Hæstiréttur íslands

Mál nr. 363/2008


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. mars 2009.

Nr. 363/2008.

Björgvin G. Guðmundsson

(Grímur Sigurðsson hrl.)

gegn

Ístaki hf.

(Kristín Edwald hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur.

B slasaðist við störf fyrir Í hf. Var hann að vinna að gerð jarðganga þegar steinn féll á hann með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlegt líkamstjón. Lögregla og Vinnueftirlit ríkisins rannsökuðu slysið, en ekkert kom fram í skýrslum þeirra um rannsókn á hvaðan steinninn féll eða hvað gæti hafa valdið því. Talið var að með slíkri rannsókn hefði mátt leiða frekar í ljós hvort steinninn gæti hafa losnað við borun nýrrar holu fyrir sprengiefni eða verið laus allt frá síðustu sprengingu, svo og hvort ummerki á berginu bentu til að starfsmenn Í hf. hefðu átt að verða þess varir. Gæti Í hf. ekki firrt sig ábyrgð á því að þetta hafi ekki verið gert með því að vísa til þess að það hafi verið hlutverk lögreglu og Vinnueftirlitsins að rannsaka orsakir slyssins. Málsástæða Í hf. um að steinninn hafi losnað vegna breytinga á spennu í berginu var ekki talin geta komið til frekari skoðunar þar sem hún var ekki studd við matsgerð dómkvadds manns eða önnur haldbær sérfræðileg gögn. Var talið óhjákvæmilegt að Í hf. bæri hallann af því að ekki hafi verið gerð viðhlítandi rannsókn á orsökum slyssins, en ekki þóttu efni til að fella sök vegna slyssins að neinu leyti á B. Var fallist á kröfu B um viðurkenningu á því að Í hf. bæri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2008. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns, sem hann varð fyrir í vinnuslysi við gerð Fáskrúðsfjarðarganga 4. desember 2003. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna fyrrnefnds slyss áfrýjanda og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu.

I

Samkvæmt gögnum málsins réði áfrýjandi sig til starfa hjá stefnda haustið 2003 og vann á vegum hans við gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Áfrýjandi, sem þá var tæplega fimmtugur að aldri, mun áður hafa gegnt störfum við meðferð sprengiefna, en ekki unnið við jarðgangagerð. Fyrir liggur í málinu að í verki þessu hafi verið beitt svokallaðri borsprengjuaðferð, sem mun hafa verið fólgin í því að boraðar hafi verið í hverjum áfanga 90 holur, um 5 m að dýpt, lárétt inn í stafn ganganna og sprengiefni sett í þær. Eftir sprengingu hafi grjótmulningur verið fjarlægður úr göngunum, farið hafi verið yfir sprengiflötinn með gröfu, sem búin var vökvahamri, til að ná burt lausu grjóti og vatni síðan sprautað á flötinn af miklu afli. Að því gerðu hafi starfsmenn stefnda farið nákvæmlega yfir flötinn í körfubúri og beitt sérstöku áhaldi, svokölluðum skrota, til að ná burt lausu grjóti. Loks hafi göngin verið styrkt eftir þörfum með því að sprauta steypublöndu á loft og veggi þeirra og bora bolta inn í bergið. Að þessu öllu gerðu hafi verið byrjað á nýjum áfanga við verkið eins og hér var lýst. Í málinu liggur fyrir að unnið hafi verið við þetta verk allan sólarhringinn á tveimur jafn löngum vöktum, sem fjórir menn virðast hafa skipað hverju sinni. Ekki hafa verið lagðar fram upplýsingar um hæð eða breidd ganganna, en af fyrirliggjandi ljósmyndum virðist mega ráða að hæð þeirra hafi numið að minnsta kosti sem svarar fjórfaldri mannhæð.

Áfrýjandi, sem gegndi starfi verkstjóra hjá stefnda, var samkvæmt gögnum málsins við vinnu við þetta verk á vakt, sem ljúka átti um kl. 7 að morgni 4. desember 2003, en göngin munu þá hafa verið komin um 2 km inn í fjall frá gangamunna. Skömmu fyrir vaktaskipti var á lokastigi undirbúningur að sprengingu, sem fyrirhugað var að ljúka áður en til þeirra kæmi, og mun þá sprengiefni þegar hafa verið komið inn í borholur. Áfrýjandi mun hafa staðið álútur á gólfi við stafn ganganna og verið að tengja saman kveikiþræði þegar steinn féll á hann með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlegt líkamstjón, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Hann var í framhaldi af þessu fluttur á sjúkrahús, en lögregla var komin á vettvang áður en hann var færður þangað í sjúkrabifreið. Í lögregluskýrslu, sem gerð var vegna þessa, kom fram að áfrýjandi hafi þá verið með mikla verki en við meðvitund. Skammt frá honum hafi legið steinn, sem „hafði fallið úr vegg stafnsins og niður á manninn.“ Samkvæmt skýrslunni virðast samstarfsmenn áfrýjanda ekki hafa orðið varir við atvik að slysinu fyrr en þeir heyrðu óp og sáu hann falla niður, en haft var eftir einum þeirra að hann hafi „tekið eftir að steinn hafði fallið um 4 metra úr stafninum og ofan á bak Björgvins“. Haft var eftir öðrum samstarfsmanni að „steininn hafi fallið úr 3-4 metra hæð“, en jafnframt eftir þeim öllum að ekkert óvenjulegt hafi verið við aðstæður eða verklag þegar slysið varð. Einn þeirra hafi tekið fram að stafninn hafi verið „óvenju vel hreinsaður eftir að búið var að pikka niður allt laust berg“. Vinnueftirliti ríkisins var einnig tilkynnt um slysið og fór starfsmaður þess á vettvang. Í skýrslu hans var aðdraganda slyssins lýst þannig að „steinn féll úr stafninum niður á starfsmann“ úr um 3,5 m hæð og væri steinninn „líkur hellublaði“. Um orsök slyssins sagði að „svo virðist sem að skróturum hafi yfirsést um lausa steininn eða hann losnað síðar og fallið niður“.

