Hæstiréttur íslands

Mál nr. 466/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 4. ágúst 2011.

Nr. 466/2011.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms, um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. ágúst 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. ágúst 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. ágúst 2011 klukkan 11 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Hann krefst þess jafnframt að hann verði ekki látinn sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með héraðsdómi að skilyrði séu til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna og að hann sæti einangrun á meðan á því stendur. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. ágúst 2011.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að [...],  til heimilis að [...] verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudagsins 8. ágúst 2011, klukkan 16.00 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í þinghaldi mánudaginn 1. ágúst sl. þegar krafa um gæsluvarðhald var tekin fyrir gerði lögreglustjóri jafnframt þá kröfu að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist stendur, sbr. b. lið 99. gr. laga nr. 88/2008.

Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað. Til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður styttri tími sem og að kröfu um einangrun verði hafnað.

Í greinargerð lögreglunnar á Selfossi kemur fram að lögreglu hafi um klukkan 18.10 sunnudaginn 31. júlí sl., borist tilkynning frá Heilsugæslustöðinni í Vestmannaeyjum þess efnis að stúlka hafi leitað þangað vegna meintrar nauðgunar á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Lögreglan hafi farið á staðinn og rætt við ætlaðan brotaþola í máli þessu sem kvað mann hafa þvingað sig til kynferðisathafna á útisalerni á þjóðhátíðarsvæðinu í Vestmannaeyjum milli klukkan fjögur og fimm aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí sl. Greindi brotaþoli, [...], lögreglu frá því að hún hafi komist undan manninum og farið í veitingatjald þar sem hún hafi beðið gæslumenn um að losa sig frá manninum. Lögreglan tók skýrslu af brotaþola síðdegis mánudaginn 1. ágúst sl. Brotaþoli lýsti ætlaðri atburðarás á þann veg að hún hafi verið á leið heim úr dalnum og komið við á útkömrunum. Þegar hún hafi verið á leið út hafi maður komið að henni og ýtt henni inn aftur og náð að setja hendi sína ofan í  buxur hennar og stungið fingri í leggöng hennar. Hún hafi orðið reið og  tekist að opna hurðina og hlaupið á brott en maðurinn náð henni og dregið hana aftur inn á kamarinn þar sem hann hafi tekið niður buxur hennar og náð að hafa við hana samfarir um leggöng sem staðið hafi í stutta stund. Brotaþoli kvaðst hafa komist í burtu og náð að hlaupa til gæslumanna við veitingatjaldið sem hafi hjálpað henni og varnað því að maðurinn, sem komið hafi á eftir henni, næði til hennar. Fram kom hjá brotaþola að hún hafi ekki greint gæslumönnum frá því sem gerst hafi, aðeins sagt þeim að maðurinn væri að elta sig. Í skýrslutöku af ætluðum brotaþola kom fram að hún hafi hringt í nafngreindan vin sinn eftir að hún fór frá gæslumönnunum. Þá hafi hún sagt kærasta sínum frá því að morgni sunnudagsins að maður hafi elt hana. Síðar um daginn hafi hún sagt kærasta sínum frá því sem kom fyrir og hann þá farið með hana beint upp á sjúkrahús. Fyrir liggur að brotaþoli fór til rannsóknar á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis í Reykjavík að kvöldi sunnudagsins 31. júlí sl.

Í gögnum málsins kemur fram að klukkan 22.42 sunnudaginn 31. júlí sl. hafi lögregla rætt við þrjá nafngreinda gæslumenn sem hafi munað eftir því að brotaþoli hafi leitað til þeirra á milli klukkan 04.00 og 05.00 umrædda nótt þar sem þeir voru í hópi sjö gæslumanna við veitingatjald á þjóðhátíðarsvæðinu. Fram kemur að brotaþoli hafi sagt þeim að hún væri hrædd við mann þann sem kom á eftir henni að veitingatjaldinu og vildi ekki vera með honum og voru þeir sammála um að brotaþoli hafi virst mjög hrædd við manninn og hafi hún reynt að skýla sér fyrir honum með því að standa aftan við gæslumennina. Í upplýsingaskýrslu lögreglu kemur fram að aðrir gæslumenn hafi ekki tekið eftir umræddum atburðum. Áðurgreindir þrír gæslumenn gáfu lögreglu lýsingu á manni þeim sem elti brotaþola umrædda nótt og lýstu þeir fatnaði hans. Í greinargerð lögreglu kemur fram að gæslumenn hafi verið beðnir um að hafa samband við lögreglu ef þeir rækjust á manninn og í gögnum málsins kemur fram að kl. 02.40 aðfaranótt mánudagsins 1. ágúst sl. hafi lögreglu borist tilkynning frá einum hinna þriggja nafngreindu gæslumanna um að þeir hafi fært kærða í máli þessu í gæsluskúr og að þeir hafi allir þekkt hann sem sama mann og hafi elt brotaþola umrædda nótt. Fram kemur að kærði var handtekinn í framhaldi af því, nánar tiltekið klukkan 02.45 aðfaranótt mánudagsins 1. ágúst sl. 

