Print

Mál nr. 462/2010

Lykilorð
  • Kærumál
  • Þinglýsing
  • Veðréttur
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 16. september 2010.

Nr. 462/2010.

Drómi hf.

(Hlynur Jónsson hdl.)

gegn

A

B

C

D og

E

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

Kærumál. Þinglýsing. Veðréttur. Stjórnarskrá.

D hf. krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík að afmá úr þinglýsingarbókum embættisins veðskuldabréf útgefið til S, en skuldari samkvæmt því var A. Skuldabréfið var með veði í fasteign í eigu B, C og D. Í október 2009 var staðfestur nauðasamningur A til greiðsluaðlögunar, en samkvæmt honum féllu niður eftirstöðvar skuldar hennar við D. Að kröfu eigenda fasteignarinnar afmáði þinglýsingarstjóri veðbönd samkvæmt skuldabréfinu af eigninni með vísan til 1. mgr. 38. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Af gögnum málsins varð ráðið að þinglýsingarstjórinn hefði talið að ákvæði 3. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn skyldu leiða til þess að bersýnilegt teldist að veðið hvíldi ekki lengur á fasteigninni. Snerist ágreiningur aðila um það hvort af fyrrgreindu ákvæði laga nr. 32/2009 leiddi að rétti D hefði bersýnilega lokið við nauðasamning SS eins og áskilið væri í 1. mgr. 38. gr. þinglýsingalaga. Talið var að veðréttur D nyti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, en til hans hefði verið stofnað áður en lög nr. 32/2009 tóku gildi. Ekki var fallist á að rétti D væri bersýnilega lokið og því hefði skilyrði 1. mgr. 38. gr. þinglýsingalaga ekki verið uppfyllt er þinglýsingarstjóri tók ákvörðun um að afmá veðskuldabréfið. Var ákvörðunin því felld úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2010, þar sem staðfest var sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 8. mars 2010 að afmá úr þinglýsingabókum embættisins veðskuldabréf útgefið til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 11. nóvember 2004, með númerið [...] og þinglýsinganúmerið [...], en skuldari samkvæmt því er A. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að afmá umrætt veðskuldabréf úr þinglýsingabókum embættisins verði ógilt. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

A gaf út skuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 11. nóvember 2004 að höfuðstól 5.750.000 krónur. Málavextir eru að öðru leyti réttilega raktir í hinum kærða úrskurði, en sóknaraðili hefur tekið við eignum og tryggingarréttindum sem áður tengdust kröfum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Eins og greinir í úrskurði héraðsdóms var skuldabréfið með veði í fasteigninni [...], Reykjavík, sem er nú eign varnaraðilanna B, C og D. Hinn 30. október 2009 staðfesti Héraðsdómur Reykjaness nauðasamning A til greiðsluaðlögunar, en samkvæmt honum féllu niður eftirstöðvar skuldar A við sóknaraðila. Að kröfu eigenda fasteignarinnar afmáði þinglýsingarstjórinn í Reykjavík 8. mars 2010 veðbönd samkvæmt skuldabréfinu af eigninni með vísan til 1. mgr. 38. gr. þinglýsingalaga. Hvorki í erindi þinglýstra eigenda fasteignarinnar til þinglýsingarstjóra né rökstuðningi þinglýsingarstjóra fyrir ákvörðun sinni er að finna tilvísun til annarra lagagreina en tilgreint var að fyrir lægi staðfestur nauðasamningur A við kröfuhafa sem leiða skyldi til þessarar niðurstöðu. Af gögnum málsins verður ráðið að þinglýsingarstjórinn hafi talið að ákvæði 3. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn skyldu leiða til þess að bersýnilegt teldist að veðið hvíldi ekki lengur á fasteigninni. Með hinum kærða úrskurði var staðfest ákvörðun þinglýsingarstjóra. Eru málsástæður og lagarök aðila rakin í úrskurði héraðsdóms.

II

Ágreiningur um ákvörðun þinglýsingarstjóra varðar ekki lögvarða hagsmuni A og telst hún af þeim sökum ekki aðili að málinu. Kemur krafa hennar á hendur sóknaraðila ekki til álita fyrir Hæstarétti.

Mál þetta sætir úrlausn samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga. Fallist er á með héraðsdómi að málið varði aðeins úrlausn þinglýsingarstjóra um að afmá veðbönd af umræddri fasteign og verði í slíku máli almennt ekki tekið á öðrum atriðum en þeim sem var á valdi þinglýsingarstjóra að ákveða. Hér eru málavextir óumdeildir og snýst ágreiningur aðila um túlkun laga, það er hvort af ákvæði 3. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 leiði að rétti sóknaraðila hafi bersýnilega lokið við fyrrgreindan nauðasamning eins og áskilið er í 1. mgr. 38. gr. þinglýsingalaga. Því hafi þinglýsingarstjóra borið að afmá veðið úr þinglýsingarbók.

Hvað sem líður heimildum þinglýsingarstjóra til þess að taka afstöðu til þess hvort ákvæði 3. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr.  laga nr. 32/2009 brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar við meðferð máls samkvæmt. 38. gr. þinglýsingarlaga, er ljóst að varnaraðila er heimilt að hafa uppi slíka málsástæðu um lagagrundvöll málsins þegar úrlausn þinglýsingarstjóra um aflýsingu er borin undir dómstóla samkvæmt 3. gr. þinglýsingarlaga, enda eru fyrirmæli 3. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 lagstoðin fyrir því að veðréttindi sóknaraðila voru afmáð úr þinglýsingarbókum án aðkomu annarra stjórnvalda en þinglýsingarstjóra.

III

Með lögum nr. 24/2009 bættist við 3. þátt laga nr. 21/1991 nýr kafli, X. kafli a., með reglum um greiðsluaðlögun eins og þá sem um ræðir í þessu máli. Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. h. er slíkri greiðsluaðlögun ætlað að hafa sömu réttaráhrif og nauðasamningur, sbr. 3. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991. Í 4. mgr. 60. gr. sömu laga kemur fram að nauðasamningur haggar ekki rétti lánardrottins skuldarans til að ganga að tryggingu sem þriðji maður kann að hafa sett fyrir efndum skuldbindingar til fullnustu á henni allri eða til að krefja ábyrgðarmann um fulla greiðslu. Með ákvæðum laga nr. 24/2009 var ekki hróflað við gildi þess ákvæðis heldur tekið sérstaklega fram í athugasemdum með frumvarpi að lögunum að greiðsluaðlögun skyldi ekki frekar en nauðasamningur samkvæmt öðrum ákvæðum 3. þáttar laga nr. 21/1991 hagga rétti lánardrottins skuldarans til að ganga að veði sem hann hefur sett fyrir efndum skuldbindingar til fullnustu á henni allri eða til að krefja ábyrgðarmann um fulla greiðslu.