II

Samkvæmt málatilbúnaði aðilanna er óumdeilt að steinninn, sem áfrýjandi varð fyrir, hafi fallið úr þriggja til fjögurra metra hæð utan af stafni jarðganganna, svo og að steinninn hafi verið um 15 kg að þyngd og lögun hans eins og lýst var í áðurnefndri skýrslu Vinnueftirlits ríkisins. Að öðru leyti en því, sem fram kom í þeirri skýrslu og lögregluskýrslu um slysið, var eftir gögnum málsins ekki gerð rannsókn á þessum steini, hvaðan hann féll eða hvað gæti hafa valdið því. Í málinu eru því aðeins uppi tilgátur aðilanna sjálfra um orsakir slyssins, en hvorugur þeirra hefur leitað sérfræðilegra gagna til stuðnings staðhæfingum sínum í þeim efnum.

Í málflutningi áfrýjanda hefur því verið borið við að ástæða þess að steinninn hafi fallið af stafni jarðganganna hljóti að tengjast öðru hvoru því að steinninn hafi orðið laus af völdum sprengingar nokkrum klukkustundum fyrir slysið og starfsmenn stefnda ekki veitt því athygli þegar þeir í kjölfarið leituðust við að fjarlægja laust berg af stafninum eða steinninn hafi losnað mun síðar þegar borað var inn í stafninn til að koma fyrir sprengiefni fyrir næsta áfanga verksins og starfsmönnunum yfirsést það. Samkvæmt því, sem haft var eftir samstarfsmönnum áfrýjanda í lögregluskýrslu og áður greinir, virðist þeim hafa verið nokkuð ljóst úr hvaða hæð steinninn féll. Þar sem ganga verður út frá því að hann hljóti að hafa komið í lóðréttu falli á áfrýjanda og vitað var hvar hann stóð þegar slysið varð, verður að leggja til grundvallar að unnt hefði verið að bera steininn við tiltölulega lítið svæði á stafninum til að leitast við að staðreyna hvaðan hann kom. Með slíkri rannsókn hefði mátt leiða frekar í ljós hvort steinninn gæti hafa losnað við borun nýrrar holu fyrir sprengiefni eða verið laus allt frá síðustu sprengingu, svo og hvort ummerki á berginu bentu til að starfsmenn stefnda hefðu átt að verða þess varir. Stefndi getur ekki firrt sig ábyrgð á því að þetta hafi ekki verið gert með því að vísa til þess að það hafi verið hlutverk lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins að rannsaka orsakir slyssins. Fyrir sitt leyti hefur stefndi borið því við að líklegasta orsök slyssins sé sú að steinninn hafi losnað án tengsla við þær ástæður, sem áður er getið, vegna breytinga, sem orðið hafi á spennu í berginu þegar hol myndaðist í því með jarðgöngunum. Þessi málsástæða stefnda getur ekki komið til frekari athugunar, enda hefur hann ekki stutt hana við matsgerð dómkvadds manns eða önnur haldbær sérfræðileg gögn. Að öllu þessu virtu er óhjákvæmilegt að stefndi beri hallann af því að ekki hafi verið gerð viðhlítandi rannsókn á orsökum slyss áfrýjanda. Verður því tekin til greina krafa hans um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda, en ekki eru efni til að fella sök á slysinu að neinu leyti á áfrýjanda.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Ístaks hf., á líkamstjóni áfrýjanda, Björgvins G. Guðmundssonar, af völdum slyss, sem hann varð fyrir 4. desember 2003 í vinnu hjá stefnda við gerð Fáskrúðsfjarðarganga.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 29. maí 2007.

Stefnandi er Björgvin G. Guðmundsson, Háhæð 17, Garðabæ.

Stefndi er Ístak hf., Engjateigi 7, Reykjavík. Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík er stefnt til réttargæslu.

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda Ístaks hf., vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í vinnuslysi 4. desember 2003. Þá krefst hann málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Til vara krefst hann þess að verða aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins og að málskostnaður falli niður.

Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í málinu.

Málsatvik

Stefnandi hóf störf hjá stefnda haustið 2003 við gerð Fáskrúðsfjarðarganga. Rétt eftir kl. 7 að morgni 4. desember það ár varð stefnandi fyrir slysi við vinnu sína. Var hann ásamt fleiri starfsmönnum stefnda að ljúka við að hlaða sprengiefni í holur innst í stafni ganganna. Stefnandi hafði beygt sig til að binda saman kveikjuþræði, þegar grjót féll á hann úr um það bil þriggja til fjögurra metra hæð.

Við sprengingarnar var beitt svokallaðri borsprengjuaðferð. Samkvæmt gögnum málsins eru þá boraðar holur inn í bergið eftir ákveðnu kerfi og sprengiefni sett í þær. Eftir að búið er að sprengja er grjótmulningi mokað með vinnuvélum úr göngunum. Þegar því er lokið fer grafa með vökvahamri yfir sprengiflötinn til að losa allt sjáanlegt laust grjót og næst er bergið spúlað með vatni. Næst fara hreinsunarmenn í sérstökum körfubúrum og skoða bergvegginn nákvæmlega til að athuga hvort öruggt sé að fara undir hann. Notaður er svokallaður skroti til að losa allt laust grjót. Stefndi kveður bolta hafa verið boraða í bergið á þessu stigi og steypulögn sprautað á bergveggina. Næst eru boraðar nýjar holur í stafninn og að því loknu sé sprengiefni hlaðið í holurnar. Stefnandi kveðst hafa verið að tengja saman sprengivíra við neðri hluta stafnsins þegar grjótið féll ofan á hann.

