Hæstiréttur íslands
Mál nr. 278/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Innstæða
- Réttindaröð
- Dráttarvextir
- Lagaskil
|
|
Mánudaginn 12. maí 2014. |
|
Nr. 278/2014.
|
Aresbank S.A. (Baldvin Björn Haraldsson hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Þröstur Ríkharðsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Innstæða. Réttindaröð. Dráttarvextir. Lagaskil.
A lánaði K hf. tilgreinda fjárhæð gegn greiðslu hennar að viðbættum vöxtum að tilteknum tíma liðnum, en áður en að gjalddaga kom neytti Fjármálaeftirlitið heimildar samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki til að taka yfir vald hluthafafundar í K hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Var K hf. tekinn til slita í framhaldi af því, en A lýsti kröfu við slitin vegna skuldarinnar. Samkomulag tókst milli aðila um að kröfunni yrði auk umsaminna vaxta skipað í réttindaröð við slitin samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá greindi á hinn bóginn á um hvort A ætti að auki rétt til dráttarvaxta samkvæmt íslenskum lögum frá gjalddaga lánsins til þess tíma er K hf. var tekinn til slita, sem réðist af úrlausn um hvort samningur þeirra lyti íslenskum lögum. Þá deildu þeir um tilkall A til innheimtukostnaðar. Hæstiréttur taldi að gera yrði slíkan greinarmun á umsömdum skyldum hvors aðila um sig, sem um ræddi í síðari málslið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar, og fella þar með undir íslensk lög þau atriði sem lutu að skyldum K hf. og var því fallist á kröfu hans um dráttarvexti. Kröfu um greiðslu innheimtukostnaðar var hins vegar hafnað með því að hún væri vanreifuð.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2014, þar sem viðurkennd var krafa sóknaraðila að fjárhæð 883.577.094 krónur við slit varnaraðila og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa sín á hendur varnaraðila að fjárhæð 944.740.853 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins beindi sóknaraðili, sem mun vera spænskur banki í eigu seðlabanka Líbýu og starfa á svonefndum millibankamarkaði, boði 16. júní 2008 til varnaraðila, sem þá bar heitið Kaupþing banki hf., um að leggja honum til innlán að fjárhæð 5.000.000 evrur til fimm mánaða frá 18. sama mánaðar gegn greiðslu á 5,17% ársvöxtum og tók varnaraðili því boði. Í framhaldi af þessu gekk á milli aðilanna staðfesting á því að sóknaraðili myndi 18. júní 2008 greiða til varnaraðila 5.000.000 evrur fyrir milligöngu Deutsche Bank AG í Frankfurt í Þýskalandi, en varnaraðili myndi greiða þá fjárhæð til baka 18. nóvember sama ár að viðbættum vöxtum að fjárhæð 109.862,50 evrur. Samskipti aðilanna um þetta fóru fram með svonefndum SWIFT tilkynningum og voru ekki gerðir frekari skriflegir samningar um viðskipti þeirra.
Áður en kom að gjalddaga framangreinds innláns neytti Fjármálaeftirlitið 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en í framhaldi af því var hann tekinn til slita 22. apríl 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu við slitin vegna þessara viðskipta við varnaraðila og reis ágreiningur um viðurkenningu hennar, bæði að því er varðar fjárhæð og stöðu hennar í réttindaröð. Ágreiningnum var beint til héraðsdóms 10. desember 2010, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 26. janúar 2011. Undir rekstri málsins tókst samkomulag milli aðilanna um að krafa sóknaraðila yrði viðurkennd við slitin á þann hátt að höfuðstóll hennar að viðbættum umsömdum vöxtum af innláninu teldist alls að fjárhæð 883.577.094 krónur og nyti hún stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 með síðari breytingum. Stóð þá óleystur ágreiningur aðilanna, sem hér er til úrlausnar, um hvort sóknaraðili ætti að auki rétt til dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá gjalddaga innlánsins til 22. apríl 2009, sem aðilarnir virðast vera sammála um að séu að fjárhæð 54.435.180 krónur, og til greiðslu kostnaðar af innheimtu kröfu sinnar, sem fallið hafi til fyrir síðastgreindan dag og virðist hafa numið 6.728.579 krónum. Verði þessir kröfuliðir, annar eða báðir, teknir til greina er óumdeilt að krafa sóknaraðila svo breytt standi í heild í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.
