í bíl“. Hún hafi síðan hætt að trúa manninum og orðið hrædd. Hún taldi manninn hafa ekið upp í Heiðmörk en maðurinn hefði sagt að þau væru í Mosfellsdal. Þá lýsti hún því hversu hrædd hún var og að hún hefði kallað á hjálp en maðurinn hefði þá haldið um munn hennar. Í framhaldinu hefði maðurinn sagt henni að afklæðast. Hún kvaðst hafa gert það utan að hún fór ekki úr nærbol. A lýsti í framhaldinu því sem að maðurinn lét hana gera og kemur það allt heim og saman við lýsingar í 2. lið ákærunnar en A greindi einnig frá því að maðurinn hefði notað símann og tekið myndir af því sem hann gerði henni. Hún kvað manninn hafa hótað að meiða hana og foreldra hennar gerði hún ekki það sem hann segði. Hún hafi ekki viljað það og því hlýtt manninum. Eftir þetta ók maðurinn í bæinn og skildi hana eftir skammt frá [...], þaðan sem hún gekk heim til sín eftir að hafa reynt að koma við hjá ömmu sinni og afa í nálægu húsi en þau ekki verið heima. A lýsti bifreiðinni og bílnúmeri eins og áður er fram komið.
Vitnið C, móðir A, greindi frá því er hún kom heim úr skólanum þennan dag en hún kvaðst hafa verið farin að undrast um hana. Er hún spurði barnið hvar það hefði verið, brást hún við með öskri og lýsti hún þessu. A hefði strax greint frá því að eitthvað hræðilegt hefði gerst. Hún hefði verið numin brott og lýsti A því sem gerðist. Foreldrarnir hringdu strax í lögregluna. C lýsti því að A hefði lokið skóla klukkan 14:20 þennan dag og verið á heimleið. Við [...] veitti hún athygli bíl sem hún hafði áður tekið eftir. Skömmu síðar stöðvaðist bíllinn við hlið hennar og út kom maður sem bauð góðan dag. Setti maðurinn síðan eitthvað utan um hana og kom henni fyrir aftur í bílnum. Hún hafi kallað á hjálp en maðurinn hefði tekið fyrir munn hennar og sett hana á gólfið aftur í bifreiðinni, breitt yfir hana og ekið á brott. Hún kvað A hafa lýst því sem svo gerðist. Maðurinn hafi sagst heita Einar og hann væri lögreglumaður að vinna tiltekið verkefni ásamt öðrum. Stúlkan hafi verið mjög hrædd og lýsti A því fyrir foreldrunum. Fram kom að bifreiðinni var ekið upp í Heiðmörk en maðurinn hefði sagt A að þau væru í Mosfellsdal en fram kom að A vissi að þau voru ekki stödd þar. Hún þekkti staðinn þangað sem ekið var vegna þess að hún hafði áður ekið um þær slóðir með fjölskyldunni. Á þessum stað var hún beitt ofbeldi eins og lýst er í ákærunni. Hún hafi sagst hafa verið „rosalega hrædd“ og lýsti hún þessu. Að lokum var ekið aftur í bæinn og A sett úr bílnum, eins og lýst er í ákærunni.
C lýsti gríðarlega miklum og víðtækum afleiðingum þessa atburðar á A. Hún þori ekki út, geti ekki verið ein, geti ekki verið ein á heimilinu, hún sofni ekki ein og lýsti hún þessum o.fl. afleiðingum brotsins gegn henni. Hún kvað A ekkert fara eina. Það þurfi að fylgja henni hvert sem er í tómstundir, skóla og fleira. Hún lýsti ítarlegum og miklum breytingum fyrir alla fjölskylduna. C lýsti ýmsu öðru sem hefur greinilega haft áhrif á A og ýmsum uppákomum í daglegu lífi sem minni hana á atburðinn.
Vitnið B, faðir A, lýsti því er hún kom heim úr skólanum þennan dag. Er hún nálgaðist heimilið hafi hún tekið að hlaupa og öskra skelfingarópi og sagt að dálítið hræðilegt hefði gerst. Í framhaldinu greindi A frá því sem gerðist. Hringt var í lögregluna og lýsti hann ráðstöfunum sem gerðar voru í framhaldinu. Hann lýsti áhrifum þessa atburðar á A efnislega á sama veg og móðir hennar gerði og rakið var að framan, meðal annars erfiðleikum A við að vera ein, stunda tómstundir og fleira. Hún þyrfti fylgd hvert sem hún færi og hún gæti ekki sofnað ein. Þessi atburður hafi haft gríðarlegar afleiðingar fyrir allt fjölskyldulífið, meðal annars fyrir systkini A og lýsti hann þessu.