Í lögregluskýrslu er haft eftir Sigurði Lárussyni að þegar slysið varð hafi Sigurður verið búinn að bora allar holurnar og hleðslumenn búnir að koma sprengiefni fyrir. Hafi Sigurður verið staddur við hliðina á Gísla Ísleifssyni hleðslumanni, Elís Jónsson verið í körfu fyrir ofan þá að tengja kveikjuþræði og stefnandi rétt hjá þeim við sama starfa. Hafi Sigurður allt í einu heyrt óp og séð að Björgvin var að leggjast í jörðina vegna þess að steinn hafi fallið úr stafninum á bak stefnanda. Sigurður kvað ekkert óvenjulegt hafa verið við verklag og allt hafa gengið vel, þá hafi stafninn verið óvenju vel hreinsaður eftir að búið var að pikka niður allt laust berg og spúla með vatni, stinga teinum í loftið og steypusprauta. Gísli Ísleifsson kvað stein hafa fallið úr þriggja til fjögurra metra hæð. Elías Jónsson kvaðst hafa verið í körfu ofan við Sigurð og Gísla við að tengja kveikiþræði. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óvenjulegt áður en slysið varð. Í lögregluskýrslunni segir að lýsing hafi verið slæm í göngunum.

Slysið var tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins. Í skýrslu Vinnueftirlitsins segir vinnubrögð og starfshættir hafi verið hefðbundin, að sögn öryggisstjóra. Allur nauðsynlegur öryggisbúnaður hafi verið notaður og engar athugasemdir væru gerðar af hálfu Vinnueftirlitsins við tæki og réttindi starfsmanna. Orsök slyssins hafi virst vera að skroturum hafi yfirsést lausi steinninn eða hann losnað síðar og fallið niður með fyrrgreindum afleiðingum.  

Eftir slysið var stefnandi fluttur á sjúkrahúsið á Neskaupstað. Þar kom í ljós að hann hafði tognað og fengið brjóstholsáverka, meðal annars áverka á vinstra lunga og mörg rifbrot, brot á vinstra herðablaði og brot á hryggjarsúlutindum á nokkrum hryggjarliðsbolum. Stefnandi var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur og lagður inn á gjörgæsludeild.

Stefndi var með ábyrgðartryggingu og slysatryggingu hjá réttargæslustefnda er slysið varð. Með bréfi til réttargæslustefnda, dagsettu 9. júlí 2004, krafðist lögmaður stefnanda viðurkenningar á bótaábyrgð réttargæslustefnda vegna líkamstjónsins. Með tölvubréfi 20. janúar 2005, féllst félagið á greiðsluskyldu úr slysatryggingu launþega en hafnaði greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda. Með bréfi til réttargæslustefnda 31. mars 2005, krafðist lögmaður stefnanda þess á ný að viðurkennd yrði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjónsins. Greiðslu úr ábyrgðartryggingu var hafnað með bréfi félagsins, dagsettu 8. júlí 2005, á þeim grunni að um óhappatilvik væri að ræða.

Í málinu liggja frammi læknisvottorð og matsgerð, dagsett 8. desember 2006. Atli Þór Ólason, læknir, og Sigurður R. Arnalds, hrl., mátu afleiðingar slyssins þannig að tímabil tímabundins atvinnutjóns væri tæpir átta mánuðir, þann tíma hefði stefnandi verið veikur en rúmliggjandi í 34 daga. Þeir töldu varanlegan miska stefnanda vera 15% og varanlega örorku 10%. Með kröfubréfi, dagsettu 5. febrúar 2007, var töluleg krafa sett fram af hálfu stefnanda, með fyrirvara um nánar tiltekna þætti, en kröfunni var hafnað af réttargæslustefnda.

Stefnandi kveðst telja mat á miska og varanlegri örorku í fyrirliggjandi matsgerð of lágt og hyggst afla nýs mats á afleiðingum slyssins. Því láti hann nægja á þessu stigi að krefjast viðurkenningar á bótaskyldu stefnda.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kvaðst nú starfa í þjónustudeild Ístaks. Stefnandi sagðist hafa haft 20 ára reynslu af pall- og skurðsprengingum áður en hann hóf störf hjá Ístaki. Hann hefði þó ekki haft reynslu af jarðgangagerð sem væri öðruvísi vinna en vinna úti á mörkinni. Hann hefði haft titilinn verkstjóri en sett það skilyrði áður en hann fór til starfa að hann fengi fullan stuðning. Hann kvaðst ekki hafa stýrt vinnunni heldur hefði verið fylgt almennum verklagsreglum sem voru komnar á, þær hefðu verið settar af yfirverkstjóranum og reyndum mönnum. Stefnandi kvaðst hafa unnið jafnt og allir aðrir. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa tekið ákvörðun um að hefja vinnu að nýju eftir sprengingu heldur hafi verklagsreglurnar gilt. Beðið hefði verið eftir bendingu frá skrotara um hvort óhætt væri að fara aftur að stafni ganganna.

Stefnandi sagði að þeir hefðu verið fjórir á hverri tólf tíma vakt, og að slysið hefði orðið við lok vaktar þegar þeir höfðu lokið við að hlaða sprengiefni. Þegar komið væri inn í göng eftir sprengju væri reynt að meta aðstæður, loftið hefði verið styrkt og hreinsað betur, boraðar í það styrkingar og það steypusprautað. Hefði svo hafist vinna við að bora fyrir næstu færu. Frágangur á tengingum eftir að búið var að fylla götin af sprengiefni hefði tekið um klukkustund og þá liðinn um hálftími til klukkutími frá því að gefið hefði verið grænt ljós frá manninum í búrinu fyrir ofan, um að það væri í lagi að fara undir stafninn.

