Hæstiréttur íslands
Mál nr. 214/2006
Lykilorð
- Verðbréfaviðskipti
- Hlutabréf
- Tilkynning
- Kaupsamningur
- Umboð
- Traustfang
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 23. nóvember 2006. |
|
Nr. 214/2006. |
Kristján Finnbogason (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Glitni banka hf. (Hörður F. Harðarson hrl.) Eiríki Tómassyni Gerði Tómasdóttur Gunnari Tómassyni og Þorbirni hf. (Jóhannes B. Björnsson hrl.) |
Verðbréfaviðskipti. Hlutabréf. Tilkynning. Kaupsamningur. Umboð. Traustfang.
Skaðabætur.
Bankinn G gerði 3. febrúar 2004 samning við óstofnað félag í eigu E o.fl. vegna fyrirhugaðrar yfirtöku á ÞF. Stuttu síðar hófst starfsmaður bankans handa við kaup á hlutabréfum í ÞF. Hinn 12. og 13. febrúar áttu E og GU samtal við hluthafa úr svokölluðum F hópi, þar á meðal K og son hans, og degi síðar gerði E tilboð um kaup á hlutum þeirra á genginu 6. Hinn 16. febrúar var E tilkynnt að hluthafar í hópnum vildu selja hluti sína á fyrrgreindu gengi og fól hann starfsmanni bankans G að annast frágang kaupanna. Átti starfsmaðurinn samdægurs símtöl við ýmsa hluthafa í F hópnum, þar á meðal son K sem sagði það afráðið að faðir hans mundi selja hlutabréf sín og að ekki væri ástæða til að ræða sérstaklega við hann. Hinn 17. febrúar keyptu E o.fl. hluti félagsins GR og tengdra aðila í ÞF á genginu 6,75. Í lok febrúar gerði bankinn G yfirtökutilboð fyrir hönd fyrrnefnds félags í hlutabréf annarra hluthafa í ÞF á sama gengi. K krafðist greiðslu á fjárhæð sem svaraði til þess sem hann hefði fengið með sölu á hlutabréfum sínum á síðastnefndu gengi að frádregnu því sem hann fékk fyrir hlutabréfin við ráðstöfun þeirra 16. febrúar 2004. Krafan var aðallega reist á því að sonur hans hefði ekki haft umboð til að ráðstafa hlutabréfum hans, en til vara að E o.fl. bæri að bæta honum tjón, sem rakið verði til þess að markaðsverð bréfanna hefði orðið hærra sem þessu svarar ef gætt hefði verið réttra reglna við opinberar tilkynningar um ætluð kaup bankans G á hlutabréfum í ÞF, sem í reynd hafi verið kaup félags E o.fl. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þótt sonur K hefði fyrir héraðsdómi neitað að hafa verið veitt umboð til að ráðstafa hlutabréfum föður síns yrði að líta til þess að viðskiptum með hlutabréfin, sem voru rafrænt skráð, varð ekki lokið með yfirlýsingunni, heldur þurfti að gera ráðstafanir til að bankanum yrði kleift að taka við eignarskráningu hlutabréfanna sem reikningsstofnun kaupanda þeirra. Án tillits til þess hvort bankinn G hafi mátt telja sér kleift á grundvelli orða sonar K að færa þau hlutabréf hans, sem voru vistuð hjá bankanum, yfir á reikning kaupanda þeirra, stóð engin heimild til þess að bankinn KB léti hlutabréf, sem þar voru varðveitt fyrir K vegna handveðsetningar, af hendi samkvæmt tilmælum bankans G nema til hefðu komið fyrirmæli um það frá K. Ekkert haldbært lá fyrir um að E o.fl. hefðu haft ástæðu til að ætla annað en að K hefði veitt nauðsynlegan atbeina til að bankinn KB léti hlutabréfin af hendi og þannig að minnsta kosti veitt eftirfarandi samþykki fyrir ráðstöfunum sonar hans. Talið var að E o.fl. hefðu jafnframt mátt líta svo á að samþykkið tæki til ráðstöfunar á þeim hlutabréfum sem voru varðveitt hjá bankanum G. Að þessu virtu og með hliðsjón af 19. gr. laga nr. 131/1997 var K talinn bundinn af þessum ráðstöfunum. Talið var óhjákvæmilegt að líta svo á að í málinu hefðu bankinn G og E o.fl. látið hjá líða að upplýsa réttilega öll atriði varðandi lögskipti þeirra í tengslum við kaup á hlutabréfum í ÞF eftir gerð samningsins 3. febrúar 2004. Án tillits til þess hvort ranglega hefði verið staðið að opinberum tilkynningum um kaup á hlutabréfum í ÞF var litið til þess að ekki síðar en 13. febrúar var K og öðrum helstu hluthöfum í F hópnum orðið kunnugt um að E o.fl. hefðu hug á að yfirtaka félagið með liðsinni bankans. Hefði K mátt vera ljóst að bankinn hefði undanfarna daga staðið að verulegum kaupum á hlutabréfum í félaginu. Ef einhverju hefði getað skipt fyrir verð hlutabréfanna á markaði að þessi kaup hafi varðað E o.fl. frekar en ráðið varð af opinberum tilkynningum bankans var ekki talið að sú aðstaða hefði getað dulist K eða umboðsmanni hans þegar samið var um gengi við sölu á hlutabréfum hins fyrrnefnda. Þegar af þeirri ástæðu var ekki talið að hann gæti átt rétt til skaðabóta á þessum grunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2006. Hann krefst þess að stefndu verði í sameiningu gert að greiða sér 27.121.230 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. mars 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur nöfnum tveggja stefndu verið breytt. Íslandsbanki hf. heitir nú Glitnir banki hf., en nafn Þorbjörns Fiskaness hf. er nú Þorbjörn hf.
I.
Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, munu tvö útgerðarfélög, Fiskanes hf. og Valdimar hf., hafa 30. júní 2000 verið sameinuð því þriðja, Þorbirni hf., og var þá nafni þess síðastnefnda breytt í Þorbjörn Fiskanes hf. Fram að þessu mun Þorbjörn hf. hafa verið skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands frá því síðla árs 1998 og hélst sú skráning eftir sameiningu félaganna, en eignarréttindi yfir hlutabréfum í hinu sameinaða félagi hafa verið skráð eftir ákvæðum laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Áfrýjandi og stefndu Eiríkur Tómasson, Gerður Tómasdóttir og Gunnar Tómasson munu við sameininguna hafa orðið hluthafar í Þorbirni Fiskanesi hf., sá fyrstnefndi á grundvelli fyrri hlutafjáreignar í Fiskanesi hf. en þau síðarnefndu sem hluthafar í Þorbirni hf. Áfrýjandi var í röðum meira en tuttugu hluthafa í sameinaða félaginu, sem í ýmsum gögnum málsins hafa í einu lagi verið nefndir Fiskaneshópurinn.
Af gögnum málsins verður ráðið að hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. hafi í árslok 2003 numið 1.112.763.089 krónum. Stefndu Eiríkur, Gerður og Gunnar munu hafa ráðið yfir 14,43% af hlutafénu, Grandi hf. og tengd félög samtals 27,89%, en áfrýjandi og tuttugu aðrir hluthafar í svokölluðum Fiskaneshópi alls 25,66%. Samkvæmt málatilbúnaði stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars munu sex hluthafar úr Fiskaneshópnum, sem áttu um 6,46% hlutafjár í félaginu, hafa sumarið 2003 boðið hluti sína til sölu á genginu 6, en án árangurs. Í janúar 2004 hafi síðan komið fram að hlutir Granda hf. og tengdra félaga væru til sölu. Að viðbættum öðrum hlutum, sem hafi á þeim tíma verið falir, hafi þessir stefndu talið að samtals væru til sölu meira en 40% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf., en ýmis önnur útgerðarfélög hefðu haft áhuga á að komast þar í ráðandi stöðu. Þessir stefndu hafi ákveðið að bregðast við þessu með því að leitast við að taka yfir félagið.
Hinn 3. febrúar 2004 gerði stefndi Glitnir banki hf. samning við „óstofnað yfirtökufélag (Newco)“ í eigu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars, bróður þeirra og föður. Í samningnum sagði meðal annars að hann væri gerður vegna fyrirhugaðra kaupa þessa félags á öllu hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf., að frátöldum hlutum eigenda þess og hlut í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Bankinn ætti að veita ráðgjöf „við yfirtökuferli þar sem settir verða upp yfirtökuskilmálar byggðir á upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum Newco“ og um „uppsetningu á yfirtökufélagi og það ferli sem á sér stað í kjölfar kaupa Newco á öllum hlutabréfum í Þorbirni-Fiskanesi.“ Jafnframt átti bankinn að „vinna við tilboðsgerð, sem gert verður í nafni Íslandsbanka eða Newco og samningaviðræður við tilboðshafa“, auk þess að gera samninga við seljendur hlutabréfa, aðstoða nýja félagið við að útvega fé til að kaupa þau, hafa umsjón með skjalagerð og lokafrágangi yfirtöku og annast annað, sem varðaði yfirtökutilboð. Tekið var fram að bankinn bæri enga ábyrgð á því að þessi kaup tækjust eða fé yrði fengið til þeirra. Ef á hinn bóginn nýja félaginu, eigendum þess og Tryggingamiðstöðinni hf. tækist að eignast að minnsta kosti 51% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf. fengi bankinn nánar tiltekna þóknun, en ella ekkert í sinn hlut.
Af hálfu hins stefnda banka var þessi samningur undirritaður af forstöðumanni svokallaðrar fyrirtækjaráðgjafar, Erni Gunnarssyni, ásamt öðrum starfsmanni innan sömu deildar hans, Einari Erni Ólafssyni. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, hófst Einar Örn handa fáum dögum síðar við að leita eftir kaupum á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. Í janúar 2004 höfðu hlutabréf í félaginu gengið kaupum og sölu á verðbréfamarkaði ýmist á genginu 4,90 eða 4,95, en fram til 11. febrúar hækkaði gengið í 5,50. Þann dag tilkynnti bankinn til Kauphallar Íslands að hann hefði aukið hlut sinn í Þorbirni Fiskanesi hf. úr 0,18% hlutafjár í 6,44%, sbr. 27. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, eins og þau hljóðuðu á þessum tíma. Bankinn tilkynnti 13. febrúar 2004 að hlutur hans væri orðinn 11,3% og 16. sama mánaðar að hann væri 16,93%. Að nokkru leyti virðast hlutabréf þessi hafa verið keypt af hluthöfum í Fiskaneshópnum, en fyrir liggur að nokkrir þeirra seldu hluta af eignarhlutum sínum dagana 11. og 12. febrúar 2004 á genginu 5,67. Af framburði vitna, svo og stefndu Eiríks og Gunnars, verður ráðið að 12. og 13. febrúar 2004 hafi þeir síðastnefndu átt samtöl við nokkra helstu hluthafana í félaginu úr Fiskaneshópnum, þar á meðal áfrýjanda og son hans, og þessum hluthöfum þá orðið ljóst að þeir leituðu eftir því að taka félagið yfir með liðsinni hins stefnda banka. Hafi stefndi Eiríkur við það tækifæri boðist til að kaupa hlutabréf þessara hluthafa á genginu 5,67, sem hafi verið hafnað. Hinn 14. sama mánaðar hafi hann komið á framfæri boði til hluthafa í Fiskaneshópnum um að annaðhvort myndu hann og fjölskylda hans kaupa hluti hinna á genginu 6 eða selja þeim sína gegn sama verði. Í framhaldi af þessu hafi nokkrir fulltrúar hluthafa í Fiskaneshópnum átt fundi um viðbrögð við þessu og meðal annars haft til athugunar hvort þessi hluthafahópur ætti að reyna að taka yfir Þorbjörn Fiskanes hf., en í því skyni munu þeir hafa átt viðræður við starfsmenn Landsbanka Íslands hf. Að morgni 16. febrúar 2004 hafi viðræður haldið áfram án þess að niðurstaða fengist, en síðdegis þennan dag hafi stefnda Eiríki verið tilkynnt að hluthafar í Fiskaneshópnum vildu selja hluti sína á genginu 6, þó með því skilyrði að þeir, sem áður hefðu selt hinum stefnda banka hlutabréf á genginu 5,67, fengju verðmuninn bættan. Stefndi Eiríkur hafi samþykkt þetta. Í framhaldi af því hafi hann tilkynnt Einari Erni Ólafssyni að kaupin væru ráðin og falið honum að annast frágang þeirra.
Í málinu liggja fyrir endurrit af upptökum símtala, sem Einar Örn átti síðla dags 16. febrúar 2004 við sjö hluthafa í Fiskaneshópnum. Létu nokkrir þeirra í ljós að þeir hefðu umboð frá öðrum hluthöfum innan fjölskyldna sinna til að ráðstafa hlutum þeirra. Af hálfu hins stefnda banka er því haldið fram að Einar Örn hafi að auki átt samtöl við fleiri hluthafa í þessum hópi, sem upptökur hafi ekki verið gerðar af, en jafnframt hefur verið lögð fram skrifleg orðsending til hans frá einum öðrum hluthafa úr hópnum. Ekki liggur fyrir að Einar Örn hafi rætt við áfrýjanda, en meðal gagna málsins er upptaka af símtali hans við son áfrýjanda, þar sem sá síðarnefndi sagði það vera afráðið að áfrýjandi mundi selja hlutabréf sín og að ekki væri ástæða til að ræða sérstaklega við hann um það. Þá liggur fyrir kvittun bankans til áfrýjanda fyrir sölu á hlutabréfum hans að nafnverði 36.161.640 krónur á genginu 6, svo og um ráðstöfun söluverðsins inn á tiltekinn bankareikning.
Í málinu halda stefndu því fram að eftir að framangreindum viðskiptum lauk hafi samningur komist á um kaup nýs félags í eigu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars og föður þeirra á þeim hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf., sem hinn stefndi banki hafði eignast á þann hátt, sem áður greinir. Að morgni 17. febrúar 2004 tilkynnti bankinn svokölluðum regluverði félagsins, sbr. þágildandi 47. gr. laga nr. 33/2003, að hann hefði selt þessu nýja félagi allan hlut sinn í Þorbirni Fiskanesi hf., 16,93% af heildarhlutafénu að nafnverði 187.395.797 krónur, og að auki miðlað til nýja félagsins hlutabréfum að nafnverði 232.418.517 krónur eða 20,89% hlutafjárins. Í tilkynningunni kom fram að hlutirnir, sem miðlað var, hafi verið keyptir á genginu 6 og þeir, sem bankinn seldi, á genginu 5,90, en samkvæmt málatilbúnaði bankans svaraði þetta síðastnefnda gengi til þess, sem hann hafi sjálfur greitt fyrir þá hluti að teknu tilliti til hækkunar á verði í fyrri viðskiptum við hluthafa í Fiskaneshópnum. Regluvörður Þorbjörns Fiskaness hf. sendi síðan Kauphöll Íslands tilkynningu um þessi viðskipti fyrir hádegi 17. febrúar 2004 og gat þess þar að stefndu Eiríkur, Gerður og Gunnar ásamt fjárhagslega tengdum aðilum ættu orðið með þessu 52,15% hlutafjár í félaginu. Í framhaldi af þessu setti kauphöllin hlutabréf í félaginu á svokallaðan athugunarlista, þar sem skylt væri orðið að gera öðrum hluthöfum í félaginu yfirtökutilboð, sbr. VI. kafla laga nr. 33/2003.
Samkvæmt aðilaskýrslu stefnda Eiríks fyrir héraðsdómi hafði hann átt samtal fyrri hluta febrúar 2004 við nafngreindan fyrirsvarsmann Granda hf. og leitað eftir kaupum á hlutabréfum félagsins í Þorbirni Fiskanesi hf. á genginu 5,67. Því boði hafi verið hafnað og jafnframt öðru, sem hann virðist hafa borið fram 14. febrúar 2004 um kaup á genginu 6. Að morgni 17. sama mánaðar, eftir kaup hlutabréfa af hluthöfum í Fiskaneshópnum, hafi stefndi Eiríkur falið Einari Erni Ólafssyni að leita samninga við Granda hf. um kaup á hlutum í eigu þess og tengdra félaga. Síðdegis þann dag hafi tekist samkomulag um kaup á þessum hlutum á genginu 6,75, en það verð hafi svarað til þess, sem Grandi hf. hafi á sínum tíma greitt fyrir kaup á hlutabréfunum í Þorbirni Fiskanesi hf. að viðbættum vöxtum. Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti einn stjórnarmanna í Þorbirni Fiskanesi hf., sem jafnframt átti sæti í stjórnum Granda hf. og tengdra félaga, regluverði fyrstnefnda félagsins að morgni 17. febrúar 2004 að síðastnefndu félögin hefðu í hyggju að selja hluti sína í því. Sala þessara hluta til nýja félagsins í eigu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars og föður þeirra var síðan tilkynnt Kauphöll Íslands í lok sama dags. Í lok febrúar 2004 gerði hinn stefndi banki yfirtökutilboð fyrir þetta nýja félag, sem þá hafði verið stofnað og hlotið nafnið ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf., í hlutabréf annarra hluthafa í Þorbirni Fiskanesi hf. og hljóðaði það á gengið 6,75. Á grundvelli þessa boðs hafði félagið eignast 1. apríl 2004 alls 91,99% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf., sem var tekið af skrá í Kauphöll Íslands næsta dag. ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf. mun síðan hafa verið sameinað Þorbirni Fiskanesi hf.
