Hæstiréttur íslands
Mál nr. 365/2004
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Matsgerð
- Fyrning
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 19. maí 2005. |
|
Nr. 365/2004. |
Svanur Þór Bjarnason(Karl Axelsson hrl.) gegn Hinriki Jóhannssyni og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Matsgerð. Fyrning. Gjafsókn.
S slasaðist í umferðarslysi 28. desember 1993 þegar bifreið, sem hann sat í, var ekið á steinvegg. Var honum metin 10% varanleg örorka og 15% varanlegur miski vegna slyssins. S smitaðist af lifrarbólgu C við blóðgjöf, sem hann fékk eftir slysið og varð uppvíst um smitið á árinu 2000. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að tímabært hefði verið að meta tjón vegna áverka, sem S varð fyrir í slysinu í síðasta lagi á árinu 1997 og því hafi fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 verið liðinn þegar málið var höfðað 5. september 2003. Tekið var fram að lifrarbólgusýkingin væri þessu óviðkomandi enda hafi ekki verið krafist bóta í málinu vegna hennar. Matsmenn, sem dómkvaddir voru eftir uppkvaðningu héraðsdóms, komust að þeirri niðurstöðu að tímabært hefði verið að meta varanlegar afleiðingar slyssins í lok árs 1996. Þá komust þeir að þeirri niðurstöðu að ólíklegt væri að lifrarbólgusmitið myndi hafa í för með sér varanlegar heilsufarslegar afleiðingar fyrir S með fyrirvara um endurvakningu þess síðar og um sálrænar afleiðingar. Ekki var fallist á það með S að matsgerðin væri haldin ágöllum sem leiða ættu til þess að framhjá henni yrði litið við úrlausn málsins og var niðurstaða héraðsdóms um að krafa S væri fallin niður fyrir fyrningu því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. júní 2004. Stefnan var ekki þingfest og var áfrýjunarstefna gefin út á ný 31. ágúst 2004. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 5.181.507 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum frá 28. desember 1993 til 13. júní 2000, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.
I.
Áfrýjandi slasaðist í umferðarslysi 28. desember 1993 þegar bifreið, sem hann sat í, var ekið á steinvegg við Perluna í Reykjavík. Með matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis 12. ágúst 2003 var áfrýjanda metin 10% varanleg örorka vegna brots á lærlegg, sem hann hlaut í slysinu, og 15% varanlegur miski vegna þess að lærleggurinn hefur styst, vöðvarýrnunar og álagsverkja í hægri ganglim. Í matinu er þess einnig getið að áfrýjandi smitaðist af lifrarbólgu C við blóðgjöf, sem hann fékk eftir slysið, og uppvíst varð um árið 2000. Tekið er fram að til standi að reyna lyfjameðferð við sjúkdómnum og að ekki sé útséð um framvindu hans, en mat vegna lifrarbólgunnar verði gert síðar. Í málinu krefur áfrýjandi stefndu um greiðslu skaðabóta á grundvelli áðurnefnds örorkumats, en stefndu hafna því að bótaskylda þeirra sé fyrir hendi. Málavextir og málsástæður aðilanna eru nánar raktar í héraðsdómi. Varð niðurstaða málsins í héraði sú að tímabært hafi verið að meta tjón áfrýjanda vegna lærbrotsins og annarra áverka í síðasta lagi á árinu 1997 og leita þá fullnustu kröfunnar. Beri að miða upphaf fjögurra ára fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 við það tímamark. Krafa áfrýjanda hafi því verið fallin niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað 5. september 2003. Lifrarbólgusýkingin sé þessu óviðkomandi, enda sé ekki krafist bóta í málinu vegna hennar. Beri því að sýkna stefndu af kröfu áfrýjanda.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf ríkislögmanns 14. október 2002 til lögmanns áfrýjanda í héraði. Þar er tekið fram að áfrýjandi eigi samkvæmt heimild í fjárlögum rétt á greiðslu vegna lifrarbólgusmitsins, sem hann fékk í aðgerð á Borgarspítalanum 28. desember 1993. Greiðslan verði innt af hendi án viðurkenningar á bótaskyldu og sé fjárhæð hennar háð ákveðnum takmörkunum.
II.
Áfrýjandi vefengir að hann hafi átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar á árinu 1997 svo sem héraðsdómari reisir niðurstöðu sína á. Ekki hafi verið ljóst um allar afleiðingar slyssins og rétt áfrýjanda til bóta fyrr en mun síðar og hafi krafan því ekki verið fallin niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað. Örorkumat Jónasar Hallgrímssonar, framburður hans fyrir dómi og önnur gögn, renni stoðum undir þessa málsástæðu áfrýjanda. Gagnstæð niðurstaða héraðsdómara um þetta fái ekki staðist, en dómurinn hafi ekki verið skipaður læknum sem sérfróðum meðdómsmönnum.