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 segir að lögin gildi um lánveitingar stofnana og fyrirtækja þar sem maður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að með ábyrgðarmanni sé átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Í meðförum þingsins var að tillögu viðskiptanefndar bætt inn nýju ákvæði er varð 3. mgr. 9. gr. laganna þar sem segir að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 skuli nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þar með talinn nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka, hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.

VI

Veðréttur sóknaraðila nýtur verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Til veðréttarins hafði verið stofnað áður en lög nr. 32/2009 tóku gildi. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. þinglýsingarlaga fylgist þinglýsingarstjóri með því eftir föngum, hvort réttaráhrif tiltekinnar þinglýsingar séu fallin brott, og ber honum að má haftið úr fasteignabók, ef því er að skipta, að eigin frumkvæði. Sama máli gegnir, ef rétti er bersýnilega lokið. Þegar allt framanritað er virt verður ekki fallist á að síðastgreint skilyrði 1. mgr. 38. gr. þinglýsingalaga hafi verið uppfyllt er þinglýsingarstjóri tók ákvörðun þá er um er deilt í málinu. Verður hún því úr gildi felld.

Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Felld er úr gildi ákvörðun þinglýsingarstjórans í Reykjavík 8. mars 2010 um að afmá úr þinglýsingabókum embættisins veðskuldabréf útgefið 11. nóvember 2004, með númerið [...] og þinglýsinganúmerið [...].

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2010.

Þetta mál, sem var dómtekið 14. júní f.m., barst dóminum 31. mars 2010. Sóknar­aðili, Drómi hf., 710309-1670, Lágmúla 6, Reykjavík, krefst þess að ógilt verði ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, sem þinglýsingarstjóra, um afmáningu veð­skulda­bréfs úr þinglýsingabókum embættisins. Bréfið sé útgefið af Sparisjóði Reykja­víkur og nágrennis, þann 11. nóvember 2004, það beri númerið [...], og þing­lýsingarnúmerið [...] en skuldari samkvæmt því sé A.

Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila auk virðisaukaskatts.

Varnaraðilar, A, kt. [...], og C kt. [...], bæði til heimilis að [...], Kópavogi, D, kt. [...], [...], Reykjavík, B, kt. [...] og E kt. [...], bæði til heimilis að [...], Reykjavík, krefjast þess að staðfest verði ofangreind ákvörðun Sýslumannsins í Reykja­vík. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.

Aðild

Þann 21. mars 2009 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar og víkja stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) frá störfum, með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Samkvæmt 4. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins var skilanefnd SPRON gert að stofna sérstakt hlutafélag í eigu SPRON sem skyldi taka við öllum eignum og trygg­inga­réttindum, þar með talið öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambæri­legum réttindum sem tengdust kröfum SPRON. Í þessum tilgangi var hlutafélagið Drómi hf. stofnað og er það því sóknaraðili málsins.

Málsatvik

Mál þetta á rætur að rekja til fjárhagserfiðleika varnaraðilans A og skulda hans samkvæmt veðskuldabréfi sem gefið var út árið 2004 af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) með veði í fasteign sem var í eigu tengda­föður varnaraðila A. Fasteignin er nú í eigu þriggja af þeim fjórum sem grípa til varnar með A í þessu máli. Veðskuldabréfið var gefið út í þeim tilgangi að endurfjármagna eldra lán varnaraðila A sem upphaflega var tekið árið 1994 og greitt var skilvíslega af. Upphafleg fjárhæð veðskuldarinnar frá árinu 2004 nam 5.750.000 krónum og var í skilum allt til 15. apríl 2009. Gjaldfelldur höfuð­stóll bréfsins nemur nú tæpum sjö milljónum króna.

Þann 29. júní 2009 staðfesti Héraðsdómur Reykjaness að varnaraðilanum A væri heimilt að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar við lánadrottna sína, í samræmi við X. kafla a laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. lög 24/2009. Umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum var skipaður sama dag og lét hann birta innköllun í Lögbirtingarblaðinu þann 13. júlí 2009. Kröfulýsingar bárust innan tilskilins frests. Í greinargerð umsjónarmanns kemur fram að sú krafa er þetta mál varðar hafi verið sérstaklega til umfjöllunar á fundi með kröfuhöfum og skuldara þann 20. ágúst 2009. Þá hafi varnaraðili A bent á að nefnt lán frá SPRON hafi ekki upphaflega verið talið meðal samningskrafna á hendur sér og fór fram á að það yrði gert. Það samþykkti umsjónarmaður skömmu síðar. Af þessu tilefni var öllum kröfu­höfum, þar á meðal SPRON, tilkynnt um breytta greiðsluáætlun og þeim sagt að farið yrði með kröfuna sem samningskröfu en samkvæmt 63. gr. b laga nr. 21/1991 eru það svokallaðar samningskröfur sem greiðsluaðlögun tekur til. Í þessu ljósi var sér­stak­lega óskað eftir upplýsingum frá SPRON um kröfuna. Kröfuhafar voru svo boðaðir aftur til fundar þann 21. september 2009 til að fjalla um hina breyttu greiðslu­áætlun. Á fundinn mætti ekki neinn kröfuhafa og engin mótmæli bárust frá lánar­drottnum þar með töldum SPRON. Það var síðan mat umsjónarmanns að varnar­aðili A upp­fyllti skilyrði 63. gr. a laga nr. 21/1991 og taldi umsjónarmaður rétt að fallast á algera eftirgjöf samningskrafna varnaraðila A. Héraðsdómur Reykja­ness staðfesti þann 30. október 2009 nauðasamning varnaraðila A til greiðslu­aðlögunar.

