Hæstiréttur íslands

Mál nr. 64/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför


Miðvikudaginn 7

 

Miðvikudaginn 7. mars 2007.

Nr. 64/2007.

Júllinn ehf.

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

 

Kærumál. Aðför.

J ehf. krafðist ógildingar á fjárnámi, sem gert hafði verið í fasteign félagsins að beiðni K hf., á grundvelli skuldabréfs, sem U ehf. hafði gefið út árið 1998. Ekki var fallist á þær málsástæður J ehf. að K hf. hefði framselt skuldabréfið og gæti því ekki krafist fjárnáms á grundvelli þess eða að tryggingarbréf, sem hvíldi á umræddri fasteign, hafi einungis átt að tryggja nánar tilgreinda skuld á tveimur tékkareikningum. Þá var ekki talið að J ehf. hefði fært fram haldbær rök fyrir því að K hf. hefði borið að ráðstafa söluandvirði tiltekinnar fasteignar til greiðslu á umræddu skuldabréfi og að bréfið væri af þeim sökum að fullu greitt. Var kröfu félagsins því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. janúar 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fjárnám, sem sýslumaðurinn á Sauðárkróki gerði hjá honum 20. júlí 2006 að kröfu varnaraðila, yrði fellt úr gildi. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að ofangreint fjárnám verði fellt úr gildi en til vara að það verði látið ná til lægri fjárhæðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ágreiningur málsaðila lýtur að fjárnámi, sem sýslumaðurinn á Sauðárkróki gerði í fasteign sóknaraðila að Kaupvangstorgi 1, Sauðárkróki, á grundvelli skuldabréfs, sem Umboðsþjónusta Brynjars ehf. gaf út 9. janúar 1998, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 króna. Fyrir liggur að sóknaraðili gaf út tryggingarbréf 26. nóvember 2004 með veði í framangreindri fasteign, sem samkvæmt viðauka við það sama dag, var meðal annars til tryggingar á öllum skuldum Umboðsþjónustu Brynjars ehf. við varnaraðila. Kemur fram í stöðluðum skilmálum skuldabréfsins að heimilt sé að gera aðför til fullnustu skuldarinnar án undangengins dóms eða réttarsáttar.

Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili fært fram málsástæðu sem lýtur að gildi framsals varnaraðila á tilgreindum kröfum og tryggingarréttindum til Landsbanka Íslands hf. Um er að ræða nýja málsástæðu sem er of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum, sem hér á við samkvæmt 4. mgr. 150 gr. sömu laga og 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Kemur hún því ekki til álita við úrlausn málsins. Sóknaraðili hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir því að varnaraðila hafi borið að ráðstafa söluandvirði Suðurgötu 1, Sauðárkróki, fyrst til greiðslu á fyrrgreindu skuldabréfi frá 9. janúar 1998 í stað þess að ráðstafa fjárhæðinni til greiðslu skuldar á tékkareikningi Umboðsþjónustu Brynjars ehf. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Júllinn ehf., greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. janúar 2006.

I

             Mál þetta sem barst dóminum 7. september sl. var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 13. desember sl.

             Sóknaraðili er Júllinn ehf., Kaupvangstorgi 1, Sauðárkróki.

             Varnaraðili er Kaupþing banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Dómkröfur

             Sóknaraðili krefst þess aðallega að fjárnámsgerð sýslumannsins á Sauðárkróki, nr. 21-2006-155, sem gerð var hjá sóknaraðila hinn 20. júlí sl., að kröfu varnaraðila verði ógilt. Til vara krefst sóknaraðili þess að efni fjárnámsgerðarinnar verði breytt þannig að fjárnámskrafa varnaraðila verði lækkuð verulega. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi.

             Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að aðfarargerð nr. 20-2006-155, sem framkvæmd var hinn 20. júlí sl. af sýslumanninum á Sauðárkróki, verði úrskurðuð gild. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi sóknaraðila.