Með bréfi til hins stefnda banka 23. febrúar 2004 bar lögmaður fyrir hönd aðila í svokölluðum Fiskaneshópi, svo sem þar var komist að orði, fram erindi, þar sem meðal annars var greint frá því að einhverjir úr þessum hópi hafi fyrr í þeim mánuði selt bankanum hlutabréf í Þorbirni Fiskanesi hf., ýmist á genginu 5,67 eða 6, en það þætti „þó nokkur vafi leika á því að hve miklu leyti samningar um slíkt tókust“, einkum vegna þess að hlutabréf hafi verið færð af nöfnum einhverra þessara hluthafa án þess að samningar hafi verið gerðir um kaup bréfanna eða fullnægjandi umboð legið fyrir til að selja þau. Þess var krafist að „óumsamdar færslur með eignarhluti þeirra verði bakfærðar“, en að öðru leyti að bætt yrði það tjón, sem þessir hluthafar hefðu beðið með því að hafa ekki fengið sama gengi fyrir hlutabréf sín og síðar hafi verið greitt í viðskiptum tengdum yfirtöku á félaginu, eða 6,75. Þessu hafnaði bankinn með bréfi 15. mars 2004. Lögmaðurinn beindi því 30. sama mánaðar til annarra stefndu að leitað yrði lausnar á þessu, sem þeir höfnuðu 15. apríl 2004. Mál þetta var síðan höfðað 21. maí 2004.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá kröfu, sem hann gerði í framhaldssök í héraði, og krefst nú sem fyrr segir greiðslu á 27.121.230 krónum. Sú fjárhæð svarar til þess, sem áfrýjandi hefði fengið með sölu á hlutabréfum sínum í Þorbirni Fiskanesi hf. að nafnverði 36.161.640 krónur á genginu 6,75, að frádregnu því, sem hann fékk fyrir hlutabréfin við ráðstöfun þeirra 16. febrúar 2004, þar sem miðað var við gengið 6. Hér fyrir dómi reisir áfrýjandi kröfu sína aðallega á því að fullnægjandi heimild hafi ekki legið fyrir til að ráðstafa þessum hlutabréfum hans, en til vara að stefndu beri að bæta honum tjón, sem rakið verði til þess að markaðsverð bréfanna hefði orðið hærra sem þessu svarar ef gætt hefði verið réttra reglna við opinberar tilkynningar um ætluð kaup hins stefnda banka á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf., sem í reynd hafi verið kaup félags stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars og föður þeirra. Skilja verður málatilbúnað áfrýjanda svo að hann hafi fallið frá öðrum málsástæðum, sem hann hélt fram í héraði og greint er frá í hinum áfrýjaða dómi, enda voru þær hvorki raktar í greinargerð hans né munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti.
II.
Eins og áður segir liggur fyrir í málinu endurrit af upptöku, sem gerð var af símtali Einars Arnar Ólafssonar við son áfrýjanda, Stefán Kristjánsson, síðdegis 16. febrúar 2004, en ekki hafa verið bornar brigður á að þar sé réttilega greint frá orðaskiptum þeirra. Í samtalinu spurði Einar Örn hvort búið væri að ganga þannig frá málum að áfrýjandi, eiginkona hans og dóttir myndu ásamt Stefáni selja hlutabréf sín í Þorbirni Fiskanesi hf. á genginu 6 og játti Stefán því. Einar Örn spurði síðan hvort ástæða væri til að hann talaði við hvert þeirra og eitt, sem Stefán svaraði neitandi, og ítrekaði sá fyrrnefndi þetta með spurningu um hvort það breytti engu, sem Stefán svaraði á sama veg. Samkvæmt gögnum málsins áttu áfrýjandi og eiginkona hans, Rósa Þorsteinsdóttir, hlutabréf í félaginu að nafnverði samtals 45.202.050 krónur, en Stefán og dóttir þeirra, Guðrún Helga, 15.067.350 krónur hvort. Í símtalinu lét Einar Örn þess að öðru leyti getið að tvennt þyrfti að gera, annars vegar að „færa þessi bréf öll á hlutlausa svæðið“, sem Stefán kvaðst mundu gera strax næsta morgun, og hins vegar að gefa sér upp „reikningsnúmer hjá hverju ykkar fyrir sig“. Að því er áfrýjanda varðar svaraði Stefán því til að tilteknum bankareikningi hans hefði verið lokað og myndi Stefán stofna nýjan reikning næsta dag. Að endingu ítrekaði Einar Örn að Stefán hefði samband við sig til að gefa upp númer á bankareikningum og spurði Stefán þá hvert væri tölvupóstfang Einars Arnar, sem hann gaf upp. Einnig liggur fyrir orðsending, sem Stefán sendi Einari Erni með tölvupósti að morgni 17. febrúar 2004. Þar voru veittar upplýsingar um bankareikninga og tekið fram varðandi hlutabréf áfrýjanda að „þú veist hvar bréf hans liggja“. Einar Örn svaraði Stefáni 19. sama mánaðar með orðsendingu í tölvupósti, þar sem sagði eftirfarandi: „15 m.kr. eru hjá okkur, sem við höfum náð í. Við sjáum hins vegar að 20 m.kr. eru hjá KB banka. Þið þurfið að hringja þangað og fá þetta losað.“ Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, mun hafa búið hér að baki að rafræn hlutabréf áfrýjanda í Þorbirni Fiskanesi hf. að nafnverði 20.000.000 krónur höfðu verið afhent KB banka hf. að handveði og þau verið vistuð af þeirri ástæðu hjá þeim banka, en hlutabréf áfrýjanda munu að öðru leyti hafa verið vistuð hjá stefnda Glitni banka hf. Ekki liggur fyrir hvernig áfrýjandi eða Stefán hafi brugðist við síðastnefndri orðsendingu Einars Arnar að öðru leyti en ráðið verður af yfirlýsingu hins stefnda banka 20. febrúar 2004, þar sem segir eftirfarandi: „Íslandsbanki hf. ... hefur í dag móttekið greiðslufyrirmæli frá Kaupþingi Búnaðarbanka ..., sbr. tölvupóstur Margrétar Bragadóttur starfsmanns fyrirtækjasviðs KB banka. Kristján Finnbogason ... hefur selt Íslandsbanka 20.000.000 hluti í Þorbirni Fiskanesi hf. ... Umræddir hlutir eru í vörslu hjá KB banka. Íslandsbanki lýsir því hér með yfir að gegn afhendingu KB banka á 20.000.000 hlutum í Þorbirni Fiskanesi, sem eru í eigu Kristjáns Finnbogasonar og vörslu KB banka, mun Íslandsbanki afhenda gagngjald fyrir hina seldu hluti inn á reikning Kristjáns ...“.
Áfrýjandi heldur því fram í málinu að Stefán Kristjánsson hafi ekki haft umboð til að ráðstafa hlutabréfum hans í Þorbirni Fiskanesi hf. Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi var Stefán spurður að því hvort hann hefði aflað sér umboðs eða heimildar frá áfrýjanda til þessarar ráðstöfunar og svaraði hann á eftirfarandi hátt: „Nei, ég get nú ekki sagt það. Þetta kom aldrei þannig til að Helga, Rósa eða Kristján segðu við mig, þú hefur umboð hér með til að selja á genginu 6. Ég í sjálfu sér hélt bara að þetta stæði til.“ Í fyrrnefndu símtali við Einar Örn Ólafsson 16. febrúar 2004 sagði Stefán ekki berum orðum að hann hefði umboð frá föður sínum til að selja hlutabréf hans, en líta verður svo á að efnislega hafi slík yfirlýsing allt að einu falist í svari Stefáns þegar Einar Örn spurði hvort hann þyrfti að ræða við hvert og eitt þeirra, sem Stefán tjáði sig fyrir. Með framangreindum vitnisburði hefur Stefán á hinn bóginn neitað að sér hafi verið veitt umboð til þessarar ráðstöfunar. Þrátt fyrir þetta verður ekki horft fram hjá því að viðskiptunum með hlutabréf áfrýjanda, sem voru rafrænt skráð, varð ekki lokið með yfirlýsingu Stefáns einni, heldur þurfti að auki að gera ráðstafanir til að hinum stefnda banka yrði kleift að taka við eignarskráningu hlutabréfanna sem reikningsstofnun kaupanda þeirra. Í málinu hefur verið lögð fram yfirlýsing Verðbréfaskráningar Íslands hf. 12. ágúst 2004, þar sem segir eftirfarandi: „Það staðfestist hér með að einungis reikningsstofnun er heimilt að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð, sbr. 10. gr. laga ... nr. 131/1997 og 14. gr. reglug. nr. 397/2000. Í þessu felst m.a. að einungis reikningsstofnun er heimilt að færa eignir á hlutlaust svæði verðbréfamiðstöðvar og þá með heimild reikningseiganda. Tilstuðlan reikningsstofnunar viðkomandi eiganda hluta, sem eru rafrænt skráðir, þarf því til að afhenda eignir eigandans til annarrar reikningsstofnunar í gegnum hið hlutlausa svæði. Reikningsstofnun, sem ekki er reikningsstofnun viðkomandi eiganda, getur því ekki einhliða sótt eignir óviðkomandi aðila í verðbréfamiðstöð.“ Án tillits til þess hvort stefndi Glitnir banki hf. hefði mátt telja sér kleift á grundvelli orða Stefáns að færa þau hlutabréf áfrýjanda, sem voru þá þegar vistuð rafrænt hjá bankanum, yfir á reikning kaupanda þeirra, stóð engin heimild til þess að KB banki hf. léti hlutabréfin, sem þar voru varðveitt fyrir áfrýjanda vegna handveðsetningar, af hendi samkvæmt tilmælum Glitnis banka hf. og gegn greiðslu frá honum á andvirði hlutabréfanna nema til hefðu komið fyrirmæli um það frá áfrýjanda. Ekkert haldbært liggur fyrir um að stefndu hafi haft ástæðu til að ætla annað en að áfrýjandi hafi veitt nauðsynlegan atbeina til að KB banki hf. léti hlutabréfin af hendi og þannig að minnsta kosti veitt eftirfarandi samþykki fyrir ráðstöfunum Stefáns sem umboðsmanns hans. Stefndu hlutu jafnframt að mega líta svo á að það samþykki tæki til ráðstöfunar á þeim hlutabréfum, sem stefndi Glitnir banki hf. hafði fram að því varðveitt fyrir áfrýjanda. Að þessu virtu og með hliðsjón af ákvæði 19. gr. laga nr. 131/1997 verður áfrýjandi að teljast bundinn af þessum ráðstöfunum.
III.
Samkvæmt 27. gr. laga nr. 33/2003, eins og þau hljóðuðu þegar atvik málsins gerðust, bar þeim, sem náði 5% af atkvæðisrétti eða nafnverði hlutabréfa í félagi, sem skráð var á skipulegum verðbréfamarkaði, eða margfeldi af því hlutfalli, að tilkynna það til verðbréfamarkaðarins og félagsins. Við ákvörðun um hvort slíku hlutfalli hafi verið náð bar ekki aðeins að horfa til hluta, sem hluthafinn átti sjálfur, heldur jafnframt til hluta, sem þannig var ástatt um, sem um ræddi í 28. gr. laganna. Í málinu heldur áfrýjandi því sem áður segir fram að í raun hafi hinn stefndi banki staðið að kaupum á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. á tímabilinu frá 3. til 13. febrúar 2004 í þágu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars, þótt hann hafi í orði kveðnu gert það í eigin nafni. Honum hafi því vegna síðastgreinds lagaákvæðis borið að haga tilkynningum um kaupin til samræmis við það, en þessi þrjú stefndu hafi þá þegar átt verulegan hlut í félaginu, auk þess að vera þar fruminnherjar, sem sérstakar reglur um tilkynningar giltu um, sbr. þágildandi 47. gr. laganna. Gegn þessu bera stefndu fyrir sig að kaup bankans á hlutabréfum í félaginu á þessu tímabili hafi með öllu verið í þágu og á áhættu hans, enda hafi í áðurnefndum samningi 3. febrúar 2004 hvorki verið mælt fyrir um rétt né skyldu annarra stefndu til að kaupa þessi hlutabréf. Af þeim sökum hafi bankinn staðið réttilega að opinberum tilkynningum um þessi viðskipti 11., 13. og 16. febrúar 2004.
Í samningi stefnda Glitnis banka hf. 3. febrúar 2004 við Newco, félags í eigu stefndu Eiríks, Gerðar og Gunnars, föður þeirra og bróður, var sem fyrr segir mælt fyrir um að bankinn skyldi meðal annars sinna gerð tilboða í hlutabréf annarra hluthafa í Þorbirni Fiskanesi hf., hvort heldur „í nafni Íslandsbanka eða Newco“ og annast samningaviðræður við tilboðshafa. Rétt er að í samningnum var hvorki kveðið á um heimild né skyldu þessa nýja félags til að kaupa hlutabréf, sem bankinn kynni þegar að eiga eða myndi eignast af öðrum sökum eftir gerð samningsins. Í málatilbúnaði stefnda Glitnis banka hf. hefur því verið neitað með öllu að kaup hans á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. hafi verið gerð í skjóli fyrrgreinds samningsákvæðis. Gegn þessari neitun er ekki sýnt að stefndu Eiríkur, Gerður og Gunnar eða félag í eigu þeirra hafi í raun verið kaupandi þessara hlutabréfa. Á hinn bóginn verður að líta til þess að fyrir héraðsdómi bar forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar bankans, Örn Gunnarsson, að sú deild stæði ekki að kaupum hlutabréfa, en hann hefði hér óskað eftir því við þá, sem færu með eigin viðskipti bankans, „að þeir mundu kaupa þessi bréf og þeir taka ábyrgðina á því og segja já eða nei.“ Af öðrum gögnum málsins verður þó ekki betur séð en að fyrrnefndur starfsmaður í fyrirtækjaráðgjöf bankans, Einar Örn Ólafsson, hafi í þeim viðskiptum með hlutabréf í Þorbirni Fiskanesi hf. á þessu tímabili, sem upplýsingar liggja fyrir um, átt samskipti við seljendur hlutabréfanna og komið þar fram af hálfu bankans, svo sem hann staðfesti jafnframt í framburði sínum fyrir héraðsdómi. Ekki verður séð hvernig þáttur þessa starfsmanns í viðskiptunum getur hafa samrýmst framlögðum verklagsreglum bankans frá 26. febrúar 2002 um „viðskipti starfsmanna með verðbréf, gjaldeyri og afleiður, kínaveggi og viðskipti bankans með eigin bréf“ ef hlutabréfakaupin voru í reynd gerð að öllu leyti í þágu og á áhættu hans. Auk þessa verður að gæta að því að þótt stefndu hafi haldið því fram að ekki hafi verið samið um kaup nýja félagsins á hlutabréfum bankans í Þorbirni Fiskanesi hf. fyrr en að afstöðnum viðskiptum með hlutabréf í eigu hluthafa í Fiskaneshópnum 16. febrúar 2004, þá liggur fyrir í málinu að stefndi Eiríkur samdi fyrir þann tíma um að ýmsum þessara hluthafa yrði bættur upp munurinn á gengi við kaup bankans á hlutabréfum af þeim á tímabilinu fram til 13. sama mánaðar. Getur þetta á engan hátt samrýmst því að stefnda Eiríki hafi verið þau kaup óviðkomandi. Að öllu þessu virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að í málinu hafi stefndu látið hjá líða að upplýsa réttilega öll atriði varðandi lögskipti þeirra í tengslum við kaup á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. eftir gerð samningsins 3. febrúar 2004.
Án tillits til þess að það, sem að framan greinir, kann að hafa valdið því að ranglega hafi verið staðið að opinberum tilkynningum, sem hinn stefndi banki lét frá sér fara 11., 13. og 16. febrúar 2004 um kaup á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf., verður að líta til þess, sem áður segir, að ekki síðar en 13. febrúar var að áfrýjanda eins og öðrum helstu hluthöfunum í Fiskaneshópnum orðið kunnugt um að stefndu Eiríkur, Gerður og Gunnar væru að leitast við að taka yfir félagið með liðsinni bankans. Áfrýjanda mátti vegna opinberra tilkynninga og viðskipta hluthafa í Fiskaneshópnum vera ljóst að bankinn hafði undanfarna daga staðið að verulegum kaupum á hlutabréfum í félaginu. Ef einhverju hefði getað skipt fyrir verð hlutabréfanna á verðbréfamarkaði að þessi kaup hafi varðað stefndu Eirík, Gerði og Gunnar frekar en ráðið varð af opinberum tilkynningum bankans gat sú aðstaða ekki dulist áfrýjanda eða umboðsmanni hans þegar samið var 16. febrúar 2004 um gengi við sölu á verulegum hluta í félaginu, þar á meðal hlutabréfum áfrýjanda. Þegar af þessari ástæðu getur hann ekki átt rétt til skaðabóta úr hendi stefndu á þeim grunni, sem hér um ræðir.
