Hæstiréttur íslands

Mál nr. 20/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Frestur


Föstudaginn 24. janúar 2014.

Nr. 20/2014.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga

(Óskar Sigurðsson hrl.)

gegn

Bílum og fólki ehf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Frestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni B ehf. um dómkvaðningu matsmanna. B ehf. hafði höfðað mál á hendur S til heimtu bóta vegna missis hagnaðar sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir þar sem S hefði ekki tekið tilboði hans í akstur vegna almenningssamgangna í nánar tilgreindu útboði. Málinu hafði verið áfrýjað og hugðist B ehf. nota matið til sönnunar á fjárhæð tjóns síns við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Þar sem liðinn var frestur aðila til gagnaöflunar fyrir Hæstarétti, samkvæmt 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, taldi rétturinn tilgangslaust til sönnunar í málinu að afla umbeðins mats, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Hafnaði Hæstiréttur því beiðni B ehf. um dómkvaðningu matsmanna.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. desember 2013 þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Þar sem sóknaraðili hefur engin haldbær rök fært fram til stuðnings aðalkröfu sinni um ómerkingu hins kærða úrskurðar verður henni hafnað.

Hinn 5. júlí 2013 kvað Héraðsdómur Suðurlands upp dóm í máli sem varnaraðili höfðaði á hendur sóknaraðila til heimtu bóta vegna missis hagnaðar sem hann taldi sig hafa orðið fyrir þar sem sóknaraðili hafði ekki tekið tilboði hans í akstur vegna almenningssamgangna í nánar tilgreindu útboði. Sóknaraðili höfðaði gagnsök og krafði varnaraðila um bætur í tilefni af útboðinu. Héraðsdómur sýknaði hvorn aðila af kröfum hins en málskostnaður féll niður. Málinu var áfrýjað af hálfu sóknaraðila og gagnáfrýjað af hálfu varnaraðila.

 Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði óskaði varnaraðili 5. desember 2013 eftir dómkvaðningu matsmanna í því skyni að nota matið til sönnunar á fjárhæð tjóns síns við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Aðilum hæstaréttarmálsins var með vísan til 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 veittur frestur til 22. janúar 2014 til að ljúka gagnaöflun í málinu. Þar sem sá frestur er liðinn er tilgangslaust til sönnunar í málinu að afla umbeðins mats. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður því fallist á varakröfu sóknaraðila og beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna hafnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila málkostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Beiðni varnaraðila, Bíla og fólks ehf., 5. desember 2013 um dómkvaðningu  matsmanna er hafnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. desember 2013.

Beiðni um dómkvaðningu matsmanna í máli þessu, dags. 5. desember sl., barst dómnum þann sama dag. Málið var þingfest 16. desember sl., og komu þá fram mótmæli af hálfu matsþola við dómkvaðningunni. Málinu var frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu matsþola til 19. sama mánaðar. Að loknum munnlegum málflutningi þann sama dag var málið tekið til úrskurðar.

Matsbeiðandi er Bílar og fólk hf., kt. [...], Krókhálsi 12, Reykjavík.  

Matsþoli er Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, kt. [...], Austurvegi 56, Selfossi.

Matsbeiðandi vísar til dóms Héraðsdóms Suðurlands, sem kveðinn var upp  þann 5. júlí sl., í máli matsbeiðanda gegn matsþola til innheimtu bóta vegna missis hagnaðar auk vaxta og málskostnaðar og gagnsök, en héraðsdómur sýknaði bæði í aðal- og gagnsök. Framangreindu máli hafi matsþoli áfrýjað til Hæstaréttar og matsbeiðandi gagnáfrýjað, sbr. mál réttarins nr. 639/2013. Í greinargerð matsbeiðanda til Hæstaréttar hafi þess verið getið að matsbeiðandi ætlaði að afla mats undir rekstri málsins. Þá hafi Hæstiréttur veitt málsaðilum frest til 22. janúar nk. til að ljúka gagnaöflun í málinu.

Matsbeiðandi kveður málavexti vera þá að í september 2011 hafi matsþoli boðið út akstur vegna almenningssamgangna. Matsbeiðandi hafi boðið í tvær af þremur upphaflegum akstursleiðum útboðsins, þ.e. verkhluta 1 og 2. Samkvæmt útboðsgögnum hafi verið heimilt að bjóða í verkið, annars vegar með því að gera tvö sjálfstæð tilboð og hefði mátt taka öðru eða báðum. Hins vegar með því að gera tilboð háð því að báðar leiðirnar fengjust. Hafi matsbeiðandi gert annars vegar sjálfstætt boð í verkhluta 1 að fjárhæð 122.339.547 krónur  og  verkhluta 2 að fjárhæð 21.189.682 krónur, samtals 143.529.229 krónur. Hins vegar hafi matsbeiðandi gert sameiginlegt boð í verkhluta 1 og 2 að fjárhæð 119.835.203 krónur.