II

Málsatvik

             Sóknaraðili lýsir málavöxtum á þann hátt að krafa varnaraðila byggist annars vegar á skuldabréfi nr. 310-74-12282 að nafnvirði 3.000.000 króna útgefnu af Umboðsþjónustu Brynjars ehf. hinn 9. janúar 1998 en samkvæmt skuldbreytingu á bréfinu hinn 30. desember 1999 hafi eftirstöðvar nafnverðs þá verið 2.417.551 króna. Hins vegar byggist krafa sóknaraðila á tryggingarbréfi nr. 310-63-523 með 2. veðrétti í jarðhæð og kjallara fasteignarinnar nr. 1 við Kaupvangstorg á Sauðárkróki. Bréfið er útgefið af sóknaraðila hinn 26. nóvember 2004 og samkvæmt viðauka við bréfið sama dag skal það einnig vera til tryggingar skuldbindingum Umboðsþjónustu Brynjars ehf. og skuldbindingum Brynjars Pálssonar við varnaraðila. Brynjar Pálsson, fyrirsvarsmaður sóknaraðila, heldur því fram að hann hafi, við gerð viðaukans við bréfið, gert samkomulag við Birgi Rafnsson, aðstoðarútibússtjóra í útibúi varnaraðila á Sauðárkróki, þess efnis að viðbótarveðsetningin væri eingöngu gerð til að breyta tryggingum gagnvart yfirdrætti á tveimur tékkareikningum. Reikningar þessir hafi verið númer 310-26-6255, eigandi Brynjar Pálsson, og nr. 310-26-3264, eigandi Umboðsþjónusta Brynjars ehf. Við þessa veðsetningu hafi fallið niður ábyrgð sjálfskuldarábyrgðarmanna sem verið höfðu í ábyrgð fyrir nefndum reikningum fram til 31. desember 2004. Staðhæfir sóknaraðili að veðsetningin hafi eingöngu komið í stað ábyrgðarmannanna sem tengdust einungis nefndum tékkareikningum. Engin skuld sé nú á þessum reikningum.

             Bú Brynjars Pálssonar var tekið til gjaldþrotaskipta 8. apríl 2005. Skiptum lauk 20. febrúar sl. með því að veðkröfur greiddust að fullu en ekkert fékkst upp í forgangskröfur, almennar eða eftirstæðar kröfur.

             Meðal eigna búsins var hluti fasteignarinnar nr. 1 við Suðurgötu á Sauðárkróki. Skiptastjóri ráðstafaði eigninni til Sparisjóðs Skagafjarðar eftir að sala eignarinnar hafði verið tekin fyrir á veðhafafundi hinn 24. júní 2005. Sóknaraðili átti veð í eigninni á 1., 2. og 4. veðrétti. Hið síðastgreinda veð var samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu hinn 20. september 2001 sem tryggði allar skuldbindingar Umboðsþjónustu Brynjars ehf. við sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð 12.000.000 króna auk verðtryggingar. Þá tryggði bréfið einnig samningsvexti, dráttarvexti og innheimtukostnað. Skiptastjóri tók kröfu sóknaraðila samkvæmt tryggingarbréfinu til greina að fjárhæð 16.610.023 krónur. Krafan sundurliðaðist þannig: Höfuðstóll 13.440.670 krónur, dráttarvextir 2.427.161 króna, innheimtuþóknun 596.138 krónur og virðisaukaskattur 146.054 krónur. Varnaraðili lýsti tveimur kröfum sem tryggingarbréfið átti að tryggja. Annars vegar var krafa vegna skuldabréfs nr. 310-74-12282 samtals með vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði 7.061.549 krónur. Hins vegar var krafa vegna tékkareiknings nr. 310-26-3264 samtals með dráttarvöxtum og kostnaði að fjárhæð 16.454.667 krónur.

             Sóknaraðili lýsir því að á fyrrgreindum veðhafafundi hafi komið fram að Landsbanki Íslands hf. hefði fengið kröfur varnaraðila í þrotabúið framseldar en fjárhæð þeirra hafi samtals numið 29.240.600 krónum. Fundurinn mun ekki hafa verið sóttur af hálfu varnaraðila.

             Sóknaraðili segir að uppgjör kaupverðs fasteignarinnar hafi farið þannig fram að Sparisjóður Skagafjarðar hafi greitt upp öll veðbönd á eigninni ásamt lögveðum að undanskildu veði frá Íslandsbanka hf. en því hafi verið aflýst. Sparisjóður Skagafjarðar hafi greitt samningsveðhöfum hinn 25. júlí 2005 í samræmi við veðbandayfirlit skiptastjóra, þó þannig að kröfur sem varnaraðili átti hafi verið greiddar til Landsbanka Íslands hf. Kaupsamningi og afsali um framsal krafna varnaraðila til Landsbanka Íslands hf. var þinglýst 26. júlí 2005. Nefndu tryggingarbréfi að nafnvirði 12.000.000 króna var aflýst hinn 22. september 2005.

