Hæstiréttur íslands
Mál nr. 450/2006
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 24. maí 2007. |
|
Nr. 450/2006. |
Þórarinn H. Ævarsson(Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn SPC-Holdings A/S Futura ehf. Pizza-Pizza ehf. og Hráefnavinnslunni ehf. (Hörður Felix Harðarson hrl.) og gagnsök |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
Þ var sagt upp störfum hjá S 26. ágúst 2005. Hann krafðist greiðslu launa fyrir október 2005 án tillits til launa sem hann fékk greidd frá nýjum vinnuveitanda fyrir sama tímabil. Ágreiningurinn snérist um túlkun á 11. gr. ráðningarsamnings aðila en þar sagði m.a. að Þ skyldi halda fullum kjörum út uppsagnarfrest og að honum væri ekki skylt að vinna uppsagnarfrest sinn. Ennfremur sagði þar að S væri óheimilt að segja Þ upp fyrr en 31. mars 2006. Þegar hinar sérstöku aðstæður við gerð samningsins voru virtar taldi Hæstiréttur að í fyrrnefndri 11. gr. fælist frávik frá því sem almennt gildir um uppsögn samninga að því leyti að S væri óviðkomandi hvernig Þ ráðstafaði starfskröftum sínum og að laun frá þriðja manni kæmu ekki til frádráttar. Var því fallist á kröfu Þ. Kröfu Þ um kaupauka vegna janúar og október 2005 var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2006. Hann krefst þess að gagnáfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér 1.629.152 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 531.705 krónum frá 1. október 2005 til 1. nóvember s.á., en af 1.629.152 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. október 2006. Þeir krefjast staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi gerir aðaláfrýjandi í máli þessu kröfur á hendur gagnáfrýjendum vegna starfsloka sinna sem framkvæmdastjóri þeirra. Annars vegar er þar um að ræða launakröfu fyrir október 2005 að fjárhæð 818.026 krónur og hins vegar kröfu um kaupauka vegna janúar og október 2005, samtals 811.126 krónur.
Kröfuna um kaupaukann byggir aðaláfrýjandi á 5. grein ráðningarsamnings síns við gagnáfrýjendur, en hann mun hafa verið gerður í júní 2004. Þar segir meðal annars að framkvæmdastjóri skuli fá „greiddan árangurstengdan bónus, ef settum og samþykktum markmiðum fyrir hvert rekstrarár er náð.“ Sett er regla um útreikning á kaupaukanum og sagt að hann skuli „reiknaður út við lok hvers rekstrarárs og greiddur út fyrir lok janúar mánaðar árið á eftir.“ Í niðurlagi 11. grein samningsins er einnig vikið að kaupaukanum. Þar kemur fram að láti framkvæmdarstjóri af störfum áður en almanaksárið sé á enda skuli hann „fá greiddan bónus fram að þeim tíma (er) hann lætur af störfum í hlutfalli við sett og samþykkt markmið ársins og þann mánaðafjölda sem liðinn er frá áramótum. Endanlegt uppgjör skal eiga sér stað eigi síðar en einum mánuði eftir að síðasta starfsdegi líkur.“
Þessi samningsákvæði heimila aðaláfrýjanda ekki að krefjast kaupauka fyrir einstaka mánuði svo sem hann gerir án þess að tillit sé tekið til raunverulegrar eða áætlaðrar afkomu annarra mánaða innan ársins eða ársins í heild. Hann hefur því ekki reifað kröfu sína um kaupauka á þann hátt að dómur verði lagður á hana og verður henni vísað frá héraðsdómi.
Ágreiningur aðila um kröfu aðaláfrýjanda til launa fyrir október 2005 snýst um túlkun á ákvæði í 11. grein fyrrgreinds ráðningarsamnings aðaláfrýjanda við gagnáfrýjendur. Í greininni er fjallað um uppsögn samningsins. Segir þar meðal annars að uppsagnarfrestur skuli vera gagnkvæmur níu mánuðir, „í fyrsta skipti af hendi fyrirtækjanna þann 31. mars 2006.“ Kveðið er á um að aðaláfrýjandi skuli halda „fullum kjörum“ út uppsagnarfrest. Síðan segir: „Framkvæmdastjóra er ekki skylt að vinna uppsagnarfrest sinn.“
Gagnáfrýjendur sögðu aðaláfrýjanda upp störfum 26. ágúst 2005 og tóku fram að honum yrðu greidd laun fram til 31. desember 2006 að því gefnu að hann réði sig ekki til annarrar vinnu á tímabilinu. Launakrafa aðaláfrýjanda sem deilt er um í þessu máli er sem fyrr segir fyrir október 2005. Liggur fyrir að hann hafði þá ráðið sig til vinnu hjá öðrum. Gagnáfrýjendur telja að túlka beri nefnt ákvæði ráðningarsamningsins þannig að þeim sé heimilt að draga laun aðaláfrýjanda hjá hinum nýja vinnuveitanda hans í október 2005 frá launakröfunni, sem hann gerir í málinu, en aðaláfrýjandi mótmælir því. Hefur hann ekki gefið nákvæmar upplýsingar um fjárhæð þeirra, þar sem hann telur hana ekki skipta máli í lögskiptum aðila. Verður að skilja þennan málatilbúnað hans svo, að hann sætti sig við að gagnáfrýjendur verði sýknaðir af launakröfunni ef fallist verður á skilning þeirra að þessu leyti á fyrrnefndu ákvæði ráðningarsamningsins.
