Hæstiréttur íslands
Mál nr. 49/2001
Lykilorð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Kærumál
|
|
Föstudaginn 23. febrúar 2001. |
|
Nr. 49/2001. |
Björn Baldursson (sjálfur) gegn íslenska ríkinu (enginn) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
B kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bótamáli hans á hendur Í var vísað frá dómi. Í stefnu voru málsatvik og samhengi þeirra við málsástæður ekki nægjanlega reifuð og dómkröfur B ekki studdar haldbærum rökum. Þá var gagnaöflun B áfátt, auk þess sem framlagning hans á skjölum fór í bága við meginreglu 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Talið var að málatilbúnaður B í héraði hefði verið haldinn slíkum annmörkum að ekki yrði hjá því komist að vísa málinu frá dómi, enda yrði ekki bætt úr þeim undir rekstri málsins. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. febrúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til efnislegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sína taka fyrir Hæstarétti.
Á málatilbúnaði sóknaraðila eru þeir annmarkar sem í forsendum hins kærða úrskurðar greinir. Á það einnig við um tilgreiningu sóknaraðila í stefnu á því hverja hann hyggst leiða fyrir dóm til skýrslugjafar. Í þeim þætti stefnunnar nafngreinir sóknaraðili tvo lækna, auk eins prófessors, sem hann hyggst leiða fyrir dóm. Jafnframt segir: ,,Ennfremur mun stefnandi leiða þá sem komið hafa að málinu síðan 1987 sem vitni, eftir því sem nauðsyn krefur og andmæli og málflutningur stefnda gefur tilefni til.“ Þótt h. liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 verði ekki skýrður svo að alltaf sé gerð krafa um tæmandi talningu þeirra, sem leiða á fyrir dóm til skýrslugjafar í máli, er sú tilgreining sóknaraðila, sem að framan greinir, ófullnægjandi.
Auk þess hefur sóknaraðili enga grein gert fyrir því hvers vegna honum beri réttur til að fá bætur úr hendi varnaraðila vegna útlagðs sérfræðikostnaðar í þágu sonar hans, Aðalsteins Bjarna. Var slíkt nauðsynlegt í ljósi þess að 7. janúar 1997 og 10. mars 1998 fór fram uppgjör milli varnaraðila og móður drengsins, sem fór með forsjá hans, meðal annars á útlögðum sérfræðikostnaði, sem inntur hafði verið af hendi í hans þágu.
Þá eru kröfur sóknaraðila um almenna vexti, eins og þær eru settar fram í stefnu, ekki í samræmi við fyrirmæli d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Með vísan til þess sem að framan greinir og forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2001.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar um framkomna frávísunarkröfu stefnda 22. desember sl. er höfðað af Birni Baldurssyni, kt. 290348-3239, Nesvegi 3, Höfnum, á hendur íslenska ríkinu, kt. 540269-6459, Arnarhvoli við Lindargötu í Reykjavík, með stefnu birtri 23. febrúar 2000.
Í stefnu er þannig gerð grein fyrir dómkröfum:
1.Umönnunarbótakrafa. Vegna umönnunar Aðalsteins Bjarna Björnssonar á tímabilinu frá 12.1.1987 til 24.7.1995, 4.999.982 krónur með 9% ársvöxtum frá 12.1.1987 til 21.1.1987, 10% ársvöxtum frá þeim degi til 21.2.1987 og 11% ársvöxtum frá þeim degi til 15.4.1987. Frá síðastnefndum degi krefst stefnandi vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 til 22.12.1996, en frá þeim degi er krafist dráttarvaxta skv. III. kafla sömu laga, af höfuðstól og áföllnum vöxtum til greiðsludags.
2. Krafa vegna sérstaks heimilishalds vegna Aðalsteins Bjarna. Vegna reksturs heimilis með hliðsjón af þörfum hans frá árinu 1989 til 1995 krefst stefnandi 2.970.249 króna með dráttarvöxtum frá 31.12.1991 til greiðsludags.
3. Örorkubótakrafa vegna tímabundinnar og varanlegrar örorku stefnanda. Vegna tímabundinnar örorku krefst stefnandi aðallega 10.800.000 króna bóta miðað við meðallaun háskólamenntaðra starfsmanna í ríkisþjónustu en til vara 3.546.954,75 króna á grundvelli verðmætis mannlegs lífs, með dráttarvöxtum frá 1.9.1995 til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi kröfu um vexti skv. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Þá krefst stefnandi 4.704.000 króna bóta vegna 100% varanlegs miska eftir 30.6.1999.