Stefnandi kvað það hafa komið fyrir að steinar féllu, en erfitt hafi verið að koma í veg fyrir að það gerðist. Hann kvað verkið hafa verið við það að vera á áætlun þegar hann hóf störf en illa gengið fyrr um sumarið. Kapp hafi verið í mönnum.

Ásgeir Loftsson, staðarstjóri á verkinu þegar slysið varð, gaf skýrslu. Hann kvaðst nú vera yfirverkfræðingur hjá Ístaki. Hann kvaðst hafa komið a slysstað 10 mínútum eftir að slysið varð.

Ásgeir lýsti framkvæmdinni svo að boraðar hefðu verið 90 fimm metra holur í bergið, sem voru fylltar af sprengiefni. Eftir að sprengt var hefði verið beðið eftir að eiturgufurnar hyrfu og næst mokað út úr göngunum. Eftir það hefði hvelfingin eða stafninn verið hreinsaður. Fyrst hefði verið notuð grafa til að ná stærstu steinunum niður og athuga hvort einhverjar stórar fyllur gætu verið lausar. Næst hefðu yfirleitt tveir menn farið upp í körfu með skrotprik og kroppað í allt til að ná niður öllu lausu bergi. Þá hefði verið borað fyrir boltum í loftið og niður með hliðunum og grjótið fest upp með boltum og næst metið hvort það ætti að steypusprauta yfir þetta. Steypan héldi litla grjótinu, en fyrst væri þó bergið þvegið. Þegar umrætt slys varð hefði verið búið að bolta, steypa og þvo allt saman. Eftir að búið var að steypusprauta hefði verið borað þannig að áður en menn fóru að hlaða sprengiefni hefði verið búið að fara aftur yfir stafninn. Sá sem hlóð sprengiefni í ofanverðan stafninn hefði plokkað í hann. Hann kvað borsprengjuaðferðina vera þekkta aðferð.

Ásgeir kvað þetta vera hættulega og erfiða vinnu og steinar hefðu dottið niður þannig að næstum því hafi orðið slys. Inntur eftir því hver gæti verið ástæðan fyrir að steinn losnaði kvaðst hann telja að breyting yrði á spennu í berginu eftir sprengingar. Ekki væri algengt að steinar féllu eftir að öllu starfinu væri lokið en það kæmi þó fyrir. Hann kvað verkstjóra og manninn á bornum hafa tekið ákvörðun um næstu sprengingu og þá hafa haft stuðning af yfirverkstjóranum. Lýsing hafi verið góð í göngunum. Hann kvað hafa verið kapp í mönnum og verkið á áætlun. Þá sagði hann að miklar kröfur væru gerðar til að hreinsað væri vel og að það væri litið þannig á að mennirnir væru að hreinsa fyrir sjálfa sig, til að tryggja eigið öryggi.    

Steindór Óli Ólason, kvaðst hafa verið yfirverkstjóri og séð um að samræma kerfið á vöktunum. Hann sagðist hafa verið inni í göngunum hálftíma áður en slysið varð. Hann lýsti vinnunni með svipuðum hætti og að framan er greint. Hann kvað þetta vera algengustu aðferðina við að búa til jarðgöng. Starfsmenn Ístaks hefðu lært verklagið hjá norskum verktökum. Steindór kvað vera litið þannig á að þeir sem væru að hreinsa göngin væru að verja eigin limi.

Steindór kvað að það liði mislangur tími frá því að sprengt væri þar til vinna hæfist að nýju, það gætu liðið 10 til 12 tímar þar til borferlið hæfist aftur. Í því tilfelli sem hér um ræðir hefði fjallið verið tiltölulega gott og frá því að salvinn á undan var sprengdur hefðu liðið fimm til sex klukkustundir. Kvað hann hreinsunarstarfið taka um það bil tvær klukkustundir þannig að um átta tímar hefðu liðið frá síðustu sprengju. Steindór lýsti því að þegar boraðar væru holur losnaði oft grjót í stafninum en áður en hafist væri handa við að hlaða dýnamít væri gengið aftur á stafninn. Þegar búið væri að bora holur í efri hluta stafnsins væri borvagninn stoppaður og farið í körfu til að hrjóða allt laust niður. Það tæki um þrjú korter að hlaða sprengiefni og byrjað væri efst. Yfirleitt færu tveir menn upp í körfu til að hlaða og á meðan hlaðið væri, væri enn verið að athuga laust grjót. Þeir sem tækju ákvörðun um að hefja vinnu að nýju eftir að hreinsunarstarfi lyki væru borstjórinn og verkstjórinn. Steindór kvað vera spennulosun í berginu sem yrði meiri eftir því sem fjallið væri hærra.

Steindór kvað 12 tíma vaktir eðlilega reyna á menn. Þá kvað hann tvö eða þrjú minniháttar slys hafa orðið við gerð þessara ganga.

Sigurður Lárusson mætti fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa stjórnað borvagninum. Hann kvað þá hafa verið að hlaða sprengiefni í miðjan stafninn þegar slysið varð en hann hefði ekki séð steininn falla. Í lögregluskýrslu er haft eftir Sigurði að flöturinn hafi verið óvenju  vel hreinsaður og var það borið undir hann fyrir dóminum. Sigurður kvað þetta vera rétt eftir sér haft og sagðist hafa hreinsað flötinn sjálfur með gröfu, hefði stafninn verið skafinn með skóflu, þakið sprautað og boltað og aðstæður verið góðar. Sigurður kvað það vera rútínu hvenær vinna við nýja sprengju hæfist eftir hreinsun. Hann kvað manninn í búrinu fyrst fara upp að efri hluta stafns til að hlaða sprengiefni og hreinsa og þegar hann væri byrjaður að hlaða væri hann búinn með sína hreinsun. Hann sagði að þegar holurnar væru boraðar gæti losnað dálítið af bergi. Inntur eftir því hvort svona steinn eins og féll á stefnanda ætti að sjást, kvað hann steina eiga að sjást ef sprunga væri komin á milli steins og bergveggjar.