Stefndu óskuðu eftir því 19. október 2004 að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að kanna heilsufar og heilsufarssögu áfrýjanda og meta annars vegar hvenær ætla megi, án tillits til lifrarbólgusmitsins, að ástand hans eftir áðurnefnt slys hafi verið orðið stöðugt og fyrst verið tímabært að láta meta varanlegar afleiðingar þess, og hins vegar hvort líklegt sé að lifrarbólgusmitið muni hafa í för með sér varanlegar heilsufarslegar afleiðingar fyrir áfrýjanda og ef svo sé hvenær tímabært verði þá að meta þær afleiðingar. Voru læknarnir Guðjón Baldursson og Atli Þór Ólason dómkvaddir 5. nóvember 2004 til að gera umbeðið mat og hefur matsgerð þeirra 16. janúar 2005 verið lögð fyrir Hæstarétt. Þar segir meðal annars að áfrýjandi hafi ekki komið á boðaðan matsfund og sé því vísað í fyrirliggjandi gögn um læknisskoðun og einkenni hans. Gerð er grein fyrir örorkumati og öðrum læknisfræðilegum gögnum í málinu, en meðal þeirra er vottorð um skoðun Brynjólfs Jónssonar læknis á áfrýjanda 19. júní 2003, sem sögð er vera síðasta læknisskoðunin á honum. Í niðurstöðum matsgerðarinnar segir meðal annars að áfrýjandi hafi um miðjan maí 1994 hafið vinnu á ný eftir slysið og unnið nokkuð samfellt síðan. Verði ekki ráðið að neinar stórvægilegar breytingar hafi orðið á heilsu hans eftir maí 1995. Í byrjun árs 1997 hafi komið í ljós að hægri fótur áfrýjanda hafi reynst vera 0,7 cm styttri en sá vinstri. Slíkur mismunur sé óverulegur og valdi misjöfn lengd ganglima, sem nemi minna en einum sentimetra, sjaldan teljandi líkamlegum einkennum. Þetta hafi ekki haft áhrif á hvenær tímabært var að leggja mat á varanlegar afleiðingar umferðarslyssins. Var svar matsmannanna við fyrri spurningunni, sem fyrir þá var lögð, á þann veg að heilsufarslegt ástand áfrýjanda eftir slysið án tillits til lifrarbólgusmitsins hafi verið orðið stöðugt um mitt ár 1995. Þá hafi fyrst verið tímabært að láta meta varanlegar afleiðingar slyssins og í síðasta lagi í lok ársins 1996 þegar þrjú ár voru liðin frá því. Að því er varðar lifrarbólgusmitið geta matsmennirnir þess að gögn málsins gefi ekki tilefni til að ætla að lifrarbólgan hafi verið virk heldur miklu frekar afar væg. Um sé að ræða veirustofn, sem svari betur lyfjameðferð en aðrir stofnar lifrarbólgu. Áfrýjandi hafi gengist undir lyfjameðferð til að freista þess að uppræta sýkinguna og verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að hún hafi gengið vel. Til svars síðari spurningunni töldu matsmennirnir ólíklegt að lifrarbólgusmitið muni hafa í för með sér varanlegar heilsufarslegar afleiðingar fyrir áfrýjanda með fyrirvara um endurvakningu smitsins síðar og um sálrænar afleiðingar. Eftir að áfrýjandi fór í eftirlit í september 2004 hafi verið tímabært að meta afleiðingar lifrarbólgusmitsins.
III.
Áfrýjandi telur matsgerðina vera haldna ágalla, sem eigi að leiða til þess að litið verði framhjá henni við úrlausn um það hvenær tímabært var að meta varanlegar afleiðingar slyssins. Þar skipti mestu máli að matsmennirnir skoðuðu ekki áfrýjanda, en svör við þeim spurningum, sem lagðar voru fyrir þá, hljóti einkum að verða reist á skoðun þeirra á manninum, sem álitaefnið varðar. Því hafi ekki þjónað tilgangi hjá þeim að skila fullbúnu mati án þess að slíku grundvallarskilyrði væri fullnægt.
Í kafla í matsgerðinni, sem fjallar um málsmeðferð, segir að matsfundur hafi verið haldinn 9. desember 2004. Til fundarins hafi verið boðað með tölvubréfi 13. nóvember sama árs. Staðfesting um móttöku bréfsins hafi borist tveimur dögum síðar frá lögmönnum málsaðila. Hins vegar hafi einungis lögmaður stefndu mætt til fundarins, en hvorki áfrýjandi né lögmaður hans. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti skýrði lögmaður áfrýjanda frá því að farist hafi fyrir að tilkynna um forföll, en áfrýjandi hafi verið veikur þann dag, sem fundurinn var haldinn. Af hálfu stefndu er talið ósannað að áfrýjandi hafi haft lögmæt forföll og jafnframt að skýring um veikindi hafi ekki áður komið fram. Hefur ekki verið mótmælt staðhæfingu þeirra um að áfrýjandi hafi ekki leitað eftir því við matsmenn að fá að koma síðar til skoðunar hjá þeim.
Áfrýjanda var veitt færi á að gæta hagsmuna sinna og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við matsmenn. Úrlausnarefnið samkvæmt fyrri spurningunni til þeirra lýtur að því hvernig líkamlegt ástand áfrýjanda batnaði frá slysdegi þar til það var orðið stöðugt, en ekki er borið við að öll tiltæk gögn hafi ekki legið fyrir matsmönnunum. Ályktun um þetta hlutu þeir einkum að draga af heimildum um ástand áfrýjanda allt frá árinu 1993 og verður fallist á með stefndu að skoðun á áfrýjanda nú skipti ekki sköpum. Matinu hefur ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð. Að virtu öllu því, sem að framan greinir, verður því hafnað að ágallar séu á matsgerðinni, sem dragi úr sönnunargildi hennar í málinu. Í II. kafla að framan var getið þeirrar niðurstöðu matsmannanna að tímabært hafi verið í síðasta lagi í árslok 1996 að láta meta varanlegar afleiðingar slyssins. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Svans Þórs Bjarnasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars sl., er höfðað 5. september 2003 af Svani Þór Bjarnasyni, [kt.], Efstasundi 76, á hendur Hinriki Jóhannssyni, [kt.], Hjallavegi 6, og Vátryggingafélagi Íslands hf., [kt.], Ármúla 3, öllum í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu greiði honum in solidum 5.754.463 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 28. desember 1993 til 13. júní 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu greiði honum in solidum 5.181.507 krónur með vöxtum eins og í aðalkröfu. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn 10. mars 2003.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að skaðlausu. Til vara er þess krafist að dómkröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn falla niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi var farþegi í bifreiðinni R-73543 þegar henni var ekið á steinvegg nálægt Perlunni í Öskjuhlíð 28. desember 1993, en við það valt bifreiðin og skemmdist mikið. Ökumaður bifreiðarinnar hafði ekið eftir hellulögðum göngustíg, sem liggur umhverfis Perluna, en hann var undir áhrifum áfengis. Stefnandi kastaðist út úr bifreiðinni, en hann hafði setið í hægra framsæti og lá hann fyrir utan bifreiðina hægra megin mikið slasaður þegar lögreglan kom á staðinn. Hann var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabifreið og kom þá í ljós að hægri lærleggur hafði brotnað og brot var í mjaðmagrind. Lærbrotið var meðhöndlað með plötu og skrúfum, sem voru fjarlægðar síðar, og vöðvar og sár voru eftir því sem unnt var saumuð saman en vegna mikillar bólgu var ekki unnt að loka sárinu.
