Hæstiréttur íslands
Mál nr. 292/2001
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Sakarskipting
- Kröfugerð
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 7. mars 2002. |
|
Nr. 292/2001. |
Landssími Íslands hf. (Andri Árnason hrl.) gegn Þorbjörgu Erlendsdóttur (Karl Axelsson hrl.) og gagnsök |
Skaðabætur. Líkamstjón. Sakarskipting. Kröfugerð. Gjafsókn.
Starfsmenn P hf. (síðar L hf.), sem unnu að því að koma 6 cm sveru plaströri undir götu, lögðu rörið þvert yfir gangstétt meðan á framkvæmdinni stóð. Þ, sem kom skokkandi eftir gangstéttinni, féll um rörið og fótbrotnaði. Var henni metin 15% varanlegur miski og jafn há varanleg örorka vegna slyssins. Á það var fallist með Þ að viðvaranir hefðu ekki verið veittar með þeim hætti sem búast mátti við þar sem L hf. lagði hindrun í veg fyrir hana á almennri gönguleið. Með þessu skapaðist hætta sem félagið var talið bera ábyrgð á. Á hinn bóginn þótti Þ ekki hafa sýnt aðgát í samræmi við aðstæður. Sök var samkvæmt þessu skipt til hálfs og L hf. gert að greiða Þ helming tjóns hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2001 og krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. september 2001. Krefst hún þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 4.560.531 krónu með 2% ársvöxtum frá 6. júní 1997 til 6. ágúst 2000 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
I.
Málið er til komið vegna slyss, sem gagnáfrýjandi varð fyrir um miðjan dag 6. júní 1997 á gangstétt við Rofabæ í Reykjavík. Starfsmenn Pósts og síma hf. unnu þá við að koma um 6 cm sveru plaströri undir götuna, en til þess var notaður bor, knúinn áfram af loftpressu. Í gegnum þetta rör átti síðan að þræða símakapal. Höfðu þeir lagt rörið þvert yfir gangstéttina og er sú skýring fram komin að óhjákvæmilegt hafi verið að koma rörinu þannig fyrir um stund áður en það yrði lagt undir götuna. Kom gagnáfrýjandi þar að skokkandi eftir gangstéttinni til vesturs og féll um rörið, sem hún kveðst ekki hafa orðið vör við áður. Fótbrotnaði hún við byltuna og hefur henni verið metinn 15% varanlegur miski og jafn há varanleg örorka vegna slyssins. Málavöxtum er nánar lýst í héraðsdómi. Pósti og síma hf. hefur verið breytt í Íslandspóst hf. og Landssíma Íslands hf. og og er ekki ágreiningur um aðild síðastnefnda félagsins að málinu.
Aðaláfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að slysið verði ekki rakið til neinnar saknæmrar háttsemi þeirra manna, sem unnu verkið, heldur verði ekki öðru en óaðgæslu gagnáfrýjanda sjálfrar og óhappatilviljun um kennt hve illa fór. Við áðurnefnt verk hafi verið grafnar holur beggja vegna götunnar og þær verið ágætlega merktar. Hafi allar aðstæður á staðnum gefið til kynna að um vinnusvæði væri að ræða og full ástæða verið til að fara um það með gát. Hvað sem öðru líði hljóti gagnáfrýjandi að bera verulegan hluta sakar sjálf. Gagnáfrýjandi reisir kröfu sína hins vegar á því að alla sök á slysinu beri að leggja á aðaláfrýjanda. Á ferð sinni hafi hún notað gagnstétt borgarinnar með eðlilegum og venjulegum hætti og þurfi gangandi vegfarendur ekki að búast við því að hindranir séu lagðar í veg þeirra. Hafi rörið á gangstéttinni skapað hættu og viðvaranir verið alls ófullnægjandi. Beri hér að beita ströngu sakarmati og leggja alla ábyrgð á aðaláfrýjanda. Er því jafnframt haldið fram að hún hafi sjálf enga óaðgæslu sýnt í umrætt sinn. Mótmælir gagnáfrýjandi því sérstaklega að ábyrgð á slysinu verði lögð á hana fyrir það að hafa verið að hlusta á vasaútvarp, sem tengt var heyrnartólum, en altítt sé að vegfarendur hlusti á útvarp á göngu sinni. Málsástæður aðilanna eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.