4. Krafa vegna missis efnahagsmannorðs. Stefnandi krefst 10.000.000 króna í miskabætur vegna missis efnahagsmannorðs.
5. Krafa um greiðslu útlagðs kostnaðar vegna Aðalsteins Bjarna. Samkvæmt greiddum reikningum krefst stefnandi 89.856 króna með dráttarvöxtum frá 21.9.1995 til greiðsludags.
6. Krafa um málskostnað að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Af hálfu stefnda eru aðallega gerðar þær dómkröfur að málinu verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar. Í öllum tilvikum er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.
Í frávísunarþætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að honum verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins.
Málsatvik
Í málsatvikalýsingu stefnanda kemur fram að þann 6. janúar 1987 hafi stefnanda og Rut Skúladóttur fæðst á fæðingardeild Landspítalans, tvíburasynirnir Aðalsteinn Bjarni og Bergsteinn Björn. Drengirnir hafi dafnað vel fyrstu dagana en þann 12. s.m. hafi Aðalsteinn skyndilega orðið veikur. Við rannsókn á vökudeild hafi komið í ljós að hann hafði sýkst af entrobakter sakasaki og hafi honum vart verið hugað líf næstu sólarhringana. Á árinu 1988 hafi komið í ljós að sýkingin hafði orðið fyrir handvöm starfsmanna spítalans. Yfirmenn Landspítalans hafi lýst sök á hendur sér. Síðar hafi ríkislögmaður fyrir hönd heilbrigðis- og fjármálaráðherra lýst því yfir að ríkið viðurkenndi bótaskyldu sína í málinu og að tjón vegna áfallsins yrði greitt úr ríkissjóði.
Síðari læknisrannsóknir hafi staðfest að Aðalsteinn var alvarlega heilaskaddaður. Þá hafi einnig komið í ljós að hann var flogaveikur og hafi hann fengið tugi flogakasta á dag þannig að stöðugt hafi orðið að fylgjast með honum. Við þetta hafi bætst vökvasöfnun í heila. Vegna heilabólgunnar hafi heilavökvaop lokast og hafi höfuð hans því stækkað hratt vegna vökvasöfnunar í heilanum. Á fjögurra ára tímabili hafi Aðalsteinn gengist undir margar heilaskurðsaðgerðir vegna þessa sjúkdómsástands og sé hann frá þeim tíma með slöngu úr heila niður í kviðarhol til að létta vökvanum af heilanum. Þann 20. október 1996 hafi Jónas Hallgrímsson læknir metið Aðalstein Bjarna 90% varanlegan öryrkja.
Eftir fæðingu Aðalsteins hafi móðir hans orðið alvarlega bakveik og hafi hún átt í þeim veikindum allt til ársins 1994 1995. Við þessar aðstæður hafi stefnandi tekið að sér sem aðalverkefni frá janúar 1987 að annast Aðalstein með þátttöku móður hans, eftir því sem geta hennar leyfði. Þetta viðfangsefni stefnanda hafi staðið til ágúst mánaðar 1988, en þá hafi stefnandi farið til útlanda. Á næstu mánuðum hafi móðir Aðalsteins fengið starfsmenn Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar til aðstoðar. Þá hafi foreldrarnir einnig ráðið aðstoðarfólk á eigin vegum. Þetta starfslið hafi entst illa og hafi sumt ekki þóttst hafa komist í erfiðari vinnu. Stefnandi hafi komið aftur til landsins í desember 1988 og hafi báðir foreldrarnir af fenginni reynslu talið að eina leiðin væri sú að stefnandi tæki að sér umönnunarstarfið með Aðalsteini, að minnsta kosti fyrst um sinn. Hafi stefnandi við svo búið gengið inn í heimilishjálparsamning móðurinnar við Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Stefnandi hafi þá lýst því yfir við stjórnendur stofnunarinnar að hann teldi ríkið vera þann aðila sem standa ætti undir umönnunarstarfinu og að ætlun hans væri að krefja ríkið launa fyrir umönnunina og yrði Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar þá endurgreitt það fé sem stofnunin greiddi með þessum hætti til stuðnings fjölskyldu stefnanda vegna veikinda Aðalsteins.