Vitnið D, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, skoðaði A 14. maí sl. Fyrir liggur skýrsla þar um. D kom fyrir dóminn, skýrði skýrsluna og staðfesti að A hefði komið með foreldrum sínum. Stúlkan hafi verið útgrátin, hún hafi verið skýr og reynst eiga ótrúlega auðvelt með að einbeita sér og greina frá því sem gerðist. Henni hafi liðið gríðarlega illa. Hann lýsti skoðuninni þar sem fram kom roði við leggangaop. Það hafi verið ferskur áverki sem gæti verið eftir nögl eða fingur. Ferskir marblettir hafi greinst á hægra læri.
Vitnið E lögreglumaður lýsti því hvernig unnið var við að finna brotavettvang í Heiðmörk með aðstoð A. Hann lýsti því er komið var að stað þar sem fannst kókflaska og ljóst handklæði. Þessir munir samrýmdust frásögn A af því hvaða munir hefðu verið í bílnum og hafi verið notaðir á staðnum við verknaðinn en A hafi greint svo frá að hún hefði setið á ljósbláu handklæði og verið þvinguð til að drekka úr kókflösku. Staðurinn sem um ræðir sé afvikinn, þar sé ekki mikil umferð. E kvað ákærða hafa greint nákvæmlega frá því undir rannsókninni að hann hefði farið á bensínstöð til að þrífa bíl sinn þennan dag. Af þessum sökum voru upptökur eftirlitsmyndavélar skoðaðar frá Olís á Norðlingaholti. Á myndskeiðinu sjáist er ákærði kom og ryksugaði bílinn og þvoði en þvotturinn sjáist ekki á upptökunni. E kvað framburð ákærða hafa verið algjörlega í samræmi við það sem fram kom á upptökunni úr eftirlitsmyndavélinni en ákærði vissi ekki af henni. E kvað ákærða hins vegar ekkert hafa munað eftir því hvað gerðist áður en komið var að bensínstöðinni og heldur ekki hvað gerðist eftir að hann fór þaðan.
Vitnið F er unnusta ákærða. Hún kvað ákærða hafa farið í vinnu 14. maí sl. Hún hafi rætt við hann símleiðis og hann komið heim í eftirmiðdaginn um klukkan 18:00 eins og venjulega. Hún kvað ákærða hafa verið búinn að vera stórfurðulegan undanfarið en hún hafi tengt það kvíða ákærða. Hún vissi ekki af fíkniefnaneyslu hans og hún hefði ekki haft hann á heimili sínu hefði hún vitað það. Hún vissi af fyrri neyslu ákærða. Hún lýsti ástandi ákærða dagana á undan en hann hefði verið utan við sig og svefnlaus og lýsti hún þessu.
Vitnið G, yfirmaður ákærða á vinnustað, kvað ákærða hafa farið úr vinnunni milli klukkan 14:30 og 15:00 hinn 14. maí sl. Nánar spurður um þetta, með tilliti til símagagna sem liggja frammi í málinu, kvað vitnið vel mögulegt að ákærði hefði yfirgefið vinnustaðinn fyrr þennan dag. Hann viti þetta ekki nákvæmlega. Ákærði hafi sagt erindið hafa verið að fara í tryggingafélag sem hann nafngreindi. Ekkert óvenjulegt hafi verið við ákærða að hans mati og engar grunsemdir vaknað.
Vitnið H er vinnufélagi ákærði. Hann mundi ekkert sérstakt í samskiptum þeirra ákærða þennan dag en ákærði hafi farið úr vinnunni um klukkan 14:30 en það gæti hafa verið fyrr. Ákærði hafi sagst ætla að fara í tryggingafélag. Ákærði hafi sent vitninu SMS-skeyti síðar sama dag og að erindi hans hafi tekið langan tíma. SMS-skeytið liggur fyrir meðal gagna málsins og staðfesti vitnið að það væri skeytið sem um ræðir.