Fram er komið að Póstur og sími hf. hafði ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Áður en málið var höfðað bauð vátryggingafélagið gagnáfrýjanda að sök yrði skipt að jöfnu og tjón hennar gert þannig upp, sem gagnáfrýjandi hafnaði.
II.
Meðal málsgagna eru ljósmyndir, sem teknar voru á slysstað skömmu eftir atvikið. Má sjá á þeim að borðar höfðu verið festir á milli lágra stólpa til aðvörunar vegna framkvæmdanna. Borðunum var hins vegar komið fyrir við götuna en ekki gangstéttina og sýnast fremur hafa haft það hlutverk að vara ökumenn við framkvæmdunum en þá, sem fóru eftir gangstéttinni. Eins og borðunum var komið fyrir verður ekki talið að þeir hafi nýst til að vara við hindrun á gangstéttinni. Í skýrslu, sem gerð var skömmu eftir slysið, hafði Baldvin Viggósson lögreglumaður eftir Sveini Benedikt Rögnvaldssyni, starfsmanni Pósts og síma hf., að hann hafi staðið þarna og varað gangandi og hjólandi vegfarendur við rörinu, en því miður hafi hann ekki tekið eftir gagnáfrýjanda þegar hún kom hlaupandi og því ekki náð að vara hana við. Hið sama kom einnig fram í skýrslu annars starfsmanns Pósts og síma hf. til Sjóvár-Almennra trygginga hf. 24. október 1997, en þar segir að starfsmaður félagsins hafi staðið vörð á staðnum þegar slysið varð. Svo illa hafi viljað til að hann hafi ekki litið í átt til gagnáfrýjanda þegar hana bar að og því ekki tekist að vara hana við í tíma. Hann hafi hins vegar náð að aðvara aðra vegfarendur, sem fóru þarna um. Verður fallist á með gagnáfrýjanda að viðvaranir hafi ekki verið veittar með þeim hætti, sem búast mátti við þar sem aðaláfrýjandi lagði hindrun í veg fyrir hana á almennri gönguleið. Með þessu skapaðist hætta og verður aðaláfrýjandi að bera ábyrgð á tjóni gagnáfrýjanda.
Baldvin Viggósson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi, en hann kom á slysstað áður en gagnáfrýjandi var flutt á brott. Voru bornar undir hann ljósmyndir, sem teknar voru á vettvangi, og kvað hann þær sýna ágætlega hvernig aðstæður voru, en þarna hafi verið einhverjar vélar og moldarhaugar. Fram er komið að bjart veður var þennan dag og af myndunum má ráða að svart plaströrið hefur sést á gangstéttinni í töluverðri fjarlægð. Myndirnar sýna einnig að moldarhaugar voru fast við gangstéttina þar sem plaströrið lá, auk þess sem loftpressa stóð þar hjá og skagaði hún lítilega inn á gangstéttina. Var hún í gangi er slysið varð og samkvæmt framburði áðurnefnds Sveins Benedikts fylgdi notkun hennar töluverður hávaði. Er ljóst að þær aðstæður voru fyrir hendi, sem hefðu átt að vara gagnáfrýjanda við ef aðgát hefði verið sýnd. Hún á því einnig sök á óhappinu. Þykir rétt að aðilarnir beri hvor helming sakar vegna þess tjóns, sem gagnáfrýjandi varð fyrir við slysið.
III.
Endanleg krafa gagnáfrýjanda fyrir varanlegan miska nemur 722.325 krónum, varanlega örorku 2.668.942 krónum og þjáningar 154.270 krónum. Er ekki tölulegur ágreiningur um þessa liði eftir að gagnáfrýjandi lækkaði tvo þá síðastefndu við aðalmeðferð málsins í héraði um samtals 75.254 krónur. Kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón hækkaði hún um leið úr 400.000 krónum í 730.246 krónur. Mótmælir aðaláfrýjandi því að hækkun kröfunnar komist að í málinu. Þá krefst hún einnig greiðslu eftirstöðva útlagðs kostnaðar að fjárhæð 34.748 krónur og væntanlegs kostnaðar vegna læknismeðferðar og sjúkraþjálfunar, sem hún áætlar 300.000 krónur, en til frádráttar kröfunni komi 50.000 krónur vegna innborgunar 30. júní 2000. Nemur krafa gagnáfrýjanda samkvæmt þessu samtals 4.560.531 krónu.