Við þessar aðstæður hafi stefnandi jafnframt reynt að bjarga efnahag foreldranna, sem orðið hafi fyrir alvarlegum skakkaföllum á fyrstu fjórum og verstu veikindaárum Aðalsteins, en þeir hafi báðir verið með nýbyrjaða atvinnustarfsemi þegar veikindaáfallið dundi yfir. Auk umönnunarstarfsins hafi stefnandi unnið að réttindabaráttu fyrir Aðalstein m.a. vegna þjálfunar- og skólamála hans. Störf stefnanda hafi staðið með framangreindum hætti til 24. júlí 1995, en þá hafði móðir Aðalsteins náð betri heilsu en hún hafði búið við um árabil. Hinsvegar hafi stefnandi kennt sér þess meins að hann var ekki lengur fær um að sinna umönnunarstarfinu.
Við upphaf skólagöngu Aðalsteins hafi stefnandi upplifað verulega erfiðleika í skólastarfinu og synjun þess á að veita Aðalsteini nauðsynlega skólaþjónustu. Seint á árinu 1994 þegar þessi átök hafi staðið sem hæst hafi stefnandi byrjað að þjást af svefntruflunum með þeim hætti að hann fékk krampa í kviðarhol, á hjartasvæði og upp í höfuð. Hafi stefnandi ekki notið svefns nema í 3 4 klst í senn vegna truflananna. Þetta sjúkdómsástand stefnanda hafi náð hámarki á miðju ári 1999. Árið 1998 hafi stefnandi verið metinn 75% öryrki á grundvelli læknisvottorðs Tómasar Zoega, yfirlæknis geðdeildar Landspítalans og eftir það notið lífeyrisgreiðslna í samræmi við það frá Tryggingastofnun ríkisins.
Af hálfu stefnda er málavöxtum lýst þannig að í bréfi ríkislögmanns hinn 16. september 1988, þar sem fallist var á skaðabótaskyldu ríkisins, hafi verið lagt til að bótauppgjöri yrði frestað þar til forsendur gæfust til að leggja raunhæft mat á örorku Aðalsteins Bjarna. Aðkoma stefnanda að málinu, óraunhæf kröfugerð hans og ósætti foreldra hafi hins vegar leitt til þess að mjög langan tíma hafi tekið að ná niðurstöðu um uppgjör bóta. Fyrst hinn 20. október 1996 hafi legið fyrir örorkumat sem aflað hafi verið að tilhlutan móður Aðalsteins, en fyrir þann tíma hafi íslenska ríkið ítrekað lýst þeim vilja sínum að ganga til bótauppgjörs. Með samkomulagi við móður Aðalsteins, Rut Skúladóttur, hinn 7. janúar 1997 hafi verið gengið frá uppgjöri bóta vegna tjóns hans og hafi það verið greitt strax í kjölfar þess, en samkvæmt yfirlýsingu móður hans fór hún ein með forsjá hans. Í bótauppgjöri komi fram að ekki hafi tekist samkomulag um kröfur móðurinnar, sem settar voru fram í kröfubréfi 22. nóvember 1996 og að úr þeim yrði leyst í dómsmáli sem hún hygðist höfða í því skyni. Hafi þetta byggst á því að af hálfu stefnda hafi verið talið nauðsynlegt að foreldrar Aðalsteins kæmu sér saman um hvoru þeirra bæri hugsanlegur réttur til bóta vegna umönnunar hans eða hvernig þau vildu skipta þeim bótum milli sín. Þegar séð hafi þótt að slíkt samkomulag næðist ekki hafi hinn 10. mars 1998 verið samið við móðurina um bætur fyrir misstar atvinnutekjur vegna umönnunar sonar hennar frá fæðingu til fullnaðs 18 ára aldurs.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að íslenska ríkið sé samkvæmt yfirlýsingu ríkislögmanns dags. 16. september 1988, vegna heilbrigðis- og fjármálaráðherra ábyrgt vegna rangrar meðferðar starfsmanna ríkisins á Aðalsteini Bjarna, syni hans, nýfæddum. Dómkröfur stefnanda séu tjón stefnanda vegna framangreindra mistaka, sem átt hafi sér stað á Landspítalanum.
Stefnandi gerir þannig grein fyrir kröfum sínum:
1.Umönnunarbótakrafan. Umönnunarstarf stefnanda hafi staðið í 97 mánuði. Stefnandi telur sig hafa átt verulega tekjumöguleika á þessu tímabili. Eins og málinu sé háttað leggi stefnandi hins vegar til grundvallar umönnunarbótakröfu sinni meðallaun háskólamenntaðra manna í ríkisþjónustu, en þau hafi verið sem hér segi á umræddu tímabili:
Árið 1987, sem verið hafi skattlaust ár, kr. 1.049.309, 1988, fyrir hálft árið, kr. 566.287, 1989 kr. 1.220.513, 1990 kr. 1.334.427, 1991 kr. 1.456.702, 1992 kr. 1.531.497, 1993 kr. 1.490.634, 1994 kr. 1.484.316 og árið 1995, í sjö mánuði, kr. 986.685, eða samtals kr. 11.120.370.
