Hæstiréttur íslands
Mál nr. 223/2000
Lykilorð
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 16. nóvember 2000. |
|
Nr. 223/2000. |
Hilmar Ó. Sigurðsson (Hlöðver Kjartansson hrl.) gegn Öryggisþjónustunni hf. (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Málskostnaður.
H höfðaði mál fyrir héraði til innheimtu skuldar á hendur Ö og vann það í öllu verulegu. Málskostnaður var felldur niður. H áfrýjaði héraðsdómi til að fá breytt ákvæði hans um málskostnað og taldi Hæstiréttur að ekki hefðu verið efni til annars en að dæma H málskostnað í héraði. Var honum ákveðinn málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2000. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem stefnda verði gert að greiða sér í héraði ásamt málskostnaði fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi höfðaði málið með stefnu 28. júní 1999 til heimtu skuldar samkvæmt reikningi 15. apríl sama árs fyrir nánar tilgreinda bókhaldsþjónustu við stefnda á árunum 1995 til 1997. Var fjárhæð reikningsins 494.327 krónur. Stefndi tók til varna í málinu og krafðist sýknu. Með hinum áfrýjaða dómi, sem var kveðinn upp 18. apríl 2000, var stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 361.361 krónu með dráttarvöxtum frá 5. maí 1999 til greiðsludags, auk þess sem staðfest var kyrrsetning, sem áfrýjandi hafði fengið undir rekstri málsins í eign stefnda til tryggingar kröfu sinni. Málskostnaður var hins vegar felldur niður.
Eins og ráðið verður af framangreindu vann áfrýjandi málið fyrir héraðsdómi í öllu verulegu, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vafaatriði í málinu voru ekki slík að ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar geti hafa átt við. Voru því ekki efni til annars en að dæma áfrýjanda málskostnað í héraði. Að gættum þeim hagsmunum, sem áfrýjandi fékk dæmda, umfangi málsins og kostnaði hans af flutningi þess í héraði um frávísunarkröfu og af kyrrsetningargerð er sá málskostnaður hæfilega ákveðinn 180.000 krónur, en að öðru leyti stendur hinn áfrýjaði dómur óraskaður.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Stefndi, Öryggisþjónustan hf., greiði áfrýjanda, Hilmari Ó. Sigurðssyni, 180.000 krónur í málskostnað í héraði og 80.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 29. júní s.l. Framhaldssök var höfðuð með framhaldsstefnu birtri 17. febrúar s.l. og var hún sameinuð aðalsök 10. mars s.l.
Stefnandi er Hilmar Ó. Sigurðsson, kt. 261124-4089, Árskógum 8, Reykjavík, persónulega og fyrir hönd einkafirma hans, Virkis, bókhalds- og tölvuþjónustu.
Stefndi er Öryggisþjónustan hf., kt. 670193-2419, Malarhöfða 2, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær í frumsök að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 494.327 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga af kr. 112.050 frá 1. júlí 1996 til 31. desember sama ár, af kr. 176.292 frá þeim degi til 1. júlí 1997, af kr. 296.746 frá þeim degi til 31. desember sama ár, af kr. 365.470 frá þeim degi til 1. júlí 1998 og af kr. 494.327 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti frá upphafstíma þeirra. Þá er krafist málskostnaðar skv. 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Í framhaldssök er gerð sú krafa að staðfest verði kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík 15. febrúar s.l. á dómkröfu stefnda gegn Neyðarlínunni hf., kt. 511095-2559, samkvæmt dómi Hæstaréttar 10. febrúar s.l. í málinu nr. 348/1999 að upphæð kr. 1.000.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá 27. desember 1998 til greiðsludags og kr. 450.000 í málskostnað fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, þ.m.t. allan kostnað af kyrrsetningarmálinu í samræmi við málskostnaðarreikning.
Dómkröfur stefnda eru þær í frumsök að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts. Í framhaldssök er sú krafa gerð að synjað verði kröfu stefnanda um staðfestingu á kyrrsetningargerðinni og jafnframt er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu úr hendi stefnanda, þ.m.t. allur kostnaður af kyrrsetningarmálinu.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að stefnandi segir skuld þessa vera samkvæmt reikningi stefnanda nr. 852 frá 15. apríl 1999 að fjárhæð kr. 494.327. Stefnandi rekur bókhaldsfyrirtæki og segir reikninginn vera vegna þjónustu við stefnda við gerð ársreikninga og skattgagna fyrir árin 1995, 1996 og 1997 og ráðgjöf, sem veitt var Pétri Jóhannessyni, framkvæmdastjóra stefnda, um færslu bókhalds stefnda árin 1996 og 1997.
