Hæstiréttur íslands

Mál nr. 657/2016

Landsbankinn hf. (Hannes J. Hafstein hdl.)
gegn
Margeiri Vilhjálmssyni (Gestur Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L hf. á hendur M var vísað frá dómi vegna vanreifunar. Talið var að annmarkar þeir sem M taldi vera á málatilbúnaði L hf. lytu ekki að málsgrundvellinum heldur að sönnun þess að L hf. ætti þá fjárkröfu sem hann gerði í málinu. Hefði M ekki getað dulist hver krafan var, hvernig hún væri tilkomin og hvernig L hf. hygðist rökstyðja hana. Þá hefðu aðilar ekki lýst gagnaöflun lokið þegar málið var flutt um frávísunarkröfu M. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 3. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í stefnu til héraðsdóms kemur fram að krafan sé vegna yfirdráttarskuldar á tilgreindum tékkareikningi sem varnaraðili stofnaði hjá Sparisjóðinum í Keflavík á árinu 1993. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 var tilteknum eignum og skuldum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til Spkef sparisjóðs. Þá tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 5. mars 2011 um að afturkalla starfsleyfi Spkef sparisjóðs frá og með 7. sama mánaðar, en þann dag tæki sóknaraðili, sem þá hét NBI hf., við rekstri, eignum og skuldum sparisjóðsins. Í stefnunni kemur fram að reikningnum hafi verið lokað 31. júlí 2012 og nemi uppsöfnuð skuld varnaraðila stefnufjárhæðinni. Við þingfestingu málsins lagði sóknaraðili fram, auk stefnu og skrár um framlögð skjöl, ,,reikningaskrá“, innheimtuviðvörun, innheimtubréf og yfirlit yfir innheimtukostnað fyrir löginnheimtu.

Annmarkar þeir sem varnaraðili telur á málatilbúnaði sóknaraðila lúta ekki að málsgrundvellinum heldur að sönnun þess að hann eigi þá kröfu, sem hann gerir í málinu. Gat varnaraðila ekki dulist hver krafan var, hvernig hún var til komin og hvernig sóknaraðili hugðist rökstyðja hana. Þá höfðu aðilar ekki lýst gagnaöflun lokið þegar málið var flutt um frávísunarkröfu varnaraðila. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili lagt fram reikningsyfirlit umrædds reiknings á tímabilinu frá 4. febrúar 2011 til 31. desember 2015. Á þeim kemur fram að hafi viðtakandi athugasemdir við þau beri honum að tilkynna það sóknaraðila innan 20 daga frá móttöku þeirra en annars teljist reikningurinn réttur. Varnaraðili hefur ekki borið því við að yfirlitin hafi ekki verið send honum og verður ekki ráðið af gögnum málsins að hann hafi gert athugasemd við efni þeirra.

Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili lagt nægilega skýran grundvöll að máli sínu á hendur varnaraðila og eru ekki efni til að vísa því frá héraðsdómi vegna vanreifunar, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 3. mars 2003 í máli nr. 57/2003, 17. apríl 2008 í máli nr. 169/2008 og 20. apríl 2010 í málum nr. 186/2010 og 187/2010. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Margeir Vilhjálmsson, greiði sóknaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2016

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 1. september 2016, var höfðað 12. mars 2016 af hálfu Landsbankans hf., Austurstræti 11 í Reykjavík vegna Landsbankans hf., Keflavík, Tjarnargötu 12 í Reykjanesbæ, á hendur Margeiri Vilhjálmssyni, Gvendargeisla 130 í Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru svohljóðandi: „Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 2.617.626,00 ásamt yfirdráttarvexti sem eru 12,45%, frá lokunardegi reiknings þann 31.07.2012 til 17.09.2012 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 2.617.626,00 frá 17.09.2012 til greiðsludags. Inná skuldina hefur verið greidd innborgun 01.11.2013 kr. 282.877,00; og dregst hún frá skuldinni m.v. stöðu hennar á innborgunardegi. Innborgunum er fyrst ráðstafað til greiðslu áfallins kostnaðar af vanskilum, þá til greiðslu vaxta og að lokum til lækkunar höfuðstóls. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til kemur. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til innheimtukostnaðar fyrir löginnheimtu í samræmi við heimildir.“

Dómkröfur stefnda eru svohljóðandi: „Þess er krafist að málinu verði vísað frá dómi.