Samkvæmt framansögðu verður að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu stefndu af kröfu áfrýjanda. Í ljósi allra atvika er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2006.
Mál þetta, sem var dómtekið 11. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, með stefnu birtri 21. maí 2004. Framhaldsstefna var birt 7. apríl sl. og með henni var aukið við dómkröfur stefnanda.
Stefnandi er Kristján Finnbogason, Iðavöllum 6, Grindavík. Stefndu eru Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, Gunnar Tómasson, Vesturbraut 8a, Grindavík, Eiríkur Tómasson, Vesturbraut 8, Grindavík, Gerður Sigríður Tómasdóttir, Leynisbraut 4, Grindavík og Þorbjörn Fiskanes hf., Hafnargötu 12, Grindavík, áður ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf., sama stað. Þorbjörn Fiskanes hf. yfirtók félagið ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf., sbr. tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra 12. júlí 2004.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 147.177.875 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. apríl 2005 til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum 27.121.230 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. mars 2004 til greiðsludags.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu in solidum úr hendi stefndu að mati dómsins.
Stefndi Íslandsbanki hf. krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar skv. mati dómsins.
Stefndu, Gunnar Tómasson, Eiríkur Tómasson, Gerður Tómasdóttir og Þorbjörn Fiskanes hf., krefjast þess að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu, hverju fyrir sig, málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.
I. Málavextir.
Í málinu deila tveir armar Þorbjörns Fiskaness hf., það eru stefnandi sem er hluti svonefnds Fiskaneshóps og stefndu, Gunnar, Eiríkur og Gerður Tómasarbörn, sem tilheyrðu Þorbjörnshópnum. Atvik málsins eiga sér stað frá 11. febrúar 2004 til 25. febrúar 2004, en til þess að fá heildstæða mynd af málinu ber einnig nauðsyn til að geta forsögu þess að nokkru.
Hinn 30. júní 2000 sameinuðust þrjú rótgróin útgerðarfélög á Suðurnesjum, þ.e. Valdimar hf., Vogum, Fiskanes hf., Grindavík og Þorbjörn hf., Grindavík, þar sem Þorbjörn hf. var yfirtökufélag. Fékk hið sameinaða útgerðarfélag nafnið Þorbjörn Fiskanes hf. Þorbjörn hf. hafði verið skráður á aðallista Verðbréfaþings Íslands frá 10. nóvember 1998 og hélt hið sameinaða félag þeirri skráningu.
Hinn 6. júní 2002 var gert samkomulag þeirra þriggja sem sameinuðust undir merkjum Þorbjarnar Fiskaness hf. um sölu á 20% af heildarhlutafénu til Afls fjárfestingarfélags hf. o.fl., þannig að hluthafarnir seldu allir sama hlutfall af hlutafé sínu. Fyrir átti Afl fjárfestingarfélag hf. 4% af hlutafé Þorbjarnar Fiskaness hf.
Síðar eða 10. desember sama ár selur Afl fjárfestingarfélag hf. og samstarfsaðilar þeirra allt hlutafé sitt í Þorbirni Fiskanesi hf. til Granda hf. á 6.38 kr. pr/hlut. Þetta var gert með samþykki stjórnar og stærstu hlutahafa Þorbjörns Fiskaness hf., þ.m.t. Fiskaneshópsins.
Sumarið 2003 fól einn af Fiskaneshópnum, Björgvin O. Gunnarsson, Landsbanka Íslands hf. að selja hlutafé sitt og fjölskyldu sinnar í Þorbirni Fiskanesi hf. á genginu 6. Var stefndu ásamt fleiri hluthöfum boðið þetta hlutafé til kaups, en ekki var áhugi á því að kaupa það á þessu gengi.
Í byrjun árs 2004 keypti Grandi hf. allt hlutafé í HB hf., Akranesi. Eftir þau viðskipti var hlutur Granda hf., og tengdra félaga, í Þorbirni Fiskanesi hf. boðinn til sölu, eða samtals um 28% af heildarhlutafé félagsins. Að mati stefndu, Gunnars, Eiríks og Gerðar Sigríðar, voru á þessum tíma milli 40-50% af hlutafé félagsins til sölu.
Hinn 3. febrúar 2004 gerðu stefndi, Íslandsbanki hf. annars vegar, og hins vegar Eiríkur, Gunnar, Gerður og Stefán Þorvaldur Tómasarbörn og faðir þeirra, Tómas Þorvaldsson, samning sín á milli, þannig að stefndi, Íslandsbanki hf., tók að sér að annast ráðgjöf til óstofnaðs félags (Newco). Samningurinn var gerður vegna fyrirhugaðra kaupa hins óstofnaða félags á öllu hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. að frátöldum hluta fjölskyldu Tómasar Þorvaldssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar. Þóknun stefnda fyrir þjónustuna var háð því að Newco og fjölskylda Tómasar Þorvaldssonar eignuðust a.m.k. 51% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf.
Eftir gerð þessa samnings hóf Íslandsbanki hf. að kaupa hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. og leita eftir kaupum hjá stærstu hluthöfum. Voru þessi kaup stefnda, Íslandsbanka hf., á hans eigin áhættu og ábyrgð og án samráðs við aðra stefndu.
Fyrstu kaupin áttu sér stað 11. febrúar 2004. Stefndi Íslandsbanki keypti bréfin í eigin nafni á genginu 5,67 og tilkynnti Kauphöll Íslands hf. um þau viðskipti samdægurs. Eftir kaupin átti stefndi Íslandsbanki 6,44% heildarhlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf.
Seinni hluta dags 12. febrúar og að morgni 13. febrúar ræddi stefndi, Gunnar Tómasson, við þrjá fulltrúa Fiskaneshópsins, þ.e. Björgvin O. Gunnarsson, Kristján Finnbogason, Dagbjart Einarsson og Willard Ólason, um áform fjölskyldu stefnda Gunnars um yfirtöku á félaginu. Nefndir fulltrúar vildu þá ekki selja á genginu 5,67.
Föstudaginn 13. febrúar hélt stefndi Íslandsbanki hf. áfram kaupum á hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf. og tilkynnti Kauphöll Íslands hf. þann dag, að hann hefði aukið hlut sinn í félaginu í 11,3% af heildarhlutafé. Eftir lokun Kauphallarinnar 13. febrúar tókust samningar um kaup á hlutafé þeirra sem komu úr hópi eigenda Valdimars hf. sem sameinast hafði Þorbirni hf. og Fiskanesi hf. á árinu 2000 og voru viðskiptin tilkynnt Kauphöllinni mánudaginn 16. febrúar. Eftir kaupin átti Íslandsbanki 16,93% af heildarhlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf.
Laugardaginn 14. febrúar hækkuðu stefndu Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður, tilboð sitt í hlutabréf Fiskaneshópsins í 6. Þann dag fóru fram viðræður hjá fulltrúum Fiskaneshópsins. Á sunnudeginum hittust Ottó Hafliðason, fjármálastjóri Þorbjörns Fiskaness (tengdasonur Björgvins og Ingu), Ingi G. Ingason, B.S. í viðskiptafræði, (tengdasonur Willards og Valgerðar), Eiríkur Dagbjartsson, útgerðarstjóri Þorbjörns Fiskaness (sonur Dagbjarts og Birnu), Dagbjartur Willardsson, skrifstofumaður og Almar Sveinsson, starfsmaður Landsbanka sem var kunningi Dagbjarts. Áttu þeir bæði fund á starfsstöð Inga G. Ingasonar og í Landsbankanum að Laugavegi 77. Ástæðan var tilboð stefndu, Eiríks, Gunnars og Gerðar Sigríðar, og hugsanlegur mótleikur af þeirra hálfu.
Að morgni 16. febrúar var fundur milli stefndu, Eiríks og Gunnars annars vegar, og Ottós Hafliðasonar og Eiríks Óla Dagbjartssonar, hins vegar, þar sem þeir gera stefndu grein fyrir gangi mála hjá Fiskaneshópnum. Báðir þessi menn voru starfsmenn Þorbjörns Fiskaness. Þeir fengu frí frá vinnu þann dag til að vinna frekar í málum Fiskaneshópsins.
Síðar þennan sama dag eða milli kl. 15 og 16 hafði Eiríkur Tómasson samband við Einar Örn Ólafsson, starfsmann stefnda Íslandsbanka, og tjáði honum að samkomulag hefði náðst við Fiskaneshópinn um kaup á þeirra hlut á genginu 6. Einnig varð samkomulag um að þeir í Fiskaneshópnum sem nýverið höfðu selt bréf sín á genginu 5,67 fengju gengið 6 fyrir þau. Eiríkur fól Einari Erni að hafa samband við Fiskaneshópinn og annast frágang kaupanna, jafnframt sem Einari var tjáð að hann mætti eiga von á hringingum frá þessum aðilum.
Á tímabilinu frá kl. 16 til kl. 19 náði Einar Örn tali af nokkrum af fulltrúum Fiskaneshópsins og fékk frá þeim upplýsingar um bankareikninga og hlutafjáreign og gaf leiðbeiningar um hvernig standa ætti að afhendingu bréfanna. Flest samtalanna voru hljóðrituð og lögð fram í málinu. Í mörgum tilfellum sögðust viðmælendurnir hafa umboð frá öðrum hluthöfum. Fyrir liggur í málinu að 15 hluthafar af 21 samþykktu sölu hlutanna, ýmist beint eða samkvæmt umboði. Ekki liggur fyrir staðfest samþykki frá 6 einstaklingum en þeir voru allir með bréf sín vistuð hjá Landsbanka Íslands hf. Einhverjir þessara 6 einstaklinga ræddu hins vegar við Einar Örn í farsíma en ekki liggja fyrir upptökur af þeim samtölum.
Stefnandi átti á þessum tíma hluti í Þorbirni Fiskanesi, að nafnverði 36.161.640 krónur. Stefnandi kveðst aldrei hafa átt orðastað við Einar Örn eða annan starfsmann Íslandsbanka um sölu á hlutum sínum. Þá kveðst stefnandi aldrei hafa veitt neinum umboð til að selja sína hluti í Þorbirni Fiskanesi. Þrátt fyrir það hafi hlutir stefnanda í Þorbirni Fiskanesi komist í hendur stefnda Íslandsbanka hf. sem hafi ráðstafað þeim til stefndu Eiríks, Gunnars og Gerðar á genginu 6,00. Stefnandi telur óljóst hvenær eða hvernig þetta gerðist, en samkvæmt kvittun frá stefnda Íslandsbanka hf. mun þetta hafa átt sér stað 18. febrúar 2004.
Að morgni þriðjudagsins 17. febrúar 2004 útbjó stefndi, Íslandsbanki hf., tilkynningu fyrir stefndu, Gunnar, Eirík og Gerði Sigríði, um fyrirhugaða yfirtöku á Þorbirni Fiskanesi hf. Tilkynningin ásamt staðfestingu á sölu Íslandsbanka á bréfum í félaginu og miðlun hans á bréfum Fiskaneshópsins til Gunnars, Eiríks og Gerðar var send regluverði Þorbjarnar Fiskaness hf. Klukkan 9:25 voru viðskipti með bréf í Þorbirni Fiskanesi stöðvuð.
Kl. 9:52 sendi Kristján Loftsson, fyrirsvarsmaður í Granda hf., Vogun hf. og Fiskveiðihlutafélaginu Venusi hf., tölvupóst til regluvarðar Þorbjarnar Fiskaness hf., þar sem gerð var grein fyrir því að umrædd þrjú félög hefðu í hyggju að selja hluti sína í Þorbirni Fiskanesi hf. og óskað var eftir afstöðu regluvarðar til viðskiptanna.
Kl. 10:14 var samþykki regluvarðar veitt með tölvupósti til Kristjáns Loftssonar. Fjórum mínútum seinna eða kl. 10:18 tilkynnir stefndi Íslandsbanki hf. regluverði Þorbjörns Fiskaness um annars vegar sölu á hluta Íslandsbanka hf. í Þorbirni Fiskanesi, það er 16,93% og hins vegar um miðlun á 20,89% sem var þá hluti Fiskaneshópsins.
Kl. 11:37 er birt tilkynning í Kauphöll Íslands hf. um áðurnefnd viðskipti þar sem fram kemur að stefndu hafi samið um kaup á rúmlega 37% af hlutafé félagsins og að fyrir hafi stefndu, Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður, átt samtals um 14%. Samtals var því hlutur stefndu orðinn rúmlega 52%. Í kjölfar tilkynningarinnar færir Kauphöll Íslands hf. hlutabréf Þorbjarnar Fiskaness hf. á athugunarlista þar sem yfirtökuskylda hafði myndast í félaginu, sbr. tilkynningu sem birt var kl. 12:07 þann dag.
Eftir kl. 15 sama daga náðist samkomulag milli stefndu og fyrirsvarsmanna Granda hf. um verð á hlutum Granda hf., Vogunar hf. og Fiskveiðihlutafélagsins Venusar hf. í Þorbirni Fiskanesi hf. Samkomulag varð um 6,75 krónur pr./hlut. Verðið á hverjum hlut svaraði að nokkru til kaupverðs Granda hf. á bréfunum nokkru áður (6.38 krónur pr./hlut) auk fjármagnskostnaðar þeirra vegna kaupanna frá kaupdegi. Viðskiptin voru tilkynnt til regluvarðar Þorbjarnar Fiskaness hf. og var Kauphöllinni send tilkynning kl. 16:30.
Kl. 16:00 sama dag var birt flöggun vegna sölu Granda hf. á 24% hlut í Þorbirni Fiskanesi hf.
Að morgni miðvikudagsins 18. febrúar birtist tilkynning þar sem fram kom að óstofnaða félagið hefði keypt hlutinn á genginu 6,75.
Sama dag, þ.e. 18. febrúar, átti sér stað uppgjör hjá stefnda, Íslandsbanka hf., vegna viðskipta með bréf Fiskaneshópsins. Þar sem viðskiptin áttu sér stað eftir lok venjulegs vinnudags 16. febrúar voru þau skráð 17. febrúar og greiðsla innt af hendi 18. febrúar. Eftir kaup stefndu á hlutum Íslandsbanka og Fiskaneshópsins höfðu þau eignast meirihluta hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf. Síðari kaup óstofnaða félagsins, sem síðar fékk nafnið ÓK-1 eignarhaldsfélag ehf., einkum af Granda hf., Vogun hf. og Fiskveiðifélaginu Venusi hf., leiddu til þess að stefndu, Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður ásamt Tómasi Þorvaldssyni, voru orðnir eigendur að 85,78% af heildarhlutafé félagsins.
Þennan sama dag eða um kl. 13:18 kvartar einn úr Fiskaneshópnum, Dagbjartur Willardsson, undan því í tölvupósti að greitt hafi verið hærra fyrir hlutina í Granda.
Hinn 20. febrúar 2004, kl. 4:01 sendir Stefán Kristjánsson tölvupóst til Finns Stefánssonar hjá Íslandsbanka hf. og gerir fyrir sína hönd, systur og foreldra athugasemdir varðandi kaupin á hlutabréfunum. Athugasemdirnar lúta að því að efasemdir séu um að löglega hafi verið staðið að viðskiptunum og gerir hann fjárkröfu fyrir mismuninum á genginu 6 og 6,75. Einnig að viðskiptum með bréf í eigu föður hans að nafnverði 20 millj. króna sem sett voru að handveði hjá KB-banka hafi örugglega ekki komist á. Í þriðja lagi lúta athugasemdirnar að því að viðskiptin hafi átt sér stað án fullnægjandi umboða.
Um mánaðamótin febrúar/mars 2004 var öðrum hluthöfum gert yfirtökutilboð í hlutafé þeirra á 6,75 kr. pr/hlut í samræmi við VI. og VII. kafla laga nr. 33/2003.
Þann 1. apríl 2004 samþykkti Kauphöll Íslands hf. ósk stjórnar Þorbjarnar Fiskaness hf. um afskráningu og var félagið afskráð eftir lok viðskipta þann 2. apríl 2004.
Með bréfi, dags. 23. febrúar 2004, setti lögmaður stefnanda fram kröfu á hendur stefnda Íslandsbanka hf. f.h. flestra þeirra sem tilheyrðu Fiskaneshópnum. Var því haldið fram að stefnda Íslandabanka hf. hafi skort heimild til að ráðstafa hluta bréfanna og þess krafist að færslur með þá eignarhluti yrðu bakfærðar. Þá var krafist bóta vegna meints tjóns annarra sem selt höfðu á genginu 6,0. Voru hæfilegar bætur taldar mismunur á genginu 6,0 og gengi í yfirtökutilboði, þ.e. 6,75. Þessum kröfum var alfarið hafnað 15. mars 2004 með bréfi forstöðumanns lögfræðideildar stefnda og grein gerð fyrir þeim viðskiptum sem um ræddi.