Stefnandi mun hafa annast bókhald Greiðabíla hf. í um 14 ár þar til slitnaði upp úr samstarfinu á árinu 1998, en meirihluti hlutafjár í hinu stefnda félagi mun vera í eigu Greiðabíla hf., Sigurðar Ármanns Sigurjónssonar, stjórnarformanns stefnda og framkvæmdastjóra Greiðabíla hf. og Gissurar Sveins Ingólfssonar, meðstjórnanda í stefnda og stjórnarformanns Greiðabíla hf. Eftir að stefnandi seldi húsnæði sitt í ársbyrjun 1995 varð að samkomulagi með stefnanda og áðurgreindum Sigurði Ármanni að stefnandi flytti starfsemi sína í húsnæði að Malarhöfða 2 hér í borg sem er í eigu Greiðabíla hf. Stefnandi gerði Greiðabílum hf. áfram reikninga fyrir þjónustu sína með sama hætti og voru þeir greiddir allt þar til reikningar fyrir bókhaldsþjónustu frá nóvember 1997 til og með maí 1998 bárust. Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu út gefinni 23. október 1998 og krafði Greiðabíla hf. um greiðslu fyrir bókhaldsþjónustu fyrir umrætt tímabil samkvæmt sjö reikningum. Tveir þeir fyrstu voru að fjárhæð kr. 47.384, en hinir fimm voru allir að fjárhæð kr. 50.703 eða samtals kr. 348.283. Stefndi í því máli hafði uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda vegna afnota stefnanda af húsnæði stefnda Greiðabíla hf. að Malarhöfða 2 á tímabilinu frá mars 1995 til ágúst 1998, 20.000 krónur fyrir hvern mánuð, eða samtals 840.000 krónur, auk dráttarvaxta.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur upp kveðnum 8. apríl 1999 í ofangreindu máli nr. E-5289/1998 segir svo m.a.: "Viðurkennt er af hálfu stefnanda, að hann hafi í upphafi árs 1995 þegið boð áðurnefnds framkvæmdastjóra stefnda, sem á þeim tíma var jafnframt stjórnarformaður félagsins, um afnot umrædds skrifstofuhúsnæðis stefnda að Malarhöfða 2 gegn því að stefnandi tæki að sér bókhaldsþjónustu og gerð ársreikninga fyrir Öryggisþjónustuna hf., en samkvæmt gögnum málsins er það félag í meirihlutaeign stefnda og framkvæmdastjóra og stjórnarformanns þess. Segir í bréfi stefnanda til Öryggisþjónustunnar hf., dagsettu 12. desember 1998, að framkvæmdastjórinn hafi komið að máli við stefnanda skömmu eftir að stefnandi flutti í húsnæðið og talið rétt að reikningsfæra húsaleigu á móti bókhaldsþjónustu og talið, að 12.000 krónur á mánuði væri hæfilegt. Stefnandi flutti í húsnæðið í byrjun febrúar 1995.
Í bréfi stefnanda, dagsettu 1. mars 1996, segir svo: “Ég undirritaður óska eftir að segja upp 01.01 (svo) 1996 samningi þeim (munnlegum), sem gerður var í byrjun s.l. árs við formann stjórnarinnar, þar sem hann óskaði, að ég tæki að mér bókhald fyrirtækisins, gegn því að ég fengi starfsaðstöðu í húsnæði Greiðabíla h/f að Malarhöfða 2. Ástæða uppsagnarinnar er sú að ég og framkvæmdastjóri Öryggisþjónustunnar h/f höfðum ólíkar skoðanir um bókhald og bókhaldsskil. Ég mun hins vegar gera ársreikning fyrir félagið fyrir árið 1995, ef þess er óskað, að því tilskyldu (svo) að ég fái þau bókhaldsgögn, sem til þess þarf.”