Gegn mótmælum aðaláfrýjanda eru ekki skilyrði fyrir hendi svo gagnáfrýjandi fái komið að hækkun heildarkröfu sinnar vegna kröfuliðs fyrir tímabundið atvinnutjón. Verður sá liður tekinn til greina með upphaflegri kröfufjárhæð að frádregnum sjúkradagpeningum, sem gagnáfrýjandi fékk frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 40.074 krónur, sbr. 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hafnað kröfulið vegna væntanlegs útlagðs kostnaðar. Að þessu gættu verður krafa gagnáfrýjanda að öðru leyti lögð til grundvallar um tjón hennar, sem nemur samkvæmt því 3.890.211 krónum. Að gættri þeirri skiptingu sakar, sem fram kemur í II. kafla að framan, verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða henni 1.945.106 krónur með vöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda verður staðfest, en um gjafsóknarkostnað hennar fyrir Hæstarétti fer eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Landssími Íslands hf., greiði gagnáfrýjanda, Þorbjörgu Erlendsdóttur, 1.945.106 krónur með 2% ársvöxtum frá 6. júní 1997 til 6. ágúst 2000 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2001.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 27. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað fyrir dómþinginu af Þorbjörgu Erlendsdóttur, kt. 040458-2479, Klukkubergi 27, Hafnarfirði, á hendur Landssíma Íslands, kt. 500269-6779, Thorvaldsenstræti 4, Reykjavík, með stefnu þingfestri 21. september 2000.
Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda skaða- og miskabætur, að fjárhæð 4.305.539 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 4.355.539 krónum frá 6. júní 1997 til 1. maí 1999, en með 4,5% vöxtum frá þeim degi til 30. júní 2000, en af 4.305.539 krónum frá þeim degi til 6. ágúst 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá 6. ágúst 2000 til greiðsludags.
Við aðalmeðferð málsins gerði stefnandi þær dómkröfur, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda 4.560.531 krónu, með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 6. júní 1997 til 6. ágúst 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Einnig krefst stefndi málskostnaðar, að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti úr hendi stefnanda, en til vara að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins hinn 6. nóvember 2000.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II.
Á þeim tíma er umdeilt atvik varð var starfsemi stefnda rekin af Pósti og Síma hf., en stefndi hefur nú tekið við öllum réttindum og skyldum þess félags.
Hinn 6. júní 1997 varð stefnandi fyrir slysi er hún á skokki sínu eftir gangstétt í Rofabæ, féll um sex cm þvert plaströr, sem starfsmenn stefnda höfðu lagt þvert yfir gangstéttina. Við slysið brotnaði stefnandi á hægri fæti. Lögregla kom á vettvang og í skýrslu lögreglu af slysinu, dagsettri 6. júní 1997 segir svo m.a., :„Hafði tal af tilkynnanda sem er starfsmaður Pósts og Síma. Kvaðst hann hafa verið þarna við vinnu sína og hafi hann lagt ofangreint plaströr á gangstéttina en það átti að smokrast undir götuna, gegnum stokk og hafi hann því orðið að leggja rörið á þennan hátt til að hægt væri að koma því undir götuna. Búið var að grafa holur báðum megin götunnar en þær hindruðu ekki umferð gangandi og voru ágætlega merktar. Tilkynnandi kvaðst hafa staðið þarna og varað gangandi og hjólandi sem þarna áttu leið um við rörinu en því miður hafi hann ekki tekið eftir þegar slasaða kom hlaupandi og því ekki náð að vara hana við. Umrætt rör er ca. 2.5 tomma.” Vinnueftirliti ríkisins var og tilkynnt um slysið og fór starfsmaður þess á vettvang skömmu eftir slysið. Í framlagðri umsögn hans segir svo m.a.:„ Tildrög slyssins voru þau að hin slasaða var á hlaupum (skokki) eftir gangstéttinni en þar unnu starfsmenn Pósts og Síma við að draga símastreng, þvert undir götuna Rofabæ, á móts við gatnamót Skólabæjar. Þvert yfir gangstéttina lá sex sentimetra svert plaströr sem símakapallinn er þræddur í. Sem fyrr sagði kom slasaða á hlaupum og varð ekki vör við plaströrið fyrr en hún hrasaði um það og féll og hlaut við það meiðsl á hægra fæti. Starfsmaður Pósts og Síma Sveinn Rögnvaldsson, kt. 120274-3689 sem var á staðnum m.a. til að vara vegfarendur við rörinu, samanber lögregluskýrslu, varð ekki var við þegar slasaða kom hlaupandi og gat þess vegna ekki varað hana við. Gryfjur sem grafnar höfðu verið á milli götu og gangstéttar hindruðu ekki umferð. Á gangstéttinni sjálfri, eða við hana, var ekki sýnileg viðvörun.