Í læknisvottorði 28. mars 1994 kemur fram að stefnandi var á sjúkrahúsinu til 13. janúar 1994. Í sama vottorði segir einnig að röntgenmyndir hafi sýnt mjög kurlað brot ofan til í lærleggnum og langt niður fyrir miðju. Gífurleg bólga og blæðing hafi verið í lærinu. Áverkinn sé alvarlegur er taki marga mánuði að gróa, en ekki sé útlit fyrir að stefnandi nái sér að öllu leyti. Hins vegar megi búast við að á sex til átta mánuðum verði hann nokkurn veginn göngufær.
Í sjúkraskrá er lækniseftirliti með stefnanda lýst. Þar kemur meðal annars fram að 23. mars 1994 hafi honum liðið vel og að hann hafi engin eymsl haft. Hinn 20. apríl sama ár hafi hann ekkert fundið til og rannsóknir bentu til að brotið greri vel. Hann hafi nær engin óþægindi haft 25. maí sama ár en væga helti. Góð hreyfing var þá í hné og mjöðm. Í september var allt vel gróið og var ráðgert að taka plötuna. Hún var þó ekki tekin fyrr en í apríl 1995. Síðast var stefnandi í eftirliti 31. maí sama ár, en þá var góð lega í beininu og styrkur virtist í góðu lagi.
Á árinu 2000 kom í ljós að blóð, sem stefnanda var gefið á sjúkrahúsinu í kjölfar slyssins, var sýkt af C lifrarbólguveiru. Stefnandi hefur haft lítil einkenni vegna þessa, en fylgst er með honum og væntanlega verður sýkingin meðhöndluð með lyfjum. Örorka stefnanda hefur ekki verið metin vegna lifrarbólgusýkingarinnar og eru ekki gerðar kröfur í málinu vegna hennar.
Stefnandi leitaði til Jónasar Hallgrímssonar læknis og óskaði eftir mati á afleiðingum slyssins samkvæmt skaðabótalögum með beiðni lögmanns stefnanda 26. júní 2003. Bótakröfur stefnanda í málinu eru byggðar á matinu, en það er dagsett 12. ágúst sama ár.
Af hálfu stefndu er bótaskyldu hafnað. Stefndu vísa til þess að kröfur stefnanda séu fyrndar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins tveimur árum eftir að stefnandi varð fyrir því, eða í árslok 1996. Frestur til að höfða málið hafi því runnið út í árslok 2000. Enn fremur vísa stefndu til þess að stefndi hafi vitað að ökumaður bifreiðarinnar var verulega ölvaður, en samkvæmt þágildandi réttarreglum um áhættutöku og eigin sök eigi hann engan rétt til bóta. Til vara krefjast stefndu lækkunar á bótakröfu stefnanda með vísan til sömu sjónarmiða um eigin sök og áhættutöku.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýstir málsatvikum þannig að stefnandi hafi lent í bílslysi 28. desember 1993 með þeim afleiðingum að hann hafi slasast alvarlega. Stefnandi hafi ekið bifreiðinni umrætt kvöld, en í henni hafi verið fjórir farþegar, þar á meðal Gunnar Hjálmarsson. Allir farþegarnir hefðu neytt áfengis. Klukkan rúmlega tvö aðfaranótt slysdags hafi stefnandi stöðvað bifreiðina við Perluna og farið út þar sem hann hafi fundið fyrir skjálfta í stýrinu sem hann hafi ætlað að athuga nánar. Þegar hann hafi ætlað að setjast upp í bifreiðina að nýju hefði Gunnar sest í ökumannssætið og ræst bifreiðina. Hann hafi sagt stefnanda að setjast í farþegasætið og hafi hann gert það án þess að loka hurðinni. Stefnandi hafi reynt að fá Gunnar til þess að víkja úr ökumannssætinu og hafi hann ætlað að aka bifreiðinni sjálfur, enda mótfallinn því að Gunnar æki ölvaður. Stefnandi hafi ítrekað það en Gunnar hafi ekki látið segjast og hafi hann ekið bifreiðinni af stað. Stefnandi hafi ekki náð að loka hurðinni og ekki hafi honum tekist að fá Gunnar til að nema staðar frekar en öðrum farþegum bifreiðarinnar. Gunnar hafi ekið bifreiðinni einn hring í kringum Perluna og hafi verið byrjaður á öðrum hring þegar hann hafi ekið þar á steypt hús við Perluna. Rétt fyrir áreksturinn hafi stefnanda tekist að spenna á sig öryggisbeltið án þess að hann næði að stilla það. Bifreiðin hafi gereyðilagst við áreksturinn og hafi stefnandi slasast allverulega. Hann hafi verið fluttur á slysadeild og hafi hann verið með mjög slæmt lærbrot og einnig hafi hann verið mjaðmagrindarbrotinn. Mikið hafi blætt úr stefnanda og hafi hann fengið blóðgjöf, en við hana hafi hann smitast af lifarbólgu C. Lögreglan segðist hafa haft lýsingu á atburðinum eftir stefnanda á slysadeild, en þá hefði stefnandi þegar fengið allnokkurt magn af morfíni og hann hafi skömmu síðar hætt að anda. Ekki hafi verið tekin formleg skýrsla af stefnanda vegna málsins fyrr en löngu síðar. Gunnar hafi verið ákærður fyrir ölvunarakstur, en í ljós hafi komið að hann hafi haft 1,61 áfengismagn í blóðinu. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 1994 hafi hann verið dæmdur til greiðslu sektar og til að þola sviptingu ökuréttar í 18 mánuði.