II
Eins og mál þetta er lagt fyrir eru aðilarnir sammála um að niðurstaða um tilkall sóknaraðila til dráttarvaxta af kröfu sinni ráðist af því hvort ákvæði laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar leiði til þess að réttarstaða þeirra að þessu leyti fari eftir íslenskum lögum, en verði sú ekki raunin njóti sóknaraðili einskis réttar til frekari vaxta af kröfu sinni en þegar hafa verið viðurkenndir samkvæmt áðursögðu.
Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 er mælt svo fyrir að hafi samningur ekki að geyma ákvæði um hvers lands lögum eigi að beita um hann skuli beitt lögum þess lands, sem hann hafi sterkust tengsl við. Hafi afmarkaður hluti samnings nánari tengsl við annað land en sú regla myndi leiða til sé þó heimilt að beita lögum þess að því er varðar þann hluta samningsins, sbr. síðari málslið sömu málsgreinar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skal að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land, þar sem sá sem á að efna aðalskyldu samningsins býr við gerð hans, en þegar fyrirtæki eigi í hlut skuli miða um þetta við aðalstöðvar þess.
Eftir fyrrgreindum samningi aðilanna áttu þeir hvor fyrir sitt leyti að efna skyldur sínar með peningagreiðslu og verður því ekki rætt um að annar þeirra hafi hinum fremur borið aðalskyldu samningsins í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000. Með samningnum tókst sóknaraðili á hendur skyldu til að greiða varnaraðila tiltekna fjárhæð fyrir milligöngu banka í Þýskalandi og gekkst sóknaraðili undir þá skuldbindingu frá aðalstöðvum sínum á Spáni, þaðan innti hann síðan af hendi umsamda fjárhæð og notaði í því sambandi gjaldmiðil þess lands. Getur að þessu virtu ekki orkað tvímælis að um þessar skyldur hefði borið að fara að spænskum lögum, en þær efndi sóknaraðili allar réttilega í framhaldi af gerð samningsins. Eftir þessar efndir sóknaraðila barst umsamin fjárhæð á hinn bóginn í hendur varnaraðila, sem á þeim tíma hafði starfsleyfi sem viðskiptabanki hér á landi, hjá varnaraðila varð á þennan hátt til í aðalstöðvum hans innlán, sem sóknaraðili naut réttinda yfir og standa átti til fimm mánaða, á því tímabili giltu íslensk lög óhjákvæmilega um innlánið, sem varnaraðili var ábyrgur fyrir, og honum bar að þeim tíma liðnum að standa aftur skil á innláninu ásamt umsömdum vöxtum með greiðslu, sem hefði átt að inna af hendi frá aðalstöðvum hans á Íslandi. Að þessu gættu verður að gera slíkan greinarmun á umsömdum skyldum hvors aðila fyrir sig, sem um ræðir í síðari málslið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000, og fella þar með undir íslensk lög þau atriði, sem lutu að skyldum varnaraðila. Af þessu leiðir að viðurkenna verður tilkall sóknaraðila til dráttarvaxta eftir íslenskum lögum af fjárhæðinni, sem varnaraðili vanefndi að greiða honum á gjalddaga 18. nóvember 2008.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hafnað kröfu sóknaraðila að því er varðar kostnað af innheimtu kröfu hans.
Samkvæmt framansögðu verður fjárhæð viðurkenndrar kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila hækkuð um sem svarar dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 af höfuðstól hennar og umsömdum vöxtum eða 54.435.180 krónur. Eftir þessum úrslitum málsins verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennd er krafa sóknaraðila, Aresbank S.A., við slit varnaraðila, Kaupþings hf., að fjárhæð 938.012.274 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2014.
I.
Mál þetta, sem þingfest var 26. janúar 2011, var tekið til úrskurðar 6. mars sl. Sóknaraðili er Aresbank S.A. en varnaraðili er Kaupþing hf.
Sóknaraðili gerði upphaflega þær dómkröfur í greinargerð sinni að viðurkennd yrði krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 5.582.584,95 evrur, sem umreiknist í 944.740.853 krónur í kröfuskrá varnaraðila, og að krafan nyti stöðu í réttindaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Til vara krafðist hann þess að viðurkennd yrði krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 5.239.807,17 evrur, sem umreiknist í 886.732.567 krónur í kröfuskrá varnaraðila, og að krafan nyti stöðu í réttindaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Loks krafðist sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins.
Varnaraðili krafðist þess í greinargerð sinni að öllum kröfum sóknaraðila yrði hafnað og að staðfest yrði sú afstaða varnaraðila að viðurkenna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 883.577.094 krónur sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krafðist varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins.