Með bréfi lögmanns stefnanda 17. mars 2004 var óskað nánar tiltekinna upplýsinga og gagna en því bréfi var svarað 7. apríl 2004 og með tölvupósti forstöðumanns lögfræðideildar stefnda 23. apríl 2004. Stefndi Íslandsbanki hf. heyrði ekki frekar frá stefnanda fyrr en með birtingu stefnu í málinu.
Aðrir stefndu fengu sent bréf 30. mars 2004 frá lögmanni stefnenda. Er í því bréfi engum sérstökum kröfum beint að þeim, en upplýst að stefndi Íslandsbanki hf. hafi ekki verið til viðræðu um lausn á málinu og leitað eftir því hvort stefndu vilji taka upp viðræður um lausn málsins. Var bréfi þessu svarað með bréfi 15. apríl 2004 og ekki talin ástæða til viðræðna. Það var svo með stefnu birtri 21. maí 2004 sem mál þetta er höfðað.
Samkvæmt samþykkt hluthafafundar í stefnda ÓK-1 ehf. þann 12. júní 2004 var ákveðið að sameina félagið Þorbirni Fiskanesi hf. skv. fyrirliggjandi samrunaáætlun miðað við 1. janúar 2004. Hefur Þorbjörn Fiskanes hf. því tekið við aðild ÓK-1 ehf.
II. Málsástæður og lagarök stefnanda.
Skaðabótakrafan gegn stefndu er byggð á eftirfarandi málsástæðum.
1. óheimilli ráðstöfun hluta í eigu stefnanda í Þorbirni Fiskanesi hf.,
2. röngum eða ófullkomnum tímasetningum tilkynningarskyldra viðskipta og annarra viðskipta,
3. brotum á reglum um tilkynningarskyldu innherja,
4. innherjasvikum og niðurbroti Kínamúra,
5. markaðsmisnotkun,
6. broti á trúnaðarskyldum gagnvart almennum hluthöfum.
Um óheimila ráðstöfun hluta.
Stefnandi byggir á því að fjármálafyrirtæki, sem ráðstafa hlutum viðskiptavina sinna, beri skylda til að tryggja sér skýrar og glöggar heimildir sem sýna m.a. að samningar um slíkt hafi tekist, hvenær það hafi gerst nákvæmlega og á hvaða gengi.
Stefnandi heldur því fram, að stefnda Íslandsbanka hf. hafi verið óheimilt að ráðstafa hlutum stefnanda til stefndu Gunnars, Eiríks og Gerðar f.h. óstofnaða félagsins. Til að slík yfirfærsla gæti löglega átt sér stað, hefði stefndi Íslandsbanki hf. þurft að tryggja sér skýra og glögga heimild til yfirfærslunnar. Það hafi stefndi Íslandsbanki ekki gert. Með yfirfærslunni hafi stefndi því ónýtt fyrir stefnanda þau verðmæti sem fólust í hlutunum í Þorbirni Fiskanesi gegn greiðslu á óviðunandi gengi, 6,00 kr. á hlut.
Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna samsvarar upplausnarverð félagsins genginu 10,07 á hlut í staðinn fyrir 6 krónur á hlut sem greitt var til stefnanda. Stefnandi átti 36.161.640 krónur að nafnverði. Það þýðir að hefði hann fengið greitt miðað við upplausnarverð hefði hann fengið í sinn hlut sem nemur aðalkröfu í málinu. Til vara er gerð krafa um að verðmæti hlutanna hafi verið a.m.k. 6,75 og sé þá horft til viðskipta Granda hf. við stefndu Gunnar, Eirík og Gerði f.h. óstofnaða félagsins. Miðast varakrafa stefnanda við mismun á verðmæti hlutanna á genginu 6,00 og 6,75.
Stefnandi beinir kröfum sínum að stefnda Íslandsbanka hf. sem framkvæmdaraðila hinnar ólögmætu færslu. Þá beinir stefnandi kröfum sínum að stefndu Gunnari, Eiríki og Gerði á þeim forsendum að ráðstöfunin hafi farið fram að þeirra undirlagi, með þeirra þátttöku og hafi verið saknæm. Þau beri því in solidum ábyrgð á henni samkvæmt almennu sakarreglunni. Þá beinir stefnandi kröfum að ÓK-1 eignarhaldsfélagi ehf., nú Þorbirni Fiskanesi, á þeim grundvelli að félagið hafi axlað ábyrgð á ráðstöfuninni og skaðaverkinu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um einkahlutafélög.
Um tímasetningu viðskipta.
Stefnandi byggir einnig á því að stefndi Íslandsbanki hf. hafi, þegar ráðstöfun á hlutum stefnanda hafi farið fram, vitað til þess að munnlegir samningar hafi tekist um að óstofnaða félagið keypti bréf Granda á genginu 6,75. Hafi slík vitneskja legið fyrir hefði stefnda bankanum átt að vera ljóst að stefnandi hefði aldrei selt á genginu 6. Við slíkar aðstæður hefði stefnandi nefnilega alltaf átt rétt til verðsins 6,75 í væntanlegu yfirtökutilboði samkvæmt VI. kafla laga um verðbréfaviðskipti, sbr. einkum 33. gr. Því hefði stefndi bankinn aldrei mátt framkvæma viðskiptin nema veita stefnanda sannanlega upplýsingar um þessa aðstöðu, sbr. 6. gr. laga um verðbréfaviðskipti.
Stefnandi beinir kröfum sínum að stefnda Íslandsbanka á þeim forsendum að bankinn hafi brotið gegn skyldum sínum með þessu. Þá beinir stefnandi kröfum sínum að stefndu, Gunnari, Eiríki og Gerði Sigríði, á þeim forsendum að ráðstöfunin hafi farið fram að þeirra undirlagi, með þeirra þátttöku og á saknæman hátt. Þau beri því ábyrgð á grundvelli almennu sakarreglunnar. Þá beinir stefnandi kröfum að ÓK-1 eignarhaldsfélagi ehf. nú Þorbirni Fiskanesi, á þeim grundvelli að félagið hafi axlað ábyrgð á ráðstöfuninni og skaðaverkinu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um einkahlutafélög.
Um brot á tilkynningarskyldu innherja.
Samkvæmt 47. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 ber fruminnherja, áður en hann eða fjárhagslega tengdur aðili á viðskipti með verðbréf, að tilkynna um slíkt til regluvarðar. Regluverðinum ber svo að tilkynna um slík viðskipti samdægurs til kauphallar. Hugtakið viðskipti í þessum skilningi er rýmra en bara bein kaup eða sala á verðbréfum. Ýmiss konar óbeinir gerningar og þess vegna óformlegir, koma þar til álita. Þá geta fjárhagsleg tengsl verið margs konar milli aðila þannig að ákvæðið eigi við. Fjármálafyrirtæki sem hafa milligöngu um viðskipti bera sérstakar skyldur til að tryggja að eftir þessum reglum sé farið, sbr. 45. gr. laganna.
Þá ber þeim sem kaupir hlut í félagi að tilkynna í hvert skipti sem eignarhald hans hækkar upp fyrir margfeldi af 5% hluta í félaginu. Við afmörkun þess eignarhalds skal ekki einungis litið til þeirra hluta sem viðkomandi aðili er skráður fyrir sjálfur. Þess í stað er m.a. litið til hluta sem annar aðili ræður yfir í eigin nafni fyrir hönd hins tilkynningarskylda. Formleg skráning á eignarhaldi hlutanna skiptir því ekki máli. Vísast um þetta til 27. og 28. gr. laga um verðbréfaviðskipti.
Stefnandi telur sýnt, að kaup Íslandsbanka á bréfum í Þorbirni Fiskanesi hafi verið í þágu stefndu, Gunnars, Eiríks og Gerðar, f.h. óstofnaða félagsins. Því til sönnunar má t.d. nefna að meðan á kaupum bankans stóð munu starfsmenn bankans hafa gefið það í skyn í símtölum að kaupin væru gerð í þágu viðskiptavinar bankans. Þá munu stefndu fruminnherjarnir hafa sagst í votta viðurvist standa á bak við kaupin. Þá má einnig leiða af greinarskrifum eins þeirra í Morgunblaðið að þau hafi byrjað að leita eftir slíkum kaupum um svipað leyti og Íslandsbanki hóf sín kaup. Eins benda tölvupóstbréf frá starfsmönnum bankans til þess að á bak við viðskiptin hafi staðið annar kaupandi en bankinn. Loks bendir aðkoma fyrirtækjaþróunar stefnda bankans að málinu til þess, að ekki hafi verið um að ræða eigin fjárfestingu bankans. Með slíkar fjárfestingar fer sérstök eining bankans sem er í rekstri og er upplýsingaflæðið aðskilið frá m.a. fyrirtækjaþróun. Það er gert til að koma í veg fyrir að eigin fjárfestingar bankans byggi viðskipti á trúnaðarupplýsingum frá viðskiptavinum bankans.
Stefnandi heldur því fram að samkvæmt þessu megi telja sýnt að stefndu, Gunnar, Eiríkur, Gerður, og óstofnaða félagið hafi átt að tilkynna um viðskiptin jafnóðum, enda hafi þau verið gerð í þeirra þágu. Jafnframt megi ætla að fjárhagsleg tengsl hafi verið milli þessara stefndu og stefnda bankans vegna fyrirsjáanlegrar fjármögnunar kaupanna. Þá hafi stefndi Íslandsbanki hf., sem milligönguaðili um viðskiptin, átt að tryggja að slíkar tilkynningar væru sendar Kauphöll. Auk þess megi telja að stefndu, Gunnar, Eiríkur, Gerður, og óstofnaða félagið hafi átt að tilkynna í hvert sinn sem samanlögð hlutafjáreign þeirra, með hlutum bankans meðtöldum, hefði farið yfir margfeldi af 5%. Hefði því fyrsta tilkynningin átt að bera með sér yfirráð yfir 15% eignarhlut þessara aðila, í stað 5% eignarhlutar bankans.
Stefnandi telur að tilkynningar af þessum toga hefðu aukið verulega þrýsting á verð bréfa í Þorbirni Fiskanesi til hækkunar. Hefðu slíkar tilkynningar verið gefnar hefði markaðurinn strax séð að í yfirtöku stefndi og verð hefði því að líkum hækkað. Þessi líklega verðhækkun hafi verið höfð af stefnanda með ólögmætum vinnubrögðum stefndu.
Um innherjasvik og hrun Kínamúra.
Stefnandi telur sýnt að stefndu hafi sammælst um að fremja innherjasvik. Samkvæmt 44. gr. laga um verðbréfaviðskipti er innherja óheimilt að eiga viðskipti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum.
Þorbjörn Fiskanes birti 9 mánaða uppgjör sitt 4. nóvember 2003. Þegar Íslandsbanki hóf kaup sín á hlutum í félaginu 11. febrúar 2004 voru því liðnir rúmir þrír mánuðir frá því að félagið birti síðast upplýsingar um fjárhag sinn og rekstur. Í millitíðinni hafði Þorbjörn yfirtekið allt hlutafé í félaginu Kára GK 146 ehf. Var því fjárhagsstaða Þorbjarnar afar óljós öllum öðrum en innherjum í félaginu. Stefndu Gerður, Gunnar og Eiríkur hafi því búið yfir innherjaupplýsingum. Þegar þau keyptu hluti í félaginu við yfirtökuna hafi þau því framið innherjasvik.
Stefnandi telur jafnframt að stefndi Íslandsbanki hf. hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar bankinn keypti hluti í Þorbirni. Í þeim efnum vísar stefnandi til þess að fyrirtækjaþróun Íslandsbanka sá um viðskiptin. Gera verður ráð fyrir að fyrirtækjaþróunin hafi aðstoðað stefndu, Gerði, Gunnar og Eirík, við fjármögnun kaupa þeirra á Þorbirni. Um milljarðafjármögnun hafi verið að ræða. Það verður því að gera ráð fyrir að viðræður um hana hafi staðið um nokkurn tíma. Í þeim viðræðum hafa að líkum borið á góma innherjaupplýsingarnar um stöðu félagsins. Verður því að ætla að fyrirtækjaþróunin hafi búið yfir innherjaupplýsingum um rekstur Þorbjarnar. Við þessar aðstæður var fyrirtækjaþróuninni óheimilt að hefja kaup á hlutum í félaginu á markaði. Í því fólust innherjasvik. Í þessu broti hafi stefndu, Gerður, Eiríkur, Gunnar, og óstofnaða félagið sýnilega tekið þátt og uppskorið afraksturinn af því. Bera stefndu því óskipta ábyrgð á þessu gagnvart stefnanda.
Stefnandi bendir á 13. og 14. gr. laga um verðbréfaviðskipti og starfsreglur Íslandsbanka. Samkvæmt téðum lagaákvæðum og reglum er starfsmönnum fyrirtækjaþróunar Íslandsbanka óheimilt að eiga viðskipti í eigin reikning bankans. Helgast það af greiðum aðgangi starfsmanna fyrirtækjaþróunar að trúnaðaráformum viðskiptavina bankans og rekstrarupplýsingum.
Af þessum ástæðum ber Íslandsbanka að tryggja, að engar upplýsingar berist frá fyrirtækjaþróun til þeirra aðila sem eiga viðskipti fyrir eigin reikning bankans. Eins ber bankanum að tryggja að engir starfsmenn fyrirtækjaþróunar eigi viðskipti fyrir reikning bankans. Þá ber bankanum að koma upp órjúfanlegum veggjum eða svonefndum Kínamúrum til að hindra upplýsingaflæði frá fyrirtækjaþróuninni til þeirra starfsmanna sem eiga viðskipti fyrir bankann sjálfan. Á fyrirkomulag viðskipta bankans að þessu leyti að vera svo öruggt, að „fyllsta trúverðugleika fjármálafyrirtækis sé gætt“, sbr. 1. tl. 14. gr. laganna.
Telur stefnandi, að því fari fjarri að trúverðugleika hafi verið gætt hér. Væri það rétt að bankinn hafi átt þessi viðskipti fyrir eigin reikning fælist í því alvarlegt og skýrt brot á reglum bankans og 13. og 14. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Þá hefðu upplýsingar ekki lekið í gegnum Kínamúrinn, heldur hefði Íslandsbanki í raun látið sem múrinn væri hruninn eða einfaldlega ekki til. Er því fyllsta ástæða til tortryggni.
Stefnandi telur að ef umræddar innherjaupplýsingar, sem viðskipti bankans í þágu stefndu, Gunnars, Eiríks og Gerðar, byggðu á, hefðu legið fyrir, þá hefði gengi hluta í Þorbirni a.m.k. verið 6,75, en stefndu voru tilbúnir að greiða það verð að gefnum umræddum innherjaupplýsingum. Í raun telur stefnandi að verðið hefði orðið enn hærra sbr. niðurstöðu matsgerðarinnar.
Um markaðsmisnotkun.
Samkvæmt 41. gr. laga um verðbréfaviðskipti er markaðsmisnotkun óheimil. Stefnandi telur sýnt, að með því að halda leyndu hverjir stóðu á bak við viðskiptin hafi allir stefndu valdið því að eftirspurn eftir bréfum í Þorbirni Fiskanesi væri gefin ranglega eða misvísandi til kynna. Það sama hafi allir stefndu gert með því að láta í það skína að bankinn stæði einn á bak við kaupin.
Með þessu hafi stefndu valdið stefnanda tjóni sem svari til dómkrafnanna.
Um brot á trúnaðarskyldum gagnvart almennum hluthöfum.
Af 76. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 leiðir að stjórnendur félags bera trúnaðarskyldu gagnvart félagi og þar með gagnvart öllum hluthöfum. Stjórnendum er þannig óheimilt að notfæra sér aðstöðu sína til persónulegs ávinnings.
Stefnandi telur atvik málsins sýna, að stefndu, Gunnar, Eiríkur og Gerður, hafi gefið Íslandsbanka, og eftir atvikum öðrum fjármögnunaraðilum, nákvæmar innherjaupplýsingar um fjárhag, rekstur og horfur Þorbjarnar Fiskaness frá birtingu 9 mánaða uppgjörsins. Þetta hafi þau getað gert vegna stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og varastjórnarmaður í Þorbirni Fiskanesi. Með þessu hafi þau getað samið um fjármögnun yfirtöku Þorbjarnar Fiskaness á hagstæðu verði. Þetta hafi þau ekki tilkynnt öðrum hluthöfum. Þetta hafi ekki verið gert í þágu annarra hluthafa heldur í þeirra eigin þágu. Þau hafi því notfært sér aðstöðu sína til persónulegs ávinnings og brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart félaginu og öðrum hluthöfum. Á því beri þau bótaskyldu samkvæmt 134. gr. hlutafélagalaga og almennu sakarreglunni. Jafnframt telur stefnandi stefnda Íslandsbanka bera ábyrgð á þessu sem beinum þátttakanda í brotinu. Byggist það á almennu sakarreglunni.