Þann 25. júní 1998 hafi Jón E. Þorláksson tryggingafræðingur reiknað út höfuðstólsverðmæti umönnunarbótakröfunnar og nemi það kr. 7.838.000.
Sem starfsmaður Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar hafi stefnandi fengið greiddar samtals kr. 2.838.018 vegna umönnunar Aðalsteins frá 20.12.1988 til 20.02.1993. Umönnunarbótakrafa stefnanda sé höfuðstólsverðmæti kröfunnar að frádregnum launum stefnanda frá Reykjavíkurborg og nemi krafan því kr. 4.999.982.
2.Krafan vegna sérstaks heimilishalds. Við fæðingu Aðalsteins hafi foreldrar hans og bróðir búið í húsinu Bergstaðastræti 19, sem er tvílyft hús, 67 fermetrar að grunnfleti byggt um 1890. Íbúðarhæð er á efri hæð hússins og skiptist hún í tvö lítil svefnherbergi, stofu, eldhús, bað og þrönga forstofu. Ekki var innangengt milli hæða hússins. Húsnæðið hafi reynst óhentugt til að veita Aðalsteini þá umönnun og stuðning sem hann þurfti á að halda. Hafi foreldrar hans talið nauðsynlegt að komast með hann í annað húsnæði, sem hentaði betur fyrir þjálfun og þroskaframvindu hans, svo og til að létta álag í sambandi við umönnun hans.
Stefnandi hafi síðan annast Aðalstein frá desember 1989 á Fiskislóð 94 í Reykjavík, síðan í Hafnarbergi 8 í Þorlákshöfn og að lokum á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd þar sem umönnun stefnanda lauk í júlí 1995.
Samkvæmt samningum og reikningum sem stefnandi muni leggja fram í málinu var húsnæðiskostnaður á Fiskislóð 94 kr. 811.377, á Hafnarbergi 8 kr. 311.198 og á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd kr. 1.847.674.
Krafan sé vegna húsaleigu- og orkukostnaðar á framangreindum stöðum á fimm ára og sjö mánaða tímabili og nemi kröfufjárhæðin vegna hins sérstaka heimilshalds því samtals kr. 2.970.249.
3.Krafan um bætur fyrir tímabundna og varanlega örorku. Eins og ljóst sé af atvikalýsingu í málinu hafi stefnandi ekki notið varanlegra og eðlilegra atvinnutekna um langt árabil. Tekjuviðmiðun sú sem skaðabótalögin nr. 50/1993 geri almennt ráð fyrir sé því ekki fyrir hendi að því er stefnanda varðar.
Á grundvelli rýmkandi lögskýringar á 2. mgr. 7. gr. l. nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laganna, sem taki til bóta vegna varanlegrar örorku, geri stefnandi þá kröfu í málinu, að grundvöllur bótaútreiknings vegna tímabundinnar örorku stefnanda verði aðallega meðallaun háskólamenntaðra starfsmanna í þjónustu ríkisins eins og þau voru á tímabilinu 01.08.1995 til 30.06.1999, eða kr. 1.200.000 fyrir 1995, kr. 2.500.000 fyrir 1996, kr. 2.700.000 fyrir 1997, kr. 2.900.000 fyrir 1998 og kr. 1.500.000 fyrir 1999.
Verði aðalkröfu stefnanda synjað krefst stefnandi til vara, að honum verði dæmdar tímabundnar örorkubætur á grundvelli verðmætis mannlegs lífs. Forsenda varabótakröfunnar sé altjón, ónýti lífs, skv. norskum rannsóknum þar sem fjárhagsleg niðurstaða altjónsins er reist á bótaniðurstöðum greiðsluviljafræða varðandi tjón einstaklinga vegna dauða.