Með sameiginlegri bókun sem aðilar lögðu fram í þinghaldi 16. október 2013 lýsa þeir sig sammála um að krafa sóknaraðila skuli njóta forgangsréttar við slit varnaraðila skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá fellst varnaraðili á að viðurkenna hluta af kröfu sóknaraðila með breytingum sem forgangskröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, samtals að fjárhæð 883.577.094 krónur (höfuðstóll 846.150.000 krónur og samningsvextir 37.427.094 krónur). Sé ágreiningsefni málsins samkvæmt því afmarkað við það hvort sóknaraðili eigi kröfu um dráttarvexti og kostnað vegna kröfunnar, samtals að fjárhæð 61.163.758 krónur. Verði fallist á þann hluta kröfunnar eru aðilar sammála um að hann njóti rétthæðar sem forgangskrafa skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru því þær að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 5.582.584,95 evrur, sem umreiknist í kröfuskrá varnaraðila í 944.740.853 krónur, og að krafa sóknaraðila njóti stöðu í réttindaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi, eða að mati dómsins, og að tekið verði tillit til þess að sóknaraðili er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.
Endanlegar kröfur varnaraðila eru þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú afstaða varnaraðila að viðurkenna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 883.577.094 krónur sem forgangskröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins.
II.
Málavextir
Hinn 16. júní 2008 gekk sóknaraðili að tilboði varnaraðila um lánaviðskipti og var viðskiptunum komið á með skeytum í gegnum svokallað SWIFT-samskiptakerfi. Hinn 18. sama mánaðar millifærði sóknaraðili 5.000.000 evra inn á evrureikning varnaraðila hjá Deutsche Bank í Frankfurt í Þýskalandi á þeim kjörum sem aðilar sömdu um. Var lánið með 5,17% vöxtum og var upphafsdagur þess 18. júní 2008 en lokadagur 18. nóvember sama ár. Ekki var um aðra skjalagerð að ræða vegna viðskiptanna en þau SWIFT-skeyti sem fóru milli aðila málsins.
Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék stjórninni frá og skipaði skilanefnd yfir bankann á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008, en slitameðferð bankans hófst við gildistöku laga nr. 44/2009 hinn 22. apríl 2009 og var bankanum skipuð slitastjórn hinn 25. maí sama ár. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna, sem birtist í Lögbirtingablaði 30. júní 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember sama ár.
Sóknaraðili lýsti kröfu í slitabú varnaraðila skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 samtals að fjárhæð 6.243.470 evrur, sem byggðist á framangreindum peningamarkaðsviðskiptum milli aðila. Slitastjórn varnaraðila samþykkti kröfuna með breytingum sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Var fallist á að viðurkenna höfuðstól kröfunnar, auk samningsvaxta til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 5.221.161 evra, eða 883.577.094 krónur. Hins vegar var hafnað kröfu um dráttarvexti og kostnað. Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar með bréfi. Í kjölfarið voru sóknaraðilar boðaðir á ágreiningsfund í samræmi við 120. gr. laga nr. 21/1991, en þar sem ekki reyndist unnt að jafna ágreining milli aðila var ágreiningnum vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laganna.
Eins og áður segir var mál þetta þingfest hinn 26. janúar 2011. Var málinu þá frestað ótiltekið samkvæmt sameiginlegri ósk aðila meðan beðið væri niðurstöðu í sambærilegum málum þar sem deilt var um hvort lán af sama toga og hér um ræðir nytu forgangsréttar skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit fjármálafyrirtækja. Málið var síðan tekið fyrir á ný 7. mars 2013 og lagði sóknaraðili þá fram greinargerð sína, ásamt fylgiskjölum. Jafnframt féllu þá frá aðild sinni að málinu fjölmargir erlendir kröfuhafar sem andmælt höfðu kröfugerð sóknaraðila við slitameðferðina. Var málinu frestað til 5. apríl sama ár, en varnaraðili lagði þá fram greinargerð sína. Er málið var næst tekið fyrir hinn 10. maí sama ár lýstu aðilar gagnaöflun lokið og var ákveðin aðalmeðferð í því 10. september sama ár. Er málið var tekið fyrir þann dag var aðalmeðferðinni frestað til 16. næsta mánaðar, samkvæmt sameiginlegri ósk aðila, þar sem væntanleg væri niðurstaða í tveimur hæstaréttarmálum sem myndi veita svör við þeim ágreiningi sem uppi væri milli aðila. Í þinghaldinu 16. október sl. lögðu aðilar síðan fram sameiginlega bókun um breytta afstöðu varnaraðila til krafna sóknaraðila, og breytta kröfugerð sóknaraðila vegna þess, eins og fram er komið. Var málinu svo frestað til aðalmeðferðarinnar hinn 6. mars sl.
