Hæstiréttur íslands

Mál nr. 315/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Aðild
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


                                     

Mánudaginn 27. maí 2013.

Nr. 315/2013.

Ásabraut 31 ehf.

(Gunnar Örn Haraldsson fyrirsvarsmaður)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

Reykjavíkurborg og

Hildu ehf.

(enginn)

Kærumál. Nauðungarsala. Aðild. Ómerking úrskurðar héraðsdóms

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Á ehf. um að nauðungarsala tiltekinnar fasteignar í eigu H ehf. yrði ógilt. Ekki hafði öllum þeim sem gerðu kröfur fyrir sýslumanni í tengslum við nauðungarsöluna, og ekki höfðu fallið frá þeim, verið veitt aðild að málinu fyrir héraðsdómi. Varð því ekki komist hjá því að ómerkja hinn kærða úrskurð og málsmeðferðina í héraði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að nauðungarsala fasteignarinnar Maríubakka 14, Reykjavík yrði ógilt. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Skilja verður kröfugerð sóknaraðila þannig að hann krefjist þess að nauðungarsala sem fram fór á fasteigninni Maríubakka 14  þann 2. október 2012 verði felld úr gildi. Þá krefst hann þess að „málskostnaður verði dæmdur á sýslumanninn í Reykjavík.“

Hvorki Handverk og hráefni ehf., sem var sóknaraðili í héraði, né varnaraðilar hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Þann 2. október 2012 tók sýslumaðurinn í Reykjavík fyrir nauðungarsölu á framangreindri eign til að halda áfram uppboði á henni. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumanns voru gerðarbeiðendur varnaraðilarnir Vátryggingafélag Íslands hf. og Reykjavíkurborg en gerðarþoli var Handverk og hráefni ehf. sem mun vera þinglýstur eigandi eignarinnar. Hæsta boð í eignina mun hafa komið frá Hildu ehf. en félagið á kröfu á hendur gerðarþola sem tryggð er með veði í eigninni. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að hann hafi einnig boðið í eignina en sýslumaður hafi hafnað boðinu þar sem fulltrúi sóknaraðila við fyrirtökuna hafi bæði verið prókúruhafi sóknaraðila og gerðarþola. Þá kemur fram í endurriti sýslumanns að auk þess hafi verið mætt við fyrirtökuna af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur og Íslandsbanka hf. en sömu aðilar hafi, auk Húsfélagsins Maríubakka 14, lýst kröfum í söluandvirði eignarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 teljast til aðila að máli samkvæmt XIV. kafla laganna gerðarþoli, gerðarbeiðandi og aðrir þeir sem hafa gert kröfur fyrir sýslumanni í tengslum við nauðungarsöluna og hafa ekki fallið frá þeim, kaupandi að eigninni ef um hann er að ræða, svo og aðrir sem gefa sig fram við héraðsdómara með kröfur um gildi nauðungarsölunnar og hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum. Var því nauðsynlegt að veita Orkuveitu Reykjavíkur, Húsfélaginu Maríubakka 14 og Íslandsbanka hf. aðild að málinu fyrir héraðsdómi, enda bera gögn þess ekki með sér að umræddir aðilar hafi fallið frá kröfum sínum. Í ljósi þessa verður ekki hjá því komist að ómerkja hin kærða úrskurð og málsmeðferðina í héraði.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður og meðferð málsins í héraði er ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2013.

Með bréfi, mótteknu 3. október 2012, kærði Gunnar Örn Haraldsson fyrir hönd Ásabrautar 31 ehf., kt. 580510-1830, Sólheimum 23, Reykjavík, nauðungarsölu sem fram fór daginn áður á fasteigninni Maríubakka 14, Reykjavík, með fastanúmer 204-7950.

Sóknaraðilinn Ásabraut 31 ehf. krefst þess að uppboðið verði dæmt ógilt og farið verði af stað með nýtt uppboðsferli.

Þessu máli var vísað frá dóminum með úrskurði 7. nóvember 2012, með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, án þess að málið væri fyrst tekið fyrir á dómþingi. Með dómi Hæstaréttar Íslands, 10. desember 2012, í máli nr. 709/2012 var úrskurðurinn og meðferð málsins í héraði ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, þar sem leyst hafði verið úr málinu eftir reglum 13. kafla laga nr. 90/1991 en ekki reglum 14. kafla sömu laga.

Málið var þingfest 22. febrúar sl. Með vísan til 2. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 ákvað aðstoðarmaður dómara að Ásabraut 31 ehf. og Handverk og hráefni ehf. teldust sóknaraðilar málsins en Vátryggingafélag Íslands hf., Reykjavíkurborg og Hilda ehf. varnaraðilar. Af hálfu varnaraðilanna, Vátryggingafélags Íslands hf. og Reykjavíkurborgar, var ekki sótt þing. Málinu var að ósk sóknaraðila og varnaraðilans Hildu ehf. frestað til sáttaumleitana til 15. mars sl. Í fyrirtöku málsins þann dag upplýstu fyrirsvarsmaður sóknaraðila og lögmaður varnaraðilans Hildu ehf. að ekki hefðu tekist sættir og upplýsti lögmaðurinn að varnaraðilinn myndi ekki láta málið frekar til sín taka. Fyrirsvarsmaður sóknaraðila óskaði ekki eftir því að skila greinargerð og lagði málið í úrskurð.