Um lagarök vísast til laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, almennra varúðarskyldna banka og fjármálafyrirtækja og almennu sakarreglunnar. Þá vísast um dráttarvexti til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnaðarkröfu stefnanda vísast svo loks til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III. Málsástæður og lagarök stefnda Íslandsbanka hf.
Um óheimila ráðstöfun hluta.
Varðandi þessa málsástæðu tekur stefndi fram, að sá starfsmaður stefnda sem sá um umrædd viðskipti, Einar Örn Ólafsson, náði ekki afriti af samtölum við alla seljendur í Fiskaneshópnum. Ekki liggur fyrir afrit af samtali við stefnanda. Einar Örn ræddi aftur á móti við Stefán Kristjánsson, son stefnanda, í síma mánudaginn 16. febrúar 2004. Í því samtali staðfesti Stefán að hann, systir hans, stefnandi og eiginkona stefnanda ætluðu öll að selja bréf sín í Þorbirni Fiskanesi hf. á genginu 6. Daginn eftir fékk Einar Örn tölvupóst frá Stefáni þar sem hann vísaði til þess að stefnandi væri í fjárvörslu hjá stefnda og upplýsingar um reikning stefnanda og hvar hlutabréf hans væru niður komin ættu því að liggja fyrir hjá stefnda. Stefán kom frá upphafi fram fyrir foreldra sína og systur í þessum viðskiptum. Stefndi hafði enga ástæðu til að draga umboð Stefáns í efa og telur að fullnægjandi umboð hafi legið fyrir til þessarar ráðstöfunar.
Stefndi tekur fram að ástæða þess að ekki var talin þörf á sannanlegu umboði til þessara kaupa frá öllum seljendum var meðal annars að rekja til þess, að stefnda var um það kunnugt að seljendur höfðu í samningaferlinu komið fram sem heild og munnlegar staðfestingar höfðu borist frá forsvarsmönnum hópsins þess efnis að allir hefðu staðfest vilja til að selja hluti sína á genginu 6 til meðstefndu. Samtöl Einars Arnar við fjölda einstaklinga innan hópsins gáfu auk þess fullt tilefni til að ætla að fullkomin samstaða væri innan hópsins um sölu til meðstefndu. Stefndi telur að viðskiptin hafi gengið hratt fyrir sig og staðfestingu á þeim hafi verið aflað á skömmum tíma eftir lok venjulegs vinnudags mánudaginn 16. febrúar 2004.
Stefndi tekur fram að ef svo ólíklega fari að ráðstöfun stefnda á hlutabréfum stefnanda verði talin ólögmæt er á því byggt, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu fjártjóni vegna þessarar ráðstöfunar.
Hlutabréf stefnanda voru að hluta til á VS-reikningi í vörslu KB banka hf. Ljóst sé að stefndi gat ekki ráðstafað hlutum seljenda til meðstefndu án samþykkis þeirra fyrrnefndu. Bréfin voru vistuð hjá fjármálastofnunum sem rétt hafa til milligöngu um eignaskráningar í verðbréfamiðstöð skv. 10. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 397/2000. Einungis reikningsstofnun sem eigandi hluta hefur gert samning við er heimilt að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð og framselja eignir hans inn á svokallað hlutlaust svæði verðbréfamiðstöðvar. Reikningsstofnun getur einungis flutt þá hluti sem eru á VS-reikningum í vörslu stofnunarinnar og þá með samþykki eiganda hlutanna. Af þessu leiðir að stefndi gat ekki einhliða sótt aðra hluti en þá sem voru í eigu aðila sem áttu VS-reikning í vörslu stefnda. Þetta er ástæða þess að í hljóðrituðum samtölum starfsmanns stefnda við seljendur var iðulega tekið fram að viðkomandi þyrfti að gera ráðstafanir til þess að færa bréfin inn á hlutlausa svæðið.
Stefndi heldur því fram að í ljósi þess að bréf stefnanda reyndust laus til ráðstöfunar inni á hlutlausa svæðinu þegar á reyndi sé augljóst að stefnandi hafi óskað eftir því við KB banka hf. að bréfin yrðu framseld inn á hlutlausa svæðið og bankinn orðið við þeirri beiðni. Með vísan til framangreinds telur stefndi sýnt að ómöguleiki var fyrir hendi til ráðstöfunar þessara hluta stefnanda til meðstefndu ef ekki hefði komið til samþykki stefnanda og milliganga KB banka hf. Af því leiðir að krafa stefnanda um bætur á þeim grundvelli að ráðstöfunin hafi verið ólögmæt á sér enga stoð. Stefndi vísar jafnframt til þess að hafi hlutabréf stefnanda verið framseld af VS- reikningum hans hjá KB banka hf. í heimildarleysi, svo sem stefnandi virðist halda fram, þá verði tjón sem rekja mætti til slíkrar háttsemi einungis sótt til KB banka hf. og/eða Verðbréfamiðstöðvar Íslands hf., sbr. 28.-30. gr. laga nr. 131/1997. Þeirri kröfu verður ekki beint gegn stefnda.
Þá vísar stefndi til þess að þar sem atbeina stefnanda og KB banka hf. þurfti til að framselja þau bréf sem voru á VS-reikningi í vörslu bankans þá felist í þeirri ráðstöfun frekari staðfesting á því að stefnda hafi að sama skapi verið veitt heimild til að ráðstafa þeim bréfum sem vistuð voru á VS-reikningi í vörslu stefnda.
Um tímasetningu viðskipta.
Stefndi mótmælir sem röngum fullyrðingum stefnanda að samningar hafi tekist við Granda hf. um kaup á hlut félagsins í Þorbirni Fiskanesi hf. áður en samningar tókust við stefnanda. Stefndi ítrekar tímaröð atvika eins og þau birtast í gögnum málsins og málavaxtalýsingu. Af þeirri lýsingu megi glöggt sjá að frá samningum með kaupum á bréfum stefnanda og annarra í Fiskaneshópnum, var gengið mánudaginn 16. febrúar. Tilkynnt var um viðskiptin til regluvarðar Þorbjarnar Fiskaness hf. og Kauphallar Íslands hf. strax að morgni þriðjudagsins 17. febrúar. Stefnda er ekki kunnugt um að neinir samningar hafi fyrir þann tíma tekist um kaup á hlutum Granda hf. Af tilkynningu Kristjáns Loftssonar, stjórnarmanns í Granda hf., til regluvarðar að morgni þriðjudagsins 17. febrúar um að félagið hyggist selja hluti sína í Þorbirni Fiskanesi hf. er ljóst að hlutunum hafði ekki verið ráðstafað á þeim tíma. Óskað er eftir afstöðu regluvarðar til væntanlegra viðskipta. Það er því fyrst eftir þetta tímamark sem viðskiptin áttu sér stað. Flöggun Granda hf. kl. 16:00 þennan sama dag staðfestir enn frekar að viðskiptin áttu sér ekki stað fyrr en síðar þennan sama dag.
Stefndu telja framangreinda málsástæðu stefnanda alfarið reista á fullyrðingu sem samkvæmt framangreindu sé augljóslega röng. Ljóst er að stefndi fékk fyrst vitneskju um vilja Granda hf. til að selja hluti félagsins í Þorbirni Fiskanesi hf. síðari hluta þriðjudagsins 17. febrúar. Þegar af þeirri ástæðu ber að hafna þessari málsástæðu stefnanda. Þá ber jafnframt að líta til þess að stefndi var í þessum viðskiptum eingöngu milligönguaðili milli stefnanda og meðstefndu en keypti hvorki né seldi í eigin nafni. Ákvörðun um verð í viðskiptunum var því alfarið stefnanda og meðstefndu en ekki stefnda.
Um brot á tilkynningarskyldu innherja.
Stefndi bendir á að hann gerði samning við meðstefndu 3. febrúar 2004 þar sem stefndi tók að sér margvíslega aðstoð og ráðgjöf við meðstefndu í tengslum við fyrirhuguð kaup þeirra á hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf. Sá samningur breytir engu um þá staðreynd að kaup stefnda á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. voru í nafni og á áhættu stefnda. Í samningi stefnda við meðstefndu er ekki að finna ákvæði um kauprétt meðstefndu eða sölurétt stefnda og engum öðrum samningum var til að dreifa, hvorki munnlegum né skriflegum. Stefndi bar því alfarið áhættu af eigin kaupum og átti enga kröfu til þess að meðstefndu keyptu þá hluti síðar.
Af þessu leiðir að stefnda var rétt og skylt að tilkynna um kaupin til Kauphallar Íslands hf. þegar verulegum eignarhlut var náð í skilningi 27. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Stefndi telur ljóst að ekki séu nokkrar forsendur til að túlka samning stefnda við meðstefnda frá 3. febrúar 2004 svo að meðstefndu hafi eftir gerð þess samnings átt að telja eignarhluta stefnda til síns eigin. Í 28. gr. laga um verðbréfaviðskipti eru talin upp í 9 töluliðum atriði sem líta ber til við afmörkun eignarhluta hvers hluthafa. Ekkert þeirra atriða sem þar eru upp talin eiga við um samningssamband stefnda og meðstefndu.
Stefndi bendir á, að Fjármálaeftirlitið hafi tekið kaup stefnda á hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf. og sölu á þeim hlutum til meðstefndu til skoðunar skömmu eftir að þau viðskipti áttu sér stað. Rannsókn Fjármálaeftirlitsins tók til þeirra samninga sem þarna lágu að baki, þar með ráðgjafarsamnings stefnda og meðstefndu, og þess hvort rétt hafi verið staðið að flöggunum vegna umræddra kaupa. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins var sú að ekki væri ástæða til að grípa til neinna aðgerða og málinu var lokað í maí 2004.
Vegna tilvísunar stefnanda til ákvæða 45. og 47. gr. laga um verðbréfaviðskipti tekur stefndi fram að með vísan til framangreinds leiki enginn vafi á því að meðstefndu stóðu réttilega að samskiptum við regluvörð vegna kaupa í Þorbirni Fiskanesi hf. og starfsmenn stefnda urðu einskis áskynja sem gaf ástæðu til að ætla að kaup meðstefndu færu í bága við ákvæði IX. kafla laga um verðbréfaviðskipti.
Um innherjasvik og hrun Kínamúra.
Stefndi hafnar þessari málsástæðu stefnanda. Stefndi telur fyrir það fyrsta ljóst að meðstefndu hafi ekki búið yfir neinum innherjaupplýsingum á þeim tíma sem hér skiptir máli. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga um verðbréfaviðskipti er með innherjaupplýsingum átt við „upplýsingar um útgefanda verðbréfa, verðbréfin sjálf eða önnur atriði sem ekki hafa verið gerðar opinberar en eru líklegar til þess að hafa áhrif á markaðsverð fjármálagerninga ef opinberar væru.“ Samkvæmt þessu þurfa upplýsingar um útgefanda verðbréfa að uppfylla tvenns konar skilyrði til að geta talist til innherjaupplýsinga, þ.e. í fyrsta lagi að þær hafi ekki verið gerðar opinberar og í öðru lagi að þær séu líklegar til að hafa áhrif á markaðsverð verðbréfanna ef opinberar væru.
Stefnandi hefur sem fyrr segir vísað til þess að fjárhagsstaða Þorbjarnar Fiskaness hf. hafi verið afar óljós þar sem það hafi gerst frá níu mánaða uppgjöri að hlutafé í Kára GK 146 ehf. hafi verið yfirtekið. Stefndi tekur fram að í málinu liggi fyrir tilkynning Þorbjarnar Fiskaness hf. til Kauphallar Íslands hf., dags. 10. nóvember 2003, um kaup á öllu hlutafé í Kára GK 146 ehf. Í tilkynningunni er jafnframt gerð grein fyrir því að eign hins yfirtekna félags hafi verið nánar tilgreind aflahlutdeild og aflamark.
Samkvæmt þessu liggur því fyrir að þau atvik sem stefnandi telur til marks um að stefndi hafi búið yfir innherjaupplýsingum höfðu verið gerð opinber löngu áður en til þeirra kaupa kom sem deilt er um í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða telst opinber birting hafa átt sér stað þegar tilkynning er komin til kauphallar sem tekið hefur verðbréfin til opinberrar skráningar og hefur verið miðlað til kauphallaraðila í samræmi við reglur sem stjórn kauphallarinnar setur. Stefndi telur engan vafa leika á því, að kaupin á Kára KG 146 ehf. voru birt með fullnægjandi hætti.
Þessu til viðbótar bendir stefndi á, að engar óvæntar breytingar urðu á afkomu Þorbjarnar Fiskaness hf. á þeim mánuðum sem liðu frá birtingu 9 mánaða uppgjörsins þar til þau viðskipti áttu sér stað sem deilt er um í málinu. Samanburður á 9 mánaða uppgjöri og ársreikningi staðfestir að engar breytingar urðu á afkomutölum til ársloka 2003 sem máli geta skipt í þessu sambandi. Hér má jafnframt benda á að þegar meðstefndu tilkynntu regluverði Þorbjarnar Fiskaness hf. 16. febrúar 2004 um að óstofnað félag í þeirra eigu myndi hugsanlega eiga viðskipti með hlutabréf í félaginu þá staðfesti regluvörður að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu þar sem ekkert benti til að væntanlegt uppgjör yrði frábrugðið því sem fyrri uppgjör gáfu tilefni til að ætla.
Þegar af þeirri ástæðu að meðstefndu bjuggu ekki á umræddum tíma yfir innherjaupplýsingum er ljóst að stefndi bjó ekki yfir neinum slíkum upplýsingum. Þá ber jafnframt að vekja athygli á því, að þeir starfsmenn stefnda sem stóðu að kaupum stefnda á hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. eru ekki þeir hinir sömu og tóku ákvörðun um fjármögnun kaupa meðstefndu. Starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar, Einar Örn Ólafsson, annaðist þessi kaup stefnda. Fjármögnun kaupa meðstefndu annaðist hins vegar lánastjóri stefnda. Engar upplýsingar um rekstur Þorbjarnar Fiskaness hf. fóru á milli umræddra starfsmanna stefnda.
Stefnandi vísar jafnframt til ákvæða 13. og 14. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Umræddum ákvæðum er ætlað að fyrirbyggja að fjármálafyrirtæki sem búa yfir innherjaupplýsingum um útgefendur verðbréfa geti nýtt þær upplýsingar til hagsbóta fyrir aðra viðskiptamenn eða eftir atvikum til eigin fjárfestinga. Í ljósi þess að stefndi bjó sannanlega ekki yfir neinum innherjaupplýsingum verður ekki séð að þessi lagatilvísun stefnanda hafi nokkra sjálfstæða þýðingu.
Stefndi tekur fram, að hann hafi sett ítarlegar verklagsreglur sem ætlað er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfsemi bankans og draga úr hættu á að fyrirfram megi draga í efa óhlutdrægni starfsmanna við meðferð og afgreiðslu einstakra mála. Í reglunum er m.a. mælt fyrir um aðskilnað á milli deilda, þ.e. svokallaða Kínamúra. Þessar reglur hafa verið samþykktar af Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið kom á starfsstöð stefnda skömmu eftir viðskiptin með bréfin í Þorbirni Fiskanesi hf. og fór yfir samninga tengda þeim viðskiptum sem hér eru til umfjöllunar og sá ekki ástæðu til að gera athugasemdir við starfsaðferðir stefnda. Stefndi telur ljóst að starfsmenn bankans hafi í engu misnotað trúnaðarupplýsingar eða nýtt sér slíkar upplýsingar í ágóðaskyni fyrir bankann eða til að mismuna viðskiptavinum bankans.
Um markaðsmisnotkun.
Stefndi áréttar það sem áður hefur komið fram um að kaup á hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. 11. og 13. febrúar hafi verið fyrir eigin reikning bankans og á hans áhættu. Fullyrðingar stefnanda um að meðstefndu hafi verið raunverulegir kaupendur eru rangar. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki byggt á því að stefndi hafi brotið gegn 41. gr. laga um verðbréfaviðskipti með því að veita markaðnum rangar upplýsingar.
Stefndi vekur jafnframt athygli á því, að ákvörðun verðs í viðskiptum stefnanda og meðstefndu átti sér stað með samningsgerð þeirra á milli. Stefndi kom ekki að þeim gerningi á annan hátt en þann að sjá um frágang þeirra viðskipta, þ.e. með því að annast milligöngu um greiðslu fyrir hlutaféð og færslu hlutafjárins yfir á VS-reikninga meðstefndu. Vandséð er hvernig stefndi gat mögulega haft í frammi blekkingar gagnvart markaðnum eða stefnanda í þeim viðskiptum. Þá ber jafnframt að líta til þess að stefnanda var fullkomlega kunnugt um það hver gagnaðili í viðskiptunum var. Stefnandi getur ekki haldið því fram nú að hann hafi verið í einhverri villu um það hver kaupandi bréfanna var.
Um brot á trúnaðarskyldum gagnvart almennum hluthöfum.