             Sóknaraðili greinir frá því að hann hafi ekki séð nein skjöl sem sýna hvernig andvirði tryggingarbréfsins, 16.610.023 krónum, var varið til greiðslu á þeim skuldum sem það tryggði, hvorki hjá skiptastjóra né hjá Sparisjóði Skagfirðinga. Umboðsþjónustu Brynjars ehf. hafi ekki borist kvittun um uppgreiðslu skuldar á tékkareikningi nr. 310-26-3264. Hins vegar hafi sóknaraðili upplýsingar úr tölvukerfi varnaraðila frá því í ágúst 2005 þess efnis að engin skuld sé á þeim reikningi og sama eigi við um tékkareikning Brynjars Pálssonar nr. 310-26-6255. Sóknaraðili kveðst, í samræmi við samkomulag sem hann gerði við varnaraðila, hafa farið fram á það við útibússtjóra varnaraðila að tryggingarbréfinu yrði aflýst.

             Sóknaraðili segir að við meðferð aðfararbeiðninnar hjá sýslumanninum á Sauðárkróki hafi varnaraðili lagt fram kvittun fyrir innborgun dags. 24. júní 2005 á kröfu samkvæmt skuldabréfinu nr. 310-74-12282. Kvittunin ber með sér að Umboðsþjónusta Brynjars ehf. hafi þann dag greitt inn á skuld sína 63.146 krónur. Fyrirsvarsmaður Umboðsþjónustu Brynjars, Brynjar Pálsson, staðhæfi hins vegar að félagið hafi ekki innt þessa greiðslu af hendi til varnaraðila.

             Af hálfu varnaraðila er því lýst varðandi málavexti að hinn 20. september 2001 hafi Umboðsþjónusta Brynjars ehf. gefið út tryggingarbréf nr. 310-63-455 með veði í Suðurgötu 1, Sauðárkróki, er tryggja skyldi allar skuldir fyrirtækisins við Búnaðarbanka Íslands, nú varnaraðila. Hinn 8. apríl 2005 var stjórnarformaður Umboðsþjónustu Brynjars ehf., Brynjar Pálsson, úrskurðaður gjaldþrota. Varnaraðili kveðst hafa lýst kröfu í bú hans og tiltekið að skuldirnar væru tryggðar með tryggingarbréfi nr. 310-63-455 útgefnu hinn 26. nóvember 2004 af sóknaraðila og tryggt með veði í Kaupvangsstræti 1, Sauðárkróki, að höfuðstól 5.500.000 krónur. Þetta bréf hafi tryggt allar skuldir sóknaraðila við varnaraðila. Með viðauka við bréfið sama dag hafi bréfið einnig tryggt allar skuldir Umboðsþjónustu Brynjars ehf. og Brynjars Pálssonar við varnaraðila. 

             Varnaraðili kveðst hafa lýst kröfum í þrotabú Brynjars Pálssonar, m.a. vegna skuldabréfa nr. 310-74-1549 og nr. 310-74-11274, en þau hafi hvílt á 2. og 4. veðrétti á Suðurgötu 1, Sauðárkróki. Varnaraðili hafi verið boðaður á veðhafafund í þrotabúinu hinn 24. júní 2005. Að morgni þess dags hafi Landsbanki Íslands hf. greitt varnaraðila 30.000.000 króna og fengið framseldar kröfur vegna bréfanna sem hvíldu á 2. og 4. veðrétti fasteignarinnar. Auk þess hafi Landsbankinn fengið framseldar kröfur vegna tékkareiknings nr. 310-26-3264. Þessu til viðbótar hafi Landsbankinn fengið framseldar kröfur vegna tryggingarbréfs nr. 310-63-445. Framsalið hafi farið fram eftir þeim reglum sem gilda um kröfuhafaskipti að íslenskum rétti. Varnaraðili kveður fjárhæð þá sem Landsbankinn greiddi fyrir kröfurnar hafa verið hærri en nam framseldum skuldum. Því sem umfram var hafi varnaraðili ráðstafað inn á skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 310-74-12282. Við framsalið hafi Landsbankinn tekið við öllum réttindum varnaraðila sem veðhafi í umræddri fasteign og hann hafi mætt sem slíkur á veðhafafundinn sem áður er nefndur.