Vitnið I kom fyrir dóminn. Hann staðfesti að miðar sem fundust í veski ákærða hefðu að geyma nöfn dætra sinna og upplýsingar um þær, svo sem símanúmer, tómstundir og fleira. I hafði farið með símann sinn í viðgerð á sínum tíma og upplýsingarnar sem um ræðir hafi verið geymdar á símanum en fyrir liggur að ákærði vann við viðgerð símans. I kvað ákærða ekki hafa getað komist yfir þessar upplýsingar nema vegna þess að hann sinnti viðgerð á símanum.
Meðal gagna málsins er matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 7. júní 2013. Rannsakað var blóðsýni úr ákærða. Þar segir meðal annars:
„Í þvagsýni nr. 378302 fannst eftirfarandi:
Amfetamín: 75 ng/ml
Tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóðinu.
Alkóhól var ekki í mælanlegu magni í blóðinu.
Styrkur amfetamíns í blóði er eins og búast má við þegar það er notað í fremur stórum skömmtum til lækninga. Tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi segir til um að hlutaðeigandi hafi neytt kannabisefna einhvern tíma fyrir sýnatöku en ekki er hægt að segja til um hversu langur tími er liðinn frá þeirri neyslu. Niðurstöður rannsóknanna benda til þess að hlutaðeigandi hafi verið undir fremur vægum örvandi áhrifum amfetamíns þegar sýnin voru tekin.“
J, deildarstjóri á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, kom fyrir dóminn, skýrði og staðfesti matsgerðina. Hún kvað styrk amfetamíns í blóði hafa verið lágan en mælt sig niður í 20 ng/ml. Hún skýrði að ekki væri hægt að reikna styrk amfetamíns í blóði ákærða fyrr sama dag, daginn sem efnanna var neytt. Það gildi ekki það sama um amfetamín og alkóhól að þessu leyti.
K geðlæknir vann geðrannsókn á ákærða. Hann skilaði greinargerð sem dagsett er 28. júní 2013. Niðurstöðukaflinn er svofelldur:
„1. Það er niðurstaða mín að X sé sakhæfur.
2. X hefur engin merki geðrofs, sturlunar frá upphafi skoðunartíma. Heimildir og gögn eru þessu samhljóða.
3. Grunnpersónuleiki X einkennist af kvíða og vissu óöryggi með hæðis- og jaðarpersónuleika einkennum Ljóst er að í neyslu er hann í allt aðra átt, andfélagslegur og siðblindur. Er því mjög tvöfaldur í sínu lífi og persónu.
4. Ekki koma fram merki um svo alvarlega persónuleikaröskun, heilaskaða eða greindarskort sem eru af þeirri gráðu að þau firri hann ábyrgð gerða sinna.
5. X var á brotadegi í miklu vímuástandi, auk þess þreyttur og svefnlaus til margra daga.
6. Geðræn einkenni þau sem að ofan er lýst leiða ekki til ósakhæfis samkvæmt 15. grein hegningarlaga.
7. Þau útiloka ekki fangelsisvist né að refsing komi að gagni.
8. Ástand þetta hefði aldrei þróast ef X hefði leitað sér aðstoðar við fíkn sinni.
9. Nýti X sér aðstoð eru horfur hans góðar því X er vel gefinn og hefur ekki enn hlotið neinn varanlegan heilaskaða af neyslu sinni.“
K skýrði og staðfesti niðurstöðu sína fyrir dómi. Hann kvað ákærða hafa verið í mikilli fíkniefnaneyslu og að neyslan breyti mjög skapgerð og persónuleika hans. K kvað engin merki hafa komið fram um alvarlega geðröskun, ranghugmyndir eða ofskynjanir ákærða. Fram kom að ákærði mundi atburði illa. Miðað við hversu flókin atburðarásin væri sé næstum útilokað að ákærði muni ekki eitthvað úr henni þótt minni hans kunni að vera gloppótt. K kvað ekkert hafa reynst að minni ákærða er það var rannsakað.
Fyrir liggur skýrsla L, forstöðumanns Barnahúss, en A hefur sótt meðferðarviðtöl hjá henni. Skýrslan er dagsett 19. ágúst 2013. L skýrði skýrsluna og staðfesti fyrir dómi. Hún kvaðst hafa hitt A í 9 skipti og lýsti hún gangi viðtalanna. Hún lýsti miklum og alvarlegum afleiðingum brotsins á JA í dag og einnig alvarlegum afleiðingum sem vænta megi síðar.
Niðurstaða 1 og 2.
