Hæstiréttur íslands

Mál nr. 771/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Miðvikudaginn 25. nóvember 2015.

Nr. 771/2015.

A

(Helga Vala Helgadóttir hdl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Börn. Dómkvaðning matsmanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um dómkvaðningu matsmanns í máli sem B höfðaði á hendur henni í því skyni að svipta hana forsjá fimm barna sinna. Með vísan til þess að í málinu lágu fyrir nýlega sérfræðigögn um forsjárhæfni og geðræna heilsu A var talið bersýnilegt að matsgerð sú sem hún hygðist afla myndi vera tilgangslaus til sönnunar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2015, sem barst Hæstarétti degi síðar, en kærumálsgögn bárust réttinum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur matsmaður til að meta forsjárhæfni og geðræna heilsu sína. Þá krefst hún kærumálskostnaður úr ríkissjóði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði lauk B, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði, ítarlegu mati á sálrænum högum sóknaraðila 18. júní 2015. Mat þetta, ásamt greinargerð C, geðlæknis og [...] á geðdeild Landspítala, sama dag um geðheilbrigðisrannsókn á sóknaraðila, eru grundvöllur mats á forsjárhæfni hennar.

Beiðni sóknaraðila 5. nóvember 2015 um dómkvaðningu matsmanns til þess að meta þau fjögur atriði sem tilgreind eru í úrskurði héraðsdóms lúta að sömu efnisatriðum og áðurnefnd sérfræðigögn, sem lokið var við fjórum og hálfum mánuði fyrr. Verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að bersýnilegt sé að nýtt mat um sömu efnisatriði, án þess að veruleg breyting hafi orðið á högum sóknaraðila, sé tilgangslaust til sönnunar um forsjárhæfni hennar og önnur atriði sem í matsbeiðni greinir. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Gjafsóknarkostnaður verður ekki dæmdur, enda er mál þetta þáttur í forsjársviptingarmáli sem rekið er í héraði og sóknaraðili nýtur gjafsóknar í, en við lyktir þess verður þá meðal annars í einu lagi tekin afstaða til alls gjafsóknarkostnaðar hennar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2015.

I.

Mál þetta var höfðað með áritun lögmanns stefndu á stefnu þann 21. október 2015 og framhaldsstefnu þann 30. október 2015. Það sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Dómkröfur stefnanda, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, eru þær að stefnda, A, [...], Reykjavík verði svip forsjá barna sinna, D, kt. [...], E, kt. [...], F, kt. [...], G, kt. [...] og H, kt. [...].

                Stefnda hefur óskað eftir fresti til að skila greinargerð.

                Í þinghaldi þann 6. nóvember sl., var þess óskað af hálfu stefndu að dómkvaddur yrði matsmaður til að framkvæma mat á forsjárhæfni stefndu, sem og geðrænni heilsu hennar. Stefnandi mótmælti beiðninni og var málinu frestað til 9. nóvember 2015, að ósk lögmanns stefndu, þar sem málsaðilum var gefinn kostur á að færa rök fyrir máli sínu.

II.

Mál þetta varðar fimm börn stefndu sem eru H tveggja ára, G þriggja ára, F tæplega átta ára, E ellefu ára og D þrettán ára. Hafa börnin lotið forsjár móður sinnar stefndu, A.

                Með úrskurði, dags. 21. apríl 2015, kvað stefnandi upp úrskurð þess efnis að börn stefndu yrðu vistuð á heimili á vegum stefnanda í allt að tvo mánuði frá þeim degi að telja á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í framhaldinu var þess krafist fyrir dómi að vistun barnanna utan heimilis stefndu stæði í sex mánuði frá og með 21. apríl 2015 að telja. Undir rekstri málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samþykkti stefnda vistun barnanna E og D utan heimilis í sex mánuði. Með dómi Hæstaréttar Íslands, dags. 18. júní 2015 í máli nr. 384/2015 var fallist á kröfu stefnanda um vistun H, G og F utan heimilis stefndu í sex mánuði frá 21. apríl 2015. Á fundi stefnanda þann 13. október 2015 kom fram að stefnda væri samþykk vistun E og D utan heimilis í sex mánuði á meðan mál um forsjársviptingu yrði rekið fyrir dómi. Á fundinum var jafnframt samþykkt að krefjast þess að stefnda yrði svipt forsjá allra barnanna á grundvelli a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

                Samkvæmt gögnum málsins hefur stefnandi haft málefni barna stefndu til meðferðar allt frá árinu 2005. Hefur á þeim tíma borist fjöldi tilkynninga um ofbeldi á heimili stefndu sem meðal annars hafi beinst að börnunum.