Skyldur aðila samkv. lögum nr. 46/1980 voru skýrðar fyrir verkstjóra og fyrir verkstjóra og fyrirmæli gefin um að: Þegar vegfarendum getur stafað hætta af framkvæmdum á umferðaleiðum, skulu sett upp greinileg skilti til viðvörunar, eða hindranir sem beina umferð frá hættustöðum.”
Fyrir dómi bar fyrrgreindur starfsmaður stefnda, að honum hafi ekki verið falið að aðvara vegfarendur, sem leið áttu um gangstéttina umrætt sinn.
Hinn 6. júní 2000 mátu læknarnir, Guðmundur Björnsson og Jónas Hallgrímsson, örorku stefnanda. Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir svo :„Þorbjörg Erlendsdóttir hafði sögu um að hafa lent í umferðarslysi og hlotið tognun á hálsi og vinstri öxl þegar hún þann 06.06.1997 verður fyrir því slysi að falla um rörbút þar sem hún var á skokki. Við fallið hlaut hún áverka á hægra hné og legg og gat ekki stigið í fótinn. Við rannsókn á slysadeild kom í ljós kurlbrot á efri enda sköflungs. Gera varð opna aðgerð á brotinu og festa það með plötu og skrúfum. Hún lá inni á sjúkrahúsi vegna þessa og í eftirmeðferð þurfti hún að leggjast inn að nýju til meðferðar á sjúkrahúsi vegna blóðtappa í kálfa. Hún var um tíma í blóðþynningarmeðferð. Hún var síðan í eftirliti haustið 1997 og vorið 1998 og gréri brotið á eðlilegum tíma. Hún notaði hækjur langt fram eftir árinu en gat síðan farið að ganga, fyrst skemmri og síðan lengri vegalengdir.
Þorbjörg hefur haft viðvarandi óþægindi frá hnénu, hún fæddi hraust barn í júlímánuði 1998 og var í barnsburðarleyfi en reyndi fyrir sér við afleysingar í starfi sínu sem sjúkraliði nú nýlega og versnaði þá nokkuð af óþægindum sínum í hnénu við það álag.
Þorbjörg kvartar um óþægindi við allt álag og hún er með dofatilfinningu á leggnum. Við skoðun kemur í ljós nær eðlilegur hreyfiferill í hnénu, nokkur ummálsaukning en ekki vöðvarýrnanir. Það er væg öxulskekkja í valgus og utrotation.
Undirritaðir matsmenn telja örorkumat nú tímabært enda telja þeir að ekki sé að vænta frekari bata, ástandið sé varanlegt og læknismeðferð og þjálfun sé lokið.
Við mat á tímabundnu atvinnutjóni er stuðst við frásögn tjónþola auk þeirra læknisfræðilegu gagna sem fyrir liggja en hún hóf störf þann 20.01.1998.
Við mat á þjáningum styðjast matsmenn við þann tíma sem Þorbjörg var innlögð á sjúkrahús og talin rúmliggjandi í tvö skipti. Þá telja matsmenn að ekki hafi verið að vænta frekari bata þegar hún hóf störf að nýju.
Við miskamat er stuðst við almenna færnisskerðingu, huglægar kvartanir eru allnokkrar, læknisskoðun leiðir í ljós væga öxulskekkju og skúffuhreyfingu, búast má við að hnéð komi til með að slitna frekar en ella hefði orðið og trufla óþægindi hennar líf hennar og leik og starfi sérstaklega við álag.