Eigandi bifreiðarinnar hafi verið stefndi Hinrik, en bifreiðin hafi verið tryggð með lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Þáverandi lögmaður stefnanda hafi leitað eftir afstöðu vátryggingafélagsins til bótaskyldu á árinu 2000. Með tölvubréfi 13. júní 2000 hafi félagið svarað erindi lögmannsins og hafnað bótaskyldu með vísan til þess að ökumaður hefði verið ölvaður, en stefnandi hafi vitað af því og ætti því ekki rétt á bótum. Núverandi lögmaður stefnanda hafi aftur sent bréf til hins stefnda félags 1. nóvember 2002 og óskað eftir því við félagið að hvor aðili um sig tilnefndi einn aðila til að leggja mat á afleiðingar slyssins. Með tölvubréfi 6. nóvember sama ár hafi því verið hafnað á ný að félagið væri bótaskylt vegna slyssins þar sem ökumaður hefði verið ölvaður og enn fremur hafi félagið talið að málið væri fyrnt. Félagið tæki ekki þátt í að láta lækna framkvæma mat vegna afleiðinga slyssins.
Stefnandi hafi sjálfur aflað örorkumats hjá Jónasi Hallgrímssyni lækni með beiðni 26. júní 2003. Niðurstöður Jónasar komi fram í matsgerð 12. ágúst 2003, en þær hafi verið að stefnandi hefði orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni frá slysdegi til 15. maí 1994. Þjáningatímabil hafi verið metið hið sama. Varanlegur miski hafi verið metinn 15% og varanleg örorka 10%.
Stefnandi byggi kröfur sínar um skaðabætur á 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 90. gr. sömu laga, en af þeim leiði að eigandi vélknúins ökutækis skuli bæta það tjón sem hljótist af notkun þess. Tjón stefnanda verði augljóslega rakið til slyssins, sem hlotist hafi af notkun ökutækis stefnda Hinriks, og því beri hann ábyrgð á tjóninu. Kröfur stefnanda á hendur hinu stefnda vátryggingafélagi byggi á 95. gr. umferðarlaga, en stefndi Hinrik hafi tekið lögboðna ábyrgðartryggingu vegna ökutækisins hjá félaginu.
Stefnandi mótmæli því að krafa hans sé fyrnd. Stefnandi hafi ekki enn fulla vitneskju um kröfu sína og hafi því ekki enn getað leitað fullnustu hennar, en hann hafi smitast af lifrarbólgu C í slysinu sem leiði til aukinnar örorku. Samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar sé ekki enn unnt að meta afleiðingar smitsins til örorku. Því sé sannanlega ekki enn ljóst hver endanleg örorka stefnanda vegna slyssins verði. Stefnandi hafi þó getað leitað fullnustu hluta krafna sinna þegar matsgerðin lá fyrir í ágúst 2003, enda sé hún forsenda tölulegrar kröfugerðar í málinu. Enn fremur sé ljóst að eftir dóm Hæstaréttar 25. október 2001 sé afstaða dómstóla önnur en áður um bótarétt þeirra sem slasist í bifreið sem stýrt sé af ölvuðum ökumanni. Stefnandi hafi hvorki haft vitneskju um né hafi hann getað leitað fullnustu kröfu sinnar fyrr en dómur í því máli lá fyrir, enda hafi dómurinn vikið frá áratuga dómvenju, og sett nýtt fordæmi sem sé bindandi í málum sem dæmd verði eftir að dómurinn var kveðinn upp. Dómurinn hafi fallið 25. október 2001 og hafi fjögurra ára fyrning því ekki tekið að líða fyrr en í byrjun árs 2002, verði ekki fallist á síðari tímamörk.
Af hálfu stefndu hafi því jafnframt verið haldið fram að fella beri niður bótarétt vegna þess að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið ölvaður. Stefndu hafi vísað til 7. mgr. 45. gr. umferðarlaga sem og til þess að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi en því mótmæli stefnandi. Útilokað sé að líta svo á að stefnandi hafi falið Gunnari stjórn ökutækis. Hvorki hafi falist í háttsemi stefnanda áhættutaka né gáleysi, hvað þá stórkostlegt gáleysi svo sem áskilið sé í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Ljóst sé að eftir framangreindan dóm Hæstaréttar komi ekki til álita að fella niður bætur að fullu á grundvelli áhættutöku. Meta verði hugsanlega meðábyrgð tjónþola í hverju tilviki fyrir sig þegar þeir slasist í bifreið sem ölvaður ökumaður stýri. Í tilviki stefnanda liggi ekkert fyrir um að hann hafi sýnt af sér háttsemi sem skerða eigi bætur til hans.
Stefnandi hafi verið ökumaður bifreiðarinnar skömmu áður en Gunnar tók yfir aksturinn þvert gegn vilja stefnanda og hafi hann haft í frammi mjög ógnvekjandi framkomu gagnvart stefnanda. Stefnandi hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að hindra að Gunnar tæki yfir aksturinn. Gunnar hafi ekið bifreiðinni af stað án þess að stefnanda tækist að komast úr henni. Samkvæmt þessu séu engin efni til að líta svo á að tjón stefnanda megi rekja að einhverju leyti til eigin sakar hans. Þvert á móti hafi hann gert það sem til hafi mátt ætlast af honum við þessar aðstæður. Stefnandi hafi verið í mjög alvarlegu ástandi á slysadeild er lögreglan átti samtal við hann eftir slysið og í engu fær um að svara spurningum um atburðinn. Samtalið hafi því enga þýðingu í málinu. Stefnandi hafi í fyrsta sinn gefið skýrslu fyrir lögreglu vegna atburðarins í janúar 2003. Af sama tilefni hafi önnur vitni verið boðuð í skýrslutöku en þau hafi í meginatriðum staðfest framburð stefnanda um að akstur Gunnars hafi verið gegn vilja stefnanda og annarra farþega í bifreiðinni.
Tölulegar kröfur stefnanda séu reistar á skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau hafi verið á slysdegi, þ.e. fyrir breytingar með lögum nr. 42/1996 og 37/1999. Fjárhæðir bóta taki mið af breytingum á lánskjaravísitölu, sem orðið hafi frá gildistöku skaðabótalaga til stefnudags (4468/3282), sbr. 15. gr. laganna. Krafist sé 2% vaxta af skaðabótum stefnanda frá slysdegi, 28. desember 1993, sbr. 16. gr. skaðabótalaga, og dráttarvaxta frá 13. júní 2000, en þá hafi hið stefnda vátryggingafélag hafnað bótaskyldu í málinu.