III

Málsástæður og lagarök

             Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína í fyrsta lagi á því að fjárkrafan sem aðfararbeiðni málsins byggist á, skuldabréf nr. 310-74-12282, sé að fullu greidd. Sóknaraðili heldur því fram að kröfuhafi, Landsbanki Íslands hf. eða varnaraðili, hafi verið bundinn af efni tryggingarbréfsins og meginreglum veðréttar við uppgjör kröfunnar þegar tilgreindu andvirði fasteignarinnar Suðurgötu 1 var ráðstafað til greiðslu viðkomandi skulda. Sóknaraðili kveður skiptastjóra hafa viðurkennt þá sundurliðun sem fram kemur í kröfulýsingu varnaraðila vegna tryggingarbréfsins og að sú afstaða hans hafi verið samþykkt á fundi veðhafa. Af þessum sökum hafi verið óheimilt að ráðstafa hærri fjárhæð upp í höfuðstól krafna sem tryggðar voru með þessu bréfi en höfuðstóll bréfsins hafi verið 13.440.670 krónur. Síðan taki aðrir kröfuliðir mið af höfuðstólnum að hámarki samkvæmt viðurkenndri afstöðu skiptastjóra. Þar sem kröfuhafi tók við greiðslu að fjárhæð 16.610.023 krónur hafi honum borið að ráðstafa greiðslunni í samræmi við fyrrgreinda sundurliðun. Af gögnum málsins verði ráðið að sóknaraðili telji að krafa vegna tékkareiknings nr. 310-26-3264 hafi verið greidd að fullu með 16.546.877 krónum og að inn á kröfu samkvæmt skuldabréfi nr. 310-74-12282 hafi greiðst 63.146 krónur. Sóknaraðili heldur því fram að þessi ráðstöfun fjárins hafi verið óheimil nema að hluta til þar sem höfuðstóll tékkareikningskröfunnar sé hærri en viðurkennd afstaða skiptastjóra geri ráð fyrir. Ef sú leið hefði verið farin að nýta allan höfuðstólinn til greiðslu á tékkareikningsskuldinni hefði niðurstaðan átt að verða þannig: Höfuðstóll 13.440.670 krónur, dráttarvextir 31. janúar 2005 til 15. júní 2005 1.000.584 krónur, innheimtuþóknun 596.138 krónur og virðisaukaskattur 146.054 krónur. Samtals 15.183.446 krónur. Frekari réttur fylgi ekki tryggingarbréfinu.

             Sóknaraðili heldur því fram að viðkomandi kröfuhafi hafi tekið við fjárhæð sem svaraði nákvæmlega til samþykktrar kröfu samkvæmt nefndu tryggingarbréfi og þar með hafi hann verið bundinn við að ráðstafa fjárhæðinni á eftirfarandi hátt:

1)  Skuldabréf nr. 310-74-12282

Höfuðstóll                     2.417.552 krónur

Dráttarvextir                  2.427.161 króna

Innheimtuþóknun                         314.865 krónur

Virðisaukaskattur                          76.296 krónur

Samtals                                       5.235.874 krónur

 

2) Tékkareikningur

Höfuðstóll                     11.023.118 krónur

Innheimtuþóknun                           281.273 krónur

Virðisaukaskattur                             69.758 krónur

Samtals                                      11.374.149 krónur

Þessar tvær sundurliðuðu kröfur nemi samtals 16.610.023 krónum og þannig nýtist úthlutunin að fullu til greiðslu viðkomandi skulda. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að þegar þessari uppgjörsaðferð sé fylgt sé krafa samkvæmt skuldabréfinu að fullu greidd að teknu tilliti til fyrningar dráttarvaxta, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Í annan stað reisir sóknaraðili kröfu sína um ógildingu fjárnámsins einnig á því að tryggingarbréf nr. 310-63-523 með veði í Kaupvangstorgi 1 hafi aldrei átt að standa til tryggingar kröfum sóknaraðila samkvæmt skuldabréfi nr. 310-74-12282. Sóknaraðili fullyrðir að fyrirsvarsmaður sóknaraðila, Brynjar Pálsson, hafi gert samkomulag við Birgi R. Rafnsson aðstoðarútibússtjóra eins og áður er getið. Í þessu samkomulagi hafi falist að viðaukinn við skuldabréfið hafi eingöngu átt að tryggja yfirdrátt á tveimur tékkareikningum en annað ekki.