Í kjölfarið óskuðu þáverandi eigendur fasteignarinnar, D, C og E, eftir því við Sýslu­manninn í Reykjavík að hann afmáði þau veðbönd sem sóknaraðili hafði á fasteigninni að [...] og mál þetta varðar. Sýslumaður féllst á kröfu varnaraðila og afmáði veðböndin af eigninni þann 8. mars sl. Í millitíðinni hafði E afsalað sínum hluta í íbúðinni til B og eru þau því öll varnaraðilar í málinu með varnaraðila A.

Sýslumaðurinn í Reykjavík sendi sóknaraðila tölvubréf þann 10. febrúar sl., og gerði grein fyrir því að embættinu hafi borist krafa frá lögfræðingi þinglýstra eigenda fasteignarinnar að [...] um að afmáð verði veðbönd þau sem sóknaraðili hafi á fasteigninni og óskaði sýslumaður eftir afstöðu sóknaraðila vegna þessa. Með tölvu­pósti þann 24. febrúar 2010, barst sýslumanni rökstuðningur frá sóknaraðila þar sem hann mótmælti framkominni kröfu um að veðbönd sóknaraðila á fasteigninni yrðu afmáð. Með bréfi sýslumanns dags. 8. mars 2010 er sóknaraðila síðan tilkynnt að umrætt veðskuldabréf hafi verið afmáð úr þinglýsingabókum embættisins á grundvelli 2. málsliðar 38. gr. þinglýsinga­laga, nr. 39/1978, með þeim rökstuðningi að telja verði að rétti samkvæmt framangreindu skjali sé bersýnlega lokið. Sóknaraðili ákvað að bera ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík undir Héraðs­dóm Reykjavíkur með vísan til 3. gr. þinglýsingalaga og tilkynnti sýslumanni það skriflega þann 31. mars 2010. Þann dag barst Héraðsdómi Reykjavíkur beiðni sóknar­aðila um úrlausn, auk staðfestra ljósrita af gögnum málsins. Þinglýsingarstjóri kaus að nýta sér ekki rétt sinn samkvæmt 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga til að koma athuga­semdum sínum um málefnið á fram­færi við héraðsdóm. Málsaðilum var gefinn kostur á að skila greinargerðum og var málið tekið til úrskurðar að afloknum munn­legum málflutningi.

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína um ógildingu ákvörðunar Sýslumannsins í Reykjavík, sem þinglýsingarstjóra, á þeirri höfuðmálsástæðu að skilyrði 2. mgr. 38. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 séu ekki uppfyllt þar sem réttindum sóknar­aðila á hendur varnaraðilum sé ekki bersýnilega lokið. Fyrir þeirri málsástæðu færir sóknar­aðili einkum þau rök að 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn standist ekki eignar­réttarákvæði stjórnarskrárinnar og gangi því ekki framar 4. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Þar sem veðréttur sóknaraðila í eign varnaraðila standi, af þessum sökum, óhaggaður þá hafi það ekki heldur nein réttaráhrif að sóknaraðili hafi ekki mótmælt stað­festingu nauða­samnings varnaraðila A um greiðslu­aðlögun.

Réttindum ekki „bersýnilega lokið"

Sóknaraðili byggir fyrir það fyrsta á því að skilyrðum 2. mgr. 38. gr. þing­lýs­inga­laga nr. 39/1978 sé ekki fullnægt og því sé ekki heimilt að afmá veð­skulda­bréfið úr þinglýsingabókum. Sýslumaðurinn í Reykjavík, sem þinglýsingar­stjóri á grund­velli 1. gr. þinglýsingalaga, hafi hinsvegar gert þetta. Í bréfi sýslumanns frá 8. mars 2010 komi fram að ákvörðunin sé tekin á grundvelli 2. ml. 1. mgr. 38. gr. þinglýs­inga­laga.

Í 38. gr. þinglýsingalaga sé kveðið á um að þinglýsingarstjóri fylgist með því eftir föngum að réttaráhrif tiltekinnar þinglýsingar séu fallin brott og beri honum að má haftið úr fasteignabók, ef því er að skipta, að eigin frumkvæði, sé rétti bersýnilega lokið. Ákvarðanir af þessu tagi séu íþyngjandi enda séu afmáð óbein eignar­réttindi sem varin séu af stjórnarskrá og beri opinberum aðilum að gæta meðalhófs og varfærni við slíkar ákvarðanir. Í skýringum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að þinglýsingalögum nr. 39/1978, sé eftirfarandi tekið fram með 38. gr. laganna: „Það er áskilið i greininni að rétti sé bersýnilega lokið, og hvetur það orðalag til varfærni í þessum sökum.“ Því sé fulljóst að ákvæðinu hefði átt að beita af varfærni, þannig að ekki væri gengið nærri lögvörðum réttindum veðhafa.

Sóknaraðili telur Sýslumanninn í Reykjavík hafa, í þetta sinn, gengið of langt, og farið út fyrir valdsvið sitt, með umræddri afmáningu, þar sem ekki sé á neinn hátt hægt að fullyrða að rétti sóknaraðila hafi verið bersýnilega lokið. Orðið „bersýni­lega“ vísi til þess að ekki leiki neinn vafi á því að réttindum sé lokið. Leiki vafi á því, sé skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt. Sóknaraðili telur ákvörðunina ekki studda fullnægjandi rökum sem sýni með hvaða hætti sé komist að þessari niður­stöðu. Ákvörðun sýslumanns sé verulega íþyngjandi gagnvart sóknar­aðila sem hafi lögvarða hagsmuni af því að réttindum félagsins gagnvart ábyrgð­ar­aðilum umrædds skuldabréfs haldi gildi sínu. Umrætt skuldabréf hafi verið veitt af hálfu SPRON með því skilyrði að trygging yrði fyrir skuldinni í umræddri eign. Þessi mikilvægu réttindi sóknaraðila hafi verið ákvörðunarástæða hans fyrir því að veita lánið. Afmáning veðréttarins af hálfu sýslumanns feli beinlínis í sér afmáningu eignarréttinda sem sóknaraðili telji sig ekki eiga að þurfa að þola bóta­laust, eins og ákvörðunin feli í sér. Sóknaraðili byggir á því að ákvörðun Sýslu­manns­ins i Reykjavík um afmáningu veðskuldabréfsins feli í sér brot á eignar­réttar­ákvæði stjórnar­skrárinnar sbr. lög nr. 33/1944.