Stefnandi geri kröfu um annað fjártjón á grundvelli 1. gr. skaðabótalaga eins og þau voru á slysdegi. Alls sé krafan 800.000 krónur. Hér sé um matskennda kröfu að ræða sem miðist m.a. við námstafir stefnanda, sem rekja megi til slyssins, sem og þann mikla kostnað sem leitt hafi af því skömmu eftir tjónið.
Stefnandi geri kröfu um tímabundið atvinnutjón á grundvelli 2. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar hafi tímabundið atvinnutjón stefnanda verið tímabilið 28. desember 1993 til 15. maí 1994, eða í alls 142 daga. Stefnandi hafi verið í námi er slysið átti sér stað. Hins vegar hafi hann hvorki getað sinnt námi né unnið heimilisstörf í 142 daga eftir slysið. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skuli verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr. skaðabótalaga. Sé því ljóst að stefnandi eigi rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón. Byggt sé á meðaltekjum iðnaðarmanna sem hafi verið 1.542.900 krónur á slysdegi. Að teknu tilliti til lánskjaravísitölubreytinga frá slysdegi (3347/4468) verði tekjuviðmið 2.059.659 krónur. Að viðbættu 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð verði tekjuviðmið 2.183.238 krónur. Krafa um tímabundið atvinnutjón sé því fyrir 142 daga 849.369 krónur (2.183.238 x 142/365).
Stefnandi krefjist þjáningabóta á grundvelli 3. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar hafi stefnandi verið veikur í skilningi skaðabótalaga tímabilið 28. desember til 15. maí 1994, eða í alls 142 daga, en þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi í 17 daga. Stefnandi eigi rétt á bótum að fjárhæð 1.770 krónur fyrir hvern dag sem hann hafi verið rúmliggjandi, eða alls 30.090 krónur (17 x 1.770). Þá eigi stefnandi rétt á 950 krónum fyrir hvern dag sem hann hafi verið veikur án þess að vera rúmliggjandi, eða alls 118.750 krónur (125 x 950). Krafa stefnanda um þjáningabætur sé samkvæmt þessu 148.840 krónur (30.090 + 118.750).
Stefnandi geri kröfu um bætur vegna varanlegs miska á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, en samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar hafi stefnandi hlotið 15% varanlegan miska við umferðarslysið. Bætur fyrir 100% varanlegan miska hafi verið 5.445.500 krónur (3282/4468) þegar málið var höfðað. Alls sé því krafa vegna varanlegs miska 818.825 krónur.
Stefnandi krefjist bóta vegna varanlegrar örorku á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga. Tekjur stefnanda árin fyrir slys hafi verið afar sveiflukenndar og sé því ekki unnt að styðjast við meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið hafi verið á slysdegi. Byggt sé á 2. mgr. sömu lagagreinar sem kveði á um þá skyldu að meta sérstaklega árstekjur þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Ljóst sé að bæði skilyrði 2. mgr. 7. gr. séu uppfyllt hvað varðar stefnanda, en tekjur hans slysárið hafi verið óvenjulágar miðað við bæði árin á undan og eftir slysið. Krafa stefnanda miði við meðaltekjur iðnaðarmanna og vísist til dómvenju um það viðmið. Meðaltekjur iðnaðarmanna hafi á slysdegi verið 1.542.900 krónur. Að teknu tilliti til lánskjaravísitölubreytinga frá slysdegi (3347/4468) verði tekjuviðmið 2.059.659 krónur. Að viðbættu 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð verði tekjuviðmið 2.183.238 krónur. Stuðull samkvæmt 6. gr. laganna hafi á slysdegi verið 7,5. Jónas Hallgrímsson hafi metið varanlega örorku vegna slyssins 10%. Á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga sé krafa stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku samkvæmt framansögðu alls 1.637.429 krónur (2.183.238 x 7,5 x 10%). Varakrafa stefnanda styðjist hins vegar við að beitt verði 8. gr. skaðabótalaga við ákvörðun á tjóni stefnanda vegna varanlegrar örorku. Aðrir liðir aðalkröfunnar séu óbreyttir í varakröfunni.
Stefnandi krefjist miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, en í hátterni ökumanns hafi falist mjög vítavert og stórkostlegt gáleysi. Háttsemi hans falli undir lagagreinina, eins og hún hafi verið á slysdegi, en Gunnar hafi ekið bifreið stefnda Hinriks ölvaður á miklum hraða og óvarlega. Þannig hafi hann sýnt af sér algert skeytingarleysi um afleiðingar háttsemi sinnar. Einnig verði að líta til þess að stefnandi hafi smitast við blóðgjöf eftir slysið af lifrarbólgu C og sé ekki óeðlilegt að taka tillit til þess við bætur samkvæmt þessum þætti þar sem afleiðingarnar væru geysimiklar. Stefnandi geri alls kröfu um greiðslu að fjárhæð 1.500.000 krónur á grundvelli lagagreinarinnar. Krafan sé matskennd en að nokkru sé höfð hliðsjón af dómaframkvæmd um bætur samkvæmt lagaákvæðinu.
Dómkröfur stefnanda sundurliðist samkvæmt framansögðu þannig:
|
1. Annað fjártjón |
800.000 krónur |
|
2. Tímabundið atvinnutjón |
849.369 “ |
|
3. Þjáningabætur |
148.840 “ |
|
4. Varanlegur miski |
818.825 krónur |
|
5. Varanleg örorka |
1.637.429 “ |
|
6. Miskabætur samkvæmt 26. gr. skbl. |
1.500.000 “ |
|
Samtals |
5.754.463 krónur |
Ábyrgð stefnda Hinriks byggðist á 90., sbr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en krafan á hendur stefnda Vátryggingafélags Íslands sé byggð á því að bifreið stefnda Hinriks hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu samkvæmt 91. gr. umferðalaga nr. 50/1987 og sé félagið greiðsluskylt gagnvart stefnanda samkvæmt 95. gr. laganna. Stefnda Hinriki sé stefnt ásamt vátryggingafélaginu samkvæmt beinum lagafyrirmælum 1. mgr. 97. gr. sömu laga. Kröfuna um óskipta ábyrgð stefndu styðji stefnandi við almennar reglur kröfuréttarins.