Við mat á varanlegri örorku telja matsmenn að um nokkra skerðingu á getu hennar til tekjuöflunar verði að ræða. Hún er menntaður sjúkraliði og þegar hefur komið í ljós að óþægindi hennar aukast við allt álag. Hún er móðir tveggja ungra barna og er talsvert álag á hana á heimili. Telja matsmenn að þessu sögðu að ekki séu líkur til þess að Þorbjörg geti breytt um starf eða endurmenntað sig á næstunni en telja meiri líkur á því að hún þurfi að skerða vinnutíma sinn og taka síður auka- og yfirvinnu vegna álagseinkenna sem upp geta komið í þeim tilvikum. Undirritaðir matsmenn telja að miskatala geti lýst þessu örorkustigi á sanngjarnan hátt.
Með tilliti til þess sem að ofan er ritað ályktum við undirritaðir matsmenn eftirfarandi:
1. Tímabært er að leggja mat á varanlegt heilsutjón Þorbjargar Erlendsdóttur vegna slyss þess sem hún varð fyrir þann 06.06.1997 enda telja matsmenn að ekki sé að vænta frekari bata þegar til lengri tíma er litið og læknismeðferð og þjálfun sé nú lokið.
2. Tímabundið atvinnutjón telst vera frá 06.06.1997 til 20.01.1998.
3. Tjónþoli telst hafa verið frá 06.06.1997 til 20.01.1998 þar af rúmliggjandi frá 06.06. til 11.06.1997 og 02.07. til 08.07.1997.
4. Varanlegur miski telst hæfilega metinn 15% (fimmtán af hundraði).
5. Varanleg örorka telst hæfilega metin 15% (fimmtán af hundraði).
6. Undirritaðir matsmenn hafa kynnt sér þau læknisfræðilegu gögn sem fyrir liggja varðandi ofanritaða átt við hana viðtal og skoðað með tilliti til afleiðinga slyssins þann 06.06.1997. Þeir telja að önnur slys eða sjúkdómar eigi ekki þátt í þeirri örorku hennar hér að ofan er metin þegar eingöngu er litið til afleiðinga slyssins þann 06.06.1997.”
Stefnandi krafði stefnda um bætur og var féllst stefndi á að bæta stefnanda helming tjóns hennar, en stefnandi féllst ekki á þau málalok.
III.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að umrætt slys verði að öllu leyti rakið til atvika, á ábyrgð stefnda, samkvæmt almennum skaðabótareglum, sakarreglunni, sbr. og reglu um vinnuveitendaábyrgð. Ljóst sé að gera verði ríkar kröfur til fyrirtækis, eins og stefnda, þegar verið sé að vinna á alfaraleið við búnað og lagnir fyrirtækisins. Umrætt slys hafi orðið á gangstétt í íbúðarhverfi, sem skilyrðislaust megi ætla að sé torfæru- og hindranalaus. Þrátt fyrir að framkvæmdir stefnda torvelduðu fyrirsjáanlega umferð fótgangandi vegfarenda þá hafi hvorki verið sett upp viðvörunarskilti né hindranir við eða á gangstéttinni. Stefndi hafi ætlað sérstökum starfsmanni að vara fótgangandi vegfarendur við. Þessum starfsmanni hafi orðið á þau mistök að vara stefnanda ekki við, þar sem hann hafi ekki orðið stefnanda var. Ef gætt hefði verið lögboðinnar og eðlilegrar varúðar við framkvæmd verks þess, sem verið var að vinna, hefði aldrei komið til umrædds slyss. Stefnandi telur að hún hafi sýnt af sér eðlilega aðgæslu, þar sem ekki hafi verið augljóst að framkvæmdir ættu sér stað á gangstéttinni sjálfri. Gangandi vegfarendur eigi í öllum tilvikum að geta treyst á hindrunarlausa umferð um gangstéttir og stefndi, sem þurft hafi að hindra umferð vegna starfsemi sinnar, geti ekki yfirfært hluta ábyrgðar á mistökum starfsmanna sinna yfir á stefnanda.