Vafi um stjórnskipulegt gildi laga um ábyrgðarmenn og áhrif hans

Sóknaraðili byggir á því að 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgð­ar­menn standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar og gangi því ekki framar 4. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Þetta mál verði rakið til nauðsamn­ings til greiðslu­aðlögunar eins af varnaraðilum. Í 4. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. komi fram að nauðasamningur haggi ekki rétti lánadrottins skuldarans til að ganga að tryggingu sem þriðji maður kunni að hafa sett fyrir efndum skuldbindingar fullnustu á henni allri eða til að krefja ábyrgðarmann um fulla greiðslu. Umrædd regla hafi lengi gilt í íslenskum rétti, enda nauðsynleg til þess að lánadrottinn geti treyst því að fá skuld sína greidda frá ábyrgðarmanni, standi skuldari ekki í skilum.

Í nýjum kafla laga nr. 91/1991, þ.e. kafla X-a, sbr. lög nr. 24/2009, sé kveðið á um greiðsluaðlögun og nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Í kaflanum hafi ekki verið gerðar neinar breytingar á áðurnefndri 4. mgr. 60. gr. laganna, þ.e. þeirri reglu að nauðsamningur haggi ekki rétti lánadrottins til að ganga að tryggingu sem þriðji maður kunni að hafa sett fyrir efndum skuldbindingar. Því virðist löggjafinn ekki hafa ætlað að breyta efni 4. mgr. 60. gr. laganna þegar kafli X-a kom inn í lögin. Sóknaraðili telur því ótvírætt að vilji löggjafans hafi verið sá að lánadrottni sé ætlað að halda rétti sínum gagnvart ábyrgðarmanni.

Þann 4. apríl 2009 hafi tekið gildi lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn. Í 3. mgr. 9. gr. laganna sé mælt fyrir um að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 skuli nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluað­lögunar, sem kveði á um lækkun á hendur lántaka hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni. Í gögnum málsins séu tölvupóstsamskipti umsjónarmanns skuldara vegna nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, lögmanns ábyrgðarmanna og deildar­stjóra þinglýsingadeildar Sýslumannsins í Reykjavík, auk minnisblaðs frá umsjónar­manni vegna nauðasamnings til greiðsluaðlögunar þar sem framangreindir aðilar fjalli um lög um ábyrgðarmenn í tengslum við afmáninguna. Í tölvupósti sínum taki umsjónar­maðurinn skýrlega fram að kröfuhafar séu „almennt séð ekki mjög hressir með ákvæði 3. mgr. 9. gr. 1. nr. 32/2009.“ Einnig sé þar tekið fram að menn telji ákvæðið brjóta í bága við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Umrædd sjónar­mið hafi einnig komið fram í samskiptum sóknaraðila við embættið í tölvupósti þann 24. febrúar sl. Það sé því ljóst að Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi, þegar hann tók ákvörðun sína, vitað af þeim vafamálum sem varði lög um ábyrgðarmenn.

Sóknaraðili byggir á því að ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn hafi ekki stjórnskipulegt gildi. Greinin samræmist ekki á neinn hátt grundvallar­hug­myndum réttarríkisins um bann við afturvirkni laga. Lögin séu ósamrýmanleg 72. gr. stjórnar­skrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og lögum um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, sbr. m.a. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mann­réttinda og mannfrelsis. Áðurnefnd 9. gr. laganna feli í sér eignaupptöku í fjölda tilfella, en slíkar athafnir séu ekki framkvæmdar nema bætur komi fyrir. Þeir varnar­aðilar þessa máls, sem hafi sett fasteign sína að veði til ábyrgðar fyrir umræddri skuld­bindingu, hafi gengist í ábyrgðir af fúsum og frjálsum vilja með einkaréttarlegum samningi við sóknaraðila. Löggjafinn geti ekki haggað slíkum gagnkvæmum samn­ingum á milli aðila nema í algjörum undantekningartilvikum. Stjórnvald sé ekki á neinn hátt bært til að taka slíka ákvörðun um óbein eignarréttindi sem varin séu af stjórnarskrá. Með vísan til þessa hafi Sýslumanninum í Reykjavík mátt vera ljóst að ekki væri hægt að fullyrða að sóknaraðili héldi áfram ákveðnum réttindum samkvæmt skjalinu. Þegar af þeirri ástæðu sé engan veginn fullnægt því skilyrði að bersýnilega sé ljóst að réttindin séu fallin niður.

Sé nauðsamningi ekki mótmælt fylgja því ekki nein réttaráhrif

Sóknaraðili byggir ennfremur á því að afstaða hans til nauðasamnings eins varnaraðila geti ekki haft áhrif á veðréttindi hans gagnvart öðrum varnaraðilum. Í gögnum málsins, til dæmis í tölvupósti til sóknaraðila þann 10. febrúar sl. og í tilkynn­ingu sýslumanns frá 8. mars 2010 komi fram að sóknaraðili hafi ekki haft uppi and­mæli við staðfestingu nauðasamn­ingsins. Virðist framangreint hafa hlotið mikla vigt í mati embættisins í tengslum við afmáninguna. Það að sóknar­aðili hafi ekki mót­mælt staðfestingu nauðasamningsins skipti ekki neinu máli í þessu samhengi. Sóknar­aðili hafi ekki deilt um það við sýslu­mann að nauðasamningur varnar­aðila, A, hafi verið staðfestur með úrskurði Héraðs­dóms Reykja­ness. Deilan snúist hins vegar um að rétti samkvæmt skuldabréfinu sé ekki bersýnilega lokið. Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi ekki mótmælt því að krafa á hendur, varnaraðila, A, yrði ekki lengur til staðar, sé réttur samkvæmt skulda­bréfinu víðtækari en það, þar sem aðrir varnaraðilar þessa máls hafi gengist í ábyrgð fyrir skuldum hennar með því að veita veð í fasteign sinni að [...]. Nauða­samningurinn á hendur A hafi því ekki áhrif á eignar­réttindi sóknaraðila, þar sem þau skyldu eftir sem áður standa á eign annarra varnar­aðila. Þessu til stuðnings vísar sóknaraðili til fram kominna sjónar­miða sinna til sýslu­manns í tölvupósti frá 24. febrúar 2010.