Altjón það, sem stefnandi leggi til grundvallar varakröfugerðinni hafi verið reiknað af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands 1995 og birt í júní 1996 í skýrslu stofnunarinnar nr. C 96:03. Kostnaður vegna umferðarslysa á Íslandi. Hafi Hagfræðistofnun þá reiknast til, að altjón við ónýti lífs næmi kr. 104.090.000. Miðað við 5.7% hækkun á lánskjaravísitölu frá 1995 til 1998 hafi altjón mannlegs lífs árið 1998 reiknast vera kr. 110.023.120. Bótagrunnurinn sem stefnandi byggi á að því er varakröfuna varði sé þannig altjón mannlegs lífs deilt með fjölda ára skv. dánartöflum um meðallífslíkur íslenskra karla, útg. 1992 af Félagi Íslenskra Tryggingafræðinga, en í tilviki stefnanda séu það 75 ár.
Stefnandi hafi frá 01.12.1994 búið við skerta starfsgetu og hafi frá 1998 verið metinn til 75% örorku og notið lífeyrisgreiðslna í samræmi við það frá Tryggingastofnun ríkisins. Krafa stefnanda um tímabundnar örorkubætur sé, með hliðsjón af kröfu hans um umönnunarbætur, hinsvegar miðuð við 01.08.1995.
Stefnandi leggi 75% örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins til grundvallar í útreikningi á kröfu sinni á altjónsbótaforsendu mannlegs lífs frá 01.08.1995 til 30.06.1999. 75% af fullum altjónsbótum, en þær séu samkvæmt ofanrituðu 122.247 krónur á mánuði, geri 91.685.25 krónur í bætur á mánuði. Frá 01.08.1995 til 30.06.1999, þ.e. í 47 mánuði reiknist því kr. 4.309.206,75 og að frádregnum greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins til stefnanda á umræddu tímabili kr. 762.252,00, nemi varakrafa stefnanda vegna tímabundinnar örorku kr. 3.546.954,75.
Þá krefst stefnandi 4.704.000 króna fyrir varanlegan miska, sbr. lánskj.vísit. 01.07.1993, 3282, og lánskj.vísit. 01.02.2000, 3860, en það er 100% miski skv. 4. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi áskilur sér rétt til að leggja fram örorkumat viðurkennds matslæknis og mun þá bótakrafan verða samræmd niðurstöðum matsgerðarinnar.
4.Bótakrafan vegna missis efnahagsmannorðs. Á fyrstu veikindaárum Aðalsteins hafi stefnandi leitað til ríkisins um hlutagreiðslu skaðabóta þannig að stefnandi kæmist hjá verstu efnahagsáföllum vegna röskunar á stöðu og högum í framhaldi af sýkingu Aðalsteins á Landspítalanum. Fyrir hönd hins stefnda ríkis hafi ríkislögmaður alfarið neitað að verða við beiðni stefnanda um hlutagreiðslu bóta.
Stefnandi telur sig ekki búa lengur við það efnahagsmannorð sem hann hafi notið áður, en hann telur að rekja megi missi þeirra lífsgæða sem felast í góðu efnahagsmannorði til þeirra vandamála sem komu upp vegna veikinda Aðalsteins, þegar bæði stefnandi og móðir Aðalsteins áttu þess ekki kost um margra ára skeið að fylgja atvinnurekstri sínum eftir vegna veikinda hans. Fyrir þennan tíma hafði stefnandi ekki fengið á sig skuldadóma eða mátt þola uppboðsmeðferð á eignum sínum.
Með uppboðssölu á eignum stefnanda í Hólmgarði 34, Bergstaðastræti 19 og Grettisgötu 60 í Reykjavík og Vatnsendalandi 86 í Kópavogi svo og með skuldadómum og árangurslausri aðfarargerð í framhaldi af veikindum Aðalsteins telur stefnandi sig hafa orðið fyrir mannorðsmiska vegna tapaðs viðskiptatrausts og að íslenska ríkinu sé skylt, eins og atvikum málsins sé háttað, að bæta stefnanda að nokkru þetta tjón, enda hefði hið stefnda ríki getað komið í veg fyrir þennan miska stefnanda með hlutagreiðslu bóta, eins og viðtekin venja sé í bótauppgjörum á tryggingasviði.
5.Útlagður kostnaður. Krafan varðar greiðslu eftirtalinna reikninga vegna bótaútreikninga, þroska- og læknisrannsókna á Aðalsteini á umönnunartíma sóknaraðila: 5.2.1991. Læknisvottorð Guðmundar Bjarnasonar kr. 2.500., 24.12.1991. Skoðun Kristins Björnssonar sálfræðings á Aðalsteini kr. 9.000, 6.1.1992. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. Rannsókn á hreyfifærni Aðalsteins Bjarna kr. 27.135, 30.3.1992. Útreikningur guðjóns Hansen á örorkutjóni Aðalsteins Bjarna kr. 14.691, 3.8.1995. Myndvinnsla vegna dómskjala. kr. 2.534, 21.8.1995. Athugun Kristins Björnssonar á Aðalsteini Bjarna kr. 8.000. Samtals útlagður kostnaður kr. 89.856.