Matsbeiðandi segir annmarka hafa verið á hinu sameiginlega tilboði vegna galla í útfyllingu tilboðsskrár sem hefði átt að varða ógildingu tilboðsins og lúti ágreiningur aðila meðal annars að því atriði. Kveður matsbeiðandi að tilboðið hafi verið fallið niður áður en matsþoli tók því, og því byggi krafa matsbeiðanda á hendur matsþola í áðurnefndu hæstaréttarmáli á því að matsþoli hefði, að svo komnu máli, átt að taka sjálfstæðum tilboðum matsbeiðanda í verkhluta 1 og 2. Það hafi matsþoli hins vegar ekki gert og því beri honum að bæta matsbeiðanda það tjón sem matsbeiðandi varð fyrir af þeim sökum. Beiðni um dómkvaðningu matsmanna sé sett fram til að færa sönnur á fjárhæð þess tjóns sem matsbeiðandi hafi orðið fyrir vegna framangreindrar háttsemi matsþola.

Matsbeiðandi krefst þess að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn, til að meta þann ætlaða hagnað sem matsbeiðandi varð af í kjölfar þess að matsbeiðandi fékk ekki verk samkvæmt lægsta tilboði í akstur vegna almenningssamgangna fyrir matsþola, eins og hér segir:

“1. Hverjar hefðu rekstrartekjur matsbeiðanda orðið á samningstímabilinu af umræddu verki (skv. skilgreiningu útboðsgagna í útboði nr. 12695) vegna greiðslna frá verkkaupa á grundvelli beggja hinna sjálfstæðu tilboða matsbeiðanda í verkhluta 1 og 2 (bls. 132-133 og 134-135 í ágripi). 

2. Hver hefði orðið rekstrarkostnaður matsbeiðanda af sama verki:

a. Miðað við ódagsetta kostnaðaráætlun matsbeiðanda (bls. 230-232 í ágripi)

b. Telji matsmenn einn eða fleiri kostnaðarþætti ekki áætlaða í samræmi við markaðsverð í sambærilegum verkum eða á annan hátt rangt metna er þess óskað að þeir meti kostnað viðkomandi þáttar eða þátta og svari spurningu 2 út frá áætluðum rekstrarkostnaði að teknu tilliti til niðurstöðu matsmanna á kostnaðaráætlun matsbeiðanda.

c. Telji matsmenn að einverjum [sic] kostnaðarþáttum sé ofaukið eða kostnaðarþætti skorti í kostnaðaráætlun matsbeiðanda er þess óskað að matsmenn leggi mat á slík áhrif og svari spurningu 2 miðað við kostnaðaráætlun sem hefur verið reiknuð að teknu tilliti til niðurstöðu þeirra við þessum lið.

3. Hver er áætlaður hagnaður matsbeiðanda af umræddu verki að teknu tilliti til framangreindra þátta og annarra sem matsmenn telja að taka þurfi tillit til.

a. á samningstímabilinu,

b. á samningstímabilinu og viðbættum tveimur árum líkt og verkið hefði verið framlengt til tveggja ára í samræmi við heimild í útboðsskilmálum.

                Samantekt

                Óskað er eftir því að umræddir útreikningar verði miðaðir við samningstímabilið frá morgni 2. janúar 2012 til loka 29. desember 2018 og að tekið verið tillit til verðbreytingarákvæða útboðsgagna og almennrar verðlagsþróunar eins og hún kann að hafa haft áhrif á tekjur og gjöld við framkvæmd samninganna. Enn fremur að í matsgerð verði vísað í ákvæði þeirra gagna sem útreikningar byggja á og að tap/hagnaður af framkvæmd samninganna verði sundurliðað fyrir hvert ár. Óskað er eftir því að fullnægjandi sundurliðun og útreikningar fylgi matsbeiðninni, eftir atvikum í fylgiskjali.“

Matsþoli byggir andmæli við dómkvaðningu matsmanna á því í fyrsta lagi að hið umbeðna mat sé bersýnilega tilgangslaust til sönnunar um það atriði sem matsbeiðandi hyggst sýna fram á, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Vísar matsþoli í því sambandi aðallega til þess að samkvæmt matsbeiðni skuli við matsgerðina byggja matið á kostnaðarútreikningum sem matsbeiðandi lagði fram undir rekstri málsins í héraði. Mat á þeim útreikningum myndu hins vegar ekkert sanna og eingöngu flækja og tefja málið.  Þá vísar matsþoli til þess að ekki sé óskað eftir sjálfstæðu mati á þeim atriðum sem matsbeiðni lýtur að, þ.e. rekstrarkostnaði og meintum hagnaði matsbeiðanda af hinu umþrætta verki. Það leiði til þess að matsþoli geti ekki gætt réttar síns að öllu leyti þar sem hann hafi í engu komið að umræddum kostnaðarútreikningum matsbeiðanda.