III.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Krafa sóknaraðila um íslenska dráttarvexti byggist á því að um samninginn fari eftir íslenskum lögum þar sem innlánið hafi verið lagt inn hjá útibúi varnaraðila á Íslandi. Þannig segi í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, að hafi ekki verið samið um lagaval skuli um samning gilda lög þess lands sem hafi sterkust tengsl við samninginn. Í 2. mgr. sömu greinar segi svo að líta skuli svo á að það land, þar sem sá aðili sem eigi að efna aðalskyldu samningsins hafi heimilisfesti, sé það land sem samningurinn eigi sterkust tengsl við. Sé sá aðili fyrirtæki beri að beita lögum þess lands þar sem hann hefur aðalstarfsstöð sína. Í þeim kringumstæðum sem hér séu til úrlausnar hafi varnaraðili, sem efna skuli aðalskyldu samningsins, skráða aðalstarfsstöð á Íslandi. Þannig fari um samninginn samkvæmt íslenskum lögum. Með tilliti til þessa sé þess krafist að dráttarvextir verði reiknaðir á innstæðu sóknaraðila frá og með gjalddaga hennar 18. nóvember 2008 til og með 22. apríl 2009, í samræmi við 6. gr. laga nr. 38/2001, eins og venja sé samkvæmt íslenskum lögum. Geri lagaákvæðið engan greinarmun á því hvort krafa sé í íslenskum krónum eða öðrum gjaldmiðli.
Sóknaraðili telji rétt sinn til að fá samþykktan útlagðan kostnað fyrir 22. apríl 2009 tvímælalaust vera fyrir hendi og að slík krafa eigi að njóta forgangsréttar skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í 1. tl. 114. gr. sömu laga sé tekið fram að kröfur um kostnað af innheimtu kröfu skv. 112. og 113. gr., sem fallið hafi til eftir að úrskurður hafi gengið um að bú væri tekið til gjaldþrotaskipta, teljist til eftirstæðra krafna. Með gagnályktun frá þessu ákvæði hljóti kostnaður við innheimtu kröfu fyrir úrskurðardag að njóta sömu rétthæðar og krafan sjálf.
Sóknaraðili hafi lagt fram ítarlegar upplýsingar sem gefi í smáatriðum nákvæmar upplýsingar um kostnað hans. Hafi varnaraðili ekki fært fram nein rök fyrir því að hafna beri þeim kostnaði.
IV.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveðst alfarið hafna kröfu sóknaraðila um dráttarvexti frá gjalddaga kröfunnar þegar af þeirri ástæðu að ekki liggi til grundvallar samningur milli aðila sem kveði á um dráttarvexti af kröfunni komi til vanefnda á henni.
Varnaraðili byggir á því að spænsk lög gildi um samning aðila og þar sem erlend lög gildi um samninginn geti hann þegar af þeirri ástæðu ekki borið vexti samkvæmt lögum nr. 38/2001. Ljóst sé að lánveiting sóknaraðila sé aðalskylda samningsins í skilningi 4. gr. laga nr. 43/2000 en ekki endurgreiðsla lánsins, enda sé sú skylda, það er að veita lán samkvæmt lánssamningi, mun sértækari en hin almenna skylda til að endurgreiða lán. Þar sem sóknaraðila hafi borið að efna aðalskyldu samningsins hafi samningurinn skv. 4. gr. laga nr. 43/2000 sterkust tengsl við Spán, þar sem sóknaraðili hafi þar aðalstöðvar sínar. Af c-lið 1. mgr. 10. gr. sömu laga leiði að spænsk lög gildi um afleiðingar vanefnda viðskiptanna og þar með talið heimild til að krefja um dráttarvexti. Mótmælt sé þeirri staðhæfingu sóknaraðila að íslensk lög gildi um samninginn þar sem sóknaraðili hafi lagt lánið inn hjá útibúi varnaraðila á Íslandi. Af þeim SWIFT-skeytum sem viðskipti aðila byggi á sé þvert á móti ljóst að lánið hafi verið lagt inn á evrureikning varnaraðila hjá Deutsche Bank í Þýskalandi.