Stefnandi styður bótakröfur sínar við eftirtaldar heimildir: Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 3371944. Evrópusamning um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Róm 4.11.1950. Evrópusamningsviðauka nr. 1. París 20.3.1952. Evrópusamningsviðauka nr. 7. Strassborg 22.2.1984. Almenn hegningarlög nr. 19/1940, 264. gr., sem voru í gildi þegar mistök starfsmanna ríkisins áttu sér stað, sbr. nú 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skaðabótalög nr. 50/1993, 6. gr. og 7. gr., 2. mgr. Bréf ríkislögmanns frá 16.9.1988 um viðurkenningu á bótaskyldu ríkisins vegna veikinda Aðalsteins. Dómvenju þess efnis, að dómstólar telja sér heimilt, án sérstakrar lagaheimildar, að dæma ríkið til greiðslu bóta, ef nægileg efnisrök liggja til ábyrgðar þess.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er á því byggt að sömu annmarkar séu á málatilbúnaði stefnanda í máli þessu og máli nr E-3326/1998 sem vísað hafi verið frá dómi með úrskurði Héraðsdóms hinn 2. júlí 1999. Í því máli hafi stefnandi haft uppi sambærilegar kröfur og í máli þessu, en í forsendum úrskurðarins hafi frávísun m.a. verið byggð á því að í málinu hafði stefnandi lagt fram fjölmörg skjöl sem ekki varð séð að skiptu máli fyrir rekstur og úrlausn þess máls. Þá hafi á þótt skorta að í málatilbúnaði stefnanda væri gerð fullnægjandi grein fyrir því að hvaða leyti kröfur hans væru byggðar á því sem fram kæmi í framlögðum gögnum málsins. Þá hefði stefnandi á hinn bóginn ekki gætt þess nægilega að styðja kröfur sínar í málinu viðeigandi gögnum og rökum. Þannig hafi stefnanda láðst að gera grein fyrir því á hverjum læknisfræðilegum gögnum og lagarökum krafa hans um bætur vegna heilsubrests hans sjálfs væri studd. Hafi það leitt til þess að málatilbúnaður stefnanda var bæði óskýr og ómarkviss. Af því hafi einnig leitt að erfitt væri og jafnvel útilokað að greina samhengi milli málsatvika og gagna. Kröfur vegna útlagðs kostnaðar og missis efnahagsmannorðs væru vanreifaðar en óljóst væri á hvaða lagagrundvelli þær væru byggðar. Hvorki væru sýndir nægjanlegir útreikningar sem stefnandi byggði umönnunarbótakröfu á né útreikningar á kostnaði vegna heimilishalds. Væri málatilbúnaður hans að þessu leyti óglöggur. Framsetning á kröfugerð stefnanda varðandi bætur vegna heilsubrests hafi ekki þótt vera í nægjanlegu samræmi við d. lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Þá lægi fyrir í málsskjölum að stefnandi hefði með bréfum 25. ágúst 1989 og 25. ágúst 1995 krafist bóta úr hendi ríkisins fyrir sjálfan sig og drenginn en í málinu væri það komið fram að bæði syni hans og móður barnsins hafi þegar verið greiddar bætur vegna tjóns þeirra með samkomulagi. Hafi stefnandi á engan hátt gert grein fyrir framvindu málsins eða málavöxtum í tilefni af eða í kjölfar þessara kröfubréfa sinna en af efni þeirra mætti ráða að þar væru að einhverju leyti um sömu kröfur að ræða og greiddar voru með samkomulagi við móður drengsins. væri þetta ekki í samræmi við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála þar sem krafist er að stefnandi skuli greina í stefnu málsástæður og önnur atvik sem greina þurfi til þess að samhengi málsástæðna verði ljos. Auk þess hafi tilgreining stefnanda á málsástæðum ekki uppfylt ákvæði um glöggleika sem krafist væri samkvæmt því lagaákvæði.