Til vara er krafist sýknu af kröfum stefnanda eða lækkunar kröfunnar. Þá er krafist málskostnaðar. Við ákvörðun málskostnaðarins verði tekið tillit til þess að stefndi hefur ekki frádráttarrétt vegna kostnaðar af virðisaukaskattskyldu lögmannsþjónustu.“

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar aðalkrafa stefnda, hér sóknaraðila, um að málinu verði vísað frá dómi. Stefnandi, sem hér er varnaraðili, krefst þess að kröfu stefnda um frávísun málsins verði hafnað. Af hálfu beggja aðila er krafist málskostnaðar að mati dómsins í þessum þætti málsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Óumdeilt er að stefndi var viðskiptamaður Sparisjóðsins í Keflavík og stofnaði þar reikning nr. 1784 á árinu 1993. Stefndi kveðst hafa notað reikninginn sem krafan er gerð út af frá árinu 1993 fram á árið 2009, en kveðst frá þeim tíma ekkert hafa notað reikninginn. Stefnandi kveður yfirdráttarheimild á reikningi stefnda hafa runnið út án þess að uppsöfnuð skuld á honum væri greidd. Reikningnum hafi verið lokað 31. júlí 2012. Þá hafi skuldin verið 2.617.626 krónur og hafi stefnda verið sent innheimtubréf 17. ágúst 2012. Innborgun 1. nóvember 2013, að fjárhæð 282.877 krónur, dragist frá skuldinni, en eftirstöðvar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir. Styður stefnandi dómkröfu sína við reglur samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga, vaxtakröfur við lög nr. 38/2001 og kröfu um málskostnað við lög um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lög nr. 50/1988.

Stefndi bendir í greinargerð sinni á, að í stefnunni komi ekki fram hvaða úttektir myndi höfuðstól kröfunnar og að þar komi hvorki fram hvaða heimild hafi verið á hlaupareikningnum né hvenær hún hafi runnið út. Sagt sé að 282.877 krónur hafi verið greiddar inn á skuldina á reikningnum 1. nóvember 2013, en þess sé ekki getið að það hafi ekki verið stefndi sem greitt hafi inn á reikninginn heldur stefnandi. Innborgunin hafi verið vegna skilvísra greiðslna húsnæðislána og hafi Landsbankinn tekið ákvörðun um að færa fjárhæðina inn á umræddan reikning án alls samráðs við stefnda. Engin gögn séu lögð fram af hálfu stefnanda um það hvernig stefnufjárhæðin sé fundin og hvergi sé skilið á milli þess sem sé raunverulegur höfuðstóll (úttektir eða lán) og hins sem séu vextir og/eða kostnaður. Krafa stefnanda um höfuðstól skuldarinnar sé því vanreifuð.

Stefnandi vísar um aðild sína að málinu til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins (FME) 22. apríl 2010 um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til Spkef sparisjóðs og ákvörðunar FME 5. mars 2011 um að NBI hf., nú stefnandi, tæki við rekstri, eignum og skuldbindingum Spkef sparisjóðs. Stefndi kveðst engin viðskipti hafa átt við Spkef sparisjóð eða NBI hf. á þeim reikningi sem sagt sé að hafi verið lokað 31. júlí 2012. Sögu Sparisjóðsins í Keflavík hafi lokið 22. apríl 2010 þegar eignum Sparisjóðsins hafi verið ráðstafað til nýs aðila, Spkef sparisjóðs. Í 13. tölulið ákvörðunar FME þar um hafi framsal kröfuréttindanna verið með þeirri forsendu að skuldajöfnunarréttur skuldara gagnvart Sparisjóðnum eða þrotabúi hans skyldi haldast.