Stefndi hafnar þessari málsástæðu og ítrekar þau sjónarmið að hvorki meðstefndu né starfsmenn stefnda hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar kaupin áttu sér stað. Fullyrðingar um að meðstefndu hafi nýtt sér einhverjar slíkar upplýsingar sem ekki hafi verið aðgengilegar öðrum til að kaupa hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. á hagstæðu verði eiga að mati stefnda ekki við nokkur rök að styðjast. Stefndi telur þvert á móti að gengi í viðskiptum við stefnanda hafi verið hærra en stefnandi hefði mögulega getað fengið við sölu á markaði. Um umsamið verð í viðskiptunum og vitneskju stefnanda og annarra innan Fiskaneshópsins um verðmæti Þorbjarnar Fiskaness hf. vísast að öðru leyti til umfjöllunar hér á eftir.
Stefndi mótmælir því sérstaklega að hann geti borið ábyrgð á meintum brotum meðstefndu gegn ákvæðum 76. gr. hlutafélagalaga. Til þess skortir öll skilyrði bótaábyrgðar á grundvelli almennu sakarreglunnar.
Um málatilbúnað stefnanda og grundvöll bótakröfunnar.
Stefndi telur að sýnt hafi verið fram á að hann hafi í engu brotið gegn réttarreglum í þeim viðskiptum sem hér eru til umfjöllunar. Þá telur stefndi að jafnvel þótt skilyrði um sök væri uppfyllt þá hafi skilyrði um orsakatengsl slíks réttarbrots og meints tjóns stefnanda ekki verið uppfyllt. Loks telur stefndi að gögn málsins styðji ekki á nokkurn hátt fullyrðingar stefnanda um að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna sölu hlutafjáreignar í Þorbirni Fiskanesi hf.
Málflutningur stefnanda er að stórum hluta reistur á þeirri forsendu að stefndu í þessu máli hafi sammælst um að blekkja stefnanda og markaðinn í heild. Þannig hafi stefndi brotið gegn ýmsum ákvæðum laga með því að fara með kaup á hlutum í Þorbirni Fiskanesi hf. sem sín eigin þrátt fyrir að þau hafi í raun verið fyrir reikning meðstefndu. Jafnvel þótt gengið yrði svo langt að fallast að einhverju marki á þessa framsetningu stefnanda þá er með öllu ósannað að þessi meintu röngu skilaboð inn á markaðinn hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem styðja þá fullyrðingu stefnanda að rangar tilkynningar hafi leitt til minni eftirspurnar eða lægra verðs á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf.
Stefndi bendir á það í þessu sambandi að gengi í Þorbirni Fiskanesi hf. hafi síðustu mánuði fram að kaupum meðstefndu legið í kringum 5. Áður hefur verið vikið að því að engin breyting varð á rekstri Þorbjarnar Fiskaness hf. síðustu mánuðina fyrir hin umþrættu viðskipti sem áhrif gat haft á verð hluta í fyrirtækinu. Allar upplýsingar um fyrirtækið sem máli gátu skipt við verðmat á fyrirtækinu voru opinberar á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað. Stefndi telur að einstaklingar innan Fiskaneshópsins hafi um nokkurn tíma fyrir viðskiptin freistað þess að selja hluti sína á markaði á gengi sem var ekki hærra en 6,0 en án árangurs.
Stefnandi og aðrir innan Fiskaneshópsins voru ekki í neinni villu um það, þegar hlutaféð í Þorbirni Fiskanesi hf. var selt, hverjir stóðu að baki viðskiptunum. Forsvarsmenn Fiskaneshópsins sömdu beint við meðstefndu um gengi í viðskiptunum. Stefndi telur að bæði sonur stefnanda, Stefán Kristjánsson, og stefnandi sjálfur hafi komið að viðræðunum. Umtalsverðar samningaviðræður munu hafa átt sér stað og stefndi telur að leitað hafi verið ráðgjafar frá Landsbanka Íslands hf. um hugsanleg kaup hluthafa sem tilheyrðu Fiskaneshópnum á hlutum meðstefndu á sama gengi. Þær áætlanir gengu hins vegar ekki eftir og hópurinn í heild virðist hafa séð það sem betri kost að selja eigin hlut á því gengi. Í ljósi þessa aðdraganda og vitneskju stefnanda og annarra innan Fiskaneshópsins um hver kaupandi bréfanna var verður ekki á því byggt af hálfu stefnanda að hann hafi látið blekkjast af meintum villandi upplýsingum til markaðarins.
Stefndi vísar í þessu sambandi m.a. til greina eins forsvarsmanna Fiskaneshópsins, Willards Fiske Ólasonar, sem birtust í Morgunblaðinu 15. mars og 4. apríl 2004. Í umræddum greinum er staðfest að fyrrum eigendur Fiskaness hafi frá upphafi viðskipta stefnda með bréf í Þorbirni Fiskanesi hf. vitað af samstarfi stefnda og meðstefndu. Þá er enn fremur vísað til þess að þessi sami hópur hafi vitað hver stóð á bak við kaup stefnda 11. og 13. febrúar, enda hafi meðstefndu gert grein fyrir því sjálfir. Samkvæmt þessu töldu fyrrum eigendur Fiskaness frá upphafi að meðstefndu stæðu að baki kaupum stefnda. Verði talið að tilkynningar stefnda til Kauphallar Íslands hf. um þessi viðskipti hafi verið rangar er ljóst að meðlimir Fiskaneshópsins geta ekki byggt bótakröfu á því að þeir hafi látið blekkjast af þessum tilkynningum.
Vegna fullyrðinga stefnanda um að sala á genginu 6 hefði aldrei átt sér stað ef upplýsingar um gengi í viðskiptum við Granda hf. hefðu legið fyrir skal tekið fram að öllum hluthöfum í Fiskaneshópnum var það fullkomlega ljóst að líkur voru til þess að eignarhluti Granda hf. væri ekki falur nema á gengi sem væri hærra en 6. Til þess lágu ástæður sem ekki verða raktar hér en verða án efa upplýstar af meðstefndu. Þá telur stefndi jafnframt að Fiskaneshópurinn hafi kannað hvert líklegt verð á hlutum Granda hf. myndi verða þegar meðlimir hans könnuðu möguleika á að kaupa hlut meðstefndu. Stefndi telur lítt stoða fyrir stefnanda að krefjast bóta á þeim grunni að til viðskiptanna hefði ekki komið ef vitað hefði verið að Grandi hf. myndi selja á hærra gengi.
Stefndi telur rétt að taka fram að aldrei hefði getað orðið af kaupum meðstefndu á hlut stefnanda og annarra innan Fiskaneshópsins á hærra gengi en 6,0, enda voru engar forsendur til kaupa á öllu hlutafé í félaginu á hærra gengi. Þá er ljóst að fjármögnun til kaupanna á slíku gengi hefði ekki fengist frá stefnda. Stefnandi seldi á gengi sem á þessum tíma var það hæsta sem í boði var. Hærra gengi í síðari viðskiptum verður ekki rakið til ólögmætra athafna stefnda eða meðstefndu. Stefnandi á enga kröfu til þess að annað verð gildi en um var samið.
Að því er varðar þær málsástæður stefnanda sem lúta að meðferð innherjaupplýsinga þá liggur fyrir að jafnvel þótt talið yrði að einhverjar slíkar upplýsingar hafi verið fyrir hendi þá bjuggu einstaklingar innan Fiskaneshópsins yfir sömu upplýsingum, enda voru nokkrir þeirra fruminnherjar í félaginu. Stefnandi ásamt öðrum þeim sem höfðað hafa mál gegn stefnda komu fram sem einn hópur í samskiptum við stefndu. Vitneskja fruminnherja innan hópsins sem gegndu lykilhlutverki í samningaviðræðum við meðstefndu gerir það að verkum að því verður ekki haldið fram af stefnanda eða öðrum innan Fiskaneshópsins að þeir hafi ekki haft sömu forsendur og meðstefndu til að meta verðmæti hlutabréfa í Þorbirni Fiskanesi hf.
Verði á annað borð talið að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti með aðkomu sinni að framangreindum viðskiptum telur stefndi ljóst samkvæmt framansögðu að ekki verði sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem rakið verði til slíkra meintra brota. Engar forsendur eru til einkaréttarlegra krafna af því tagi sem stefnandi hefur sett fram. Í því tilviki að sannað teldist að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum laganna kæmi einungis til álita að beita viðurlögum gegn stefnda eða eftir atvikum starfsmönnum félagsins. Sem fyrr segir hefur sú stofnun sem hefur með höndum eftirlit með starfsemi stefnda og hefur á að skipa fjölda sérfræðinga á þessu sviði ekki séð ástæðu til aðgerða vegna þeirra viðskipta sem hér hafa verið til umfjöllunar.
Um framhaldsstefnu málsins.
Í greinargerð stefnda í framhaldssök mótmælir stefndi því að upplausnar-andvirði Þorbjarnar Fiskaness hf. geti haft nokkra þýðingu í málinu. Í fyrsta lagi sé ljóst að verðmæti hlutafjár í sjávarútvegsfyrirtækjum ráðist ekki af upplausnarvirði þeirra heldur verðmyndun á markaði. Þorbjörn Fiskanes hf. hefði verið skráð á almennum hlutabréfamarkaði í rúm 6 ár þegar viðskiptin áttu sér stað. Aldrei á því tímabili hefði gengi bréfanna farið yfir 6 krónur á hvern hlut. Stefndi bendir á, að um viðskipti með hlutabréf sé að ræða og því eigi að leggja til grundvallar reynslu og upplýsingar sem liggja fyrir um slík viðskipti, en ekki eitthvert upplausnarverð. Stefndi bendir einnig á að stefnandi gat ekki knúið fram slit á félaginu til sölu eigna eða krafist innlausnar og átti enga kröfu, hvorki gegn stefndu né öðrum, á því að verðmæti hlutafjár hans í félaginu tæki mið af því að félaginu yrði slitið og allar eignir seldar. Stefndi mótmælir því að það mat sem fyrir liggur í málinu sé áreiðanlegur mælikvarði á verðmæti eigna Þorbjarnar Fiskaness hf., enda sé afar óljóst hvernig markaðurinn brygðist við svo umfangsmikilli eignasölu.
Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt og þess krafist að hann miðist við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum Hæstarétti, enda hefur stefnandi enn ekki fært fram nein gögn sem sanna eða gera líklegt að hann hafi orðið fyrir fjártjóni af völdum stefnda. Málskostnaðarkrafan er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV. Málsástæður og lagarök stefndu, Gunnars, Eiríks og Gerðar Tómasarbarna og Þorbjörns Fiskaness hf.
Stefndu mótmæla öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda. Þeir telja málsástæður stefnanda eiga það almennt sammerkt að þær séu byggðar á óljósum forsendum þar sem látið sé hjá líða að upplýsa um aðstæður eða atvik með fullnægjandi hætti. Þá tekur stefndi undir málsástæður meðstefnda eftir því sem þeir eiga samstöðu í málinu.
Um óheimila ráðstöfun hluta.
Stefndu telja málsástæður stefnanda að þessu leyti gott dæmi um málatilbúnaðinn og það hvernig leitast sé við að gefa ranga mynd af aðstæðum. Í lýsingu málavaxta í stefnu lýsir stefnandi atvikum hvað varðar sölu hans þannig að hann hafi engin samskipti átt við Íslandsbanka hf. og ekki veitt neinum umboð til þess að selja hlutafé sitt og að það hafi verið með óljósum hætti hvar og hvernig hlutabréf hans komust í hendur meðstefnda, Íslandsbanka hf. Stefnandi minnist hins vegar ekkert á það að hlutafé hans var geymt á reikningi hans hjá Landsbanka Íslands hf. (sic) og að þaðan hafi það verið afhent meðstefnda, Íslandsbanka hf., eftir beiðni hans, að því er ætlað verður. Stefndu telja óhjákvæmilegt að stefnandi upplýsi um þennan þátt málsins og því er sérstakri áskorun beint til hans í lok greinargerðarinnar þess efnis.
Stefndu gerðu síðdegis mánudaginn 16. febrúar samning um að kaupa allt hlutafé Fiskaneshópsins, þ.m.t. hlutafé stefnanda. Varð það niðurstaða þessara tveggja hópa hluthafa, fengin með samtölum fulltrúa þeirra. Kaupandi hlutabréfa stefnanda voru því stefndu fyrir hönd ÓK-1 ehf., sem þá var óstofnað. Samningur þessi náði til allra í Fiskaneshópnum, einnig þeirra sem þegar höfðu selt, en engum var þó skylt að selja. Þeir sem ekki vildu selja á þessu gengi eða vildu ekki selja af öðrum ástæðum gátu haldið bréfum sínum. Einn aðili úr Fiskaneshópnum, Eiríkur Óli Dagbjartsson, óskaði ekki eftir að selja og á hann enn sinn hlut í félaginu.
Þeir sem hins vegar vildu samþykkja þennan samning og selja hlutabréf sín til stefndu á genginu 6 áttu að gera tvennt:
Í fyrsta lagi að setja sig í samband við Íslandsbanka hf., sem annaðist viðskiptin fyrir hönd stefndu, til þess að gefa upp inn á hvaða reikning átti að greiða kaupverðið.
Í öðru lagi að tilkynna þeim banka þar sem bréfin voru í vörslu, þ.e. þar sem þeir voru með svokallaðan VS-reikning, að bréfin væru seld og biðja viðkomandi banka um að afhenda hlutabréfin út á hlutlaust svæði þar sem Íslandsbanki hf. gæti sótt þau fyrir kaupanda þeirra.
Í málinu liggja fyrir samskipti starfsmanns Íslandsbanka hf. við marga í Fiskaneshópnum. Í einhverjum tilfellum liggur ekki fyrir upptaka eða önnur gögn um það hver eða hvernig reikningsnúmeri einstakra seljenda var komið til Íslandsbanka hf. Stefndu telja þó að það geti ekki skipt máli þar sem óumdeilt er að stefnandi fékk greitt umsamið kaupverð fyrir bréfin inn á þann reikning sem vísað hafði verið til.
Þeirri málsástæðu stefnanda að samþykki hans fyrir sölunni sé ósannað, nema hægt sé að leggja fram upptöku af samþykki hans eða önnur skrifleg gögn, er mótmælt sem rangri.
Stefndi telur að hafa verði í huga að stefnandi var annar aðili viðskiptanna og gátu þau ekki átt sér stað án hans atbeina. Einnig verður að hafa í huga að um er að ræða viðskipti með viðskiptabréf þar sem hönd selur hendi. Sönnun fyrir viðskiptum með viðskiptabréf er handhöfn bréfsins, áritað um framsal, en ekki upptaka eða önnur gögn um að viðkomandi hafi samþykkt söluna á einhverju tilteknu gengi. Er þetta grundvallarregla í kröfurétti varðandi viðskiptabréf.
Stefndu benda á að 3. september 2001 voru hlutabréf í Þorbirni Fiskanesi hf. ógild og í stað þeirra komu rafbréf skv. lögum nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Hlutabréf eru viðskiptabréf og rafrænt skráð hlutabréf eru það einnig.
Við lokafærslu hlutabréfanna á reikning kaupanda, stefnda ÓK-1 ehf., þ.e. við skráningu þeirra á VS-reikning hans hjá Íslandsbanka hf., varð stefndi ÓK-1 ehf. réttur og lögmætur eigandi þeirra
Stefndi tekur fram að við lokafærslu hlutabréfanna á reikning kaupanda, stefnda ÓK-1 ehf., þ.e. við skráningu þeirra á VS-reikning hans hjá Íslandsbanka hf., varð stefndi, ÓK-1 ehf., réttur og lögmætur eigandi þeirra, sbr. 2. og 4. mgr. 16. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna skráningu verðbréfa, með sama hætti og ef hann hefði móttekið réttilega framseld hlutabréf.
Stefndu halda því fram, að eftir lokafærslu á hinu keypta hlutafé á VS-reikning ÓK-1 ehf. hjá Íslandsbanka hf., verði réttindi kaupanda yfir bréfunum, sem grandlauss framsalshafa, ekki vefengd, sbr. almennar reglur um framsal viðskiptabréfa, sbr. einnig 19. gr. laga nr. 131/1997.
Meðal annars vegna sérstöðu rafbréfa að þessu leyti, þ.e. að þau teljast framseld athugasemdalausu framsali við færslu reikningsstofnunar á þeim á milli VS-reikninga, er hlutlæg ábyrgð lögð á reikningsstofnanir á öllum færslum og breytingum á VS-reikningum, sbr. 29. gr. laga nr. 131/1997. Felst í ákvæðinu lögbundin ábyrgð og jafnframt aðild að kröfum vegna mistaka eða ósamþykktra færslna á reikningum í Verðbréfamiðstöðinni (VS-reikningar).
Verði tjónið rakið til mistaka Verðbréfamiðstöðvar Íslands hf. þá ber hún ábyrgðina gagnvart stefnanda, sbr. 28. gr., eða þessir tveir aðilar í sameiningu skv. 30. gr. verði ekki skorið úr því hvar mistökin liggja. Aðrir verða ekki gerðir ábyrgir vegna „ólögmætra“ færslna af VS-reikningi stefnanda og er því um aðildarskort að ræða varðandi þessa kröfu, skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndu telja því að málsástæður stefnanda á hendur stefndu í þessum lið séu einnig algerlega órökstuddar og virðist engin tilraun gerð til þess að færa minnstu rök fyrir þeim eða tengja meinta ólögmæta háttsemi stefndu við einhverja tiltekna háttsemi.