Málsástæður og lagarök stefndu
Málsatvikum er lýst þannig af hálfu stefndu að stefnandi hafi lent í umferðarslysi 28. desember 1993, milli klukkan tvö og þrjú um nóttina. Aðdragandi slyssins hafi verið sá að bifreiðinni, sem stefnandi hafi verið farþegi í ásamt öðrum, hafi verið ekið til vesturs, eftir hellulögðum göngustíg sem umlyki Perluna í Öskjuhlíð. Ökumaður bifreiðarinnar hafi misst vald á henni með þeim afleiðingum að bifreiðin hafi hafnað á vörulyftuhúsi norðan við húsið. Stefnandi hafi hlotið kurlað brot á hægri lærlegg og hafi hann strax verið fluttur á sjúkrahús. Lögreglan hafi tekið skýrslu af öllum sem voru í bifreiðinni á sjúkrahúsinu. Við skýrslutökuna hafi stefnandi sagst vera ódrukkinn og ekki hafi verið að finna af honum áfengislykt né hafi verið sjáanleg á honum ölvunareinkenni. Í skýrslunni komi og fram að frásögn stefnanda hafi verið skýr og greinargóð. Samkvæmt frásögn hans hefði Gunnar ekið bifreiðinni í umrætt sinn, en stefnandi hafi verið ökumaður bifreiðarinnar fyrr um kvöldið er Gunnar hafi skipað honum að stöðva bifreiðina á mótum Bústaðavegar og vegar að Perlunni. Gunnar hafi síðan sagt stefnanda að setjast í farþegasæti bifreiðarinnar hægra megin og síðan hafi Gunnar sest undir stýri bifreiðarinnar. Stefnandi kvað Gunnar og aðra í bifreiðinni hafa verið ölvaða en mismikið þó. Gunnar hafi síðan ekið bifreiðinni af stað í átt að Perlunni með fyrrgreindum afleiðingum. Skýrslur hafi verið teknar af öðrum farþegum og ökumanni bifreiðarinnar um nóttina og hafi þær staðfest frásögn stefnanda af slysinu og aðdraganda þess.
Stefnandi hafi leitað eftir afstöðu hins stefnda félags til bótaskyldu 24. maí 2000. Stefndi hafi svarað bréfinu 13. júní sama ár og bent á ákvæði 7. mgr. 45. gr. umferðarlaga er segi að ekki megi fela ölvuðum manni stjórn ökutækis. Stefnandi hafi fyrirgert bótarétti vegna stórkostlegs gáleysis. Löng dómvenja sé fyrir því að það teljist stórkostlegt gáleysi að taka sér far með ölvuðum ökumanni. Stefndi hafi ítrekaði afstöðu sína með tölvupósti 6. nóvember 2002. Stefnandi hafi höfðað mál á hendur stefnda til greiðslu skaðabóta vegna slyssins 5. september 2003.
Stefndu krefjist sýknu á grundvelli áhættutöku stefnanda og stórkostlegs gáleysis. Málsaðilar deili um það hvort stefnandi hafi með því að taka sér far með ölvuðum ökumanni fyrirgert rétti sínum til bóta úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar er hann var farþegi í. Stefnandi telji svo ekki vera en stefndu telja að hann hafi fyrirgert bótarétti sínum á grundvelli áhættutöku og stórkostlegs gáleysis, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndu vísi til dómaframkvæmdar Hæstaréttar eftir reglum skaðabótaréttar um áhættutöku þegar hinn slasaði vissi eða mátti vita um ölvun ökumanns og orsakasamband væri á milli hennar og slyssins. Eftir þeirri reglu skaðabótaréttarins hafi stefnandi fyrirgert bótarétti. Stefndu vísi til þess að réttaráhrif dóms Hæstaréttar frá 25. október 2001 gæti ekki hér enda hafi sá dómur varðað umferðarslys, sem hafi átt sér stað 1. nóvember 1997, eða tæpum 4 árum eftir slysið sem hér sé til umfjöllunar. Réttaráhrif Hæstaréttardómsins geti ekki verið afturvirk og hafi dómurinn því ekkert fordæmisgildi í þessu máli. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um að Gunnar hafi verið verulega undir áfengisáhrifum. Stefnandi hafi því sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er hann hafi falið honum stjórn bifreiðarinnar og settist sjálfur í hægra framsætið. Samkvæmt því beri að fella niður bótarétt stefnanda fyrir líkamstjón er hann hlaut í umferðarslysinu, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Þessi háttsemi stefnanda hafi verið sérlega gálaus og beri því að fella niður bætur til hans en ekki sé ástæða til að lækka bætur, eins og heimilt sé í lagaákvæðinu, enda sé þetta tilvik mun grófara en t.d. þegar farþegi taki sér far með ölvuðum ökumanni, sem hann hafi ekki verið samvistum við um kvöldið eða nóttina. Sú hegðun stefnanda að fela Gunnari stjórn bifreiðarinnar, sem hann hafi vel vitað að var verulega ölvaður, hafi verið sérlega gálaus og beri því að fella bæturnar niður að öllu leyti. Með þessu athæfi hafi hann jafnframt brotið gegn 7. mgr. 45. umferðalaga.
Framburði stefnanda hjá lögreglu 6. janúar 2003 sé mótmælt sem ótrúverðugum, enda sé hann í ósamræmi við upphaflega lögregluskýrslu í málinu. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að koma þessum upplýsingum á framfæri strax eftir slysið, enda hafi hann verið allsgáður og skýrsla hans þá skýr og skilmerkileg. Stefnandi hafi ekki gefið neina skýringu á því hvers vegna hann beið með þessar “viðbótarupplýsingar” í rúm níu ár. Í upphafi skýrslutöku stefnanda komi fram að hann hafi mætt á skrifstofu lögreglunnar vegna þess að hann hygðist sækja bætur til tryggingafélags vegna slyssins. Viðbótarframburður stefnanda sé auk þess í verulegu ósamræmi við viðbótarframburð annarra farþega í bílnum. Ekkert styðji þá frásögn stefnanda að Gunnar hafi haft í frammi mjög ógnvekjandi framkomu gagnvart honum og að stefnandi hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að hindra að Gunnar tæki yfir akstur bifreiðarinnar. Einnig sé mótmælt fullyrðingum stefnanda sem röngum og órökstuddum um að hann hafi ekki verið í neinu ástandi til að svara spurningum um atburðinn á spítalanum sökum morfíns. Í lögregluskýrslunni komi fram að frásögn hans hafi verið skýr og greinargóð og í samræmi við frásögn hinna sem voru í bílnum.