Stefndi kveður Landsbankann hafa hafið tilraunir til innheimtu þeirrar kröfu sem mál þetta snýst um árið 2012. Stefndi leggur fram reikning frá stefnda til Sparisjóðsins í Keflavík og gögn um samskipti milli lögmanns stefnda og lögmanna bankans um gagnkröfu stefnda vegna vinnu fyrir Sparisjóðinn, sem hann vildi nota til skuldajafnaðar gegn dómkröfunni. Verkið hafi verið unnið í ágúst til nóvember 2009 og hafi stefndi sent Sparisjóðnum reikning sinn ásamt tímaskýrslu 1. febrúar 2010. Á reikningnum er þess óskað að fjárhæð hans, 2.494.800 krónur, leggist inn á bankareikning nr. 1784, en reikningur stefnda mun hafa verið ógreiddur þegar FME tók yfir starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík. Stefndi kveður gagnkröfunni ekki hafa verið mótmælt af hálfu stefnanda, sem telji hana þó ekki tæka til skuldajöfnunar.

Sýknukrafa stefnda af dómkröfunni byggist á því að krafa stefnanda hafi þegar verið greidd með skuldajöfnuði. Krafa um lækkun hennar styðst við það að viðskiptum stefnda við Sparisjóðinn í Keflavík í gegnum reikning 1784 hafi lokið á árinu 2009 og telur stefndi einhliða ákvörðun stefnanda um að tekjufæra reikninginn um 282.877 krónur síðar ekki hafa verið viðskipti sem slitið geti fyrningu. Einhliða ákvarðanir Landsbankans um lokun reikningsins árið 2012 eða um færslu dráttarvaxta og kostnaðar á reikninginn skapi ekki slíkan rétt. Krafa stefnanda hafi orðið gjaldkræf á árinu 2009 og sé sá hluti kröfunnar sem saman standi af vöxtum og/eða kostnaði því löngu fyrndur skv. lögum nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda.

Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðila fyrir frávísunarkröfu

Stefnandi hafi engin gögn lagt fram um þá kröfu sem hann telji sig eiga önnur en eigið gagn um lokun reiknings á árinu 2012 og gögn um innheimtutilraunir. Enga lýsingu sé að finna á því hvenær krafan hafi stofnast eða hvernig. Engar upplýsingar séu um samsetningu kröfunnar í höfuðstól, vexti og/eða kostnað. Engin lýsing sé á heimildum stefnda í viðskiptum við Sparisjóðinn í Keflavík eða hvenær gjalddagi hafi verið. Hafi gjalddagi verið þegar heimild hafi runnið út vanti lýsingu þess. Með þessari vanreifun sé brotið gegn ákvæði d-liðs 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála og beri því að vísa málinu frá dómi.

Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnda jafnframt vísað til þess að allar röksemdir stefnanda eigi að koma fram í stefnu og samkvæmt g-lið framangreinds lagaákvæðis beri þar að geta allra helstu gagna, bæði þeirra sem stefnandi hafi til sönnunar og þeirra sem hann telji sig enn þurfa að afla, en það hafi ekki verið gert.

Helstu málsástæður og lagarök varnaraðila gegn frávísunarkröfu

Af hálfu stefnanda var í munnlegum málflutningi á því byggt að skilyrðum d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, sem stefndi vísi til í greinargerð, sé fullnægt í stefnu þar sem í dómkröfum sé gerð grein fyrir höfuðstól kröfunnar, sem gjaldfelld hafi verið á lokunardegi reiknings. Gerð sé grein fyrir því að reikningurinn hafi verið stofnaður árið 1993 og að honum hafi verið lokað á árinu 2012. Krafa sé gerð um dráttarvexti frá tilteknum degi og gerð sé grein fyrir innborgun sem komi til frádráttar, en þá innborgun hafi bankinn innt af hendi umfram skyldu.

Stefndi hafi ítrekað verið upplýstur um stöðu reikningsins með reikningsyfirlitum og í raun sé enginn ágreiningur um réttmæti kröfu stefnanda, sem óþarft hafi verið að gera frekari grein fyrir í stefnu. Ágreiningur aðila lúti aðeins að því hvort stefnda hafi verið heimilt að skuldajafna kröfu sinni á hendur Sparisjóðnum við skuldina á reikningnum. Stefnukrafan byggist á stöðu reiknings við lokun hans, sem lögð hafi verið fram gögn um. Gagnaöflun hafi ekki verið lýst lokið og stefnandi eigi að hafa tækifæri til að bregðast við áskorun í greinargerð um frekari framlagningu gagna.