                Í málinu liggur fyrir forsjárhæfnimat B sálfræðings, dags. 18. júní 2015, á sálrænum högum stefndu, sem aflað var af Barnavernd Reykjavíkur. Í beiðni var þess óskað að mat yrði lagt á

                „1. Greindarfarslega stöðu móður og/eða möguleg geðræn vandkvæði,

                2. Mögulega þörf fyrir meðferð og/eða stuðningsúrræði, og þá hvaða?

                3. Hvort móðir búi yfir nauðsynlegri og nægjanlegri hæfni til að veita börnum sínum fullnægjandi uppeldisskilyrði í framtíðinni.

                4. Hvort velferð og þroska barnanna sé tryggður við þau uppeldisskilyrði sem móðir getur veitt börnunum.

                5. Styrkleikar og veikleikar móður í uppeldislegu tilliti.

                6. Hæfni móður til að nýta sér meðferð og frekari stuðningsúrræði.“

                Í niðurstöðu matsins kemur m.a. fram að stefnda eigi við mjög alvarlega persónuleikaröskun að stríða sem valdi hömlum í öllu hennar lífi. Hún sé hvatvís, óstöðug tilfinningalega og með reiðivandamál. Þá virðist stefnda hafa slaka innsýn í eigin hegðun, afneiti flestu neikvæðu í sínu fari, kenni öðrum um eigin ófarir og frásagnir hennar af atburðum séu iðulega í andstöðu við gögn málsins. Telur matsmaður ljóst að stefnda hafi þörf fyrir lengri tíma meðferð, líklegast tvö til þrjú ár með sérstækum sálfræðilegum aðferðum. Vegna innsæisleysis stefndu sé hins vegar ólíklegt að hún muni gangast undir slíka meðferð. Tekur matsmaður fram að þó að stefnda geti náð árangri varðandi persónuleikavanda sinn þá sé ekki þar með sagt að hún muni ná árangri varðandi forsjárhæfni þar sem viðhorf hennar í þeim efnum séu fastmótuð. Telur matsmaður að stefnda hafi ekki nægjanlega eða nauðsynlega forsjárhæfni til að sinna börnum sínum og telur stuðning til þess óraunhæfan miðað við sögu fjölskyldunnar.

                Í málinu liggur einnig fyrir Geðheilbrigðisrannsókn í Forsjárhæfnimati, dags. 18. júní 2015, sem gerð var af C [...] geðdeilda Landspítala og aflað var að beiðni stefnanda. Voru sömu spurningar lagðar fyrir lækninn og lagðar voru fyrir sálfræðing og gerð er grein fyrir hér að framan. Í skýrslu geðlæknisins kemur m.a. fram að stefnda sé haldin persónuleikaröskun með óstöðugum geðbrigðum. Telur læknirinn að saga og hegðun stefndu staðfesti greininguna. Stefnda þurfi reglulega stuðningsmeðferð sem krefjist sérþekkingar. Slík meðferðaríhlutun þurfi oft að vera til margra ára. Stefndu skorti ekki greind en ljóst sé að hún geti ekki veitt börnum sínum fullnægjandi uppeldisskilyrði að sinni. Stefndu skorti innsæi í þörf á að skoða og ná betri stjórn á tilfinningalífi sínu. Þroski barnanna og velferð sé ekki nægjanlega tryggð við þau uppeldisskilyrði, sem stefnda geti veitt þeim á meðan hún sé ekki komin lengra í bata sínum. Þá kemur fram í mati geðlæknisins að stefnda hafi marga styrkleika. Hún sé ágætlega gefin, skipuleg og dugleg, hafi þokkalegan metnað og vilji í raun börnum sínum allt hið besta. Veikleiki hennar sé að hún hafi ekki öðlast fullt innsæi í þörf á að skoða og ná betri stjórn á tilfinningalífi sínu. Skilji hún og samþykki þetta séu til ágætis meðferðar- og stuðningsúrræði sem hún eigi að geta nýtt sér. Um hæfni stefndu til að nýta sér meðferð og frekari stuðningsúrræði segir í niðurstöðum geðlæknisins að fái stefnda innsæi í og skilji grunn vanda sinn séu til örugg og vel reynd úrræði sem ættu að geta hjálpað henni.