Það sé einnig að fullu ljóst að hvorki umsjónarmaður með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, né dómstólar (þegar frumvarp um nauðasamning er staðfest) fjalli um ábyrgðarskuldbindingar að baki samningskröfum, þegar ákveðið sé hvort nauða­samn­ingur til greiðsluaðlögunar komist á eða ekki. Það séu tvö aðskilin mál og því fjar­stæðukennt að sýslumaður megi byggja ákvörðun sína á því að sóknar­aðili hafi ekki mótmælt staðfestingu nauðasamningsins, eins og fram komi í bréfi sýslumanns dags. 8. mars sl. þar sem afmáning veðskulda­bréfsins úr þinglýsingarbókum embættis­ins er tilkynnt.

Það sem hér skipti megin máli sé það skilyrði 38. gr. þinglýsinga að rétti sé bersýnilega lokið þegar höft séu afmáð úr þinglýsingabókum. Umrædd laga­grein kveði að auki á um að þinglýsingarstjóra sé ætlað að afmá slík höft að eigin frum­kvæði, en í þessu máli hafi lögmaður veðsala óskað eftir að það yrði gert, án þess að færð hafi verið fyrir því viðhlítandi rök af hans hálfu. Því verði að telja að nauð­synlegt hefði verið að sýna fram á með óyggjandi hætti að rétti sóknar­aðila hafi verið bersýnilega lokið þegar svo íþyngjandi ákvörðun sem þessi var tekin.

Þrátt fyrir að Sýslumanninum í Reykjavík hafi beinlínis verið bent á hversu mikil óvissa væri um gildi laga um ábyrgðarmenn hafi hann tekið hina íþyngjandi ákvörðun. Sóknaraðili telji þá ákvörðun bersýnilega ranga og tekna án laga­grundvallar og því beri að ógilda hana. Sóknaraðili bendir á að framlögð gögn sýni að Sýslu­maðurinn í Reykjavík hafi vitað um þá óvissu sem ríki um gildi laga um ábyrgðar­menn og því sé ekki hægt að fallast á að rétti hafi verið bersýnilega lokið. Nauðsynlegt sé að horfa til þess að óvissan sé mikil, þar sem stjórnskipulegt gildi laganna hafi verið dregið í efa, og því ekki með neinu móti hægt að taka ákvörðun um að rétti sóknaraðila hafi verið lokið. Fyrir liggi að það valdi sóknar­aðila miklu tjóni að hafa ekki lengur þinglýst réttindi samkvæmt veðskulda­bréfinu. Krafa sóknaraðila sé þá töpuð. Sérstaklega verði að horfa til þess að í ljósi nauða­samningsins muni sóknar­aðili þurfa að sækja rétt sinn gagnvart ábyrgð­ar­aðilunum.

                Að auki bendir sóknaraðili á að frá því ákvörðun Sýslumannsins í Reykja­vík hafi verið tekin hafi fallið dómur í Héraðsdómi Suðurlands (mál nr. E-1051/2009) þar sem dæmt hafi verið að fjármála­fyrirtæki, stefnandi í því máli, hafi átt lögmæta kröfu á hendur stefnda fyrir gildistöku laga um ábyrgðarmenn. Sjálfskuldar­ábyrgð­ar­aðila hafi verið gert að greiða kröfuna þar sem ekki yrði um það deilt að kröfu­réttindi nytu verndar eignaréttarákvæðis 72. gr. stjórnar­skrárinnar og að þau yrðu ekki skert án bóta með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Verði að telja að sömu sjónarmið eigi við í þessu máli, þar sem þinglýst réttindi sóknaraðila séu honum mikilvæg hyggist hann sækja rétt sinn frekar. Ofangreindur dómur staðfesti að lög um ábyrgðarmenn hafi ekki stjórnskipu­legt gildi og því sé fráleitt að réttindunum sóknaraðila sé bersýnilega lokið.

                Sóknaraðili vísar til stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, einkum 72. gr., þinglýs­inga­laga nr. 39/1978, einkum 1., 3. og 38. gr., laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, 60. gr. og X. kafli laganna sbr. lög nr. 24/2009, laga um mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu nr. 62/1994, sbr. m.a. samningsviðauka nr. 1. um samning um verndun mann­réttinda og mannfrelsis, laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, m.a. 9. og 12. gr., máls­kostnaðarkrafa hans styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili bendir á að þetta mál sé rekið samkvæmt 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 og varði það álitaefni hvort að Sýslumanninum í Reykjavík, sem þing­lýs­ingar­stjóra, hafi verið rétt eða skylt að afmá nefnd veðbönd af fasteigninni [...]. Af málsástæðum sóknaraðila að dæma sé þó ágreiningur með aðilum annars vegar um gildi þeirra lagaákvæða sem ákvörðun þinglýsingarstjóra byggi á, ákvæðum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, og hins vegar um inntak 3. gr. l. nr. 39/1978 sem rekstur máls þessa byggir á.

Um málskot samkvæmt 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978

Varnaraðili bendir á að þessu máli sé skotið til héraðsdóms með heimild í 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sú úrlausn þinglýsingarstjóra sem sé borin undir dóm sé afmáning hans á veðböndum sem hvílt hafi á tiltekinni fasteign að [...]. Ágreiningur sóknar­aðila við þinglýsingarstjóra lúti að því hvort að þinglýsingar­stjóra hafi verið heimilt að afmá veðböndin. Við úrlausn á því álitaefni komi eingöngu til skoðunar hvort þinglýs­ingar­stjóri hafi með hinni umdeildu ákvörðun sinni farið út fyrir þær heimildir sem hann hafi samkvæmt þinglýsingalögum og þeirri venju sem honum sé rétt og skylt að byggja á við úrlausn þinglýsingarmála.