Gísli Kristinn Ísleifsson kvaðst hafa aðstoðað við að bora umrætt sinn og séð um að hlaða. Hann kvaðst ekki hafa verið við hreinsunarstarf í þetta skipti. Aðspurður kvað hann þá hafa haft á orði að stafninn hefði verið óvenju góður, það hefði þannig verið lítið af lausu grjóti. Gísli kvað þá hafa verið að enda vakt en ekkert sérstakt kapp hefði verið í mönnum vegna þess. Þeir hefðu unnið þannig að ef eitthvað lítið væri eftir af sprengingu hefði sú vakt klárað verkið. Gísli kvaðst sjálfur hafa lent í svipuðu slysi skömmu áður. Þeir hefðu verið að vinna við hleðslu og steinn fallið á fót hans þannig að hann missti framan af tá. Hann kvað þetta vera hættulega vinna og að aldrei væri unnt að vera 100% öruggur.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja dómkröfu sína á reglum um hlutlæga ábyrgð, sakarlíkindareglunni, sakarreglunni, reglunni um vinnuveitendaábyrgð, sem og ströngum bótareglum um skaðabótaábyrgð vegna þeirrar miklu hættu sem felst í sprengjuvinnu við jarðgangagerð.

Stefnandi byggir á því að í ljósi atvika að slysinu og eðlis þess starfs sem stefnandi sinnti beri stefndi hlutlæga ábyrgð á slysi stefnanda, eða ábyrgð á grundvelli sakarlíkindareglunnar.

Jarðgangagerð hafi verið tekin sem dæmi um athafnasvið þar sem ólögfest hlutlæg ábyrgð sé réttmæt. Að mati stefnanda séu allar aðstæður til að beita reglunni um hlutlæga ábyrgð í þessu máli. Störf verði varla mikið hættulegri en þau störf sem stefnanda og samstarfsmönnum hans var gert að vinna í umrætt sinn. Þeir hafi unnið við erfiðar aðstæður, í þröngum göngum inni í fjalli, og haft það meginverkefni að sprengja leið í gegnum bergið. Af slíku verki stafi mikil og augljós hætta á líkamstjóni af því tagi sem stefnandi varð fyrir. Verkið sé unnið í þágu atvinnurekstrar stefnda og eðlilegt að ábyrgð sem af verkinu leiði sé hans. Stefnandi kveðst vilja taka fram að slík ólögfest hlutlæg ábyrgð sé ekki fjarlægari en svo að stefndi sé að öllum líkindum sérstaklega ábyrgðartryggður fyrir henni.

Verði ekki fallist á að hlutlæg ábyrgð gildi um tjónið krefst stefnandi þess að gengið verði skemur og sakarlíkindareglunni beitt, enda sé heimild til slíks einnig ótvírætt til staðar. Sú regla leiði til ábyrgðar stefnda, enda hafi stefndi ekki sannað að tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi af hálfu stefnda eða starfsmanna hans.

Verði ekki fallist á sjónarmið stefnanda um hlutlæga ábyrgð og sakarlíkindareglu sé ljóst að stefndi beri ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Hafi ástæðan fyrir slysi stefnanda verið sú að starfsmenn stefnda sem hreinsa áttu laust berg úr stafninum hafi ekki vandað sig nægilega í umrætt sinn. Hlutverk hreinsunarmannanna hafi verið að fara rækilega yfir stafninn eftir síðustu sprengingu og tryggja að ekkert laust berg væri eftir. Það hafi síðan verið hlutverk þeirra sem hlóðu sprengiefni í efri hluta stafnsins að hreinsa það grjót sem hugsanlega kynni að hafa losnað við borunina. Þar sem laust berg hafi fallið á stefnanda sé ljóst að þessir aðilar hafi ekki sinnt umræddri skyldu sinni með fullnægjandi hætti. Niðurstaða Vinnueftirlits ríkisins sé í samræmi við þetta. Starfsmenn stefnda hafi þar með sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiði til bótaskyldu stefnda á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.

Réttargæslustefndi hafi haldið því fram að grjótið sem hrundi ofan á stefnanda kunni að hafa losnað síðar, það er eftir að hreinsunarmennirnir höfðu yfirfarið sprengiflötinn. Stefnandi telur að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu, en hann hafi engar sönnur fært fyrir henni. Þá bendir stefnandi á að þótt talið verði að grjótið hafi ekki losnað við síðustu sprengingu, þá hafi það verið á verksviði þeirra sem unnu að hleðslu í efri hluta stafnsins að fjarlægja það grjót sem kynni að losna síðar, til dæmis þegar borað var í stafninn. Þá telur stefnandi ljóst að jafnvel þótt stefnda tækist sönnun um að grjótið hafi ekki losnað við sprengingu eða borun þá beri stefndi skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda. Það sé á ábyrgð vinnuveitanda að tryggja að verklag og vinnuaðstæður séu þannig að ekki stafi hætta af, sbr. meðal annars ákvæði IV. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Séu skyldur vinnuveitanda til að gæta fyllsta öryggis enn ríkari þegar unnið sé við svo hættulegt verk sem jarðgangagerð er. Stefndi hafi ekki sinnt þessum skyldum sínum og hafi stefnandi orðið fyrir alvarlegu líkamstjóni þrátt fyrir að fylgja að öllu leyti því verklagi sem stefndi lagði fyrir hann. Verklagið og vinnuaðstæðumar hafi þannig leitt til líkamstjóns stefnanda og á því beri stefndi skaðabótaábyrgð. Í þessu sambandi megi meðal annars benda á að samkvæmt lögregluskýrslu hafi lýsingin í göngunum ekki verið góð, en augljóst sé að slíkt hafi í för með sér aukna hættu á slysi þegar starfsmenn sjái ekki til við vinnu sína. Þá skorti verulega á leiðbeiningar og aðvaranir af hálfu stefnda til starfsmanna sinna vegna hættu á grjóthruni.