Málsatvik

Í endurriti úr gerðabók Sýslumannsins í Reykjavík segir m.a. að við fyrirtöku 2. október 2012 hafi Gunnar Örn Haraldsson verið mættur af hálfu gerðarþola, sem var sóknaraðilinn Handverk og hráefni ehf. Honum hafi verið kynnt framlögð gögn og leiðbeint um réttarstöðu sína. Þá er bókað að nafngreindir lögmenn hafi verið mættir af hálfu gerðarbeiðenda, sem voru varnaraðilarnir, Vátryggingafélag Íslands hf. og Reykjavíkurborg, og af hálfu Íslandsbanka hf. og varnaraðilans Hildu ehf. Tekið er fram að hæsta boð við byrjun uppboðs hafi verið af hálfu varnaraðilans Reykjavíkurborgar að fjárhæð 150.000 krónur. Leitað hafi verið eftir frekari boðum í eignina og hafi eftirfarandi boð komið fram: Af hálfu varnaraðilans Hildu ehf. 3.000.000 króna, af hálfu Jóns Ingvars Hjaltasonar 4.000.000 króna, af hálfu Antons Ásgríms Kristinssonar 4.000.000 króna, af hálfu Hildu ehf. 5.000.000 króna, af hálfu Antons Ásgríms 5.500.000 króna og af hálfu Hildu ehf. 8.000.000 króna. Sýslumaður hafni boði Jóns Ingvars Hjaltasonar, leigutaka eignarinnar, sem Gunnar Örn biðji um að bjóða í eignina fyrir sig. Fulltrúi sýslumanns hafni einnig boði Gunnars Arnar, þar sem hann sé prókúruhafi félagsins og því allt of tengdur því. Loks er tekið fram að sýslumaður hafni einnig boði leigutaka Gunnars Arnar sem bjóði fyrir hönd hans. Samkvæmt endurritinu undirritaði Gunnar Örn gerðabókina.

Fram kemur m.a. í áðurnefndu bréfi Gunnars Arnar að fulltrúi sýslumanns hafi meinað ,,prókúruhafa Ásabrautar 31 ehf. að bjóða í eignina á þeim forsendum að sami aðili væri einnig prókúruhafi fyrir Handverk og hráefni ehf.“ Þetta sé að vísu rétt, en eigendur félaganna séu ekki þeir sömu og þeir séu ótengdir. Aldrei hafi verið spurt um tryggingu fyrir boði en hún hafi verið fyrir hendi fyrir sóknaraðilann Ásabraut 31 ehf. Ekki sé minnst á það í 32. gr. laga nr. 90/1991 að ekki megi bjóða í eign í nafni annars lögaðila. Þá hafi sumir einstaklingar á uppboðinu verið spurðir um fjárhagsstöðu sína en ekki aðrir. Sé þetta geðþóttaákvörðun og mismunun.

Sýslumaðurinn í Reykjavík sendi dóminum athugasemdir sínar um málsefnið 18. janúar sl., sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991. Í athugasemdum sýslumanns er m.a. rakið að boð í nafni sóknaraðilans Ásabrautar 31 ehf. hafi aldrei verið sett fram.

Niðurstaða

Efni endurrits úr gerðabók Sýslumannsins í Reykjavík er rakið hér að framan, að því marki sem máli skiptir fyrir úrlausn málsins. Í gerðabókinni kemur hvergi fram að Gunnar Örn Haraldsson hafi mætt fyrir hönd sóknaraðilans Ásabrautar 31 ehf. og boðið fyrir hönd félagsins í fasteignina að Maríubakka 14, Reykjavík. Ber gerðabókin ekki annað með sér en að Gunnar Örn hafi boðið í fasteignina í eigin nafni, en ekki fyrir hönd annars aðila. Samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal efni opinbers skjals talið rétt, þar til annað sannast, ef það varðar tiltekin atvik sem er sagt að hafi gerst í embætti eða sýslan útgefanda. Sóknaraðilar hafa ekki leitast við að sýna fram á með gögnum að efni gerðabókar sýslumanns sé rangt. Verður því að leggja til grundvallar að efni gerðabókarinnar sé rétt. Er því ósannað að fulltrúi sýslumanns hafi meinað Gunnari Erni að bjóða í fasteignina fyrir hönd sóknaraðilans Ásabrautar 31 ehf.

Fram kemur í 6. mgr. 32. gr. laga nr. 90/1991 að sýslumaður geti krafist þess að sá sem geri boð í eign leiði þegar að því rök að hann geti staðið við það, að því viðlögðu að boð hans verði virt að vettugi. Sýslumaður geti einnig sett það skilyrði fyrir því að boð verði tekið til álita að trygging verði sett fyrir því innan frests og í því formi sem hann mælir fyrir um. Samkvæmt þessu er sýslumanni heimilt að spyrja einstaka bjóðendur um fjárhagsstöðu sína eða krefja þá um tryggingu fyrir boði sínu. Hvorki verður lesið úr texta ákvæðisins né athugasemdum við 32. og 33. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 90/1991 að sýslumaður verði að spyrja alla bjóðendur um fjárhagsstöðu þeirra eða krefja þá alla um tryggingu, telji sýslumaður á annað borð nauðsynlegt að spyrja einhvern einn þeirra um það. Í því fólst ekki mismunun þótt sumir bjóðendur hafi verið spurðir um fjárhagsstöðu sína en aðrir ekki.

Með vísan til alls framangreinds verður að hafna kröfu sóknaraðilans Ásabrautar 31 ehf. og er nauðungarsalan staðfest, sbr. 2. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991.

Ásbjörn Jónasson, aðstoðarmaður héraðsdómara, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, Ásabrautar 31 ehf., að nauðungarsala sem fram fór 2. október 2012 á fasteigninni Maríubakka 14, Reykjavík, með fastanúmer 204-7950, verði ógilt, og er nauðungarsalan staðfest.