                Með bréfi, dags. 21. september 2015 til Geðdeildar Landspítala, óskaði stefnandi eftir upplýsingum um hversu lengi stefnda hefði sótt meðferð á Kleppi og hversu lengi væri áætlað að meðferð stæði yfir, hvort þeir fagaðilar sem komið hefðu að meðferð móður á Kleppi hefðu kynnt sér geðheilbrigðisrannsókn C geðlæknis og forsjárhæfnimat B sálfræðings. Þá er spurt hvort stefnda hafi fengið meðferð við persónuleikaröskun í innlögn hennar á Kleppsspítala, og ef svo væri í hverju sú meðferð hefði falist og hvernig þeir sem komið hefðu að meðferð móður mætu innsæi hennar í eigin vanda í dag m.t.t. geðgreiningar.

                Í svari Landspítala, dags. 5. október 2015 segir að stefnda hafi komið til innlagnar á Endurhæfingargeðdeild í sjö daga þann 27. ágúst 2015. Síðan hafi hún verið flutt á Endurhæfingargeðdeild í fimm daga 14. september þar sem hún dvelji þegar bréfið er skrifað. Segir í bréfinu að meðferð á Kleppi muni standa í að hámarki þrjá mánuði. Spurningu stefnanda hvort stefnda hafi fengið meðferð við persónuleikaröskun í innlögn hennar á Kleppspítala, var svarað neitandi. Um innsæi hennar í eigin vanda segir í svarbréfinu að erfitt sé að meta innsæi til lengri tíma. Í niðurlagi bréfsins er tekið fram að stefnda hafi komið til innlagnar á Endurhæfingargeðdeild á Kleppi að beiðni geðlæknis, vegna þess að sjúklingur hafi verið í „lífskrísu“ vegna barnaverndarmáls og talið væri að hún þarfnaðist lengri tíma endurhæfingar til að auka virkni, fá rútínu í líf sitt og betra jafnvægi. Stefnda sé í prógrammi á deildinni og að virkni hennar sé án athugasemda.

III.

Í þinghaldi þann 9. nóvember 2015 færðu lögmenn aðila rök fyrir máli sínu. Tekur matsbeiðandi fram að þegar forsjárhæfnimat B sálfræðings Barnaverndar Reykjavíkur og greinargerð C geðlæknis, dags. 18. júní 2015, voru gerð hafi matsbeiðandi verið í svokölluðu krísuástandi í kjölfar þess að börn hennar voru í fyrsta skipti tekin af heimili hennar, beitt neyðarráðstöfun og því næst vistuð utan heimilis í apríl sl. Bendir matsbeiðandi á að aðstæður hennar séu breyttar og því sé þörf á nýju mati á henni og börnum hennar, ekki síst með tilliti til heilsu hennar, en hún hafi sótt meðferð á geðsviði Landspítala ‒ Háskólasjúkrahúsi undanfarna mánuði með góðum árangri. Telur matsbeiðandi stöðu sína í dag vera mun betri en hún var þegar hvort tveggja forsjárhæfnimat sem og geðræn heilsa hennar var metin í apríl og maí 2015. Vísar matsbeiðandi til eftirfarandi orða sem fram koma í greinargerð geðlæknis á bls. 20: Ef A fær innsæi á og skilur grunn vanda sinn eru til örugg og vel reynd úrræði sem ættu að geta hjálpað A. Og á bls. 19 um styrkleika og veikleika móður: A hefur marga styrkleika. ... Veikleiki [hennar]er að hún hefur ekki enn öðlast fullt innsæi á þörf á að skoða og ná betri stjórn á tilfinningalífi sínu. Skilji hún og samþykki þetta eru til ágætis meðferðar og stuðningsúrræði sem hún á að geta nýtt sér.