Um tímasetningu viðskipta.
Varðandi þessa málsástæðu telja stefndu nægilegt að vísa til umfjöllunar um málavexti og tilkynningar um viðskiptin til Kauphallarinnar.
Stefnandi, sem hluti af Fiskaneshópnum, átti aðild að viðræðum um yfirtöku á Þorbirni Fiskanesi hf., helgina 14.-15. febrúar og allan mánudaginn 16. febrúar 2004. Stefndu telja óhætt að fullyrða að í þessari vinnu Fiskaneshópsins með Landsbanka Íslands hf. hafi verið eftir því leitað hvort bréf Granda hf. væru til sölu og hafi þau fengið upplýsingar um að svo hafi verið. Ef önnur svör hefðu fengist frá Granda hf. er ljóst að fundahöld hópsins með Landsbankanum í 3-4 daga hafi verið tilgangslítil, enda hefðu stefndu þá þegar tryggt sér yfirráð yfir félaginu.
Þá áttu stefndu og fulltrúar Fiskaneshópsins í viðræðum á mánudeginum um það að annar hópurinn skyldi kaupa hinn út og var þá báðum ljóst að hlutur Granda var ekki inni í þeirri umræðu. Málsástæða stefnanda að þessu leyti er þannig ekki aðeins röng heldur að mati stefndu sett fram gegn betri vitund og því ámælisverð.
Um tímasetningu þessara viðskipta nægir að öðru leyti að vísa til framlagðra gagna. Fyrir liggur endurrit af samtölum við ýmsa aðila í Fiskaneshópnum á tímabilinu 16-19 á mánudeginum 16. febrúar 2004 þar sem skýrt kemur fram að samningur um að stefndu kaupi hlutafé hópsins á genginu 6 liggur þá þegar fyrir. Það er svo á þriðjudagsmorguninn 17. febrúar 2004 sem fulltrúi Granda hf. og skyldra félaga óskar eftir heimild til þess að selja, vegna væntanlegra viðskipta, enda voru þá viðræður á milli aðila hafnar. Það er hins vegar ekki fyrr en kl.15:44 sem fulltrúi þessara seljanda sendir staðfestingu á því að viðskipti hafi átt sér stað, en þau höfðu þá komist á skömmu áður, en allur þriðjudagurinn 17. febrúar fór í það að ná niðurstöðu með Granda hf. og tengdum aðilum um verð og hver skyldi greiða kostnað vegna viðskiptanna.
Um brot á tilkynningarskyldu innherja.
Stefndi heldur því fram að réttilega hafi verið staðið að „flöggun“ á þessum tíma, enda voru kaup meðstefnda Íslandsbanka hf. á hlutabréfum á hans áhættu og ábyrgð. Af hálfu stefndu hefði ekki komið til greina að kaupa nefnd hlutabréf af Íslandsbanka hf. nema það leiddi til þess að markmið um 51% hlutafjáreign næðist, enda höfðu stefndu ekkert með það að gera að auka hlut sinn úr 14% í 30%. Slíkt hefði litlu breytt og að engu leyti bætt úr óvissu um eignarhald á félaginu eða varið stefndu gegn yfirtöku, svo sem var markmið þeirra með aðgerðum sínum.
Kaup meðstefnda í febrúar voru einnig án sérstaks samráðs eða samþykkis stefndu og því ljóst frá upphafi að meðstefndi framkvæmdi þessi viðskipti á eigin ábyrgð. Í því sambandi skiptir ekki máli þótt gera megi ráð fyrir að hvatinn til viðskiptanna hafi verið sá að stuðla að því að markmið samnings aðila um yfirtöku næðu fram að ganga, þ.e. að bankanum tækist að koma á samningum um kaup stefndu á nægilega miklu hlutafé til að ná meirihluta í félaginu, enda þóknun bankans bundin því skilyrði.
Þá bendir stefndi á að Fjármálaeftirlitið hafi tekið viðskiptin til rannsóknar og niðurstaðan hafi verið sú að réttilega hafi verið staðið að flöggun af hálfu meðstefnda, Íslandsbanka hf.
Stefndu hafna einnig að skilyrði almennu sakarreglunnar um skaðabætur utan samninga geti verið fyrir hendi, þrátt fyrir að talið yrði að brotið hafi verið gegn ákvæðum um flöggun. Nægir þar að nefna skilyrði um orsök og sennilega afleiðingu milli hins saknæma verknaðar og tjónsins. Einnig telja stefnendur það ósennilega og ósannaða málsástæðu að það hefði leitt til hækkunar á umsömdu kaupverði á milli aðila, mánudaginn 16. febrúar 2004, ef það hefði verið flaggað vikunni fyrr að stefndu en ekki meðstefndi, Íslandsbanki hf., hefðu aukið hlut sinn í félaginu. Ætti enda að vera óumdeilt að þegar sá samningur var gerður hafi báðir aðilar vitað, þ.e. stefndu og Fiskaneshópurinn, af áætlunum hvor annars um tilraun til yfirtöku og því vandséð hvernig málsástæður stefnanda um flöggun ættu að hafa haft áhrif á þá niðurstöðu sem fékkst á milli aðila um verð.
Um innherjasvik og hrun Kínamúra.
Málsástæður stefnanda í þessum hluta telur stefndi vera afar sérkennilegar, þar sem stefndu eru sökuð um innherjasvik. Í innherjasvikum felst að aðili sem býr yfir innherjaupplýsingum noti þær með þeim hætti að brjóti gegn 44. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Í tilfelli stefnanda byggir hann á því að stefndu hafi annars vegar búið yfir innherjaupplýsingum og átt viðskipti á grundvelli þeirra og hins vegar að stefndu hafi miðlað slíkum upplýsingum til meðstefnda, Íslandsbanka hf., sem síðan hafi átt viðskipti á grundvelli þeirra.
Málsástæða þessi er afar sérkennileg vegna þess að í henni eru engar innherjaupplýsingar tilteknar eða tilgreindar, heldur látið við það sitja að halda því fram að öðrum en innherjum hafi verið óljós staða félagsins. Það eru hins vegar engin rök fyrir fullyrðingum um innherjasvik.
Rökin sem færð eru fram fyrir hinni óljósu stöðu eru annars vegar að félagið Kári GK-46 ehf. hafi verið keypt og hins vegar að langt hafi verð liðið frá birtingu 9 mánaða uppgjörs.
Skilgreiningu á innherjaupplýsingum er að finna í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 33/2003 og þar megi sjá að engar „upplýsingar“, eða sú staðreynd að ekkert sérstakt sé að gerast í rekstri fyrirtækis, eru ekki innherjaupplýsingar. Það eru heldur ekki innherjaupplýsingar eða innherjasvik að eiga viðskipti með verðbréf þó að langt sé liðið frá birtingu síðasta uppgjörs, sbr. 44. gr. laga nr. 33/2003.
Stefndu telja það einkennilegast við þessa málsástæðu, að nokkur tími er liðinn frá því að þessi viðskipti áttu sér stað og ársreikningur fyrir árið 2003 var birtur þann 31. mars 2004. Hafi því verið um það að ræða að óbirtar hafi verið einhverjar innherja-upplýsingar um félagið í febrúar 2004 þá hafa þær auðvitað þegar komið fram.
Einnig benda stefndu á það að „Fiskaneshópurinn“ eigi „fulltrúa“ í stjórn, Rúnar Björgvinsson, og í hópi stjórnenda félagsins, þ.e. útgerðarstjóra, Eirík Óla Dagbjartsson, og fjármálastjóra, Ottó Hafliðason, sem starfa báðir enn hjá félaginu. Fulltrúum Fiskaneshópsins var því ekki síður ljóst en stefndu hvað væri að gerast í rekstri félagsins á þessum tíma eða réttara sagt, þessum aðilum var auðvitað fullljóst að ekkert sérstakt var að gerast í rekstrinum á þessum tíma, og því var ekki um neinar „innherjaupplýsingar“ að ræða.
Viðskipti innherja eru háð sérstökum reglum sbr. 51. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Felast þessar reglur m.a. í því að innherjar þurfa að fá leyfi regluvarðar félagsins áður en þeir eiga viðskipti með hlutabréf í félaginu. Er regluverði óheimilt að veita leyfi fyrir viðskiptunum ef óbirtar eru upplýsingar sem áhrif geta haft á verðmæti hlutabréfanna, þ.e. ef innherjaupplýsingar eru fyrir hendi í félaginu. Eftir þessum reglum fóru stefndu og veitti regluvörður leyfi fyrir viðskiptum þeirra, sem og annarra innherja á þessum tíma, sem auðvitað staðfestir að engar innherjaupplýsingar hafi þá verið fyrir hendi.
Hugmyndir stefnanda um að meðstefndi, Íslandsbanki hf., hafi fengið einhverjar innherjaupplýsingar vegna vinnu með stefndu í málinu eru auðvitað rangar. Í fyrsta lagi var ekkert að gerast í rekstri félagsins á þessum tíma, þannig að engar „innherja-upplýsingar“ voru til staðar. Í öðru lagi eru upplýsingar sem stjórnendur geta veitt við þessar aðstæður þær sömu og markaðurinn hefur yfir að ráða, þ.e. síðustu uppgjör og upplýsingar um breytingar á rekstri frá síðasta uppgjöri, s.s. kaup og sala eigna, og svo að lokum hvort nokkuð óvænt hafi gerst í rekstrinum sem geti haft áhrif á næsta uppgjör. Þessi atriði eru öll tilkynningaskyld og um þau tilkynnt, þ.e. varðandi uppgjör og breytingar á rekstri (t.d. kaup á Kára GK-46 ehf.) og ef óvæntar breytingar verða í rekstrarumhverfinu þá ber félaginu að senda frá sér tilkynningu um það, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulega tilboðsmarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 433/1999. Að öðru leyti er rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja hvað varðar daglegan rekstur mjög opið og gagnsætt. Þar skipta mestu aflabrögð, verð á mörkuðum og gengi gjaldmiðla, en allt eru þetta opinberar upplýsingar.
Um markaðsmisnotkun.
Stefndu halda því fram að þessi málsástæða stefnanda sé sama marki brennd og margar fyrri, þ.e. að hún byggist á tilbúnum málavöxtum, í þessu tilfelli þeim að stefnandi hafi þegar hann seldi hlutafé sitt ekki vitað að stefndu væru kaupendur þess. Stefndu mótmæla þessu sem röngu, sbr. það sem áður hefur komið fram um málavexti, en einnig má vísa til Morgunblaðsgreinar Willards Ólasonar frá 4. apríl 2004.
Um brot á trúnaðarskyldum gagnvart almennum hluthöfum.
Stefndu er ekki kunnugt um að stefnandi hafi upplýsingar um viðskiptakjör þeirra hjá Íslandsbanka hf. og því telur stefndu vandséð á hvað grunni stefnandi treystir sér til þess að setja fram málsástæðu eða fullyrðingu sem þessa. Stefndu telja að hér sé aftur byggt á því að fyrir hendi hafi verið „innherjaupplýsingar“ í félaginu í febrúar 2004. Varðandi skilgreiningu á innherjaupplýsingum og um umfjöllun að þessu leyti vísast til þess sem fyrr segir.
Þar fyrir utan gætu atvik sem þau sem stefnandi byggir á, þ.e. að hluthafi og stjórnandi í félagi semdi við viðskiptabanka sinn um góð kjör gegn veði í hlutafé í félaginu, með því að hann sannfærði viðskiptabankann um trausta stöðu félagsins eða hátt verð hlutabréfanna, aldrei talist brot gegn 76. gr. hlutafélagalaga. Vantar í þessu dæmi að uppfylla bæði meginskilyrði þess að brot geti verið til staðar skv. greininni. Er það vegna þess að hluthafinn/stjórnandinn kemur í því tilfelli ekki fram fyrir hönd félagsins eða misnotar heimild sína til að koma fram fyrir hönd þess og hann aflar sér ekki ávinnings á kostnað félagsins eða annarra hluthafa.
Stefndu telja málsástæðu stefnanda að þessu leyti ekki aðeins efnislega ranga heldur falli „brotalýsing“ stefnanda ekki undir ákvæði þeirrar greinar sem vísað er til. Þá gerir stefnandi ekki sjálfstæða tilraun til að tengja kröfu sína um bætur við meint tjón af þessari ástæðu eða fjallar um grundvöll eða önnur skilyrði bótakröfunnar og því er hún stórlega vanreifuð. Stefndu telja það skyldu stefnanda skv. grein þessari að sýna fram á hver hafi verið ávinningur stefndu af lántökunni og að hvaða leyti sá ávinningur hafi verið á kostnað stefnanda sem hluthafa í félaginu.
Um málatilbúnað stefnanda og grundvöll bótakröfunnar.
Kröfur á hendur stefndu Eiríki, Gunnari og Gerði eru í nokkrum tilfellum settar fram með þeim hætti, að því er haldið fram að þau beri ábyrgð á meintri saknæmri háttsemi meðstefnda, Íslandsbanka hf., vegna þess að meðstefndi, Íslandsbanki hf. á að hafa framkvæmt hina saknæmu háttsemi að undirlagi og með þátttöku stefndu. Hins vegar er í engu þessara tilfella gerð tilraun til þess að sýna fram á eða færa sönnur fyrir hinni saknæmu háttsemi, heldur er látið nægja að setja þessa fullyrðingu fram.
Stefndu mótmæla þessum málsástæðum og hafna því, að þau hafi stýrt meðstefnda, Íslandsbanka hf., til saknæmra verka eða tekið þátt í þeim. Þá byggja stefndu á því að sá sem krefst skaðabóta úr hendi annars aðila hafi sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði almennu sakarreglunnar séu uppfyllt og að ekki nægi í því sambandi órökstuddar og ósannar fullyrðingar, jafnvel þótt þær séu endurteknar.
Kröfur á hendur stefnda ÓK-1 ehf. (nú Þorbirni Fiskanesi hf., eftir sameiningu) eru rökstuddar með tilvísun til 2. mgr. 10. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Ákvæðið fjallar um yfirtöku á löggerningum eftir stofnun félagsins í samræmi við stofnsamning eða skv. ákvörðun félagsins sjálfs. Undir ákvæðið verður ekki fellt það tilvik að félagið eigi að takast á hendur ábyrgð á meintum skaðaverkum hluthafa þess, svo sem stefnandi byggir á. Málshöfðun á hendur félaginu er því algerlega tilefnislaus.
Varðandi umfjöllun um tjón og bætur í málatilbúnaði stefnanda benda stefndu á að stefnandi byggi kröfur sína á almennum ólögfestum reglum skaðabótaréttarins um skaðbætur utan samninga. Í málsástæðum sínum reynir stefnandi yfirleitt að sýna fram á saknæmi tiltekinnar háttsemi en í engu tilfelli leitast hann við að sýna fram á að önnur skilyrði til greiðslu skaðabóta séu fyrir hendi, þ.e. að hin saknæma háttsemi hafi valdið stefnanda tjóni og að umrætt tjón sé hvort tveggja orsök og sennileg afleiðing hinnar saknæmu háttsemi. Telja stefndu þannig, að jafnvel þó svo fallist væri á að þau hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, uppfylli málatilbúnaður stefnanda ekki skilyrði einkamálalaga til þess að hægt sé að dæma honum bætur vegna þeirrar háttsemi. Fyrir því vantar einfaldlega málsástæður og lagarök sem stefndu gætu tekið afstöðu til í vörn sinni.
Verði talið að skilyrði séu fyrir því að dæma stefndu til greiðslu bóta er kröfum stefnanda mótmælt sem allt of háum og í því tilfelli er krafist lækkunar.
Um framhaldsstefnu málsins.
Í greinargerð sinni vegna framhaldsstefnunnar mótmæla stefndu því að metið upplausnarverð félagsins gefi einhverja vísbendingu um verð hlutafjár stefnanda og því hefur framlögð matsgerð enga þýðingu eða sönnunargildi að mati stefndu. Hefði stefnandi viljað fá mat á verðmæti hlutafjár síns var stefnanda í lófa lagið að óska eftir slíku mati. Er það alkunna að verð á hlutafé í stórum sjávarútvegsfélögum tekur ekki mið af upplausnarverði þeirra heldur væntum hagnaði af rekstri viðkomandi félags, svo sem almennt á við um önnur félög. Þá eru engin dæmi þess að stórt útgerðarfélag hafi verið leyst upp og allar eignir þess seldar og því eru spádómar um verð í svo umfangsmikilli eignarsölu ekki byggðir á reynslu eða raunhæfum dæmum. Einnig verður að líta til þess að hlutur stefnanda í Þorbirni Fiskanesi hf. var afar lítill og því átti stefnandi enga möguleika á því að knýja fram slit á félaginu og sölu eigna þess.