Ákvæði ráðningarsamnings um að starfsmaður skuli við uppsögn, og þá án tillits til þess hvor aðila segir upp, mega taka einhliða ákvörðun um hvort hann vinni uppsagnarfrestinn, felur í sér frávik frá því sem almennt gildir að þessu leyti við uppsögn slíkra samninga. Hið sama er að segja um ákvæðið sem takmarkar heimild vinnuveitanda til uppsagnar samnings á tímabili þegar starfsmaður má segja honum upp. Bæði þessi ákvæði í fyrrgreindum ráðningarsamningi aðila miða að því að gera réttarstöðu aðaláfrýjanda betri en leiða myndi af almennum reglum. Samkvæmt gögnum málsins urðu þau til vegna óska frá aðaláfrýjanda við eigendaskipti að fyrirtækjum gagnáfrýjenda, þar sem hann vildi þá treysta réttarstöðu sína við hugsanleg slit ráðningarinnar. Féllust gagnáfrýjendur á þetta þar sem þeir vildu tryggja sér starfskrafta hans meðan leyst væri úr álitaefnum sem tengdust eigendaskiptunum. Verður að ætla að fyrrnefnda ákvæðið hafi út frá sjónarmiði aðaláfrýjanda fyrst og fremst haft þá þýðingu að hann gæti eftir uppsögn farið að vinna annars staðar án þess að það kæmi lögskiptum hans og gagnáfrýjenda við. Við túlkun samningsins verður meðal annars að hafa þetta í huga. Gagnáfrýjendur afsöluðu sér með samningsákvæðinu fyrirfram rétti til vinnuframlags aðaláfrýjanda á uppsagnarfrestinum. Verður þetta talið hafa falið í sér yfirlýsingu af þeirra hálfu um að þeim væri óviðkomandi hvernig aðaláfrýjandi ráðstafaði starfskröftum sínum á sama tímabili. Þeir hefðu þurft að taka sérstaklega fram í samningnum ef þeir vildu áskilja sér rétt til að krefjast frádráttar launa aðaláfrýjanda frá öðrum. Af þessum ástæðum verður hið umdeilda samningsákvæði túlkað svo að aðaláfrýjandi þurfi ekki að sæta slíkum frádrætti og eigi rétt á að fá greidd laun sín hjá gagnáfrýjendum að fullu.
Aðaláfrýjendur sögðu upp ráðningarsamningnum við aðaláfrýjanda áður en sá tími var kominn sem þeim var það heimilt samkvæmt 11. grein samningsins. Telja verður að ákvæði samningsins um að aðaláfrýjanda væri ekki skylt að vinna á uppsagnarfresti hafi einnig gilt um uppsögn af hálfu gagnáfrýjenda fram til 31. mars 2006.
Samkvæmt framansögðu verður tekin til greina krafa aðaláfrýjanda um laun fyrir október 2004 með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Gagnáfrýjendur verða dæmdir til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Það athugist að við fyrirtöku málsins 13. júlí 2006 lýstu málsaðilar yfir því að þeir teldu óþarft að flytja málið að nýju. Dómari var þeim sammála og kvað við svo búið upp hinn áfrýjaða dóm.
Dómsorð:
Kröfu aðaláfrýjanda, Þórarins H. Ævarssonar, um kaupauka vegna janúar og október 2005 er vísað frá héraðsdómi.
Gagnáfrýjendur, SPC-Holdings A/S, Futura ehf., Pizza-Pizza ehf. og Hráefnavinnslan ehf., greiði óskipt aðaláfrýjanda 818.026 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2005 til greiðsludags og 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 18. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað af Þórarni H. Ævarssyni, Kársnesbraut 11, Kópavogi, með stefnu, birtri 22. nóvember 2005, á hendur SPC-Holdings A/S, Præstemarksvej 19, 4000 Roskilde, Futura ehf., Lóuhólum 2, Reykjavík, Pizza-Pizza ehf., s.st. og Hráefnavinnslunni ehf., s.st. Málið var dómtekið 18. maí sl.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda 1.629.152 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af 531.705 krónum frá 1. október 2005 til 1. nóvember s.á., en af 1.629.152 krónum frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar.
Þá krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar til hvers þeirra um sig.
II
Stefnandi máls þessa starfaði sem framkvæmdarstjóri hinna stefndu félaga frá árinu 2000 en hafði frá árinu 1993 verið rekstrarstjóri og aðstoðarframkvæmdarstjóri þeirra. Ráðningarsamningur var gerður við stefnanda í maí/júní 2004, en samningurinn er ódagsettur. Um mánaðamótin október/nóvember 2004 urðu eigendabreytingar á hinum stefndu félögum.
Stefndu greina þannig frá málsatvikum að í kjölfar eigendabreytinga hafi stefnandi komið að máli við stjórnarformann hinna stefndu félaga og sagst ekki hafa áhuga á því að starfa lengur fyrir þau og óskað eftir starfslokum. Hafi stefnandi alls ekki viljað segja starfi sínu lausu, heldur hafi hann staðið í þeirri meiningu að hann ætti rétt til launa út árið 2006. Á þeim grundvelli hafi hann óskað eftir því að við sig yrði gerður starfslokasamningur sem kvæði á um fullnaðaruppgjör á samningnum, óháð þeim launum sem hann myndi fá hjá nýjum atvinnurekanda. Á þessum tíma hafi legið fyrir að stefnandi hygðist fara í fæðingarorlof í janúar 2005. Hafi það orðið að samkomulagi milli stefnanda og stjórnarformanns hinna stefndu félaga að stefnandi færi fyrst í fæðingarorlof en að því loknu myndu menn ráða ráðum sínum.