Í öðru lagi sé beiðni um dómkvaðningu matsmanna of seint fram komin og hafi matsbeiðanda borið að leggja matsgerð fram við þingfestingu málsins í héraði.  Í máli þessu sé ljóst að matsbeiðandi hyggist reyna með matsgerð að bæta úr málatilbúnaði sínum hvað þetta varðar.

      Báðir aðilar krefjast málskostnaðar.

Niðurstaða

Eins og rakið er hér að framan krefst matsbeiðandi dómkvaðningar tveggja matsmanna til að afla sönnunar vegna máls sem hann höfðaði gegn matsþola og dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands þann 5. júlí sl., en matsþoli áfrýjaði til Hæstaréttar, sbr. mál réttarins nr. 639/2013, og matsbeiðandi gagnáfrýjaði. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 27. gr. laga nr. 133/1993, fer um slíka gagnaöflun í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi eftir ákvæðum 75. gr. fyrrnefndu laganna, sbr. og IX. kafla laga nr. 91/1991. 

Í 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 er meginreglan um rétt aðila sem hafa forræði á sakarefninu til að afla sönnunargagna ef þeir telja það málstað sínum til framdráttar. Það er því hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af 3. mgr. 46. gr., þar sem segir að dómari geti meinað aðila um sönnunarfærslu ef dómari telji bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða sé tilgangslaust til sönnunar. Sama gildir ef matsbeiðni beinist að atriðum sem eiga ekki undir verksvið matsmanna samkvæmt lögunum, sbr. og til hliðsjónar 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.

Í IX. kafla laga nr. 91/1991 er kveðið á um matsgerðir og er tilgangur þeirra að fá skoðun eða álit óvilhallra sérfróðra manna, sem dómari tilnefnir á formlegan hátt, á tilteknum staðreyndum í ákveðnu tilviki. Í 1. mgr. 61. gr. áðurgreindra laga er sá einn áskilnaður gerður um form og efni matsbeiðna, að í matsbeiðni skuli koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta á og hvað aðili hyggist sanna með matinu. Samkvæmt 5. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 ber matsmanni að vinna verk sitt af bestu vitund og samviskusemi. Að því leyti sem dómkvaðning matsmanns leiðir ekki til annars hefur hann frjálsar hendur um það hvaða sjónarmið hann leggur til grundvallar og eftir atvikum hvaða gagna hann aflar við matið. Þá á matsþoli á matsfundi þess kost að koma að athugasemdum sínum og ábendingum um framkvæmd matsins, sbr. 2. mgr. 62. gr. laganna.

Sem lið í rekstri hæstaréttarmálsins nr. 639/2013 kveðst matsbeiðandi óska eftir að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að meta nánar tilgreind atriði sem matsbeiðandi hyggst nota til að færa sönnur á fjárhæð tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna tilgreindrar háttsemi matsþola. Ekki er fallist á það með matsþola að þó matsbeiðandi hafi ekki aflað sér sönnunar með matsgerð undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi, beri að hafna matsbeiðninni eins og mál þetta er vaxið. Ákvörðun um hvort byggt verði á matsgerð þeirri sem matbeiðandi hyggst afla, verður fyrst tekin við efnisúrlausn máls matsbeiðanda á hendur matsþola fyrir Hæstarétti, m.a. um það hvort ráðstafanir á sakarefninu fyrir héraðsdómi geti haft þar áhrif. Að mati dómsins uppfyllir matsbeiðni í máli þessu skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Þá þykja athugasemdir matsþola um matsspurningar ekki þess eðlis að ákvæði 3. mgr. 46. gr. áðurnefndra laga eigi við, enda ber matsbeiðandi kostnað af öflun matsgerðar og áhættu af því hvort hún komi honum að notum í dómsmáli aðila fyrir Hæstarétti. Með vísan til framritaðs er fallist á beiðni matsbeiðanda.  

Matsþoli greiði matsbeiðanda 120.000 krónur í málskostnað.

Af hálfu matsbeiðanda flutti Finnur Beck hdl. málið, en Teitur Már Sveinsson hdl. af hálfu matsþola.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

      Umbeðin dómkvaðning matsmanna skal fara fram. 

      Matsþoli, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, greiði matsbeiðanda, Bílum og fólki ehf., 120.000 krónur í málskostnað.