Stefndu benda hins vegar á, að til séu ótal dæmi um sölu á hlutafé í stórum sjávarútvegsfélögum sem mörg hver hafi verið eða séu skráð á opinberum markaði. Í engu þeirra tilvika miðist verðið við upplausnarverð viðkomandi félags. Einnig liggja fyrir skráðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf., sem var skráð á almennum hlutabréfamarkaði, í rúm 6 ár. Félögin Þorbjörn hf., Fiskanes hf. og Valdimar hf. sameinuðust þann 30. júní 2000. Á þeim degi var gengi hlutafjár í félaginu 5,45. Frá sameiningu þessara félaga til þess að stefnandi seldi hlutafé sitt var verðmæti þess á almennum markaði almennt á bilinu 4 5,5 og aldrei á þessum tíma fór markaðsvirði hlutafjárins yfir gengið 6. Um sennilegt markaðsvirði hlutafjár stefnanda liggja því hvort tveggja fyrir upplýsingar og reynsla af viðskiptum með hlutafé í félaginu. Byggja stefndu einnig á því að það sé almenn regla í skaðabótarétti að leggja til grundvallar reynslu liðins tíma við mat á líklegum missi hagnaðar í framtíðinni.
Kröfu stefnanda um dráttarvexti er mótmælt og telja stefndu að ekki séu forsendur til þess að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppkvaðningu verði fallist á einhverjar kröfur stefnanda. Um málskostnaðarkröfu stefndu vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
V.Forsendur og niðurstaða.
Í málinu deila tveir armar eru stóðu að Þorbirni Fiskanesi hf. í Grindavík. Annars vegar eru það stefndu Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður Tómasarbörn sem voru úr Þorbjörnsarminum og hins vegar stefnandi, sem tilheyrir Fiskaneshópnum.
Hinn 3. febrúar 2004 gerði stefndi Íslandsbanki hf. samning við óstofnað yfirtökufélag nefnt Newco í eigu stefndu Eiríks, Gunnars, Gerðar Sigríðar og Stefáns Þorvaldar Tómassonar og Tómasar Þorvaldssonar. Samningurinn var gerður vegna fyrirhugaðra kaupa Newco á öllu hlutafé í Þorbirni Fiskanesi hf. nema hlutafé stefndu systkinanna og fjölskyldu þeirra og Tryggingamiðstöðvarinnar. Samningurinn varðaði ráðgjafarvinnu við yfirtökuferlið, vinnu við tilboðsgerð til hluthafa, samninga við seljendur, aðstoð við fjármögnun viðskiptanna og að annast framkvæmd yfirtöku-ferlisins. Samkvæmt samningnum átti engin áreiðanleikakönnun að fara fram og stefndi Íslandsbanki hf. tók enga ábyrgð á því, að áætlun um yfirtökuna tækist eða að unnt yrði að fjármagna yfirtökuna. Þóknun skyldi ekki greiðast Íslandsbanka nema Newco, systkinunum og fjölskyldu þeirra og Tryggingamiðstöðinni hf. myndi takast að eignast samanlagt a.m.k. 51% hlutafjár í Þorbirni Fiskanesi hf. Stefndi Íslandsbanki hf. hóf kaup á hlutabréfum í Þorbirni Fiskanesi hf. og keypti þau í eigin nafni af þeim hluthöfum er þá vildu selja og án samráðs við aðra stefndu. Varðandi hlutabréf stefnanda og annarra í Fiskaneshópnum, þá voru þau ekki keypt af stefnda Íslandsbanka hf. heldur sá bankinn um að miðla þeim bréfum og var Newco kaupandi þeirra.
Fiskaneshópurinn samanstendur af systkinunum, Birnu (eiginkonu Dagbjarts Einarssonar), Ingu Bjarney (eiginkonu Björgvins O. Gunnarssonar) og Willard Ólabörnum, mökum þeirra og börnum og svo Kristjáni Finnbogasyni, stefnanda málsins, maka og börnum hans. Þegar sú staða kom upp fimmtudaginn 12. febrúar 2004 að stefndu, Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður, hefðu hug á því að yfirtaka Þorbjörn Fiskanes hf. talaði stefndi Gunnar við einn frá hverri fjölskyldu, þ.e. Björgvin O. Gunnarsson og stefnanda og síðar um kvöldið við Dagbjart Einarsson. Daginn eftir talaði hann við Willard Fiske Ólason. Í kjölfar þessa fóru fram viðræður milli meðlima Fiskaneshópsins um það hvort þau ættu að selja og þá á hvaða gengi. Í upphafi var þeim boðið gengið 5,67 sem var hafnað og á laugardeginum var gengið 6 boðið, sem gilda átti líka um þá, sem þá þegar höfðu selt eitthvað af sínum bréfum. Áttu viðræður sér stað innan hverrar fjölskyldu. En einnig áttu fulltrúar frá fjölskyldum systkinanna þriggja fund í Landsbanka Íslands varðandi hugsanlegan mótleik af þeirra hálfu. Þá liggur fyrir að hópurinn var í aðalatriðum samstilltur í gerðum sínum, því áhrif þeirra og völd í Þorbirni Fiskanesi hf. byggðust á því að þau héldu saman. Ljóst má vera að sá er seldi ekki yrði væntanlega áhrifalaus í fyrirtækinu. Á daginn kom að 21 meðlimur Fiskaneshópsins seldi hlutabréf sín.
Frá septembermánuði 2001 voru öll hlutabréf í Þorbirni Fiskanesi hf. ógild og í stað þeirra komu rafbréf samkvæmt lögum nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Mismunandi var í hvaða reiknistofnun meðlimir Fiskaneshópsins höfðu VS-reikninga sína.
Stefnandi málsins átti að nafnverði 36.161.640 krónur í Þorbirni Fiskanesi hf. Bréfin voru á VS-reikningi í Íslandsbanka hf. og einnig var hluti að handveði hjá KB banka. Í málinu liggur fyrir að sonur stefnanda tilkynnti starfsmanni stefnda Íslandsbanka hf. að hann ásamt foreldrum sínum og systur ætluðu að selja bréfin og ekki væri þörf að hafa samband sérstaklega við þau. Í framburði stefnanda fyrir dómi upplýsti hann, að Einar Örn úr Íslandsbanka hf. hefði hringt til hans „daginn sem svo mikið gekk á“ og spurt hvort hann vildi selja og hann kvaðst ekki vera búinn að ákveða það. Hann muni ekki hvaða gengi honum var boðið. Hann kvaðst ekki hafa veitt Stefáni syni sínum umboð. Hann hafi verið á spítala og ekki verið búinn að ákveða sölu. Hann kvaðst ekki hafa haft samskipti við aðra hluthafa nema hann hafi farið á fund hjá Gunnari Tómassyni með Björgvini Gunnarssyni. Hann kvað engan hafa haft samband við hann vegna hugsanlegrar yfirtöku Fiskaneshópsins. Hann muni ekki eftir umræðum innan fjölskyldunnar um það hvort þau myndu selja eða ekki. Hann kvaðst ekki hafa óskað eftir því að bréfin væru sett á hlutlausa svæðið. Hann sagði að bréfin í KB banka hafi verið veðsett. Mætti gat ekki upplýst hvernig sonur hans gat upplýst Íslandsbanka um reikningsnúmer mætta og hvar bréfin hans voru vistuð.
Í framburði sonar stefnanda, Stefáns Kristjánssonar, fyrir dómi kom meðal annars fram að hann hafi haft samband við fjölskyldu sína vegna hugsanlegrar sölu á hlutum sínum. Hann kvaðst ekki hafa haft umboð til að selja bréf stefnanda eða fjölskyldu sinnar. Hann hélt bara að það stæði til að selja. Hann kvaðst hafa selt fyrir sjálfan sig hinn 11. febrúar og einnig 15 millj. fyrir föður sinn sama dag. Hann segir að þegar faðir hans hafi komist á snoðir um það, hafi hann sagst ekki hafa verið ákveðinn í að selja. Mætti segist þá hafa hringt í Einar Örn og spurt af hverju þeir tali ekki við föður sinn, því það væri hann sem væri að selja. Mætti segir að Einar hafi talað við Eirík Tómasson sem hafi gefið leyfi til að draga þessa færslu til baka og það hafi verið 16. febrúar. Hann veit ekki hvernig hann fékk upplýsingar um bankareikninga fjölskyldu sinnar. Mætti segist ekki hafa haft samband við KB banka til að losa bréfin. Hann segir að bréfin hafi öll verið á hlutlausu svæði nema 20 millj. sem KB hafi haft að handveði vegna skulda hans.
Að mati dómsins eru framburðir stefnanda og sonar hans um umboðsskort hins síðarnefnda ótrúverðugir. Framkoma stefnanda eftir söluna styður það að umboð hafi í raun legið fyrir frá stefnanda til handa syni hans, en stefnandi veitti viðtöku andvirði hlutabréfanna án athugasemda og hreyfði hann engum mótmælum við stefnda Íslandsbanka hf. né KB banka eftir því sem best er vitað. Tölvupóstur sonar stefnanda til Íslandsbanka hf. 20. febrúar breytir hér engu.
Dómurinn telur ljóst, að hefði stefnandi í raun ekki viljað selja hlutabréf sín, hefði hann gefið sig sérstaklega fram við lögmann Fiskaneshópsins, sem væntanlega hefði gert sérstakar athugasemdir eða kröfu fyrir hans hönd í bréfi sínu til stefnda Íslandsbanka hf. 23. febrúar 2004. Þess í stað óskaði lögmaðurinn f.h. Fiskaneshópsins eftir gögnum, en í bréfinu segir: „Vegna þeirrar óvissu sem ríkir um það hvort samningar hafi tekist um viðskipti í einstökum tilvikum, óska umbj. mínir eftir því að undirrituðum verði send fullnægjandi staðfestingar á öllum viðskiptum umbj. minna sem áttu sér stað á þessum tíma, eftir atvikum með endurritun símtala.“ Stefndi Íslandsbanki hf. veitti þessar upplýsingar og á grundvelli þeirra, er krafa stefnanda sett fram í málinu.
Þá telur dómurinn einnig að líta beri heildstætt á þau viðskipti sem áttu sér stað. Ekki er hægt að líta fram hjá því, að Fiskaneshópurinn kom fram sem heild í viðskiptunum enda byggðust áhrif og völd í fyrirtækinu á því að einstaklingar innan hópsins stæðu saman. Þar af leiðandi telur dómurinn augljóst, að ef einhver innan hópsins hafi ekki ætlað að fylgja þeirri stefnu hópsins að selja bréfin, hefði viðkomandi aðili strax gert gangskör að því að leita réttar síns og þá ekki síst gagnvart þeim aðila er sá um VS-reikning hans.
Þá er hér einnig á að líta, að stefndi Íslandsbanki hf. hafði fengið upplýsingar frá Eiríki Tómassyni um að samningar hefðu tekist um kaup á öllu hlutafé Fiskanes-hópsins og jafnframt beiðni um að Íslandsbanki hf. gengi frá þessum viðskiptum. Á þeim forsendum var haft samband við einstaklinga innan Fiskaneshópsins og kom stefndi Íslandsbanki hf. fram sem miðlari. Stefndi Íslandsbanki hf. hefði ekki getað gengið frá viðskiptunum í þeim tilvikum er hlutabréfin voru vistuð á VS-reikningi í öðrum bankastofnunum, nema atbeini seljanda kæmi til. Í tilviki stefnanda var hluti bréfa hans vistaður á VS-reikningi í Íslandsbanka hf. og 20 millj. króna sett að handveði hjá KB banka. Hin síðarnefndu voru afhent stefnda Íslandsbanka gegn greiðslu andvirðisins. Í ljósi símtals Einars Arnar við son stefnanda svo og afhendingar KB banka á hinum veðsettu bréfum telur dómurinn ekki varhugavert að líta svo á, að Íslandsbanki hafi mátt treysta því að sonur stefnanda hafi haft umboð frá honum.
Í ljósi alls þess sem að framan er rakið, hafnar dómurinn þeirri málsástæðu stefnanda að um óheimila ráðstöfun stefnda Íslandsbanka hf. á hlutum stefnanda í Þorbirni Fiskanesi hf. hafi verið að ræða. Þá er órökstutt á hvaða hátt um sé að ræða saknæma háttsemi hjá öðrum stefndu.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að stefndi Íslandsbanki hf. hafi vitað um samning annarra stefndu við Granda hf. um kaup á þeirra hlutafé, á þeim tímapunkti er hann sá um miðlun á bréfum Fiskaneshópsins. Þessi fullyrðing stefnanda er að mati dómsins órökstudd. Þvert á móti liggja fyrir í málinu gögn er sýna að gengið var frá kaupum á hlutabréfum Fiskaneshópsins föstudaginn 16. janúar 2004, en kaupin á hlutabréfum Granda hf. áttu sér ekki stað fyrr en daginn eftir. Því er þessari málsástæðu stefnanda hafnað.
Þá hafnar dómurinn því að um brot á tilkynningaskyldu hafi verið að ræða, en stefnandi virðist byggja á því að aðrir stefndu en Íslandsbanki hf. hafi keypt hlutabréfin í Þorbirni Fiskanesi fyrri hluta febrúar 2004. Fyrir liggur í málinu, bæði skjalfest svo og í framburði starfsmanna Íslandsbanka hf., að kaupin á hlutabréfunum á þessum tíma gerði stefndi Íslandsbanki hf. í eigin nafni og á eigin ábyrgð og ekki verður annað séð en stefndi Íslandsbanki hf. hafi réttilega staðið að „flöggun“ á þessum tíma.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að um innherjasvik hafi verið að ræða hjá stefndu. Stefnandi nefnir til stuðnings fullyrðingu sinni, að Þorbjörn Fiskanes hf. hafi yfirtekið allt hlutafé í félaginu Kára GK 146 ehf. Því hafi fjárhagsstaðan verið öllum óljós öðrum en innherjum.
Í 1. mgr. 43. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 er skilgreining á innherjaupplýsingum. Samkvæmt ákvæðinu þurfa upplýsingarnar um útgefanda verðbréfa að uppfylla tvenns konar skilyrði til þess að geta talist innherjaupplýsingar. Annars vegar að þær hafi ekki verið gerðar opinberar áður og hins vegar að þær séu líklegar til að hafa áhrif á markaðsverð bréfanna ef þær væru opinberar. Að mati dómsins uppfylla tilvitnuð viðskipti um yfirtöku á Kára GK 146 ehf. ekki þau skilyrði laga um verðbréfaviðskipti til að teljast innherjaupplýsingar. Fyrir liggur í málinu að yfirtakan var tilkynnt til Kauphallar Íslands hf. 10. nóvember 2003. Því var um birtar upplýsingar að ræða. Stefnandi hefur því ekki fært rök fyrir því að um innherjasvik hafi verið að ræða. Þar af leiðandi er málsástæðu stefnanda um innherjasvik og hrun Kínamúrsins hafnað.
Þá hafnar dómurinn þeirri málsástæðu stefnanda að um markaðsmisnotkun hafi verið að ræða og að þar með hafi verið brotið gegn 41. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Málsástæða þessi er órökstudd og virðist byggja á þeim misskilningi að aðrir stefndu en Íslandsbanki hf. hafi staðið að kaupum á hlutabréfunum.
Þá er þeirri málsástæðu einnig hafnað sem órökstuddri að um brot á trúnaðarskyldu gagnvart almennum hluthöfum hafi verið að ræða, en dómurinn telur, samanber hér að framan, að stefndu hafi ekki búið yfir innherjaupplýsingum.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn að sýkna eigi alla stefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað. Við ákvörðun hans ber að líta til þess málskostnaður sem ákveðinn var í málinu nr. E-5035/2004: Jón Gauti Dagbjartsson gegn stefndu þessa máls, en mál það varðar sömu viðskipti og hér eru til umfjöllunar. Málskostnaðurinn telst hæfilega ákveðinn 30.000 krónur til hvers stefnda, Eiríks Tómassonar, Gunnars Tómassonar og Gerðar Sigríðar Tómasdóttur, 25.000 krónur til stefnda Þorbjörns Fiskaness hf. og 100.000 krónur til stefnda Íslandsbanka hf.
Af hálfu stefnanda flutti málið Kristinn Bjarnason hrl.
Af hálfu stefnda Íslandsbanka hf. flutti málið Hörður Felix Harðarson hrl.
Af hálfu stefndu, Eiríks Tómassonar, Gunnars Tómassonar, Gerðar Sigríðar Tómasdóttur og Þorbjörns Fiskaness hf., flutti málið Jóhannes Björnsson hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndu, Íslandsbanki hf., Eiríkur Tómasson, Gunnar Tómasson, Gerður Sigríður Tómasdóttir og Þorbjörn Fiskanes hf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, Kristjáns Finnbogasonar.
Stefnandi greiði í málskostnað 30.000 krónur til hvers stefnda, Eiríks Tómassonar, Gunnars Tómassonar og Gerðar Sigríðar Tómasdóttur, 25.000 krónur til stefnda Þorbjörns Fiskaness hf. og 100.000 krónur til stefnda Íslandsbanka hf.