                Matsbeiðandi telur að þar sem hún hafi verið í meðferð á geðsviði Landspítala, áður í innlögn og nú í göngudeildarmeðferð þar sem hún mæti daglega, sé ljóst að hún taki nú ábyrgð á heilsu sinni og virðist hafa aukið innsæi í vanda sinn. Þá telur matsbeiðandi að sálfræðimat sem liggi fyrir í málinu hafi verið gert af starfsmanni Barnaverndarnefndar og því sé ekki um að ræða mat óháðs matsmanns. 

                Samkvæmt framlagðri matsbeiðni er þess óskað að eftirfarandi þættir verði kannaðir sérstaklega í fari matsbeiðanda:

                1) Dagleg umönnun, uppeldi og samskipti foreldris og barns með hliðsjón af aldri barna og þroska,

                2) hvort börnunum sé tryggð viðeigandi meðferð, þjálfun og kennsla m.t.t. sjúkleika þeirra eða fötlunar,

                3) hvort börnunum sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu,

                4) hvort börnunum sé hætta búin gagnvart líkamlegri og andlegri heilsu sinni sökum þess að matsbeiðandi sé augljóslega vanhæf til að fara með forsjá vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni matsbeiðanda sé líkleg til að valda börnum alvarlegum skaða.

                Matsþoli telur dómkvaðningu matsmanna og frekari öflun gagna þarflausa. Ítarleg gögn liggi fyrir um geðsögu matsbeiðanda. Gögn málsins sýni að staða matsbeiðanda hafi ekkert breyst, sbr. svör Landspítala, dags. 5. október 2015 við spurningum sem fram voru settar í bréfi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 21. september 2015. Þar komi fram að matsbeiðandi fái ekki meðferð við persónuleikaröskunum sínum. Þá telur matsþoli enga þörf á frekari afstöðu barnanna, þar sem hún liggi nú þegar fyrir í gögnum málsins.

IV.

Matsbeiðandi krefst þess að dómkvaddur verði einn óvilhallur matsmaður til að meta nánar tilgreind atriði sem sett eru fram í matsbeiðninni. Telur matsbeiðandi nauðsynlegt að nýtt mat fari fram á henni og börnunum, einkum í ljósi breyttra aðstæðna hennar á síðastliðnum mánuðum. Hún hafi sótt meðferð á geðsviði Landspítala ‒ Háskólasjúkrahúsi undanfarna mánuði með góðum árangri. Hún taki nú ábyrgð á heilsu sinni og hafi aukið innsæi í vanda sinn.

                Matsþoli krefst þess að hafnað verði kröfu matsbeiðanda um að dómkvaddur verði matsmaður til að framkvæma mat á forsjárhæfni stefndu. Ítarleg gögn liggi fyrir um geðsögu matsbeiðanda og gögn málsins sýni að staða hennar hafi ekkert breyst. Hún fái ekki meðferð vegna persónuleikaröskunar. Þá liggi afstaða barnanna fyrir í gögnum málsins. 

                Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Sé ekki svo ástatt sem greinir í ákvæði þessu er ekki girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerðum, skýrslum eða greinargerðum sérfræðinga sé aflað nýrrar matsgerðar sem taki til annarra atriða en þær sem liggja fyrir í málinu.

                Spurningar þær sem settar hafa verið fram í matsbeiðni lúta að sömu atriðum og þegar hefur verið lagt mat á í forsjárhæfnimati B sálfræðings auk þess sem afstaða um forsjárhæfni matsbeiðanda liggur einnig fyrir í geðmati/forsjárhæfnimati C geðlæknis. Eru spurningar þessar því tilgangslausar til sönnunar þeim atriðum sem tiltekin eru í matsbeiðni, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess verður ekki séð af gögnum málsins að matsbeiðandi hafi fengið meðferð við persónuleikaröskun sem lögð var til í mati geðlæknis og er frumforsenda þess að hún nái fullum tökum á geðheilsu sinni. Nú er hún hins vegar til meðferðar á Endurhæfingargeðdeild Landspítala sem stendur í þrjá mánuði, vegna „lífskrísu“ hennar og einkum til að auka virkni og koma betra jafnvægi á líf sitt. Verður því hafnað kröfu matsbeiðanda um að dómkvaddur verði matsmaður til að framkvæma mat á forsjárhæfni matsbeiðanda.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Beiðni stefndu, A, um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.