Óumdeilt er, að stefnandi færði bókhald fyrir Öryggisþjónustuna hf. frá febrúar 1995 og út árið og gerði ársreikning fyrir það ár. Þá er fram komið í málinu, að stefnandi gerði ársreikning félagsins árin 1996 og 1997, þrátt fyrir ofangreinda uppsögn á samningi þar um. Samkvæmt framanröktu liggur fyrir afdráttarlaus viðurkenning af hálfu stefnanda um, að gagnkvæmur samningur hafi komist á milli aðila um, að stefnandi ynni umrædda bókhaldsvinnu fyrir Öryggisþjónustuna hf. gegn því að fá til afnota skrifstofuhúsnæði stefnda að Malarási (svo) 2. Svo sem áður greinir, er um að ræða 25 fermetra skrifstofuherbergi, ásamt hita, rafmagni og kostnaði af rekstri sameignar, auk reiknaðra 5 fermetra vegna afnota af sameign. Svo sem áður greinir kemur fram í áðurnefndu bréfi stefnanda frá 12. desember 1998, að umræddur framkvæmdastjóri stefnda hafi rætt um það við stefnanda að reikningsfæra húsaleigu á móti bókhaldsþjónustu og talið, að 12.000 krónur á mánuði væri hæfilegt. Ekki verður séð af gögnum málsins, að stefnandi hafi hreyft neinum andmælum við þeirri tillögu. Samkvæmt því þykir mega við það miða, að komist hafi á samningur milli aðila um, að leiga stefnanda fyrir skrifstofuhúsnæðið yrði eigi lægri, en þeirri fjárhæð næmi, enda verður engan veginn talið, að sú fjárhæð sé ósanngjörn í garð stefnanda. Eftir að stefnandi hætti færslu bókhalds fyrir Öryggisþjónustuna hf. í árslok 1995 var hann í umræddu húsnæði stefnanda allt til ágústloka árið 1998, eða samtals 2 ár og 8 mánuði. Verður því að telja, að krafa stefnda á hendur stefnanda fyrir afnot húsnæðisins fyrir það tímabil nemi samkvæmt framansögðu 384.000 krónum að höfuðstól til. Fallist er á með stefnda, að uppfyllt séu skilyrði til skuldajafnaðar kröfu stefnda við kröfu stefnanda og þá verður ekki talið, að krafa stefnda sé niður fallin fyrir tómlætis sakir. Með því að gagnkrafa stefnda er hærri, en krafa stefnanda, ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, en eftir atvikum er rétt, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu."
Stefnandi segist hafa gengið út frá því að hann hefði afnot húsnæðisins gegn þjónustu sinni við stefnda. Hafi svo verið í framkvæmd allt frá því í febrúarmánuði árið 1995 og verið virt bæði af stefnda og Greiðabílum hf. Af hálfu stefnda og Greiðabíla hf. hafi verið skellt skollaeyrum við því að stefnandi hafi veitt stefnda framangreinda þjónustu frá árslokum 1995 og eigi rétt til endurgjalds fyrir hana. Með bréfi dagsettu 20. nóvember 1998 til lögmanns stefnda og Greiðabíla hf. hafi verið tekið fram að fengi sá síðarnefndi dóm fyrir húsaleigukröfu sinni yrði stefnandi knúinn til að krefja stefnda um greiðslu fyrir bókhaldsþjónustu við hann.
Stefndi gerði þá kröfu að frumsök í málinu yrði vísað frá dómi og með úrskurði upp kveðnum 24. nóvember s.l. var fallist á frávísunarkröfu stefnda og málskostnaður felldur niður. Með dómi Hæstaréttar Íslands upp kveðnum 4. janúar s.l. var frávísunarúrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir dómara að taka málið til efnismeðferðar. Jafnframt var stefnda gert að greiða stefnanda kr. 75.000 í kærumálskostnað.
Með kyrrsetningarbeiðni stefnanda til sýslumannsins í Reykjavík frá 10. febrúar s.l. var þess farið á leit að kyrrsett yrði svo mikið af eignum stefnda að nægði til tryggingar dómkröfum í máli þessu auk vaxta og alls kostnaðar. Í beiðninni er því lýst að framkvæmdastjóri stefnda hafi haft samband við stefnanda og tjáð honum að Vari ehf. hefði yfirtekið eignir og rekstur stefnda. Hefði verið gert upp við alla kröfuhafa aðra en stefnanda og eftir stæðu kr. 132.000 sem stefnandi sagði stefnda hafa boðið sér sem fullnaðaruppgjör, ella lægi ekki annað fyrir en stefndi yrði gjaldþrota. Væri því ekki vitað um aðrar eignir stefnda en dómkröfu hans á hendur Neyðarlínunni hf., en samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands, upp kveðnum 10. febrúar s.l. í máli nr. 348/1999, var Neyðarlínunni hf. gert að greiða stefnda í máli þessu kr. 1.000.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 27. desember 1998 til greiðsludags og kr. 250.000 í málskostnað. Sýslumaðurinn í Reykjavík tók kröfu stefnanda til greina 15. febrúar s.l.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir kröfur sínar í frumsök á reikningi stefnanda nr. 852, en hann rekur bókhaldsfyrirtæki og byggir á því að hann hafi veitt stefnda þá þjónustu sem þar greinir og eigi hann lögvarinn rétt til endurgjalds fyrir hana. Stefndi hafi beðið um þjónustuna og sé endurgjald fyrir hana ógreitt.