Í þriðja lagi reisir sóknaraðili kröfu sína um ógildingu fjárnámsgerðarinnar á því að sóknaraðili sé ekki réttur aðili að kröfugerðinni þar sem kröfur varnaraðila hafi verið framseldar Landsbanka Íslands hf. eins og fram kom á fundi skiptastjóra þrotabús Brynjars Pálssonar með veðhöfum. Sóknaraðili hafi ekki séð nein gögn þess efnis að varnaraðili hafi öðlast rétt til framangreindra krafna að nýju. Fjárnámsbeiðni í máli þessu sé vegna skuldabréfs nr. 310-74-12282 sem lýst var að baki fyrrgreindu tryggingarbréfi með veði í Suðurgötu 1. Sóknaraðili telur að það skuldabréf hafi verið framselt Landsbanka Íslands hf. Af hálfu sóknaraðila hafi enginn sótt veðhafafundinn þrátt fyrir boð um slíkt og telur sóknaraðili það sanna að varnaraðili hafi ekki átt hagsmuna að gæta á fundinum.

Varakröfu sína byggir sóknaraðili á því að verulega meira hafi greiðst upp í kröfu sóknaraðila en gert er grein fyrir í aðfararbeiðni til sýslumanns. Sóknaraðili telur að krafa varnaraðila hafi nær alveg greiðst upp við sölu fasteignarinnar við Suðurgötu 1 samkvæmt skuldabréfi nr. 310-63-445 sem áður er getið.

 

Varnaraðili byggir á því að útreikningar sóknaraðila í kæru hans séu þýðingarlausir fyrir mál þetta. Þar fyrir utan meini ekkert kröfuhafa að ráðstafa veðinu á þann hátt sem hann telur best. Þá heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili reikni kröfu vegna tékkareiknings nr. 310-26-3264 ekki rétt. Í útreikningi sóknaraðila sé höfuðstóll skuldarinnar lækkaður um rúmar 2.000.000 króna, dráttarvöxtum sé sleppt og innheimtuþóknun lækkuð. Reikningsaðferð sóknaraðila sé órökstudd og ekki skýr. Auk þessa bendir varnaraðili á að dómur hafi gengið um gildi tékkareikningsins.

Varnaraðili heldur því fram að í lok árs 2004 hafi ábyrgðir, m.a. sjálfskuldarábyrgð Brynjars Pálssonar, vegna yfirdráttarheimilda á tékkareikningum nr. 310-26-3264 og 310-26-6255 verið að falla úr gildi. Varnaraðila hafi boðist allsherjarveð í formi tryggingarbréfs með veði í Kaupvangstorgi 1 í stað fyrri trygginga. Bréfið skyldi tryggja allar skuldir sóknaraðila, Umboðsþjónustu Brynjars ehf. og Brynjars Pálssonar við varnaraðila. Við gerð viðauka við bréfið hafi ekki verið getið neinna takmarkana á veðsetningunni heldur segi skýrum orðum í viðaukanum að tryggingarbréfið skuli einnig vera til tryggingar öllum skuldum þeirra við varnaraðila. Varnaraðili byggir á því að ekkert samkomulag hafi verið gert þess efnis að tryggingarbréfið eigi einungis að vera til tryggingar skuldum á tékkareikningum nr. 310-26-3264 og 310-26-6255 eins og sóknaraðili haldi fram. Slíkt sé í andstöðu við efni bréfsins sjálfs sem segi að það tryggi skuldir þriggja aðila eins og áður er getið. Varnaraðili bendir á að hann hafi lýst kröfu að fjárhæð 2.871.706 krónur í þrotabú Brynjars Pálssonar vegna tékkareiknings nr. 310-26-6255 en ekkert hafi komið upp í þá kröfu né aðrar almennar kröfur sem varnaraðili lýsti í þrotabúið.