Stefnandi kveðst einungis hafa verið búinn að vinna hjá stefnda í nokkrar vikur er slysið átti sér stað. Hann hafi enga reynslu haft af sambærilegum störfum og því verið nýr á þessu sviði. Það hafi því verið samkomulag með stefnanda og stefnda um að stefnandi fengi fullan stuðning og leiðsögn frá yfirmönnum sínum og öðrum mönnum sem hafi verið vanir jarðgangagerð. Stefnandi hafi ekkert haft um verklag eða vinnuaðstæður að segja, heldur hafi því verklagi einfaldlega verið fylgt sem yfirmenn stefnanda höfðu fyrirskipað og notað hafði verið fram að þessu. Það geti því á engan hátt verið á ábyrgð stefnanda hvernig aðstæður og verklag voru. Þá hafi það verið hreinsunarmennirnir sem hafi gefið fyrirmæli um að það mætti hefja vinnu við stafninn eftir hreinsun. Það hafi svo verið starfsmennirnir sem unnu að hleðslu í efri hluta stafnsins sem hafi gefið merki um að óhætt væri að hefja vinnu við neðri hluta stafnsins. Þessar ákvarðanir hafi ekki verið stefnanda og hann hafi ekki verið í neinni aðstöðu til annars en að treysta þeim ákvörðunum sem starfsmennirnir í körfunni tóku.

Stefnandi telur að slysið sem hann varð fyrir hafi alls ekki verið óhappatilvik eins og réttargæslustefndi haldi fram enda hefði slysið ekki orðið ef þeir sem annast áttu hreinsun stafnsins hefðu gert það með fullnægjandi hætti og stefndi hagað verklagi og vinnuaðstæðum þannig að hætta stafaði ekki af. Engin leið sé að halda því fram að slysið hafi orðið af tilviljun einni enda hefði grjótið aldrei losnað og fallið ofan á stefnanda nema vegna þess verks sem hann vann að í þágu stefnda við að sprengja göng í gegnum bergið. Þær aðgerðir hafi leitt til slyssins og hvorki verið tilviljun né óhapp.

Tekið skuli fram að jafnvel þótt ekki yrði fallist á að beita beri hlutlægri ábyrgð eða sakarlíkindareglu sé ljóst að beita verði ströngu sakarmati, enda um verulega hættulegt starf að ræða þar sem gera verði sérstaklega ríkar kröfur til vinnuveitanda. Um það vísist til almennra reglna skaðabótaréttar. Raunar sé einsýnt samkvæmt því sem að ofan er rakið að stefndi beri ábyrgð jafnvel þótt hefðbundnum sakarmælikvörðum yrði einum beitt.

Loks skuli tekið fram að starfsmaður stefnda hafi hreyft við slysavettvangi, þvert á skipanir lögreglu, áður en unnt hafi verið að ljósmynda hann eða rannsaka nánar. Af þeim sökum verði að skýra allan hugsanlegan vafa um málavexti stefnda í óhag, enda myndi rannsókn hugsanlega hafa getað leitt tildrög slyssins skýrar í ljós.

Með vísan til alls framangreinds verði að telja ótvírætt að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóninu sem stefndi hafi orðið fyrir vegna slyssins. Stefndi hafi verið með ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda þegar slysið átti sér stað og réttargæslustefndi sé því greiðsluskyldur á grundvelli tryggingarinnar.

Framsetning kröfunnar um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda við stefnanda byggi á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi vísar og til d-liðar 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Stefnandi hafi augljósa lögvarða hagsmuni af því að úr umræddum réttindum hans verði skorið enda óumdeilt að stefnandi hafi orðið fyrir umtalsverðu líkamstjóni við slysið.

Stefnandi styður málskostnaðarkröfu sína við 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og lög nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísar stefandi til 1. mgr. 33. gr., sbr. og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi að hann beri ekki hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda, í öðru lagi á því að ósannað sé að tjónið megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Í þriðja lagi byggir stefndi á því að stefnandi verði að bera tjón sitt að fullu leyti sjálfur vegna eigin sakar.

Stefndi byggir á því að sakarreglan gildi um ábyrgð hans. Er því harðlega mótmælt að stefndi geti borið hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda. Heimild skorti í settum lögum til að leggja bótaábyrgð á stefnda vegna tjóns stefnanda. Þá sé heldur ekki að finna ólögfesta hlutlæga ábyrgðarreglu í íslenskum rétti, sem hlutlæg bótaábyrgð stefnda gæti byggst á. Hlutlæg ábyrgð án beinnar lagaheimildar í settum lögum sé nær óþekkt. Þá sé starfsemi stefnda ekki á sviði þar sem ólögfest bótaábyrgð gæti helst komið til greina, líkt og stefnandi vilji meina. Því sé mótmælt að í íslenskri réttarframkvæmd sé að finna tilhneigingu til að byggja á sjónarmiðum um hlutlæga bótaábyrgð án lagaheimildar þegar um hættumeiri starfsemi, líkt og jarðgangagerð, sé að ræða. Þvert á móti verði alls ekki ráðið af dómafordæmum síðustu áratugina að vinnuveitandi beri hlutlæga ábyrgð á líkamstjóni starfsmanna í tengslum við slík störf. Sé þannig enginn grundvöllur til þess að stefndi geti borið hlutlæga bótaábyrgð á umstefndu tjóni stefnanda.