Stefnandi byggir á almennum reglum kröfuréttar og samningaréttar um gagnkvæma samninga, skuldbindingargildi loforða og efndir fjárskuldbindinga, sbr. lög nr. 7/1936, lög nr. 39/1922, einkum 5. gr. laganna. Stefnandi vísar til vaxtalaga um dráttarvexti og krafa um málskostnað er reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Í framhaldssök er krafa um staðfestingu kyrrsetningar þannig rökstudd að uppfyllt hafi verið skilyrði laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu. Fjárkrafa stefnanda sé réttmæt, en ekki séu gerðar strangar kröfur til þess að sóknaraðili kyrrsetningarmáls sanni réttmæti krafna sinna. Nægilegt hafi verið að sóknaraðili gerði réttmæti og tilvist kröfunnar sennilega og engin gögn lægju fyrir sem augljóslega sýndu fram á annað. Í frumsök verði leyst úr efnislegum rétti stefnanda og af þeirri niðurstöðu ráðist niðurstaða um staðfestingu kyrrsetningargerðar í framhaldssök.
Stefndi reisir sýknukröfu sína í frumsök á því að stefnandi eigi ekki rétt á greiðslu úr hendi stefnda þar sem ekki hafi verið gerður neinn samningur milli aðila sem stefnukrafan geti byggst á. Aðilar hafi samið um að stefnandi hafi átt að fá afnot af húsnæði í stað vinnu sinnar fyrir stefnda. Sé ágreiningslaust að stefnandi hafði afnot af húsnæðinu allt það tímabil sem hann innti af hendi þjónustu fyrir stefnda og því engar ógreiddar kröfur vegna þeirrar vinnu. Stefnandi hafi fyrst sett fram kröfu sína þegar kveðinn var upp dómur í öðru máli milli forsvarsmanna stefnda og stefnanda og verði því að draga þá ályktun að hún sé fram sett vegna þeirrar dómsniðurstöðu.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki lagt fram neinn skriflegan samning eða önnur gögn sem sýni fram á að hann eigi rétt á þeirri greiðslu sem krafist er. Stefnandi hafi þvert á móti sjálfur sagt skriflega upp störfum fyrir stefnda frá og með 1. janúar 1996. og hafi samningssambandi aðila þar með verið slitið. Beri stefnanda því að sýna fram á að hann hafi áskilið sér greiðslu fyrir gerð ársreikninga fyrir árin 1996 og 1997 og jafnframt fyrir óskilgreinda ráðgjöf sem aldrei hafi verið rætt um að væri greitt fyrir. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi á þessum tíma verið á föstum greiðslum fyrir bókhaldsþjónustu, þ.m.t. gerð ársreikninga og ráðgjöf fyrir fyrirtækið Greiðabíla hf., sem sömu aðilar séu að hluta til í forsvari fyrir. Megi því gera ráð fyrir að þau ráð sem hann gæti hafa veitt forsvarsmönnum stefnda á þessum tíma hafi verið hluti af þjónustu hans við Greiðabíla hf. og þar með greidd með greiðslu þess félags.
Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að krafa stefnanda sé þegar greidd með skuldajöfnuði á móti húsaleigukröfu Greiðabíla hf. Í áðurgreindum dómi hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að gagnkvæmur samningur hafi komist á milli aðila þess efnis stefnandi ynni umrædda bókhaldsvinnu fyrir stefnda gegn því að fá skrifstofuhúsnæðið á leigu og jafnframt að ljóst væri að stefnandi hafi fært bókhald fyrir stefnda árið 1995 og gert ársreikninga fyrir árin 1995, 1996 og 1997. Í dómnum sé þessi vinna reiknuð á móti skuldajafnaðarkröfu stefnda vegna húsaleigu fyrir tímabilið febrúar til desember 1995. Liggi því fyrir dómsúrlausn héraðsdóms um greiðslu til stefnanda fyrir þá vinnu sem stefnandi gerir kröfu um og sé tekið tillit til allrar þeirrar vinnu sem stefnandi hafi átt að inna af hendi fyrir stefnda og hvernig greiða hafi átt fyrir þá vinnu. Eigi stefnandi því ekki frekari kröfur á stefnda.