Ákærði játar sök. Vitnisburður A er skýr og trúverðugur. Hún greindi foreldrum sínum frá því sem gerðist eins og rakið var.
Eins og rakið var liggja fyrir gögn úr farsíma ákærða sem sýna að atburðir voru eins og lýst er í ákærulið 2. Með vísan til ofanritaðs, og með vísan til játningar ákærða og með vísan til vitnisburðar A sem bar ítarlega um atburði samkvæmt þessum ákæruliðum og með vísan til annars sem rakið hefur verið og með stuðningi af öðrum gögnum málsins sem öll kom heim og saman við lýsingu samkvæmt þessum ákæruliðum, er sannað, að ákærði hafi framið þá háttsemi sem í þessum ákæruliðum greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákæruliður 3.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að ákærði hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákærunni. Skírskotað er til ákærunnar um lýsingum málavaxta.
Ákærði er sakhæfur. Hann á að baki sakaferil frá árinu 2002 og hefur síðan hlotið 4 refsidóma fyrir þjófnað, fjársvik, eignaspjöll, nytjastuld, umferðarlagabrot og fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni. Síðast hlaut ákærði dóm, 12. september 2012, 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld og fíkniefnabrot. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð þessa dóms og er hann dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga.
Brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 1 og 2 eru gríðarlega alvarleg. Hann braut gegn 10 ára gömlu barni sem var á heimleið úr skóla, beitti barnið grófu ofbeldi og frelsissviptingu í um 2 klukkustundir. Afleiðingar brotanna eru miklar og hafa reynst A þungbærar og hafa haft mikil áhrif á hana og allt hennar líf. Brotavilji ákærða var styrkur og einbeittur og hann á sér engar málsbætur. Við refsiákvörðun er höfð hliðsjón af 1., 2., 3., 6. og 8. tölulið 1. mgr. 70 gr. almennra hegningarlaga.
Að öllu ofanrituðu virtu, m.a. því, að með brotum sínum rauf ákærði 10 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm, þykir refsins hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 7 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal óslitið gæsluvarðhald frá 15. maí sl. til dagsins í dag koma til frádráttar refsivistinni.
A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eins og rakið var eru brot ákærða gegn A mjög alvarleg og augljóst að þau voru til þess fallin að valda miklum miska. Að þessu virtu þykja miskabætur hæfilega ákvarðaðar 3.000.000 króna auk vaxta svo sem greinir í dómsorði en dráttarvextir reiknast frá 10. júlí 2013 en þá var mánuður liðinn frá birtingu bótakröfunnar. Auk þessa greiði ákærði Hildi Sólveigu Pétursdóttur hæstaréttarlögmanni, skipuðum réttargæslumanni A, 502.000 króna réttargæsluþóknun.
Ákærði greiði Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanni 69.025 króna réttargæsluþóknun vegna vinnu undir rannsókn málsins.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru dæmd upptæk 0,78 g af MDMA, 0,67 g af marijúana og 0,06 g af tóbaksblönduðu kannabis.
Með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er ákærða gert að þola upptöku farsíma af gerðinni Samsung Galaxy SII sem notaður var eins og lýst er í ákærulið 2.
Ákærði greiði 238.734 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 627.500 króna málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og 43.674 vegna aksturskostnaðar verjandans og 313.750 króna málsvarnarlaun Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns vegna vinnu lögmannsins undir rannsókn málsins. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.
Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Halldór Björnsson og Kolbrún Sævarsdóttir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 7 ár en frá refsivistinni skal draga óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 15. maí 2013 til dagsins í dag.
Upptæk eru dæmd 0,78 g af MDMA, 0,67 g af marijúana og 0,06 g af tóbaksblönduðu kannabis.
Upptækur er dæmdur farsími af gerðinni Samsung Galaxy SII.
Ákærði greiði A 3.000.000 króna í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8 gr. laga nr. 38/2001 frá 15. maí 2013 til 10. júlí 2013 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga og til greiðsludags.
Ákærði greiði 238.734 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 502.000 króna réttargæsluþóknun Hildar Sólveigar Pétursdóttur hæstaréttarlögmanns og 69.025 króna réttargæsluþóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns.
Ákærði greiði 627.500 króna málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og 43.674 krónur vegna aksturskostnaðar og 313.750 króna málsvarnarlaun Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, vegna vinnu lögmannsins undir rannsókn málsins. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.