Stefndi byggir ennfremur á því að stefnandi hafi ekki sannað að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum, en hann beri sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns. Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til þess að snúa við sönnunarbyrði í málinu og byggja á sakarlíkindareglu, líkt og stefnandi vilji gera eða byggja á strangara sakarmati en almennt tíðkist í vinnuslysamálum.

Stefndi mótmælir því að aðstæður á vinnustaðnum hafi ekki verið forsvaranlegar eða að verkstjórn og leiðbeiningum hafi verið ábótavant. Þvert á móti hafi stefndi og starfmenn hans sýnt mikla aðgæslu við umrædd störf og tryggt þannig, eins og best varð á kosið, að verklag og vinnuaðstæður væru með þeim hætti að ekki stafaði hætta af. Ekki verði séð af gögnum málsins að starfsmönnum stefnda hafi yfirsést hið lausa grjót og sé það með öllu ósannað af stefnanda. Á hinn bóginn verði að telja að starfsmenn hafi sýnt af sér sérstaka aðgæslu við hreinsunarstörf enda hafi öryggi þeirra sjálfra verið í húfi.

Stefndi kveður ekki vera til öruggari aðferð við gerð jarðganga en hin svokallaða borsprengjuaðferð. Áður en stefnandi slasaðist hafi starfsmenn stefnda farið rækilega yfir allan sprengiflöt ganganna og gengið úr skugga um að ekkert laust grjót væri til staðar eftir síðustu sprengingu. Ekki aðeins hafi starfmenn stefnda hreinsað flötinn með þrýstidælu og skrotum, heldur hafi þeir einnig styrkt veggi ganganna með boltum sem boraðir hafi verið inn í veggina. Loks hafði flöturinn verið sprautaður með steypulögn til að varna losi. Þegar þessari hreinsun var lokið hafi starfsmenn, þar með talinn stefnandi sjálfur, talið að öruggt væri að hefja vinnu við næstu sprengingu þar sem ekki hafi átt að vera hætta á frekara hruni. Í lögregluskýrslu sé haft eftir vitninu Sigurði Lárussyni að sprengiflöturinn hafi verið óvenju vel hreinsaður umrætt sinn. Þá segi einnig í lögregluskýrslu að aðrir starfsmenn hafi ekki orðið varir við neitt athugavert við aðstæður á vettvangi. Þá segi í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins að allur nauðsynlegur öryggisbúnaður hafi verið notaður og engar athugasemdir séu gerðar í skýrslunni við tæki eða réttindi starfsmanna. Telji Vinnueftirlitið að slysið megi hugsanlega rekja annað hvort til að hreinsunarmönnum hafi yfirsést steinninn eða til að hann hafi losnað eftir að hreinsunarstarfi lauk. Stefndi telur blasa við að slys stefnanda megi rekja til síðarnefndu orsakarinnar. Stefndi kveður um það bil fjórar klukkustundir hafi liðið frá því að hreinsunarstarfi lauk þar til steinflagan féll á stefnanda. Töluverð hreyfing geti myndast í bergi jarðganga og allar líkur séu á því að þrýstingur í berginu hafi orsakað losun steinsins svo löngu eftir hreinsun. Stefndi kveðst telja þetta hafa verið orsök slyssins og því útilokað fyrir starfsmenn stefnda að koma í veg fyrir það.

Af framansögðu sé ljóst að stefndi hafi uppfyllt allar þær skyldur sem lagðar séu á hann í lögum nr. 46/1980 auk þess sem starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér alla þá aðgæslu sem vænta mátti frá þeim.

Þess beri einnig að geta að stefnandi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun, í samráði við aðra yfirmenn, að vinna gæti hafist á nýjan leik að lokinni síðustu sprengingu. Stefnandi hafi starfað sem verkstjóri á vegum stefnda og hafi hann sjálfur tekið þátt í að ákveða að óhætt væri að fara inn í göngin og hefja vinnu að nýju. Þessa ákvörðun hafi stefnandi væntanlega tekið á grundvelli skoðunar sinnar á ástandi ganganna sem hann hafi talið vera öruggt. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi ekkert haft um verklag á vinnustaðnum að segja og að hann hafi verið með öllu reynslulaus af störfum við jarðgangagerð. Fyrir liggi í málinu að stefnandi hafi starfað sem verkstjóri á vinnustaðnum og að hann hafi verið búinn að starfa sem slíkur í tæpa þrjá mánuði. Þrátt fyrir stuttan starfsaldur hjá stefnda, hafi stefnandi haft víðtæka reynslu af sprengingum og borverki ofanjarðar og því sé fráleitt að telja stefnanda reynslulausan af slíkum störfum.

Stefndi mótmælir því að sú staðreynd að einn starfsmaður stefnda hafi átt við vettvanginn áður en lögregla tók myndir af honum geti haft áhrif á sönnunarstöðu í málinu. Háttsemi starfsmannsins hafi falist í því að hann hafi tekið upp umrædda steinhellu áður en teknar hafi verið myndir en hann hafi að öðru leyti ekki átt við vettvanginn. Telja verði að háttsemi starfsmannsins sé svo minniháttar að hún geti ekki nokkru breytt um sönnun á tildrögum slyssins. Hún hafi því engin áhrif haft á rannsókn málsins.