Þinglýsingarstjóri styðji umdeilda úrlausn sína við 38. gr. þinglýsingalaga, einkum 2. málslið greinarinnar. Því komi hér til skoðunar hvort skilyrði 38. gr. laganna hafi verið uppfyllt, einkum það skilyrði að rétti sóknaraðila hafi verið bersýni­lega lokið. Líta þurfi til þess hvernig málið hafi horft við þinglýsingarstjóra á þeim tíma þegar til úrlausnar hans kom, þ.e. hvort honum hafi verið rétt að draga þá ályktun af fyrirliggjandi upplýsingum og eðli málsins að réttindum sóknaraðila væri bersýni­lega lokið. Á sama tíma verði ekki fram hjá því litið að þinglýsingarstjóri taki ekki afstöðu til efnislegra réttinda að baki úrlausna sinna umfram það sem lúti að könnun á samræmi þeirra við efni þinglýsingabóka. Í þessu ljósi takmarkist sú dóms­með­ferð sem málið sé nú komið í við þær reglur og réttarframkvæmd sem störf þinglýsingar­stjóra takmarkast af.

Samkvæmt 38. gr. þinglýsingalaga skuli sýslumaður afmá haft úr fasteigna­bók sé rétti bersýnilega lokið. Ákvæði 1. málsliðar um skyldu þinglýsingarstjóra til þess að afmá haft að eigin frumkvæði þegar réttaráhrif tiltekinnar þinglýsingar séu fallin brott verði ekki túlkuð á þann veg, eins og sóknaraðili haldi fram, að sérstakar skyldur séu lagðar á þinglýsingarstjóra berist honum krafa um að afmá haft áður en hann taki ákvörðun um það. Með því væri ætlast til þess af þinglýsingarstjóra að hann fylgdist með öllum þeim tilvikum sem leitt gætu til afmáningar hafta úr fasteignabók. Slíkt væri ógjörningur enda kveði ákvæðið á um að þinglýsingarstjóri fylgist með eftir föngum hvort réttaráhrifum eða rétti sé lokið. Þar sem yfirsýn þinglýsingarstjóra sleppi sé þinglýsingarstjóra rétt að bregðast við kröfum hlutaðeigandi aðila.

Varnaraðili telur málsástæður sóknaraðila ekki eiga að öðru leyti við í þessu máli eins og það sé lagt fyrir dóminn. Málsástæður hans lúti aðallega að stjórn­skipu­legu gildi ákvæða 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Sóknar­aðili byggi kröfu sína um ógildingu úrlausnar þinglýsingarstjóra á því að ákvæðið sé ósamrýman­legt ákvæðum stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga um mannréttindi þar sem ákvæðið feli í sér eignaupptöku. Þannig geri sóknaraðili kröfu til þinglýsingar­stjóra um að hann byggi umdeilda úrlausn sína á mati á tilteknum efnislegum rétt­indum sem sóknar­aðili telji sig eiga.

Sóknaraðili vísi til þess að þinglýsingarstjóra hafi verið kunnugt um óánægju manna um ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 og telji að þinglýsingarstjóra hafi einnig átt að vera kunnugt um að óvissa ríkti um stjórnskipulegt gildi ákvæðisins. Því telji sóknaraðili að þinglýsingarstjóri hafi átt að telja vafa leika á um hvort rétti sóknar­aðila væri lokið og því væri rétti hans ekki bersýnilega lokið. Málatilbúnaður sóknar­aðila að þessu leyti gangi í berhögg við réttarframkvæmd á sviði þinglýsinga. Hvorki óánægja manna sem slík, né tilkynning til þinglýsingarstjóra þar að lútandi, geti haft áhrif á þær skyldur sem á þinglýsingarstjóra séu lagðar með þinglýsinga­lögum nr. 39/1978, í þessu tilviki með 38. gr. laganna. Með þessari málsástæðu krefjist sóknar­aðili þess að þinglýsingarstjóri leggi mat á gildi laga. Sú krafa gangi í berhögg við þá venjuhelguðu réttarframkvæmd og dómvenju um þinglýsingarathafnir sem hefur falið í sér að þinglýsingarstjóra beri ekki að taka afstöðu til þeirra lögskipta sem búi að baki ósk um þinglýsingarathöfn. Krafa sóknaraðila í þessu máli, um að dómurinn fjalli um stjórnskipulegt gildi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, gangi gegn þeirri meginreglu að við dómsmeðferð samkvæmt 3. gr. þinglýsingalaga verði ekki skorið úr öðrum álita­efnum en þeim er varði úrlausn þinglýsingarstjóra um þing­lýsingar­athöfnina sjálfa, það er að segja hvort úrlausn þinglýsingarstjóra hafi, eins og málið lá fyrir honum, verið rétt eða ekki.

Varnaraðili bendir á að þinglýsingarstjóra hafi verið tilkynnt um staðfestingu Héraðsdóms Reykja­ness á nauðasamningi varnaraðila A um greiðsluaðlögun sem hafi falið í sér algera eftirgjöf samnings­skulda, þar á meðal þeirrar skuldar sem þinglýst veðbönd á fasteigninni Hraunbæ 192 byggðu á. Þegar af þessari ástæðu og í ljósi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 og 38. gr. laga nr. 39/1978 hafi þinglýsingarstjóra verið rétt og skylt að afmá nefnd veðbönd úr fast­eigna­bók embættisins. Tilvísun þinglýsingarstjóra til auglýsingar í Lögbirtingar­blaðinu um stað­festingu nauða­samn­ings til greiðsluaðlögunar með áskorun til þeirra sem telja sig hafa andmæli fram að færa gegn staðfestingunni um að mæta á boðað dómþing, sé ákvörðun hans til fyllingar. Ekkert sé hægt að fullyrða um réttaráhrif þess ef sóknar­aðili hefði mótmælt stað­fest­ingu greiðsluaðlögunar eða komið á framfæri sjónar­miðum á einhverjum tímapunkti áður en greiðsluaðlögun var staðfest af dómstólum en sóknar­aðili hafi kosið að gera það ekki þótt hann hefði tækifæri til þess. Þannig liggi það fyrir að sóknaraðili hafi ekki látið sig málið varða fyrr en við úrlausn þinglýsingarstjóra.