Verði ekki fallist á þessar sýknuástæður byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti, en viðskiptum aðila hafi lokið 1. janúar 1996. Stefnandi hafi fyrst beint kröfum sínum að stefnda með bréfi dagsettu 29. apríl 1999, eða rúmlega þremur árum eftir að viðskiptunum lauk.
Verði ekki á sýknukröfu fallist gerir stefndi kröfu um sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda. Gjalddagi reiknings stefnanda sé 20 dögum eftir útgáfu, eða 5. maí 1999, en gerð sé krafa um dráttarvexti frá 1. júlí 1996 án rökstuðnings í stefnu. Stefndi krefst sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda vegna tómlætis hans, en til vara að dráttarvextir verði aðeins reiknaðir frá 5. maí 1999.
Stefndi byggir á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir, svo og ákvæðum laga nr. 7/1936 og laga nr. 39/1922. Málskostnaðarkrafa stefnda er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi byggir kröfu sína í framhaldssök um synjun á kröfu stefnanda um staðfestingu kyrrsetningar aðallega á því að skilyrði kyrrsetningar séu ekki uppfyllt í málinu. Ekkert í gögnum málsins sýni fram á með óyggjandi hætti að draga muni mjög úr líkum þess að fullnusta kröfu stefnanda takist, fari kyrrsetning ekki fram. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á nein atvik sem bendi til þess að stefndi ætli að koma undan eignum eða skjóta sér undan greiðsluskyldu. Tilgangur kyrrsetningar sé fyrst og fremst að koma í veg fyrir undanskot eigna og hljóti gerðarbeiðandi því að leiða einhverjar líkur að því að stefndi hafi undanskot í huga.
Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu á hendur honum og sé krafan hvorki nægilega skýr né augljós til að réttlæta þá skerðingu á eignarrétti stefnda og fjárforræði sem kyrrsetningin feli í sér. Stefndi vísar til 5. gr. laga nr. 31/1990 og greinargerðar með þeirri lagagrein, en þar komi fram að kyrrsetning eigi ekki að fara fram nema raunhæfa nauðsyn beri til vegna hagsmuna kröfuhafa og að megintilgangur kyrrsetningar sé að tryggja kröfueiganda fyrir yfirvofandi hættu á að skuldara takist að eyða, selja, veðsetja eða ráðstafa með öðrum hætti öllum eignum sínum meðan dómsmál er rekið um kröfuna.
Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi að hann kannaðist ekki við að hafa samið við Sigurð Ármann Sigurjónsson, framkvæmdastjóra Greiðabíla hf., um leigugreiðslur. Hann sagði sér hafa verið boðin húsnæðisaðstaða gegn því að hann tæki að sér bókhald fyrir stefnda. Engin upphæð hafi verið nefnd í þessu sambandi. Hann mat ráðgjöf til stefnda til tveggja klukkustunda á mánuði í tvö ár.
Pétur Jóhannesson, kt. 250953-4969, framkvæmdastjóri stefnda, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi tekið að færa bókhald fyrirtækisins árið 1996, en stefnandi hafi fært bókhaldið árið áður og jafnframt gengið frá ársreikningi það ár. Þá hafi stefnandi gert ársreikning árin 1996 og 1997, en hann hafi ekki lokið gerð ársreiknings að fullu síðara árið. Hann kvaðst hafa leitað ráða hjá stefnanda um það hvernig haga skyldi bókhaldinu, enda sá stefnandi þá um gerð ársreikninga. Hann kvað þá hafa rætt um þessi mál en hann kvaðst ekki hafa litið svo á að um formlega launaða ráðgjöf væri að ræða. Pétur kvað stefnanda aldrei hafa minnst á greiðslu fyrir þessa ráðgjöf. Hann kannaðist við að hafa hringt í stefnanda og boðið honum greiðslu, kr. 132.000, en sú fjárhæð var þá til í sjóði, enda taldi hann eðlilegt að stefnandi fengi greiðslu fyrir störf sín að gerð ársreikninga. Hann kvaðst ekki hafa sagt stefnanda að það stefndi í gjaldþrot hjá stefnda, en hann hafi sagt honum að hann fengi sennilega ekkert ef málið gegn Neyðarlínunni tapaðist. Pétur kvað stefnda eiga útistandandi kröfur og væru þær hærri en skuldir. Hann kvaðst hafa staðið í þeirri trú að stefnandi hefði afnot af húsnæðinu í stað vinnu sinnar að gerð ársreikninga.