Stefndu halda því fram að þegar nær hafi dregið lokum fæðingarorlofsins í ágúst 2005 hafi stefnandi farið að venja komu sína á starfsstöð hinna stefndu félaga og látið mikið fyrir sér fara. M.a. hafi hann látið ákveðinn starfsmann vita að það fyrsta sem hann myndi gera þegar hann kæmi aftur til vinnu væri að segja honum upp störfum. Þá hafi stefnandi látið hafa ýmislegt annað eftir sér, sem ekki hafi verið til annars fallið en auka á óróa hjá starfsmönnum í hinum stefndu félögum.
Með bréfi, dagsettu 26. ágúst 2005, tilkynnti stjórnarformaður hinna stefndu félaga að stjórnir félaganna hefðu ákveðið að óska ekki frekar eftir starfskröftum stefnanda. Í bréfi stjórnarformannsins var tekið fram, að félögin myndu greiða stefnanda umsamin laun og önnur kjör fram til 31. desember 2006 í samræmi við ákvæði ráðningarsamningsins, sem gilti milli aðila, að því gefnu að hann réði sig ekki til annarra starfa á þeim tíma.
Lögmaður stefnanda mótmælti lögmæti uppsagnar stefndu með bréfi, dagsettu 30. ágúst 2005, og benti á, að samkvæmt 11. gr. ráðningarsamningsins væri stefndu fyrst heimil uppsögn hinn 31. mars 2006. Þá var athygli stefndu vakin á því, að stefnanda hefði samkvæmt sömu grein ekki verið skylt að starfa í uppsagnarfresti jafnvel þó löglega hefði verið að uppsögn staðið og að stefndu væri skylt að greiða honum umsamin laun án tillits til þess hvort hann réði sig til annarra starfa.
Stefndu greiddu stefnanda laun fyrir september í samræmi við ráðningarsamning aðila. Með bréfi lögmanns stefndu, dagsettu 26. október 2005, var stefnanda hins vegar tilkynnt, að stefndu myndu ekki greiða honum laun fyrir októbermánuð hinn 1. nóvember, þar sem stefnandi hefði ekki gert stefndu grein fyrir launakjörum sínum hjá nýjum vinnuveitanda, sem stefndu hygðust draga frá launagreiðslunni.
Ágreiningur í málinu snýst um það hvort hinum stefndu félögum hafi verið heimilt að láta hjá líða að greiða stefnanda umsamin laun samkvæmt ráðningarsamningi aðila þar sem stefnandi gerði ekki grein fyrir tekjum sínum hjá nýjum atvinnurekanda. Jafnframt greina aðilar á um kaupauka sem stefnandi telur sig eiga rétt á fyrir janúar- og októbermánuði ársins 2005.
III
Af hálfu stefnanda er á því byggt í fyrsta lagi, að stefndu hafi verið óheimilt, samkvæmt 11. gr. ráðningarsamnings aðila, að segja stefnanda upp störfum fyrr en 31. mars 2006. Uppsögn hans hinn 26. ágúst 2005 hafi því verið ólögmæt og hafi enga þýðingu að lögum og stefndu beri því þegar af þeirri ástæðu að greiða stefnanda umsamin laun, a.m.k. til loka marsmánaðar 2006. Hér sé um samningsbundnar greiðslur að ræða sem stefnandi eigi rétt á og því komi ekki til greina að reglur skaðabótaréttar um skyldu tjónþola til tjónstakmörkunar geti leitt til þess, að greiðslurnar eigi að falla niður.
Stefnandi reisir kröfur sínar í öðru lagi á því að málsaðilar hafi samið svo um að ef stefnandi léti af störfum hjá stefndu væri honum ekki skylt að vinna uppsagnarfresti. Í þessu samningsákvæði felist, að stefndu hafi fyrir fram fallið frá því að krefja stefnanda um vinnuframlag ef hann léti af störfum, en skuldbundið sig samt sem áður til að greiða honum laun algerleg án tillits til þess, hvort hann fengi laun á sama tíma frá þriðja manni.
Tilurð samnings aðila renni enn fremur stoðum undir þennan skýringarkost. Helstu eigendur hinna stefndu félaga, Skúli Þorvaldsson og Fjárfestingafélagið Þor hf., hafi greint á um það hvort komist hefði á bindandi samningur um kaup Skúla á öllum hlutum fjárfestingafélagsins. Við þessar aðstæður hafi stjórn hinna stefndu félaga talið alveg nauðsynlegt að tryggja að ágreiningur aðaleigenda félaganna um eignarhaldið hefði sem minnst áhrif á rekstur félaganna. Í því sambandi hafi stjórnin talið afar mikilvægt að tryggja sérstaklega að stefnandi myndi gegna framkvæmdastjórastarfinu a.m.k. út þann tíma sem áætlað væri að taka myndi að leysa úr ágreiningi hluthafanna. Stefnandi hafi hins vegar verið uggandi um sinn hag vegna ágreinings hluthafanna en hafi látið tilleiðast, fyrir beiðni stjórnarformanns hinna stefndu félaga, að gera nýjan ráðningarsamning. Vegna óvissu þeirrar sem var framundan hafi verið kveðið á um að gagnkvæmur uppsagnarfrestur yrði 9 mánuðir og að félögin mættu fyrst segja stefnanda upp hinn 31. mars 2006. Sameiginlegur skilningur stefnanda og þáverandi stjórnarformanns hinna stefndu félaga hafi jafnframt verið, að félögin myndu greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti, án tillits til þess hvort hann sinnti einhverjum störfum fyrir félögin á þeim tíma eða ekki og án tillits til þess hvort hann hefði tekjur frá þriðja manni á þeim tíma eða ekki. Þetta hafi verið sú lágmarks trygging sem stefnandi hafi áskilið sér við samningsgerðina og hafi verið forsenda þess að hann hafi samþykkt að gegna starfi framkvæmdastjóra áfram við þessar sérstöku aðstæður.