Þá er af hálfu stefnda byggt á því að stefnandi blandi í kröfugerð sinni óskyldum atriðum saman við uppgjör á tjóni vegna þess atviks sem sé bótaskylt. Þannig hafi Aðalsteinn Bjarni allt frá fæðingu haft skráða búsetu hjá móður sinni Rut Skúladóttur og í málinu liggi fyrir yfirlýsing hennar frá 6. janúar 1997 þar sem fram komi að hún og stefnandi hafi hvorki verið í hjúskap eða sambúð, þau hafi ekki orðið sammála um að forsjáin yfir Aðalsteini yrði sameiginleg og fari hún ein með forsjá hans. Þá geri stefnandi kröfu um umönnunarbætur sér til handa án þess að upplýst sé um dvalarstað drengsins á hverjum tíma og hjá hvoru foreldra sinna hann dvaldi á hverjum tíma eða hvort hann á einhverju stigi hafi verið í umsjá beggja. Þá liggi engar upplýsingar fyrir um tekjur stefnanda áður en sonur hans fæddist og ekki heldur eftir að hann hætti að vera í hans umsjá. Engin vottorð hafi verið lögð fram um heilsufar stefnanda sjálfs til rökstuðnings kröfu vegna heilsubrests eða tengingu þess við hin bótaskyldu atvik máls. Í samræmi við framangreint er af hálfu stefnda talið að kröfur stefnanda séu vanreifaðar og að málatilbúnaður hans samrýmist ekki grundvallarreglum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um skýra og glögga kröfugerð.
Af hálfu stefnda er eftirfarandi tekið fram um einstaka kröfuliði:
1. Ummönnunarbótakrafa. Undir þessum kröfulið geri stefnandi kröfu að fjárhæð tæplega 5 milljónir króna vegna umönnunar Aðalsteins Bjarna frá 12. janúar 1987 til 24. júlí 1995, eða í u.þ.b. 97 mánuði. Móðirin hafi hins vegar haldið því fram að hún hafi tekið þátt í því starfi eftir því sem heilsa hafi leyft og að Aðalsteinn hafi jafnan verið á heimili hennar, sbr. og vottorð Hagstofu. Stefnandi segi kröfufjárhæðina taka mið af meðallaunum háskólamenntaðra starfsmanna á þessu tímabili samkvæmt útreikningi tryggingafræðings að frádregnum greiðslum frá Reykjavíkurborg. Af hálfu stefnda er þeirri viðmiðun mótmælt sem óraunhæfri og órökstuddri. Þá er bent á, að launagreiðslur frá Reykjavíkurborg vegna heimilisaðstoðar á umræddu tímabili hafi verið hærri en í stefnu greinir og móðirin hafi á sama tímabili fengið greiddar umönnunarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins auk bóta úr ríkissjóði.
2. Krafa um sérstakt heimilshald vegna Aðalsteins. Stefnandi geri undir þessum kröfulið kröfu um bætur að fjárhæð tæplega 3 milljónir króna vegna kostnaðar af húsaleigu og orku milli þriggja heimilisfanga. Engar sönnur séu færðar fyrir því, að sá kostnaður hafi verið eðlileg og óhjákvæmileg afleiðing af tjóni Aðalsteins með þeim hætti sem stefnandi fullyrðir. Af hálfu stefnda sé þessum kröfulið mótmælt sem órökstuddum og málinu óviðkomandi og að auki bendir stefndi á ósamræmi milli fullyrðinga stefnanda og búsetuvottorða Hagstofu íslands.
3. Undir þessum kröfulið geri stefnandi bótakröfu sér til handa upp á rúmlega 15 milljónir vegna tímabundinnar örorku frá 1.8.1995 1999 og varanlegs miska. Engin marktæk gögn eða útreikningar fylgi þessum kröfulið eða vottorð er sýni, að meint heilsutjón sé afleiðing af því tjóni, sem sonur hans varð fyrir. Lagagrundvöllur fyrir þessari kröfu sé ekki reifaður enda sé hann ekki til.
4. Bótakrafa vegna missis efnahagsmannorðs. Hér geri stefnandi kröfu um 10 milljóna króna miskabætur, án þess að haldbær gögn fylgi þessum kröfulið.
5. Krafa um greiðslu útlagðs kostnaðar. Af hálfu stefnanda hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn þess að stofna til þessara útgjalda né hvernig þau tengist bótaskyldum atvikum.
Um einstaka kröfuliði taki stefnandi fram að krafist sé vaxta og/eða dráttarvaxta. Þessum kröfum er öllum mótmælt af hálfu stefnda.
Niðurstaða
Samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má “málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til að samhengi málsástæðna verði ljóst.”