Kærði var yfirheyrður að kvöldi mánudagsins 1. ágúst sl. og neitaði sök. Hann kvaðst hafa verið á þjóðhátíð, fyrst í dalnum en farið upp á Hásteinsveg, þar sem hann gisti, á tímabilinu hálf sjö til hálf níu um morguninn. Kærði kvaðst hafa verið með þremur nafngreindum vinum sínum og einnig hafi kona eins þeirra verið með þeim. Aðspurður kvaðst kærði sennilega hafa orðið viðskila við þá einhvern tíma á tímabilinu 03.00 til 07.00. Aðspurður um samskipti við konur umrædda nótt kvaðst kærði hafa átt samskipti við konu á útikamri við hvíta tjaldið og hafi hún veitt honum munnmök inni á karminum en kærði neitaði að hafa haft samfarir við hana. Þegar hurðin hafi verið opnuð hafi stúlkan orðið pirruð og farið. Síðar um kvöldið hafi hann hitt hana aftur og þá hafi hún ekki viljað tala við sig og verið stygg og gengið í burtu.  

Í greinargerð lögreglustjóra segir að rannsókn lögreglu sé umfangsmikil og nauðsynlegt sé að yfirheyra þá sem voru á staðnum þegar brotaþoli kom í veitingatjaldið. Taka þurfi skýrslu af vini brotaþola, sem hún ræddi við strax um nóttina, unnusta hennar, móður og mágkonu og talið sé nauðsynlegt að yfirheyra vitnin áður en kærða gefist færi á að ræða við þau. Einnig þurfi að ræða við félaga kærða sem gistu með honum að Hásteinsvegi 5 í Vestmannaeyjum, sem væntanlega séu tveir. Lögregla hafi undir höndum fatnað frá kærða sem eftir eigi að skoða betur til að sannreyna mismun í framburði kærða og vitna. Þá eigi eftir að samprófa framburð kærða og vitna og hætt sé við að kærði geti spillt rannsókninni með því að hafa samband við vitni verði hann látinn laus áður en rannsókn verður lengra á veg komin. Einnig þurfi að fara fram sakbending. Verið sé að rannsaka ætlað brot kærða á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varði það fangelsisrefsingu, eigi skemur en eitt ár og allt að 16 árum að hámarki, ef sök telst sönnuð. Rannsókn málsins sé viðamikil og enn á frumstigi og veruleg hætta þykir á að kærði muni torvelda rannsókn með því að skjóta undan munum, eða hafa áhrif á vitni og samseka eins og segir í greinargerð lögreglustjóra. Með vísan til ofanritaðs, rannsóknarhagsmuna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess farið á leit að ofangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga. Í þinghaldi um kröfu lögreglustjóra í máli þessu setti lögreglustjóri  jafnframt fram kröfu um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði, sbr. b. lið 99. gr. um meðferð sakamála nr. 88/2008. 

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins þekktu þrír nafngreindir gæslumenn  kærða sem mann þann sem á tímabilinu milli 04.00 og 05.00, aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí sl., elti brotaþola að veitingatjaldi á þjóðhátíðarsvæðinu í Vestmannaeyjum en brotaþoli hafi leitað aðstoðar þeirra og greint þeim frá því að hún væri hrædd við manninn. Meðal gagna málsins er upplýsingaskýrsla sem lögregla tók af gæslumönnunum sem gáfu lögreglu greinargóða lýsingu á manninum sem og klæðnaði hans. Samkvæmt þessu verður talið að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðað getur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn því ákvæði getur varðað allt að 16 ára fangelsi, ef sök sannast. Fallist er á að þörf sé að yfirheyra gæslumenn, vini kærða, en upplýsingar um nöfn þeirra komu fram við yfirheyrslu yfir kærða að kvöldi mánudagsins 1. ágúst sl., sem og önnur vitni. Sama á við um sakbendingu. Rannsókn málsins er enn á frumstigi og er því fallist á að kærði kunni að spilla og torvelda rannsókn málsins haldi hann óskertu frelsi sínu. Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna þykja skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, uppfyllt til þess að fallast megi á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir kærða. Hins vegar er ekki fallist á sjónarmið sem tengjast úrvinnslu gagna sem lögreglustjóri hefur aflað enda eru gögn þessi í vörslum hans. Gæsluvarðhaldstími þykir hæfilegur eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður fallist á kröfu lögreglustjóra á grundvelli b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008,  allt eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði[...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5.  ágúst 2011, klukkan 11.00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.