Stefnandi byggir á því, að skýra verði 11. gr. samnings aðila þannig, að með orðunum „fullum kjörum út uppsagnarfrest“ sé átt við, að fyrir fram hafi verið samið um starfslokagreiðslu til stefnanda, sem óháð ætti að vera vinnuréttarsambandinu og óháð því hvort stefnandi myndi afla sér launatekna á þeim tíma. Hin stefndu félög hafi fyrir fram afþakkað vinnuframlag stefnanda og heimilað honum að afla sér tekna án skerðingar á umsömdum starfslokagreiðslum. Orðin : „það er í 9 mánuði frá því að uppsögn berst, þ.m.t. þeim kjörum og fríðindum sem getið er um í lið 5 og 6“, verði að skýra í samhengi við næstu setningu um að framkvæmdastjóra sé „ekki skylt að vinna uppsagnarfrest sinn”.
Stefnandi gerir kröfu á hendur stefndu til greiðslu launa fyrir októbermánuð 2005, allt samkvæmt upplýsingum frá stefnu er sundurliðast þannig:
Samkvæmt 4. gr. samnings aðila hafi föst laun stefnanda verið 650.000 krónur fyrir hvern mánuð og skyldi greiða þau eftir á. Föst laun hafi átt að taka mið af launaþróun í landinu. Samkvæmt launaseðli frá stefnda, Hráefnavinnslunni ehf., fyrir septembermánuð 2005 hafi föst laun stefnanda fyrir þann mánuð numið 669.500 krónum og miði stefnandi kröfu sína við það. Þá beri stefndu að greiða stefnanda mótframlag í lífeyrissjóð 49.208 krónur og 14.060 krónur, eða samtals 63.268 krónur, auk 5% lífeyrisálags að fjárhæð 33.475 krónur, eða samtals 96.743 krónur. Stefnandi hafi samkvæmt 7. gr. samnings aðila haft bifreiðina MV-436, GMC Sierra Denali, til frjálsra afnota frá stefndu. Reiknuð hlunnindi vegna hennar hafi verið 103.567 krónur á mánuði. Hinn 15. október 2005 hafi stefnandi skilað stefndu bifreiðinni að þeirra ósk og geri því kröfu til þess að stefndu verði gert að greiða sér andvirði helmings reiknaðra hlunninda fyrir tímabilið frá 16. október til 31. október, samtals að fjárhæð 51.783 krónur. Vísi stefnandi til 11. gr. samningsins um að hann eigi að halda óbreyttum kjörum og fríðindum þeim sem getið sé um í 5. og 7. gr. Samtals sé launakrafa stefnanda samkvæmt framangreindu 818.026 krónur. Gjalddagi launa fyrir októbermánuð hafi verið 1. nóvember 2005 og séu kröfur stefnanda við það miðaðar.
Stefnandi hafi farið í sex mánaða fæðingarorlof samkvæmt lögum nr. 95/2000 hinn 1. febrúar 2005. Við lok orlofstöku hafi hann farið í sumarfrí hinn 1. ágúst, en eftir það hafi stefnandi ekki horfið aftur til starfa hjá stefndu. Samkvæmt 5. gr. samnings aðila hafi stefnandi átt að fá greiddan árangurstengdan bónus, ef settum samþykktum markmiðum fyrir hvert rekstrarár yrði náð. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. samnings aðila beri stefnanda að gera upp kaupauka til stefnanda fyrir janúarmánuð 2005. Haustið 2004 hafi stefnandi lagt fram rekstraráætlun fyrir árið 2005. Áætlunin hafi verið brotin niður á hvern mánuð ársins og samþykkt af stjórn hinna stefndu félaga.
Samkvæmt uppgjöri janúarmánaðar 2005 hafi svokallaður EBIDTA hagnaður verið 17.902.541 króna en áætlunin hafi gert ráð fyrir 13.983.879 krónum. Rekstrarárangur hafi því verið 3.918.662 krónur umfram áætlun. Umsaminn kaupauka stefnanda hafi borið að reikna miðað við 90% af áætlun eða miðað við 12.585.491 krónu. Stefnandi hafi því átt rétt á kaupauka vegna janúarmánaðar 2005, sem nemi 10% af 5.317.049 krónum, eða samtals að fjárhæð 531.705 krónur, samkvæmt 2. mgr. 5. gr. samningsins. Gjalddagi þeirrar greiðslu sé, samkvæmt 2. mgr. 11. gr. samningsins einum mánuði eftir að síðasta starfsdegi ljúki og telji stefnandi að miða eigi við 1. september í því sambandi, þannig að krafist sé dráttarvaxta af umkrafðri bónusgreiðslu frá 1. október 2005.