Þær staðreyndir málsins sem hafi þýðingu fyrir þinglýsingarstjóra hafi legið fyrir þegar hann hafi tekið þá ákvörðun að afmá nefnd veðbönd úr fasteignabók embætt­isins. Alger eftirgjöf skulda varnaraðila A hafi verið staðfest af Héraðs­dómi. Lög hafi kveðið á um að við þær aðstæður færi alveg eins með kröfu á hendur þeim sem gengist hefðu í ábyrgðir fyrir varnaraðila vegna sömu skulda. Þinglýsingar­stjóra hafi því verið rétt og skylt að afmá veðbönd af [...]. Sóknaraðili reyni hins vegar að fella þetta mál í annan farveg en efni standi til. Úr þeim ágreiningi sem sóknaraðili vill halda á lofti í þessu máli verði ekki skorið við þessa dómsmeðferð heldur í almennu einkamáli en að slíku almennu einkamáli ættu varnaraðilar í þessu máli ekki endilega aðild.

Efnislegar málsástæður varnaraðila

Telji dómurinn að þær málsástæður varnaraðila sem lúta að formskilyrðum úrlausnar þinglýsingarstjóra nægi ekki til að staðfesta hina umdeildu ákvörðun þing­lýsingar­stjóra vilja varnaraðilar koma á framfæri við dóminn málsástæðum er lúta að efnislegum réttindum varnaraðila og varða samspil ákvörð­unar sýslumanns við gjaldþrotalög og lög um ábyrgðarmenn.

Varnaraðilar vísa til þess að í áratugi hafi verið í lögum réttarúrræði sem geri skuldara kleift að ráða bót á fjárhagsörðugleikum sínum til að forða því að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þannig hafi reglur um nauðasamninga verið í lögum frá árinu 1924 og ákvæði um greiðslustöðvun hafi verið leitt í lög árið 1978. Með lögum nr. 65/1996 um réttaraðstoð við einstaklinga sem leiti nauðasamninga hafi verið leitast við að auðvelda enn frekar þeim einstaklingum sem á þyrftu að halda að ráða bót á fjárhagsvanda sínum. Eftir bankahrunið haustið 2008 hafi það verið mat löggjafans að frekari aðgerða væri þörf og nauðsynlegt væri að réttarúrræði á þessu sviði væru virkari og raunhæfari lausn en þau eldri úrræði sem áður sé vikið að. Með lögum nr. 24/2009 um greiðsluaðlögun sem samþykkt voru þann 30. mars 2009 hafi X. kafla a um greiðsluaðlögun verið bætt inn í lög um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Í greinargerð með frumvarpi til laganna sé tekið fram að um greiðsluaðlögun eigi að gilda almennar reglur laganna um nauðasamninga að því marki sem ekki sé vikið frá þeim sérstaklega. Þessi frávik eigi hins vegar að hafa það að meginmarkmiði að gera úrræðið raunhæft fyrir þann hóp einstaklinga sem úrræðinu sé ætlað að þjóna. Af ummælum í greinargerð með frumvarpinu sé ljóst að markmiðið með laga­breyt­ingunni sé að auka rétt skuldara og greiða fyrir því að greiðslu­aðlögun komist á.

Samhliða frumvarpi um greiðsluaðlögun hafi verið lagt fram frumvarp til laga um ábyrgðarmenn sem samþykkt hafi verið degi síðar, þann 1. apríl 2009 og orðið að lögum nr. 32/2009. Með lögunum sé sérstaklega vikið að réttarstöðu kröfuhafa við nauða­samninga skuldara til greiðsluaðlögunar og í 3. mgr. 9. gr. sé skýrt kveðið á um að þrátt fyrir 4. mgr. 60. gr. gjaldþrotalaga skuli eftirgjöf krafna á hendur skuldara hafa sömu áhrif á kröfur gagnvart ábyrgðarmanni. Samkvæmt lögunum ábyrgist ábyrgð­ar­maður aðeins lán skuldara eins og það standi hverju sinni. Við meðferð þingsins hafi sérstaklega verið fjallað um gildistöku ákvæða frumvarpsins og frum­varpinu þannig breytt að sérstaklega sé tiltekið að ákvæði þess séu almennt afturvirk utan tilteknar greinar þess en 3. mgr. 9. gr. sé þar ekki tiltekin. Af skýrum ákvæðum laganna sé því ljóst að 4. mgr. 60. gr. gjald­þrota­laga gildi ekki þegar nauðasamningur um greiðsluaðlögun hafi verið staðfestur.

Bæði frumvarp til laga um greiðsluaðlögun og frumvarp til laga um ábyrgðar­menn hafi verið lögð fram og kynnt af ríkisstjórn sem hluti af aðgerðum stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna. Það sé ljóst af greinargerð með frumvörpum þessum og nefndar­álitum að markmiðið með báðum lögunum hafi verið að styrkja stöðu skuldara. Vissulega hefði farið betur á því að lög nr. 24/2009 um greiðsluaðlögun kvæðu skýrt á um hver réttarstaða kröfuhafa gagnvart ábyrgðarmönnum væri við greiðslu­aðlögun. Hins vegar leysi yngri lög, nr. 32/2009, úr því álitaefni með afdrátt­ar­lausum hætti svo sem áður sé rakið.

Í ljósi tilgangs þessara lagasetninga leiðir eðli máls til þess að eftirgjöf skulda gagnvart skuldara hafi einnig áhrif á stöðu ábyrgðarmanns. Verði litið svo á að kröfu­hafar geti gengið að ábyrgðarmanni þegar skuldari hafi fengið staðfesta greiðslu­aðlögun leiði það til þess að skuldari fái í raun ekki umrædda eftirgjöf skulda sinna. Sé gengið að ábyrgðarmanni eigi sá hinn sami eftir það kröfu á hendur upphaf­legum skuldara. Ábyrgðarmaður sé ekki bundinn af hinni samþykktu greiðsluaðlögun og gæti eftir atvikum krafist gjaldþrots skuldara fljótlega eftir að skuldari hafi fengið samþykkta greiðsluaðlögun fyrir dómi. Þá verði að telja að skuldarar myndu almennt veigra sér við að nýta sér úrræði til greiðsluaðlögunar mættu þeir búast við því að gengið yrði að ábyrgðarmönnum í þeirra stað. Ekki leiki neinn vafi á því að vilji löggjaf­ans hafi ekki staðið til þess að hið nýja úrræði til handa einstaklingum um greiðslu­aðlögun fæddist andvana.