Hafnað sé kröfu sóknaraðila um kostnað á tímabilinu fyrir úrskurðardag, enda verði ekki séð af þeim gögnum sem krafan sé reist á að kostnaðurinn tengist innheimtu kröfunnar eða málshöfðun á því tímabili. Með sömu rökum sé ljóst að krafan geti ekki notið forgangsréttar. Þá sé áréttuð sú meginregla gjaldþrotaskiptaréttar að hver kröfuhafi beri sinn kostnað af því að lýsa og halda fram kröfum sínum á tímabilinu fyrir úrskurðardag.
V.
Niðurstaða
Eins og fram er komið er mál þetta sprottið af viðskiptum milli aðila sem fram fóru með þeim hætti að varnaraðili sendi hinn 16. júní 2008 út tilboð á millibankamarkaði í þeim tilgangi að afla sér fjármagns til skemmri tíma. Gekk sóknaraðili að tilboðinu og var viðskiptunum komið á með skeytum í gegnum SWIFT-samskiptakerfið en ekki var gengið frá formlegum samningi milli þeirra um lánin.
Eins og mál þetta liggur nú fyrir lýtur ágreiningur málsaðila annars vegar að því hvort krafa sóknaraðila skuli bera íslenska dráttarvexti. Ekki er um það deilt að í framangreindum samningi þeirra var hvorki um það samið hverjar skyldu vera afleiðingar þess að bankinn endurgreiddi ekki innstæðuna á réttum gjalddaga né hvers lands lögum skyldi beita um réttarágreining sem kynni að leiða af samningi þeirra. Krafa sóknaraðila um endurgreiðslu innlánsins frá varnaraðila er einkaréttarleg samningsskuldbinding í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar. Ljóst er að lagaval verður ekki með vissu talið leiða af samningnum sjálfum eða öðrum atvikum, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Af því leiðir að beita ber lögum þess lands sem samningur aðila hefur sterkust tengsl við, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að almennt skuli litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem aðili sem efna á aðalskyldu samningsins hefur aðalstöðvar sínar. Fyrir liggur að í samningi aðila fólst skylda beggja til að greiða hinum peninga og verður ekki út frá því metið hvor skyldan setji meira mark á samninginn, enda á leiðbeining 2. mgr. 4. gr. einungis við sé unnt að afmarka aðalskyldu samnings, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Þá á leiðbeining 2. mgr. ekki við verði af aðstæðum öllum ráðið að samningurinn í heild hafi ríkari tengsl við annað land en það sem leiða myndi af leiðbeiningunni í 2. mgr.
Eins og fyrr segir var umrætt innlán til varnaraðila veitt af sóknaraðila, sem er spænskur banki, það var veitt í gjaldmiðli Spánar, evrum, og var greitt inn á reikning varnaraðila hjá Deutsche Bank í Þýskalandi. Með hliðsjón af þessu verður að fallast á það með varnaraðila að tengsl samnings aðilanna séu sterkari við Spán heldur en Ísland og beri því að beita spænskum lögum um það hvort sóknaraðili eigi rétt á dráttarvöxtum og þá hversu háir þeir skuli vera. Samkvæmt þessu verður að hafna þeirri kröfu sóknaraðila að reikna skuli íslenska dráttarvexti á kröfu hans.
Sóknaraðili krefst þess hins vegar að útlagður kostnaður hans vegna málsins, sem fallið hafi til fyrir 22. apríl 2009, verði viðurkenndur sem forgangskrafa skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Vísar hann í því sambandi til yfirlits yfir þann kostnað sem sóknaraðili hafi haft af lögmannsþjónustu, ásamt meðfylgjandi ljósriti reikninga. Af gögnum þessum verður hins vegar ekkert um það ráðið hvað af þeim lögmannskostnaði sem þar er tilgreindur, og aðeins að hluta virðist hafa fallið til fyrir fyrrgreindan viðmiðunardag slitameðferðarinnar, tengist því máli sem hér er til úrlausnar. Með hliðsjón af því verður þegar af þeirri ástæðu að hafna þessari kröfu sóknaraðila.
Eftir úrslitum málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til þess að mál þetta er eitt af þremur málum milli sömu aðila sem rekin hafa verið samhliða, enda ágreiningsefnið það sama.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Krafa sóknaraðila, Aresbank S.A., að fjárhæð 883.577.094 krónur, er viðurkennd sem forgangskrafa skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila Kaupþings hf.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.