Varnaraðili hafnar algerlega sem órökstuddum hugleiðingum sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki átt aðild að málinu. Skuldabréf nr. 310-74-12282 hafi verið í eigu varnaraðila frá upphafi og hafi ekki verið framselt. Samkvæmt reglum um viðskiptabréf beri skuldara að greiða þeim sem hefur bréf löglega í fórum sínum. Orðalag í bókun á veðhafafundi geti ekki breytt þessu sérstaklega þar sem varnaraðili átti ekki aðild að þeim fundi og ritaði ekki samþykki sitt fyrir því sem þar fór fram. Varnaraðili bendir á að skuldabréf nr. 310-74-12282 sé ekki veðskuldabréf og hvíli ekki samkvæmt efni sínu á fasteigninni Suðurgötu 1, Sauðárkróki.

Varnaraðili hafnar fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að krafa hans sé vanreifuð. Hann bendir á að þær kröfur sem hvíldu á fasteigninni Suðurgötu 1 voru tvö veðskuldabréf útgefin af Brynjari Pálssyni og þau hafi greiðst að fullu svo og tryggingarbréf nr. 310-63-445 er tryggði skuldir Umboðsþjónustu Brynjars ehf. við varnaraðila. Uppreiknað hafi það staðið í 16.610.023 krónum. Skuldir Umboðsþjónustu Brynjars ehf. við varnaraðila hafi fyrir framsal kröfu samkvæmt tékkareikningi nr. 310-26-3264 numið 23.516.216 krónum. Því segist varnaraðili ekki geta séð hvernig sala fasteignarinnar við Suðurgötu 1 hafi getað greitt upp allar kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila.

Varnaraðili bendir á að hér sé um að ræða fullgilt skuldabréf samkvæmt reglum sem gilda um viðskiptabréf. Skuldabréfið innihaldi skriflega yfirlýsingu sem standi efnislega sjálfstæð ásamt því að þar lofar útgefandi einhliða að greiða ákveðna fjárhæð. Bréfið sé gefið út af útgefanda og undirritað af ábyrgðarmanni. Þá sé það framseljanlegt og vottað eins og lög áskilja. Þá hafi varnaraðili fullgilt tryggingarbréf sem sé undirritað um veðsetningu af þar til bærum aðilum og því hafi verið þinglýst án athugasemda á fasteignina Kaupvangstorg 1.

Varðandi kröfu sóknaraðila um framlagningu gagna þá kveðst varnaraðili hafa afhent frumrit tryggingarbréfs nr. 310-63-445 við framsal þess eins og reglur gera ráð fyrir. Ljósrit bréfsins liggi hins vegar frammi í málinu. Varðandi kröfu um framlagningu framsalsgerninga vegna framsals á veðskuldabréfum nr. 310-74-15499 og nr. 310-74-11274 og tékkareikningi nr. 310-26-3264 þá vísar hann til veðskuldabréfanna sjálfra og yfirlýsingar Landsbanka Íslands hf. Bréfin hafi verið árituð um framsal eins og reglur um framsal slíkra viðskiptabréfa gera ráð fyrir.

Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til laga nr. 90/1989 um aðför, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, laga nr. 39/1978 um þinglýsingar og laga nr. 75/1997 um samningsveð. Einnig vísar hann til meginreglna kröfuréttar, sérstaklega reglna um viðskiptabréf og meginreglna samningaréttar, sem m.a. fá stoð í lögum nr. 7/1936. Málskostnaðarkröfu sína reisir varnaraðili á lögum um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga um aðför. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Niðurstaða

             Grundvöllur fjárnáms þess sem um er deilt í málinu er skuldabréf nr. 310-74-12282. Í endurriti úr gerðabók sýslumannsins á Sauðárkróki kemur fram að gert hafi verið fjárnám í tryggingarbréfi nr. 310-63-523 sem hvílir á 2. veðrétti í fasteigninni nr. 1 við Kaupvangstorg á Sauðárkróki.

             Ekki verður fallist á með sóknaraðila að fella beri fjárnámið úr gildi vegna aðildarskorts. Meðal gagna málsins er yfirlýsing frá Landsbanka Íslands þar sem fram kemur að bankinn hafi ekki fengið nefnt skuldabréf framselt þegar bankinn keypti nokkrar aðrar kröfur af varnaraðila í tengslum við sölu á Suðurgötu 1. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að þessi yfirlýsing sé röng.