Stefnandi hefur sundurliðað dómkröfu sína með eftirfarandi hætti:
|
1. Bætur skv. 2. gr. |
kr. 730.246 |
|
2. Bætur skv. 3. gr. 13x1.570 |
kr. 20.410 |
|
212x 840 |
kr.178.080 |
|
-Frádr. innborgun |
kr. 44.220 |
|
Þjáningabætur samtals |
kr.154.270 |
|
3. Bætur skv. 4. gr. 15% af kr. 4.815.500 |
kr.722.325 |
|
4. Örorkubætur skv. 6. gr. Árslaun x 6% líf.sj. x tíföld árslaun 15% af því -14% lækkun v. aldurs
+ vísitöluhækkun 3542/3951 |
kr.1.854.774 kr.18.547.740 kr. 2.782.161 kr.389.503 kr. 2.392.658 kr. 276.284 |
|
Samtals örorkubætur |
kr. 2.668.942 |
|
5. Eftirstöðvar útlagðs kostnaðar skv. reikn. á dskj. nr.20 |
kr. 34.748 |
|
6. Áætlaður útlagður kostnaður v/læknismeðferðar og sjúkraþj. |
kr. 300.000 |
|
|
kr. 4.610.531 |
|
innborgun félagsins þ. 30. júní 2000 |
kr. 50.000 |
|
Samtals |
kr. 4.560.531 |
Eins og áður greinir breytti stefnandi kröfum sínum við aðalmeðferð málsins og kvað stefnandi ástæður breytingarinnar vera eftirafarandi. Kröfuliður 1 væri hækkaður nokkuð til samræmis við yfirlýsingu stefnda í greinargerð um tímabundið tekjutap stefnanda. Fallist væri á frádrátt vegna innborgunar á þjáningabætur að fjárhæð 44.220 krónur. Fallist væri á 14% lækkun bóta vegna varanlegrar örorku í stað 13% eins og gert hafi verið í upphafi. Þá væri ekki krafist 4,5% vaxta frá 1. maí 1999, eftir dóm Hæstaréttar Íslands frá 15. mars 2001 í málinu nr. 395/2000.
Viðmiðunartekjur vegna varanlegrar örorku sé eðlilegast að miða við árstekjur árið fyrir slys, þ.e. árið 1996, en það ár hafi stefnandi verið í 70% starfi í einn mánuð og 80% starfi í ellefu mánuði. Launin séu síðan reiknuð upp miðað við það að stefnandi hefði verið í 100% starfi. Verðbætur samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga miðist við ágúst 2000.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins, þ.m.t. almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna settra á grundvelli þeirra laga. Þá byggir stefnandi kröfu sína á skaðabótalögum nr. 50/1993.
Kröfu um vexti og dráttarvexti byggir stefnandi á 16. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999 og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Aðalkröfu sína um sýknu byggir stefndi á því að tjón stefnanda hafi hlotist af aðgæsluleysi hennar sjálfrar og óhappatilviljun, en hvort tveggja sé á ábyrgð stefnanda. Umrætt slys hafi orðið um miðjan dag 6. júní 1997, sem sé sá tími ársins, þegar birta sé hve mest yfir daginn. Eins og sjá megi af myndum, teknum á slysstað skömmu eftir slysið, af starfsmanni Vinnueftirlitsins, hafi plaströrið á gangstéttinni sést greinilega úr töluverðri fjarlægð. Veður hafi verið bjart umræddan dag, eins og myndirnar beri með sér og vottorð Veðurstofu Íslands staðfesti. Því hafi verið tiltölulega auðvelt fyrir stefnanda að koma auga á plaströrið þegar hún hafi komið hlaupandi eftir gangstéttinni. Eins og gögn málsins beri með sér, svo sem lýsing á aðstæðum á svæðinu og ljósmyndum af því, hafi stór gámur staðið til hliðar inn á lóðinni, búið hafi verið að grafa holur beggja vegna götunnar og merkja þær vel, loftpressa og jarðbor hafi verið í gangi á staðnum með verulegum titringi og hávaða. Augljóst hafi því verið hverjum sem var að þarna hafi verið vinnusvæði og framkvæmdir í gangi og því augljóst öllum að ástæða væri til að fara með gát.
Stefnanda hafi því vart dulist hvað fram fór á umræddum stað og haft ríka ástæðu til að gæta að sér. Hins vegar séu líkur til þess, að það hafi truflað athygli stefnanda og valdið því, að hún sýndi ekki nægjanlega aðgæslu þegar hún kom á svæðið, að hún var að hlusta á vasadiskó á hlaupunum. Aðstæður á slysstað og hegðun stefnanda þegar hún hafi farið um vinnusvæðið gefi því ótvírætt til kynna að um aðgæsluleysi hennar hafi verið að ræða.