Stefnandi gerir enn fremur kröfu til þess, að til viðbótar launum fyrir októbermánuð 2005 verði stefndu gert að greiða honum áætlaðan kaupauka fyrir þann mánuð miðað við meðaltal greidds kaupauka fyrir rekstrarárangur áranna 2003 og 2004. Vegna þessara ára hafi stefnandi samtals fengið greiddan kaupauka að fjárhæð 6.706.104 krónur. Meðaltal þeirra greiðslna sé 279.421 króna fyrir hvern mánuð. Stefnandi byggir á því, að hann eigi rétt til kaupaukans vegna ólögmætrar uppsagnar stefndu á ráðningarsamningnum. Ekki sé unnt að miða við annað en þekktan kaupauka sem hann hafi notið í starfi vegna rekstrarárangurs áranna 2003 og 2004 meðan stefnandi hafi stjórnað hinum stefndu félögum. Ekki séu efni til þess að miða við rekstrarárangur hjá hinum stefndu félögum eftir að stefnanda hafi verið gert að láta af störfum enda geti stefnandi engu um það ráðið hvernig rekstrarárangur félaganna hafi verið eftir það tímamark.
Stefnufjárhæð í máli þessu, 1.629.152 krónur, sé samkvæmt framansögðu þannig til fundin:
1. Krafa um laun fyrir októbermánuð 2005 nemi 818.026 krónum.
2. Krafa um kaupauka vegna janúarmánaðar 2005 nemi 531.705 krónum.
3. Krafa um kaupauka vegna októbermánaðar 2005 nemi 279.421 krónu.
Stefnandi vísar um samaðild stefndu til 1. mgr. 18. gr. um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samningur sá sem mál þetta sé sprottið af sé á milli stefnanda og allra stefndu án þess að sérstaklega sé greint á milli þátttöku og ábyrgðar hvers hinna stefndu félaga á efndum hans.
Um lagarök vísar stefnandi til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, og almennra reglna kröfuréttar. Vaxtakrafa sé reist á reglum III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 31. gr. og 1. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Varðandi kröfur á hendur SPC-Holdings A/S sé enn fremur vísað til 1. mgr. 42. gr. s.l.
IV
Stefndu hafna þeirri málsástæðu stefnanda að uppsögn stefnanda hafi verið óheimil. Ekki verði gerð krafa um efndir á vinnuframlagi in natura, hvorki af hálfu starfsmanns né atvinnurekanda. Vegna þess sé atvinnurekanda ávallt heimilt að segja starfsmanni upp að virtum réttindum starfsmannsins, m.a. til launa á uppsagnarfresti. Réttur stefnanda hafi, að mati stefndu, verið virtur að öllu leyti. Þó að um samningsbundnar greiðslur sé að ræða liggi grundvöllur þeirra í starfssamningi aðila. Sá starfssamningur verði túlkaður með hliðsjón af reglum vinnumarkaðsréttar.
Að mati stefndu hafi stefnandi brotið á rétti stefndu með því að gefa ekki upp laun sín hjá nýjum atvinnurekanda, eins og honum beri. Vegna þess hafi hann fyrirgert rétti sínum til frekari launa, óháð því hver laun stefnanda hjá nýjum atvinnurekanda séu. Til vara sé þess krafist að laun stefnanda hjá nýjum atvinnurekanda komi til lækkunar á kröfum hans.
Kröfur stefndu séu enn fremur byggðar á þeirri reglu íslensks réttar að vinnulaun sem starfsmaður afli sér á uppsagnarfresti beri að draga frá launum fyrri atvinnurekanda. Til stuðnings þessari reglu benda stefndu á dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 144/1996, Gylfi Lárusson, Haraldur Lárusson og Sökkull sf., gegn Pétri H. Baldurssyni, nr. 159/2002, Þorvarður Óskarsson gegn J.T. veitingum ehf. og nr. 228/2003, Vífilfell hf. gegn Hrafni Haukssyni.
Stefndu telja, að þrátt fyrir að í samningi stefnanda og stefndu komi fram að stefnandi þurfi ekki að vinna í uppsagnarfresti, upphefji það ákvæði ekki regluna um rétt til frádráttar launa hjá nýjum atvinnurekanda í uppsagnarfresti. Þar sem um dómhelgaða reglu sé að ræða, hefði þurft að taka það sérstaklega fram í starfssamningi aðila hefði hún ekki átt að gilda.
Stefndu hafna því að tilurð samningsins hafi einhverja þýðingu í þessu máli. Samningurinn liggi fyrir og einungis eigi að túlka hann með hliðsjón af skýru orðalagi hans og reglum vinnumarkaðsréttar. Hafi verið samið með þeim hætti við stefnanda, þ.e. að laun hjá nýjum atvinnurekanda í uppsagnarfresti kæmu ekki til frádráttar, hefði átt að taka það fram með skýrum hætti. Það hafi ekki verið gert og beri stefnandi því hallann af því. Þá hafi slíkt ekki verið lagt fyrir stjórn stefndu, sbr. fundargerð vinnufundar stjórna stefndu hinn 25. júní 2004. Að mati stefndu sé ekki hægt að byggja á því, sem stefnandi haldi fram, að lágmarkstrygging fyrir stefnanda til að hann héldi áfram störfum hafi verið með þeim hætti að hann yrði á tvöföldum launum í uppsagnarfresti.