Eins og áður er rakið heldur sóknaraðili því fram að hann hafi gert munnlegt samkomulag við aðstoðarútibússtjóra varnaraðila á Sauðárkróki þess efnis að tryggingarbréf nr. 310-63-523 væri eingöngu til tryggingar tveimur tékkareikningum. Forsvarsmaður sóknaraðila, Brynjar Pálsson, bar fyrir dóminum að hann hefði boðið tryggingarbréf með veði í Kaupvangstorgi 1 sem ábyrgð fyrir tékkareikningunum. Annar hafi verið á hans nafni nr. 3264 en hinn hafi verið í eigu Umboðsþjónustu Brynjars ehf. nr. 6255 en ábyrgðir vegna reikninganna hafi verið að falla úr gildi og varnaraðili hafi talið að hætta væri á því að ekki fengist nægilega hátt verð fyrir Suðurgötu 1. Af þessum sökum hafi hann boðið tryggingarbréfið til tryggingar fyrir reikningunum og fyrri ábyrgðir hafi fallið niður. Aldrei hafi staðið til að tryggingarbréfið tryggði aðrar skuldir hans persónulega eða aðrar skuldir Umboðsþjónustu Brynjars ehf. Síðar hafi komið í ljós að varnaraðili hafði fengið greiddar að fullu skuldir vegna þessara tékkareikninga og því hafi hann óskað eftir að fá tryggingarbréfið afhent en það hafi ekki gengið eftir. Fyrir honum hafi ekki annað verið útskýrt en að bréfið ætti að vera ábyrgð fyrir þessum tveimur reikningum og engu öðru. Vitnið Birgir Rafn Rafnsson, aðstoðarútibússtjóri varnaraðila á Sauðárkróki, bar fyrir dóminum að sjálfskuldarábyrgðir sem hafi verið að baki tveimur reikningum hafi verið að renna út. Brynjar Pálsson hafi boðið þessa veðtryggingu í staðinn og það hafi verið þegið. Vitnið bar að tryggingin hafi verið allsherjarveð en slík veð séu hugsuð til lengri tíma og þá geti bæði bankinn og viðskiptamaður hans nýtt slíkar tryggingar í eitthvað annað og því hafi ekki komið til greina að takmarka veðið við þessa tvo reikninga. Vitnið bar að ekki hafi verið rætt um skuldabréf nr. 310-74-12282 í þessu sambandi, eingöngu hafi verið rætt um þessa tvo reikninga. Vitnið kvaðst ekki geta gefið neinar skýringar á því hvers vegna nefnt skuldabréf var ekki innheimt en það féll í gjalddaga á árinu 2000. Vitnið kvað tryggingarbréfið hafa verið sent til lögfræðideildar sóknaraðila þegar bú Brynjars Pálssonar var tekið til gjaldþrotaskipta. Hann bar að þegar tryggingarbréfið var útbúið í lok árs 2004 hafi ekki legið fyrir að hætta vofði yfir að bú Brynjars Pálssonar væri á leið í gjaldþrotaskipti. Vitnið kvað það ekki hafa verið neitt launungarmál að tryggingarbréfið hafi í upphafi átt að tryggja þessa tvo reikninga en hugsunin hafi engu að síður verið sú að unnt væri að nýta það varðandi aðrar skuldbindingar síðar, bæði fyrir bankann og viðskiptamanninn.

Framburður vitnisins Birgis Rafnssonar bendir til þess að upphaflega hafi hugsunin verið sú að bréfið stæði eingöngu til tryggingar þeim tékkareikningum sem nefndir hafa verið. Hins vegar taldi vitnið að bréfið væri hugsað til lengri tíma og gæti því einnig tryggt aðrar skuldbindingar. Þar sem nokkur vafi leikur á því hvað bréfið átti að tryggja verður ekki unnt að fallast á þá málsástæðu sóknaraðila að það hafi eingöngu átt að tryggja tékkareikningana tvo og er þá sérstaklega horft til þess að bréfið sjálft ber ekki með sér að svo hafi verið. Hér er um að ræða tryggingarbréf sem þinglýst hefur verið á fasteign og verða því að liggja fyrir ótvíræðar sannanir fyrir því að það hafi átt að tryggja annað en efni þess ber með sér. Verður þessi málsástæða sóknaraðila því ekki tekin til greina.