Sigurður Ármann Sigurjónsson, kt. 260652-4439, framkvæmdastjóri Greiðabíla hf., skýrði svo frá fyrir dómi að stefnandi hefði tekið á leigu húsnæði í eigu stefnda frá 1. mars 1995. Hafi stefnandi þá lýst yfir áhuga sínum á því að vinna bókhald fyrir stefnda upp í leigugreiðslur. Hafi verið samið um 564 krónur á m² í leigugreiðslur, en stefnandi hafi sett upp 12.000 króna mánaðargjald fyrir sína þjónustu. Hann kannaðist ekki við að um ráðgjöf af hálfu stefnanda hafi verið að ræða, frekar hafi verið um spjall manna á skrifstofu að ræða.
Forsendur og niðurstaða.
Í máli þessu er óumdeilt að stefnandi vann að gerð ársreikninga í þágu stefnda árin 1995, 1996 og 1997. Hins vegar er því mótmælt af hálfu stefnda að stefnandi hafi veitt ráðgjöf um færslu bókhalds árin 1996 og 1997 með þeim hætti að hann geti krafið stefnda um greiðslu. Stefndi heldur því fram að bókhaldsvinna stefnanda hafi verið greidd þannig að hann hafði til afnota skrifstofuhúsnæði stefnda að Malarhöfða 2.
Með frávísunarúrskurði dómsins frá 24. nóvember s.l. var komist að þeirri niðurstöðu að leyst hefði verið efnislega úr ágreiningi aðila með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. apríl 1999. Í dómi Hæstaréttar Íslands segir hins vegar að stefndi hafi ekki að lögum komið í stað stefnda í því máli, Greiðabíla hf. og ekki átt aðild að því máli. Standi því ákvæði 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 ekki í vegi fyrir málsókn stefnanda.
Af framansögðu þykir leiða að stefndi geti ekki í þessu máli borið því við að stefnandi hafi fengið greitt fyrir bókhaldsvinnu sína í þágu stefnda með afnotum af húsnæðinu.
Stefnandi hefur lagt fram reikning fyrir vinnu sína við gerð ársreikninga og skattgagna og afstemmingu bókhalds umrædd þrjú ár og krefst hann samtals kr. 290.250 auk virðisaukaskatts. Þar sem ekki verður talið að um ósanngjarna kröfu sé að ræða ber samkvæmt meginreglu 5. gr. laga nr. 39/1922 að taka hana til greina. Ekki verður fallist á að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir tómlæti. Eftir atvikum þykir rétt að krafan beri dráttarvexti frá 5. maí 1999. Hins vegar verður að telja að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hafi sérstaklega áskilið sér þóknun fyrir veitta ráðgjöf um færslu bókhalds árin 1996 og 1997 og verður stefndi því sýknaður af þessari kröfu stefnanda.
Af framburði framkvæmdastjóra stefnda fyrir dómi mátti ráða að fjárhagur stefnda stæði frekar höllum fæti. Að mati hans á fyrirtækið óvissar útistandandi kröfur auk þeirrar kröfu er Hæstiréttur dæmdi fyrirtækinu í vil og stefnandi hefur fengið kyrrsetta. Þykir stefnandi því hafa sýnt fram á hættu á því að fullnusta kröfu hans takist ekki. Verður kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík því staðfest.
Að virtum öllum atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Öryggisþjónustan hf., greiði stefnanda, Hilmari Ó. Sigurðssyni, kr. 361.361 auk dráttarvaxta frá 5. maí 1999 til greiðsludags.
Kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík 15. febrúar 2000 á dómkröfu stefnda gegn Neyðarlínunni hf. samkvæmt dómi Hæstaréttar 10. febrúar 2000 í málinu nr. 348/1999 er staðfest.
Málskostnaður fellur niður.