Í stefnu máls þessa gerir stefnandi enga grein fyrir fjölskylduaðstæðum eins og brýnt hefði verið í ljósi þess að stefnandi hefur samkvæmt framkomnum gögnum aldrei haft skráð sama lögheimili og Aðalsteinn Bjarni og samkvæmt yfirlýsingu Rutar Skúladóttur móður drengsins, frá 6. janúar 1997, hafa hún og stefnandi hvorki verið í hjúskap eða sambúð. Þá hefur hún samkvæmt sömu yfirlýsingu farið ein með forsjá drengsins, en drengurinn hefur allt frá fæðingu haft skráða búsetu hjá móður sinni. Þá hefði verið eðlilegt að stefnandi gerði grein fyrir því í stefnu, sem fram hefur komið í málinu, að auk þess sem að tjón drengsins hefur verið gert upp, hefur farið fram uppgjör á umönnunarbótum til móður hans.
Þrátt fyrir að umönnunarbótakrafa stefnanda sé krafa vegna vinnutekjutaps gerir stefnandi í stefnu enga grein fyrir atvinnu sinni áður en hann tók að sér umönnunarstarfið og/eða hvaða launatekjur hann hafði áður. Þá gerir stefnandi ekki grein fyrir því hvers vegna hann leggur meðallaun háskólamenntaðra manna til grundvallar umönnunarbótakröfu sinni né á hverjum útreikningum hann byggir staðhæfingar sínar um meðallaun háskólamenntaðra manna. Skortir því á að stefnandi, sem fékk greidd laun sem starfsmaður Félagsmálastofnunar Reykjavíkur vegna umönnunar Aðalsteins Bjarna, hafi gert nægjanlega grein fyrir meintu tekjutapi sínu.
Í stefnu er ekki rökstutt að umkrafinn kostnaður vegna sérstaks heimilshalds, sem er vegna húsaleigu- og orkukostnaðar, verið umfram það sem ella hefði verið og óhjákvæmileg afleiðing af tjóni Aðalsteins Bjarna. Þá er á það að líta að Aðalsteinn Bjarni hefur einungis átt skráð lögheimili á einu hinna þriggja heimila sem krafan um kostnað vegna sérstaks heimilshalds lýtur að.
Í stefnu er sjúkdómsástandi stefnanda lýst án þess að vísað sé til læknisfræðilegra gagna. Hins vegar er meðal gagna málsins læknisvottorð er lýsir veikindum stefnanda frá október 1994 til ágúst mánaðar 1995. Þá liggur ekkert fyrir í málinum um örorku stefnanda annað en staðfesting Tryggingastofnunar ríksisins á að stefnandi hafi verið metinn 75% öryrki fyrir lífeyristrygginar stofnunarinnar frá 1. júlí 1998 og tilkynning um endumat. Stefnandi kveður örorkumatið byggt á læknisvottorði Tómasar Zöega yfirlæknis geðdeildar Landspítalans, en leggur vottorðið ekki fram í málinu. Skortir þannig á að læknisfræðileg gögn hafi verið lögð fram um örorku stefnanda og orsakir hennar. Áskilnaður stefnanda í stefnu um framlagningu örorkumats viðurkennds matslæknis fær ekki úr þeim annmarka bætt.
Þá verður að telja bótakröfu stefnanda vegna missis efnahagsmannorðs og um greiðslu útlagðs kostnaðar vanreifaðar en einnig er óljóst á hvaða lagagrundvelli þær eru byggðar.
Samkvæmt framanröktu þykir verulega skorta á að stefnandi geri nægjanlega grein fyrir þeim atvikum, sem hann telur hafa þeir afleiðingar í för með sér, að kröfur hans verði teknar til greina og atvikum að öðru leyti sem þörf er á að greina frá samhengis vegna. Ekki verður úr þessum annmörkum bætt undir rekstri málsins. Brýtur málatilbúnaður stefnanda gegn e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þá skortir á að stefnandi geri í stefnu grein fyrir því hverja hann hyggist leiða fyrir dóm til skýrslugjafar um atvik máls, sbr. h. liður 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.
Þá er á það að líta að stefnandi hefur lagt fram fjöldann allan af skjölum, sem ekki verður séð að málatilbúnað hans varði eða kröfur hans séu byggðar á. Brýtur það í bága við meginreglu 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð einkamála.
Þegar allt framanrakið er virt verður að telja málatilbúnað stefnanda svo ófullnægjandi að ekki verði hjá því komist að verða við frávísunarkröfu stefnda og vísa málinu frá dómi í heild sinni.
Ekki var gerð krafa um málskostnað af hálfu stefnda. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.