Einnig byggir stefndi á því, að samkvæmt 13. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar, skuli sá sem fyrir tjóni verður við leik ábyrgjast tjón sitt sjálfur. Skokk stefnanda um mikla umferðargötu hafi því verið á ábyrgð hennar sjálfrar en ekki stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína og á því, að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér forsvaranleg vinnubrögð. Vinnusvæði stefnda á gangstéttinni hafi ekki verið sérstaklega girt af þegar slysið varð, þar sem starfsmönnum hafi ekki þótt sérstök ástæða til þess. Ekki hafi verið ástæða til að girða svæðið af, þar sem plaströrið hafi einungis verið um 6 cm í þvermál og öllum, sem leið hafi átt um hafi mátt vera ljóst að um vinnusvæði hafi verið að ræða, þar sem rík ástæða væri til þess að fara um með gát. Ef gangstéttin hefði verið girt af hefði þurft að beina gangandi umferð út á umferðargötu, sem skapað hefði verulega slysahættu. Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, að umferð um gangstéttina hafi verið skert. Gagnandi vegfarendur hafi átt greiða leið um gangstéttina, þrátt fyrir að plaströrið lægi á gangstéttinni og væri á vegi þeirra, enda hafi margir farið þar áður um án vandkvæða. Starfsmaður stefnda hafi verið á staðnum og varað vegfarendur við rörinu.
Stefndi kveður skýrslu Vinnueftirlitsins ekki kveða á um að stefndi hafi brotið ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eða reglugerð settri á grundvelli þeirra laga.
Stefndi byggir sýknukröfu sína auk þess á því, að líkamlegt ástand stefnanda eftir umferðarslys sem hún hafi lent í 1. janúar 1997, hafi verið meðvaldur að slysinu 6. júní 1997. Örorkunefnd hafi í álitsgerð, dagsettri 29. júní 1999, metið varanlega örorku stefnanda, vegna umferðarslyssins, 10%. Í ljósi þess, sem þar komi fram um líkamlegt ástand stefnanda, en þar segi m.a. að „dragi úr getu stefnanda til öflunar vinnutekna í framtíðinni vegna minna úthalds til vinnu en ella hefði mátt búast við”, verði að draga í efa að stefnandi hafi þann 6. júní 1997 verið líkamlega svo vel á sig komin að hún væri fær um að skokka.
Stefndi mótmælir, að tillaga til samkomulags milli aðila, sem sett hafi verið fram í bréfi Sjóvár Almennra trygginga hinn 27. október 1999, feli í sér viðurkenningu á bótaskyldu stefnda. Tillagan hafi eðli máls samkvæmt verið sett fram með fyrirvara um samþykki stefnanda, sem hafi hafnað henni og þar með sé niður fallin.
Varakröfu sína byggir stefndi á því, að stefnandi verði að bera einhvern hluta sakar, enda augljóst að hún hafi ekki gætt að sér, eins og búast hafi mátt við.
Í greinargerð eru gerðar athugasemdir við kröfugerð stefnanda og var með breyttri kröfugerð stefnanda við aðalmeðferð málsins fallist á þær athugasemdir sem þar koma fram, að öðru leyti en því, að ekki var fallist á athugasemdir stefnda við kröfu um áætlaðan útlagðan kostnað. Stefndi mótmælir þessum kröfulið stefnanda, enda hafi engin gögn verið lögð fram kröfunni til stuðnings. Hins vegar mótmælti stefndi við munnlegan flutning málsins hækkun á kröfum stefnanda, sem of seint fram komnum.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V.
Ágreiningur máls þessa lýtur að ágreiningi um bótaskyldu stefnda vegna slyss er stefnandi varð fyrir hinn 6. júní 1997. Ekki verður talið að tilboð stefnda, áður en málssókn þessi hófst, um að greiða stefnanda helming tjóns hennar, feli í sér viðurkenningu á bótaskyldu, enda hafnaði stefnandi tilboðinu.
