Hæstiréttur íslands

Mál nr. 349/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


           

Miðvikudaginn 4. júlí 2007.

Nr. 349/2007.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson settur saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 3. júlí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengi í máli hans, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 14. ágúst 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                          

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 3. júlí 2007.

Ár 2007, þriðjudaginn 3. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Vestfjarða sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík af Símoni Sigvaldasyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess Héraðsdómur Vestfjarða úrskurði að X [kennitala], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 14. ágúst 2007, kl. 16:00.

                Í greinargerð setts saksóknara kemur fram að með ákæru útgefinni 2. júlí sl. hafi ríkissaksóknari höfðað opinbert mál á hendur X fyrir að hafa framið eftirfarandi hegningarlagabrot gagnvart eiginkonu sinni Y, á heimili þeirra að [...], að kvöldi föstudagsins 8. júní 2007:

  1. Fyrir hótun um líkamsmeiðingar og fyrir að hafa stofnað lífi hennar í augljósan háska, þegar hann, í baðherbergi á efri hæð hússins, undir áhrifum áfengis, ógnaði henni með því að beina að henni hlaupi hlaðinnar haglabyssu.
  2. Fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa skotið að henni úr umræddri haglabyssu þegar hún stóð í forstofu hússins, við útidyr, og var á leið út úr húsinu. Fór skotið gegnum peysu hennar við hægri öxl, auk þess sem hún hlaut tvær rispur í andlit.

Brot kærða samkvæmt 1. tölulið séu talin varða við 233. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot samkvæmt 2. tölulið við 211. gr., sbr. 20. gr. sömu laga, en til vara við 2. mgr. 218. gr. laganna. Geti brotin varðað allt að ævilöngu fangelsi.

Með tilliti til hagsmuna almennings þyki nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir dómstólum, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/ 1991 um meðferð opinberra mála. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 9. júní sl., sbr. úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða í málum R-3/2007 og R-5/2007 og dóm Hæstaréttar Íslands frá 15. júní sl. í máli nr. 321/2007, þar sem almannahagsmunir hafi verið lagðir til grundvallar gæsluvarðhaldi. Í þinghaldi nú í dag var gerð grein fyrir því að geðlæknir myndi ekki skila af sér geðrannsókn á kærða fyrr en 13. til 15. júlí nk. Væri því ekki óhætt annað en að gera kröfu um gæsluvarðhald í sex vikur í stað þess að gera kröfu um gæsluvarðhald í fjórar vikur, svo sem ella hefði verið.

Með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands 15. júní sl. í máli nr. 321/2007 var slegið föstu að grundvöllur væri að því að kærði sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þykja engin þau atriði komin fram sem varði því að frá því verði nú horfið. Ákæra hefur verið gefin út á hendur kærða vegna þeirra brota sem gæsluvarðhald grundvallast á. Í þinghaldi nú í dag í beinu framhaldi af gæsluvarðhaldskröfu þessari verður það mál þingfest og aðalmeðferð málsins ákveðin. Hefur meðferð þessa máls að engu leyti dregist. Má reikna með að héraðsdómari muni ekki láta tafir á geðrannsókn tefja aðalmeðferð málsins. Verður krafa um gæsluvarðhald tekin til greina eins og hún er fram sett, en í ljósi þess að dragast mun um einhverja daga að ljúka geðrannsókn á kærða þykir varlegra að stytta ekki gæsluvarðhaldstíma.

Úrskurðarorð:

Kærði, X [kennitala], sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 14. ágúst 2007, kl. 16:00.