             Sóknaraðili heldur því fram að skuldabréfið sé að fullu greitt með því fé sem varnaraðili átti að fá af uppboðsandvirði fasteignarinnar nr. 1 við Suðurgötu. Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa lýst tveimur kröfum að baki tryggingarbréfi sem hvíldi á 4. veðrétti nefndrar eignar. Annars vegar hafi þar verið um að ræða títtnefnt skuldabréf nr. 310-74-12282 og hins vegar kröfu vegna tékkareiknings nr. 310-26-3264. Heldur sóknaraðili því fram að varnaraðila hafi verið óheimilt að ráðstafa því fé sem fékkst greitt vegna tryggingarbréfsins með þeim hætti sem gert var. Varnaraðili hafi verið bundinn af ákvörðun skiptastjóra sem hafi verið í samræmi við kröfulýsingu varnaraðila vegna tryggingarbréfsins. Þar hafi höfuðstólsfjárhæð verið 13.440.670 krónur og aðrar fjárhæðir hafi orðið að taka mið af þeim höfuðstól. Gögn málsins bendi hins vegar til þess að tékkareikningskrafan hafi greiðst að fullu með 16.546.877 krónum og 63.146 krónum hafi verið ráðstafað til greiðslu inn á skuldabréfið nr. 310-74-12282. Samtals 16.610.023 krónur. Hins vegar hafi höfuðstóll tékkareiknings-kröfunnar samkvæmt kröfulýsingu varnaraðila verið 14.366.757 krónur og því hærri en höfuðstóll tryggingarbréfsins. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðila hafi borið að taka fyrst fé af uppboðsandvirðinu til greiðslu á skuldabréfi nr. 310-74-12282 og það hafi því greiðst að fullu. Eftirstöðvunum hefði síðan átt að ráðstafa upp í skuld vegna tékkareikningsins.

             Ekki er um það deilt að varnaraðili hafi réttilega lýst kröfum sínum í þrotabú Brynjars Pálssonar og að hann hafi átt rétt á að fá greitt upp í kröfur sínar þá fjárhæð sem kom til úthlutunar vegna tryggingarbréfsins sem upphaflega hvíldi á 5. veðrétti að Suðurgötu 1. Sóknaraðili hefur ekki fært fyrir því gild rök hvers vegna ætti að ráðstafa uppboðsandvirðinu fyrst til greiðslu á skuldabréfi nr. 310-74-12282 áður en greitt yrði upp í skuldina samkvæmt tékkareikningnum. Verður því ekki fallist á þá kröfu hans að fella beri fjárnámið úr gildi vegna þess að skuldabréfið sé að fullu greitt.

             Áður er þess getið að ósannað er að tryggingarbréfið nr. 310-63-523 hafi eingöngu verið til tryggingar tveimur tékkareikningsskuldum. Bréfið stendur því til tryggingar öllum skuldum Umboðsþjónustu Brynjars ehf., Brynjars Pálssonar og Júllans ehf. við varnaraðila. Ef sú leið hefði verið farin að ráðstafa uppboðsandvirðinu upp í skuldabréfið fyrst og síðan upp í tékkareikningskröfuna hefði staðið eftir skuld vegna tékkareikningsins nr. 310-26-3264 sem var á nafni Umboðsþjónustu Brynjars ehf. Verður því ekki séð að sóknaraðili geti sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni þar sem tryggingarbréf nr. 310-63-523 átti meðal annars að vera til tryggingar skuldum umboðsþjónustunnar. Með hliðsjón af þessu breytti það engu fyrir sóknaraðila hvort krafan samkvæmt skuldabréfinu nr. 310-74-12282 var greidd á undan kröfu samkvæmt tékkareikningnum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er aðal- og varakröfum sóknaraðila hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ingvar Þóroddsson héraðsdómslögmaður en af hálfu varnaraðila Karl Óttar Pétursson héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan. 

ÚRSKURÐARORÐ

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Júllans ehf., þess efnis að fjárnámsgerð sýslumannsins á Sauðárkróki nr. 21-2006-155 verði ógilt. Kröfu sóknaraðila þess efnis að efni fjárnámsgerðarinnar verði breytt og hún lækkuð verulega er einnig hafnað.

Málskostnaður fellur niður.