Aðalkrafa stefndu um sýknu sé einnig byggð á því að allar kröfur stefnanda á hendur þeim séu fyrndar samkvæmt fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Umrætt slys hafi orðið 28. desember 1993, en stefna hafi ekki verið birt fyrr en 5. september 2003, eða rétt tæpum tíu árum síðar. Ljóst sé af fyrirliggjandi læknagögnum um meðferð og bata vegna áverka á hægri lærlegg svo og eðli áverkans að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins í síðasta lagi tveimur árum eftir slysið. Brotið hafi gróið hratt og vel og stefnandi hafi samkvæmt örorkumatinu verið orðinn vinnufær 15. maí 1994, en þá hafi ekki verið að vænta frekari bata þar sem ástand stefnanda hafi verið orðið stöðugt. Engin breyting hafi orðið á ástandi stefnanda eftir að tvö ár voru liðin frá slysinu. Stefnandi hafi því getað látið meta örorku sína af völdum slyssins, reiknað tjón sitt og leitað fullnustu kröfunnar í lok ársins 1995, enda hafi ekkert hindrað hann í því. Fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga hafi því í síðasta lagi hafist við árslok 1996 og hafi hann runnið út í árslok 2000. Ekkert hafi hindrað stefnanda í að leita fullnustu kröfu sinnar áður en fjögurra ára fyrningarfresturinn rann út.
Stefndu mótmæli fullyrðingu stefnanda um að hann hafi ekki enn fulla vitneskju um kröfu sína og hafi ekki enn getað leitað fullnustu hennar þar sem hann hafi smitast á sjúkrahúsinu eftir slysið af lifrarbólgu C sem leiði til aukinnar örorku hans. Stefndu beri ekki ábyrgð á þessu smiti en smitið sé ekki sennileg afleiðing þess að lenda í umferðarslysi. Íslenska ríkið muni auk þess greiða stefnanda bætur vegna smitsins. Ekkert hafi staðið í vegi fyrir því að stefnandi gæti fyrr leitað fullnustu kröfu sinnar vegna áverka á lærleggnum sem hann hlaut í umferðarslysinu. Matsgerðin sem kröfugerð stefnanda byggðist á taki einungis á þeim áverkum er stefnandi hafi hlotið í umferðarslysinu og miðist bótakrafa stefnanda eingöngu við þá.
Af málatilbúnaði stefnanda megi ráða að hann hafi ekki talið sig eiga bótakröfu á hendur stefndu vegna slyssins fyrr en dómur Hæstaréttar 25. október 2001 lá fyrir. Stefndu telji fráleitt að halda því fram að fjögurra ára fyrning hafi ekki tekið að líða fyrr en í ársbyrjun 2002, enda hafi ekkert staðið í vegi fyrir því að stefnandi gæti fyrr leitað fullnustu kröfu sinnar vegna áverkanna er hann hlaut í umferðarslysinu. Dómur Hæstaréttar hafi heldur ekkert fordæmisgildi varðandi umferðarslys er átt hafi sér stað fyrir 1. nóvember 1997.
Verði ekki á sýknukröfu stefndu fallist er þess krafist að sök verði skipt í málinu og að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Framangreind rök um áhættutöku og stórkostlegt gáleysi stefnanda eigi einnig við um varakröfu stefndu.
Stefndu fallist ekki á að beita eigi 5.-7. gr. skaðabótalaga við útreikning á örorkubótum stefnanda, en bætur fyrir varanlega örorku hans beri að ákveða eftir 8. gr. þágildandi skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi aðeins verið 19 ára nemandi í fjölbrautaskóla þegar slysið varð. Ekki liggi annað fyrir en að hann hafi stundaði námið með eðlilegum hætti er hann lenti í slysinu og að hann hafi varið meira en helmingi af starfstíma sínum til námsins, þó að hann aflaði tekna í leyfum og sumarfríum. Örorkubætur til stefnanda eigi því að ákveða samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga á grundvelli miskastigs, en í athugasemdum við greinina í frumvarpi til skaðabótalaga sé skýrt tekið fram að reglum 8. gr. skuli beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi. Stefndu vísi einnig í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar sem hafi verið í samræmi við þessar skýringar lagafrumvarpsins. Engin skilyrði samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna um óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi. Engar forsendur séu til að leggja til grundvallar meðaltekjur iðnaðarmanna þar sem stefnandi hafi ekki verið iðnaðarmaður á slysdegi og hafi hvorki starfað sem slíkur fyrir né eftir slysið.
Tímabundið atvinnutjón stefnanda sé algerlega ósannað en hann beri sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir því tjóni. Stefnandi hafi á engan hátt sýnt fram á eða reynt að sýna fram á raunverulegt tekjutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga. Í matsgerðinni sé ekki lagt sérstakt mat á hvort og þá að hvað miklu leyti stefnandi hafi verið óvinnufær til heimilisstarfa eða til að stunda námið. Vísað sé til fyrri umfjöllunar um hve ótækt sé að leggja til grundvallar meðaltekjur iðnaðarmanna sem tekjuviðmiðun.
Kröfu stefnandi um bætur fyrir annað fjártjón að fjárhæð 800.000 króna sé mótmælt en stefnandi hafi hætt námi eftir slysið og því sé ekki hægt að fara fram á bætur vegna tafa í námi, sem hann hafi aldrei lokið. Ekki sé heldur hægt að fara fram á bætur fyrir útlagðan kostnað sem hægt væri að leggja fram reikninga fyrir. Fjárhæð kröfunnar sé einnig mótmælt sérstaklega sem allt of hárri, enda sé hún með öllu órökstudd.