Með orðunum „fullum kjörum“ sé átt við full kjör. Ekki skipti máli hvort þær greiðslur komi frá stefndu eða þriðja aðila. Verði túlkun stefnanda lögð til grundvallar sé ljóst að stefnandi fengi ekki „full kjör“, heldur verulega umfram það. Slíkt sé mjög óeðlilegt, einkum þar sem frumkvæði að starfslokum hafi komið frá stefnanda sjálfum.
Stefndu byggja og á því að tímabundinn ráðningarsamningur til langs tíma verði aldrei túlkaður með öðrum hætti en þeim, að samið hafi verið um langan uppsagnarfrest í samningi aðila. Það ástand sem sé lýst í stefnu, varðandi deilur milli fyrrum hluthafa stefndu, skýri hinn langa uppsagnarfrest, en geti ekki verið sönnun þess að stefnandi ætti að vera á tvöföldum launum, kæmi til uppsagnar hans. Réttur til launa í uppsagnarfresti sé ekki viðbót við laun frá öðrum vinnuveitanda, eins og stefnandi virðist telja.
Um sundurliðun dómkröfunnar og tölulega framsetningu hennar þá gera stefndu ekki athugasemd við hana að öðru leyti en hvað varðar kröfuna um kaupauka. Í því felist þó ekki viðurkenning á réttmæti hennar. Í 5. gr. starfssamnings stefndu og stefnanda standi: „Framkvæmdastjóri fær greiddan árangurstengdan bónus, ef settum og samþykktum markmiðum fyrir hvert rekstrarár er náð. Þessi bónus skuli reiknaður út við lok hvers rekstrarárs og greiddur út fyrir lok janúarmánaðar árið á eftir.“ Í 2. mgr. 5. gr. segi svo: „Til þess að fá greiddan bónus fyrir árið 2004, þarf hagnaður fyrirtækisins fyrir allt árið að vera 156.326.400 krónur fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Náist það markmið fær framkvæmdastjóri greitt sem árangursbónus 10% af öllum hagnaði sem er umfram þessa upphæð.“ Í stefnu sé gerð krafa um bónus fyrir janúar árið 2005 og fyrir október 2005 á grundvelli meðaltals áranna 2003 og 2004. Í starfssamningi aðila komi fram að umkrafinn kaupauki gjaldfalli ekki fyrr en í janúar árið 2006. Á þeim grundvelli telja stefndu að tímamark kaupaukagreiðslunnar hafi ekki verið runnið upp, þegar stefna var gefin út og á þeim grundvelli eigi að sýkna stefndu af kröfum stefnanda um kaupauka.
Þá eru þeim tölum, sem koma fram í stefnu varðandi afkomu stefndu, mótmælt. Í gögnum málsins er að finna samstæðurekstraruppgjör stefndu fyrir janúar og október 2005, árituð af fjármálastjóra stefndu. Samkvæmt janúaruppgjörinu hafi EBITDA hagnaður félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) verið 16.618.184 krónur, en gert hafi verið ráð fyrir 13.357.038 krónum. EBITDA hagnaður umfram áætlun hafi því verið 3.261.146 krónur. Hafi stefnandi átt rétt á 10% af umfram EBITDA hagnaði. Ef miðað sé við áætlun sé sú tala sem stefnanda beri, 326.115 krónur, en ekki 531.705 krónur, eins og byggt sé á af hálfu stefnanda. EBITDA hagnaður stefndu fyrir október 2005 hafi hins vegar verið 9.894.196 krónur, en gert hafi verið ráð fyrir 19.408.582 krónum í áætlun. EBITDA hagnaðurinn hafi því verið 9.514.386 krónur undir áætlun og EBITDA hagnaður stefndu fyrir janúar og október 2005 hafi verið 6.253.240 krónur undir áætlun. Á þeim grundvelli byggja stefndu á því að stefnandi eigi ekki rétt til kaupauka á samkvæmt starfssamnings síns.
Stefndu byggja á almennum reglum vinnuréttar, m.a. um stofnun og slit ráðningarsambands og reglum um efndir launaskuldbindinga og heimild til frádráttar launa hjá nýjum atvinnurekanda á uppsagnarfresti.
V
Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur einkum að því hvort stefndu hafi verið rétt að draga frá launum stefnanda í uppsagnarfresti, þau laun sem hann fékk fyrir störf sín hjá öðrum á sama tímabili.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu. Kom m.a. fram hjá honum að er samningurinn var gerður hafi hann verið farinn að líta í kringum sig eftir nýju starfi og viljað hætta störfum hjá félögunum. Með fyrrgreindum samningi hafi hann viljað tryggja réttindi sín betur en ef til vill teldist venjulegt. Hafi hann litið svo á að ef ekki yrði óskað eftir starfskröftum hans á því tímabili sem samið hafi verið um, myndu hin stefndu félög vera skuldbundin til að borga honum laun. Um áramótin 2004/2005 hafi stefnandi óskað eftir starfslokum og talið að hann ætti að fá greitt samkvæmt starfslokasamningi sem gerður yrði við hann af stjórnendum hinna stefndu félaga. Hafi aðilar ekki komist að samkomulagi um starfslok hans. Stefnandi hafi því haft í hyggju að mæta aftur til starfa í september 2005. Til þess hafi ekki komið, þar sem honum hafi borist uppsagnarbréf frá stefndu fyrir þann tíma.