Varnaraðilar telja ekki ríkja þá óvissu um stjórnskipulegt gildi laga nr. 32/2009 sem sóknaraðili heldur fram. Löggjafinn hafi sjálfur metið stjórnskipulegt gildi ákvæða laga nr. 32/2009. Ljóst sé af nefndaráliti viðskiptanefndar við afgreiðslu frum­varps um ábyrgð­ar­menn að álitaefni um eignarrétt hafi verið til skoðunar þegar frumvarpið var til meðferðar í þinginu. Stjórnarskrárvarinn eignarréttur kunni að verða skertur en þó aðeins þannig að bætur komi fyrir, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Telji sóknaraðili sig hafa orðið fyrir eignaskerðingu með nefndri lagasetningu og úrlausn þinglýsingar­stjóra sem á henni byggi sé alls ekki útilokað að sóknaraðili eigi kröfu um bætur. Í stað þess að fá úrlausn þinglýsingarstjóra hnekkt hefði verið eðlilegra af hálfu sóknaraðila að beina kröfu sinni að ríkinu. Kröfu um bætur vegna lagasetningar verði aldrei beint gegn varnaraðilum og óeðlilegt að fjalla um forsendur slíkrar kröfu í máli sem þessu, sem rekið er samkvæmt 3. gr. laga nr. 39/1978 og ríkið sjálft eigi ekki aðild að.

Af framansögðu leiði að ekki standi nein rök til annars en að úrlausn þinglýs­ingar­stjóra verði staðfest með úrskurði dómsins í máli þessu.

Varnaraðilar vísa til eðlis máls, venjuréttar á sviði þinglýsingarmála og þeirrar megin­reglu að þinglýsingarstjóri taki ekki við úrlausn sína afstöðu til efnislegra réttinda að baki lögskiptum. Um lagarök er vísað til þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum 3. gr. og 38. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, einkum X. kafla a, sbr. lög nr. 24/2009, og laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

                Sóknaraðili hefur skotið ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, sem þinglýs­ingar­stjóra, til dómsins með heimild í 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess að ógilt verði sú ákvörðun þinglýsingarstjóra að afmá nánar tilgreint veðskulda­bréf úr þinglýsingabókum embættisins.

                Kröfu sína byggir sókn­ar­aðili á því að réttindum hans samkvæmt skjalinu hafi ekki verið bersýnilega lokið þegar þinglýsingarstjóri tók ákvörðun sína þar sem vafi leiki á um stjórnskipu­legt gildi laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og sýslumanni hefði verið gerð ítarleg grein fyrir þessum vafa. Þar sem umrætt lagaákvæði hafi ekki stjórn­skipulegt gildi og haggi því ekki rétti sóknaraðila gagnvart þeim varnaraðilum sem hafi veðsett sóknar­aðila íbúð sína geti það ekki haft þýðingu fyrir ákvörðun þing­lýsingarstjóra að sóknar­aðili hafi ekki mótmælt staðfestingu nauðsamnings varnaraðila A til greiðslu­aðlögunar.

                Þegar ákvörðunum sýslumanns, sem þinglýsingarstjóra, er skotið til héraðs­dóms eftir málsskotsleið 3. gr. þinglýsingalaga getur slíkt ágreiningsmál einungis lotið að úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu og verður í slíku máli ekki tekið á öðrum atriðum en þeim sem var á valdi þinglýsingarstjóra að ákveða.

                Þann 4. apríl 2009 tóku gildi lög um ábyrgðarmenn en það er ákvæði 3. mgr. 9. gr. þeirra laga sem sóknaraðili telur andstætt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þegar þinglýsingarstjóri tók þá ákvörðun að afmá margnefnt veðskuldabréf af eign varnaraðila þá hafði hið umdeilda ákvæði tekið gildi. Það er hlutverk þinglýs­ingar­stjóra að fara eftir lögunum eins og þau standa þegar hann tekur ákvarðanir sínar. Hann er ekki í neinni stöðu til að taka tillit til þess við þær ákvarðanir hvort einhver kunni að draga í efa stjórnskipulegt gildi þeirra laga sem honum ber að framfylgja.

                Þegar sýslumaður, sem þinglýsingarstjóri, tók ákvörðun sína þann 8. mars sl. giltu þau fyrirmæli 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 skyldi nauða­samn­ingur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni. Samkvæmt gildistökuákvæði 12. gr. laga nr. 32/2009 á þessi regla einnig við um ábyrgðir sem stofnað var til fyrir gildistöku laganna. Ákvæði 3. mgr. 9. gr. er skýrt. Með staðfestingu nauðasamnings varnar­aðila A til greiðsluaðlög­unar voru allar skuldir hennar felldar niður, þar á meðal skuldir hennar við SPRON. Samkvæmt hljóðan orða ákvæðisins leiddi þetta til þess að kröfur sóknaraðila á hendur þeim varnaraðilum sem sett höfðu íbúð sína að veði til trygg­ingar skuldum varnaraðila A við SPRON voru einnig fallnar niður. Samkvæmt hljóðan orða ákvæðisins var rétti sóknaraðila í hinni veðsettu íbúð bersýnilega lokið.

                Þar sem stjórnskipulegu gildi ákvæðisins hafði ekki verið hnekkt bar þing­lýs­ing­ar­stjóra að fara eftir hljóðan orða ákvæðisins þrátt fyrir kröfuhafar kunni almennt að vera óánægðir með ákvæðið og þrátt fyrir mótmæli sóknaraðila. Þessi niðurstaða leiðir einnig til þess að hafi sóknaraðili viljað reyna að halda til haga rétti sínum í hinni veðsettu eign varð hann að mótmæla því að nauðsamningur varnaraðila A yrði staðfestur fyrir dómi en gerði ekki.

                Samkvæmt þessu verður fallist á kröfur varnaraðila um staðfestingu á ákvörðun sýslumanns.

                Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr., svo og 132. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðili dæmdur til að greiða hverjum varnaraðila um sig 110.000 kr. í málskostnað, sem er ákveðinn að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Staðfest er sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík frá 8. mars 2010 að afmá úr þinglýsingabókum embættisins veðskuldabréf útgefið af Sparisjóði Reykja­víkur og nágrennis, þann 11. nóvember 2004, með númerið [...] og þing­lýsinga­númerið [...] en skuldari samkvæmt því er A.

                Sóknaraðili, Drómi hf., greiði hverjum varnaraðila um sig, A, C, D, B og E, 110.000 kr. eða alls 550.000 kr. í málskostnað.