Kröfu stefnanda um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga sé mótmælt. Þó fallist sé á að hátterni Gunnars hafi verið vítavert og teljist til stórkostlegs gáleysis hafi stefnandi sjálfur komið sér í þessa aðstöðu með því að fela Gunnari stjórn bifreiðarinnar og setjast svo í farþegasætið við hliðina á honum. Sé hegðun hans enn ámælisverðari en Gunnars í ljósi þess að hann hefði getað afstýrt þessu tjóni með því að koma í veg fyrir að Gunnar tæki við stjórn ökutækisins. Enginn grundvöllur sé því fyrir því að ákvarða stefnanda bætur samkvæmt þessu ákvæði. Þá sé fjárhæðinni mótmælt sérstaklega sem allt of hárri, en hún sé ekki í neinum takti við dóma sem hafi gengið um þessa lagagrein. Loks sé áréttað að stefndu beri enga ábyrgð á því að stefnandi smitaðist af lifrabólgu C á spítalanum og sé því fráleitt hægt að hafa hliðsjón af því við ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt framangreindri lagagrein.
Vaxtakröfu stefnanda sé mótmælt, en eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, sbr. og t.d. H. 1996:765. Dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi.
Niðurstaða
Stefnandi hefur vísað til þess að hann hafi ekki vitað um kröfuna, sem hann hefur uppi í málinu á hendur stefndu, fyrr en að gengnum dómi Hæstaréttar 25. október 2001 svo og að afleiðingar slyssins hafi ekki enn komið fram vegna lifrarbólgusýkingarinnar og því hafi ekki verið tímabært að meta tjónið. Afleiðingar lærbrotsins hafi ekki komið fram fyrr en síðar og því hafi ekki verið tímabært að meta tjónið vegna þess fyrr en á árinu 2003.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Í gögnum málsins kemur fram um meiðsl stefnanda vegna slyssins að í september 1994 hafi allt verið vel gróið. Plata sem sett hafði verið í lærlegginn var fjarlægð í apríl 1995 og var brotið þá vel gróið. Í gögnunum kemur ekki fram með skýrum hætti hvenær tímabært hafi verið að meta örorku stefnanda vegna slyssins. Af þeim verður þó ráðið að stefnandi hafi ekki þurft á læknismeðferð að halda eða að um afturför á bata af meiðslunum hafi verið að ræða eftir að hann fékk innlegg í skó vegna styttingar á hægra fæti í apríl 1997.
Í framburði Jónasar Hallgrímssonar læknis fyrir dóminum, sem mat örorku stefnanda á árinu 2003, kemur meðal annars fram að stefnandi hafi farið í göngugreiningu á árinu 1997, en þá hafi verið mæld sjö mm stytting á fætinum, en fram kemur í gögnum málsins að hún hafi verið mæld í apríl það ár. Þá kom fram í framburði læknisins fyrir dóminum að ekki væri unnt að gefa ákveðið svar við því hvenær tímabært hafi verið að meta örorku stefnanda vegna lærleggsbrotsins. Það hafi þó verið hægt þegar Brynjólfur Jónsson læknir skoðaði hann á árinu 2003 en þá hafi mælst eins cm stytting á lærleggnum. Þó hefði þurft að taka röntgenmynd af honum til að unnt hafi verið að sjá hvort mæling hafi verið marktæk, en það hafi væntanlega ekki verið gert á árinu 1997. Almennt sé unnt að meta afleiðingar brots eins og stefnandi hlaut þegar það er gróið og ekki sé að vænta frekari breytinga. Í matsgerðinni er haft eftir stefnanda að hann hafi verið slæmur í baki áður en hann fékk innlegg í skó eftir göngugreininguna árið 1997 sem lagast hafi við það. Í vottorði Brynjólfs Jónssonar bæklunarskurðlæknis 19. júní 2003 kemur fram að stefnandi hafi verið til meðferðar hjá lækninum vegna lærbrotsins og mjaðmagrindaráverkans. Í læknisvottorðinu er haft eftir stefnanda að hann hafi skánað árin eftir slysið en hann hafi alltaf haft viss óþægindi, viðkvæmni í mjöðm, nára og utanverðu læri, en þó aðallega í hægra hnénu. Þá segir í vottorðinu að endurhæfing stefnanda hafi gengið eðlilega fyrir sig, en hann hafi enn ákveðin óþægindi frá lærinu og hnénu, hugsanlega vegna einhverra vöðva- og taugaskemmda. Óþægindin séu þó tiltölulega lítil miðað við þennan mikla áverka. Brot í mjaðmagrind og lærlegg hafi gróið vel. Örokumatið er meðal annars byggt á þessu læknisvottorði.
Af þessu verður ráðið að tímabært hafi verið að meta tjón stefnanda vegna lærbrotsins og annarra áverka, sem hann hlaut í slysinu, í síðasta lagi á árinu 1997, enda hafa engar haldbærar skýringar komið fram á því hvers vegna þurft hafi að bíða með það til ársins 2003. Verður að telja að stefnandi hafi því átt þess kost að leita fullnustu um kröfuna í árslok 1997 og að upphaf fyrningar samkvæmt framangreindri lagagrein hafi því verið þá. Engu máli skiptir í því sambandi þótt Hæstiréttur hafi fellt dóm í október 2001, þar sem reglu um eigin áhættutöku var breytt, enda verður ekki unnt að líta svo á að með dóminum hafi fyrning á kröfu stefnanda verið rofin þannig að nýr fjögurra ára fyrningarfrestur hafi þá byrjað að líða eins og stefnandi virtist halda fram. Lifrarbólgusýkinguna verður að telja kröfunni óviðkomandi enda er ekki krafist bóta í málinu vegna hennar og hefur hún því engin áhrif á upphaf fyrningarfrests kröfunnar. Krafa stefnanda á hendur stefndu var þar með fallin niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað 5. september 2003 samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ber með vísan til þessa að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 392.700 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Eiríks Elís Þorlákssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 300.000 krónur en þá hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður stefnanda er samtals 92.700 krónur.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Hinrik Jóhannsson og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, Svans Þórs Bjarnasonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 392.700 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Eiríks Elís Þorlákssonar hdl., 300.000 krónur án virðisaukaskatts.