Tryggvi Jónsson, núverandi stjórnarformaður hinna stefndu félaga, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins, en hann tók við sem stjórnarformaður haustið 2004, í kjölfar eigendabreytinga. Kvaðst hann hafa reynt að fá stefnanda til að vera áfram, en stefnandi ekki verið áhugasamur um það, og á stjórnarfundi í nóvember 2004 hafi stefnandi greint honum frá því að hann vildi hætta störfum. Eftir þetta, en áður en stefnandi fór í fæðingarorlof, hafi mætti átt fundi með stefnanda og beðið hann um að bíða með að taka ákvörðun um starfslok. Síðar hafi mætti gert stefnanda tilboð um starfslok sem stefnandi hafi hafnað. Áður en stefnandi hafi átt að mæta aftur til starfa eftir fæðingarorlof hafi hann mætt á skrifstofu félaganna og „komið óróa á mannskapinn“, eins og stjórnarformaðurinn komst að orði. Vegna þessa atviks hafi verið ákveðið að skrifa stefnanda bréf, þar sem honum hafi verið tilkynnt að ekki yrði óskað eftir starfskröftum hans út uppsagnarfrest. Stjórnendur félaganna hafi vitað að stefnandi hefði hafið störf annars staðar og því hafi þeir tilkynnt honum að laun frá þeim atvinnurekanda myndu dragast frá launum sem stefnandi ætti rétt á út uppsagnarfrest.
Einar S. Hálfdánarson, lögmaður og löggiltur endurskoðandi, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kom fram hjá honum að hann hefði starfað sem stjórnarformaður félaganna um skeið á árinu 2004 og fram til ársins 2005, en áður hafi hann verið endurskoðandi þeirra. Bar mætti að hann hefði gert umdeildan starfssamning við stefnanda. Kvað hann tilurð samningsins hafa verið, að stefnandi hefði talið sig vera í erfiðri stöðu sem framkvæmdastjóri milli stríðandi fylkinga í félaginu og verið að velta fyrir sér að fara frá því til annarra starfa. Hafi stefnandi viljað tryggja sér starfsöryggi ef hann héldi áfram störfum fyrir félögin. Kvað hann félögin hafa verið fjárhagslega illa stödd á tímabili, en stefnandi hafi náð góðum árangri með reksturinn. Mætti kvaðst hafa talið að fyrir það hafi stefnandi átt skilið umbun. Samningurinn hafi verið gerður í júní árið 2004 og lagður fyrir stjórnarfund til samþykktar 25. júní 2004. Mætti kvaðst hafa litið svo á að 11. gr. samningsins væri starfslokasamningur. Kvað hann sinn skilning hafa verið, að ef stefnanda yrði sagt upp ætti að greiða honum samninginn í ljósi þess sem stefnandi hefði áorkað fyrir félögin. Einnig kvaðst hann hafa litið svo á að stefnandi ætti rétt á greiðslum samkvæmt samningnum, ef til uppsagnar hans kæmi, óháð því hvort hann færi í aðra vinnu þó svo ekki hefði verið rætt um það sérstaklega við samningsgerðina. Samningurinn kvæði því á um tveggja ára greiðslu til handa stefnanda frá félögunum, hvernig sem allt færi. Aðspurður kvað hann núverandi stjórnarformann, Tryggva Jónsson, ekki hafa haft samband við sig um túlkun samningsins eftir að málið kom upp. Aðspurður um kaupaukagreiðslur til framkvæmdastjóra, kvað hann að gert hefði verið ráð fyrir að stefnandi fengi ákveðinn hluta af framlegð umfram ákveðin mörk, en mætti kvaðst ekki muna hvort átt hafi að reikna út frá 90% af áætlun.
Óumdeilt er að stefnanda var sagt upp störfum hinn 26. ágúst 2005. Í uppsagnarbréfinu var tekið fram að í 11. gr. ráðningarsamnings milli aðila komi fram að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skyldi vera níu mánuðir, en þó í fyrsta skipti af hendi fyrirtækjanna hinn 31. mars 2006. Í uppsagnarbréfinu var enn fremur tekið fram að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi stefnanda. Síðan sagði: „Á grundvelli ákvæða tilgreinds samnings muntu halda óbreyttum ráðningarkjörum fram til 31. desember 2006 að því gefnu að þú ráðir þig ekki til annarrar vinnu á tímabilinu. Í samræmi við almennar reglur vinnumarkaðsréttar munu þau laun, sem þú kannt að fá fram til loka desember árið 2006 koma til frádráttar launagreiðslum til þín á tímabilinu og greiðslur munu falla niður ef þú ræður þig í vinnu, sem greiðir þér hærri laun, en þú hafðir hjá fyrirtækjunum. Ertu hér með áminntur um að beina tilkynningu til fyrirtækjanna þegar þú hefur annað starf og upplýsa hvaða kjör þú hefur.“
Stefnandi heldur því fram að ákvæði 11. gr. ráðningarsamnings aðila sé með þeim hætti, að stefndu beri að greiða honum laun án tillits til þess hvort hann þiggi laun annars staðar frá og komi því reglur vinnuréttar um frádrátt frá launum í uppsagnarfresti ekki til álita.