Stefndi kveðst mótmæla því sérstaklega sem fram komi í stefnu að lýsing í göngunum hafi ekki verið góð þegar slysið varð og að það hafi haft í för með sér aukna hættu á slysi. Í lögregluskýrslu segir að lýsing hafi ekki verið góð inni í göngunum en verulega hafi hins vegar dregið úr lýsingu þegar lögregla kom á vettvang. Slökkt hafi verið á afar öflugum ljóskösturum borvagns auk þess sem ekki hafi notið lengur við hjálmljósa starfsmanna. Sé því ljóst að mun meiri birta hafi verið inni í göngunum þegar slysið varð og hafi Vinnueftirlit ríkisins ekki séð ástæðu til þess að gera athugasemdir við hana.

Með hliðsjón af öllu framangreindu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi kveðst byggja á því að stefnandi verði að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu sjálfur vegna eigin sakar, verði slysið á annað borð rakið til yfirsjónar við hreinsunarstörf. Hafi atriði því til stuðnings verið rakin en rétt sé að árétta að stefnandi hafi sjálfur séð um verkstjórn á staðnum og sjálfur tekið ákvörðun um að óhætt væri að hefja vinnu í göngunum að nýju að lokinni skoðun á ástandi þeirra. Þá beri að nefna að stefnandi hafi búið yfir mikilli reynslu af sprengingum og borverki ofanjarðar. Í ljósi aldurs stefnanda og reynslu hans verði að telja það honum til sakar að hafa ekki sýnt meiri aðgæslu áður en hann hafi tekið ákvörðun um að hefja vinnu á nýjan leik að lokinni hreinsun.

Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á sýknukröfu stefnda, gerir hann þá kröfu til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður. Varakröfu sína kveðst stefndi byggja á þeirri málsástæðu að stefnandi verði sjálfur að bera tjón sitt að hluta vegna eigin sakar. Hafi röksemdir varðandi eigin sök verið raktar hér að framan og vísist til málsástæðna í aðalkröfu varðandi sjónarmið um eigin sök stefnanda.

Stefndi kveðst einkum vísa til reglna skaðabótaréttar um óhappatilvik, gáleysi og eigin sök tjónþola, auk laga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í settum lögum er ekki að finna heimild til þess að leggja bótaábyrgð á stefnda. Þá er ekki fyrir að fara ólögfestri bótareglu í íslenskum rétti sem byggt verði á hér. Ábyrgð stefnda verður því ekki reist á hlutlægum grunni. Þá verður ekki talið unnt að leggja sönnunarbyrði á stefnda um að tjóni hafi ekki verið valdið með saknæmum hætti enda myndi það fela í sér strangara sönnunarmat en almennt er beitt um vinnuslys.

Í skýrslu Vinnueftirlitsins segir að vinnubrögð og starfshættir umrætt sinn hafi verið með hefðbundnum hætti og er það í samræmi við framburð vitna. Þá var allur áskilinn öryggisbúnaður notaður og engar athugasemdir gerðar af hálfu Vinnueftirlits við tæki og réttindi starfsmanna. Fram kemur í vitnaskýrslum að lýsing í göngunum hafi verið góð, þá er þess ekki getið í skýrslu Vinnueftirlitsins að lýsing hafi verið slæm. Þykir allt benda til þess að búið hafi verið að slökkva á ljósum þegar lögreglan kom á vettvang. Það þykir ekki hafa áhrif á sönnun að umræddum stein hafi verið lyft. 

Vinnuferlið mun samkvæmt lýsingum vitna hafa verið þannig að eftir sprengingar var einhver tími látinn líða áður en farið var inn í göngin aftur. Grjót var svo keyrt út úr göngunum með gröfu. Næst var bergið spúlað með vatni, stórt grjót fest með teinum og þak ganganna loks sprautað með steypu. Einnig var farið yfir bergvegginn með prikum til að losa laust grjót. Að hreinsuninni lokinni voru boraðar holur í bergið. Þær voru fylltar af sprengiefni og byrjað efst. Sá sem var í körfunni að hlaða sprengiefni í ofanverðan bergvegginn átti einnig að losa laust grjót. Þegar hann var búinn að hlaða taldist óhætt fyrir hina að fara undir stafn ganganna til að hlaða sprengiefni í neðri hluta hans. Þegar slysið varð mun hafa verið búið að fylla allar holurnar og verið að tengja víra á sprengjunum. Að sögn Steindórs Óla Ólasonar tekur um 45 mínútur að hlaða dínamíti. Stefnandi kvað frágang á tengingum hafa tekið um klukkustund, en þá hafi verið liðinn hálftími til klukkutími frá því að maðurinn sem var upp í búrinu að hreinsa og hlaða gaf merki um að það væri í lagi að fara undir vegginn. Samkvæmt þessu hafa liðið í mesta lagi tvær klukkustundir frá því að stafninn var síðast hreinsaður þar til steinninn féll. 

Ekkert er fram komið sem bendir til þess að maðurinn sem hafði þann starfa að hreinsa bergvegginn fyrir ofan stefnanda og hlaða í holurnar þar, hafi verið kærulaus við starf sitt. Fremur virðist klettaveggurinn hafa þótt vera vel hreinsaður þennan morgun. Upplýst er að bergið lætur undan þrýstingi fjallsins fyrir ofan og er á einhverri hreyfingu og að steinar losna tiltölulega oft. Verklag var í föstum skorðum og virðist hafa verið eðlilegt. Þá voru allir starfsmenn meðvitaðir um hættuna sem starfinu fylgdi og lögð var áhersla á að hreinsa bergið til þess að varna slysum. Þótt starfsemin sé hættuleg verður ekki séð hvað stefndi hefði getað gert frekar til að varna tjóni.

Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, Ístak hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Björgvins G. Guðmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.