Niðurstaða

Fyrirmæli 1. mgr. 80. gr. og 95. gr. laga nr. 91/1991 miða að því að tryggja að ljóst sé á frumstigi dómsmáls með hvaða röksemdum og í meginatriðum á hvaða gögnum stefnandi hyggst styðja kröfur sínar. Ákvæði 80. gr. laganna um efni stefnu eiga sér ekki síst þann tilgang að tryggja stefnda rétt til að kynna sér málatilbúnað stefnanda í því skyni að eiga þess sanngjarnan kost að verjast kröfum hans að því er alla þætti þeirra varðar.

Í stefnu er ekki að finna neina útskýringu eða sundurliðun á því hvernig höfuðstóll kröfunnar er til kominn. Stefnandi hefur lagt fram útprentun, dags. 8. ágúst 2012, þar sem fram kemur að staða á reikningi stefnda sé skuld að fjárhæð 2.617.262 krónur. Þá leggur stefnandi fram með stefnu afrit af innheimtuviðvörun, sem ber með sér að hafa verið send stefnda 9. janúar 2012 og er þar vakin athygli á að yfirdráttarskuld á reikningi hans sé 2.431.963 krónur. Auk birtingarvottorðs og skjalaskrár og þessara tveggja skjala fylgdi stefnu við þingfestingu hennar afrit innheimtubréfs frá lögfræðiinnheimtu NBI hf., dags 17. ágúst 2012, og upplýsingar um áfallinn innheimtukostnað „motus“, dags. 12. febrúar 2016. Þar með eru gögn þau sem fylgdu stefnunni tæmandi talin, en efni stefnunnar er að mestu rakið hér að framan.

Engin yfirlit um hreyfingar á bankareikningnum eru fyrir hendi eða aðrar upplýsingar um úttektir stefnda af reikningnum, hvorki um fjárhæðir úttekta né dagsetningar þeirra. Þá liggur ekkert fyrir um heimild stefnda til að yfirdraga reikning sinn, hvorki um fjárhæð né tímamörk slíkrar heimildar. Af þeim gögnum sem stefnandi lagði fram með stefnu verður aðeins ráðið hverja hann telur heildarfjárhæð skuldar stefnda við sig vera, annars vegar 9. janúar 2012 og hins vegar 8. ágúst sama ár, og hafði skuldin þá hækkað. Samkvæmt framansögðu er ekki ljóst hvernig stefnufjárhæðin er fundin og er engin tilraun gerð til þess að skýra það í stefnu eða í gögnum sem henni fylgdu.

Haldlaus er sú málsástæða stefnanda, sem fram kom við munnlegan málflutning, að óþarft hafi verið að gera nánari grein fyrir kröfunni í stefnu þar sem hún sé óumdeild og vegna þess að ágreiningur aðila snúist aðeins um það hvort skuldin hafi þegar verið greidd með skuldajöfnuði. Ekki var vikið að þessu í stefnunni, en þar er greint frá því að innheimtutilraunir hafi reynst árangurslausar. Þessi atvik veita stefnanda enga heimild til að víkja frá fyrirmælum réttarfarslaga um efni stefnu. Sundurliðun kröfunnar og upplýsingar um atvik að innborgun á reikninginn eru atriði sem skipt geta máli fyrir málsvarnir stefnda, m.a. vegna lagareglna um fyrningartíma.

Að öllu framangreindu virtu þykir stefnandi ekki hafa lagt þann grundvöll að málinu sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður. Málatilbúnaði stefnanda er svo áfátt að hann fullnægir ekki kröfum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málatilbúnaður hans er vanreifaður og er hann til þess fallinn að takmarka möguleika stefnda til að halda uppi vörnum í málinu. Verður því fallist á aðalkröfu stefnda og máli þessu verður vísað frá dómi.

Með vísun til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem ákveðinn er 300.000 krónur.

Úrskurðinn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Landsbankinn hf., greiði stefnda, Margeiri Vilhjálmssyni, 300.000 krónur í málskostnað.