Umrædd 11. gr. ráðningarsamnings aðila er um uppsögn og segir þar: „Uppsagnarfrestur skal vera 9 mánuðir, í fyrsta skipti af hendi fyrirtækjanna þann 31. mars 2006. Uppsögn skal vera skrifleg og miðast við mánðamót. Ekki þarf að tilgreina ástæður uppsagnar. Framkvæmdastjóri heldur fullum kjörum út uppsagnarfrest það er í 9 mánuði frá því að uppsögn berst, þ.m.t. þeim kjörum og fríðindum sem getið er um í lið 5 og 7. Framkvæmdastjóra er ekki skylt að vinna uppsagnarfrest sinn. Láti framkvæmdastjóri af störfum áður en almanaksárið er á enda skal hann fá greiddan bónus fram að þeim tíma sem hann lætur af störfum í hlutfalli við sett og samþykkt markmið ársins og þann mánaðafjölda sem liðinn er frá áramótum. Endanlegt uppgjör skal eiga sér stað eigi síðar en einum mánuði eftir að síðasta starfsdegi lýkur.“
5. gr. ráðningarsamningsins er svohljóðandi: „Framkvæmdastjóri fær greiddan árangurstengdan bónus, ef settum og samþykktum markmiðum fyrir hvert rekstrarár er náð. Þessi bónus skal reiknaður út við lok hvers rekstrarárs og greiddur út fyrir lok janúarmánaðar árið á eftir. Sjá fylgiskjal 1, hagnaðartenging á skipuriti 1 fyrir árið 2004.
Til þess að fá greiddan bónus fyrir árið 2004, þarf hagnaður fyrirtækisins fyrir allt árið að vera 156.326.400, fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Náist það markmið fær framkvæmdastjóri greitt sem árangursbónus 10% af öllum hagnaði sem er umfram þessa fjárhæð.“
Í 7. gr. samningsins, sem er um „önnur kjör“ segir: „Framkvæmdastjóri fær til afnota vegna starfa sinna, farsíma, borðtölvu, ásamt ADSL tengingu á sitt heimili.
Framkvæmdastjóri fær til afnota bifreið sem má vera að verðmæti allt að kr. 4.500.000,- að höfðu samráði við stjórn.
Farsími, borðtölva, ADSL tenging og bifreið eru atvinnutæki vegna starfa framkvæmdastjóra og eru alfarið eign fyrirtækisins og skal skilað þegar framkvæmdastjóri lætur af störfum fyrir félagið.
Fyrirtækið ber kostnað vegna viðhalds og notkunar á ofangreindum tækjum en greiðir ekki hlunnindaskatt vegna þessa.
Framkvæmdastjóra er frjálst að taka þátt í sameiginlegum ferða slysa og líftryggingum sem fyrirtækin kunna að stofna til og bera þau kostnaðinn vegna umræddra trygginga.“
Samkvæmt umsdeildum samningi aðila var uppsögn stefnanda óheimil af hálfu stefndu fyrr en 31. mars 2006.
Af samningnum sjálfum verður ekki ráðið hvernig launagreiðslum til handa stefnanda skuli háttað ef stefnandi aflar sér vinnutekna annars staðar á uppsagnartímanum. Þá liggur fyrir að við gerð samningsins var ekki um þetta fjallað sérstaklega milli aðila og samningurinn var gerður til að tryggja starfsöryggi stefnanda, en ekki var gerður svokallaður starfslokasamningur. Verður ekki fallist á með stefnanda að í efni samningsins felist loforð um greiðslu óskertra launa út uppsagnarfrestinn eða á þeim tíma sem samningurinn var óuppsegjanlegur, án tillits til launagreiðslna frá nýjum vinnuveitanda, eða að önnur ákvæði samningsins leiði til þess að túlka beri samningsákvæðið svo að stefnanda beri laun óháð því hvort hann afli sér tekna annars staðar á uppsagnartímanum. Verður því við úrlausn málsins að hafa í huga þá meginreglu íslensks vinnuréttar að vinnulaun sem starfsmaður aflar sér annars staðar í uppsagnarfresti, ef ekki er óskað eftir vinnuframlagi hans, verði dregið frá launum hans í uppsagnarfresti. Hefur og verið litið svo á að vinnuveitanda sé í sjálfsvald sett hvort hann óski eftir vinnuframlagi starfsmanns í uppsagnarfresti. Með hliðsjón af reglunni um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar og þess tilgangs launagreiðslna í uppsagnarfresti að tryggja starfsmanni óskert laun til loka uppsagnarfrests, þykir eðlilegt að frá slíkum launagreiðslum dragist launatekjur í uppsagnarfresti, vegna starfa í þágu annars vinnuveitanda.
Samkvæmt áðurnefndu uppsagnarbréfi liggur fyrir að hin stefndu félög ætluðu að greiða stefnanda samkvæmt samningnum fram til 31. desember 2006, eða gildistíma samningsins og uppsagnarfrestinn. Þá liggur fyrir að stefnandi fór til starfa hjá öðru fyrirtæki í október 2005, en stefnandi hefur ekki upplýst hvenær. Krafa stefnanda er um greiðslu launa í október 2005, auk bónusgreiðslna í janúar 2005 og október 2005. Hann hefur hins vegar neitað að gefa upp laun sín hjá því fyrirtæki. Með því að stefnandi hefur ekki gefið upp laun sín hefur hann ekki sýnt fram á að hann eigi inni laun hjá hinum stefndu félögum fyrir umrætt tímabil. Samkvæmt því ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, eins og málið er vaxið, að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, SPC-Holdings A/S, Futura ehf., Pizza-Pizza ehf. og Hráefnavinnslan ehf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Þórarins H. Ævarssonar.
Málskostnaður fellur niður.