Óumdeilt er að stefnandi varð fyrir slysi er hún féll um 6 cm rör, sem starfsmenn stefnda höfðu lagt á gangstétt í Rofabæ, þar sem stefnandi átti leið um. Samkvæmt c. lið 38. gr. laga nr. 46/1980, skal á vinnustað setja upp greinilegar aðvaranir og /eða vinnusvæði girt eða afmörkuð með öðrum hætti. Fyrir liggur að engin slík skilti eða aðvaranir voru settar þar upp. Með því að leggja rör á gangstéttina öftruðu starfsmenn stefnda umferð um hana og sköpuðu hættu. Bar þeim því að vara vegfarendur við þeirri hættu. Þessi háttsemi var því til þess fallinn að valda tjóni. Mannhelgisbálkur Jónsbókar 13. kafli firrir stefnda ekki ábyrgð, enda var stefnandi ekki, í umrætt sinn, að taka þátt í leik þó svo hún hafi verið að skokka um gangstéttir borgarinnar. Þá hefur stefndi á engan hátt sýnt fram á þá fullyrðingu sína að líkamlegt ástand stefnanda, er atvik máls urðu, hafi valdið tjóninu.
Fram hefur komið að vegna framkvæmdanna höfðu verið grafnar holur beggja vegna gangstéttarinnar og starfsmenn stefnda voru þar við vinnu. Stefnandi hefur borið að hún hafi á skokki sínu umrætt sinn verið með vasaútvarp. Er atvik málsins urðu var léttskýjað og bjart. Rör það sem stefnandi féll um var 6 cm þvert dökkt plaströr. Hefði því rörið ekki átt að dyljast stefnanda ef hún hefði sýnt þá aðgæslu, sem krafist er af vegfarendum, en ekki verður talið að stefnandi hafi getað búist við því á för sinni um gangstéttina, að ekkert yrði á vegi hennar. Verður því að leggja hluta ábyrgðar á stefnanda vegna aðgæsluleysis. Þykir rétt að skipta sök þannið, að stefnandi beri 1/4 tjóns sín sjálf, en stefndi ¾.
Ekki er ágreiningur milli aðila um útreikning bótakröfu, að öðru leyti en því, að stefndi hefur hafnað hækkun á dómkröfu, sem of seint fram kominni við aðalmeðferð málsins. Eins og áður greinir lækkaði stefnandi kröfur sínar, samkvæmt einstaka bótaliðum, að öðru leyti en því, að stefnandi krafði stefnda um hærri bætur vegna tímabundinnar örorku. Gegn andmælum stefnda um að hækkun bótakröfu komist að, verður að telja að stefnandi sé bundinn af upphaflegri kröfu sinni um bætur að fjárhæð 400.000 krónur vegna tímabundinnar örorku. Þá hefur stefndi mótmælt kröfu stefnanda um bætur vegna væntanlegs útlagðs kostnaðar. Þar sem stefnandi hefur ekki fært fram læknisfræðileg rök fyrir því að meta beri þennan kostnað til ákveðinnar fjárhæðar eða að álitum, verður krafa þessi ekki tekin til greina. Með vísan til framanritaðs ber því að taka til greina kröfu stefnanda um bætur samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, að fjárhæð 400.000 krónur, bætur samkvæmt 3. gr. sömu laga, að fjárhæð 154.270 krónur, bætur samkvæmt 4. gr. sömu laga, að fjárhæð 722.325 krónur, bætur samkvæmt 6. gr. sömu laga, að fjárhæð 2.668.942 og 34.748 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Samtals 3.980.285 krónur, að frádreginni innborgun 50.000 krónur, eða samtals 3.930.285 krónur. Samkvæmt framansögðu ber því stefnda að greiða stefnanda 2.947.714 krónur ásamt ársvöxtum og dráttarvöxtum eins og krafist er í stefnu.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt, 500.770 krónur, sem rennur í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda 500.770 krónur, þar af þóknun lögmanns stefnanda, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Landssími Íslands hf., greiði stefnanda, Þorbjörgu Erlendsdóttur, 2.947.714 krónur, ásamt 2% ársvöxtum, samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, frá 6. júní 1997 til 6. ágúst 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 6. ágúst 2000 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.770 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt, sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda 500.770 krónur, þar af þóknun lögmanns stefnanda, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.